Já minn kæri eiginmaður er að umpotta þessa dagana. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að hann verði búinn að því fyrir gamlársdag því mér hugnast ekki rótaríið og draslið í kringum þetta hjá honum.
Reyndar byrjaði hann á þessu verkefni talsvert fyrir jól og gamli potturinn fór upp daginn fyrir þorláksmessu en þá tók við hönnun og smíðar til að gera allt sem réttast og best fyrir nýja pottinn sem beið bara í innkeyrslunni og lét ekki á sér bæra fyrr en í gær.
En þá var hann hreinlega tekinn upp og rúllað upp tröppur og niður tröppur og eftir öllum garðinum. En hann hafði verið þarna í innkeyrslunni upp á endann á bretti.
Þegar kemur að einhverju svona löguðu er ég nú aldeilis betri en enginn og saman rúlluðum við hjónin og lyftum pottinum eftir því sem þurfti alla leið niður á réttan stað.
En þá var Þráinn búinn að gera þetta flotta skapalón fyrst, og smíða svo ofan í jörðina varanlega undirbyggingu undir pottinn.
Spurning að vefja jólaseríu utan um þetta skapalón og láta standa einhvers staðar næstu jól. Synd að henda þessu listaverki bara í ruslið.
Og svona lítur undirbyggingin út og allt klárt til að hífa pottinn niður. Já þið haldið auðvitað að ég hafi bara haldið öðrum megin og Þráinn hinum megin en það var ekki alveg svo gott, sterk er ég en ekki alveg svona….
Potturinn er nú sjálfsagt meira en 100 kg þó hann sé ekkert svoooo þungur. En hérna er sko allt að verða klárt, búið að tengja hreinsibúnaðinn og frárennslið og allt.
Og búið að setja strappa á pottinn á 3 staði, Þráinn, Arnfinn og ÉG á móti þeim tveimur.
En að sjálfsögðu engin mynd tekin þegar sú gamla tekur á því með strákunum en potturinn kominn niður og þá er bara að fara að tengja og ef ég er ekki alvitlaus þá verður hreinlega generalprufa í kvöld.
Fínisering á vegg og hillum og listum í kringum pottinn kemur seinna – líklega betra að smíða það í þíðu.
Sem sagt Þráinn Óskarsson er búinn að umpotta og ég er ekki frá því að það verði pottapartí á gamlárskvöld eins og mig var búið að langa til. Hvað er betra en sitja í heitum potti með góðum vinum, kampavín og íslensk tónlist.
Eigið frábæra daga fram að gamlárs kæru vinir og munið að lífið er núna.
Ykkar Kristín á Nesan.