Ég heyrði viðtal í morgun við Hörð Torfason sem vakti hjá mér alls konar minningar, ég reyndar man ekki eftir mér öðruvísi en hann hafi verið búinn að opinbera sig og lenda í hremmingum þess vegna en það er annað sem þetta viðtal vakti upp hjá mér og það er að með aldrinum er ég farin að gleyma textum sem ég einu sinni kunni alveg. Hvort það sé vegna þess að ég hlusta ekki eins mikið á tónlist og ég gerði ( já örugglega ) eða aldurinn ( já örugglega líka ) þá alla vega minntist ég uppáhaldsplötunnar minnar með Herði og fór að hlusta á hana í morgun og já í morgun var ég komin á fætur kl. 4.45 af því ég vaknaði uppúr kl. 3 og náði ekki að sofna svo ég keyrði Þráni bara í vinnu og fór sjálf eldsnemma. Svo núna er ég búin að vera vakandi í nokkra tíma þegar þið eruð að skríða á fætur. Allt í góðu með það, ég legg mig bara á eftir eins og ég er vön.
En aftur að Herði og uppáhaldsplötunni en hún heitir Hugflæði sem er náttúrulega alveg óstjórnlega fallegt orð. Og það að Hörður sé söngvaskáld er jafn dásamlegt. Ég hefði kannski verið til í að vera söngvaskáld. Ég hef gaman að orðum og gaman að syngja en held ég skilji ekki hvernig fólk getur spilað á gítar, svo þar er ég ekki í góðum málum. Ég fékk diskinn með Herði um það leiti sem ég verð ólétt að Ástrós Mirru og hlustaði ég mjög mikið á hann þá og alveg þar til hún var 2ja til 3ja ára. Hann var bara alltaf í bílnum og það sem ég elska við þennan disk og marga aðra hjá Herði það eru sögurnar sem hann segir. Þetta er ekki bara lag og texti heldur heil saga hvert lag. Og lagið “Línudansarinn” er svo magnað að meira segja ég í morgun að hlusta verð spennt eins og lítið barn.
Til að skilja áframhaldið af þessu bloggi þá verðið þið að hlusta á þetta lag frá upphafi til enda og þá meina ég hlusta á textann og kannski sækja barnið í ykkur og verða svo spennt að þið haldið niðrí ykkur andanum.
Ég alla vega hlustaði mjög mikið á þetta lag með Ástrós Mirru í bílnum (við áttum bara einn bíl og þurftum að vera að sækja og skutla svo þá var gott að hafa eitthvað skemmtilegt að hlusta á) og svo kemur að því að það er “Menningarnótt” og við hjónin erum að plana hvað við viljum sjá og heyra þar sem við vorum með barn í kerru og þurftum að taka tillit til þess. Þarna var eitthvað Eyjadæmi í Ráðhúsinu og svo eitthvað smávegis meira spennandi af list og listamönnum en það sem ég var spenntust fyrir var “Línudansinn” sem átti að vera niður á Hallærisplani. Við pökkuðum teppi og nesti og alls konar og áttum góðan dag saman og svo líður að því að línudansinn á að byrja og ég er orðin rosalega spennt, eins spennt og ég verð þegar ég hlusta á þetta lag. Við drífum okkur niðrá hallærisplanið og ég fer að horfa upp, til að reyna að átta mig á hvar línan er strengd, datt helst í hug morgunblaðshúsið yfir að einhverju húsi þarna í hvosinni á móti en ég á eitthvað erfitt með að átta mig á því hvar línan er. Og jú jú við erum þarna mjög spennt, sérstaklega ég, Ástrós Mirra of lítil til að skilja og Þráinn bara skilningsríkur því hann vissi ég var spennt fyrir þessu. Og hver er það, sem ætlar að ganga þarna á línu milli húsanna við Hallærisplanið? En svo er atriðið kynnt og ég skil ekkert. Það er engin lína og það er engin spenna yfir svona ótrúlegu atriði sem mögulega á að fara að framkvæma en allt í einu hljómar kántrímúsík í hátölurunum (úff ég hélt það væri betra að vera með þögn í svona áhættuatriði) og inná sviðið labbar hópur eldri borgara með kúrekahatta og fer að dansa einhvern kántrídans. Hvar er línudansarinn? Hvað er að gerast! Þá allt í einu segir Þráinn: “Já, línudans” og ég fatta…………………………………………………………
Mestu vonbrigði lífs míns hef ég oft sagt og ég held ég geti næstum sagt það ennþá.
Ef þið hafið hlustað á lagið með sálinni þá fattiði hvað ég er að meina.
En svo er annað lag á þessari sömu plötu sem elska líka og það byrjaði ég að spila áður en Mirran fæddist þannig að hún heyrði það lag alla meðgönguna og fyrstu árin sín og ábyggilega oft seinna en sjaldnar kannski þá, en það er lagið “Litli víkingur” og það er svo fallegur textinn þar og drengurinn svo mikið krútt sem syngur með Herði í því lagi.
Sýndu öllum gleðibros þitt, litli ljúflingur.
Láttu allan heiminn vita að þú ert snillingur.
Efst til hæða allt má ræða,
augu þín ljóma,
þeyttan rjóma færðu víkingur.
Verndi þig heilagur kraftur.
Núna og aftur og aftur og aftur.
Brosi allur heimur til þín, gegnum litað gler
svo guðdómlegur svipur setjist beint á andlit þér.
Glæður, aska, hálftæmd taska,
hugljúfir straumar,
stórir draumar rætast aðeins hér.
Verndi þig heilagi kraftur.
Núna og aftur og aftur og aftur.
Svífðu eins og korn í vindi, skrautlegt hláturský.
Njóttu lífsins alla daga, lærðu að treysta því.
Eins og bátur svífur hlátur
innan í mér.
Úr augum þér kom lífsgleðin á ný.
Verndi þig heilagur kraftur.
Núna og aftur og aftur og aftur.
Njótið dagsins elskurnar og endilega bendið mér á einhverjar gamlar perlur sem gott væri að rifja textann upp, því ég ætla markvisst að bæta mig í söngtextum. Hef líka heyrt að það sé svo gott fyrir minnið þegar við eldumst. Og spáið í það, hann Hörður er 80 ára að skrifa bók og enn að semja lög og texta og berjast fyrir réttindum manna.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna á Nesan.