Íslenska á Íslandi


Einu sinni mér áður brá!

Við fórum í bíltúr uppað Geysi um helgina að sýna Ástrós Mirru hverina og fá okkur svo ís.

Við komum að Geysi og þar var allt fullt af fólki, mest megnis túristar en þó heyrðum við þarna íslensku inn á milli.  Við drifum okkur upp að hverunum og tókum að sjálfsögðu upp myndavélina til að ná á filmu (humm, engar filmur reyndar lengur) þegar Ástrós Mirra sér Hver gjósa í fyrsta sinn.  Þetta var hin ágætasta skemmtun því Strokkur gís á nokkurra mínútna fresti.

Jæja okkur var farið að langa í ísinn svo við drifum okkur niður að sjoppunni og ætluðum að kaupa ís en sjáum þá að það er bara litskrúðugur kúluís í boði, svo við Þráinn ákveðum að fara bara í sjoppuna til Hildar frænku á Minni-Borg og kaupa almennilegan ís.  Nema Ástrós Mirra vill ólm smakka svona bleikan ís og hver láir 5 ára stelpu það.  Svo við kaupum eina kúlu (kostaði 250- kr. Og 2 kúlur 350- kr.) og svo hleypur Ástrós bara út með ísinn meðan ég bíð í röð á kassann, því ísinn var ekki greiddur við afhendingu heldur á kassa áður en maður fór fram í veitingasalinn.

Það kemur að mér á kassanum og ég segi við stúlkuna “Ég er með einn ís”.  Hún horfir á mig og segir “sorry”, svo ég segi hærra og hægar “Ég er með einn ís, stelpan hljóp með hann út”.  Þá segir afgreiðslustelpan “Sorrý I don’t understand, I don’t speak Icelandic”.  Ha!  Talar ekki íslensku, bíddu ég er í sjoppunni uppá Geysi í Haukadal á Íslandi!  Svo ég segi “Fyrirgefðu en ég tala bara íslensku á íslandi” og stúlkan bara horfði á mig og skildi ekki neitt, og þá heyrist frá annarri afgreiðslustúlku sem stóð þarna rétt hjá, “hún talar ekki íslensku” og þá svara ég “þá skalt þú þýða fyrir hana því ég tala BARA íslensku á íslandi”.

Vitiði, ég á ekki til orð.  Hún talar ekki íslensku og hún skilur ekki einu sinni, ég er með einn ís.  Er Geysir ekki lengur fyrir íslendinga?  Eða ætli það sé önnur sjoppa fyrir okkur? Ég sá reyndar fleiri íslendinga þarna inni svo líklega er það ekki, en hvað er þetta þá?  Hvað ef afi og amma kæmu þarna, ekki tala þau ensku!  Fá þau þá bara ekki afgreiðslu eða fá kannski bara ost þegar þau biðja um ís, og kannski bara átta osta (eight cheese) það er svolítið líkt “einn ís”, það er spurning?  Ég alla vega er ekki ánægð með þetta og mun halda því áfram að tala íslensku þegar ég er á íslandi.

Mig grunar nú að íslenskir krakkar sem fara að vinna á Norskum fjallahótelum séu höfð í uppvaskinu þar til þau skilji og tali Norskuna nógu vel til að vera hæf í afgreiðslu, reyndar man ég ekki eftir að heyrt að þessir krakkar hafi nokkuð fengið að fara í afgreiðslu, því þar voru norskir krakkar sem gátu talað við landa sína og ég geri kröfu að ég geti það á Íslandi, þe. talað íslensku.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.