Maddý minning.

Elsku Maddý mamma, amma og tengdamamma hefur kvatt okkur hinstu kveðju.

Þó að við höfum vitað að hverju stefndi þá erum við aldrei tilbúin að kveðja svona endanlega.  En við höfum minningarnar og þær ylja.

Það er svo skrítið að það er alltaf ákveðinn tími sem stendur upp úr í minningunum og okkar sterkustu eru eftir að Ástrós Mirra fæddist.  

Hún og amma áttu ákveðin bönd sem við foreldrarnir vorum ekki þátttakendur í eins og til dæmis alltaf þegar amma kom í bæinn þá var það fyrsta sem hún gerði að bjóða Mirrunni á Mc Donalds og þar mátti panta sér hvað sem var en auðvitað pöntuðu þær barnabox og voru álíka spenntar báðar tvær að sjá hvaða dót skyldi fylgja með.

Eins eigum við mjög sterkar minningar héðan frá Noregi, um ömmu Maddý eins og við öll kölluðum hana eftir að Mirra fæddist.

Henni fannst svo gaman að taka þátt í nýja lífinu okkar hérna úti, og vildi fara með okkur út um allt.  
Hún upplifði það í fyrsta sinn að fara út í skóg og velja og höggva sitt eigið jólatré til dæmis.  Henni fannst æðislegt að mæta á alla viðburði í skólanum hjá Mirru og fannst kannski skemmtilegast þegar Mirra var nýbyrjuð í útlendingaskólanum að upplifa kúltur allra barnanna sem voru þar að byrja sitt nýja líf í Noregi.

Kristín minnist hennar sem bestu og þolinmóðustu fyrirsætu sem hægt er að hugsa sér og meðan hún var í ljósmyndanáminu þá sat Maddý tímunum saman á sama stað og heklaði meðan hún lærði á lýsinguna og þess háttar.

Eins var hún alltaf til að leika dáldið fyrir framan myndavélina og settum við upp margar senur sem hún auðvitað lék í, eins og skúringarkonan, spákonan, gamla konan með ýktar hrukkur og elli og margt margt annað.  Aldrei leit hún á myndirnar eftir á og sagði þetta er nú kannski ekki góð mynd af mér því hún vissi að það var ákveðið þema í gangi og það hafði ekkert með hana að gera.

En ein skemmtilegasta minning okkar með Maddý mömmu var þegar hún og Már pabbi Kristínar komu bæði hingað til okkar á Nesan, þau voru alla daga hlægjandi, alltaf til í að fíflast og við fórum með þau í Dyreparken og fengum að mynda þau á sömu stöðum og við hefðum gert með barnabörnum.  
Þau klifruðu upp í safarí jeppa og þóttust vera að gefa ljónunum og ég veit ekki hvað og hvað.  
Ótrúlega skemmtilegur tími sem við áttum þarna. 

Svo man Þráinn vel þegar hann var lítill strákur uppi á Nýjabæjarbraut með mömmu sinni og pabba, þá var nú líka stutt í leikinn hjá henni Maddý. Hann hafði fengið bílabraut í jólagjöf en fékk ekki að leika sér að henni á aðfangadagskvöld því mamma hans og pabbi sögðust þurfa að setja hana saman áður en hann fengi að prófa.  Svo byrjuðu þau en voru voða lengi að þessu, svo hann ákvað að fara bara að sofa og vakna eldsnemma til að geta leikið sér að bílabrautinni en viti menn, þá voru mamma hans og pabbi enn að leika sér og búin að vera að því alla nóttina.

Elsku mamma, amma og tengdarmamma.
Við þökkum þér fyrir allt og allt sendum okkar innilegustu kveðjur í sumarlandið.

“Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.”
(Bragi Valdemar Skúlason)

Þráinn, Kristín, Ástrós Mirra og Helge.

2 thoughts on “Maddý minning.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.