Eitt lítið lærbrot….

11. nóvember 2017

Jæja gott fólk þá er ég loksins sest við bloggið mitt en ég er búin að vera á leiðinni í nokkra daga að segja ykkur frá því að hann pabbi minn slasaði sig um daginn eða þann 21. október, þe. hann lærbrotnaði rétt við mjaðmakúluna og var fluttur á spítalann í Eyjum en eftir myndatöku þar var ákveðið að senda hann með sjúkraflugi til RVK.  Hann var látinn fasta þarna strax svo hann yrði nú tilbúinn í aðgerðina um leið og hann kæmi suður en eftir að hafa beðið eftir sjúkrafluginu í 10 tíma var loksins fært og hann fluttur á Borgarspítalann þar sem hann var látinn bíða í aðra 3 daga eftir aðgerð því það var alltaf einhver tekinn framyfir hann meira akút.  Nú veit ég ekki hvað þarf til að vera akút ef rúmlega áttræður maður með stóma er ekki svo akút að hann er látinn fasta í 3 sólarhringa og bíða í 3 eftir aðgerð sem er einföld og hefði haft tiltölulega lítil áhrif á hann.

Enda gekk aðgerðin vel sem slík þar sem skipt var um mjaðmakúlu og skál en öll meltingarfærin lömuðust og greinilega þoldu ekki þessa föstu og þessa bið. Mér er alveg sama hvaða afsakanir læknarnir hafa fyrir þessu, ég er alveg sannfærð um að hann hefði verið tiltölulega fljótur að ná sér ef hann hefði komist í aðgerð samdægurs.

En alla vega smáþarmarnir lömuðust og nýrun voru að gefa sig en þó virtist allt aðeins á betri veg þegar hann var fluttur aftur til Eyja með sjúkraflugi nr. 2.  Hann varð þó svo mikið veikur eftir flugið að morguninn eftir voru nýrun hætt að starfa og var hann fluttur með sjúkraflugi nr. 3 nær dauða en lífi og lífsmörk nánast engin.

Þá keypti ég mér flugmiða til Íslands og undirbjó mig fyrir það að kveðja pabba minn hinstu kveðju.  En hann er bæði ótrúlega duglegur og kannski varð hann líka svona ánægður að sjá okkur dætur sínar hlið við hlið við rúmið sitt að hann barðist eins og hetja á móti þessu og sigraði.

En 9 daga fasta og með næringu í æð tók sinn toll og hann er enn að jafna sig eftir þetta.  Ekki eftir lærbrotið og aðgerðina því það gekk eins og í sögu með það til að byrja með.

Þegar hann var aftur farinn að geta borðað smá súpu og skilað frá sér eins og normalt er var hann enn á ný sendur með sjúkraflugi til Eyja sem sagt sjúkraflug nr. 4.

Fyrstu dagana eftir að pabbi kom á sjúkrahúsið í Eyjum var eitthvað mikið að gerast í samskiptamálum starfsfólksins þar því þegar ég kem til hans daginn eftir þá er hann rosalega rogginn með sig og segir að hann hafi fengið egg og beikon og bakaðar baunir í morgunmat.

WHAT!  Sjúklingur með hálflamaða smáþarma og á að vera á léttu fæði eða reyndar nánast bara smá súpusoði, fékk þarna egg og beikon og bakaðar baunir í matinn.  Nei ég nánast trompast og segi lækninum hans það þegar hún kemur inn og hún bara greip fyrir munninn og saup hveljur og sagðist ætla að fara strax og tala við kokkinn.

Þessi mistök virtust ekki hafa neitt brjálæðisleg áhrif á gamla svo við róuðumst en ég sagði líka við pabba að hann yrði að passa það sjálfur ekki borða bara það sem þau gæfu honum.

Daginn eftir þetta er ég stödd hjá honum þegar komið er með hádegismatinn og pabbi lyftir lokinu af fatinu og ég lít á matinn og hvað….. purusteik með brúnuðum kartöflur, rauðkáli og sósu.  Hallóoooooooooo

Ég rýk fram og þar stendur slatti af starfsfólki og ég segi bara yfir allan hópinn purusteik með brúnuðum kartöflum, rauðkál og sósa er það fæði fyrir mann sem á að vera á léttu fæði og ég sé að ein hjúkkan tekur andköf og segir nei nei nei hann má ekki borða þetta.  En sko hvar verða þessi mistök, þetta er nú ekki stórt sjúkrahús og pabbi sjálfsagt eini sjúklingurinn á léttu fæði, er þetta eitthvað flókið?  Hvernig væri að taka sér til fyrirmyndar meltingardeildina á landsspítalanum þar sem spjald hékk á hurðinni hjá honum þar sem merkt var inn allt sem hann drakk og borðaði, ég mátti ekki einu sinni gefa honum vatnsglas því hjúkrunarfólkið þar þurfti að skrásetja það líka.

En alla vega pabbi er duglegur og byrjaði fljótlega í leikfimi og alsæll á sjúkrahúsinu í Eyjum þar sem allir eru svo yndislegir (þegar þeir voru búnir að læra á  hvernig fæði hann mátti fá) og hafa tíma til að sinna honum sem ekki er hægt að segja um sjúkrahúsin í RVK.  Þó var stórmunur á milli deilda á landsspítalanum því á nýrna- og meltingardeildinni fékk hann góða ummönnum og þar er yndislegt starfsfólk sem vildi allt fyrir hann gera.

Ég segi bara húrra húrra fyrir pabba mínum sem er algjör hetja og alltaf svo jákvæður og duglegur, hlakka til að fá hann aftur í heimsókn á Nesan og alls ekki í síðasta sinn.

———

8. janúar 2018

Þetta hér að ofan var skrifað 11. nóvember en þá var sjúkrasögu pabba sko alls ekki lokið.  Eins og ég sagði var allt farið að ganga mjög vel og hann á endanum sendur heim á miðvikudegi en það liðu ekki margir dagar sem hann var heima þar til hann fór úr liðnum og fluttur á sjúkrahús aftur til að kippa honum í lið.  Þetta var á sunnudegi, sendur heim um kvöldið aftur.

Fór aftur úr lið og datt á þriðjudagskvöldi og var þá fluttur uppá spítala þar sem daginn eftir var ákveðið að hann færi í gifs svo hann myndi ekki vera að gera einhverjar vitleysur.

Það var nú aldeilis búið að skamma gamla fyrir að vera að gera eitthvað sem búið var að segja að hann mætti ekki og hann ætti að nota hjálpartæki og ekki lyfta fætinum svona hátt en hann þvertók alltaf fyrir það að hafa verið óþekkur.

En þarna er ákveðið að hafa hann inná spítala í einhvern tíma sem við vorum svosem alveg sátt við þar sem hann býr einn og auðvitað ekkert auðvelt fyrir 81 árs gamlan mann nýkomin úr aðgerð að sjá um sig sjálfur, hann fékk enga aðstoð heim á þessum tíma.

Þegar hann var búinn að vera í einhverjar vikur á spítalanum í gifsi, þá stendur hann við rúmið sitt og er að mjaka sér í inniskóinn sinn, þegar hann fer úr lið aftur.

Bíddu nú var hann í gifsi uppí nára og gat ekki lyft fætinum svo ekki var hann óþekkur þarna að gera eitthvað sem búið var að segja að hann mætti ekki.

Og þarna sáu læknarnir að það þyrfti nú kannski að skoða þetta eitthvað betur og hann er sendur í röntgen og þar kemur í ljós að það virtist aldrei hafa verið skipt um skálina en allar læknaskýrslur segja það og læknar og hjúkrunarfólk sagði það líka við Konný systur svo þarna upplifum við hreinlega að það hafi verið logið að okkur fullum fetum af starfsfólki sjúkrahúsanna.

Það er ákveðið að pabbi fari í aðra aðgerð sem reyndar frestaðist þar til á milli jóla og nýárs en nú er sjúkrahúsið greinilega búið að eyða of miklum peningum í sjúkraflug svo hann varð að sjá um það sjálfur að koma sér á spítalann í Reykjavík. Með gifs uppí nára og 81 árs í hjólastól eða göngugrind.  Konný systir eina manneskjan sem hefur möguleika á að hjálpa honum er með ónýtt hné og getur varla gengið og hefur verið svoleiðis í allt haust en endalaust að standa í því að vera pabba innan handar við allt.  Þvílíkt þakklát sem ég er henni systur minni, hann er ríkur sá sem á hana að.

Hún hreinlega spurði lækninn hvernig í andsk…. á ég að geta komið honum alein í hjólastól inní Herjólf og keyra bílinn því farþegar mega ekki koma með í bílageymsluna. Og á þessum tímapunkti er hann sjúklingur á Sjúkrahúsinu í Eyjum.  Hann var ekkert útskrifaður en samt var það hennar að finna út úr því hvernig hún kæmi honum til Reykjavíkur.

Hún fékk engin svör frá lækninum við því en yndislegir sjúkraþjálfar á sjúkrahúsinu í Eyjum bentu henni á að taka ekki hjólstól heldur göngugrind og sækja um leyfi til að setja hann úr bílnum við fólkslyftuna niðrí í bílakjallara á Herjólfi og þetta gekk fínt þegar kom að því en áhyggjur hvar á gista og hvernig á ég að fara að því að gera þetta allt létu á sér kræla öll jólin.  Og jú þau fengu gistingu í eina nótt á sjúkrahótelinu því Silja Ýr býr á 3ju hæð í blokk með engri lyftu svo ekki gátu þau verið þar.

Já og þarna ákveðum við  að ef hann kæmist ekki af einhverjum orsökum í aðgerðina á réttum tíma þá fengi hann sér að borða og myndi svo byrja að fasta aftur daginn eftir svo ekki myndi gerast þetta sama og síðast.

Ferðalagið gekk samt vel og daginn eftir fóru þau uppá spítala, þar sem Konný hélt að hann yrði innritaður strax, en þá tóku við nokkra klukkutíma viðtöl, blóðprufur og hjartalínurit og alltaf á meðan þurftu þau að sitja á hörðum óþægilegum stólum á biðstofunni.

Og viti menn, það varð alvarlegt umferðarslys á Kirkjubæjarklaustri akkúrat þegar hann átti að leggjast inn og Konný og pabbi búin að  sitja þarna allan daginn.  Mér er alveg sama þó það komi upp akút mál á spítalanum (hef fulla samúð með því fólki) en það þýðir ekki að það sé í lagi að gleyma öðrum sjúklingum.  Að sitja á stól allan daginn maður með gifs uppí nára er bara ótrúlega erfitt og þreytandi svo eftir margra klukkutíma bið spyr Konný hvort þau megi ekki hreinlega fara í heimsókn út í bæ þar sem hann gæti lagt sig.  Og jú jú þau fengu leyfi til þess en svo kom upp að hann yrði ekki lagður inn þarna og þau þurftu að redda sér gistingu aðra nótt og sem betur fer gat hjúkrunarkona reddað þeim gistingu eina nótt í viðbót á sjúkrahótelinu.

Svo eru þau Konný og pabbi á leiðinni niður á sjúkrahótel og dagurinn þannig séð búinn að ganga ágætlega, pabbi orðinn nokkuð klár að setjast inní bíl og fara út úr honum aftur sjálfur með göngugrindina, þá gerist það… pabbi kemur bara ekkert út úr bílnum og Konný fer að athuga með hann og þá segir sá gamli að hann sé farinn úr liðnum einu sinni enn.

Nei, þetta er sko ekki í lagi.

Konný brunar uppá spítala og þar sem hún er nú utanbæjarmanneskja og þekkir ekki til á spítölunum Reykjavíkur þá fór hún að sjálfsögðu bara á sama stað og þau höfðu verið á um daginn og þar sem átti að leggja hann inn. Hún fer inn hjá öryggisvörðunum og segir að hún sé með pabba sinn í bílnum sem er með gifs uppí nára og hafi farið úr mjaðmaliðnum og hana vanti aðstoð við að ná honum út. Maðurinn sagði að hún gæti svo sem prufað að tala við B5 deild en hann efaðist um að þeir myndu gera eitthvað og þá spurði Konný hvort að hann ætti þá bara að sitja í bílnum alla nóttina.  Hvers konar er þetta eiginlega.  Hvað er í gangi?  En þá segir maðurinn nei þú þarft að fara á bráðamótttökuna.  Já ok, af hverju sagðir þú það bara ekki strax í staðinn fyrir að segja nei fyrst.

