Mirrublogg árið 2013

Mirrublogg árið 2013

01.01.2013 10:03
Árið 2013 er hafið
Jæja þá er árið 2013 hafið og mér sýnist það bara byrja vel.  Við áttum æðislegan dag / kvöld í gær. Það miðast nú alltaf einhvern veginn allt að kvöldinu bæði á gamlársdag og aðfangadag. Allir að bíða eftir að eitthvað sérstakt gerist og mér finnast þessir dagar ekki neitt skemmtilegir, því það er ekkert gert.  Reyndar finnst mér það í lagi á aðfangadag en á gamlársdag þá erum við búin að hafa svo marga letidaga að þetta er nánast leiðinlegt.  Þess vegna skellti ég mér út í göngu í grenjandi rigningu með Erro í gær svo það væri eitthvað sem hefði verið gert annað en að undirbúa matinn og kvöldið.
En maturinn og kvöldið var mjög fínt.  Þráinn gerði æðislegan forrétt úr rækjum og grænmeti og ég hlakka nú til að smakka á afgangnum á eftir.  Ég gerði svo kalkúnabringur í aðallrétt með dyggri aðstoð frá tengdamömmu og svo var nammikaka Fiðra frænda í eftirrétt með heimalöguðum ís á eftir.  Sem sagt geggjaður matur og svo fylltist allt af gestum seinna um kvöldið þegar Margrét, Jón, Edilon, Ella, Skúli og Kristín komu og við áttum gott kvöld öll saman.
Erro átti nú frekar erfitt með sig en þegar gestirnir voru búnir að stoppa í 2 tíma var hann farinn að róast, fram að því var hann ekki húsum hæfur greyið.
Við röltum svo öll saman hérna uppá brú og mér finnst skemmtileg hefð hér að fólkið hittist í miðbænum og það er ákveðinn staður fyrir rakettur og tertur og allir setja sína á þann stað og kveikja svo upp.  Þannig að það virkar pínu eins og flugeldasýning en þetta eru bara raketturnar hjá Jóni og Gunnu.  Það var auðvitað mikið að unglingum í miðbænum og mikið gaman.  Við stoppuðum þarna smá stund og sáum svona meiri partinn af flugeldunum og það kom mér alveg á óvart hvað var mikið skotið.  Ekkert á við á Íslandi en þá sáust tertur á himni hingað og þangað og náði auðvitað hámarki um miðnættið.
Ég tók að sjálfsögðu myndavélina með mér en O my God ég er svo mikill klaufi að taka rakettumyndir, það gerist allt allt of hratt og ég næ engum myndum, enginn tími til að stilla myndavélina svo afraksturinn er ekki neitt til að hrópa fyrir en ég get alla vega sett inn eina mynd hér bara fyrir ykkur.

Ég sá á fésbókinni að fólk hefur verið misánægt með skaupið, reyndar bara séð neikvæð komment en vona að hinir jákvæðu hafi bara ekki verið á netinu en við ætlum að horfa á það á eftir því við gátum ekki séð það beint, en okkur sýnist það sýnilegt fyrir okkur núna.
Svo eigið góðan og letilegan nýjársdag elsku vinir, það ætla ég alla vega að gera.  Skelli mér kannski í smá göngu en það verður víst ekkert meira enda frekar svefnlaus, maður nefnilega vakir til kl. 4 en sefur bara til kl.. 8.30 og svo fer allur dagurinn í að reyna að leggja sig og ná upp svefnleysinu.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

03.01.2013 07:20
Hann fer í ljós 3svar í viku…..
ég er búin að hafa þetta lag á heilanum síðan ég horfði á þátt um lýtalækningar hér í fyrradag.  Í þættinum var talað við alls konar fólk og rætt um ofnotkun lýtalækninga og svo endaði það á að taka saman lista yfir 10 verstu dæmin.
Jesús góður hvað fólk er bilað og hvernig stendur á því að þessir læknar sem framkvæma svona aðgerðir eru með læknaleyfi.    Ég held það þyrfti að senda þetta fólk til annars konar lækna en lýtalækna, td. sálfræðinga, geðlækna ofl.
Í fimmta sæti voru tvíburar karlmenn sem höfðu verið einhvers konar fyrirsætur í heimalandinu og báðir fóru í nákvæmlega eins lýtaaðgerðir og litu út eins og frík í dag.  Tvíburar, sem sagt báðir jafn bilaðir.
Í fjórða sæti var maður sem var búinn að láta breyta sér í Blettatígur, já breyta sér í blettatígur.  Hann var sannfærður að hann væri fæddur í röngum líkama og var búinn að láta tattóvera á sig bletti um allan skrokkinn, líka andlitið og hækka á sér kinnbeinin og breyta öllu í kringum munninn, setja í sig vígtennur og ég veit ekki hvað.  Dásamlegt ábyggilega að líta í spegil á morgnanna.  Jesús góður hvað þetta er mikil bilun.
Í þriðja sæti var Dolly Parton, sagt var að hún hefði verið gullfalleg, brjóstastór og góð söngkona.  En svo var þetta ekki nóg, svo hún fór að láta laga eitthvað smá í andlitinu og stækka brjóstin meira osfrv.  Dolly er svo sem ekki afskræmd í dag nema brjóstin á henni sem venjuleg manneskja ætti bara ekki að geta borið og ég gæti nú trúað að hún gangi fyrir verkjatöflum út af bakinu, því venjulegt bak ber ekki öll þessi kíló.  En mig grunar að hún sé í þriðja sæti framfyrir blettatígurinn vegna þess að hún þykir ekki biluð manneskja.
Í öðru sæti var Michael Jackson og við þekkjum öll hans sorglegu sögu sem mest er þó sagan af fégráðugum lýtalæknum sem gera hvað sem er fyrir peninga.  Michael var bara allt sitt líf misnotaður af læknum, fyrst lýtalæknum og svo öðrum læknum og þeir drápu hann á endanum. Mér finnst vanta eitthvað uppá að þessi læknaeiður sé í heiðri haldinn þarna í hinni margrómuðu Ameríku.
Að lokum var í  fyrsta sæti kona sem ég gæti trúað að hafa verið frá Hawaii eða þar nálægt.  Ung og falleg stúlka með fallegt bros og vildi verða fræg söngkona.  Henni var fljótlega sagt að til að hún gæti orðið fræg yrði hún að láta laga þetta og hitt og breyta þessu og hinu.  Ég er ekki að grínast, þetta voru ráðleggingar fólks í bransanum að hún gæti ekki náð frægð með það útlit sem hún hafði.  En hún var gullfalleg, ég er ekki að grínast.  Svo hún byrjaði að láta smá laga hér og þar alveg þangað til hún gat ekki lengur fjármagnað fleiri lýtaaðgerðir, en þá er hún orðin eins konar lýtaaðgerðarfíkill.  Já það er víst hægt að verða lítaðagerðarfíkill og hún gat ekki hætt.  Hennar síðasta aðgerð var að í staðinn fyrir að fá Botox undir húðina í andlitinu til að vera slétt og “falleg” þá reddaði hún sér sjálf þar sem hún var orðin blönk eins og ég sagði áðan.  Hún tók matarolíu og sprautaði undir húðina.  Já gott fólk hún tók matarolíu og sprautaði undir húðina, fékk sýkingu og er eins og … ja ekki manneskja í dag, allir sem viðtal var við í þættinum hrylltu sig svo við og maður gat nánast ekki horft á myndina á henni.  Skyldi hún horfa í spegil í dag og vera ánægð með útlit sitt eða skyldi hún kannski vera á geðdeild þar sem það hlýtur að vera erfitt að díla við það að hafa eyðilagt sig.  Ég ætlaði að reyna að finna mynd af henni til að sýna ykkur en fann ekki svo ég verð bara að segja ykkur að þetta er skelfilegt.
Og allt þetta fólk fór til læknis sem er búinn að fara með eið sem uppistaðan er að hann muni bjarga mannslífum og það allt.  Þetta eru menn og konur sem hafa farið í gegnum langt nám, þar sem mikið af siðferðislegum spurningum eru ræddar.  Það eru þeir sem segja að þetta sé bara flott og allt í lagi.  Af hverju ætti almúginn ekki að trúa þeim.  Djísus hvað fólk getur verið peningagráðugt.
Mér persónulega finnst að allir þeir sem vilja fara í lýtaaðgerð ættu að þurfa að fara í 2 – 3 tíma hjá sálfræðingi áður en lýtaaðgerðin er samþykkt, því oft held ég að það sem viðkomandi sér í speglinum sé brengluð sjálfsmynd sem má laga með sálfræðimeðferð en ekki lýtameðferð.
Auðvitað er fullt af smá lýtaaðgerðum sem er allt í lagi að fólk láti framkvæma, eins og að taka af sér einhverja risa vörtu í andliti, og allt það sem óvart fer að vaxa á okkur og á ekki að vera, en hvort nefið á mér sé það nef sem eigi að vera á mér eða hvort það sé réttlætanlegt að ég láti breyta því það krefst þess að sálfræðingur meti það hvort þetta sé raunverulegt lýti en ekki bara í hausnum á mér.  En úps, þá yrði nú svo lítið að gera hjá þessum lýtalæknum, sérstaklega í Ameríku því sem betur fer held ég að lýtalæknar heima séu nú ekki svona ýktir en maður veit aldrei, ef einhver moldríkur gaur kæmi til þeirra tilbúinn að borga hundruðir milljóna til að láta breyta sér, þá er spurning hvað þeir myndu gera.
En nóg af þessu, æi……….. það hljómar enn í hausnum á mér lagið, hélt ég myndi losna við það með því að segja ykkur frá þessum þætti.
En þá að áramótaskaupinu sem ég er ekki búin að sjá allt en nóg til að taka þátt í smá umræðu og hún er Orðbragðið, blótið og það allt.  Ádeilan á DV sem mér finnst hárbeitt og vel gert skot.  Og þið sem fóruð í panik yfir blótinu skuluð vita að þetta er jafnvel enn verra á kommentakerfi DV.  Það að heyra einhvern tala svona við annan mann í strætó er skelfilegt, það að einhver skuli segja svona við annan mann á netinu er nefnilega ALVEG JAFN SKELFILEGT og tími til að við vöknum og hættum þessu.
Konný systir lenti nú í einum sem var skelfilega orðljótur og með bara hótanir að hann væri að koma til Eyja og myndi nú komast að því hver hún væri þessi stúlkukind sem var Guðjónsdóttir og hver þessi Guðjón væri, hann kæmist nú að því.  Bara af því að maðurinn var nú ekki alveg læs og misskildi komment sem hún skrifaði um áramótaskaupið.  Ég mæli með því gott fólk að ef þið lendið í einhverju svona vafasömu, takið afrit af skrifunum og geymið í wordskjali hjá ykkur ef á þyrfti að halda.  Takið líka skjámyndir ef þið sjáið eitthvað dónlegt, ég veit um konu sem hafði sem betur fer vit á því þegar hún lenti óvart í því að tala við kynferðisglæpamann á msn hjá dóttur sinni og hann hélt að hún væri 13 ára stúlka.  Hún hafði sönnunargögn þegar til kom.
En fyrst og fremst hafið vit á því að segja ekkert á netinu sem þið getið ekki sagt augliti til auglitis við annan fólk.  Verum vinir og elskum hvort annað hvernig sem nefið á okkur er eða þó við séum með lítil brjóst því það kemur því bara ekkert við hver ég er sem manneskja.
Þangað til næst, ykkar Kristín sem getur því miður ekki farið í ljós 3svar í viku því það er svo vont að liggja á ljósabekk.  Helv. er ég nú fegin í dag.
Smá gleði í restina, verð að setja hér inn nokkrar myndir úr þokunni hérna á nýjársdag.

 

07.01.2013 07:57
Jólin kvödd með trukki
Jæja þá eru jólin 2012 búin og allt komið ofaní kassa, jólatréð var brennt í arninum allt nema súlan sem hélt því uppi eða stofninn eins og ég ætti líklega að kalla það, hann fékk nefnilega nýtt hlutverk eða kannski ekki nýtt heldur fékk að halda áfram að vera í stofunni hjá okkur og við vöfðum ljósaseríu utan um hann og erum komin með þennan flotta standlampa í hornið.  Mynd af honum seinna.
Annars var þetta alveg dásamleg helgi og mikið gaman og mikil gleði.  Byrjuðum á að fara í matarboð til Valgerðar og Þórólfs sem eru íslendingar sem búa hérna úti í sveit.  Þau þurfa að fara að flytja fljótlega og Valgerður ákvað að létta á frystikistunni og bauð fullt af fólki í Elg og Dádýr og við höfðum hvorugt smakkað svo þetta var mjög spennandi.  Það var svo indælt að koma til þeirra og Valgerður var tilbúin með elgsteik, dádýrakjöt og súpu með elg í og svo gátu allir borðað eins og þeir vildu.  Hún var nú eitthvað hógvær fyrir boðið og sagði að þetta væri nú meira bara svona smakk en það var ekki eldaður matur hér um kvöldið sem segir mér nú að fólkið mitt hafi borðað sitt satt.  Svo var setið og spjallað og við kynntumst þessum mæðginum aðeins betur.  Málið er nefnilega að ég og Valgerður höfum átt smá samskipti á fésinu en höfðum aldrei hittst svo það var auðvitað gaman að hittast í eigin persónu.
Nú á leiðinni til baka var dásemdarveður og tók bíltúrinn heim aðeins lengri tíma en venjulega því ég þurfti að stoppa og taka myndir.

Svo var bara farið heim og keypt nammi í poka á afslætti og kúrt með nammi og horft á bíómyndir um kvöldið.
Svo var búið að ákveða eða sko, ég var búin að ákveða fyrst það spáði góðu veðri í gær að við færum í góðan bíltúr með Maddý og gerðum eitthvað meira úr deginum og við ákváðum að skella okkur að vitanum Lindesnes FYR.  Svo heyrðum við í Margréti og Jóni sem ætluðu að koma í göngutúr til okkar en ákváðu að breyta því og koma með í bíltúr.  Veðrið var yndislegt, 8 stiga hiti, logn og sól.  Og leiðin að vitanum er svo falleg.  Ok, leiðin að öllu hérna er svo falleg, því hér er bara svo fallegt.  Þvílík lukka að hann Þráinn lenti hér en ekki einhvers staðar annars staðar því það var verið að bjóða honum vinnu í Lillehammer á sama tíma og þetta kom upp, ég er ekki viss um að þar sé þessi mikla fegurð og hér.  Já já ég veit ég er ástfangin að Mandal og þessu svæði ekki spurning.  En alla vega við skelltum okkur á Lindesnes FYR og áttum góðan bíltúr í góðu veðri og svo stoppuðum við hellings lengi þarna því veðrið var gott.  Þráinn, Maddý og Jón höfðu ekki komið þarna áður svo það var einmitt tími til þess að þau fengju að sjá uppáhaldsvitann minn.  Úps, gleymdi að segja að Erro hafði svo sem ekki heldur komið og hann var sko ánægður með þetta en hefði líklega viljað vera laus frekar og hlaupa þarna um allt.

Þarna eru 3 ef ekki 4 sýningar í gangi sem er gaman að skoða fyrir utan það að fara uppí vitann sjálfan og horfa á útsýnið og ganga um svæðið sem er svo fallegt.  Þarna er allt fullt af neðanjarðargöngum sem gaman er að labba í gegnum.  Í einum þeirra er ljósmyndasýning og þar eru bara myndir af vitanum sjálfum en geggjað umhverfi svona hrjúfir klettaveggir og dulúð gera það svo smart.
Önnur ljósmyndasýning var þarna í gangi og hún sýnir myndir af fólki sem lifði af fangabúðir í seinni heimstyrjöldinni. Sem dæmi þarna er kona á ömmu aldri sem var 17 ára handtekin og sett í fangabúðir því hún elskaði ekki réttan mann eða þannig.  Hún var í 8 ár í fangabúðum og var ófrísk þegar hún var handtekin og eignaðist dóttur þarna og var hún fyrstu 7 árin sín í fangabúðum.  Skelfilegt að hugsa til þessa og flottar myndir af fólkinu eins og það er í dag og lesa um sögu þess.
Þriðja sýningin sem við skoðuðum var um vitann sjálfann og ljósin sem hafa verið í honum.
Á þessari fyrstu mynd sést hvernig fyrsti ljósgjafinn var þarna.  Í dag sjáum við bara neðri partinn sem mér finnst ósköp fallegur og myndrænn en ég gerði mér enga grein fyrir því hvernig þetta hafði verið áður fyrr.  Þarna var kveiktur varðeldur undir og birtan frá honum einhvern veginn (úff ég hefði átt að hlusta betur á það sem Þráinn sagði um þetta í gær) komið uppí efri partinn og virkað eins ljós, eins og sést á þessu líkani.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

08.01.2013 07:27
Skólastelpa
Jæja skólinn byrjaði í gær og ég fylltist svo mikilli spennu, ákvað cirka hvað ég ætlaði að gera í fyrsta verkefninu og svo þegar ég vaknaði í morgun þá var hausinn á fullu að skipuleggja og plana hvernig það ætti að vera, en það verður víst að bíða þar til eftir vinnu í dag.
Mér finnst óskaplega skemmtilegt að geta sagt frá því að ég sé í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þó ég sé bara í einu fagi þá er ég samt skráð í þennan skóla.  Í þessum áfanga eru nemendur um allt land og alla leið til Noregs (þe. ég sem sagt) og svo er kennarinn staddur á Hornafirði, skemmtilegt.
Setti inn mynd á fésið í gær af nýja lampanum okkar og hann vakti greinilega lukku.

Mér finnst þessi lampi algjör snilld og er svo ánægð með hann, kemur flott birta af honum þarna í horninu. Næsta heimaföndur er að búa til kistu sem verður sett undir gluggann í holinu og ég ætla svo að setja sessu á hana og þá get ég setið í glugganum þegar fer að vora því við eigum engar svalir.  Maður verður að bjarga sér með svona hluti og alltaf gott að eiga kistur til að geyma dót í sérstaklega þar sem engar geymslur eru.  Hér á ekki að safna dóti í geymslu heldur bara gefa það sem ekki þarf að nota.  En annars langar mig að fara að skreppa á loppumarkað fljótlega og er að hugsa um að draga tengdó í eina svoleiðis búð áður en ég skila henni til Danmerkur til Helgu systur hennar.  Já kannski við skreppum bara á fimmtudaginn.  Sjáum alla vega til með það.
Hér er annars allt bara í góðu og Erro er að standa sig vel í öllu nema ganga við hæl og láta Nóa í friði.  Annars er hann bara flottur og góður hundur.  Og ég sem er ekki hundakelling ber þann bagga að vera greinilega besti vinur hans því hann liggur alltaf undir skrifborðinu mínu þegar ég er að vinna og ef allir eru heima en ég á skrifstofunni þá er hann hjá mér en ekki frammi hjá hinum.  Alla vega oft en kannski ekki alltaf.  Hann er nú ansi flottur hundur og vekur víst mjög mikla athygli þegar Þráinn hjólar með hann hér um bæinn.  Skilst að fólki vinki og heilsi þeim í massavís.  Gaman að því.

Svo er Nói alltaf að verða áræðnari og áræðnari að fara út en gallinn við það samt er að hann er þó enn svo mikil gunga að ég verð að hafa hurðina opna svo hann geti flúið inn.  Hann er til dæmis svo hræddur við fólk að tala í gsm að hann flýr inn, hann flýr inn ef bíll keyrir framhjá (skil það svosem alveg) en ég vona að hann venjist þessu fljótt núna svo ég geti farið að leyfa honum að vera lengur úti í einu og loka hurðinni því það verður svo kalt í íbúðinni þegar hún er svona opin.
Heyrið mig, svo er það heimasætan hún Ástrós Mirra, ég er viss um að ykkur finnst ég tala lítið um hana en það er kannski bara vegna þess að hún er unglingur.  Need I say more?
En hún elskar það að fara í svona ferðir ef Erro má koma með og það er æði, annars er Erro ömurlegur ennþá við hana hérna heima og hún þarf að flýja hann oft á tíðum því hann getur ekki séð hana í friði frekar en köttinn.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

12.01.2013 08:11
Nói kallinn
Nú er ég orðin ansi vondauf að við finnum hann á lífi, það er núna 7 stiga frost og vindur svo það getur ekki hafa verið góð nótt úti fyrir kallinn síðasta nótt.  Ég verð að viðurkenna og ég bara sofna grátandi og vakna grátandi.  Hefði aldrei trúað því að ég gæti orðið svona sorgmædd yfir dýri.  Þar hafiðið það.  Ég sem hef oft gert grín að fólki sem tekur dýrunum sínum næstum eins manneskjum.  En ég er ekkert að segja að ég geri það því ég væri nú líklega búin að gera meira en labba endalaust um hverfið og kalla ef það væri barn sem væri týnt en það viðurkennist að við erum svolítið ein hérna.  Þekkjum lítið af fólki, getum ekki auglýst á fésinu því það eru bara ca. 4-5 þar sem búa hérna og þeir vita af þessu.  Eina sem við getum gert er að labba um hverfið og kalla út gluggann á korters fresti.
Svo ætlum við Ástrós Mirra að fara uppí Langåsen sem við bjuggum áður, þótt það séu 4 km þangað og athuga hvort hann hafi farið þangað og sé þar í skóginum eða þar um kring.  Er bara að bíða eftir dagsbirtunni.
Setjum svo auglýsingu út í búð og meira held ég við getum ekki gert nema beðið að hann hafi komist einhvern staðar inn og sé ekki frosinn úti.

 

Með litla von en þó eitthvað smá eftir ennþá
Ykkar Kristín Jóna

 

15.01.2013 07:28
Jæja
það er eiginlega ekki mikið meira að segja þessa dagana.  Þið sem hafið saknað bloggsins míns megið vita það að þegar koma svona pásur þá er bara hreinlega eitthvað að.  Núna er það að Nói er týndur og ég er bara þannig manneskja að ég get ekki verið að skrifa um skemmtilega hluti þegar ég er svona sorgmædd.  En ég er samt að reyna að ýta þessari sorg til hliðar alla vega hluta úr degi og ætla að vona að allar sögurnar af kisum sem voru svo og svo lengi í burtu og komu svo heim muni rætast á þessu heimili líka, þó á ég einhvern veginn erfitt með að trúa því og finnst að ég muni aldrei sjá hann aftur.

En auðvitað er ýmislegt búið að vera að gerast.  Ég byrjaði í skólanum og vann fyrsta verkefnið mitt “portraitmyndatöku með einu ljósi” með henni tengdamóður minni en hún er svo þolinmóð við mig að það er algjör dásemd að taka af henni myndir.
Ég held það hafi heppnast ágætlega en ég hef ekki fengið komment frá kennaranum mínum en það kemur vonandi í dag.

Svo er næsta verkefni að taka “portraitmyndir með tveimur ljósum” og ég er búin að taka myndir af Þráni en ætla að bíða með að sýna þær þar til ég er búin að vinna þær og skila inn í verkefnið sem ég geri líklega í kvöld eða á morgun.
Heyriði ég sá einhverja grein áðan um það væri yfirleitt elsta systkinið sem væri gáfaðast.  Það getur sko vel verið en ég hef stundum velt fyrir mér þegar verið er að greina manneskjur hvernig þær eru eftir því hvar í systkinaröðinni þær eru, hvar ég yrði staðsett og hvernig ég kæmi út.  Ég var nefnilega fyrst yngsta barn og var það í 7 ár og naut þess augljóslega mikið. Notfærði mér það út í ystu æsar ef svo má á orði komast.  Konný greyið þurfti ansi oft að lúffa bara af því að ég var yngri.  Oftast vissi ég alveg að niðurstöðurnar yrðu mér í hag því ég kunni nefnilega á fólk, vissi hvað virkaði, blá augu fallegt bros og smá “gerðu það” með því virkar alltaf.
En svo breyttust aðstæður, okkur systrum er splittað upp, Konný reyndar heldur áfram að vera elsta barn því pabbi eignast strák sem er miklu yngri en ég verð elsta barn í nýrri fjölskyldu þar sem 2 lítil börn eru komin þegar ég kem aftur til mömmu.  (Sko ég bjó hjá afa og ömmu frá 5 ára til 11 ára, fer þá aftur til mömmu sem þá er gift og með 2 lítil börn).
Þannig að þá er ég allt í einu orðin elst en samt ekki, því auðvitað var Konný ennþá til en við bara hittumst mjög sjaldan enda hún suður í Hafnarfirði og ég í Reykjavík.  Og já svo bætist einn krakki enn í hópinn þannig að ég verð elst af 4 systkinum.  Já lesið í þetta!  Hvað segir þetta um mig og hver er ég út frá því?  Er ég kannski misgáfuð?  Já kannski ég sé það bara, en ég skil alveg þetta með gáfur og elsta barnið, elsta barnið þarf að hugsa um þau yngri, elsta barnið þarf að hjálpa þeim yngri með námið, elsta barnið þarf hreinlega að hugsa meira en hin. Hin leita bara til stóru systur ef það er hægt.  Ég geri það en ég leita reyndar ótrúlega mikið til litlu systur líka, málið er að ég held að þó ég hafi fullt af elstubarnasyndrómum þá hef ég mest af yngribarnasyndrómum líka því ég er hrútur og hrúturinn er litla barnið í stjörnumerkjahringnum svo það hlýtur að gefa auga leið að ég er litla barnið með bláu augun sem engin stenst.  Og alltaf!  Það kannski dofnar liturinn á augunum með aldrinum en ég er samt litla barnið.  Úff þó ég sé samt stóra barnið, nei nú er ég alveg komin í tvo hringi og þarf hjálp frá einhverjum fræðingum því ég er svo klofin þegar ég hugsa um þessa hluti.
Og talandi um að splitta syskinum upp, þrátt fyrir að foreldrar mínir og afi og amma séu sko besta fólk þá gerðu þau stóran feil þarna og þetta á enginn fullorðinn manneskja að gera.  Þetta er bara eigingirni og ekkert annað og bara hrikalega slæmt fyrir systkini.  Það er ekki þeim að þakka að við Konný náðum saman sem systur og vinkonur.  Það var bara alveg óvart, því ekki var pabbi með einhvern ákveðinn umgengnisrétt, ég fór bara í heimsókn til hans ef mig langaði og hann var heima, eða ef Konný var heima.  Ekki var það heldur með Konný hún kom held ég enn sjaldnar til mömmu en það var ábyggilega vegna þess að þar var allt fullt af krökkum og enginn friður. Svo átti hún plötuspilarann og öll Bravoblöðin og hún var eldri svo eðlilega sótti ég meira í hana en hún í mig.  En ég er þakklát þeim öflum sem færðu okkur það vel saman og ég elska þessa systur mína svo mikið og gæti ekki án hennar verið.  Reyndar er það sama með litlu systur en það er svo einkennilegt að hún er líka eins og stóra systir við mig og vinkonur erum við líka og ég elska hana svo mikið líka og ég sakna þeirra beggja en tala við þær nánast á hverjum degi.  Konný kannski aðeins meira því við eigum nú sama áhugamálið svo við erum stundum heilu kvöldin að diskútera ljósmyndun oþh.
En það var svo margt einkennilegt greinilega þegar ég var að alast upp.  Mér finnst eins og fólk hafi lokað augunum fyrir allt of mörgum hlutum, ég vona að það sé breytt í dag.  Alla vega er friðhelgi heimilisins ekki friðhelg í mínum huga ef illa er hugsað um barn eða börn eða jafnvel verið að níðast á þeim og þeim kannski misþyrmt líka.  Það að maður skipti sér ekki af því sem gerist inn á annarra manna heimilinum vona ég að sé liðin tíð.  Hvað ætli séu mörg mál í viðbót við þau sem komu í fréttirnar í síðustu viku.  Hvað vissu margir af þessum köllum og létu þá eiga sig þar sem þeir voru að taka unga stráka í fangið og ……
Að ég tali nú ekki um ljótari mál eins og það sem gerðist í Hafnarfirði.  Ég held það þurfi nú að fara að kafa enn dýpra og skoða hvaða brenglun hafi verið í gangi í þjóðfélaginu á þessum tíma.  Ég held að kynferðisbrotamálum hafi ekkert fækkað en sem betur fer segja börnin oftar frá í dag en hvað gerir það fyrir þau?  Hvað er gert við þessa brotamenn?  Miðað við fjölda málanna hjá barnaverndarnefndum ættu öll fangelsi að vera yfirfull og meira en það bara út af svona málum.
Kæra þjóð, hættum að þegja og segjum frá, því það getur enginn hjálpað þér ef enginn veit af vandamálinu.  Hættum að hylma yfir með brotamönnum sama hvað þeir brutu af sér.  Hættum að vera meðvirk og hættum að horfa til baka og förum að horfa fram á veginn.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

