Allt í góðu

… í bili allavega.  Ég náði í félagsráðgjafann okkar í dag og hún hló bara þegar ég spurði hana hvort við fengjum nokkuð neitun frá henni fyrst við gleymdum tímanum í síðustu viku og svaraði nei, elskan mín við finnum bara annan tíma fyrir ykkur og hann er á morgun kl. 15.  Allir að muna það með okkur því kannski verður okkur ekki fyrirgefið að gleyma tvisvar.   En hvernig gætum við gleymt þessu tvisvar?

Ég er farin að dreyma svolítið litla svarthærða, skáeygða stelpu.  Sé hana stundum fyrir mér í svefni og vöku.  Ég á stundum svolítið erfitt með að segja ekki Ástrós Mirru frá þessu strax.  En ætla samt að reyna að hemja mig.

Ég fór að heimsækja afa í dag og einhver hefur greinilega verið að tala um væntanlega ættleiðingu við hann og hann spurði mig hvort það væri satt að við ætluðum að gera þetta og ég svaraði því játandi og þá sagði hann mér að það væri ein kínversk kona að vinna á elliheimilinu og hún væri mjög indæl og ætti íslenskan mann og unga dóttur.  Indælis kona endurtók hann.  Ég túlkaði það sem að hann legði blessun sína yfir þessa framkvæmd okkar.  Samt var eitt sem afi spurði um og það var hvenær þetta yrði og ég sagði honum að það yrði líklega ekki fyrr en eftir 1,5 ár og þá spurði hann hvort ég yrði ekki of gömul þá!  Ég vona ekki.  Vona að við sleppum fyrir 45 ára afmælið.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.