Rjómagúllash

Jæja að beiðni dótturinnar þá set ég hér með uppskriftina að rjómagúllasinu okkar Þráins en það er fyrsti sparirétturinn sem við lærðum að elda fyrir utan læri og hrygg.

Þetta hefur verið uppáhaldsmaturinn okkar ansi lengi eða síðan við bjuggum í Foldahrauninu og árið var líklega 1983.

Fyrst höfðum við alltaf franskar með en á síðari árum höfum við farið meira út í brytjaðar kartöflur bakaðar í ofni og þetta skiptið krydda ég þær með salti og hvítlauksdufti og auðvitað fullt af smjöri.

En sem sagt svona er uppskriftin:

Lambagúllash 800 gr.
1 – 2 laukar
2 paprikur
fullt af sveppum
kartöflur

Við byrjum á að skera kartöflur niður, krydda og henda inní ofn við 200 gráður.

Síðan er laukur, paprika og sveppir skorið niður og steikt á pönnu í smjöri, það er síðan tekið af pönnunni meðan lambagúllashið er steikt einnig í smjöri. Gúllashið er kryddað með salti, piffikryddi og sítrónupipar.

Þegar stutt er í að kjötið sé tilbúið er grænmetismixinu hellt yfir á pönnuna og rjóma hellt yfir allt í restina og þetta látið krauma saman í smá tíma eða þar til það er tilbúið. Af því að ég nota lambakjöt er ekki nauðsynlegt að steikja kjötið alveg í gegn en stundum nota ég svínagúllash og þá er það steikt meira. En það er mjög gott að láta allt malla dáldinn tíma saman til að fá sósuna bragðmeiri. En þessi réttur eins og margir af mínum uppáhalds er betri upphitaður daginn eftir. Svo endilega eldið nóg í einu.

Meðan ég var að elda áðan þá var eiginmaðurinn svo huggulegur að setja saman fallegasta skrifborðsstól ever sem ég var að fjárfesta í og jeiiiiii loksins var hægt að fá góðan en líka fallegan stól sem maður er stoltur að hafa í alrýminu sínu.

Já ég gleymdi að segja að það er nauðsynlegt að hafa hvítvín eða rauðvín í glasi þegar þessi réttur er eldaður.

Þangað til næst ykkar Stína á Nesan.


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.