21.01.2016
já það hefur stundum verið sagt að ég sé drífandi og ég held það sé alveg rétt, alla vega erum við næstum búin að koma okkur fyrir eftir flutningana en þeir áttu sér stað á laugardaginn sl. og í dag er fimmtudagsmorgun. Eina sem á eftir að gera uppi í herbergjum er að koma fötunum okkar fyrir í kommóðum en þar sem mér leiðast þvottar þá greinilega á það sama við bara fötin mín almennt og þetta truflar mig ekki neitt. Reyndar er tengdamamma búin að raða öllum handklæðum og rúmfötum og dúkum í skápinn í gestaherberginu en það er eini skápurinn í húsinu og því keyptum við okkur þessar stórkostlegu Ikea fataslár á hjólum sem eru frístandandi og geta þar af leiðandi verið hvar sem er, algjör snilld og ekki kemur þá skápalykt af fötunum okkar. Svo keyptum við okkur tvær kommóður til að setja fötin okkar í og kannski það gerist í dag, ég ætla samt ekki að lofa því.
En Ástrósar herbergi er næstum klárt, vantar aðeins aðstoð frá pabba til að festa upp ljósaseríu og hillu.
Svefnherbergið er alveg tilbúið fyrir utan að festa eina mynd og einn engil en ég redda því í dag.
Sko engillinn liggur þarna á gólfinu og gerir ennþá.
Svo er það stofan og borðstofan, en ég málaði borðstofuna í gær og fyrradag þar sem ég verð með myndatöku þar í dag og á laugardaginn svo það var eins gott að gera hana klára strax, þess vegna er ég kannski ekki búin að ganga frá öllu í forstofunni og holinu en það kemur sjálfsagt um helgina, vonandi lítur húsið út eins og húsið mitt strax á sunnudaginn og þá er ekkert drasl þar sem þar á ekki heima, því hjá mér á hver hlutur sinn stað. Bara verst að það muna það ekki allir í fjölskyldunni ha ha ha.
Mér finnst þetta horn svo ótrúlega kózý og flott og er svo ánægð með loppumarkaðshúsgögnin okkar.
Hér sjáið þið stofuna og inn í borðstofu sem var brúnmáluð þegar við fluttum inn en er orðin hvít núna 🙂
Allt gamla dótið okkar nýtur sín svo vel hérna og veiðistangirnar hans Magnúsar afa Þráins sóma sér vel við klukkuna frá Björgvin afa Þráins og málverkin frá Óskari og Konný setja svo punktinn yfir iið.
Útsýnið út um stofugluggann verður að fylgja með því það er svo flott.
Hérna stend ég í eldhúsinu og tek mynd inní borðstofu og sést í stofuna líka
Og hérna sjáið þið svo fallegu borðstofuna mína, og málverkið sem Konný gaf Þráni í 50 ára afmælisgjöf kemur svo ótrúlega flott úr þarna.
Hérna stend ég aftur í eldhúsinu og tek mynd á gluggann í borðstofunni, ég á eftir að mála glugga og svalahurð í borðstofunni, lét veggina duga til að geta tekið myndir þar sem fyrst.
og svo stend ég hér við endann á stofunni og tek inní borðstofu og eldhús og þarna aftast á bak við eldhúsið sit ég núna því þar er kontórinn hjá Mirra Photography, hefði átt að vera borðkrókur en mér finnst nú hálf asnalegt að vera með borðkrók öðrum megin við eldhúsið og borðstofu hinum megin, við borðum bara í borðstofunni og þar með verður hún notuð en ekki bara uppá punt. Amma gamla komin á sinn stað í eldhúsinu og gerir það sem fyrir hana er lagt. ha ha ha
Fleiri myndir fáið þið ekki að sinni en ég má nú til að segja ykkur aðeins frá flutningunum því þeir voru kaldir en sem betur fer var ekki eins kalt þá og er búið að vera núna í 3 daga en kuldinn í morgun var – 21 og bíllinn átti í erfiðleikum með að fara í gang, en fór í gang sem betur fer keyptum við nýjan rafgeymi í síðustu viku.
En já flutningarnir voru smá kaldir þar sem allt var opið út og fólk að bera dót inn og út allan daginn, en við fengum góða hjálp frá góðu fólki sem munaði aldeilis mikið um. Maddý var á Store Elvegate 131 og verkstýrði þeim megin og ég var á Nesan 7 og sá til þess að hlutirnir færu í rétt herbergi. Það er ekkert eins ömurlegt og að flytja og allt er sett á einn stað og svo á eftir að raða öllu niður seinna meir. En eins og ég sagði þá komu margir að hjálpa og erum við þeim mjög svo þakklát fyrir það. Hlökkum svo til að sjá allt það fólk í innflutningspartýinu sem við ætlum að halda aðra helgi. Það lítur út fyrir að við ætlum að fagna því að Maddý fer þá helgi en það er ekki svo, það hittist bara þannig á og ég er alls ekki tilbúin í partý þessa helgi aðeins of mikið eftir að gera þó næstum allt sé búið, kannski bara nóg að gera í því að slappa bara smá af inná milli. Annars eigum við alveg eftir að klára að flytja öll verkfærin hans Þráins og útilegudótið okkar og þrífa svo húsið á St.Elvegate en við fáum víst ekki að skila því fyrr en um miðjan mars. En svona er þetta bara.
En jæja nú ætla ég að fara að undirbúa myndatöku með tengdó og hlakka til að sýna ykkur afraksturinn af því á eftir eða morgun.
knús og kossar frá Nesan 7
ykkar Kristin Jóna