16.01.2013 06:57
Kóngurinn er kominn
Já sæll þetta var skrítinn dagur í gær. Ég var alltaf að vakna um nóttina og dreymdi bara Nóa. Þegar ég kem framúr sé ég fótspor í snjónum og hringi í Þráin sem fór út kl. 6 með hundinn til að tékka hvort þessi spor hafi verið þá líka og sagði já, og hann hefði fylgt þeim eftir og þau lágu inní hjólaport á bak við hús.  Ég kíki út um þann glugga og viti menn portið er fullt af kattasporum.  Svo vaknar Maddý og kemur niður og segir:  Hann hlýtur að koma heim í dag, ég er búin að vera að vakna í alla nótt og finnst ég alltaf heyra í honum.
Vá einkennilegt.  Við ákveðum að Maddý skelli sér út í port og fer að athuga hvort hann sé þar.  En ekkert og engin svör þegar hún kallar en málið er að í húsinu á móti okkur sem myndar þetta port eru tvö göt undir húsið og villikettir gætu átt ágætisheimili þar í friði.  En það eru mikil læti í þessu porti og því hentar það ekki kónginum sem er skíthræddur við bíla, talandi fólk og öll umhverfishljóð.
Hér er mynd af portinu og útsýnið úr skrifstofunni minni.  (aðeins minna spennandi en uppi í Langåsen)

En jæja þar sem engin svör voru hjá Maddý og við samt með svo mikla tilfinningu fyrir því að hann sé nálægur ákveð ég að hitanum verði spanderað þennan daginn og útihurðin verði opin.  Já, já 4 stiga frost og kuldinn næddi hér upp um allt en ég sótti bara annan ofn og setti á skrifstofugólfið hjá mér. Nói skyldi komast inn ef hann vildi.
Svo held ég bara áfram að vinna en segi svo við Maddý þegar fer að líða á daginn að það verði nú einhver vöðvabólgan sem ég verði með um kvöldið því ég sé að snúa mér og kíkja í portið á nokkurra mínútna fresti.
Jæja það er komið fram yfir hádegi, klukkan um tvö og ég er að tala við viðskiptavin í símann þegar ég enn og aftur sný mér við og ………………………… jesús góður kötturinn minn sem er búinn að vera týndur í 5 daga situr þarna úti.  Og viðskiptavinurinn segir strax:  Já hlaupu út og náðu í hann. Og ég hendi frá mér símanum og öskra á Maddý og hleyp út með hamarandi hjarta og skíthrædd um að hann hlaupi í burtu þegar ég kem.  Ég læddist nú að honum þar sem hann sat í gættinni á holunni inní kjallarann og segi mjög blíðri röddu, hæ Nói minn, ertu kominn heim?  Og þá kemur smá mjálm og önnur loppan teygir sig fram og þá tek ég eftir að það er smá snjóskafl uppvið holuna og ég segi:  Æi, viltu ekki stíga í kaldan snjóinn?  Og það er bara aftur mjálmað og svo ég gríp í framloppurnar á honum og tek hann til mín.  Vá hvað það var notarleg tilfinning og svo stend ég upp og legg af stað heim en hann barðist aðeins um í fanginu á mér eitthvað óöruggur en um leið og við nálgumst dyrnar heima verður hann rólegri og þegar ég kem inn, kalla ég í Maddý að loka litla skrímslið inni á baði svo Nói geti gengið óáreittur um íbúðina og hún sagðist nú þegar vera búin að því.  Svo Nói minn stekkur beint uppá háaloft þar sem maturinn hans er en ég var auðvitað ekki búin að setja nýja mat í skálina eða vatn svo ég hljóp upp á eftir honum og set vatn og mat í skálina og hann byrjar strax að borða.
Sjáið bleika ferhyrninginn sem ég er búin að teikna þarna á myndina, þarna inni situr hann þegar ég sé hann og ef ekki væri þessi hvíti blettur á hálsinum á honum er ég bara ekkert viss um ég hefði séð hann.

Þegar hann var búinn að borða smá fór hann í skoðunarferð, og gott ef hann var ekki að leita að henni Ástrós Mirru, því hann fór inní hennar svefnherbergi og svo út um allt svona mikið leitandi.  En hún var í skólanum og ekki með gsm á sér svo ég gat ekki látið hana vita.  Hún sem ætlaði að labba lengri leiðina heim svo hún gæti leitað að honum á leiðinni.
En jæja svo náðum við amma í rjóma og settum í skál svo kóngurinn gæti nú fengið smá trít og hann smakkaði á honum en hann hefur aldrei verið matargat og smakkar stundum á einhverju svona sem við höldum að honum eigi að þykja gott en svo ekkert meira.  Til dæmis ef ég kaupi handa honum svona blautmat, eitthvað kjöt í sósu, þá sleikir hann sósuna en skilur hitt svo eftir.  Aldrei verið mikið matargat og borðar oft en lítið í einu.  Jæja svo ákvað ég að kveikja bara uppí arninum snemma svo honum yrði hlýtt og hér á þessu heimili var mjög hlýtt og kósý eftir kl. 15 en ískalt fram að því.
Jæja svo fer að líða að því að Ástrós Mirra komi heim svo ég fer að fylgjast með út um gluggann hvort ég sjái hana ekki koma, get sem sagt ekki hætt að fylgjast með út um gluggann (kíkti af gömlum vana í morgun líka) og þegar ég sé hana kalla ég til hennar en hún er ekkert að fatta hvaðan kallið kemur en sér mig svo á endanum og ég hrópa að Nói sé kominn svo hún tekur á sprett og kemur heim.  Og það fyrst sem hún sagði þegar hún kom inn, veistu mamma, ég var alveg viss um að hann væri kominn heim þegar ég var að labba á leiðinni núna. ég fann það á mér.
Ja hérna!  Við vorum sko látin vita af þessu fyrirfram af einhverjum æðri máttarvöldum það er á hreinu.  Nói var ekkert smá ánægður að sjá Mirruna sína og þau fóru strax að kúra saman og litla skrímsið (Erro) fékk ekki að koma fram alveg strax.  En þegar hann kom fram þá hljóp hann þefandi um alla íbúð alveg fram og til baka.  Sko ég er alveg viss um að Erro þykir vænt um Nóa en það eru svo mikil læti í honum að Nói er hræddur við hann eða alla vega leiðist hann.  Samt lágu þeir nú báðir í stofunni í gærkvöldi og mikið kósí fjölskyldulíf hjá okkur.  Ástrós Mirra vill reyndar meina það að Nói hafi öðlast einhvern kjark á þessu ferðalagi sínu því henni finnst hann þola Erro betur en ég held að það sé nú bara það að hann viti að þeir verði að sættast ef þeir ætli að vera báðir heima hérna.

Eftir þetta ævintýri og ferðalag þá er búið að ákveða að Nói kóngur verður aftur inniköttur, ég hef ekki taugar í svona lagað.  Heilir 5 dagar sem maður hefur ekki getað á sér heilum tekið út af áhyggjum af honum, það mun ekkert breytast ég þekki mig.  Svo lífið verður einfaldað, kötturinn verður bara inni og það verður að flýta smíði kistunnar góðu fyrir framan gluggakistuna í ganginum svo ég og hann getum setið úti í glugga.
Kóngurinn kominn uppí stiga og horfir á litla skrímslið sem hoppar og skoppar um því hann langar svo að leika við hann.

Og núna getum við farið að hlakka til þess að fara til Danmerkur á föstudaginn.  Nói kominn heim og allir búnir að fá frí í vinnu og skóla og þetta verður bara frábær helgi.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

17.01.2013 07:15
Afmæliskall
Jæja þá er komið að afmælisdegi númer 2 hér í Mandal hjá elsku eiginmanninum, vonandi verður þessi afmælisdagur heldur kátari en sá í fyrra, þar sem hann var einn hérna úti.  Ég man hann ætlaði að koma með tertu í vinnuna handa strákunum í fyrra og fór í bakarí / kaffihús og þar var til terta en hún var seld í sneiðum og þegar hann spurðist fyrir um hvort hann gæti ekki keypt heila köku fór stúlkan að telja hvað væru margar sneiðar á kökunni og margfalda sem þýddi ef ég man rétt að kakan átti að kosta um 1200 krónur norskar sem þýðir 24.000 isk.  svo að sjálfsögðu hætti hann við þetta.  Í dag fá strákarnir skúffuköku ala Kristín með bleiku skrauti.
Til hamingju með daginn ástin mín.

 

Hann var notaður sem fyrirsæta um daginn kallinn minn í verkefni númer 2 í Listljósmyndanáminu sem ég er í, stóð sig vel eins og alltaf enda vanur frá því hann fæddist.  Hann á margar góðar minningar tengdar ljósmyndun hjá pabba sínum þegar hann var strákur, eins og þessa sem var tekin bara af því að hann var að byrja í stubba.

svo er hér yndisleg mynd af honum og Maddý (wowwwww skvísan)

Svo er hér unga parið nýbyrjað saman og þó, það gætu nú alveg verið komin 3 ár í sambúð þarna því við byrjuðum að búa svo ung.

Svo giftum við okkur 13 árum síðar

Svo kom ljósið okkar í heiminn árið 2000 og leit út alveg eins og pabbi sinn
Ég veit ég þarf ekkert að segja ykkur hvað hann Þráinn minn er frábær, ég væri ábyggilega ekki búin að búa með honum í 30 ár ef hann svo væri ekki.  En hann er skemmtilegur, góður og svo réttsýnn.  Svo er hann svo helv. góður verkfræðingur en ég ekki og því gott að hafa hann hjá sér þegar ég þarf á því að halda.  Svo er hann góður smiður, hann syngur ofsalega vel, er frábær leikari og spilar á gítar en bara stundum og þá bara fyrir mig eða sjálfan sig.  Hann getur gripið í pípulagnir, rafmagnsvinnu, prjónað, saumað….. ég gleymi ekki þegar hann fór að laga vinnubuxurnar sínar og hafði aldrei tekið í saumavél.  En hann gat gert við þær og bara allt í lagi með viðgerðina en hann var mikið pirraður þegar ég kom heim og sagðist bara ekki botna hvernig við konur gætum þrætt þessar saumavélar og að þræða spottann úr keflinu undir, það var sko erfitt sagði hann.  HAHA hann þræddi sem sagt spottann úr keflinu í staðinn fyrir að láta nálina sækja hann.  En hann bjargaði sér og gerði við buxurnar.  Svo eldar hann góðan mat, ryksugar og skúrar betur en ég og gerir við bílinn ef á þarf að halda.
Ég er heppin að vera konan hans Þráins og vitiði hvað (þó þetta sé lofræða um hann) hann er heppinn að vera maðurinn minn og við erum heppin að eiga hana Ástrós Mirru.
Þangað til næst sem verður einhvern tíma í næstu viku ykkar Kristín Jóna

 

22.01.2013 07:18
Af höfðingjum og fleira fólki
Í Danmörku búa greinilega höfðingjar eða alla vega eru þau það fólkið sem við vorum að heimsækja.  Vel var tekið á móti okkur, enginn heima.  Já sæll, hvað hafði nú farið okkur Helgu á milli, ég mundi það bara ekki en rámaði í að við vorum eitthvað að giska á að við gætum verið hjá þeim um klukkan 2 svo þetta var alveg eðlilegt að enginn væri heima því klukkan var bara rúmlega eitt.  En við vorum svöng og þreytt og fórum því í búð að kaupa okkur eitthvað sem ekki var til.  Enduðum á að kaupa kók og súkkulaði og bíða fyrir utan hús hjá þeim þar til Ólöf kom heim og tók á móti okkur.  Stuttu seinna kom Maggi heim og þau sáu vel um gestina (þe. okkur).  Hjónin á bænum komu ekki fyrr en rúmlega þrjú svo það þurfti nú að bíða aðeins eftir þeim en mikið var nú gaman að hitta þau eftir allan þennan tíma.  Og gaman að Sjonni skyldi vera heima þetta skiptið en hann er sjómaður.
Jæja það var bara setið og spjallað þennan daginn, þegnar kökur sem krakkarnir voru búin að gera í sameiningu þar sem Ólöf skvísa átti afmæli, nú ég startaði að sjálfsögðu afmælissöngnum líka. Svo buðu hjónin uppá dýrindis nautasteik í kvöldmatinn, léttvín og skemmtilegan félagsskap fram eftir kvöldi, enda mikið að spjalla eftir langan tíma.
Á laugardeginum vaknaði ég fyrst og illa sofin, náði ekkert að sofna aftur en þegar allir voru komnir á fætur var farið í bakarí svo hægt væri að sinna gestunum eins og á 5 stjörnu hóteli, morgunmatur / Bröns var tilhafður og svo var aðeins skotist út að mynda … já ég gleymi að segja frá aðalbörnunum á heimilinu, þeim Maverick og Casanova sem eru bræður af St. Bernhardskyni.  Risastórir og mjúkir bangsar.  Ég var nú smeik við þá fyrsta daginn, tók svo utan um þá og knúsaði á degi tvö og baðst afsökunar á að hafa verið smeik því þetta eru mestu ljúflingar ever.

Svo skelltum við 4 okkur í dýragarð þarna rétt hjá sem heitir eitthvað eins og Rangers regnskógar og þetta eru 3 kúluhús sem öll bera sitthvora heimsálfuna innaní sér.  Suður Ameríka, Asía og Afríka.
Frábær dýragarður að heimsækja og sérstaklega svona á köldum vetrardegi, því þarna inni er svo hlýtt og æðislegt.  Við heilluðumst af nokkrum dýrum þarna inn, s.s. leðurblökum, eðlum og furðufiskum sem við höfðum aldrei séð.  Mæli hiklaust með dagsferð í þennan garð.
Svo ætluðum við að taka smá miðbæjarrölt í Árhúsum en vá, þetta er risastór bær (já það búa víst 350.000 manns þar) og við Ástrós vorum reyndar með höfuðverk, kalt úti og fundum ekkert bílastæði svo við bara hættum við það.  Fórum bara beint heim til höfðingjanna aftur og þá var verið að undirbúa veislu númer 2 og Sjonni á fullu í eldhúsinu svo við stelpurnar settumst inní stofu og höfðum það hyggeligt meðan strákarnir sáu um eldhúsið.
Dýrindismáltíð aftur svínasteik með puru og pönnukökur með ís og rjóma í eftirrétt.  Þetta var bara eins og jólin hjá okkur.  Setið við gott spjall fram eftir kvöldi og notarleg heit.
Við lærðum sko helling af þessu fróða hundafólki og vorum bara nokkuð spennt að drífa okkur heim og prófa alls konar hluti á Erro kallinum og eigum það auðvitað enn eftir, því við erum ekki búin að kaupa ólina sem okkur vantar en annað erum við byrjuð að nota á hann.
Morgunverður / Bröns á sunnudeginum og gott morgunspjall, smá meiri myndataka af litlu drengjunum á heimilinu og svo átti bara að drífa sig af stað til Álaborgar til að versla.  En það fer ekki allt eins og ætlast er til og Doddi fór ekki í gang, hann var rafmagnslaus og Þráinn hafði tekið allt dót úr skottinu þegar við fórum til að gera pláss til að versla svo engir voru startkaplarnir þar.  Úps og Sjonni á ekki kapla.  Eeeeeeeeeeeen hann Sjonni á gamalt hleðslutæki úr bátnum sem hægt var að stinga í samband og hlaða geyminn með.  Eins og ég sagði við vorum á lúxushóteli með fullri þjónustu.  Og gott að hafa ætlað að fara snemma af stað svo ekki þurfti að hafa áhyggjur þó manni seinkaði.
Við vorum komin í Álaborg uppúr kl. 13 og æiiiiiiiii það voru engar búðir opnar nema Bilka.  Við ætluðum auðvitað mest að versla þar en við höfðum líka ætlað að drepa meiri tíma í öðrum búðum líka, kaupa afmælisgjafir handa Þráni og margt fleira.  En við gáfum okkur bara góðan tíma í Bilka og versluðum helling, fengum líka ýsu með okkur frá höfðingjunum og þurftum bara að borgar 100 nkr. fyrir það.  Þau ætluðu nú að gefa okkur fiskinn en Sjonni hætti við það á síðustu stundu og ákvað að selja okkur hann á 100 nkr. svo rétti hann Ástrós Mirru hundraðkallinn og sagði að hann væri í Ipadsjóðinn hennar.  En málið er að ég gerði díl við hana fyrir svolitlu síðan.  Ég sagði að ef hún næði að safna sér 1500 nkr. þá skyldi ég bæta við 1500 svo við gætum keypt Ipad.  Heyrðu svo er til Ipad hjá Helgu og Sjonna og hún verður alveg heilluð og er mikið að telja og reikna og skoða hvenær þetta verði eiginlega hægt og allt það.  Gerir svo díl við pabba sinn (Ólöf og Sjonni héldu smá námskeið hvernig unglingsstúlka á að dobbla pabba sinn uppúr skónum og það greinilega virkaði) því sem sagt Ástrós gerði díl við pabba sinn að hann borgi þá helminginn af hennar helming og þá var hún eiginlega komin með þetta og svo bætti Sjonni við hundraðkallinum svo þetta var bara komið, en þá var rétti Ipadinn ekki til í Bilka svo þetta verður að bíða. Ég kannski kíki á þetta í dag fyrir okkur, en sko hún mun ekki eiga hann ein, þetta verður fjölskyldueign sem verður bara mest á stofuborðinu tilbúið fyrir alla.
Jæja við vorum búin að versla eftir rúmlega 2 tíma og pökkuðum vel í bílinn, úúúúú það var svo kalt, kuldinn er kaldari í Danmörku en hér hjá okkur.  Svo var keyrt beint á Mc Donalds og við fengum okkur að borða og svo keyrðum við bara til Hirsthals enda komið myrkur og leiðindaveður.  Vorum komin þangað kl. 6 og skipið átti ekki að fara 8.45 svo það varð bara að leggja sig, tala saman, pirrast smá og allur pakkinn eins og vera ber á ferðalögum.  En þvílík lúksussnekkja sem þetta Colorline skip er, eða eru.  Held þau séu 2 og alveg eins.  Dásamlegt að vera þarna um borð, það var leiðindaveður og þú vissir ekkert af því.
Jæja við vorum komin heim uppúr kl. 1 um nóttina og vinna og skóli daginn eftir svo það var bara tekið sem þurfti að fara í frystinn og allt annað skilið eftir á eldhúsgólfinu, Nói var knúsaður í bak og fyrir og svo drifum við okkur í bólið en einn lítill var sko ekki til í að við bara skyldum hann eftir frammi, eftir að hafa verið í burtu heila helgi, meðan við ætluðum að sofa öll saman í svefnó.  Hann vældi og vældi fyrir framan dyrnar og klóraði í þær og allur pakkinn.  Ég fór framúr, feðginin sofnuð og náði í Nóa og reyndi að láta hann liggja hjá mér en hann vildi gæla við þau hin líka og labba aðeins ofaná okkur og alls konar svo ég varð að setja hann fram aftur og láta sem ég heyrði ekki vælið í honum.
Sem sagt vaknað í gær eftir stuttan svefn en allir glaðir.
Svo kom Margrét með litla skrímsið okkar undir hádegið og sá var glaður að koma heim til sín en …. vá hann er breyttur hundur (eða við með ný viðmið) (eða að í gær var ég bara ein heima með hann) og var svo rólegur í gær, lá bara hjá mér og gengdi öllu sem ég sagði við hann, líka að vera kyrr þegar Nói kom í herbergið.  Ég held hann verði flottur hundur og nú er bara að ná í réttu ólina og fara að kenna honum hæl og hætta að skamma hann svona mikið og bara knúsa hann aðeins meira.  Ég veit að það fór vel um hann hjá Margréti ömmu en hann var nú greinilega líka glaður að koma heim og það er fyrir mestu.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

23.01.2013 07:27
40 ár
eru í dag síðan eldgosið í Eyjum var.  Ég tók nú ekki mikinn þátt í þeim atburði en man samt að mamma vakti okkur og fór að finna til sængur og kodda og dýnur og alls konar til að vera viðbúin að taka á móti ættingjum frá Eyjum.  En okkar ættingjar fóru flestir í Ölfusborgir og enginn þurfti gistingu hjá okkur. En ég hef heyrt margar sögurnar og aðallega þær sem ollu misskilningi og þess háttar því það er jú bara þannig að þær sögur lifa lengst.  Við viljum frekar hlæja en gráta og það voru mörg dæmin um hlátur eftirá þarna.
Óskar og Maddý (og Þráinn pjakkur) áttu heima mjög nálægt eldsupptökum og húsið þeirra er eitt þeirra sem vonandi verður grafið upp í Pompei norðursins og þau urðu vör við jarðhræringar á þann hátt að Maddý fór í bað og vatnið sullaðist uppúr því öldugangurinn var það mikill.
Þegar þau voru búin að uppgötva hvað var í gangi fór Óskar út að vekja nágrannana og segir við Maddý: “Farðu niður og náðu í tösku og settu í hana föt”.  Maddý sem var á fullu að klæða sig og drenginn gerir eins og henni er sagt og þegar Óskar kemur til baka standa þau mæðginin á tröppunum tilbúin með ferðatöskurnar og Óskar kippir í aðra töskuna og ætlar að lyfta henni upp en þá er hún svo þung og hann skilur ekkert í þessu og spyr Maddý, hvað settir þú í töskuna?  Nú, það sem þú baðst mig um, svarar Maddý: “Kjöt”.  Þá heyrði hún svona vitlaust hvað hann hafði sagt og heyrðist hann segja “Farðu niður og náðu í tösku og settu í hana kjöt” og bara gerði það, þótt það meikaði engan sens að gera það, en svona var panikið mikið.
Þau komust alla leið til Hveragerðis og bjuggu þar í gosinu og afi og amma Þráins ílengdust þar svo þar til Gunnhildur dó en þá kom Björgvin aftur til Eyja, sem betur fer svo ég fékk að kynnast honum vel.  Yndislegur kall sem allir elskuðu.
Það er nú ósköp gott að hafa gesti eins og hana Maddý tengdó en það er líka alltaf voða gott að vera bara við og þannig er það núna.  Ég veit ég verð farin að sakna hennar eftir nokkra daga og það er bara allt í lagi.  Það er gott að sakna því þá veit maður hvað maður á og það er gott að láta sér leiðast af og til svo maður njóti betur annars.

En ég rauk á fullt að undirbúa verkefni númer 3 í skólanum og fékk dótturina til að sitja fyrir, ég þarf reyndar að borga henni fyrir þetta en það verður bara hafa það, hún var þá almennileg og þolinmóð og skemmtileg á meðan.
Myndirnar heppnuðust ágætlega en ég þarf að útbúa mér eitthvað skyndibakgrunnadæmi með gorm fyrir glugga og geta klemmt efni á, svo ég þurfi ekki alltaf klukkutíma róteringu til að ná nokkrum myndum í skólanum en ég þarf einmitt að taka nokkrar í viðbót af Mirrunni með ákveðna ljósauppstillingu í huga.  Svo það er Gardínubúðin í dag, kannski er bara til flott efni þar líka í bakgrunn, hummmmmmmmm tékkum á því.

Annað merkilegt og yndislegt gerðist í gær.  Við fengum soðna ýsu í matinn í boði höfðingjanna í DK, man ekki hvort ég var búin að segja að þau sendu okkur með öskju af ýsu til baka.  Þvílík dásemd.  Já og annað!  Við eignuðumst frystikistu í gær og hún var í boði Valgerðar sem var að losa um eitthvað af dóti því hún er að fara að flytja fljótlega, svo það var hægt að setja öll innkaupin frá DK í frysti í gærkvöldi og svo er hægt að versla betur næst.  Annars virkaði glugginn ágætlega því ég hengdi pokann með fiskinum út um gluggann og það er mínus 3 – 4 gráður og það dugði alveg.  Við erum svo “ekta” útlendingar sem geyma mat í pokum út um gluggann.  Þvílík dásemd.  En það er bara voða gaman að redda sér.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

28.01.2013 07:28
Gestagangur
Já það er sko búið að vera gestagangur hjá okkur í vikunni.  Fyrst komu Margrét, Jón og Beggi í mat á fimmtudaginn en við máttum til að gera eitthvað fyrir þau eftir að þau voru að passa litla ömmustrákinn heila helgi.
Svo á föstudaginn var hún nafna mín að vandræðast með að geta ekki horft á Eurovision undankeppnina hér í Noregi svo við buðum henni og Nemo bara í pizzu og Eurovision.  Og svo í gær komu Julie og Arnfinn í vöfflur og Julie var að sitja fyrir hjá mér í myndatökuverkefni fyrir skólann.  Bara gaman að hitta svona mikið af fólki.  Og um næstu helgi erum við að fara með Julie og Arnfinn í sumarbúðstaðinn þeirra sem er auðvitað skíðabústaður núna þar er massa mikill snjór og þau ætla að kenna okkur á gönguskíði ofl. gaman.  Heil helgi í snjónum uppí fjöllum, ekkert net og enginn sími.
Vikan er annars búin að vera mjög fín, eignuðumst frystikistu, allir hraustir og frekar kátir, og já fullt af vinum í heimsókn.  Ég hugsa að Erro verði samt voða glaður þegar snjórinn fer því þá getur Þráinn farið út að hjóla með hann en hann saknar þess alveg örugglega.  Annars er hann bara ágætur kallinn, hann er svo allt öðruvísi þegar við erum bara tvö heima heldur en þegar það eru fleiri í fjölskyldunni hérna.  Hann er ábyggilega pínu ofvirkur og höndlar ekki fjölmenni en í rólegheitum þá er hann bara flottur.  Þegar eru gestir þá þurfum við stanslaust að vera að skamma hann, hann ætlar bara uppí fangið á þeim og hann ætlar bara að sitja og láta þau klappa sér en við erum að reyna að kenna honum að gera þetta ekki.  Og helst vil ég ekki að hann sé að fara utan í gesti.  Gestirnir kalla bara í hann ef þeir vilja klappa honum og kjá.  Ég sjálf vil ekki sjá hunda utan í mér ef ég er í heimsókn einhvers staðar og reikna með að aðrir séu eins.  En við erum líka stanslaust að minna okkur á, hann er bara 7 mánaða ennþá og búinn að læra alveg helling.  Og hann er nú stundum svolítið fyndinn, því þegar hann verður svona athyglisjúkur þá grípur hann til örþrifaráða stundum og í gær var hann mikið búinn að reyna að vera utan í gestunum og okkur og alltaf rekinn í burtu. Svo kom hann settist fyrir framan Þráin og heilsaði honum.  Hefur hugsað, þau verðlauna mig alltaf fyrir þetta svo hann hlýtur að knúsa mig ef ég byrja á að heilsa honum.  Algjört krútt.
Það er hellingur að gera í ljósmyndanáminu þó þetta sé bara eitt fag, en það þarf að plana verkefnið, taka myndirnar, vinna myndirnar, velja hvað á fara og skrifa hvað maður gerði við myndatökuna og jafnvel hver var pælingin.  Svo þarf að gagnryna aðra nemendur og það hefur hingað til verið mjög erfitt en ég finn að ég er aðeins að þjálfast við það og svo fengum líka svo góða punkta frá henni Láru skólastjóranum á Tröllaskaga sem við getum unnið með.
Ég þurfti nefnilega að koma á framfæri því að fólk væri að gagnrýa að myndir frá mér væru yfirlýstar en þær eru það ekki, ég er búin að skoða þær í þremur skjáum og ég hef litstillt skjáina mína. Ég nota líka lightroom forrit til að vinna þær í og það segir þér hvort þær séu yfirlýstar eða of dökkar oþh.  þannig að ég var alveg viss um að mínar myndir væru ekki yfirlýstar en þær voru ljósar ég vissi það og vildi hafa þær svoleiðis.  Svo ég startaði umræðuþræði um þetta, hvernig ætti að gagnrýna myndir annarra þegar skjáirnir hjá nemendum eru illa stilltir og þú sérð mína mynd ekki rétt.  Og út úr því kom svo góð leiðbeining frá Láru um hvernig maður eigi alltaf að hafa varnagla á svona atriðum og í staðinn fyrir að segja:  “Myndin er yfirlýst” þá sé eðliegra að varpa fram spurningu: “En myndin sýnist yfirlýst hjá mér, var það kannski ætlunin?” eða eitthvað í þeim dúrnum.  Og svo var heilmikið annað sem ég tel mjög hjálplegt.
En verkefnið núna er að taka heilmynd og ég hef ekki verið góð í því, aðallega vegna þess að ég hef ekki verið aðstöðu til þess og þar af leiðandi aldrei æft mig í því.  En ég reyndi í gær en vandamálið er plássleysið og að bakgrunnarnir mínir eru ekki bakgrunnar sem hægt er að draga fram á gólfið eins og gert er á ljósmyndastofum svo það sést alltaf bakgrunnur og svo gólfið.  En ég gerði mitt besta og á eftir að fara vel yfir myndirnar og velja þær úr sem ég vil nota og mun bara koma með útskýringar á því að aðstaðan mín leyfi ekki fullkomnari mynd en þetta.  En ég tók  sko fullt af myndum af Julie og nokkrar í restina bara fyrir mig og þar kom ein sem verður mín uppáhalds lengi.  Rosalega ánægð með hana.

