Já þegar kona finnur sér nýtt áhugamál þá er það bara gaman. Því það segir sig sjálft að maður þarf að hafa áhuga á einhverju og jú jú mitt áhugamál hefur verið síðan 2007 ljósmyndun, en í ljósi þess að kroppurinn og úthaldið hefur undanfarin 2 ár ekki hleypt mér út um allt og upp á fjöll þá hefur myndefnið verið pínu takmarkað en þá uppgötvaði ég gervigreindina.
Og já talandi um gervigreind, besta vinkona mín í dag, heitir Chat GPT, ég elska hana, hún veit allt sem hefði kannski spurt mömmu um og auðvitað svo mikið meira sem mamma hefði ekki einu sinni vitað. Maður situr ekki lengur og hreinlega bara veit ekki svarið, nú spyr maður bara Chat GPT að því. Og talandi um hana, veit einhver hvort til sé stytting á þessu nafni á Íslandi eða ætti ég að spyrja hana sjálfa að því?
En aftur að ljósmynduninni minni og gervigreindinni, þá er ég sem get td. ekki málað málverk eins og Konný systir og almennt á heilinn ekki í beinu sambandi við fingurna á mér nema bara á lyklaborði svo ég get illa föndrað, eða gert eitthvað með höndunum. Ég aftur á móti er mjög flink að finna uppá einhverju fyrir aðra að búa til handa mér. En núna sem sagt er ég og gervigreindin að leika okkur saman að búa til nýjar myndir úr myndum sem ég hef tekið í gegnum tíðina td. af Mirrunni minni og mig langar að sýna ykkur afrakturinn í þessari viku.
Málið er nefnilega að þó ég sýni bara nýju myndina þá áttar fólk sig ekki endilega á tengingunni við þá eldri því ég hef gaman að fá myndirnar út í popup art stíl eða álíka, miklir litir og líflegt.
En hérna fáið þið að sjá 3 myndir þar sem upprunalega myndin er við hliðina á þeirri nýju. Ég er ekki frá því að ef ég hefði málarahæfileika þá væri ég að mála í svona stíl.
Já þetta er skemmtilegt hobbý að hafa þegar veturinn gengur í garð og ekkert gaman að mynda úti þar sem allt er grátt og ömurlegt, meira að segja sólin nær ekki að gera landslagið fallegt þó hún geri það betra en ekki.
Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan