Skammdegið….

Þetta er svo flott orð og svo lýsandi fyrir tímann sem er akkúrat núna, dagurinn er skammur, hann er svo skammur að það er nánast aldrei bjart, nema þegar blessuð sólin skín og þá skín hún á hlið og ekki lengi. Ég er ein af þeim sem þjáist af skammdegisþunglyndi og það hefur verið misjafnt í gegnum lífið hversu illa það fer í mig en ég finn að eftir því sem ég eldist verður það verra og verra og það er komið svo að ég ákvað að fá mér lyf núna því mig langar að hafa gaman í desember eins og svo margir aðrir hafa.

En það er svo skrítið að þó ég hafi kósíljós út um allt þá er myrkrið svooooo ofboðslega svart þessa dagana að ég hreinlega undrast það og finnst næstum eins og það sé svartara en nokkurn tíma áður, en líklega er það bara misminni hjá mér eins og allt annað með veðrið því ég hef óskaplega lélegt veðurminni. Og svo gerist það aftur og aftur núna í þessari viku að ég er hreinlega tilbúin að fara í rúmið kl. 19 því þá er búið að vera myrkur svo lengi en það gengur víst ekki, ég vakna nógu snemma þegar ég hangi uppi til 21 eða 22.

Svo er það veðrið líka þessa dagana, það er ekki hægt að stóla á neitt, sem dæmi, mánudagur 9 stiga hiti og þoka og súld. Þriðjudagur fór niður í mínus 2 og sól að hluta til. Miðvikudagur í dag sem sagt byrjar í mínus 2 en á svo að hlýna eitthvað smá og fara að snjóa í dag sem endar með slyddu í kvöld og á morgun á að vera 7 stiga hiti og 40mm rigning. Ég meina ég hélt ég byggi í Noregi en ekki lengur á Íslandi en þetta hljómar nú eins og íslensk veðurlýsing. Fyrst þegar ég flutti hingað til Noregs þá gátum við stólað á sama veðrið alla vega í heila viku það voru bara ekki svona miklar veðurskiptingar (ef ég þá man eitthvað).

Og fyrir konu eins og mig sem get ekki keyrt bíl í myrkri og rigningu þá er ekki mikið verið að rúnta þessa dagana, ég get heldur ekki keyrt í hálku þó ég geri þetta bæði, svo ég er auðvitað mikið heima sem ég hefði nú hvort sem er verið reikna ég með, en fer næstum ekki út í göngu því ég færi aldrei út að labba í myrkri, því þá sé ég ekki náttúruna þó ég þekki kannski leiðina. Já eins og þið heyrið þá er þetta ekki minn tími en guði sé lof fyrir öll skammdegisljósin sem fólk er búið að setja á húsin sín og tréin og garðana, þau gjörsamlega halda í mér lífinu þessa dagana. Og hérna í kring hjá okkur hefur ljósunum fjölgað ár frá ári, þegar við fluttum vorum við eina húsið á nesinu með jólaljós en nú eru komin ljós um allt, nema hjá þessum köllum sem búa hérna næst okkur, ég sem hélt að kallar hefðu gaman að svona stússi við að setja upp ljós og þess háttar en það eru greinilega ekki þessir hérna hjá okkur.

En annars er allt bara ágætt fyrir utan myrkfælnina mína, aðventan byrjuð og við ætlum að gera laufabrauð um helgina, fá gesti í heimsókn og gera þessa viku æðislega, þrátt fyrir myrkrið.

Ég ætti kannski að athuga að panta í jólagjöf einhvers konar háfjallasól til að hafa hérna í herberginu mínu sem gæti kannski gefið mér von og birtu? Einhver sem veit hvað virkar, má endilega senda mér línu.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.