Þegar kona klúðrar málunum….

Já þessari konu hérna tekst ansi oft að klúðra málunum og í gær var það nú ekkert venjulegt mál sem kom upp og konan klúðraði. Og hvað er vitið að vera með 2 ketti þegar svona lagað getur skeð?

Mynd fengin hjá Freepik

Sko ég sit hér í makindum mínum í tölvunni inní svokölluðu stúdeói sem er í raun bara hobbýherbergið mitt núna eftir að hætti sem stúdeóljósmyndari og þá verður Erro allt í einu svo skrítinn og ég sé að Kiwi yngri kötturinn situr hérna við hliðina á trékassa (fyrrum props, núna punt) og mænir á hann og þá sé ég allt í einu pínulitla sæta mús og ég ætlaði nú ekki að láta hana Kiwi kála henni hérna við tærnar á mér og rak Kiwi út.

Já, gáfulegt er það ekki? Og hvað svo…. nú finnum við ekki músina og erum búin að þykjast hafa haft herbergið lokað, hent af og til inn einum og einum ketti og vonast til að koma að þeim með bráðina í kjaftinum en ekkert. Nei ekkert.

Og svo fórum við inn í herbergið áður en við fórum að sofa, vorum með vasaljós og allt, ég tók mikið af propsi (lesist sem punt) út úr herberginu sem músin gæti mögulega étið gat á en auðvitað er inni í herbergi svefnsófi, kommóða og gamlar töskur fullar að baby fötum og alls konar. En við fundum enga mús, færðum samt sófann til og lýstum með vasaljósi alls staðar á bak við allt og undir allt en allt kom fyrir ekki. Engin mús? Nei ég meina getur hún bara horfið, eða hvað?

Mynd fengin hjá Freepik

Jæja herberginu lokað í nótt og Kiwi sett þar inn í morgun þegar Þráinn fór á fætur kl. 5 en þegar ég kem niður kl. 6 er hún ekki búin að finna neina mús og ég sit hérna núna að sjálfsögðu með fæturna uppá skammel (ætli ég geri það ekki bara hér eftir) og verð ekki vör við neina mús. Ákvað að opna bara fram en loka út svo kettirnir væru inní húsi ef músin fer á stjá því ég þarf að fara í vinnu.

Svo heimilisdýrunum hefur fjölgað og nú eigum við einn hund, tvo vonlausa ketti (samt mér að kenna) og eina litla sæta mús, verst að hún getur skemmt svo mikið.

Og nú mun sönglast í hausnum á mér í allan dag! Ég fann litla mús sem heitir Heiða….. Nema ég er ekki búin að finna hana. Damn!

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

Update: Þegar ég kom heim úr vinnu ákvað ég að leita enn og aftur að músinni og ryksugaði undir sófanum og kíkti um allt með vasaljósi en fann enga mús svo ég fór í það að taka allt úr sófanum sem í gær var á gólfinu og setja á sinn stað og viti menn, liggur ekki þessi litla elska dáin á einu af mjúku teppunum sem voru á sófanum. Svo líklega hefur Kiwi náð að særa hana það mikið að hún bara dó hérna í nótt og ég er farin að geta haft fæturna á gólfinu aftur, þó það sé alveg gott að hafa þær uppi á skammel.

Note to self. Leyfa köttunum að drepa mýsnar og taka þær svo og kasta út en ekki leyfa músunum að hlaupa um allt hús.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.