En jú jú þau bruna á bráðamótttökuna og Konný fer inn og spyr hvort hún geti fengið aðstoð við þetta og henni er sagt að koma bara inn þar sem sjúkrabílarnir eru vanir að koma inn sem hún og gerir.  Lendir þá að vera að flækjast fyrir sjúkrabíl, og þegar hún sagði þeim að henni hefði verið sagt að fara þarna inn, þá fannst sjúkraflutningsmönnunum það skrýtið, þar sem enginn væri að taka á móti þeim.  En eftir smá stund kemur hjúkka þarna, alein og eiginlega bíður bara eftir því að pabbi komi út úr bílnum. Og Konný segir henni hann getur það ekkert, hann er farinn úr mjaðmaliðnum.

Þarna hugsar fólk eins og ég, sem hef svo sem ekkert vit á hjúkrun, lækningum eða starfsemi sjúkrahúsa, á hvaða tímapunkti er það sem skilaboðin sem Konný kemur með inn að hún sé með 81 árs gamlann mann sem er að fara í aðgerð á morgun úti í bíl og hann hafi farið úr mjaðmaliðnum og hún þurfi aðstoð við að koma honum út úr bílnum og henni sagt að keyra inn þar sem sjúkrabílarnir koma, brenglast svona að hjúkkan heldur bara að hann geti farið sjálfur út úr bílnum.  Hann hefði þá líklega bara getað gert það úti á bílastæði líka.

Næst kom önnur hjúkrunarkona ásamt sjúkraliðum, sem sagði pabba að hann ætti að fara úr bílnum og hann sagði henni að hann gæti það ekki, þar sem hann væri farinn úr lið. Hún spurði hann þá hvað hann hefði verið að gera og hann sagði henni satt, að hann hefði bara setið í bílnum. Hún varð reið og sagði að þannig gerðist það ekki og afhverju hann virkilega héldi að hann væri farinn úr lið. Hann svaraði því til að hann væri búinn að fara 3svar áður úr lið og hann vissi alveg hvernig það væri. Síðan benti hann á fæturnar á sér og sagði sérðu muninn á þeim. Þarna var byrjað að skipuleggja hvernig ætti að taka hann út, en Konný spurði hvort að það ætti ekki að gefa honum eitthvað verkjastillandi áður, en sama kona sagði nei það gerum við ekki. Eftir ýmsar pælingar, þá var nú samt farið og náð í verkjalyf handa honum og hann semsagt sprautaður niður. Framsætin bæði voru lögð eins mikið niður og hægt var, Síðan settist einn sjúkraliðinn í ökumannssætið og lét pabba leggjast á sig með höfuðið, önnur hjálpaði honum að ná fótunum út, síðan voru 2 aðrir í aftursætinu að koma mjúkum sjúkrabörum undir pabba svo hægt væri að bera hann út úr bílnum. Þegar þau svo fóru öll með pabba inn, sneri annar sjúkraliðinn sér við og sagði við Konný, ég biðst afsökunar á því hvernig var látið við ykkur fyrst.

Síðan lá pabbi í dáldinn tíma að bíða eftir myndatökunni og var mjög kvalinn og Konný hringir eftir aðstoð og biður um verkjalyf handa honum, sem hann og fékk, síðan fór hann í myndatökuna og þegar hann kom aftur úr henni, er hann alveg jafn verkjaður, sem sagt lyfin ekkert að virka. Konný hringir eftir meiri verkjalyfjum en enginn kom.  En á endanum kom samt hópur af fólki og meðal annars læknir og þá loksins fékk hann meiri verkjalyf, sem virkuðu þannig að hann sofnaði á stundinni og hægt að kippa honum í liðinn.

Og var það ákveðinn léttir fyrir Konný og mig sem sit alltaf hérna úti í Noregi með símann í fanginu við að fylgjast með og alveg á taugum yfir því að nú fari allt eins og síðast þegar það var búið.  Það eru nú alveg takmörk fyrir því hvað gamall maður getur staðið af sér sama hversu duglegur hann nú er.

En svo fékk hann loksins nýja aðgerð daginn eftir og það var sett ný skál og í ljós kom að það hafði verið sett skál upphaflega en hún passaði bara aldrei inní hans eigin eins og hún átti að gera, þar sem mjaðmaskálin hans var alveg flöt. WHAT!  Ja smiðurinn minn fengi nú aldeilis að heyra það ef hann væri að setja glugga í hús og það væri bara smá bil á milli á einni hliðinni.  Það myndi enginn sætta sig við það, hætta á að glugginn detti úr falsinu, vindar blási inn osfrv.

