Drømmehagen!

Featured Post Image - Drømmehagen!

Jæja, þá er kallinn minn búinn að vera heima lasinn í eina viku, hann fékk sem sagt lungnabólgu og var sagt að vera heima í 2 vikur. Hann er orðinn miklu betri og hjúkkuhæfileikar mínir eru ekki lengur til umræðu á þessu heimili, ég gerði þá vitleysu að vera ekki með símann á mér fyrstu 3 dagana því ég dekraði hann svo mikið að ég hef ekki tölu á öllum ferðunum mínum upp og niður stigann. Ég hef alltaf sagt að ég vilji helst búa í húsi á tveimur hæðum því stiginn er besti vinur minn, ég veit ekki hvernig ég væri hefði ég ekki stigann til að halda mér þó alla vega þar sem ég er. Ég er nefnilega með hundlélegt bak núorðið og alltaf ill í hælnum öðrum megin. Er reyndar að fara í sneiðmyndatöku í lok ágúst svo þá fáum við að sjá hvort þetta er eitthvað annað en bara áralangt hreyfingarleysi.

Já mér tókst sem sagt í fyrstu málsgreininni að láta þetta snúast um mig sem átti að snúast um Þráin og hans veikindi, en hann er bara þannig að hann kann ekki að vera veikur og ég er kannski bara orðin vön því að hann geri ekkert úr sínum veikindum (ég er held ég ekkert mikið að kvarta, eða ég vona ekki).

En í gær datt okkur í hug að fara í Drømmehagen sem er garðyrkju- og blómabúð hérna uppí sveit og Oh my God hvað þetta er flottur staður með mikið af flottum blómum bæði úti og inni. Verst hvað þetta er langt að fara, alveg klukkutími aðra leiðina en þangað munum við fara snemmsumars á næsta ári og kaupa eitthvað af blómum. En núna vorum við í Gullregns leiðangri því okkur langar svo í gullregn í garðinn okkar, vitum alveg hvar við ætlum að setja það en þetta tré fæst ekki alls staðar svo það þarf að leita. Þau í Drømmehagen áttu eitt gullregn sem var kannski heldur dýrt fyrir okkar smekk eða 2000 nok og svo var það allt of stórt í bílinn okkar og leit samt ekki nógu vel út þannig að við setjum það á hold fram á næsta ár en keyptum bara 3 inniblóm til að skreyta í nýja gluggann okkar. Fer í það verkefni á eftir, þe. að skreyta gluggann með blómum.

Hér er linkur á þessa flottu búð.

En svo á leiðinni heim þá sjáum við vegskilti segja að þessi leið liggi til Bjellands, en leiðin hin sem við komum fór í gegnum Konsmo, svo við ákveðum að prófa hina leiðina. Þetta var malarvegur en alveg ágætur og lá yfir einhverja heiði og svo opnaðist bara allt og þvílíkt útsýni sem við sáum og auðvitað stoppuðum við þó ég væri bara með símann en ekki myndavél.

Og sem betur fer er þarna hús aðeins neðar með þetta útsýni út um stofugluggana hjá sér. Svona á fólk að byggja ef það byggir uppá heiði, þar sem ekki þarf að hengja upp málverk því náttúran er eitt risastórt málverk alla daga. En við vorum ekki búin að keyra lengi eftir þetta stopp þegar allt í einu birtist lítill fallegur foss til hliðar við veginn en því miður sýna myndirnar ekki alveg nógu vel hvað þetta var fallegt því það er alltaf svo mikill gróður alls staðar í Noregi.

Alltaf gaman að taka krók á sig og sjá eitthvað óvænt og fallegt á leiðinni. Vildi óska að okkur þætti skemmtilegra að keyra bíl því okkur þykir gaman í bíltúr en myndum bara helst bæði vilja sitja og horfa en ekki keyra.

Sunnudagur í dag og sólin skín eins og hún er búin að gera meira og minna síðan um miðjan júlí nema þegar það hefur rignt. Nei það átti að rigna í gær en svo var það bara tvisvar yfir daginn og minna en klukkutíma í einu annars bara sól svo við kvörtum alls ekki. En það á að rigna eitthvað næstum alla næstu viku fyrir utan daginn í dag og á morgun en það er bara allt í lagi eftir svona mikinn hita og mikla sól. Haustið er líka aðeins að láta kræla á sér því hitinn verður undir 20 gráðum seinni part vikunnar.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.