Já það er ekkert annað en að hann Þráinn kallar mig þetta og segir að ég ætti faktískt að vera að vinna á bifreiðaverkstæði sem slíkur. Það er með ólíkindum hvað ég heyri vel hljóð í bílnum okkar og virðist vita frá fyrstu stundu hvað þetta mögulega er, án þess að hafa hundsvit á bílum. Ætti kannski bara að læra meira um bíla svo ég gæti sagt konkret hvað er að.
En alla vega ég fór með bílinn í EU kontrol sem er sama og við heima köllum bifreiðaskoðun og fæ hreinlega bara að vita að bíllinn fái ekki skoðun og ég megi eiginlega ekki einu sinni keyra heim. Ég hefði viljað sjá mynd af mér þegar ég fékk þessi skilaboð, því ég varð svo hissa því það átti ekkert að vera að bílnum mér vitanlega. En þá kom skýringin, dekkin að framan eru algjörlega ónýt, já ónýt ekki bara slitin heldur……. og ég spyr hvort þeir eigi dekk og geti reddað þessu en það var ekki, svo ég tek ólöglega bílinn minn og keyri hann hálfa leiðina heim en þar er dekkjaverkstæði og ég kem þar inn sem kona í miklu stressi sem ekki fékk skoðun á bílinn vegna dekkjanna og þeir hreinlega verði að bjarga mér, ég þurfi nauðsynlega að keyra uppí Lillesand seinna um daginn til að fara í sneiðmyndatöku og því sé ekki hægt að fresta svo ég bara verði að fá bílinn skoðaðan í dag. Ekki málið þessar kallar gera allt fyrir konu í stressi. Hann meira að segja tjakkaði bílinn upp úti því allar lyftur voru fullar hjá þeim og svo lagðist hann í poll til að klára dæmið. Jæja ný dekk að framan ég komin aftur uppá skoðunarverkstæðið eftir hálftíma, geri nú aðrir betur! Fékk næstum fulla skoðun en það er víst eitthvað að stöðuljósunum á bílnum en við reddum því og ég heyri svo sem ekkert í ljósunum þannig að ekki gat ég heyrt að þetta væri að. Og sko nota bene, ég heyri ekki vel talað mál en ég heyri öll hljóð, ég heyri liggur við, fótatak úti á götu.
En frábært, bílnum var reddað en, to, tre og við gátum farið í Lillesand (1,5 tími frá okkur) seinna um daginn eins og ekkert væri. Vorum reyndar komin allt of snemma þar sem við höfum aldrei farið þetta og vildum hafa góðan tíma ef við þyrftum að leita en nei nei þetta var í útjaðri bæjarins og við komin 1,5 tíma áður en ég átti að mæta en við fengum okkur bara að borða og drápum tímann saman. Bíð svo bara eftir að heyra í lækninum mínum vonandi í næstu viku með hvað er að gerast með bakið á mér.
En svo daginn eftir fer ég í vinnu og á leiðinni heim heyrist hljóð í bílnum, eitthvað skrölt og hvað gerir kona, jú jú hún hringir í manninn sinn sem er 25 mín frá og fastur í vinnu. Hvað á hann að gera, jú hjálpa mér að fatta hvað í veröldinni gæti verið að. Og fyrsta sem honum dettur í hug er að það sé bara eitthvað dót í skottinu sem slæst saman og hristist. Já, ég fer og stoppa og nei það er ekkert í skottinu, nema hundateppi og innkaupapokar, svo ekki er það, það. Ég held aðeins áfram og fatta svo …. já bíddu það er eitthvað undir botninum í skottinu og stoppa, lyfti því upp og þar sé ég alls konar sem alveg gæti verið að slást saman og gera þessi hljóð svo ég set hundateppið þar, raða öllu þannig að það komi teppi á milli (hugsa samt, en þetta hefur aldrei áður orsakað svona hljóð, held þetta dót sé alltaf þarna) og keyri svo af stað, finnst í 3 sekúndur að þetta hafi verið málið þar til ég keyri í misfellu, ekki holu heldur bara misfellu og þarna er ég komin með brjálæðislegt kvíðakast og keyri bílinn heim, hægt og í smá þoku (í hausnum á mér). Gat ekki hugsað mér að fara á verkstæðið sjálf og nánast lagðist bara uppí rúm. Almáttugur það er alltaf eitthvað að gerast með bílinn og það leysir engin vandamál að hækka í útvarpinu eins og bifvélavirkinn benti Þráni á, ha ha ha. En þegar ég róast aðeins þá ákveð ég að spyrja Chat GPT hvað gæti verið að, en áður var ég búin að segja við Þráin að þetta væri ábyggilega eitthvað tengt demparanum að aftan bílstjóramegin og hvað segir Chat GPT?
