Nunnur og trukkabílstjórar

Ég hef alveg um helling að tala eða skrifa núna og þá er það spurning hvort ég muni það þegar ég sest við.

Númer eitt eru Trukkabílstjórarnir, ég stend alveg heilshugar með þeim og hefði alveg getað setið í röð einhvern daginn og hlustað á útvarpið.  Tók meira að segja einu sinni með mér myndavélina ef þeir skyldu vera að loka Reykjanesbrautinni þá en nei… þeir hafa ekkert þvælst fyrir mér. Ég fer greinilega ekki RÉTTU leiðirnar.
En á morgun ætla þeir að loka öllum leiðum út úr bænum og við erum á leið í Herjólf… úff þá koma blendnar tilfinningar til þeirra.  Geta þeir ekki bara lokað seinnipartinn af því að við förum fyrripartinn osfrv.
En þá er ég lélegur stuðningsaðili því um leið og þetta fer að bitna á mér þá er þetta ekki í lagi.  En ég hugga mig við eitt, Herjólfur fer náttúrulega ekkert ef enginn kemst til Þorlákshafnar þannig að líklega get ég alveg sett rauða slaufu á spegilinn til að sýna stuðning minn.

En þá að öðru… o mæ god ég get varla talað um það.  En ég sá frétt á vísir.is í morgun þar sem segir frá þessum sértrúarsöfnuði í Bandaríkjunum sem hefur komist upp með að misnota og nauðga litlum stúlkum árum saman án þess að yfirvöld geri nokkuð í málinu fyrr en núna nýlega.  16 ára stúlka í söfnuðinum á 4 börn sem þýðir að hún var um 12 ára þegar þú átti fyrsta barnið og hvað var hún þá gömul þegar þessir viðbjóðslegu karlar fóru að nauðga henni með samþykki foreldra hennar.  Með samþykki foreldra hennar!  Vitiði, ég myndi helst vilja sjá allt þetta lið sett í fangelsi, mæðurnar líka, ég nenni ekki að hlusta á að þær séu líka fórnarlömb osfrv.
Þú veður eld og brennistein fyrir barnið þitt, þú frekar lætur lífið en að láta einhvern karl misnota barnið þitt.  Þú gerir allt annað en að samþykkja þetta.
Það eina sem þessar mæður hefðu þurft að gera var að fara, punktur.

En þá að öðru skemmtilegra.  Ég er búin að fara tvisvar í þessari viku í Klaustrið í Hafnarfirði, í litlu sætu búðina sem nunnurnar reka og það kemst heilagur andi í mann við að koma þarna inn.   Ég reyndar byrjaði á að opna vitlausar dyr og heyrði þennan líka yndislega sálmasöng, ég stoppaði augnarblik og hlustaði og lokaði svo varlega hurðinni og prófaði næstu dyr.  Þar var miði á íslensku um að maður ætti bara dingla fast og mikið ef ekki yrði ansað þegar dinglað væri laust og lítið (jæja ekki orðað akkúrat svona en meiningin sú sama) og þær myndu opna því þær væru alltaf við.
Jæja fyrra skiptið til nunnana var smá fýluferð því pöntunin hennar Konnýar hafði týnst en þær ætluðu nú bara að redda kertinu fyrir fimmtudag eins og ekkert væri svo ég fór aftur í dag.

Þá voru staddir þarna inni, tveir unglingsstrákar að kaupa sér kross.  Þetta voru strákar með tattú og rassinn uppúr buxunum en þeir voru alsælir að einhver hefði bent þeim á þessa æðislegu búð þarna sem seldi krossa eins og þeir vildu.
Þetta var frekar absúrt sjón en notaleg.  Notalegt að sjá nunnuna afgreiða þessa stráka og sjá þá bera virðingu fyrir henni.
En þá að mér og kertinu sem ég átti að sækja, þetta er nú fallegasta kerti sem ég hef séð og nunnurnar voru miður sín yfir mistökunum með pöntunina og báðust afsökunar aftur og aftur en ég sagði þeim að hafa engar áhyggjur því allt hefði reddast.
Ég keypti líka handmáluð kort af þeim (fermingarkort og þau kosta ekki nema 450 kr. stykkið.  Ég meina það, handmáluð með dash af heilagleika með og ódýrara en fjöldaframleidd kort í blómabúðunum.
Mæli með kertum og kortum og krossum hjá Nunnunum í Hafnarfirði það verður enginn svikinn af því að versla þar.
Ég mæli með www.karmel.is

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.