Og meira af Nesan 7….

03.01.2016

Já gott fólk það styttist í flutninga og ég einhvern veginn get ekki hugsað um neitt annað og hendurnar eru farnar að mála í svefni og færa til húsgögn og laga til en á meðan er fyrri eigandi ekki búinn að tæma húsið en við samt komin með lykil svo við getum hent inn stöku kassa til að flýta fyrir en ég gæti alveg farið á meira fullt og tekið fullt af húsgögnum í okkar eigin bíl en ég ætla nú að leyfa manninum að þrífa húsið fyrst og því verð ég að sitja á honum stóra mínum og sýna þolinmæði.  Ha, þolinmæði hvað er það?  Ég get sýnt afburðaþolinmæði þegar ég er að vinna í tölvum og laga eitthvað þar, þegar ég talaði við kúnnana í Wise en þegar kemur að einhverju persónulegu hjá mér þá er ég hreinlega að springa og get ekkert gert nema beðið og allt fríið einhvern veginn búið að fara í það að bíða.

En við hjónin fórum í kassaferð í gær og tókum með okkur ljósaperur svo ég gæti nú sýnt ykkur “glimp” af herbergjunum sem voru síðast í myrkri og þar ber fyrst heimasætuherbergið sem verður geggjað þegar hún verður búin að setja þar inn skrifborð, tvíbreitt rúm og náttborð ásamt nýjum hornsófa sem hún fær að kaupa sér.  Við lauslega mældum þetta herbergi síðast þegar við vorum og okkur sýnist það um 23 fm og þegar búið verður að mála alla veggi nema einn hvíta og þennan eina rauða, kominn svartur svefnsófi, svart rúm ofl. þá verður þetta sjúklega flott unglingaherbergi.  Hlakka til að leyfa heimasætunni að innrétta það alveg sjálfri.

Svo er það gestaherbergið, ég næstum vill ekki sýna ykkur það svona fullt af drasli en ég er sko með ákveðnar hugmyndir um hvernig það verður þegar mamma, Klara og Konný koma í heimsókn í sumar, veit ekki hvort ég verði búin með það næst þegar Óli kemur en kannski bara, ég ætla ekkert að dunda við hlutina á Nesan 7 frekar en fyrri daginn 🙂

Þarna sést helmingur gestaherbergisins og þarna hafði ég hugsað mér að gestarúmið yrði.

Svo til hliðar er þessi gluggi og þarna má setja stól og kannski borð þegar það finnst á næsta loppumarkaði.

Á þennan vegg er ætlunin að setja stóran spegill og þægilegan stól fyrir framan, og getiði nú út af hverju?

Hérna sjáið þið svo hinar tvær hurðarnar á gestaherberginu en þær eru sem sagt 3 þar og ein fer út, ein í þvottahúsið og ein í eldhúsið, ég myndi nú bara vilja loka þessari í þvottahúsið eða bara taka hana af en það gerist nú ekki alveg strax.

Þetta er eini skápurinn í húsinu og ég bað um að hann yrði skilinn eftir því einhvers staðar verða fötin okkar að vera, reyndar eru plönin að kaupa fataslár á hjólum í Ikea eina á mann og nokkrar kommóður en það er gott að geyma eitthvað sem er minna notað þarna í gestaberginu og hafa eitthvað fyrir gestina þegar þeir koma.

Já að lokum tók ég myndir í privatinu hans Þráins það er loftinu yfir bílskúrnum (bílskúrinn er eftir það var of mikið myrkur og drasl þar inni í gær) en þarna ætlar hann að búa mestan partinn eftir því sem mér skilst, bæði uppi og niðri, það eru plön að hafa ískáp þarna fyrir bjórinn og annað skemmtilegt.

Þetta er talsvert stórt loft og einfalt að nýta sem aukagestaherbergi á sumrin en ég held það sé ekki næg einangrun til að nota það þannig á veturna.  En alla vega bara flott loftherbergi.

Og fyrir innan er svo þetta herbergi sem er bara fluguhnýtingarherbergi ef ég sé nógu vel hvað fyrri eigandi hefur verið að gera þarna.

Minn kall er sko ánægður með þessar vistaverur og takið eftir þessu fallega rauða teppi sem er þarna á gólfunum, eitthvað svo karlmannlegt ha ha ha.

En af kallinum mínum er það að frétta að hann fékk influensu og er eiginlega búinn að vera veikur síðan á Þorláksmessu hann tók þó smá pásu frá veikindunum og fór með okkur til Stavanger 27 des. og út í stóran göngutúr með mér 28 des en hann hefði kannski átt að sleppa því hann varð svo miklu verri eftir það og er búinn að liggja í rúminu (eða sófanum) síðan hundlasinn en sýndist í gær að hann væri á batavegi og við krossleggjum fingur að þetta sé búið núna, gaman fyrir hann að eyða öllu jólafríinu í þetta.

En ég var ansi ströng við hann í gær og þegar hann vildi fara uppí hús þá sagði ég að hann mætti keyra en ekki bera kassa og ég sagði að ef nágrannarnir hefði séð til okkar, þe. hann bakkaði bílnum upp að húsi, labbaði svo inn og sást ekki meir meðan ég tók alla kassana og bar þá inn, þá hefðu þeir kannski bara séð eðlilega mynd af okkur, alla vega minnir þetta óneitanlega á þegar ég er að fúaverja í bústaðnum og hann situr úti í garði með lappirnar uppá borði og sötrar bjór.

En af veðrinu er það að frétta að það er komin snjóföl á götunar, næst ekki í snjóbolta en svo er pínu kalt og hávaðarok á Mandalsmælikvarða.  Ekki beint skemmtilegt flutningaveður þegar hurðarnar skella upp í rokinu en vonandi verður aðeins farið að lægja þegar við flytjum vonandi um næstu helgi.

Þangað til næst, ykkar Kristin Jona

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.