10.11.2016
hvað er nú eiginlega það? Og það er von þið spyrjið. Einar sem við keyptum húsið af og vinnufélagi Þráins fór að segja honum frá að það ætti að vera Kjempesprekken 2016 fyrsta laugardag í nóvember, þetta væri árlegur viðburður sem við ættum endilega að taka þátt í.
Þráinn spurði hann nú aðeins nánar út í þetta og fékk út úr honum að það væri ganga/hlaup um morguninn með nokkrum stoppum þar sem væri matur og huggulegheit og svo væri fest um kvöldið með mat og drykk og hljómsveit.
Hljómaði vel.
En sko hvað á að labba langt, hvað kostar, hvaða hljómsveit, hvernig matur, hvernig vín, hvað kostar, hvernig er þetta allt saman voru spurningar sem lágu á mér en Einar gat ekki svarað. Sko Einar er ekki á FB, hann á ekki email og hringdi bara í vin sinn og skráði okkur.
Humm týpiskt norskt að fá engar upplýsingar. Þetta er eitt að því leiðinlega hérna. Sem dæmi um samskiptaleysi, yfirmaður minn sendir mér sms og ég skil ekki um hvað það snýst því það eru kannski 4 orð í smsinu og ég sendi til baka og spyr meira og hún svarar allt of stutt aftur og ég sendi til baka enn aftur og spyr meira og eftir kannski 3 skilaboð fram og til baka þá er ég búin að skilja það að ég eigi ekki að fara á minn venjulega vinnustað heldur annan stað næsta dag osfrv. Og já þannig var þetta með Kjempesprekken 2016 nánast engar upplýsingar svo ég fer á FB og leita en finn fyrst ekkert. Fer á Google og leita og finn ekkert og ef ég hefði spurt hana Höddu vinkonu sem er “Social media marketing” manneskja þá hefði hún sagt að það væri eitthvað einkennilegt við þennan viðburð því jú í dag þá finnast upplýsingar um allt á netinu.
En nei ekkert, en ég gefst ekki alveg upp og finn á endanum að einhver hefur sent inn fyrirspurn á “Vi i Marnardal” grúbbuna og spyr um viðburðinn og fær svar. Það er búið að senda út email á alla.
Nei, sami aðili svaraði að hann hefði ekki fengið neitt email og þá póstar einhver texta úr emailinu í svar til hans. Jeiiiii komnar upplýsingar og ég ákvað að láta þær duga. Það voru samt engan veginn svör við öllum mínum spurningum þarna en eins og ég segi ég ákvað að taka Pollíönnu á þetta og láta þetta duga.
Kjempeprekken 2016 þetta er bara svo skemmtilegt nafn að ég bara verð að fara.
Einar sagði okkur líka að þeir nágrannarnir byrjuðu oft að fá sér øl áður en þeir færu af stað og okkur fannst það nú óþarfi þar sem þetta byrjaði hálf tíu en þeir um það. Komst svo að því seinna að það sem hann meinti var að þeir hittust fyrir ballið um kvöldið og fengju sér øl. Það er allt annað mál.
En ég ákvað að senda email á fyrri manneskjuna sem gefið var upp að tæki við skráningum en fæ ekkert svar næstu 2 daga svo ég sendi á hina og fékk reyndar svar strax og nánari upplýsingar um kvöldið en þær voru ekki nánari en það sem ég hafði fundið. En hvað um það, ég ætla í þetta og vona bara það besta.
Dagurinn nálgast og það spáir rigningu, æi það gerir ekkert til, ég ætla bara að vera jákvæð og taka því sem kemur. Julie vinkona kom til okkar á föstudagskvöldinu og við fórum í stampinn og áttum kozy föstudagskvöld með spjalli, øli og musik og ég passaði mig nú að halda øldrykkjunni í hófi svo ég væri nú hress klukkan 9 morguninn eftir sem ég svo var en fljótlega eftir að við förum á fætur fer að rigna og ég kíki svo á spána og það spáir uppí 20mm rigningu þennan daginn.
Jeiii við heppin en ég finn bara út úr því að klæða mig eftir veðrinu en sko ég á ekki sjógalla svo ég fór í lopapeysu, anorakk og regnslá og með regnhlíf í gönguskóm sem þola nú talsverða bleytu.
Við af stað upp í Høgtun og þar er enginn sérstakur að taka á móti nýju fólki og bara fólk út um allt að skoða kort og með kompás ofl. úff við ekki einu sinni með gleraugu og sjáum ekki rassgat á eitthvað kort en við áttum nú að vera með öðru fólki í liði og förum að finna einhvern sem veit eitthvað og getur fundið liðið okkar.
Jú jú við finnum einn ungan strák sem er byrjaður að skoða kortið og við kynnum okkur og segjum honum að við vitum ekkert hvað við séum að fara út í og treystum á hann, síðan birtist annar ungur maður sem var með okkur í liði. Jæja við ætlum að vera eins og blindir kettir að elta þá og byrjum bara gönguna. Já sumir ætluðu að ganga og aðrir að hlaupa.
Gangan byrjar á gönguleið hérna uppá fjall hinum megin sem við höfðum nú farið hluta af í sumar en það byrjar upp uppp uppppp á fjall og ég var sko ekki í neinu formi og í öllum þessum fötum og með regnhlíf og úff úff úff uppi í móti allt en þetta tekst og við löbbum smá á jafnsléttu og svo aftur uppí móti og svo meira labb og meira labb og hvar eru þessir matarpóstar og vatnspóstar sem Einar talaði um, það bólar ekkert á þeim og við erum búin að labba í 1,5 tíma og ekkert séð og síðasta klukkutímann ekkert fólk heldur enda kom svo á daginn að piltarnir sem voru búnir að fara þetta 11 sinnum áður voru búnir að villast með okkur uppá fjalli svo við urðum að taka aðra leið og snúa við. Erro var alsæll þarna og fékk að hlaupa um og passa uppá okkur. En þarna verður mín ansi skúffuð, hvað erum við búin að labba þarna um í svoleiðis grenjandi rigningu á rangri leið. Úff en nei nei enga neikvæðni og fljótlega sjáum við Einar og frú en sko þau byrjuðu klukkutíma á eftir okkur svo þar með vissi ég að við vorum búin að villast í klukkutíma en nú erum við á réttri leið og áfram uppí móti og nú er búið að rigna svo mikið að það eru ár farnar að renna eftir gönguslóðunum og sums staðar svo mikil drulla líka og við bara uppá kálfa í drullu og vatni og engir gönguskór halda þessu sérstaklega ekki þegar það lekur bara ofaní þá en áfram höldum við og strákarnir svo næs að leyfa okkur að bíða á gatnamótum þegar þeir labba aðeins lengra í aðra átt til að finna póstinn sem þeir áttu að setja klukkuna í og svo höldum við áfram kominn einn póstur ég heyrði að þeir ættu að vera 4, svo á næsta pósti þá hljóp einn af strákunum og við 3 héldum áfram og svo náði hann okkur en þarna erum við búin að labba í 2,5 tíma þurfa að klifra yfir trjáboli eða skríða undir og uppá fjall og niður aftur og ég veit ekki hvað og hvað, orðin blautari en ég hef nokkrum sinnum verið og farið að draga af minni sem var samt allan tímann jákvæð.
Póstur 3 er kominn enn ekkert að drekka eða borða og ég er farin að vera svöng.
Svo missi ég aðeins af strákunum og næstum finn þá ekki en jú jú finn þá svo og þá eru þeir að ræða það við Þráin hvort við viljum ekki bara fara til baka þar sem sko póstarnir eru 12 en ekki 4 og ég orðin ansi þreytt. Jú ég tek því fagnandi og hugsa bæði eru þeir kannski með móral að hafa dregið okkur villur vegar og eins vilja þeir kannski bara halda áfram án okkar svo við snúum við en það er bara alltaf að vera meiri og meiri rigning og við vaðandi ár og læki og niður fjallshlíðar allt of lengi. En jú jú niður á götu komumst við og ekki er ég nú alveg viss hvernig við fórum að því að labba alla leið heim en okkur tókst það blautari en andskotinn og þreyttari en allt sem þreytt er. En sko við prófuðum þetta og munum ekki gera aftur eða alla vega ekki ég. En þá var bara að hvíla sig og gera klárt fyrir ballið um kvöldið því við ætluðum nú á það þrátt fyrir þessa erfiðu reynslu.
Ég var að passa Natalie þar til Mirra og Sunna kæmu úr bæjarferð og því fór Þráinn á undan mér yfir til nágrannana og svo á ballið. Ég bað hann að spyrja hvort við þyrftum nokkuð að borga fyrir þennan göngutúr um morguninn 150 kr. á mann þar sem við fengum ekki kort, ekki mat, ekki drykk og ekkert nema gönguna á eigin vegum en jú við skyldum borga þar sem við vorum skráð. Fokk nú varð ég pínu leið, en ok shit happens og lærdómur er dýr, aftur í góða skapið og vera jákvæð yfir þessu öllu.
Ég græja heitan brauðrétt til að taka með uppeftir því jú sko þetta kostaði 400 kr. allt á mann en við áttum samt að koma með matinn. Jæja það er húsið og hljómsveitin og øl í boði hugsa ég og held áfram að vera jákvæð. Það er nú bara gaman að taka þátt í viðburðum í litla bænum okkar hérna við hliðina á Mandal.
Ég kem svo uppeftir hálftíma á eftir Þráni og hinum og sem betur fer búið að taka frá sæti fyrir mig en Þráinn situr á móti mér sem er óþægilegt því ég heyri svo illa í svona miklu svaldri og hávaða en hann gat svo flutt sig seinna. Jæja á borðum er einn øl á mann og svo ein kók. En maturinn sem allir gestirnir komu með er góður og fjölbreyttur og ég tók nú með hvítvín sem við drekkum saman hjónin. Þarna er sungið söngvar um Kjempesprekken sem hefur verið í gangi í alla vega 29 ár því einn af þáttakendunum hefur verið með svo lengi. Meira veit ég ekki. En já fjöldasöngur og ekkert undirspil. Skrítin lög, náði ekki laglínunni og var farin að dreyma að La det svinge yrði bara sungið fljótlega. En það gerðist nú ekki. Jæja við erum utanaðkomandi og svona er þetta bara. Ballið yrði nú ábyggilega fínt.
Svo standa allir upp og fara að rútta til borðum og ég á bara fótum mínum fjör að launa og veit ekkert hvað stendur til en jú jú það á að búa til dansgólf. OK, ég bíð bara úti í horni og fylgist með og fæ svo aftur sæti úti í horni sem er alveg ágætt svosem. Og ballið byrjar…. 2 gaurar á gítar en með eitthvað meira undirspil á tölvu trúlega og ég verð að segja það að byrjunin var ekki góð. Country og meira country en samt alveg eldgamalt en ok, svona byrjar þetta bara en þeir fóru aldrei nær nútímanum í tónlist en kannski 1970 er ekki alveg viss en mamma hefði þekkt fleiri lög þarna en ég. Eitt og eitt eldgamalt rokklag þekkti ég þó og gat sungið með eins og have you ever seen the rain og fleiri þannig lög. Það bættist reyndar 3 maðurinn við en hann bara söng, spilaði ekki á hljóðfæri. Fólkið þarna flykktist út á dansgólfið og allir kunnu gömlu dansana og Þráinn hafði á orði að allir dönsuðu einhvern veginn eins og við hlógum svolítið af því. En hún Åshild konan hans Einars sagði mér svo að það hefði verið swing dansnámskeið í þorpinu okkar 2006 og þá skyldum við þetta, þau sem voru að dansa voru öll á því námskeiði, ha ha ha. Við dönsuðum smá, kláruðum hvítvínið fengum smá øl frá Einari en vorum komin heim uppúr klukkan 11.
Skrítnasti dagur í langan tíma en munið að ég hélt alltaf jákvæðninni þrátt fyrir að þola ekki óvissu og þrátt fyrir að þurfa að borga fyrir eitthvað sem ég fékk ekki og allt það. Við hittum þarna fólk sem er nágrannar og við ætlum nú trúlega aftur næst en bara á ballið, nú vitum við hverju við eigum von á og þetta er alveg góð leið til að hitta fólkið í bænum sínum.
Og jú ég má ekki gleyma að segja ykkur að við erum þekkt eftir þessa göngu þarna um morguninn því þegar Þráinn mætti um kvöldið þá kom einn af stjórnendunum til hans og spurði hann hvort hann væri sá sem var með regnhlífina og sagði svo að það hefði aldrei sést áður og allir væru að tala um hjónin með regnhlífarnar. Svo við stimpluðum okkur vel inn og nú vita allir hverjir útlendingarnir á Nesan eru.
Kjempesprekken 2016 – eftirá þá er sko bara hægt að hlæja að þessu og læra.
Þangað til næst,
ykkar Kristín á Nesan.
Ps. gleymi að segja frá því að það var ljósmyndari á staðnum en það finnst ekki ein einasta mynd á netinu frá þessum viðburði, talandi um að norðmenn séu hræddir við internetið, jesús minn.