Hestaferðin


Sko, það er þannig að ég hef alltaf verið hrædd við hesta frá því að ég var lítil.  Einhvern veginn held ég að þeir muni sparka í mig ef ég labba fyrir aftan þá og svo er eitthvað meira sem ég kann ekki að segja frá.

En alla vega þegar Klara systir fór að búa með Sigga sem er hestamaður þá ákvað ég eitt vorið að athuga hvort hann væri ekki til í að leyfa mér að fara á bak.  Mér fannst svona að þetta væri tilvalið þe. að fara á bak hjá einhverjum sem maður þekkir svo ég þyrfti ekki að skammast mín niður úr öllu valdi.
Jæja dagurinn er ákveðinn, Konný og þau voru líka í bænum og átti að leyfa Silju Ýr að fara á bak í sömu ferð.  Siggi byrjar að reiða undir henni einn hring í gerðinu og svo er komið að mér.  Ég ítreka við Sigga að ég sé eins og 5 ára barn að fara á hestbak.  Hann jánkar því alveg en ég ítreka það samt aftur svo það fari nú ekki á milli mála og Siggi alveg já já, þetta er ekkert mál.

Jæja mér er hjálpað á bak og fæturnir settir í ístöðin og svo fer Siggi á bak sínum hesti og tekur tauminn minn því ég þorði nú ekki sjálf að halda í hann.  Hann fer með mig (og hestana) aðeins útfyrir gerðið og við löbbum svona hægt og rólega af stað og ég finn svona hvernig hesturinn hreyfist undir mér og er bara nokkuð sátt, já þetta er alveg að gera sig, ég næ að finna taktinn og bara nokkuð ánægð með mig þegar hesturinn skyndilega breytir um gangtegund og mér bregður svo að ég öskra uppyfir mig.

Og þá er eins og við manninn mælt að hesturinn minn rýkur af stað og Sigga hestur líka, Siggi missir tauminn minn og hans hestur hendir honum af baki (það hafði aldrei gerst með þennan hest áður) og minn hestur hleypur af stað og ég ekki með neinn taum (ekki að það hefði skipt neinu máli) og finn að ég er að detta og halla orðið ískyggilega mikið niður á aðra hliðina og er að rembast við að rétta mig af þegar ég sé bara bílaumferðina á Reykjanesbrautinni fyrir neðan mig, shit, hvað á ég að gera helvítis hesturinn á eftir að hlaupa út á götu með mig hangandi út á aðra hliðina alveg að missa takið.

Þá loksins kemur Siggi og nær að róa hestinn og rétta mig af, þá var hann sjálfur búinn að týna úrinu sínu því það datt af honum þegar honum var hent af baki og það fannst aldrei.

Já nei takk, þarna sannaðist það sem ég hélt, hestum er ekki treystandi þeir gera bara það sem þeir vilja þegar þeir vilja það og sparka ábyggilega beint í magann á mér ef ég myndi voga mér að labba fyrir aftan þá.  Bíta mig í höndina ef ég rétti hana að þeim (eins og hesturinn í Húsdýragarðinum sem beit Alexander í handlegginn þegar hann ætlaði að klappa hestinum, ekki beint til að fá mig til að trúa að hestar séu góðir) og fleira ófyrirsjáanlegt.

Já gott fólk svona fór mín eina hestaferð um ævina og ekki veit ég hvenær ég fer aðra ferð. Mér er reyndar sagt að þetta hafi allt verið mér að kenna því ég öskraði og maður öskrar víst aldrei nálægt hestum en ég segi nú bara að sá sem hafði tauminn hefði nú getað sagt mér að hann ætlaði að skipta um gangtegund svo ég hefði verið viðbúin.

Ég ætla þó að reyna að harka af mér því Ástrós Mirra elskar hesta og skilur ekkert í mömmu sinni.  Enda mamma hennar aldrei sagt henni að passa sig að fara ekki aftur fyrir hestinn eins og mig minnir að stöðugt hafi verið að segja við mig þegar ég kom nálægt hestum í gamla daga.

En mikið er nú gaman að taka myndir af þeim, það elska ég.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.