Óvissunni lokið


Ég var víst búina ð lofa því að segja frá Óvissuferðinni okkar í Maritech.

Við mættum náttúrulega stundvíslega öll nema tveir uppí Hliðasmára og komum okkur fyrir í rútunni og höfðum það eins huggulegt og mögulegt var miðað við alla óvissuna sem beið hópsins.  Það var verið að giska á ýmislegt og eins í vikunni á undan, þá komu fram ýmsar hugmyndir.  Ég td. hélt helst að við værum að fara í river rafting eins og amma hans Þráins og Gaui maðurinn hennar fóru á áttræðisafmælinu hans og skemmtu sér verl.  Hafrún var búin að giska á adrenalínagarðinn en ég sagði að það dytti nú engum í hug nema henni og það yrði nú ekki fyrr en hún færi aftur í stjórn.  En sem sagt loksins allir komnir og öllum gefinn briser eða bjór til að starta deginum og rútan af stað.

Það var keyrður suðurlandsvegurinn og þá byrjuðu aftur ágiskanirnar og svo voila, rútan beygir inn á nesjavallaveginn.  Hafrún trylltist:  “Adrenalíngarðurinn, Adrenalíngarðurinn, jibbý jey”  en samt var ég nú ekki alveg viss enda stoppaði rútan allt í einu “in the middle of nowhere” og öllum hleypt út og muniði hvað það var mikil rigning á laugardaginn síðasta, þarna uppfrá var úrhelli.  En allir áttu nú að vera vel gallaðir og út skyldum við og í gallana okkar.  Á móti okkur tók hjálparsveitarmaður sem útskýrði að okkur yrði skipt upp í 6 hópa og látin gera ýmsar þrautir þarna í næstu tveimur dölum og nú skipti máli samheldnin oþh.

Já já ég lenti nú í hóp með frábæru fólki, Hafrúnu, Benna, Jóni Kristjáns framkvæmdarstjóra, Margréti Erlu og Siggu Hermanns.

Jæja, fyrsta þrautin var nú eiginlega að koma sér í gallan og redda þeim sem EKKI tóku pollabuxur með sér þrátt fyrir veðrið og ítekanir stjórnarinnar en síðan lögðum við í hann.  Hörkulið sem byrjaði á því að fá í hendurnar sjúkrabörur og áttum að koma fyrir sjúklingi (ein af okkur) og óla niður á börurnar og hlaupa svo með þær eftir afmarkaðri leið.  Okkur tókst þetta snilldarlega.
Næsta þraut var að kasta kaðli með svona kýrhala (ég held að stálklemman heiti það) í gegnum dekk, þegar við komum þangað var næsti hópur á undan okkur ekki nærri búinn, svo við urðum að standa þarna í rigningunni og verða meira og meira blaut.  Jæja loks kom að okkur og við vorum ekkert rosalega góð í þessu þrátt fyrir að vera með framkvæmdarstjórann í okkar liði sem er náttúrlega margfrægur landsliðsmaður í handbolta en við vorum samt stolt af okkur og drifum okkur á næsta stað.

Við áttum að labba yfir í næsta dal en mér fannst þessi ganga löng og hélt við værum að villast í þokunni en okkar skörunglegi framkvæmdarstjóri passaði nú vel upp á sitt fólk og leiddi okkur á réttan stað.
Þar fengum við í hendurnar bíbtæki sem eru notuð við snjóflóðaleit og nemur það hljóð frá öðrum svona tækjum.  Jæja allir fengu tæki nema einn og áttum við að leita að fólki (hann sagði fólki) á ákveðnum afmörkuðu svæði.  Ég rauk af stað, fékk snert af keppnisskapi og heyrði bíb bíb bíb og geng á merkið en er alltaf að reyna að sjá stað sem fólkið gæti verið falið á bak við og eyði dýrmætum tíma (því þetta var tímaþraut) í svoleiðis vitleysu því á endanum fann ég tæki falið undir steini.  Ég átti aldrei að finna fólk heldur bara pínulítið tæki og ég var nú hálffúl, loksins þegar ég var við það að fá keppnisskap og ætlaði að berjast fyrir mitt lið, þá þurfu þeir að nota orðalag sem ég náttúrlega gat ekki skilið (Naive me).  En alla vega þetta gekk samt þokkalega nema leiðin til baka upp fjallið, og trúið mér þetta var sko fjall á leiðinni til baka, þetta var samt bara lítil brekka þegar við byrjðuðum en þetta var FJALL á leiðinni til baka og ég hélt ég ætlaði bara ekki að meika þetta alla leið í rennandi blautum fötum og orðin blaut í gegnum gömlu skátabuxurnar hans Þráins.  Shit, ekkert smá óþægilegt að labba upp FJALL í blautum fötum og gallabuxurnar farnar að límast við mig sem þýddi að ég gat ekki lyft hnjánum almennilega upp.

En jæja það þýddi ekki annað en bíta á jaxlinn og halda áfram yfir í næsta dal og þar var bundið fyrir augun á öllum nema einum og okkur raðað við kaðal og áttum að labba eftir honum skv. leiðbeiningum frá þessum eina.  Benni bauðst til að leiðbeina og einhvernveginn álpaðist ég fremst enda MJÖG góð að ganga blind (or not).  Hafrún var næst fyrir aftan mig og greinilega ekki eins hrædd og ýtti alltaf á mig og ég að reyna að fara varlega og reyna að skilja Benna sérstaklega þegar hann sagði: “Passaðu þig djúpur pollur til hægri” Nú að sjálfsögðu steig ég beint ofaní hann á bólakaf með löppina svo nú fækkaði aldeilis stöðunum sem voru þurrir, þó var ég ennþá með einn þurrann fót og brjóstkassann.  Jæja áfram héldum við ekki hratt og enduðum á risa hraungrjóti sem átti að klifra yfir og ég ekki með vettlingana sem var margbúið að vinda.  Svo það endaði með að Benni hálfdró mig uppá steininn (og við fengum refsistig fyrir) og þannig kláraðist þetta.  Við vorum víst ekkert á slæmum tíma en….

