Vá, þá er Kolla frænka loksins flutt að heiman, eða þannig. Fyrsta nóttin í nýju íbúðinni er í nótt og ætlar Sigrún frænka að vera hjá henni.
Ég er búin að vera á fullu í undirbúningi með henni fyrir þetta stóra skref og það hefur sko þurft í mörg horn að líta þar sem hún þarf ennþá hjálp við allt.
Það þurfti að fara til Félagsþjónustunnar til að sækja um Liðveislu fyrir hana og þá kom í ljós (enn og aftur) að hún á ekki rétt á því þar sem hún er bara 65% öryrki en ekki 75% en það þarf alls staðar að vera 75% til að fá þjónustu. En þau á Félagsþjónustunni sögðust myndu líta framhjá því ef heimilislæknirinn hennar Kollu myndi skrifa bréf og segja að hann teldi að hún þyrfti að fá þessa þjónustu.
Jæja við pöntum tíma hjá Sigurði heimilislækni og þurftum að bíða í tvær vikur eftir þeim tíma.
En í millitíðinni fékk Kolla íbúðina afhenta (þe. á föstudaginn síðasta) og ég hef ekki séð glaðari manneskju í langan tíma, hún vissi ekkert hvern hún ætti að faðma næst eða í hvaða átt hún ætti að snúa sér og sagðist vera alveg að fara að gráta. Mikið var gaman að fá að vera viðstödd svona stóra stund í hennar lífi.
Nú nú við förum uppeftir í Fannborg 5 að fara að mæla allt svo hægt sé að fara að kaupa húsgögn og allt sem þarf í nýja íbúð. Reyndar byrjuðum við á því að þrífa og mikið fannst Kollu skemmtilegra að þrífa þarna en annars staðar. (Stóð hana að því að pússa viftuna ef ég vogaði mér að káfa á henni).
Á laugardaginn fórum við saman í IKEA, Húsgagnahöllina og Rúmfatalagerinn og var mikið keypt. Sófi, hægindarstóll, hillusamstæða, sófaborð, eldhúsborð og stólar en á föstudaginn keyptum við allt sem þarf til að þrífa ásamt þvottakörfu og fleira þess háttar. Ég var gjörsamlega uppgefin eftir þennan laugardag en Kolla blés ekki úr nös og held ég að gleðivíman fari ansi langt með mann.
Jæja ég fékk frí á sunnudaginn en ekki Kolla, því hún fór með Kollu og Gunna í Elkó að kaupa þvottavél, þurrkara og ísskáp.
Á mánudaginn áttum við von á að fá sendingar frá 5 verslunum með 5 sendibílum, það stóðst nú ekki alveg því Ikea misskildi okkur eitthvað og Rúmfatalagerinn sendi bara helminginn, en báðir aðilar sendu okkur rest á þriðjudaginn. En Elkó og Ragnar Björnsson (rúmið sem hún fékk frá systkynum sínum) og Húsgagnahöllin stóðu sig vel.
Mamma, Siggi, Þráinn, Ástrós Mirra, Gunni og Kolla (og ég og Kolla) vorum á mánudaginn að taka á móti þessu öllu og setja saman því við versluðum bara í ódýru búðunum þar sem samsetning er ekki innifalin í verði. Þetta tók þokkalegan tíma en tókst með góðra manna samvinnu.
Já og þriðjudagurinn fór í það að taka á móti stofusófanum og sófaborðinu og festa upp myndir og ýmislegt þess háttar. Klukkan rúmlega 18 datt okkur í hug að drífa okkur bara í Íkea að kaupa gardínur svo hægt yrði að festa þær upp daginn eftir og þetta gerðum við og festu Þráinn og Gunni þær upp á miðvikudaginn en við Kolla fórum í hennar fystu verslunarferð í Bónus að kaupa í matinn fyrir hana sjálfa.
Og sem sagt í dag er fysti dagurinn af restinni af hennar lífi sem sjálfstæð manneskja með sjálfstæða búsetu. Frábært Kolla og ég er svo stolt af þér.
Þó er ekki allt búið því það á eftir að taka saman alla pappíra og fara með Kollu í greiðslumat og sækja síðan um lán fyrir hana og þá að sækja um greiðsluþjónustu svo allir reikningar verði greiddir sjálfkrafa og minna fyrir okkur að hugsa um í þeim efnum.
Að lokum langar mig að segja frá því að ég hef fulla trú á því að Kolla plummi sig vel svona sjálfstæð en það þarf að kenna henni ansi margt. En hún getur lært ef við sem ætlum að kenna henni erum þolinmóð. Og þá komum við að því sem ég hef mestar áhyggjur af og það er að hún verði einmana og að ég og Ása Kolla verðum ekki alltaf tiltækar þegar hana vantar aðstoð. Þess vegna sóttum við nú um þessa liðveislu því við erum báðar í fullri vinnu með heimili þannig að aukatími er ekki mikill og það er dálítið mikið að þurfa að bæta við sig kannski tveimur tímum annann hvorn dag til að hjálpa henni þó við séum allar af vilja gerðar. Ég hefði viljað sjá fjölskylduna skipta á milli sín dögum og setja saman stundaskrá en ég hef ekki fengið nein viðbrögð við því þegar ég hef nefnt það við fólk.
En sem sagt við fórum til Sigurðar læknis í gær og hann er greinilega með alla hluti á hreinu varðandi Kollu og afa og ömmu líka. Ástæðan fyrir því að Kolla er ekki 75% öryrki er einfaldalega sú að hún er í vinnu. Samt var tiltekin öll hennar skólaganga, og eins að hún hafi slitgigt, slæm í baki og háan blóðþrýsting. En Sigurður læknir ætlar að skrifa þetta bréf til Félagsþjónustunnar svo þetta ætti að ganga upp. Eða það hélt ég þar til ég heyrði í þeim í dag og þau eru mjög velviljuð en eru í mannahallæri. Það gat nú verið, þegar kerfið loksins samþykkir Kollu þarna inn, þá eiga þau ekki starfsfólk. En við verðum að vera vongóð eða þá bara að Kolla verður búin að læra alla þessa hluti þegar hún loksins fær liðveisluna en það er þá allt í lagi, við notum hana þá bara sem félagsskap.
Vá hvað ég er búin að skrifa mikið, stundum er eins og maður geti ekki stoppað en þetta hefur verið heilmikið mál undanfarið og ég hef lítið getað hugsað um sjálfa mig og mína svo kannski ég skrifi mig bara frá þessu núna.
Vona að fólk verði duglegt að heimsækja Kollu og þá frekar færri í einu og oftar, því hún er svo mikil félagsvera.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna