05.10.2016
Já haninn í nágrenninu er loksins dauður eða sko hanarnir og loksins þegar það er orðið svo kalt úti að við viljum ekki sofa með opinn glugga þá getum við það en í allt sumar þegar við vorum að kafna úr hita þá gátum við ekki sofið með opinn gluggann út af þessu helv…
Spurning hvort við ættum ekki rukka nágrannann um umfram rafmagnið sem við eyddum með því að þurfa að hafa viftur í öllum herbergjum í staðinn fyrir opna glugga á nóttunni?
En aldrei hefði mér dottið til hugar að einn eða tveir hanar gætu verið svona óþolandi og þegar ég varð fyrst vör við hann (það kom fyrst einn) þá fannst mér þetta bara krúttlegt, þar til ég átti að vakna kl. 5 til að fara í vinnu og helv. haninn byrjaði að gala klukkan 4. Sko nefnilega þegar maður þarf að vakna kl. 5 þá veitir manni ekki af öllum þeim mínútum sem eru milli 11 og 5 til að fúnkera þann daginn og þegar helv. haninn kom í veg fyrir klukkutíma svefn þá var stutt í pirringinn.
Og svo kom annar og þessi kenndi honum alla þá ósiði sem hann kunni og hvað er það að fá sér tvo hana sem kunna ekki á klukku? Ég hef alltaf haldið að hanar ættu að gala við sólarupprás eða ca. kl. 6 en ekki klukkan 4 og aftur kl. 5 og aftur kl. 6 og aftur kl. 7 og aftur kl. 8 og aftur kl. 9 held að þá hafi komið pása til hádegis en þá byrjuðu þeir aftur.
En þegar nágranni okkar kom stormandi einn laugardagsmorguninn eftir svefnlitla nótt þá vorum við næstum viss um að hann myndi kvarta, við vildum nefnilega ekki gera það þar sem við erum nýjust í hverfinu. En svo fréttum við um síðustu helgi að þegar Jan nágranni kvartaði sagði eigandinn sem er frá Burma að hann yrði líklega að slátra honum þar sem svoooooo margir væru búnir að kvarta og núna loksins er friður já eða sko alla vega á nóttunni en þessi sami nágranni frá Burma ákvað þá að fara að byggja við húsið sitt og nú eru hamarshögg og sagarhljóð allan daginn en það er nú allt í lagi og bara notarlegt, málið er bara að ef maður missir mikinn svefn út af einhverju utanaðkomandi þá margfaldast pirringurinn og allur dagurinn er ónýtur.
Ætli hananum hafi ekki verið slátrað með grjóti eins og hænunni sem við sáum nágrannann drepa um daginn en hann barði hana bara með grjóti í hausinn þar til hún dó, þá var ég nú næstum búin að kæra hann fyrir dýraverndurnarsamtökum, svona gerir maður ekki í noregi og auðvitað ekki heldur í Burma en þó greinilega eitthvað sem þessi maður er vanur, ég er ekkert með fordóma en þegar fólk hegðar sér svona þá dæmi ég það hvaðan sem það fólk kemur. En ástæðan fyrir því að ég nefni hvaðan maðurinn kemur er til að útskýra að hann hefur ekki sama uppruna og við og gerir því hlutina öðru vísi, þrátt fyrir að hafa búið hér í 10 ár og tali fína norsku.
En þá af fréttum af okkur, ég er búin að vera með fullt af ljósmyndaverkefnum undanfarnar vikur og mikið gaman að fást við alls konar hluti og svo virðist sem Marnafoto sé líka að glæðast, góðir hlutir gerast hægt eins og sagt er. En ég er langt frá því að lifa á þessu og get það kannski aldrei því þá yrði svo mikið að gera hjá mér að ég myndi missa áhugann en við sjáum til hvert og hvernig þetta fer. Alla vega er gaman núna og skúringarvinnan bætir upp tekjurnar sem vantar uppá.
Þráinn er búinn að vinna alveg óskaplega mikið síðastliðið hálft ár alla vega en það er vaninn hjá honum að vinna 6-2 en á mánudögum og miðvikudögum 6-6 en svo er hann búinn að vera að vinna næstum alltaf í þetta hálfa ár 6-4 og stundum 5 þegar eiga að vera stuttir dagar og 6-21 þegar eiga að vera lengri dagar og þetta er allt of mikið í svona langan tíma en mér finnst eins og hann sé heldur oftar að geta hætt á réttum tíma núna undanfarið og er það bara frábært.
