Þó ég vilji trúa því þá er það nú líklega ekki málið, það eru þó komin brum á tréin og krókusarnir eru að koma uppúr grasinu. Síðasta helgi var algjör vorhelgi með garðvinnu hjá okkur öllum nágrönnunum, allir úti að klippa tré og hreinsa og laga til. Ég fékk lánaðar þessar svakalegu hekkklippur hjá Lars og get varla lyft hendinni núna fyrir harðsperrum, Þráinn gerði ekkert nema hita pottinn, spúla pallinn og grilla því hann fór í öxlinni í vinnu á föstudaginn og var bara að hugsa um að reyna að ná sér, svo ég var í heavy vinnunni eða þannig. Ég er orðinn svo mikill aumingi með aldrinum að ég nánast skammast mín, ég sem hef alltaf verið svo handsterk er það bara alls ekki lengur. En ég geri þetta bara samt því það þarf og sit svo með hálfmáttlausan handlegg af harðsperrum núna, en það hefur aldrei drepið nokkurn mann og jafnar sig fyrr en varir.
En já þetta með vorið, ég er nefnilega búin að vera svo glöð yfir birtunni sem er komin kl. 6.30 á morgnanna og er fram til kl. 19 á kvöldin og að Þráinn hefur getað notað mótorhjólið í vinnu síðustu viku og núna er hann á morgunvakt og ég elska að þurfa ekki að keyra honum kl. 5.15 þó ég sé vöknuð, því ég elska rólega morgna heima og sjá birtuna læðast inn og geta bara verið að dunda mér þar til ég fer í vinnu og ég er svo heppin að vinna ein, svo ég ræð svolítið hvort ég fari kl. 7 eða kl. 8 af stað.

Núna er hausinn á mér á fullu að reyna að finna út úr og útbúa matarmyndastúdeó því ég held ég verði að taka flottari myndir af öllum þessum fínu uppskriftum sem ég er að búa til. Svo í dag ætla ég að bera á borðplötubút og skurðarbretti heimagert þannig að þau séu dökkbrún á litinn og prófa að setja svo diska og allt á og stilla ljósin svo ég geti í framtíðinni bara hent disknum á brettið og labbað með inní stúdeó og tekið myndir af því. Ó já þið þurfið að fara að sjá fullt af matarmyndum frá mér í framtíðinni.
En ég er líka á höttunum eftir túlípönum í búðirnar því það er fátt skemmtilegra að mynda túlípina í studeói og það er orðið eitt af vorverkunum mínum.

En aftur að vorinu sem ég hélt væri að koma…..

Þetta er mér gjörsamlega ómögulegt að skila, af hverju á að snjóa í 4° hita, en það kemur engum á óvart að mér þykir þetta óskiljanlegt, því ég er alltaf á hverju einasta ári tilbúin að segja að nú sé vorið komið og það kemur alltaf einhver tími seinna sem snjóar eða frystir og ég verð alltaf jafn hissa, þar til FB sýnir mér minningar frá í fyrra og hitteðfyrra og frá árinu þar á undan.
Svo ég á líklega aldrei eftir að læra þetta og ætla bara að trúa því alveg fram til morguns þegar á að snjóa að vorið sé komið.
Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.