Já sagði ég ekki fjöðrunin eða demparar! Alla vega Þráinn kemur heim úr vinnu og fer með bílinn og jú jú hann heyrði hljóðið (hjúkk, ég er ekki ímyndunarveik) og hann átti líka eftir að heyra betur hvað þetta væri með ljósin og fá betri skýringu þannig að það var best að hann færi með bílinn.
Og hann var ekki glaður, brotin festing fyrir demparann. Ha, brotin festing fyrir demparann, bíddu var ekki bíllinn í skoðun í gær? Áttuð þið ekki að sjá þetta þar? Og….. var ekki skipt um dempara fyrir stuttu síðan, 2 ár kannski (kom svo í ljós að það hafði verið skipt um dempara fyrir einu ári) og þeir eitthvað, svona getur nú alveg gerst og Þráinn, já en ekki frá því í gær, ha!
En jú kannski, alla vega skilst mér að það séu álfestingar fyrir demparana í VoLvo og eitthvað bla bla bla að þær geti farið bara svona en, to, tre en þegar þeir sáu að það var bara ár síðan (því jú þeir eru með allt um bílinn í tölvunni þar sem við notum alltaf sama verkstæðið) þá fengum við þessa viðgerð með 30% afslætti og já já ókeypis lánsbíl fáum við alltaf þegar bíllinn er hjá þeim. Svo við höldum áfram viðskiptum við þá, enda viljum við ekki trúa að þetta geti verið þeim að kenna eða hvað veit ég, ég er bara bílahvíslari og heyri öll aukahljóð, en hef ekki hundsvit á bílum í rauninni.
En Guðni kallinn (bíllinn okkar) er eldhress í dag en bara pínu skítugur og ég held hann eigi nú inni hjá okkur hjónum þrif bæði að innan og utan eftir allt sem búið er að ganga á.
En þá að öðru, ég veit ekki hvort þið sem lesið bloggið mitt, eða talið við mig af og til, takið mikið eftir öllum slettunum sem ég er komin með ( og við öll ) en það er ansi mikið, sérstaklega þar sem maður þykist ennþá tala góða íslensku eftir 12 ár í Noregi. Ég sagði til dæmis áðan þegar ég leit út um gluggann og sá að það hafði rignt smá en ég hélt það ætti að vera sól í allan dag, “Nei ég vissi ekki að að það var melt regn í dag!” Hvers konar íslenska er þetta? Samt tölum við íslensku, hlustum á íslenskar bækur á StoryTel og íslenskt útvarp en jú jú það gætir áhrifa greinilega og setningarfræðin hefur látið á sjá. En ég held við séum nú samt alveg ágæt ennþá eða hvað?
Alla vega bílahvíslarinn er líka með bílakvíða og það er ekki gott, ég bara ofanda og fæ öran hjartslátt þegar ég heyri aukahljóð í bílnum. En ég held ég viti alveg hvenær þetta byrjaði en svo versnar það bara og versnar (eigum bara einn bíl og hvað gerum við úti í sveit ef hann bilar) með aldrinum. En jú þetta byrjaði þegar við áttum Crystlerinn rauða sæta því startarinn í honum var alltaf að bila og við fórum til dæmis á Bylgjulestina á Selfossi og það þurfti að draga okkur þar á verkstæði. Við vorum í útilegu í Ásbyrgi og þar urðum við að vera í heila viku meðan góðir menn úr sveitinni gerðu við bílinn og keyptu varahluti fyrir okkur í fjölskylduferðinni þeirra til Reykjavíkur, og svona gæti ég lengi talið upp. Hlakka til þegar ég þarf aldrei að keyra bíl aftur en það verður líklega aldrei ha ha ha.
Þangað til næst,
ykkar bílahvíslarinn frá Nesan.