Júlí 2020

Júlí er sumarleyfismánuður Norðmanna og menn eins og Þráinn sem vinna í verksmiðjum fá sjaldnast að velja sér sumarfrí. Í Sørlamineringen er það alltaf frá 2 viku í júlí og í 3 vikur, svo er ein vika tekin í kringum jólin og eitthvað um páska. Reyndar geta þeir sem eru með börn tekið eitthvað í vetrarfríinu eða haustfríinu.

Þetta er búið að vera smá svona tónlistarmanna/kvenna sumar hjá okkur sem byrjaði á því að hinn eini og sanni Doddi Gumm sem er einn af tónskáldum eyjanna (því hann samdi eitt þjóðhátíðarlagið) kom í heimsókn og gisti hjá okkur eina nótt. Við áttum kósístund saman með gítarspili og söng.

Næst kom Jónína Aradóttir söngkona og hélt hún smá tónleika í garðinum okkar og urðu Jan nágranni og Aslak vinur hans alveg heillaðir af henni og er ég búin að vera í sambandi við Høgtun kultursenter hérna í Marnardal til að athuga hvort Jónína geti fengið að halda tónleika þar, fékk reyndar að vita að kulturhúsið verði 100 ára á næsta ári og þá gæti þetta orðið að veruleika, en sjáum hvað gerist.

Jónína var á tónleikaferðalagi og við tókum smá ferðalag saman svo þegar fríið okkar byrjaði og fórum saman til Stavanger en þar skildu síðan leiðir þar sem við vorum á leiðinni til Bergen en hún til Haugasunds.

Þegar maður er í sumargleði þá er maður í sumargleði og setur á sig blóm og sólgleraugu.

En þá hófst ferðalagið til Bergen með Anders og Önnu Svölu en Anders kemur frá eyju við Bergen sem heitir Lerøy sem er sama og eftirnafnið hans.


Við fengum dásemdarveður ferðadaginn og svo daginn sem við fórum út í eyju en sunnudagurinn var svona týpískur Bergen með rigningu og leiðindaveðri svo við fórum bara fyrr en áætlað var heim, það nennir enginn að skoða sig um í rigninu.

Við skoðuðum okkur um í Bergen en vorum samt mest að njóta og hitta fólk sem ég hef aldrei áður en þekkt í dálítinn tíma, það var alveg æðislegt. Þarna bjuggum við Anna Svala líka til smá leikþátt þar sem við höfðum farið með kláf uppá fjall til að skoða útsýnið en svo var svo löng röð í kláfinn aftur niður að ákveðið var að ganga og ég ekki í góðum skóm, og drap mig í tánum (enda gengið bara niður í móti) og leggjunum svo við lékum það að ég væri að láta leggja mig inná elló en hættum við og svo endaði ég skríðandi inná hótel, við hlógum þvílíkt að okkur sjálfum og vitum reyndar að það gerðu örfáir aðrir en mig grunar nú að fólk hafi haldið að við værum dauðadrukknar þarna um hábjartan daginn en aldrei slíku vant vorum við ekki búnar að drekka neitt.

Dagurinn eftir var skelfilegur og ekki bara út af rigningunni heldur harðsperrum og sárum tám líka en það lagaðist eftir nokkra daga. Gleðin, góður matur og góður félagsskapur voru fín lækning.

Frá Bergen fórum við aftur til Stavanger og stoppuðum þar eina nótt áður en við skelltum okkur aftur heim.

Heima var svo kósað sig endalaust með góðum mat og góðum félagsskap.

Svo fékk ég loksins að prófa kajak sem var æðislegt og er stefnan að kaupa kajak handa mér fyrir næsta sumar.

Þá var okkur óvænt boðið í bústað rétt hjá Lillehammer sem við þáðum og keyrðum alla leið til Kolbotn fyrst til Höddu, stoppuðum smá í Osló að kósa okkur og hittum þar óvænt Lovísu og Natalie.

Jæja næst var það sumarbústaðurinn sem er í Guðbrandsdalnum rétt við Lillehammer og þar áttum við nokkra yndislega daga með Höddu vinkonu og Eika syni hennar. Við grilluðum, drukkum smá og sungum geðveikt mikið svo þetta var mikil gleði og mikið gaman.

En þá heim aftur og vinnan byrjaði, ég vann í tvær vikur við ræstingar á elliheimilinu í Mandal og uppgötvaði að þó ég væri heimsins versta hjúkka þá ætti ég samt til smá umhyggju og gæði við gamla fólkið og náði meira að segja að aðstoða eina sem upplifði að hún hefði lent þarna með geimskipi því hún vissi ekki hver hún var eða hvað hún væri að gera þarna. Ég gat hjálpað henni því allir sem vinna við ummönnunina voru uppteknir í rapporti eins og alla morgna. Einnig náði ég góðum kontakt við einn kall sem gaf mér knús og klem þegar hann fór aftur heim. Sko þessi deild sem ég vann á er bara fyrir svona hvíldarinnlagnir og bið eftir varanlegum plássum svo sjúklingarnir stoppa stutt.

Alla vega ég gat þetta án þess að vera litin hornauga vegna þess að ég hef ekki áhuga á að vera í umönnun sjúklinga. Finnst bara fínt að fá að skúra í friði. Ein sem hefur unnið of lengi alein og líkar það best í dag.

Svo í lok júlí kom sumarið aftur í Noregi og við erum búin að vera með um 26 stiga hita og sól í 3 vikur sem er bara dásamlegt.

En þangað til næst, ykkar Stína á Nesan

ps. ég gleymdi að segja ykkur frá því að mér fannst svo flott að Anders bæri sama nafn og eyjan við Bergen og húsið hans á eyjunni líkist bara Höfða á Íslandi svo ég sagði við hann í gríni að hann væri ábyggilega “Kongen av Bergen” og það þyrfti nú kannski bara að semja lag um hann.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.