5 ár síðan


Ég trúi því hreinlega ekki að það séu 5 ár síðan við Þráinn fórum uppá spítala til að fá hana Ástrós Mirru með okkur heim.  Ég segi þetta svona því það var fyrirfram ákveðið að við færum í keisara þar sem litla stúlkan (við vorum alltaf viss um að þetta væri stelpa) var sitjandi montrass.
Það var búið að reyna að snúa henni en hverjum hefur tekist að snúa “Sporðdreka”  ekki mér og það tókst heldur ekki í þetta sinn, þannig að við áttum tíma í keisara kl. 7 að morgni 14. nóvember 2000.

En sem sagt í dag á að halda uppá 5 ára afmælið og ég er búin að vera að undirbúa það síðustu vikur og alla vega vera mjög upptekin alla þessa viku.  Ég geri voða mikið úr öllu svona og ræð ekki við neitt nema vinna og undirbúa afmæli.  Svo er ég kannski ekki að gera neitt.

Ég til dæmis bað ömmu að baka möffins og mömmu að baka pönnukökur og svo bað ég Sigrúnu frænku að koma kl. 13 til að hjálpa mér á síðustu stundu því Þráinn er í Vestmannaeyjum og hvað svo……
sit hér núna kl. 09.52 á laugardagsmorgni, búin að dekka borðið, gerði það í gær og búin að öllu nema smyrja flatkökur, setja á eina rjómatertu og taka sparistellið fram fyrir fullorna fólkið.  Sem sagt allt tilbúið og hef ekkert að gera meðan ég drekk kaffið mitt og afmælisstúlkan er í dekurbaði (kerti og freyðibað) þannig að ég ákvað að setja nokkur orð hér niður.

Fyrir 5 árum á þessum sama tíma var ég farin að engjast sundur og saman af tilhlökkun að fá að hitta stúlkuna mína.  Og ég get sagt ykkur það að ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með eitt einasta atriði í þessari stúlku enda var vandað til hennar og komu margir að því, gæti sem sagt ekki klikkað í svona frábærri samvinnu.

Hún er falleg, skemmtileg, gáfuð, kát og með frábæra rökhugsun.  En það sem kemur oftast upp í hugann er hvað hún er skemmtileg.  Til dæmis þá vorum við um daginn að setja inn nokkur gömul vídeó af henni í tölvuna og þar á meðal eitt þar sem hún situr úti í glugga og er að tala við pabba sinn sem var í lyftu utan á húsinu og röddin var svo krúttaraleg og það sem hún sagði og við foreldrarnir hlógum og hljógum að þessu og hún fattaði algjörlega djókið og er oft að slá þessum brandara um sig.  Þe. hermir eftir sjálfri sér 2 ára að tala.

Svo var ég í gær að rifja þetta upp og þá leiðrétti mín mig því ég fór ekki rétt með orðin og ekki tóninn heldur.

Svo þegar við vöknum á morgnanna þá er stundum erfitt að vekja prinsessuna en um leið og hún vaknar þá er hún byrjuð að fíflast og hlæja og svo var það einn morguninn að mér fannst hún með óþarfa fíflagang og við á síðustu stundu og hún átti bara að vera að drífa og það allt.  Svo komum við í leikskólann og hún er enn í sama stuðinu og þá segir Jóhanna fóstra að það sé svo gaman að fá hana því hún sé alltaf svo glöð og kát og þá stakk það mig… og ég var að reyna að drepa gleðina niður af því að ÉG var orðin eitthvað svo sein, skamm Kristín Jóna.  En ég reyni að muna þetta núna og þakka fyrir allt það góða skap sem einkennir þetta heimili okkar.  Því eitthvað hljótum við foreldrarnir að eiga í þessu líka.

En jæja prinsessan kallar frá baðinu svo það er best að þvo henni um hárið og gera fína.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.