En rétt áður en pabbi datt út, í aðgerðinni þá heyrir hann rödd sem hann kannast við, hann heyrir þessa rödd segja “Þetta er hann Már bróðir hans Mumma” og þá hugsaði hann með sér, jæja nú verður þetta vel gert þar sem hann Binni er mættur til að laga mig til.

En eftir þessa aðgerð sem og hina þá lömuðust smáþarmarnir aftur en sem betur fer þá var þetta ekki lengur í fyrsta sinn sem sem stómasjúklingur fer í skurðaðgerð á fæti þar sem pabbi var búinn að lenda í þessu áður og núna var fylgst betur með honum að öllu leiti.   En í fyrri aðgerðinni hans upplifðum við aðstandendur það að pabbi væri ekki einugis fyrsta barn á Íslandi sem sett er í súrefniskassa heldur er hann fyrsti stómasjúklingurinn líka.  Því það er eins og enginn viti eða skilji hvað þetta þýðir.

En áramótin hans pabba voru á spítala og Konný systir hjá mömmu til að geta verið nálægt gamla manninum og við fundum það öll, líka við sem erum lengra í burtu að það gekk allt betur og greinilegt að fólk var að læra af reynslunni og vandaði sig miklu betur við allt og hann fann meiri hlýju og umhyggju í seinni dvölinni en þeirri fyrri.

Og pabbi fór heim til Eyja í síðustu viku og það var eins og síðast hann þurfti að sjá um það sjálfur en það gekk vel og nú er hann búinn að vera tæpa viku á sjúkrahúsinu þar og á að fara heim í dag og sjá um sig sjálfur hér eftir, enda bara 81 árs táningur sem getur allt og stendur allt af sér.  En það þarf að breyta öllu heima hjá honum svo göngugrindin komist fyrir, taka út eldhúsborð og stóla og minnka stofuhúsgögnin hjá honum líka en það á eftir að ganga fínt trúi ég.

Þetta sem var einfalt lærbrot endaði í 2 mjaðmaaðgerðum, úr lið 4 eða 5 sinnum, 4 sjúkraflugum, 11 sjúkrabílum, 2 Herjólfsferðum, flugi dóttur frá noregi og annarrar dóttur frá Eyjum, báðar frá vinnu í viku til 10 daga og önnur svo seinna frá vinnu í viku, og byrjaðar að undirbúa kveðjustund en ekkert af þessu hefði þurft að eiga sér stað ef það væri skurðstofa í Eyjum.

Eitt sjúkraflug kostar hálfa milljón og hver sjúkrabíll sitt líka svo maður spyr sig getur þetta borgað sig þe. að hafa ekki skurðstofu í Eyjum.  Ég er bara að tala um einn sjúkling, hvað með alla hina, hvað með allar fæðingar sem ekki geta átt sér stað í Eyjum, hvað kostar það þjóðfélagið fyrir allt þetta fólk að þurfa að kaupa sér gistingu og fjarveru frá vinnu?

Stolt dóttir,
Kristín Jóna Guðjónsdóttir

4 thoughts on “Eitt lítið lærbrot….

  1. Þetta er hræðilegt…. èg á bara ekki til orð …vona að hann verði betri fljótlega og þurfi ekki aftur á Íslenskri heilbrigðisþjónustu að halda aftur ❤

  2. O aumingja Már minn, vonandi er þetta nú orðið gott. Hvaða Binni vsr þetta sem skar hann?

    1. Hann Binni er sonur hennar Ingbjargar, systur hennar Guðrúnar hans Mumma, manstu þau bjuggu alltaf í húsinu á móti Mumma og Guðrúnu.

  3. Ég á ekki orð!! Þvílík reynslusaga Guðjón og vona ég að henni sé nú lokið, það er auðheyrt að þú átt góðar dætur þér við hlið. Hjartans batakveðjur.
    Nú spyr ég bara, hvað eða hver er valdur að því að spítalinn okkar sé að hálfu lokaður, getum við eyjabúar ekki haft nein áhrif á þessa stöðu?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.