Til minningar um afa minn.

21.6.2007

Hann afi var skrítinn og sköllóttur kall
með skinnhúfu og tók í nefið.
Svart kaffi og brennivín
var það besta sem honum var gefið.

Þetta er fyrsta vísan sem við systur munum eftir að hafa lært og það gerðum við fljótlega eftir að við fluttum til Konna afa og Laufey ömmu þegar foreldrar okkar skildu.

Við áttum yndislega æskudaga á heimili afa og ömmu.
Afi var mjög sérstakur kall og það breiðist bros á andlit okkar þegar við hugsum um hann. Pólítík elskaði hann að tala um og þá frekar um það sem miður fór heldur en það sem gott var. Hann notaði sterk og oft ljót lýsingarorð en þannig var afi bara og við ekkert að velta því fyrir okkur.
Þegar við vorum litlar stelpur með afa og ömmu í Flekkuvík þá fannst okkur afi mjög merkilegur kall. Hann átti bát og veiddi grásleppu. Hann sýndi okkur selina og hann fékk hrútshornin í afturendann eftir að við höfðum strítt hrútinum.

Afi var mjög stór og sterklegur maður og þótti okkur gott að hanga í síðunni á honum þegar við gengum í gegnum kríuvarpið því aldrei kom krían nálægt honum.
Þegar við urðum stærri og komumst á unglingsárin þá fengum við báðar vinnu í Ora í gegnum afa. Þá var skringilegt að fylgjast með kellingunum klæmast við hann, hann afa! En líka gaman að sjá hversu vel liðinn hann var og einhvern veginn þótti fólki vænt um hann þrátt fyrir hversu orðljótur hann var.
Þegar við urðum enn stærri, fullorðnar þá kynntumst við honum afa að vissu leiti upp á nýtt, afi var nefnilega persónuleiki sem var svo miklu meira en BARA afi. Þegar einhver giftist inn í fjölskylduna þá var oft spurt eftir að viðkomandi hitti afa, hvernig leist þér á afa og ef viðkomandi leist vel á hann þá var hann boðinn velkominn í fjölskylduna.

Afi var góður afi og enn betri langafi. Langafabörnin eiga miklar og skemmtilegar minningar um hann. Hann var Töff, því hann var með Tatto og hafði siglt á skipum sem gengu fyrir kolum í gamla daga. Hann hafði líka verið til þegar engir bílar voru og margt í þeim dúr.
Elsku afi við kveðjum þig með söknuði og lofum því að hugsa vel um ömmu sem á nú um sárt að binda.
Þínar dótturdætur

Konný og Kristín

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.