Í gær tók ég engar myndir af fuglum, hér er venjulega garðurinn fullur af skjóum og litlum smáfuglum en ég sá engan í allan gærdag, ég var með myndavélina tilbúna á borðstofuborðinu allan daginn og meira að segja setti súmlinsu á hana til að ná kannski fuglinum sjáanlegum. En nei nei, myndavélin liggur þarna ennþá og engar fuglamyndir komnar.
Eeen ég gerði slátur í gær. Almáttugur minn, hvernig dettur konu svona lagað í hug árið 2023? En málið er að það er íslenskur bóndi hún María sem býr hérna í Rogalandi og er farin að bjóða uppá saltkjöt og hangikjöt og líka slátur svo ég pantaði hjá henni allt þetta og við gátum ekki beðið eftir að fá okkur lifrapylsu með kartöflumús og rófum. En eitthvað var þetta skrítið sem við tókum uppúr pokanum, þetta var bara lifur og mör, svo ég sendi nú skilaboð til baka og sagðist nú hafa haldið að ég væri að kaupa tilbúna lifrapylsu en það var víst minn misskilningur og ég fékk bara senda uppskrift að lifrapylsu í staðinn.
Fyrst var ég bara, já já þetta er ekkert mál, við eigum samt ekki hakkavél eða matvinnsluvél en það hlýtur að vera hægt að nota bara chopper og mauka þessa lifur, á hún hvort eða ekki að fara í mauk og blandast við rúgmjöl, heilhveiti og haframjöl og verða að deigi eða þannig. Jæja ég nota þetta nú samt og prófa það getur nú ekki eyðilagt matinn. Og já ég fór í þetta í gær, skoðaði uppskriftina sem reyndar sagði að ég ætti að hreinsa einhverja filmu og æðar af lifrunum en þær litu nú bara svo flottar út að ég skar þær bara í bita og henti í chopperinn. Óttalegar tæjur og viðbjóður kom nú út úr honum en ég hélt ótrauð áfram þangað til ég uppgötvaði þessa örþunnu filmu sem er ekkert hægt bara að fletta af lifrinni heldur þarf að skera fullt af kjöti af í leiðinni og það finnst mér synd. Ég var að gefast upp. Hugsaði með mér ég hendi þessu öllu bara áður en Þráinn kemur heim úr vinnunni og ég var bara einhvern veginn full af vonleysi en henda mat….. það er ekki eitthvað sem ég geri svo ég ákvað bara að taka pásu og hugsa um eitthvað annað í smá tíma. Stóð svo upp og týndi nokkrar tæjur úr skálinni með maukaðri lifur og já nýrum líka en sko þar sást filman vel og hægt að fletta henni af nýranu og skera æðarnar í burtu en þetta sést ekki á lifrinni en jú jú er þarna víst.
Þannig að ákvörðun var tekin að halda þessu áfram blanda öllum þurrefnum við og skera mörina, hversu smátt á að skera mörina, það eru engar leiðbeiningar um það, úff ég man ég vildi alltaf hafa smá mörbita í slátrinu hjá ömmu en er þetta samt kannski of stórt sem ég er gera, það vill enginn hafa mörklumpa í slátrinu sínu. Jæja ég læt þetta bara svona og hræri við drullumallið. Á þessum tíma í ferlinu er Þráinn kominn heim og ég fer bara að rökstyðja gerðir mínar. Við fengum ekki vambir með þessu jukki heldur einhverja skrítna poka sem eru opnir í báða enda og bundið fyrir með snæri. Sagt er að ekki megi setja nema helming í pokana því þetta tútni svo út svo við fórum varlega í það.
Svo er ekkert annað en að sjóða í 2,5 tíma en þetta urðu 10 keppir svo við urðum að sjóða í tvennu lagi. Aldrei hvarflaði það að mér að vera með tvo potta á eldavélinni í einu, nei nei, tvisvar yrði sett í sama pottinn. Svo seinni skammturinn átti ekki að vera tilbúinn fyrr en ca. 21.10 sem er nú oftast háttatíminn hjá fólki sem vaknar kl. 5 til 6.
Þráinn átti að fara í vinnu kl. 6 og vaknar þá kl. 5 svo ég sé að hann geyspar þarna um kl. 20.30 svo ég segi honum bara að fara að sofa, ég vaki eftir slátrinu og gangi frá því. Þetta er mjög óvanalegt, því ég fer í 90% tilvika undan honum í rúmið þó hann eigi að mæta fyrr í vinnu en ég, en sko það tekur mig líka langan tíma að sofna en hann bara ca. 2 mín.
Jæja ég geng frá slátrinu í fat inní ísskáp og fer að græja mig í háttinn, búin að setja podkast í eyrun á mér þegar ég heyri að síminn hans Þráinn fór að hringja og hann slekkur bara snögglega á honum og ég spyr hvað var þetta. Hann svarar þá bara “Vekjaraklukkan mín” og ég hugsa bara ha! Jæja skipti mér ekki meira að því og held áfram að reyna að sofna þegar ég verð vör við að maðurinn minn fer fram og kemur ekki aftur inn eftir 2 mín eins ætti að vera ef hann bara var að pissa. Ég held áfram að reyna að sofna en get ekki hætt að hugsa um hvað er hann að gera frammi? Ekki var hann að flýja einhverjar nýtilkomnar hrotur í mér (sem ég hef ekki heyrt eitt orð um)? Ég hef nefnilega stundum þurft að skipta um herbergi þar sem minn maður hrýtur ef hann er þreyttur og ég gæti nú hafa verið þreytt eftir þessa sláturgerð allan daginn. Og ég næ ekki að sofna, ég verð að fara fram og athuga hvort hann sé í hinu herberginu sem hann ekki er, svo ég labba niður og þar er allt í svarta myrkri en ég heyri eitthvað svo ég spyr ertu þarna, já ég er að fara í vinnu, vaknaði allt of seint! Og ég bara ha! hvað meinar þú? Nei ég bara skil ekkert hvernig ég gat sofið svona yfir mig, segir hann. Og ég ennþá ha! Hvað ertu að segja? Klukkan er bara 22.40 núna og þú varst búinn að sofa í rúman klukkutíma þegar þú fórst niður. Og hann alveg ha! Nei ég svaf yfir mig. Og ég, nei Þráinn minn það er ennþá kvöld, ég var að skríða uppí rúm þegar þú fórst niður. Hvað af hverju heldurðu að það sé kominn morgun og kl. 10.40 og allt í svarta myrkri. Nei ég var heldur ekkert að skilja það sagði hann, af hverju allt væri í myrkri og ég hringdi í yfirmann minn til að biðjast afsökunar á að vera að koma svona seint en ég væri á leiðinni. Og ég spurði, bíddu hvað sagði hann, nei hann skellti bara á. Ég sagðist nú ekki undrast það, menn sem vakna klukkan 5 eru ekki að spjalla í símann kl. 23 að kvöldi. Og svo sprakk ég! Hélstu í alvörunni að þú værir búinn að sofa frá kl. 21 til kl. 10.40 morguninn eftir og varstu ekkert að undra þig á því hvað þú værir ennþá þreyttur? Ha ha ha ég get ekki meir og ég ætlaði aldrei að geta sofnað því ég sprakk aftur og aftur úr hlátri. En jú, sofnaði á endanum og svaf bara ágætlega til að verða 6 og settist þá hérna niður og ákvað að skrifa um lifrarpylsugerðina mína.
Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.
Ps. ég á að taka mynd af strönd í dag og slæ kannski tvær flugur í einu höggi og tek mynd af stönd og fugli.