Í dag varð svona ákveðinn endir á upphafinu hjá okkur þegar ég sendi þýðandanum okkar honum Jeffrey skjölin sem þarf að þýða á ensku og fór niður í Félag Íslenskrar ættleiðingar til að láta yfirfara alla pappírana og þeir sem sagt eru í góðu lagi.
Næsta skref er þá að fá þessa þýddu pappíra frá Jeffrey og fara með allt heila klabbið til sýslumanns og láta setja “public notarius” stimpil á allt saman og þá erum við komin í hóp. Reyndar held ég að við verðum í hópi 25 sem verður vonandi með fullt af skemmtilegu fólki í. Því við eigum eftir að fara saman í langt ferðalag og vera saman í alla vega hálfan mánuð þarna úti í Kína.
Svo er það nú þannig að þessir hópar halda sambandi eftir heimkomu og því skiptir máli að hitta á góðan hóp. En sjálfsagt eru þeir allir góðir, enda frábært fólk sem er að fara þessa leið í barneignum.
Það er eins og það hafi farið eitthvað fjall af herðunum á mér við það að klára þetta og er það náttúrulega frábært svona rétt fyrir jól. En þá á maður að vera laus við stress og áhyggjur. Oft þá heldur maður að það sé ekkert stress í gangi þó það sé, skrítið hvað maður á erfitt með að sjá þetta oft sjálfur og gott þegar einhvern manni nákominn bendir manni á, því þá er svo auðvelt að laga sjálfan sig og það sem er að.
Ég er alla vega ekkert rosalega fúl yfir því að þetta verði ekki fyrr en sumarið 2008 sem við förum út og nú hugsa ég einhvern veginn að það sé þá gott, því þá hefur maður meiri tíma til að safna pening fyrir þessu, því þó íslenska ríkið hafi samþykkt styrk um daginn þá dugir hann fyrir rétt um einum þriðja af kostnaðinum. Og þá hefur maður líka meiri tíma til að hugsa um hvernig við ætlum að hafa þetta. Við þurfum að taka í gegn svefnherbergið áður og eins Ástrósar herbergi og næsta vor ætti að vera góður tími í það.
Svo verður allt í einu komið sumar og það líður eins og hendi væri veifað og þá er komið haust, svo afmæli og svo jól og úff áður en við vitum af verða áramótin 2007-2008 og þá er nú aldeildis farið að styttast í þetta. Svo biðin ætti ekkert að verða mjög erfið. Svo á eftir að fæðast kríli í fjölskyldunni í millitíðinni svo það verður rosafjör.
En alla vega þá er ákveðinn closure sem er að gerast núna og þá tekur við nýtt og spennandi tímabil.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna