Tveggja og hálfs árs gormur…

MirruSkottublogg
Jæja gott fólk, þá eru mamma og pabbi auðvitað löngu komin frá Þýskalandi og ég var nú ánægð að sjá þau aftur, ég hef aðeins verið að nefna það við mömmu þegar hún fer í vinnu að hún komi alltaf aftur og mamma segir það rétt, ‘Mamma kemur alltaf aftur’.

Mér fannst mjög gaman hjá Auði ömmu enda fór hún út á gæsló með mig næstum á hverjum degi, en mér finnst samt ofsalega gaman að mamma og pabbi séu komin, og nú sérstaklega þegar við erum búin að kaupa okkur sumarbústað á Þingvöllum. Þar finnst mér gaman að vera því ég get verið svo mikið úti að leika, en pabbi þarf að gera betri sandkassa fyrir mig.
Ég fór í gær með mömmu að skoða leikskólann sem ég fer á í júní nk. og við skoðuðum ‘Rauðu deildina’ og svo áttu krakkarnir að fara út að leika og þá sagði ég við mömmu ‘Mamma, viltu skreppa?’ því mig langaði svo að fá að vera með. Mamma leyfði mér að leika með þeim í hálftíma eða svo en ég hefði alveg viljað vera lengur.
Nú er ég farin að gera hluti sem mamma fær ‘Hjartaáfall af’ eins og á föstudaginn þá vorum við mamma að bera dót útí bíl til að taka með uppí bústað og mamma rétti mér eina gardínustöng sem átti að hafa ofan af fyrir mér í tvær ferðir eða svo, en eitthvað nennti ég ekki að burðast með hana niður svo ég fór bara aftur inn og læsti. Já, ég læsti mömmu úti (frammi á stigagangi) og hún panikaði auðvitað.

Hljóp niður og fékk að hringja í pabba (hvað átti hann að gera í vinnunni!) og hann byrjaði að róa mömmu niður og leiðbeindi henni svo hvernig hún gæti brotist inn. (Humh) Og viti menn mamma náði að spenna karminn frá og sá þá lítinn orm hinum megin skælbrosandi og sagði ‘Halló mamma’ en þá hringdi síminn (það var pabbi sem ákvað að hafa ofan af fyrir mér meðan mamma væri að reyna að komast inn) og ég sagði við pabba, ‘Halló pabbi, mamma úti’ og hló.

Já, svona er að vera tveggja og hálfs árs ormur.

Eitt að lokum ég er nefnilega farin að segja svo margt skemmtilegt til dæmis, þá var ég uppá Gjábakka (nýji sumarbústaðurinn okkar) um daginn og var búin að raða upp öllum dýrunum mínum, tók svo bolta og kastaði í dýrin (svona eins og keila) og sagði: ‘Yes’ þegar þau duttu. Svo segi ég mjög oft núna þegar eitthvað er að, ‘Jesús minn’ og fleira í þessum dúr.

ykkar Mirra Skotta

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.