Ég (Kristín Jóna) er um það bil 5 ára að leika með Konnýju og Kollu í gamla húsinu hans afa í Flekkuvík. Húsið er í eyði og ekkert gler í gluggum eða hurðar í húsinu.
Húsið er á tveimur hæðum og við förum upp á efri hæðina en á miðjum pallinum er einmitt gluggi og Konný systir lítur út og sér rollu fyrir utan og byrjar að jarma á hana, og það er eins og við manninn mælt rollan (sem var nú reyndar hrútur) kom æðandi inn í húsið og upp stigann á eftir okkur, stelpurnar ruku af stað með mig á milli sín og hlupu fyrst upp og síðan niður (og Hrúturinn á eftir) og þegar komið var út á tún tóku þær aldeilis á sprett og hlupu svo hratt að ég datt en þær drógu mig á milli sín og hlupu sem fætur toguðu að bústaðnum hjá afa og ömmu og öskruðu á afa sem kom út og skildi ekkert í þessum látum í okkur.
Stelpurnar sögðu honum sem var að hrúturinn væri á eftir okkur og afi sagði þær ekkert þurfa að óttast hann, hann væri ábyggilega jafn hræddur við þær og þær við hann en þegar afi stígur uppá þúfu til að svipast um eftir hrútnum þá kemur hann hlaupandi og stangaði afa beint í rassinn.
Við vorum aldrei alveg rólegar í Flekkuvíkinn eftir þetta fyrr en sumarið sem afi sagði okkur að hrúturinn væri dauður.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna