Nú er árið alveg að líða, þetta ár 2005 hefur bara verið fínt á heildina litið. Óvenjumikið um ferðalög á minni fjölskyldu þetta árið eða tvisvar farið erlendis. Í janúar fórum við til Kanaríeyja og var heimasætan með í för ásamt Kollu frænku. Nú og svo fórum við hjónin með “Gluggum og Garðhúsum” til Dublin í byrjun desember sl.
Þessi ferðalög hafa gert það að verkum að við erum ákveðin í að fara til sólarlanda næsta sumar og meira að vorum við að skoða auglýsingu um ferðir til Tenerrife á Kanarí en við ætlum að skoða það aðeins betur áður en við pöntum.
Það er kannski spurning hvort við ættum að reyna að fá einhvern með okkur eða hvort við ættum bara að fara 3 okkur hefur nú alltaf liðið voða vel saman fjölskyldunni. Til dæmis í kvöld þá ætlum við að vera 3 heima og borða góðan mat, skjóta upp flugeldum og horfa á sjónvarpið og horfa svo á stærstu flugeldasýningu í heimi út um svefnherbergisgluggann okkar á miðnætti. Síðan fer heimasætan að sofa og þá ætlum við hjónin í karaóki og skemmta okkur eitthvað frameftir nóttu og vakna svo kát og hress á morgun og vera með nýjárskaffi fyrir fjölskyldur beggja. Svona týpískt ömmukaffi.
En meira að áramótauppgjöri. Þráni hefur gengið mjög vel í sinni nýju vinnu og er bara mjög ánægður. Ég kann afskaplega vel við nýju eigendurna og almennt alla sem vinna með honum alla vega hef ég ekki hlegið svona mikið í mörg ár eins og ég gerði í Dublinarferðinni. Það segir nú sitt. Frábær ferð með góðu fólki.
Nú í minni vinnu hefur gengið mjög vel líka, reyndar var As400 deildin seld með einum manni og einni mús (Tóti og Ólöf) en ég og Maggi The urðum eftir í Maritech (hjúkk) og þar með hef ég getað einbeitt mér meira að Navision og As400 ekki að trufla. Svo er ég áfram leyfislöggann á staðnum og sinni því að mikilli röggsemi enda skilst mér að stundum hafi verið kvartað yfir að ég færi of mikið eftir bókinni en það þykir líka mjög jákvætt en ég vann náttúrulega við það að lagfæra öll leyfismál fyrirtækisins og hef ekki áhuga á að lenda í því aftur. Svo er ég náttúrulega alltaf að læra eitthvað nýtt á hverjum degi og það er það sem gerir starfið skemmtilegt. Ég vinn líka með frábæru fólki og líkar mjög þarna.
Ástrós Mirra er komin í skólahóp á leikskólanum en það er undanfari 6 ára bekkjar, þá er þeim kennt að labba í skólann og svona aðeins verið að fara með þau út úr þessu mjög svo verndaða umhverfi sem leikskólinn er. Þau fara mikið í vettvangsferðir og heimsóttu skólann sinn oþh. Hún er mjög ánægð fyrir utan að það er ein stelpa alltaf að hrekkja og það finnst henni mjög leiðinlegt.
Við tókum eldhúsið okkar allt í gegn á árinu og skiptum um innihurðir en þetta verkefni teygir sig á árið 2006 því enn vantar hurðina fram á stigagang og enn vantar flísarnar á milli í eldhúsinu vegna þess að enn vantar einn skápinn í innréttinguna. Þetta byrjaði allt fínt en þegar fólk fór að fara í sumarfrí í þessum fyrirtækjum sem við versluðum við þá fór allt fjandans til, og erfiðlega hefur gengið að fá það lagfært. En við erum vongóð.
Á árinu 2006 langar okkur að fá okkur annan bíl, því við erum svolítið þreytt að vera bara á einum bíl og svo langar okkur að girða pallinn flotta í bústaðnum okkar og njóta þess að vera þar í sumar.
Næsta haust fer svo litla heimasætan í skóla (ég trúi ekki hvað tíminn líður hratt)
Jæja ég ætla að láta þetta gott heita í bili, sjáumst og heyrumst á nýju ári og njótum lífsins.
Gleðilegt nýtt ár
og takk fyrir það gamla.
Kristín Jóna