En svo tók ég aðrar heilmyndir og þær eru alveg flottar sko, bara ekki með fullkomnum bakgrunni.

Þarna kemur bakgrunnurinn ekkert illa út við gólfið en ég er líka með hvítan og það er verra.  En eins og ég segi ég vinn úr því.
Já fleira í fréttum, við tókum ganginn í gegn hjá okkur á laugardaginn, búin að vera á leiðinni að gera það í smá tíma en það er svolítið þröngt að vera með tvö reiðhjól inní forstofu alltaf og að hafa viðargeymsluna sína líka þar svo Þráinn útbjó (því það var ekki til svona ekta) reiðhjólahengjur fyrir sitt hjól og nú hangir það uppá vegg fyrir ofan hjólið hennar Ástrósar og allt aðgengi í ganginum orðið betra og þægilegra, færði til kassann sem við getum setið á og geymir alla skóna okkar þannig að hann er núna rétt við stigann þegar þú kemur upp eða niður og er þá hægt að tilla sér þar áður en uppgangan hefst eða meðan þú ert að bíða eftir að hinir klæði sig í.  Ég er alveg ánægð með þessa breytingu og finnst gangurinn hafa stækkað helling.  Og þá er kominn tími til að Þráinn fari að hugsa betur um kistuna sem hann ætlar að smíða eða útbúa fyrir mig og Nóa til að við getum sest út í glugga í sumar.  Held það veiti ekkert af að fara að byrja því það getur tekið tíma að ákveða eða finna efni í þetta.  Hlakka mikið til þegar fer að vora og hægt að hafa opna glugga og upplifa miðbæinn.
En þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

31.01.2013 07:38
Alltaf að græða
Það er svo einkennilegt hvað ég er alltaf heppin með fólk í kringum mig og ég er einhvern veginn alltaf að græða eitthvað og gærdagurinn var engin undantekning.
Eins og ég hef tekið fram þá erum við að fara í sumarbústað / Fjallakofa / Skíðakofa um helgina og þá þurfa íslendingar að eiga snjóbuxur og ég ætlaði nú bara að fara og kaupa á okkur mæðgur, hélt endilega að Þráinn ætti en svo er víst ekki þannig að hann er enn eftir.  En ég sem sagt fer út í búð hér í Amfii og spyr um snjóbuxur og mér eru sýndar tvær gerðir og …. úff já sæll, aðrar kosta 1.699,- nkr. og hinar 2.000,- ég hálf vandræðaðist þarna í búðinni því mér brá svo (hélt í alvöru að ég fengi svona buxur á kannski 300 kall á útsölu) og babblaði bara eitthvað bull til að komast aftur út.  Sá svo í bæklingi þegar ég kom heim auglýsingu á þvottavél og hún kostar 2.399,- nkr.  Það meikar meiri sens hjá mér en einar litlar snjóbuxur, ég sá ekki gullþræðina í þeim sem gætu réttlætt svona verð en trúlega er þetta bara dýr og óhentug búð fyrir mig.
En alla vega þá ákvað ég að auglýsa á síðunni okkar íslensku kvennanna hér í Mandal og nú á ég tvennar snjóbuxur sem kostuðu ekki neitt nema einn koss á kinnina.  Því hún Valgerður var að taka til hjá sér og búin að setja í poka föt af strákunum sínum sem hún ætlaði með í Rauða krossinn eða álíka söfnun og hún kippti bara þessum tveimur buxum uppúr og nú höfum við Ástrós Mirra eignast snjóbuxur og ég get svarið það að ég held að þetta séu mínar fyrstu.  Man ekki eftir að hafa átt snjóbuxur áður.  En kannski átti ég þær sem krakki en held samt að þær hafi ekki verið til, alla vega var maður bara í venjulegum buxum á skautum í ískulda niðrá tjörn.
En ég er náttúrulega orðin svo gömul sem sjá má.  Við erum búin að hlægja svolítið mikið einmitt að því við hjónin því Þráinn var eitthvað að tala við Ástrós Mirru eitt kvöldið um afþreyingar og sagði að þegar hann var lítill strákur hafi ekki verið til tölvur, videó og það allt.  Ekki litasjónvarp og ekki sjónvarp á öllum heimilum osfrv.  Og þá spyr Ástrós Mirra pabba sinn hvað hann hafi gert þegar hann átti að fara að sofa, hún vissi að ég hefði lesið mikið en hún er ekki mikið fyrir það, sama hvað ég reyni.  Og hún vissi að pabbi sinn las ekki mikið sem krakki svo hvað gerði hann eiginlega þegar hann átti að fara uppi og var kannski ekki endilega svo syfjaður þá.  Það skal tekið fram að við lágum öll uppí hjónarúmi þegar við erum að ræða þetta og kveikt á einum lampa í horninu og þegar þessi spurning kom upp, þá snýr Þráinn sér aðeins, lyftir upp höndunum og fer að hreyfa þær eitthvað og viti menn, hann sagði:  Ég dundaði mér bara við að gera svona skuggamyndir á vegginn.
Við Ástrós grenjuðum úr hlátri og eitthvað fannst mér við orðin gömul ef þetta var eina afþreyingin á kvöldin sem hægt var að vera með ef ekki voru bækur.  En svona er kallinn minn alltaf til í að finna eitthvað skemmtilegt við allar aðstæður.
Svo ég átti ekki snóbuxur enda ekki byrjað að framleiða þær og hann gerði skuggamyndir á kvöldin sér til afþreyingar.
En ég græddi nú meira í gær, því hún Valgerður tók sig til og bakaði rúgbrauð handa okkur skvísunum í Mandal og við fengum nú ekki að borga fyrir brauðið í þetta sinn með pening en hún fær þetta greitt í aðstoð við flutninga alla vega frá okkur Þráni.  Þetta var ekkert smá rúgbrauð 4.5 kg. og fór í 10 skammta handa okkur.  Geggjuð búbót og sko það fæst ekki rúgbrauð hvorki í Noregi né Danmörku og þá meina ég rúgbrauð eins og við þekkjum það.  En danir segja að það sé ekki brauð heldur kaka af því að það er svo mikill sykur í því en nú afsannaði Valgerður það því það er enginn sykur í hennar brauði en það er reyndar síróp.  Mjög gott brauð og hlakka til að fá mér á eftir með smjöri og osti.  Nammmmmmmmmm
Jæja verkefni 4 var skilað frá mér í gærkvöldi og ég var ekkert sérstaklega ánægð með mig í þessu verkefni en ég er ekkert mikið fyrir að taka heilmyndir og hvað þá í svona míní púkó aðstöðu sem ég hef hérna.  En ég fékk fullt af flottum myndum af Julie sem ég valdi síðan þessar 3 úr og skilaði inn.

En þangað til næst sem verður líklega eftir skíðaferðina, ykkar Kristín Jóna

 

04.02.2013 07:31
Á skíðum
sko ekki við öll en Þráinn fór á skíði um helgina en við eyddum helginni í fjallkofa hjá Julie og Arnfinn.  Frábær helgi og vel gert við okkur í mat og drykk og góðum félagsskap.
Eitt það skemmtilegasta var að Þráinn prófaði að fara á gönguskíði og þar kom sér vel að hann er þrjóskur en ég held hann hafi dottið alla vega 25 sinnum en þá hætti ég að telja en alltaf stóð hann upp aftur.  Við Ástrós Mirra vorum nú farnar að hafa smá áhyggjur af kallinum því jú hann hefur nú hryggbrotnað og ekki með sterkasta bakið eftir það. En ég reyndi bara að hugsa að hann sjálfur ætti nú helst að vita hvað hann mætti bjóða sér uppá en svo á móti kemur þrjóskan sem stundum getur farið of langt með mann.  En alla vega er hann enn með heilt bak en mikið sáran rass.

Annað sem stendur uppúr ferðinni er að Erro var prófaður sem sleðahundur við hlið Ronju og hann stóð sig svona líka vel en er algjörlega búinn á því eftir helgina og virðist vera með harðsperrur, alla vega er hann lengi að standa upp og virðist stirður.  Málið er að Ronja er orðin svo gömul og þreytt og Julie ákvað að prófa hvort Erro myndi ekki hafa hvetjandi áhrif á hana og hún kenna Erro agann á móti og það gekk eftir.
Julie spennti þau fyrir sjálfa sig á skíðum og þau hlupu eins og fjandinn væri laus, svo flott að sjá þau hlaupa þarna samferða á undan Julie.  Ronja er nefnilega ekta sleðahundur og kemur frá mömmu Julie sem var einmitt að keppa um helgina, fór 40 mílur um helgina, held þessi keppni hafi tekið 3 daga og sko ég er að tala um keppni á sleða sem hundar draga.  Það er sko íþróttin sem mamma Julie stundar og Ronja er einn af gömlu jálkunum hennar sem er orðin of gömul fyrir svona hlaup.

Erro elskaði þessa fjallaferð, því hann fékk að vera laus allan tímann, inn og út eins og honum sýndist.  Ég var nú pínu áhyggjufull til að byrja með að hann færi eitthvað út í buskann en það gerði hann ekki, hann fór aldrei langt frá bústaðnum og hvort það var út af því að Ronja siðaði hann til veit ég ekki.  Hann kom reglulega inn til að tékka á okkur en var meira og minna úti.  Ronja er svona hundur sem hefur aldrei komið inn í íbúðarhús, er bara alltaf úti og á sitt athvarf undir pallinum.  Hún myndi ekki þola hitann inni og svo er svo vond lykt af henni að það myndi enginn annar þola við að vera inni í sama húsi og hún.  Það er eitthvað með þessa sleðahunda, þeir eru bara aldir svona upp.
Þessi fjallakofi er víst geggjaður bústaður á sumrin því það er vatn þarna rétt hjá sem hægt er að synda í og svo eru þarna rosalega flottar skíðabrekkur og mér skilst að landsliðið komi stundum og æfi þarna, þannig að ef þú ert skíðamanneskja þá hlýtur þetta að vera draumur í dós að eiga bústað þarna.  Þetta er sem sagt bæði skíðakofi og sumarbústaður.
Ég var ekkert að deyja úr spenningi að prófa að fara á skíðin og eftir að fylgjast með Þráni ákvað ég að þetta væri ekki fyrir mig enda þarf einhver að halda á myndavélinni og mynda hann að detta, ég tók sem sagt mest af myndum af Þráni að detta og Erro að draga Julie.  Hundur og dettandi maður var áhugamálið mitt um síðustu helgi.
Tapas matur og sangría á föstudaginn, purusteik og huggulegheit á laugardaginn og morgunmaturinn hjá þeim er ommeletta og brauð og álegg, skákar alveg flottustu hótelum sem ég hef verið á.
Það er pínu erfitt að vera svona heila helgi og tala bara norsku en þarna sáum við að Ástrós er orðin ansi sleip og hún þýddi oft fyrir mig.  Þau tala alveg ensku og stundum urðum við að fara þangað en þau eru rosalega dugleg að kenna okkur og byrja alltaf á norskunni og ég reyni að spyrja þau aftur og aftur um sömu orðin og mikið að spyrja hvernig segið þið þetta og hvernig segið þið svona osfrv.
Vaknaði á sunnudaginn og var hugsandi á norsku.  Ekki mjög djúpt sem ég hugsaði þá en það er samt framför.  Mér finnst eins og það séu ekki til svona mörg orð í norskunni eins og íslenskunni, mér finnst svo einhæft að nota alltaf sömu lýsingarorðin.  Kempefin og kempebra og kempehitt og kempeþetta, jú reyndar segja þau veldig líka en fleiri lýsingarorð hef ég ekki séð, en ég get alveg lesið gestabækur og þess háttar og skil alveg það sem fólkið er að skrifa, þannig að þetta er allt að koma, við erum nú bara búnar að vera hér í 7 mánuði við Ástrós Mirra svo það er bara fínn árangur.  Og eins og ég segi Ástrós virðist skilja allt sem þau segja og gat algjörlega talað á norsku við þau.
Það var æðislegt veðrið allan tímann og við vorum búin að ákveða að fara snemma heim á sunnudeginum svo ég gæti tekið myndir á leiðinni og það var gert, en veðurguðirnir voru ekkert að hugsa um okkur en svona var veðrið á leiðinni heim.  Samt alveg flott en ekki það sem ég ætlaði mér að mynda.

Frábær helgi en gott að koma heim til Nóa sem var einn heima meðan við fórum á flakk.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

06.02.2013 07:14
Rembrandt
Já, sko ég er ekki að stúdera málaralist heldur áttum við í verkefni 5 sem við eigum að leysa núna í vikunni að taka mynd með rembrandt lýsingu og hún er nú pínu erfið en það sem þarf að koma fram á myndinni er lýsing öðrum megin á andlit og hinum skuggi með smá lýsingu sem myndar þríhyrning fyrir neðan augað, þá er það nefið og augabrúnin sem mynda þennan þríhyrning.
Konný systir var búin að prófa og náði þessu ekki nógu vel í fyrstu atrennu svo ég var pínu nervus að ég næði því ekki heldur en ég var búin að ákveða að vera einhvers konar indverskt þema í þessari töku og fékk hana Margréti vinkonu til að sitja fyrir sem ljóshærður, bláeygður indverji.  Hún rekur nefnilega hjálparstarf í Indlandi sem heitir Englar indlands og mér datt í hug að hún ætti nú indverska kjóla og sarí oþh.  Hún er reyndar ekki með sari hér í noregi en kom með kjóla og slæður og skartgripi.