Jæja þarna var mig nú farið að langa til að þetta færi að verða búið.  Orðin svo blaut og þung á mér vegna þess og þreytt.

En nei nei, ekki nærir búið, næst var mjög skemmtileg þraut, þá áttum við að ganga svæði sem ferðamaður hafði farið yfir og týnst en við vissum ekkert um þennan mann/konu og áttum að lesa út úr hlutum sem voru þarna á víð og dreif og reyna að finna út hvers konar manneskja þetta væri.  Nú reyndi meira á hausinn en aðra líkamsparta og ég var nú þurr þar enda með minn sjóhatt.  Við fengum í rauninni aldrei að vita hvort við hefðum verið með þetta rétt en þegar við fórum seinna að tala um þetta þá voru önnur lið með aðrar hugmyndir en mitt lið en á endanum hölluðust allir á okkar lausn enda VAR hún RÉTT.

Jæja, næst síðasta þrautin var krukka sem var inní hring sem var afmarkaður með kaðli og áttum við að nota það sem var í kringum okkur til að ná í krukkuna.  Ég hafði séð hjólkopp á leiðinni og spyr Hafrúnu hvort ég eigi ekki að sækja hann og hún játti því og ég fann stóran stein líka í leiðinni og kem rosa stolt með fenginn en… þá voru þau löngu búin að ná krukkunni og farin að leysa þrautina sem var að botna 3 fyrriparta með stuðlum og höfuðstöfum.  Ég spurði nú bara hvort það hefði verið trikkið að dobbla mig í burtu svo þau gætu gert þetta skammarlaust og þá var bara hlegið.  En ég held það nú samt.  Ég hefði nú viljað fá ða heyra allar vísurnar eftir á en það klikkaði.
Jæja svo var farið að rútunni og beðið eftir að allir hóparnir væru komnir og þá kom að síðustu þrautinni, hún var að við sex áttum að standa á heimatilbúnum skíðum og labba á þeim og þarna kom að samhæfingunni og taktinum sem var ekki góður hjá okkur, ég held við höfum algjörlega floppað á þessari þraut.

En jæja þá var þessu lokið, allir úr rennandi blautu fötunum og þeim hent í farangursgeymslu bílsins og öllum gefið að borða.  Ég var svo heppin að Hafrún var með teppi sem ég gat sett yfir mig því ég var orðin svo blaut í gegn í buxunum.

Jæja svo fór rútan af stað og þá byrjuðu ágiskanirnar hvað ætti að gera meira.  Ekki voru allir sammála í hvora áttina rútan hefði farið því þokan var svo mikil að það sást ekki en svo beygði hún inn á Nesjavelli og Hafrún hreinlega trylltist (eða þannig) hún var alla vega mest ánægð.  ADRENDALÍNGARÐUINN var næstur.

Oj og allir að fara aftur í rennandi blautu fötin sín en ég var með aðra úlpu sem ég fór í innanundir til að þola þetta og svo löbbuðum við að Adrenalíngarðinum.  Þar tóku hjálparsveitarmenn á móti okkur og fóru að fara yfir allar öryggiskröfur og reglur oþh. og ég stóð mig að því að hugsa já já bla bla áfram með smjörið en á sama tíma treysti ég hjálparsveitamönnum svo vel því þeir passa alltaf uppá öryggið.

Það var orðið svo brjálað veður að við gátum bara farið í þrjár þrautir eða þrjú tæki þarna.  Og þau voru:
Að klifra upp svona klifurvegg og það voru alltaf samfélagar sem treystu mann með því að halda í bönd sem yrði strekkt á ef maður dytti.
Minn hópur byrjaði á að fara í stæðslu rólu á Íslandi, og þá er krækt í öryggisbeltið sem maður er klæddur í og liðið manns hljóp með kaðal sem hýfði mann upp í 20 metra hæð eða svo og þá kippir maður sjálfur í spotta og Víííí fer á fullri ferð og maginn varð eftir uppi og svo rólar maður þarna þar til maður kemur niður, þetta var sko skemmtilegt.
Þriðja þrautin var að klifra upp staur sem var svona 10 metra hár og reyna svo að standa uppi á honum (en alltaf öruggur í böndum sem aðrir halda í og passa) það voru margir sem fóru uppá staurinn en ég treysti mér ekki í blautum fötum og stirð í gallabuxunum og hreinlega bara orðin þreytt, svo ég hætti þarna og fór uppí rútu og úr utanyfirfötunum (þarna var ég búin að hlera að við þyrftum ekki að fara í þau aftur) og fékk mér Briser.
Svo fór liðið að týnast inn í rútu og þá var okkur tilkynnt að við myndum borða þarna í Nesbúð sem var svo bara alveg ljómandi fínt, svo keyrði rútan lengri leiðina heim til að hægt væri að fara í karaoki og svo endaði þetta heima hjá Hrannari sem lét henda öllu blautu fötunum og því sem við áttum inní bílskúr og bauð í partý og þar var sungið og dansað fram eftir nóttu.
Sem sagt frábær óvissuferð þrátt fyrir veðrið.  Ég set inn nokkrar myndir af blauta fólkinu.

ps. Edda var að panta ferðasöguna en hún gerir það kannski ekki aftur þegar hún sér að ég get ekki gert langa sögu stutta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.