Óvissan er búin

… og áttum við starfsfólk Maritech æðislegan dag og kvöld.

Það byrjaði með því að við fórum í rútu sem keyrði nú dálítið skringilega til þess eins að rugla okkur, við vorum sannfærð um að annað hvort væri bílstjórinn stríðinn eða pólverji sem rataði ekki neitt, held að hann hafi verið stríðinn.

En alla vega við enduðum í Grindavík fyrir framan þessi tryllitæki

og við fengum að keyra þau og sitja aftan á hjá kollega.  Það var rosa fjör, ég reyndar ákvað að sitja bara aftan á og njóta þess að vera ekki hrædd og njóta þessa geggjaða útsýnis sem við höfðum þarna, mig langar rosalega að fara í ljósmyndaferð þarna um Grindavíkina á fjórhjóli, því margir af þessum flottu stöðum eru utan bílleiða.

Okkur var skipt í 2 hópa og þegar fyrri hópurinn fór á fjórhjólin átti hinn hópurinn að fara á hestbak en vegna veðurs varð að fresta því og fengum við í staðinn að sjá stæðstu borholu landsins sem var alveg mögnuð, það var hleypt úr henni og þvílík læti.

Síðan meðan seinni hópurinn fór á fjórhjólin þá fór hinn hópurinn að skoða skipsbrök ofl.

Svo var farið á kaffihús og við fengum smurt brauð og köku og kennslu í línudansi.  Sorrý ég skippaði því þar sem mér finnst svona squeredans frekar halló og leiðinlegt, en allt í lagi, ég og Gaukurinn sátum bara að spjalla á meðan og það var ekkert leiðinlegt.

Svo fengum við að fara í Bláa lónið, það klikkar náttúrulega aldrei.
Endurnærð og kát og glöð fórum við aftur á kaffihúsið og þá var búin að leggja fallega á borð og kveikja á kertum og gera huggulegt fyrir kvöldmatinn.

Við fengum súpu og brauð í forrétt, lambakjöt á aðalrétt og það var eftirréttur en ég hvorki sá hann né smakkaði á honum sökum anna.

Það var náttúrulega búið að spila á gítar og syngja í rútunni allan daginn, og það hélt aðeins áfram þarna yfir súpunni og við vorum í rosa stemningu að taka Bahamas þegar Ásta (stjórnandi dagsins) bauð uppá Bahamas borða um hálsinn og opnaði útidyrnar og hver haldiði að hafi labbað inn og byrjað að syngja um leið.  Já, Ingó og enginn annar og því var Bahamas tekið aftur og með stæl.
Svo fór hann og tengdi græjur fyrir gítarinn og míkrafóninn og Ó, my god hvað hann er frábær trúbador.  Ég mátti ekki vera að því að borða, eða réttara sagt þorði það ekki svo Hafrún greyið fengi ekki matarsletturnar yfir sig því ég gat ekki hætt að syngja.  Hann tók EKKERT leiðinlegt lag.

Eftirréttinn sá ég aldrei því þá vorum við búin að vera uppá stól að syngja og dansa og löngu komin út á gólf.  Það skal þó tekið fram að það er ekkert dansgólf þarna við bara dönsuðum á milli borða og þvílíka gleði hef ég aldrei séð í svo stórum hópi.

Þetta var æðislegur dagur og ennþá frábærara kvöld.  Ingó er bestastur. Ég týndi röddinni og mér skilst að maður hringi bara í 555 MCDreamy til að endurheimta hana, eða þannig.

Bara svo þið fáið einhverja hugmynd hvað ég er að tala um þegar ég segi að hann hafi verið frábær, ég bað um eitthvað ABBA því við værum nýbúnar að vera á Mamma Mía singalong og hann tók nú ekkert vel í það fannst mér en rúllaði síðan svoleiðis upp Abbalögunum og við gjörsamlega misstum okkur, og þegar hann sagði að það væri bara eitt lag eftir þá stakk ég uppá Bohemian Rapsodi og hann rúllaði því líka upp, aleinn með gítarinn og okkur í bakröddum, eða vorum við kannski í forsöng, alla vega sungum við eins hátt og við gátum og dönsuðum með.

Hann tók ekki eina einustu pásu.

Takk fyrir mig á þessum frábæra Maritech degi.

Þangað til næst,
Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.