Þetta var mjög skemmtileg myndataka og samt pínu erfið því manneskja eins og ég sem er með “skerta rýmisgreind” (ég elska þessa greiningu) getur ekki alveg séð hvort færa skuli ljósið aftar eða framar ef skugginn er smá en ekki á réttum stað, ég verð bara að prófa að fara með það í allar áttir þar til ég giska á það rétta.
Og viti menn ég náði þessu enda frábært módel sem ég hafði og það var svo gaman að mynda hana Margréti að ég á eftir að kalla hana aftur til.  Lætur vel að stjórn og með flotta andlitsbyggingu og er bara svo falleg.  (ég er ekki tilbúin að sýna þær myndir alveg strax)

En þetta með rýmisgreindina, ég hef verið að spá í hvort ég gæti fengið einhvern fötlunarkóta á mig vegna þessa, því þetta er sko að há mér í hinu daglega lífi, ef ég ætti ekki mann sem reddar þessu alltaf þá veit ég ekki hvað!  Nei, ég er að djóka núna, en þetta háir mér samt oft, því ég get ekki séð út ef skrifborð í litlu herbergi þarf að snúast við og það þarf að bera það fram og snúa og aftur inn, þá hef ég ekki hugmynd í hvaða átt á að snúa því osfrv.  Hef lent í því að hjálpa við svona atriði í vinnunni og ég bara hélt undir skrifborðið og elti og gerði það sem mér var sagt að gera, snúa svona og bakka svo og aftur snúa og svo inn og ………………. Oh, my God, þá sneri allt í einu skrifborðið rétt og komið á sinn stað og ég hafði ekki hugmynd um hvernig okkur tókst þetta.  Þannig að ég get ekki raðað í geymslur og snúið hlutum þannig að þeir taki sem minnst pláss, það fer allt í vitleysu en ég hef bara alltaf haldið að ég væri svona skrítin en vissi ekki fyrr en í fyrra að það væri til greining á þessu, finnst samt einhvern veginn eftir að ég fékk að vita af þessari greiningu að þetta hafi versnað svo mikið hjá mér eða kannski er það bara af því að ég er búin að flytja 2svar.  Já líklega er það þess vegna.  En það munar óskaplega miklu þegar ég er með fólki og lendi í svona aðstæðum að geta sagt:  Úff, ég er með svo skerta rýmisgreind!  í staðinn fyrir að segja: Jesús, ég get verið svo rugluð þegar kemur að því að gera eitthvað svona!
Samt finnst mér allt í lagi að vera bara rugluð, það er ákveðið frelsi sem fylgir því og það er sko mjög gott að vera ekki klár í öllu, bara sumu. 🙂
Hér er búið að vera fínasta veður, um frostmark og smá snjór á götunum alla vega ekki hægt að hjóla í skólann núna en það lagast vonandi bráðum.  Ég er farin að bíða eftir vorinu og fór í Jysk og keypti vorlegar diskamottur og stólsessur í eldhúsið hjá okkur og það er svo fallegt og vorlegt að koma þangað inn og blóm í vasa á borðinu.  Bara dásemd og næring fyrir hugann og færir mann nær vorinu í huganum.

Svo keyptum við rúllugardínur á skrifstofuna mína því sólin er farin að trufla mína vinnu, þannig að hún skín á skjáinn og ég sé ekki neitt.  Kúnnarnir heima á íslandi eru ekkert glaðir þegar ég segi við þá að því miður sjái ég ekki á skjáinn fyrir sól, því það er búið að vera leiðindaveður og myrkur þar.
Talandi um myrkrið þá og enn og aftur að því að færa klukkuna.  Ég ætla svo sem ekki að ganga neinn berseksgang í því að ýta á islendinga að færa klukkuna núna þegar ég bý hér því þá aukum við mismuninn á milli okkar sem ég vil auðvitað ekki en ég finn ótrúlega mikinn mun á mér hér þunglyndislega séð (ég er svo gjörn á að fá skammdegisþunglyndi og veðrið hefur mikil áhrif á skapið í mér) þar sem það er orðið bjart kl. 8.30 núna í janúar en það er orðið myrkur kl. 17 en það er allt í lagi, þá er fólk hvort eð er búið að vinna og komið heim til að sinna heimili og börnum.  En ég held að það sé rétt sem ákveðnir aðilar heima á Íslandi hafa verið að tala um varðandi þetta og þegar fólk segir að það skipti ekki máli hvort það birti fyrr á mornanna eða er bjartara í klukkutíma lengur á daginn þá er það bara kjaftæði, því það finna það allir hvað maður verður duglegri að vakna á morgnanna þegar er bjart og koma sér á fætur og í vinnu og skóla heldur en í kolsvarta myrkri og fyrir börnin okkar að fara í skólann í svarta myrkri, sitja inni í skólastofu meðan það er bjart og fara svo heim í dagbirtu en rétt seinna er hún hvort eða er búin og ekkert hægt að gera því það er svo mikið myrkur.
Ég hef aldrei verið fyrir myrkrið og var myrkfælin sem barn og er náttblind í dag svo það er eðlilegt að ég sé ekki hrifin af því nema rétt yfir blánóttina.
Að lokum langar mig bara að segja að það er gott að vakna á morgnanna og lesa póstinn sinn frá vinnufélaga sem segir svo fallega hluti um mig.  Ég fer glöð inní daginn í dag eins og flesta daga en samt heldur meira glöð og ánægð með sjálfa mig.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

09.02.2013 08:28
Að finna nýja staði
Við hjónin fórum í göngutúr í gær eftir annasama vinnuviku og komumst að því að við höfum bæði farið niður á gömlu bryggjuna en ekki sömu leið og við fórum mína leið þangað, en Þráins leið til baka.  Bæði uppgötvuðum við eitthvað nýtt á þessari leið en þó aðallega ég því Þráinn fór svo mikið um labbandi þegar hann bjó hérna einn.  Það er þarna lítið svið sem er steypt inni í náttúrna og vík og vá, þetta er bara svo fallegur staður og það er svo gaman þegar maður uppgötvar eitthvað nýtt og hérna virðist það ætla að vera málið.  Spurning hversu lengi það endist að við förum hér út í göngutúra og finnum eitthvað nýtt.  Held að það eigi þó eftir að duga okkur talsvert fram í tímann, spurning líka hvort við verðum ekki alltaf duglegri og duglegri að fara lengri leiðir svo þá ættum við að halda áfram að finna nýja staði og kynnast nýjum hliðum litla bæjarins okkar.
Þar sem ég er í listrænni ljósmyndun í Menntaskólanum á Tröllaskaga þá ákvað ég í gær að taka ekki bara landslagsmyndir heldur horfa niður fyrir mig og prófa að taka öðruvísi útimyndir.
Njótið vel.
Svo leit ég uppí himininn og þar var líka listaverk

Í dag erum við að passa hann Nemo svo við verðum í hundunum, það er alveg ljóst.  Ætlum í langan göngutúr í dag með þá báða svo þeir verði til friðs.  Annars ætlum við bara að eiga góða helgi með myndatöku á morgun og bollukaffi hjá Margréti og Jóni.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

10.02.2013 09:57
Að sjá fegurðina allt í kringum okkur
Við fjölskyldan fórum í langan göngutúr í gær með tvo hunda en við vorum að passa hann Nemo og fannst okkur tilvalið að labba útí Furulunden skóg.
Flottur göngutúr og tók hann 2 tíma hjá okkur sem gerði bæði hundana og okkur sæl og ánægð með daginn.  Nemo er þessi týpíski hundur sem maður gæti haldið að væri bara með 3 lappir því ein er alltaf á lofti en Erro er aðeins byrjaður á þessu og við leyfum honum það ekki og kippum í hann en ekki alveg alltaf hann má þetta í örlitlum mæli inní skógi en ekki niðrí bæ, mér finnst leiðinlegt að horfa á hunda í miðbænum sprænandi utaní allt og vona að ég geti vanið hann þannig.
En göngutúrinn var æði veðrið svo yndislegt eins og oftast hérna og við svo ánægð með lífið.
Nú ætla ég ekki að segja mikið en leyfa myndunum að tala.

Þetta eru svona hefðbundnar göngutúramyndir, Þráinn með hundana, Þráinn og Ástrós Mirra að ganga á undan mér osfrv.
Svo koma hérna fyrir neðan svona óhefðbundnar göngutúramyndir ala Kristín Jóna.
Svo smá pæling hérna, hvert ætli eigandinn hafi farið?  Vonandi ekki að synda þar sem vatnið er meira og minna frosið en þetta ábyggilega eins góður staður til að geyma hjólið sitt og hver annar.

Í dag ætla ég að dubba fjölskylduna mína upp í myndatöku fyrir skólann, það er hópmyndatökuverkefni sem við ætlum að hafa svo gaman af að vinna, er komin með fullt af hugmyndum og mín yndislega fjölskylda er svo viljug að hjálpa mér og þau vita að það verður álag á þau að hjálpa mér en svo er þetta búið í vor og þá verð ég orðin svo klár í listljósmyndun og þau þá svo stolt af að hafa átt svona mikinn þátt í þessu.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

11.02.2013 07:49
Góðar hugmyndir
Það er svo gaman þegar maður fær hugmyndir og nær að vinna úr þeim eitthvað frábært.  Það er svolítið það sem við erum að gera í þessum námi okkar í Menntaskólanum á Tröllaskaga og í gær var svona dagur.  Verkefni þessarar viku er að taka hópmynd.  Já einmitt, ég þekki nú varla nógu marga hér í Mandal til að ná í hópmynd, hvað þá að ég hafi plássið fyrir það en svo fékk ég þessa snilldarhugmynd að við fjölskyldan skyldum vera hópurinn og fór að leggja hausinn í bleyti um þema.
Hvaða þema gæti hæft þessum hópi sem við erum?  Hvernig gætum við útfært þetta á einhvern hugmyndaríkan og listrænan hátt?  Það er nefnilega pínulítið að há mér að fá listrænar hugmyndir eða mér finnst það.  Mér finnst allir aðrir fá svo flottar hugmyndir en ég er einhvern veginn svo venjuleg eða ferköntuð, já ég veit að ég er mjög ferköntuð en rósótta pilsið er þó að hjálpa helling og núna tókst mér að fá hugmynd sem mér sjálfri fannst æðisleg en þá átti ég nú eftir að leggja hana undir restina af hópnum.
Þráinn tók strax vel í þessa hugmynd og var meira að segja tilbúinn að sjá um förðunina því ekki get ég það, algjörlega getulaus á því sviði, svo var talað við heimasætuna og hún tók nú ekkert sérstaklega vel í þetta en niðurstaðan var svo að hún var módel á launum við þetta verkefni og er það bara allt í lagi ég gæti þurft að greiða laun oftar á mínum ljósmyndaferli svo það er eins gott að fara að venja sig við það.
OK, þemað var og er eiginlega það að koma til dyranna eins og þú ert klæddur.  Vera ekki að fela þig bakvið einhverja grímu og sýna þitt rétta andlit.

Sem sagt við sem tökum okkur ekki mjög alvarlega, gerum grín að sjálfum okkur og reynum að hlægja mikið og láta aðra hlægja fórum í okkar rétta gerfi og náðum í rauða nefið sem klæðir okkur svo vel.
Ég er svo stolt af þessu verkefni og þessari samvinnu fjölskyldunnar, Þráinn er náttúrulega bara snillingur í förðun og tókst vel upp með makeupinu úr dótabúðinni.
Takk þið tvö, þið eruð best.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

15.02.2013 11:05
Hundar og önnur mál
það er búið að vera svo mikið að gera í vinnunni að ég hef ekki gefið mér tíma til að blogga einu sinni, en nú virðist þetta vera að komast í jafnvægi og ég ákvað að láta slag standa og skella inn bloggi.
Var að hugsa um eitthvað tvennt í morgun sem mig langaði að tala um en man bara annað núna og haldið ykkur fast, því nú er komið að hundabloggi aftur.
Sko við erum rosalega dugleg að taka leiðbeiningum og þess háttar frá fólki en þau eru bara ekki öll að virka alltaf.  Það nýjasta var að gefa honum bara að borða tvisvar á dag og taka skálina þess á milli.  Og já mér fannst þetta snilldarráð því þá myndi hann kúka sjaldnar og ná betri tökum á þeim málum en Guð minn almáttugur, aumingja hundurinn var bara að drepast úr eirðarleysi og pirringi ákveðna hluta dagsins og sérstaklega rétt um hádegið og aftur seinnipartinn.
Í gær gafst ég upp og prófaði að rétta honum skálina og hann fékk sér smá nart og lagðist svo niður og slappaði af, sem sagt okkar hundur fær að borða úr skálinni sinni allan daginn ef hann vill frekar borða lítið í einu og vera alltaf að heldur en að hafa hann eirðarlausan og pirraðan.  Og sko hann fór út að labba og það allt.
Annars er Erro bara að verða flottur hundur, löngu orðinn stærri en mamma sín og ekkert hvolpalegt við hann lengur, enda að verða 8 mánaða gamall, kominn með hvolpavitið og ….. nei nei ekki minn hundur, hann fer í geldingu, ég hef engann áhuga á að horfa á hund runka sér á hverju sem er hvar sem er.  Ætlum að tala við dýralækninn í næstu viku og biðja hana að klippa á hjá kallinum, þá ætti hann að róast líka.
En hvað er fleira að frétta, jú Ástrós Mirra er alltaf að drepast í maganum og við drifum okkur loksins til læknis á miðvikudaginn og ég er alla vega ánægð með þennan lækni sem ég valdi að því leiti að hann er mjög vinalegur og gott að tala við hann.  Hann er búinn að taka blóð og þvag og ætlar jafnvel að senda hana í röntgen ef ekkert kemur út úr þessu svo vildi hann fá að vita á hvaða töflum hún var fyrir 7 árum þegar hún var á lyfjum við magamígreninu en ég held að sá læknir sé hættur störfum og ég man alls ekki hvað þetta hét. Því eins og ég sagði þá hætti hún á þeim áður en hún fór í grunnskóla svo það er ansi langt að muna nafn á einhverjum pillum.
En vonandi kemur eitthvað í ljós hvað er að angra stúlkuna mína, því það er ekkert gaman að vera alla daga með magaverk.

Framundan er frábær helgi hjá okkur, hingað eru að koma 5 atvinnulausir íslendingar í mat í kvöld og Þráinn ætlar að gera þeim dagamun því það er eitthvað voða eymdarlegt lífð hjá þeim meðan enga vinnu er að hafa.  Hafa ekkert að gera og litlar tekjur, en ég held að þetta sé nú að fara að lagast þetta verkefnaleysi, vonandi alla vega ekki nema 1 – 2 vikur í viðbót.
Já við Ástrós Mirra ætlum í bíó í kvöld, tveir fyrir einn miðinn enda er hér núna 100 krónu vika, frábært framtak sem er tvisvar sinnum á ári og eru veitingarstaðir að bjóða einn rétt af matseðli á 100 kr. og bíóið tveir fyrir einn, allar búðir með einhverja afslætti þannig að það er líf og fjör í Mandal þessa vikuna.  Við sjáum inná veitingarstaðinn hér við hliðina og þar er búið að vera fullt út úr húsi alla vikuna.  Ánægð með þetta hér, samstarf og samvinna.
Svo ætlum við hjónin út að borða á morgun á veitingarstaðinn hér við hliðina og svo á tónleika með Kurt Nilsen á eftir.  Hlakka mikið til.  En hann er einmitt einn af dómurunum í Norska Idolinu, sem er algjört æði.  Við þurfum að velja á milli þess að horfa á það norska eða það ameríska og ég segi nú ekki annað en Norðmenn eiga mikið af ungu hæfileikafólki og þetta verður spennandi Idol vor fyrir mig.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

18.02.2013 07:29
Hélt ég væri þunn
í gær því ég var svo þreytt og löt og dauf.  En ég drakk bara tvo bjóra á laugardagskvöldið með 3 tíma millibili svo varla var það. Líklega bara spennufall eftir vikuna sem var brjálað að gera í vinnunni og læknavesen með Ástrós Mirru hérna í Noregi í fyrsta sinn osfrv.  Vonandi var það bara það, ég er alla vega alveg hress í dag og verð vonandi allan daginn.
En aftur að helginni, tónleikunum með Kurt Nilsen var frestað og vorum við auðvitað hundsvekkt yfir því, því það var búið að plana út að borða og huggulegheit í kringum tónleikana.  En við fórum út að borða með Arnfinn og Julie og buðum bara Ástrós Mirru með því við fórum út að borða á veitingarstaðinn sem við horfum innum gluggana hjá út um eldhúsgluggana hjá okkur.  Mér fannst pínu einkennilegt að vera þarna úti að borða af því að ég horfði allan tímann á útidyrnar okkar, en maturinn var góður og stutt að fara heim.  En þetta er ekki ódýr veitingarstaður en það var í síðustu viku út í 100 eins og það átak heitir og þá var boðið uppá einn rétt á 100 kr. á veitingarstaðnum.  Steinbítur!  Já þið sem þekkið mig vitið að ég fer ekki út að borða og kaupi mér fisk nema hann heiti humar svo við borðuðum ekkert ódýrt þarna en það var fínn matur og gott að vera búin að prófa að sitja þarna ég get þá sammerkt mig með fólkinu sem ég horfi á í framtíðinni út um gluggann.
Við Ástrós Mirra skruppum í bíó á föstudaginn, sendum Þráin fyrr um daginn að kaupa miða því það var tilboð 2 fyrir 1 en við hefðum getað sleppt þvi að senda hann því það voru ca. 20 manns í bíó þrátt fyrir föstudagskvöld og tilboð.  Einkennilegt, finnst mér en svona er þetta hérna sagði einhver.  En allt fullt út að borða og fólk alltaf á rölti út um allan bæ.
Við erum að plana að fara til Stavanger á föstudaginn til Davíðs hennar Klöru og ætlum að gista hjá honum eina nótt, skoða Stavanger og gera okkur dagamun og tilbreytingu.  Það er eitthvað lítið að gera í smíðum hérna núna svo menn eru bara sendir í frí og Þráinn ákvað að nota tækifærið og sækja um nýja vinnu, búinn að senda út nokkrar umsóknir strax fyrsta daginn.  Vonandi kemur bara eitthvað frábært út úr því, en við vitum um mörg verkefni sem eru að fara í gang hér í vor og munu taka 1 – 2 ár svo það ætti að vera nóg að gera.  Held þeir séu að fara að byggja á einu svæði 170 íbúðir og öðru eitthvað aðeins minna en ætlunin er víst að bærinn stækki úr 15.000 manns í 25.000 á innan við 10 árum og er það víst vegna þess að Kristianssand er orðinn fullpakkaður og ekkert byggingarsvæði lengur til þar.  Svo það á að færa fólkið hingað suðureftir, sem er gott fyrir okkur.  Já og svo á að stækka verslunarmiðstöðina og það er 2 ára verkefni svo við erum bjartsýn enda þýðir ekkert annað.
Ég er farin að bíða eftir vorinu og skilst að það ætti að fara að örla á því í næsta mánuði, svo ég þarf að bíða heldur styttra hér en heima og á meðan er veðrið alveg gott, við frostmark, er smá snjór á götunum og algjör stilla.  Hér er alltaf stilla og það er æðislegt.  Ég heyrði einhverja smelli um daginn þegar ég var að fara að sofa og ég hugsaði með að það væri eitthvað sem slægist utaní eitthvað (svona hugsar maður á Íslandi) en svo fattaði ég að það er blankalogn og því ekkert sem gæti verið að slást í neitt nema því væri ýtt og ég held að maðurinn á bakvið tjöldin hafi sko nóg annað að gera.
En nú er klukkan að verða átta og orðið bjart hjá okkur sem er bara dásamlegt.  Elska bjarta morgna en það má alveg vera myrkur á kvöldin mín vegna.
Jæja best að fara að vinna þennan mánudaginn og megið þið elsku vinir eiga góða viku framundan, ég veit að ég mun gera það.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna
Ps. svona speglun sér maður bara í stillu og því er hún svo algeng hérna.
Skrifað af Kristínu Jónu

 

20.02.2013 08:33
Vor í lofti
eða ekki.  Þetta er pínu erfiður árstími, því einn daginn (eða kannski bara hálfan dag) held ég að það sé komið vor og svo er allt í einu orðið kalt og ekkert vor í lofti.  Það er sama hvar ég bý, ég get ekki beðið eftir vorinu og í gær skelltum við okkur út að labba við fjölskyldan með erro og það skein sólin og var svo yndislegt veðrið en á leiðinni var sólin að hverfa og þá varð mér svo kalt enda bara í kjól og sokkabuxum (því sko ég hélt það væri að koma að vor) og það var ekki fyrr en 5 klukkutímum seinna sem það var kominn hiti í mig.  En þá líka kafnaði ég, henti af mér sænginni og galopnaði gluggana í stofunni smá stund.
En ég hef alltaf átt það til að gera eitthvað skringilegt þegar ég held það sé að koma vor.  Ég man vel þegar ég var að vinna í Skýlinu (og það er sko EKKI í eina skiptið, heldur margoft eftir það) að einmitt á þessum árstíma þegar ég held að það sé að koma vor að ég æddi út að þvo gluggana að utan.
Já já, það fraus nánast á þeim vatnið sem ég var að nota til að þrífa með og Hörður var ekkert allt of ánægður með mig þá en eins og ég segi þetta hefur gerst næstum árlega og mun líklega aldrei breytast.  Þetta er líklega líka ástæðan fyrir því að ég fæ alltaf vorkvef, því ég held að það sé komið vor og hætti að ganga í ullargammósíum og verð bara lasin með kvef og blöðrubólgu.  En núna ætla ég að reyna að passa mig (já já ég veit).

En aftur að gærdeginum því veðrið var svo geggjað og ég fæ ekki nóg af þessari á okkar sem rennur hér meðfram miðbænum og er í klakaböndunum núna og skúturnar fastar í ís og allt svo blátt og fallegt. Nýja brúin okkar er og verður mikið mynduð af mér því hún er snilldarhönnuð og ég hlakka til þegar maður má fara að labba yfir hana.

Það að labba þessa leið, þó lærin séu frosin og hendurnar kaldar (ég var í vettlingum og með húfu) er bara svo mikil andleg næring og svo mikil fegurð þarna.  Ég veit að þið eruð ábyggilega hundleið á því að hvað ég elska þennan bæ mikið en ég bara geri það og fæ ekki nóg af honum.  Ég heppin að fá að búa hérna. 🙂
En af því að ég vogaði mér að segja hundleið, þá er best að segja ykkur hundavinum mínum að loksins sá ég auglýst hundanámskeið fyrir hvolpa og ég ætla að biðja Þráin að hringja í dag og tékka á þessu, held að Ástrós og hann hefðu mikið gott af því að komast með erro á svoleiðis, kannski fer ég líka með, við sjáum bara til.  Alla vega mjög spennandi að skoða þetta og sjá hvað erum við að gera rangt og hvað rétt.
og talandi um þennan litla ljóta sem við stundum köllum svo (gælunafnið okkar), þá er best að skella mynd af honum hér með því hann er alltaf orðinn fyrirsætan hjá mér þegar ég er að stilla ljósin í upphafi myndatöku.

Svo þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

22.02.2013 09:44
Óvenjuleg
Ég er víst ein af þessum óvenjulegu manneskjum sem get verið báðum megin við myndavélina, því mér finnst ekkert óþægilegt að taka eða láta taka myndir af mér.  Mig vantaði viðbótarmynd í verkefni 7 í skólanum og af því að ég var búin að ákveða að vera með englaþema og að engillinn ætti að vera ljóshærður með blá augu þá var auðveldast að taka myndir af mér sjálfri.  Og það gekk vel, ég fékk reyndar smá aðstoð frá Þráni við uppstillingar en annars var þetta algjörlega unnið af sjálfri mér.

En enn og aftur er ég að lenda í því að þessi rýmisgreind er að trufla mitt daglega líf.  Gaman að geta haft orð um hvað er að í staðinn fyrir áður þá sagði ég alltaf að ég væri svo vitlaus á þessu sviði, en það er með alla skerðingu greindar að það er skerðing en ekki heimska.  En málið var að við áttum að taka mynd með svokallaðri Clamshell lýsingu sem þýðir að bæði ljósin eiga að vera fyrir framan módelið og annað neðarlega og lýsa upp og hitt ofarlega og lýsa niður.  Já þetta er nú ekki mikið mál og svo sér maður kennslumynd frá kennaranum og er með þetta allt á hreinu.  ….. nema að kennarinn var víst ekki með ljósið 20 cm frá módelinu eins og mér sýndis / sýnist þegar ég skoða það.  Konný segir að það sé að minnsta kosti 50 – 70 cm frá.  Jáhá það er ábyggilega allt önnur lýsing en sú sem ég var með, því sú sem var með virkaði eins og vasaljósi væri beint undir andlitið á mér og ef ég sneri beint fram þá kom bara hörmungarmynd af mér.  En þetta á víst að vera mesta svona bjútí lýsingin sem notuð er í stúdeói.  Ég prófa hana kannski einhverntíma rétta, en sko ég náði alveg fínum myndum og mun ekki fá rangt fyrir lýsingu því ég er það nálægt þessu en þegar verið er að sýna svona myndband úr stúdeói og myndavélin er fyrir framan plássið sem nota skal í myndatökunni þá er ég engan veginn að átta mig á fjarlægðum.  En hefði myndavélin verið á hlið, þá hefði ég kannski séð þetta.
En þetta var samt skemmtileg myndataka, Þráinn stakk uppá því að ég færi út kjólnum og léti ekki fatnað trufla myndina, heldur hefði berar axlir og ég er bara ánægð með það eftirá.  En ef einhver nágranni hefur verið að fylgjast með okkur þarna í stofunni (nei engar áhyggjur það var dregið fyrir) þá hefði þetta litið einkennilega út, ég spásserandi um á brjóstunum og huggulegheit.  Nei ég er að djóka, ég var í haldara og tók bara niður hlýrana.  Ekkert dónalegt í mínu stúdeói.  En hundurinn átti þvílíkt bágt þegar ég var að mynda sjálfa mig.  Bíddu, sko hann hefur verið lokaður frammi í eldhúsi við aðrar myndatökur og kannski ekki sáttur en ekkert vælandi en það gerði hann í gær, hann grenjaði og hætti ekki fyrr en ég hleypti honum inní stofu og þá fór hann beint á réttan stað og pósaði fyrir mig.  Yes, búið að kenna honum þetta.  Hann lagðist bara niður og horfði á mig þessum aumingjasvip sem hann setur allt of oft upp þessa dagana.  En krúttlegur er hann, því er ekki að neita.

En stór er hann líka orðinn og þegar við erum úti að ganga og mætum öðrum hundum með eigendur sína úti að labba þá verða allir mjög hissa þegar ég segi að hann sé bara 7 mánaða hvolpur.

jæja svo ein brosandi af mér í restina bara fyrir ykkur hin, ég er alltaf hrifnari af sjálfri mér ekki brosandi en veit að það eru aðrir sem vilja sjá brosið.

Í dag á svo að leggja í ferðalag til Stavanger.  Eigið góða helgi öll sömul og verið góð hvort við annað.
Ykkar Kristín Jóna

Ps. ég verð nú að bæta hérna við að meðan ég er að blogga áðan, þá erum við Þráinn líka að ræða það hvað ég sofi illa og lítið í einu alltaf og þoli mjög illa ef svefninn er truflaður þá get ég ekki sofnað aftur osfrv.  Og þegar ég er búin að blogga þá eru allt í einu tvær lotur opnar í browsernum mínum á síðu sem er að auglýsa tilboð á heilsutöflum sem eiga að hjálpa manni að sofa.  Ha, ég held að fylgjurnar mínar Jón afi og Stína amma (fékk það staðfest um daginn að þau fylgdu mér) hafa ýtt á einhverja takka þarna.  Og ekki nóg með að þetta sé auglýsing sem hentaði mér núna, heldur er hægt að panta ókeypis prufu núna og það tilboð rennur út á morgun.
Já sæll ég pantaði það bara og svo skal prófað, þetta er eitthvað sem á að hjálpa manni að slaka á fyrir svefninn og alls konar svoleiðis.
http://906slm.sov-gott-idag.com/?source=8&sub_id1=f

 

25.02.2013 07:54
Vetrarfríið búið
hjá okkur mæðgum, vonum að það verði ekki mjög langt í viðbót hjá Þráni því þá verður hann ekki ánægður kallinn, hann er ekki mikið fyrir það að hanga heima allan daginn.
En við erum búin að eiga frábært frí og drifum okkur á föstudaginn til Stavanger eða Sandnes sem er næsti bær við hliðina en þar vinnur Davíð hennar Klöru og býr.  En þetta er rúmlega 2.5 tíma keyrsla og bara fín leið að keyra, prófuðum bæði að keyra í birtu og traffík á föstudegi og svo í myrkri og engri traffík á laugardagskvöldið og auðvitað vorum við fljótari þá því við stoppuðum ekki neitt.
En þetta er falleg leið og Stavanger er með fallegan miðbæ en það er með þann bæ eins og flesta aðra að allt sem hefur verið byggt til að stækka bæinn síðustu árin er bara venjuleg íbúðar- og iðnaðarhverfi og lítið fallegt við þau.  En Mandal er þannig bær að enn er verið að byggja í gamla stílnum og engar blokkir hér eða háhýsi og það er það sem gerir Mandal svo fallegan, það er nánast eins og hann hafi staðið í stað.
En af því að Davíð var að vinna þegar við komum þangað, þá brunuðum við beint í miðbæinn og fórum að skoða Dómkirkjuna í Stavanger.  Eins og ég sagði þá er miðbærinn þar mjög fallegur og ofboðslega gaman að rölta um hann og skoða fallegar byggingar, þröngar gamlar götur en svo horfir þú í hina áttina á stóru hótelin og það allt.
Til dæmis niðri á bryggju er þetta fallega veitingastaðahverfi, litskrúðugt af mannlífi og húsum.

