Að standa vaktina á Herjólfi 24/7 í 6 daga….

14.03.2017

Já að standa vaktina á Herjólfi 24/7 í 6 daga er ekki góð skemmtun fyrir sjóveika manneskju en eins og þið vitið þá veiktist ég á fimmtudaginn af einhverri einkennilegri veiki sem við greindum nú sjálf í sýkingu í innra eyra eða kristalla sem hafa farið úr skorðum í innra eyra.

Ég missti heyrnina öðrum megin og er búin að vera eins og úti á sjó allan tímann í brælu og með ógleði.  Hef verið ágæt ef ég ligg alveg kjurr í rúminu en eftir 6 daga svoleiðis og með mann með hendina í gipsi þá er þolinmæðin búin.

Við hringdum á fimmtudaginn og pöntuðum tíma hjá lækni og okkur sagt að ég eigi tíma á mánudaginn kl. 10.15 og ég ákvað að það myndi bara ganga upp en helgin var frekar döpur og lítið gert annað en að horfa á sápur í sjónvarpinu.

Jæja haltur leiðir blindan og Þráinn keyrði mér á heilsugæsluna í gær til að hitta lækni og fá úr því skorið hvað væri að en viti menn, ég átti ekkert tíma í gær heldur eftir viku, en ég get svo svarið það að konan sagði bara på mandag sem þýðir á mánudaginn en ekki næste mandag sem þýðir þar næsta mánudag, engin dagsetning nefnd svo þá er hún ekki að gefa tíma langt fram í tímann.  Ég verð bara eitthvað rosalega sár, búin að hafa fyrir því að koma mér inní Mandal og ekkert og ennþá svo lasin og ég spyr um annan tíma hjá öðrum lækni og hún segir fyrst að það sé ekkert fyrr en á fimmtudaginn og ég segist ekkert geta beðið svo lengi, ég sé með mikinn svima og ógleði og heyrnarleysi en konan í mótttökunni var ekkert liðleg held hún geti ekki verið norðmaður, og ég enda á að rjúka út nánast grenjandi og segist bara finna út úr þessu sjálf.

Fer á læknavaktina og mæti þar bara indælum brosandi konum sem vildu allt fyrir mig gera nema þær hafa bara engan lækni á vaktinni fyrr en heilsugæslunum lokar og benda á lækninn minn svo ég til baka aftur.  Fer með Þráni í Amfi og þar hittum við Gro sem reyndar tékkaði á heilsgæslunni í Marnardal en þar komu þau svör að ég verði bara að fá akut tíma hjá mínum lækni eða á minni heilsugæslu.  Og ég ákveð bara að ég verði að standa undir þroska og fara aftur upp og biðjast afsökunar á hegðun minni og sjá hvort hún geti ekki gert eitthvað aðeins meira fyrir mig og viti menn þá fékk ég tíma daginn eftir eða í dag.

Jæja ég er búin að hitta lækninn sem sá ekkert athugavert í eyranu á mér, en sagði þetta greinilega kristallana og gerði á mér æfingu sem á að hjálpa þeim að detta á sinn stað.  Ég má gera þessa æfingu sjálf í rúminu og ætti að lagast smá saman.  Vonandi að þeir detti á sinn stað sem fyrst.  En hann skaffaði mér líka ógleðipillur og ég held þetta verði allt betra ef ég slepp við ógleðina því það hefur lægt heilmikið í sjóinn og meira núna eins og ég sá að ferðast með Colorline milli Noregs og Danmerkur.  Ekki alveg stöðug en samt.

Ég get alveg sagt ykkur það að ég myndi 100 sinnum vilja vera með verki einhvers staðar en þetta helvíti að líða eins og maður sé búinn að drekka of mikið alla daga allan daginn án þess að fá eitthvað partý er ömurlegt og hafa ekki stjórn á hreyfingunum sínum er líka ömurlegt.  Að ætla að labba beint en fara bara beint út á ská er líka ömurlegt.  Verkur í hendi eða fæti er bara miklu skárra og hefur ekki áhrif á hugsanir og getu til að hugsa og vinna.

En nú kann ég trixið og ætla að gera það oft í dag, komin með sjóveikistöflur og trúi því að ég verði miklu betri á morgun.

Svimi

En þá að þeim handlegssbrotna, hann gerir allt annað en að sulla í vatni, reyndar keypti hann sér bílaþvottakúst í gær og ætlaði að kaupa sér gúmmíhanska í dag sem bendir til að bílaþvottur sé á döfinni.

Hann segir það ganga svo vel að skeina með vinstri að hann sé að hugsa um að halda því bara áfram.

Eina sem er eitthvað að trufla hann er að skera niður td. grænmeti og þess háttar, eða vinda borðtuskuna, hengja uppá snúru og setja í 5 gír og bakk á bílnum.  Annars er hann bara góður með einni.

Þangað til næst,
ykkar Kristín á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.