Á morgun 1. maí eru 24 ár síðan tveir unglingar sváfu saman í fyrsta skipti.
Strákurinn var 17 og stelpan 19.
Hún var farin að búa með vinkonu sinni á Bessastíg 8, eldgömlu skemmtilegu húsi sem skiptist í tvær íbúðir eftir miðju húsinu, þannig að íbúðin var á 3 hæðum, þvottahús, klósett og sturta í kjallaranum og stofa og eldhús á miðhæðinni en tvö svefnherbergi í risinu. Þetta var bara krúttaralegt gamalt hús með skrítnu fólki hinum megin.
Á þessum 24 árum sem strákurinn og stelpan hafa verið saman hefur heilmikið gerst, það merkilegasta samt er að þau eru ennþá saman, kærustupar, gift hjón eða hvað þið viljið kalla þetta. Þau eiga eina stelpu sem fæddist eftir 18 ára sambúð og 16 ár án getnaðarvarna. Það gekk á ýmsu þegar þau voru að reyna að eignast þetta barn en þau gáfust ekki upp og þá sannast máltækið “þolinmæðin þrautir vinnur allar”.
Fyrstu sambúðarárin sín bjuggu þessir krakkar í Vestmannaeyjum, fyrst á Bessastíg 8, síðan á Kirkjuvegi 88, þá keyptu þau sína fyrstu íbúð að Foldahrauni 42 og síðan keyptu þau hús að Hásteinsvegi 15.
Árið 1995, nánar tiltekið 15 apríl giftu þau sig með pompi og prakt í Háteigskirkju og héldu veislu á Hótel Sögu. En í apríl árið eftir fluttu þau búferlum til höfuðborgarsvæðisins. Bjuggu fyrst í íbúð í Mosfellsveitinni nánar tiltekið á Teigi, fluttu þaðan á Laufvanginn í Hafnarfirði, þá á Sævang í Hafnarfirði og búa nú á Suðurbrautinni í Hafnarfirði. Þau eiga núna líka lítið kot við Þingvallavatn og njóta þess að vera þar um helgar og á sumrin.
Frá því að þessir krakkar hittust fyrst hafa þau unnið í fiski í Vestmannaeyjum bæði, hún fór svo í sjoppu og þaðan á Tangann sem var stórmarkaður þess tíma, þaðan fór hún á bæjarskrifstornar í Eyjum og vann þar þar til þau fluttu. Hann vann við smiðar hjá Valgeiri, svo í Skipalyftunni, síðan aftur við smíðar í Skipaviðgerðum og fór á samning þar, en þar sem lítið var smíðað í Eyjum dreif strákurinn sig á sjó í nokkur ár og var á Öðlingi, Sighvati Bjarnasyni og Dala-Rafni þar til þau fluttu.
Á stórreykjavíkursvæðinu fór hún að vinna hjá AKS sem síðar sameinaðist Forritun og varð Forritun-AKS sem síðar var keypt af Tölvumyndum og splittaðist svo upp í Maritech sem núna er samt aftur 100% í eigu TM Software og er hún þar enn.
Hann aftur á móti byrjaði hjá Álftarrós, síðan Friðjóni og Viðari og þá Eykt, en breytti svo til fyrir tæpum tveimur árum og er farinn að vinna hjá Gluggum og Garðhúsum í Garðabænum en þeir smíða sólskála og svalalokanir.
Þau hafa haft það mjög gott eftir að þau fluttu uppá land því þar hafa þau haft mun hærri tekjur en þau höfðu í Eyjum, en þau eru og verða Vestmannaeyingar “No matter what”.
Áður en þau fluttu höfðu þau farið í eina utanlandsferð, til Rhodos í Grikklandi, en síðan hafa þau farið í þær nokkrar, td. Glasgow, Dublin, Barselona, Þýskaland, London, Kanaríeyjar og ætla sér til Tenerife í sumar.
Þau eru mjög söngelsk og hafa mikinn áhuga á leikhúsi og störfuðu bæði með leikfélagi Vestmannaeyja og nú er strákurinn búinn að skrá sig í leikfélag Hafnarfjarðar og ætlar vonandi að gera einhverja skemmtilega hluti með þeim. Hann hefur líka leikið í nokkrum litlum hlutverkum í sjónvarpsþáttum og bíómyndum, hlutverkið í sjónvarpsþættinum var heldur stærra en þetta í bíómyndinni (við sáum hana aldrei sjálf) og vonandi að hann fái seinna eitthvað fleira að gera í þeim efnum því hann á svo auðvelt með þetta.
Stúlkan varð svo fræg að verða hluti af hljómsveit sem var stofnuð í Martech og reyndar strákurinn líka, hann var aðalsöngvarinn en stúlkan í bakröddum en það var líklega meira upplifelsi fyrir hana en hann því hann hafði verið í nokkrum hljómsveitum um ævina og skemmst frá því að segja að hann var í einni slíkri þegar þau kynntust en hún hafði aldrei svo sem fengið neitt hrós fyrir sönginn sinn.
Litla stúlkan sem þau eiga er fallegasta og gáfaðasta barn í heimi og hefur gefið þeim svo mikið að öll árin sem fóru í það að reyna að búa hana til urðu alls þess virði.
Þið sem lesið þetta hafið náttúrulega lesið um þetta frábæra barn og það verður áframhald á því en þetta var svona lítil ævisaga tveggja unglinga sem felldu hugi saman 1. maí 1982.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna