Síldarvertíð

28.2.2007

Jæja það er víst ekki hægt að kalla þennan tíma annað en síldarvertíð, því það er hreinlega brjálað að gera í Maritech og mörgum öðrum stöðum eftir því sem mér skilst en þetta er óvenjulegt hjá mér því venjulega er ég að skila 80% vinnu en fyrir feb. fór ég talsvert yfir 100% og hef ég aldrei í minni sögu og Maritech unnið svona mikið í einum mánuði og þetta virðist engan endi ætla að taka núna.

Það spilar bæði inní að tveir hafa hætt í mínum hóp (var ég búin að segja ykkur að ég skipti um hóp í janúar?) og einn er handleggsbrotinn svo … það segir sig sjálft.  Svo eru fyrirtæki enn að klára áramótavinnslur, launamiðavinnslur, uppgjör, fasteignagjaldaálagningar um allt land og svo núna breyting á vsk%. Það hefur samt verið gaman í vinnunni en ég hef vanrækt fjölskyldu og vini undanfarið svo þið sem saknið mín þið verðið að fyrirgefa þetta, við tökum vorið með trompi og bætum úr þessu.

Við Þráinn fórum á lútherska hjónahelgi um síðustu helgi og var það bæði slæm, góð og stórkostleg upplifun sem við munum búa að í framtíðinni.  Ástrós Mirra var hjá Auði ömmu og Sigga afa á meðan og fannst henni víst mjög gaman því hún amma er svo skemmtileg sagði hún.  Ekki leiðinlegt það.  Maður heyrir nú gjarnan um góðar ömmur og hlýjar ömmur ofl. en sjaldan um svona skemmtilegar ömmur.    Svo er árshátíð hjá GogG á næsta laugardag sem verður ábyggilega mjög skemmtilegt, förum á Brodway á LeSing showið.

Það eru engar nýjar fréttir frá Kína svo við höldum okkur á mottunni og hugsum sem minnst um það í bili.  Niðurtalningin sem ég er með á síðunni okkar er bara ca. það sem ég held að gæti orðið.

Ástrós Mirru gengur mjög vel í skólanum og henni finnst reikningur skemmtilegastur, eins og mömmu.  Var meira að segja tilbúin að sleppa spili við pabba sinn af því að það var reikningur sem hún átti eftir í heimanáminu en það hefði hún nú ekki gert fyrir skrift.

Ástrós Mirra er farin að æfa dans í skólanum (þe. í Holtaseli er boðið uppá alls konar tómstunda- og íþróttastarf) og finnst henni það mjög gaman og það hefur hún frá pabba sínum því ég hef alltaf verið fötluð ef ég þarf að læra spor, það tengist nú ábyggilega því að ég get ekki lært hægri og vinstri.

Jæja held ég búin að tækla síðustu vikur eða þannig og útskýra sambandsleysið í okkur (mér), hlakka til að heyra í ykkur og sjá þegar síldarvertíðin er búin.

Vin sínum skal maður vinur vera og gjalda gjöf við gjöf.
Úr Hávamálum

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.