NÝTT ÁR

Já nú er bara komið nýtt ár, árið 2025 og við höfum kvatt það gamla sem var sko viðburðarríkt hjá okkur þó við getum ekki stælt okkur af mörgum utanlandsferðunum en þar sem ég er “tré” þá verða þær sjálfsagt aldrei hvort eð er, margar. Ég elska lífið okkar á Nesan og að taka á móti gestum þar og gera alls konar með þeim.

Hvernig þetta ár verður, veit nú enginn en við ætlum ekki að framkvæma eins mikið á þessu ári eins og í fyrra, heldur bara æfa okkur enn meira að sigla BRAVO um eyjarnar við Mandal, njóta SLOTTSINS og borða hollara og hreyfa mig meira. Já já þetta eru auðvitað árlegar óskir þe. matur og hreyfing en ég held ég sé kannski betur innstillt á það núna, þe. þegar snjórinn fer, fer ég að hreyfa mig ha ha alltaf hægt að finna afsakanir en ég meina þetta núna.

Ég gleymdi alveg að segja ykkur frá því í fyrra að Mirra og Helge fengu sér hvolp sem er auðvitað sætasti hvolpur í heimi eins og sjá má á þessum myndum.

Og það er auðvitað alltaf meira líf þegar eitthvað ungviði kemur í húsið eins og jólin okkar sýndu. En hún Litla (en það heitir hún) er strax, vel upp alin og dásamleg. Hlakka til að fylgjast með henni stækka og dafna.

Ég ætla að vera duglegri að taka myndir fyrir sjálfa mig og ykkur á þessu ári og einnig að læra meira og betur hvernig ég get gert myndir með aðstoð AI en ég hef alveg hugsað það að ég þurfi næstum að finna mér fleiri áhugamál en það poppar ekkert upp. Mig langar alveg að geta unnið eitthvað í við en veit ekkert hvar ég ætti að byrja og svo hef ég bara aldrei trú á neinu sem ég þarf að gera með höndunum því skilaboðin frá heila niður í fingur eru bara ekkert alltaf að skila sér. Þess vegna hefur ljósmyndunin og tölvuvinnan gefið mér svo mikið því ég kann sko heldur betur vel á lyklaborð og mús og þar skila, skilaboðin sér alveg rétt. Svo ætla ég kannski að reyna að vera duglegri að setja inn nýjar uppskriftir í bloggið mitt og þá mynda matinn í leiðinni, því mér finnst svo gaman að setja matinn fallega uppá disk og því þá ekki að deila uppskriftinni og taka myndir.

En akkúrat núna er allt á kafi í snjó hérna og ég lenti nú í því í gær að komast ekki heim úr vinnu því það hafði tré fallið þvert yfir veginn og ég sem fer oftast í panikk við allt sem viðkemur bíl og umferð, sneri bara við en tók fyrst myndir og staðsetningu og hringdi svo í Vegvesenið (vegagerðin, hérna í noregi heitir allt eitthvað vesen) og lét vita af þessu og fór til baka í íþróttahúsið sem ég er að skúra í og ákvað að bíða þar eitthvað, en rafmagnið hafði farið af öllu þorpinu og svo var snjófjúk þannig að ég var bara skíthrædd að verða innilokuð. En eftir rúman klukkutíma sé ég bíla koma úr sitthvorri áttinni og giskaði þá á að það væri búið að opna veginn, sem það var. En á leiðinni heim taldi ég átta tré, fallin yfir veginn en sem betur fer ekki þannig að þau lokuðu báðum akreinum, svo það var hægt að keyra framhjá þeim. En þetta snjókaos hérna hjá okkur núna hefur heldur betur verið kaos því strax eftir að allur snjórinn kom, kom þíða og það þýðir rigning ofan í snjóinn og hann verður svo þungur er erfiður í meðförum, þú sópar honum ekkert. Og eftir rigninguna í dag, á að frysta aftur svo úps, það verður glerhált.

Þangað til næst, ykkar Kristin á Nesan

Ps. það er kannski ekkert vitlaust að fara meira í matarbloggið og myndatökur, þetta er td. nestið hans Þráins í dag. Lúkkar vel og er svo hollt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.