Skíðadrottningin

Ég (Kristín Jóna) er 15 ára á leið í skíðaferðalag með bekknum mínum, það á að fara í skátaskálann sem er hinum megin við þjóðveginn á móti Skíðaskálanum í Hveragerði.

Ég hafði aldrei farið á skíði og fékk því lánaðann búnað hjá vini mínum.  Rosalega fín skíði og stafi og eldrauðann skíðagalla sem var níðþröngur og flottur á mér.

Fljótlega eftir að við komum á staðinn og vorum búin að prófa litlu brekkuna okkar megin vildu krakkarnir fara yfir í Skíðaskálann og renna sér þar.  Að sjálfsögðu fór ég með.

Allir krakkarnir æða að skíðalyftunni sem er svona stöng með stýri neðan á og ég sé að fólk setur stöngina á milli lappanna á sér og fer þannig upp með lyftunni.  Ég geri það sama og sest á stýrið en … úps það gefur endalaust eftir og ég er alveg að detta niður en rétt næ að lyfta mér upp aftur og koma mér á rétt ról í brekkunni.  En hvað þá .. hvernig á ég að fara úr lyftunni, á ég að stökkva?  Á ég að skutla mér til hliðar?  Hvernig gerir fólk þetta?  Og áður en ég veit af er ég komin það hátt að ég neyðist til að láta mig detta út úr lyftunni.

Ég skríð aðeins frá svo ég sé ekki fyrir öðru fólki meðan ég bíð eftir Ingu vinkonu minni sem hafði nú stigið á skíði nokkrum sinnum.  Og sem ég sit þarna í brekkunni og horfi niður og hugsa Ó, mæ god, hvernig á ég að fara að því að renna mér niður alla þessa brekku, kemur allt í einu maður skíðandi til mín og stoppar beint fyrir framan mig og heilsar.

Og spyr svo hvort ég sé kannski til í að gera honum greiða?  Ég horfi á hann og segi: Greiða!  Já svarar hann, ég er nefnilega að fara að kenna svo stórum hópi á eftir og ætlaði að athuga hvort þú værir kannski til í að aðstoða mig.

Ég stari á manninn (hann veit greinilega ekkert um mig) meðan ég er að átta mig á hvað hann er að biðja um og stama svo út mér:  “Veistu það, ég er bara ekkert nema fötin!”

Og eftir þetta ákvað ég að ég skildi aldrei aftur “Overdressa” þannig að fólk gæti misskilið eins og gerðist þarna.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.