Ég hafði aldrei heyrt um þetta fyrr en 2012 þegar einn vinnufélagi minn sagði að ég væri ábyggilega með skerta rýmisgreind. Ég man ekkert hvað varð þess valdandi að hann sagði þetta við mig akkúrat þá en eftir það fór ég að sjá ýmislegt sem ég hafði gert og að sjálfsögðu ekki getað gert vegna þess að ég væri með skerta rýmisgreind.
Ég pantaði mér nú ekki tíma í greiningu, heldur fannst bara fínt að fá greininguna frá forritara sem hafði unnið með mér í talsverðan tíma. Enda eftir að þetta orð varð til í orðabók heimilisins þá hefur meira verið hlegið í staðinn fyrir að pirrast.
Dæmi: Ég spyr Þráinn hvort við ættum ekki að færa skápinn á annan stað og hann segir strax, hann passar ekki þarna. What! Víst passar hann þarna, það er nóg pláss, ég bíð bara eftir að hann fari í vinnu og geri þetta sjálf fyrst hann nennir ekki að hjálpa mér. Eftir að hafa tæmt skápinn, sett undir hann mottu svo ég geti dregið hann þangað sem ég vil, þá sé ég að hann passar alls ekki inn þarna í þetta skot og ég þarf að draga hann til baka og setja allt dótið í hann aftur. Aldrei hvarflaði það að mér að taka upp málband og mæla þetta rými og mæla síðan skápinn, nei ég vissi alveg að hann kæmist þarna inn. NOT, greinilega.
Ég man það átti einu sinni að skipta um staðsetningu á tveimur skrifborðum í einu litlu herbergi þar sem hliðarborðið var öfugum megin fyrir rétthenta og þarna komu nokkrir karlmenn, tóku skrifborðin út og snerust í tvo til þrjá hringi og settu þau aftur inn og vola, þau voru þá rétt. Ég sá aldrei hvað í alvörunni þeir gerðu annað en að snúast í hringi og setja borðin aftur á sinn stað, svona er þetta með mig.
Dæmi: Ég er hræðileg í að leggja bílum og er yfirleitt (eins og myndin sýnir) hálfa bíllengd frá kantinum og alltaf yfir línunni á milli stæðanna nema ég sjái hana vel. Ég hef fengið miða á rúðuna á bílnum hérna í noregi þar sem á stóð “Idiot driver at the wheel”, ég hef sjaldan hlegið eins mikið. Frábær húmor sem þarna var á ferðinni. En ég er reyndar líka lélegur bílstjóri vegna þessa, mér finnst allar götur of mjóar og bíllinn alltaf alveg ofaní kantinum og alveg að fara utaní og við allt of nálægt næsta bíl á undan osfrv.
Eins og þið heyrið þá getur þetta háð manni en best er að gera bara sem mest grín að þessu og ekki taka alvarlega þegar einhver segir eitthvað.
Við vorum til dæmis að kaupa svona hálfgert betrekk á eldhúsið hjá okkur og það kemur í 15x15cm “flísum” og það sem ég átti í erfiðleikum með að skilja þegar Þráinn var að reikna út magnið sem við þyrftum til að flísaleggja allan vegginn ekki bara eina línu ha ha ha.
En ég hef alltaf verið ágæt að púsla svo það er með þessa greiningu eins og allar aðrar greiningar, það passar enginn fullkomlega í öll hólfin.
Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan