Þeir hjá 123 eru búnir að ákveða að nú er kominn tími til að brosa og best að gera það þrátt fyrir alla rigninguna núna, í dag er annar dagurinn sem við í blokkinni ætlum út að hreinsa lóðina en það rignir svo mikið að við frestum því enn og aftur og nú til mánudags, takið eftir mánudags (það spáir sól en ætti að rigna skv. þessu).
Við erum búin að plana sumarbústaðaferð um helgina í sólinni (vonum að það standist) og á að slaka vel á og leika sér, við erum nú búin að lofa heimasætunni að fara í sund, hún er alltaf að biðja um það og alltaf segja foreldrarnir æi, ekki núna en nú skal verða bragarbót á því og liðið skellir sér í sund.
Annað sem á að gera í bústaðnum er að chilla, því er farið að róast í Kollumálum í bili. Það gengur rosalega vel, hún er td. með partý núna fyrir kellur úr vinnunni og Sigrún frænka ætlaði að aðstoða hana og stinga svo af.
Annað stórt mál er að við fengum símhringingu frá Hvaleyrarskóla og spurð hvort við ætlum ekki að innrita dóttur okkar í skólann? Bíddu, jú en fáum við ekki bréf? Nei, það kom auglýsing í febrúar í öllum blöðum… greinilega þann daginn sem ég las ekki blöðin. En ég fékk að skrá ÁM í skóla (við ættum kannski bara að kenna henni heima!) og svo á hún bara að byrja í haust. Bíddu hvar er voskólinn? Á móðirin ekki að fá neina aðlögun, hvað halda þessi skólayfirvöld að þau séu að það sé bara hægt að taka barnið af manni og skella því í skóla. Þetta er ekkert smámál, þetta er risastórt mál og hana nú. Hvar á að ganga inn í skólann? Ég veit ekki einu sinni hvar á að beygja inná skólalóðina. Það byggist allt á Íslandi á því að maður eigi tvö börn og noti eldra barnið til að læra en ég á bara eitt barn og á enga vini með börn í þessum skóla og veit varla hvar skólinn er…. hvar geta foreldrar farið á námskeið til að læra að setja barnið sitt í skóla?
Þetta var svipað á leikskólanum foreldraviðtalið núna (rétt fyrir útskrift) gekk vel því ég vissi á hverju ég ætti von og hvað væri talað um og til hvers ætlast af mér en það tók 2 ár að fatta það og nú er það komið í lag, þá skulum við færa barnið þitt í annars konar skóla svo þú getir byrjað upp á nýtt.
En sem sagt hún á að byrja í skóla líklega 21. ágúst og það verður auglýst í blöðunum sagði stúlkan og skellihló, það er nú bara einsgott að þeir sendi mér bréf, ég vil fá bréf þegar svona stórt er í gangi eins og það að byrja í skóla.
En jæja ég vona að við náum þessu öllu á fyrstu 3 árum ÁM í skólanum og svo sér hún um sig sjálf eftir það eða er það ekki? Nei líklega ekki og líklega verðum við allan tímann að læra þetta.
Að lokum tek ég undir með þeim á 123 og segi bara BROSTU!
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna