Að búa með ána í garðinum sínum (update)

Já hversu oft höfum við ekki sagt við fólk að við séum nánast með ána í garðinum okkar, en alltaf sögðum við nánast þar til í dag þegar áin er í garðinum okkar.
Kjallarinn við það að fyllast af vatni, bílskúrinn á floti og við búin að færa bíl og mótorhjól út úr honum.  Svefnherbergisglugginn lak í nótt vegna rigninga og roks.  Ástrós Mirra ætlaði til Barcelona frá Stavanger í gær en fluginu var aflýst vegna veðurs.

Yfir 40 vegir eru lokaðir hérna í Agder fylkjum, 20 manns verið nauðfluttir, 1 bjargað úr bíl sem flaut niður ána og ég sé ekki orð um þetta í íslenskum fréttamiðlum.

En hjá okkur versnar þetta og versnar og ég get ekki varist því að ég er orðin smeik en hvað getum við gert, ég á ekki einu sinni stígvél til að fara út í þetta en Guði sé lof fyrir veiðivöðlurnar hans Þráins, annars hefði hann ekki getað bjargað heita pottinum okkar frá því að sigla niður til Mandal.

Þennan fyrripart skrifaði ég í morgun en síðan hefur dagurinn farið í það að bera húsgögn af fyrstu hæð uppá efri hæð, bjarga öllu sem var úti, nýsmíðuð húsgögn, mótorhjól, bíll og ég veit ekki hvað og hvað.  Dekkin okkar voru á leið í kaupstaðarferð áðan og reiðhjólin líka en Þráinn gat stoppað þau af og bundið við bílskúrinn.

Ég get ómögulega sagt að ég hafi sama húmor og nokkrir vinir mínir á FB sem hafa verið að slá upp bröndurum, mér finnst ekkert fyndið við það að vera föst í húsinu mínu og komast ekki út og vita að áin er að stækka og við það að fara að flæða inn en jú við erum heil á húfi og verðum það, munum í mesta lagi hrufla okkur á kjúkunum við húsgagnaflutningana.  Það spáir meiri rigningu og yfirvöld telja að áin gæti hækkað um 50 cm í nótt og þá er löngu farið að flæða inn hjá okkur held ég alla vega.  Mér sýnist við eiga kannski 30 cm eftir.  Guði sé lof fyrir að garðurinn er á hæðum og húsið enn hærra þe. tröppur uppí hús.

Vinnufélagar Þráins sem komust í vinnu í morgun komast ekki heim, það er þannig með mikið af fólki.

Einn nágranni ætlaði á bílnum sínum í morgun en hann er nú undir yfirborði árinnar og fer ekki langt.  Hér fljóta framhjá húsinu okkar parket, heybaggar, garðhúsgögn, bekkir og timbur.  Þó það flæði ekki inn verður talsverð vinna að hreinsa garða, kjallara, götur ofl.

Já mótorhjólið hans Þráins er undir vatni í bílskúrnum þar sem það var bilað og hann kom því ekki út í morgun. Vonandi verður það samt í lagi þegar það þornar.  Hann náði að setja megnið af rafmagnsverkfærum uppá borð í bílskúrnum í morgun en sláttuvélin er fljótandi.

Annar nágranni fékk gesti og fór á kanó hérna uppí götu til að sækja þá.

En enn er ekki farið að flæða inn hjá okkur en búið að láta okkur vita að þegar það gerist þá megum við ekki vera lengur í húsinu og þurfum að yfirgefa það, við verðum bara sótt.  Hvernig veit ég ekki, því þyrlutúnið er löngu farið undir vatn.

Hérna fyrir neðan ætla ég að safna inn myndum og myndböndum sem ég er búin að taka mest svona fyrir okkur sjálf til minningar um náttúruhamfarirnar á Nesan.

Svona leit þetta út í gærkvöldi, þá fannst okkur þetta talsvert en þetta er ekki neitt á móts við það sem kom í dag.

Ég stakk uppá því að við tækjum útihúsgögnin og færðum þau uppá efri pall sem betur fer því þessi pallur var sokkinn í morgun þegar við vöknuðum.

Svona leit þetta svo út í morgun.  Þetta er fallegt en náttúruhamfarir eru þetta samt.  En hérna er efra túnið hjá okkur ekki komið undir vatn.

Svo fór að rigna aftur og hérna sér Þráinn fyrir tilviljun að heiti potturinn var á leiðinni í siglingu inní Mandal en hann náði honum og tók tappann úr honum og batt kaðal í hann til að halda honum á sínum stað og hann hefur verið til friðs síðan.

Svo kom sólin og ég fékk vöðlurnar hans Þráins lánaðar og fór út með stóru myndavélina.

 

Hérna rétt fyrir neðan er bíll en því miður sést hann ekki því er alveg undir vatni.

Og þarna eru nokkur hús sem hafa orðið fyrir miklu tjóni búið að flæða inní íbúðirnar.

Ég á eftir að bæta við myndum hérna en þangað til knús og klem til allra sem hafið sent okkur kveðjur og hjálparboð.

Ykkar Kristín Jóna (og auðvitað Þráinn sem ekki hefur stoppað í allan dag að bjarga verðmætum)

Ég tók nokkrar nýjar myndir og eitt vídeó svona áður en það fer að dimma.

Smá update frá okkur kl. 7.30 3. okt þá er vatnið mest allt að fara úr garðinum okkar og vonandi bílskúrnum líka og kjallaranum.

Þvílíkt sem við vorum heppin þarna þar sem ég held að það hafi munað ca. 30 cm að það myndi flæða inní íbúðina okkar.  Nú vonum við það rigni ekki meira í minsta kosti viku.

Svona lítur þetta út núna.  Nánast ekkert vatn á efri lóðinni en plómutréin standa í polli og enn mikið vatn úti á blakvelli.

En takið eftir hvað garðurinn lítur bara vel út, hann var fullur af parketi í gær en snillingarnir við eða sko það var bara Þráinn sem var úti í vöðlunum og ég skipaði fyrir, hann ýtti öllu drasli út á blakvöll þe. yfir girðinguna sem er á milli okkar tók nokkrar sec í staðinn fyrir að þurfa að bera draslið út úr garðinum og reyna að koma því í sorpu með engan krók og enga kerru.

Stóru tréin okkar eru að komast uppúr en það er samt talsvert vatn þarna ennþá.

Hérna megin lítur þetta bara út eins og eftir miklar rigningar því það safnast alltaf í polla fyrir utan bílskúrinn okkar.

Neðri pallurinn er enn á floti en ég gæti nú líklegast labbað þar í háum stígvélum svo við vonum að þetta sé allt alveg að verða búið.

Og yfir til nágrannana lítur þetta bara vel út en það kom svo mikið vatn upp þarna á milli og yfir til okkar, það kom meira þá leiðina en í garðinum hjá okkur.

Inni er ansi tómlegt, ég er búin að sækja tölvuna og setja á skrifborðið en allt annað er bara uppi á lofti og kallinn fékk að kúra lengur þar sem hann var sjálfsagt alveg búinn á því eftir gærdaginn, því þegar ég sat við tölvuna að gefa upplýsingar og fréttir var hann að elta dekkin okkar sem voru að stinga af, reiðhjólin, gamla sófann sem á eftir að henda …. úff hann hefði bara mátt fara en nei auðvitað ekki nóg verður af drasli sem kemur upp úr ánni út um allt.

Það á að vera næstum þurrt það sem eftir lifir dagsins í dag en á morgun á rigna og ég get alveg lofað ykkur því að næstu rigningardagar munu triggera kvíðakast hjá Stínu á Nesan það er öruggt.

ps. í gær þegar vatnið út á götu náði uppá rass þá keyrði hér traktor á fullu og krafturinn í vatninu var svo mikill að bílskúrshurðin okkar skekktist og henti mótorhjólinu hans Þráins svo þegar við opnuðum í morgun þá lá það á hliðinni og hafði legið í alla nótt í vatninu.  Helvítis asninn á traktornum og enginn veit hvað hann var að æða hingað inní botnlanga.

Svona lítur bílskúrinn út

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

One thought on “Að búa með ána í garðinum sínum (update)

  1. Þetta er rosalegt Kristín. Vona innilega að það verði ekki meira tjón hjá ykkur. Ég er ekki hissa á að þú hafir orðið smeyk. Já, það er skrýtið að ekkert komi um þetta í blöðunum en íslenskir fjölmiðlar eru kannski uppteknir af flóðunum á Suðurlandi, Wintris og Bjarna Ben. Góð kveðja Jórunn

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.