Mirran er í sínum menntaskóla sem “by the way” kostar okkur ekki neitt, hún fær fartölvu og gerir leigusamning til 3ja ára og greiðir 990 krónur á ári fyrir hana en fær svo styrk frá lánasjóðnum uppá sömu upphæð þannig að kostnaður fyrir hana í menntaskóla er núll og hún greiðir ekki heldur fyrir stræto, þarf ekki að kaupa blýant eða strokleður. Hún segir nú ekki margt þessi stúlka en mér heyrist á henni að henni líði vel í skólanum þrátt fyrir að hafa ekki lent í bekk með vinkonum sínum og nú er hún að eignast nýja vini sem hefur ekkert verið auðvelt svo við erum alsæl. Svo á hún kærastann hann Kevin og er hjá honum nánast allar helgar.
Nói kóngur er pínu þreyttur á þessum kettlingum en varði þá með kjafti og klóm hér um daginn þegar Kevin kom með hundinn sinn inn í hús og allt fór í bullandi panik. Annars er hann mikið úti því hann þoli ekki þessi læti sem eru hér á daginn.
Erro veit ekkert í hvora löppina hann á stíga og gengur hér í hringi alla daga og er að gera mig geðveika, hann höndlar engar breytingar sem sannar það sem ég hef alltaf sagt að hann sé einhverfur. Hann þrátt fyrir að vera fullorðinn er svo að drepast úr afbrýðisemi að ég má helst ekki taka upp kettling þá fer hann alveg yfirum, ég skil þessa hegðun bara alls ekki og ef ég vissi að ég væri ekki hundamanneskja áður en kettlingarnir komu og hann hætti að vera aðalnúmerið þá veit ég það núna, 5 kettlinga frekar en einn hund. Ekki misskilja mig ég elska Erro en hann fer bara geðveikt í taugarnar á mér núna. Sjáum til hvort ég og hann jöfnum okkur ekki þegar kettlingarnir verða farnir á nýju heimilin sín en þangað til, þá nenni ég honum ekki og vildi helst senda í pössun eitthvert. Hann er svo athyglisjúkur að það hálfa væri nóg og nú er kannski spurning að setjast niður og googla hvað skuli gera við athyglisjúkan hund. Ætli Cesar eigi svar við því?
Nala hinsvegar er að standa sig í móðurhlutverkinu þó oft á tíðum sé það erfitt þar sem litlu villingarnir eru ekki að hlýða henni. En hún er þessi týpíska mamma sem er hér sínöldrandi enda veit hún að það eru bestu mömmurnar þegar upp er staðið. Hún er núna búin að kenna þeim að gera stykkin sín á réttan stað en ég er nú enn að finna strigaskó með pissulykt sem reyndar hafa ekki verið notaðir lengi. Þeir þrátt fyrir að vera farnir að borða allt, fá að fara á spena 1 til 2 sinnum á dag og svo eins og núna, þá eru þeir að leika sér þá gengur hún hér um og nöldrar. Hún vill helst hafa þá alla á sama stað og líður ekkert vel þegar einn hverfur á vit ævintýranna. En mikið eru þeir nú duglegir að finna sér ævintýri og nýja leikvelli eins og í gær, þá uppgötvuðu þeir þvottakörfuna mína sem er nú eitt það skemmtilegast sem þeir hafa komist í, hún er sko úr basti og hægt að klifra upp í hana og hverfa ofaní þvottinn og klifra svo uppúr henni aftur. Yndislegt líf.
Já þá hef ég nú fjallað aðeins um okkur öll og ætla þá að segja ykkur að fyrsti í að skafa var í gærmorgun þegar hitastigið féll niður í 1 gráðu um nóttina. En það hoppar uppí 15 í sólinni á daginn en núna er víst veturinn að koma og best að fara að skipta um dekk á bílnum og gera sig klárann. Ætli garðhúsgögnin fari ekki inn um næstu helgi.
Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.