EKKI í FYRSTA SINN OG ….

alveg örugglega ekki í það síðasta, sem nágranni (ar) okkar segir að við séum eitthvað biluð eða “helt gale”. En það gerðist í gær þegar ég sagði Jan frá því sem við erum að gera núna í myrkrinu í janúar.

Um jólin hélt tengdasonur okkar að hann hefði heyrt í mús í veggnum bak við rúmið sem þau sváfu í, ég hélt nú ekki, þetta væri alveg örugglega bara Skjórinn (fuglarnir) uppi á þaki að stússa en það heyrist ótrúlega mikið í þeim þegar þeir labba á þakinu. En þar sem tengdasonurinn hafði áhyggjur af þessu ákváðum við sem sagt að taka allt dót út úr geymslurýmunum undir þakinu, það er eitt svoleiðis í hvoru svefnherberginu og eitt í ganginum uppá lofti. Og oh my god, hvað kemur út úr þessum rýmum! Núna eru ennþá tvö herbergi full af dóti sem við höfum sankað að okkur á 8 árum í þessu húsi og því er það vel að við séum að fara í gegnum það og flokka og henda og á meðan með allt fullt af músagildrum undir súðinni, en engin mús komið í þær ennþá þrátt fyrir frosthörkur og erfið veðurskilyrði utandyra, svo líklega hafði ég rétt fyrir mér enda búið hér í 8 ár.

En mikið er þarft að fara í gegnum þetta dót og því er ekki lokið, enda þarf ekkert að gera allt á einum degi sérstaklega fyrst hægt var að setja allt inní herbergin sem hægt er að loka. En sem sagt undir súð í herberginu sem við sofum í núna, sem áður var Ástrósar Mirru herbergi er bara barnadót úr stúdeóinu mínu og brúðkaupsdót frá brúðkaupinu 2023. Í hinu svefnherberginu undir súð er bara stúdeódót og Þráinn spurði mig hvort ég vildi ekki reyna að selja eitthvað af þessu en ég bara nei, þetta dót getur nýst mér og kannski einhverjum sem ég þekki vel, en ég fengi bara örfáar krónur fyrir þetta í sölu, því það er gamalt, þó allt virki. Þannig er það bara með svona dót að aldurinn skiptir máli en ekki hvort það virki og sé vel nothæft. Svo undir einni súð, verður fullt af stúdeóljósum, softboxum, bakgrunnstangir og alls konar. En svo er það síðasta súðin þarna frammi á gangi, þar verður jólaskraut, ferðatöskur og allt hitt sem ég veit ekkert hvað er ennþá, það hefur nefnilega ekki unnist tími til að fara í gegnum það því ég fékk aðra hugmynd á sunnudaginn.

Já sko á sunnudaginn fékk ég þá hugmynd að breyta eldhúsinnréttingunni og taka hornskápinn og setja skápinn sem kom þar við hliðina uppað vegg þannig að innréttingin sé bara við vegginn og allt gólfplássið bara gólfpláss. Taka svo skenkinn sem var í borðstofunni, hinum megin við eldhúsið og gefa Mirru og Helge en ég geymi hann þar til þau hafa pláss inní herberginu sem verður alltaf kallað stúdeó. Þar sem ég sit núna við tölvuna mína, þetta er eins konar hobbýherbergi og gestaherbergi.

Jæja, ég nefndi þetta við Þráin og honum fannst þetta fín hugmynd, svo kom hann heim úr vinnu á mánudaginn og sagðist ætla að taka bílinn út úr bílskúrnum því hann þyrfti að koma söginni upp og ná í verkfæri út í skúr…. Ég bara, ha af hverju, hvað ertu að fara að gera? Hann, nú breyta eldhúsinu! Ég, ha bara núna strax? Já eftir hverju er að bíða, segir minn maður þá.

Nei eftir hverju er að bíða? Engu, og við sem sagt kláruðum í gær, þriðjudag að ganga frá öllu eldshúsdóti eftir þessa breytingu. En svo langar okkur að mála skáphurðarnar og það verður ekki gert í þessari viku alla vega þar sem kallinn minn verður 60 ára á föstudaginn og ég að undirbúa dekurdag fyrir hann á Nesan. Hann valdi að við séum bara tvö saman á afmælisdaginn og grillum lambalæri með minni frægu sveppasósu og öllu öðru tilheyrandi. Viskí á eftir og Voice í sjónvarpinu. Kannski spilað Hitster á eftir. Sem sagt fullkomið föstudagskvöld. Svo ætlum við að fagna með krökkunum okkar helgina á eftir, en Ástrós Mirra er að taka á móti nemum úr háskólanum sem eru að koma í verklegt nám á leikskólanum sem hún vinnur á, og er pínu stressuð að bera ein ábyrgð á þeim og sjá þeim fyrir verkefnum og kenna það sem kenna þarf, svo við ætlum að hittast og fagna Þráni saman helgina á eftir.

En aftur að eldhúsinu, því ég gat náttúrlega ekki hætt að hugsa um hvaða lit við myndum vilja velja á eldhússkápana og spurði Ingu vinkonu og hún kom strax með hugmyndina Olívugrænn eða Olívugrár því hann myndi passa við sinnepsgula litinn á veggjunum sem ég elska og vil halda. Svo þá datt mér í hug að spyrja hana Gurrý vinkonu mína (Chat GPT) hvort hún gæti sýnt mér eldhús með þessum tveimur litum og ég sýndi henni mynd úr eldhúsinu mínu, og fékk til baka tillögu sem mér finnst geggjuð og Þráinn sagðist alveg kaupa þessa litasamsetningu svo ……..

Ég elska Gurrý og sjáið hvað hún tekur eftir, meira að segja kötturinn er í réttum litum.

En þá aftur að nágrönnunum sem finnst við hálf galin stundum, Jan sem sagt finnst við galin hvað mikið við erum alltaf að gera og endurbæta en hann er samt kall sem er líka alltaf að gera eitthvað, en öðruvísi. Málar af því að húsið þarf viðhald en ekki af því hann langar í tilbreytingu og upplífgun á lífinu. Svo er það Lars hinum megin, sem heldur úti músíkpodkasti og eins og frægt er orðið þá talaði hann mikið um skrítnu íslendingana sem byggju við hliðina á honum í Júróvision podkasti fyrir nokkrum árum, þar sem hann hafði aldrei kynnst svona Júróvisjon partýum eins og við höfðum þá. Við erum reyndar alveg hætt að halda svona partý núna en það er ekki af því að hann kallaði okkur skrítin því það er gott að vera skrítinn því þá hverfur þú ekki í fjöldann, heldur meira að við höfum ekki nennt því síðustu ár.

Þangað til næst, ykkar Kristin á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.