FÖSTUDAGSBAKKINN

Já hvað skyldi það nú vera? Jú, þar sem ég er að taka út hveiti og sykur þá verður ekki lengur pizza á föstudögum. Kannski seinna og þá glútenfrí en akkúrat núna er best að sleppa henni svo það kalli ekki á meira hveitiát hjá mér.

En já aftur að föstudagsbakkanum þá er það í rauninni alls konar fingramatur sem er innan hollustunnar sem ég er að temja mér núna og skiptir þá miklu máli að nota hugmyndaflugið til að gera þetta meira aðlaðandi og skemmtilegt að borða.

Síðasta föstudag (var ekki búin að ákveða matarblogg og myndatökur þá) var ég með rúgbrauð með reyktum laxi og kartöflusalati ofaná, parmaskinka, hrökkbrauð, ostur og paprika niðurskorin. Allt smakkaðist æðislega og bara svo gaman að borða þetta.

Jú jú haldiði að ég hafi ekki fundið mynd. Auðvitað tók ég mynd af þessum bakka, ég var svo ánægð með hann.

En föstudagsbakkinn í kvöld verður ekki alveg eins en kannski svipaður, nema ég ætla að prófa í fyrsta sinn Avókadó stangir sem eru í rauninni bara maukað gamalt avókadó, egg og rifinn ostur og bakað í airfryer á 200° í 12 mín. Geggjað gott.

Svo er á bakkanum gúrka, brokkolí og gulrætur með hollri ídýfu, salamí sneiðar, rúgbrauð með laxi og kotasælu, hrökkbrauð og ostur. Með þessu þá sameina ég kvöldmat og föstudagskósýmat því það þýðir að sjálfsögðu ekkert að vera að breyta hugarfari í matargerð og fá sér svo snakk á föstudögum.

Til gamans má ég til að segja ykkur að þessi blóm sem ég er með þarna á myndunum, þessi tvö fremri eru ræktun frá Ástrós Mirru en hún hefur óskaplega mikinn áhuga á blómarækt og er að rækta alls konar skrítnar plöntur og svo fá sumar að fara í fóstur til mín. Sýni ykkur kannski meira af plöntunum hennar seinna. En þessar passa svo vel á eldhúsborðið því þær eru litlar og í grænum pottum. Ha, grænt, finnst mér það fallegur litur? Ha, ha ha. Hænurnar á bakvið koma frá mömmu svo mér þykir vænt um þær í eldhúsinu mínu. Og já þessi bakki er líka gjöf frá mömmu en ábyggilega hátt í 40 ára gamall, hún gaf hann sem brauðtertubakka og jú þegar er gerð brauðterta þá er hann notaður en líka í svona hollustur.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.