Þarna er líka þessi fallega tjörn og minnti svæðið okkur á reykjavíkurtjörn að einhverju leiti, gömul hús, falleg tjörn og mannlíf.

Þemað í þemaklúbbnum var fólk svo ég tók talsvert af myndum af fólki í Stavanger til að verða almennilega með í þemanu núna.  Þið fáið að sjá fallegri myndir af tjörninni seinna.

En Dómkirkjan sjálf er alveg ofboðslega falleg kirkja sem er orðin talsvert gömul byggð 1272 það er nánast á víkingaöld hjá okkur íslendingum, mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess að meðan við kúldruðum í moldarkofum þá voru aðrar þjóðir að byggja svona fallegar byggingar.

Þetta er glæsileg bygging að utan sem innan og ég vildi gjarnan sjá hana að sumri með fallegum blómum í kring og þess háttar.

Jæja við röltum svo um miðbæinn og skoðuðum okkur um, fórum uppí gamla bæinn og fannst við þá bara komin heim.  Svo þegar líða fór á kvöld fórum við heim til Davíðs sem býr sem sagt í Sandnes og biðum eftir að hann væri búinn að vinna, kíktum aðeins niður í bæ þar líka en bara á bílnum.
Svo fengum við okkur Kebab í kvöldmatinn, bíómynd í boði Davíðs og kósíkvöld hjá okkur. Svo fór hann aftur í vinnu daginn eftir og við dóluðum aðeins þarna um morguninn og kíktum svo til Svenna og Önnu og fengum þar konunglegar móttökur, gott að koma til þeirra og spjalla og þar var þessi flotta brönsveisla fyrir okkur.  Þau eiga hund svo Erro og Pjakkur fengu að kynnast og voru bara fínir saman.  Erro skyldi eftir sig merki og sprændi á grillið þeirra úti á svölum en þau vonandi ná að þvo það af.  Held að hann hafi nú bara ætlað að segja Pjakki að hann væri alveg orðinn rosalega stór líka.
Jæja eftir þetta fína boð kíktum við í Ikea því Davíð var ekki alveg búinn að vinna og við keyptum okkur strandtösku á hjólum sem við ætlum að nota í sumar þegar við löbbum á ströndina með nesti og nýja skó.
Svo sóttum við Davíð í vinnuna og fórum að skoða Utstein Kloster sem er eldgamalt klaustur sem við vorum búin að lesa okkur til um.  Og þar eru elstu minjar um klaustur síðan um 900 sem segir mér að það séu til minjar um þetta klaustur sem eru jafngamlar íslandi eða þar um bil.  En þetta klaustur var samt ekki byggt fyrr en um 1260.
Dásamlegur staður sem þarna er en klaustrið sjálft var ekki opið þó við höfðum verið bún að athuga það og héldum að það væri opið til kl. 16.
Þessa mynd tók ég fyrir utan klaustrið og þið fáið ekki að sjá meira af því fyrr en seinna.

Ofsalega friðsæll og fallegur staður.
En svo keyrðum við aðeins um þarna, fórum í miðbæinn í Stavanger aftur en ákváðum svo að fá okkur bara pizzu heima hjá Davíð og gerðum það.  Svo þegar við vorum að klára að borða verður mér litið út um gluggan og sé að það er að koma svo falleg kvöldbirta og speglun þarna niðrí við sjó og ákvað að fá mér smá göngutúr til að taka myndir þar.  Göngutúrinn varð talsvert lengri en ég hélt hann yrði þar sem það þarf að taka stóran krók fram hjá járnbrautarteinum og svo þegar ég er að labba þangað niðureftir þá sé ég að sólin er byrjuð að skína þarna hinum megin við fjörðinn og ég fer að hlaupa því svona sólarlag stendur nú yfirleitt ekki lengi og er sjaldnast að bíða eftir okkur mönnunum.
Svo ég hljóp og hljóp til að ná þessu.

Svo eftir þessa myndatöku fórum við að ræða hvort við ættum að fara heim eldsnemma morguninn eftir eða hvað og þá tók Þráinn bara þá ákvörðun að við skyldum bara keyra um kvöldið til að geta sofið út og dólað okkur heima á sunnudeginum sem við og gerðum.  Þannig að við skelltum dótinu og okkur í bílinn og keyrðum heim þarna í engri traffík og þæglilegheitum og vorum komin heim kl. 22 um kvöldið.  Bara næs að klára bíltúrinn svona í staðinn fyrir að eyða hálfum sunnudeginum í akstur líka.  En ég þarf að fara þessa leið aftur og stoppa oftar á leiðinni heldur en gert var núna og taka myndir því það er fullt af flottum stöðum á leiðinni sem ég hefði verið til í að mynda.
Svo þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

27.02.2013 07:08
Eftirá
Það er alltaf pínu tómlegt þegar búið er að vera á ferðalagi þó stutt sé og vera svo bara heima aftur.  En ég held nánast að myndirnar og þetta svæði þarna við Utstein kloster gæti virkað sem hugleiðingarefni, alla vega fyrir mig sem er búin að vera á staðnum og á auðvelt með að rifja upp meira þegar ég sé myndirnar.  Mig langar þarna aftur í sumar og þá langar mig lika að skoða Prekestolen sem er alveg stórkostlegt útsýni frá og kannski ekki fyrir lofthrædda en ég er til að prófa það held mér bara fast í eitthvað.

Þetta er víst mjög vinsæll staður í Stavanger að fara og skoða og reyndar segja sumir að traffíkin sé orðin svo mikil að það sé nánast umferðaröngþveiti en mig langar samt að fara og skoða þetta.
En aftur að Utstein kloster, mér finnst ekkert skrítið að munkarnir hafi valið þann stað fyrir klaustur því það er svo fallegt þarna og friðsælt og hefur ábyggilega verið dásamlegt fyrir þá að búa í þessu umhverfi.  Þó ég sé ekkert að skilja af hverju fólk fari í klaustur en iðki ekki bara sína trú heima hjá sér.
Nú er miðsvetrarfrí í Menntaskólanum á Tröllaskaga og því engin verkefni í gangi akkúrat núna en ég auðvitað búin að hugsa upp næsta verkefni og ætla að nota dótturina í fyrirsætustörfin þar, svo líklega förum við í það um næstu helgi.
Já við hittum lækninn okkar í gær og það kom ekkert út úr blóð- og þvagprufum hjá Mirrunni en hann prófaði að skaffa henni lyf við bakfræði bara til að prófa eitthvað, sérstaklega var hann að spá í það út frá því að hún var/er með magamígreni sem hefur samt ekki háð henni í nokkur ár.  Vonandi lagast hún við þessi lyf því þetta er farið að hafa áhrif á skólann því hún er að missa úr jafnvel einn dag í viku og það virðist nú alltaf hittast á að þá er próf.  En hún er að fara í próf í dag og vonandi fer svo að koma sú niðurstaða að hún megi skipta um skóla.  Ég vil að hún fari að fara í Furulundenskole til að hún nái kannski að kynnast einhverjum fyrir sumarfrí.  Við erum búin að vera ræða svolítið hvað hún á auðvelt með að vera ein og þá komust við Þráinn að því að við eigum það líka svo þetta er kannski ekkert óeðlilegt þannig séð.  Og er ekki sagt að sá sé sáttur við sjálfan sig sem líkar vel við sína eigin nærveru, eða eitthvað álíka.

Ég gerði smá tilraun um daginn og ákvað að prófa að hætta á hormónalyfjunum mínum því ég væri nú búin að taka þau svo lengi að það gæti ekki verið að ég yrði svona geðveik aftur.  Þetta fór mjög hljóðlega og við hjónin vorum bara með mig í smásjá og fylgdumst vel með öllum skapgerðarbrestum og uppákomum.  Og úff hitakófin komu um leið, en það er nú ekkert mál ef það er bara hitakóf en vitiði ég fann mjög fljótlega að ég fór í eitthvað ójafnvægi og þetta endaði sem tveggja vikna prufa og ég svo komin aftur á lyfin mín og verð á þeim ábyggilega lengi lengi.
Það er nefnilega svo skrítið með þetta ójafnvægi sem myndast hjá okkur konum við þessar breytingar og ég hef oft sagt það að ég spotti konur á breytingarskeiðinu langar leiðir þó þær geri sér ekki grein fyrir að þær séu á því.  Það er ákveðin hegðun sem kemur, oft svo mikil neikvæðni og allt svo á móti þeim og skapofsi og það að rjúka upp í reiði og pirring án fyrirvara. Mjög stuttur þráður og ekkert þol fyrir öðru fólki og að allir séu ekki eins.  Ekkert jafnaðargeð.  Höndla álag illa og svo mætti lengi telja.  Það er svo talað um breytingarskeið kvenna sem eitthvað hitakóf og eins og það sé eina málið, ef það væri eina málið þá væri þetta ekki vandamál, það eru skapgerðarbreytingarnar og geðveikin sem lauma sér inn sem eru svo slæmar. Auðvitað fara ekki konur svona illa á breytingarskeiðið eins og ég en allt of margar gera það og það án þess að átta sig á því.  Mér verður alltaf hugsað til aumingja mannsins í Byko, sem átti ekki fótum sínum fjör að launa að þurfa að afgreiða mig á þessu tímabili, ef ég hef ekki bitið af honum hausinn þá veit ég ekki hvað.  En svo fékk ég hormón og fór aftur í Byko og hló með honum að aulabröndurunum og þá mundi ég … já svona hafði þetta verið.  Ég nefnilega gleymdi líka að hafa gaman þegar mig vantaði þessi hormón og það er ömurlegt líf.  Ömurlegt líf að gleyma að hlæja og gera grín að sjálfum sér og taka hlutina ekki allt of alvarlega.
Áfram heldur góða veðrið hérna, ég þori stundum ekki að tala um veðrið því ég veit ef ég væri á Íslandi í roki og rigningu þá myndi ég ekkert vilja heyra af góðu veðri í öðrum löndum en ég er alveg sannfærð um að veðrið hefur miklu meiri áhrif á skapið í okkur en við gerum okkur grein fyrir.  Ég er miklu rólegri hérna og það að vakna dag eftir dag með eins veður, þó það sé frost og snjókoma þá er það eins og maður getur farið út í sömu fötunum dag eftir dag.  Það verður bara standart búnaður að setja á sig húfu og vettlinga.  Eða eins og núna við frostmark, sól dag eftir dag, og það verður svo heitt hérna inni yfir hádegið að það þarf að opna alla glugga, en reyndar kólnar snögglega um leið og sólin sest en það er bara ennþá febrúar og í mars kemur vorið, mig vantar að losna við snjóinn svo það geti farið að koma eitthvað brum uppúr görðum og inní skóginum.  Milt og gott veður  í marga daga = Þægilegt skap með litlum sveiflum.  Rok og rigning og aldrei að vita hvað verður á eftir = Stress og flýtir í öllum, það þarf að koma sér inn úr rokinu og það þarf að flýta sér í búðina á leiðinni heim og berjast við vindinn og það allt.  Ég held að veðrið sé að gera íslendinga svona stressaða, þeir eru alltaf að flýta sér út af rokinu.
En nóg um veður og skap í bili

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

28.02.2013 07:17
Þegar ekkert er sagt
er þá ekki bara allt í lagi?  Það er spurningin?  Því ég var spurð í gær hvernig hundauppeldið gengi því ég væri alveg hætt að tala um það í blogginu mínu.  Uhhhhhh, já líklega vegna þess að það gengur allt svo fínt núna.  Bara svo það sé á hreinu hann Erro er bara flottur hundur og reyndar smá snillingur en þó óttalega heimskur líka en hver er það ekki?
Það eina sem er að honum núna er að hann togar of mikið í ólina þegar við förum út að labba.  Allt annað virðist vera bara komið hjá honum og ekki er hann lengi að læra nýja siði, neiiiiiiiii við sáum hjá Svenna og Önnu um helgina að þau eru með svokallað ból eða bæli í stofunni þannig að hundurinn á sinn stað þar, svo við ákváðum að setja eina sumarsæng í ver og setja á gólfið og búa til bælið hans og kenndum honum að fara í bælið og gefa nammi þegar hann lagðist þar og viti menn.  2 dögum seinna var hægt að segja þegar hann var uppáþrengjandi við Ástrós Mirru,  “Erro farðu í bælið” og hann fór beint þangað og lá þar þangað til honum fannst hann hafa legið nógu lengi.  Og núna þegar hann er að þvælast fyrir í eldhúsinu og þess háttar þá er hann rekinn í bælið sitt og þetta bara virkar, takk Anna og Svenni fyrir að kenna okkur þetta.
Svo er hann svo góður í að fela hlut, eða sko ég fel hlutinn og hann finnur hann, í gær prófaði ég að setja einn nammimola í dagblað og vel innvafið og límt og hann fann það um leið en ég þurfti aðeins að sýna honum að hann mætti tæta blaðið utanaf til að finna nammið sitt og það var við manninn mælt, dagblaðstætlur út um allt og hamingjusamur hundur liggjandi og japlandi á namminu sínu.  Vona að svona hundanammi sé ekki eins óhollt og mannanammi því hann fær svo mikið af þessu því það þarf víst endalaust að venja þessa hunda af öllu og á allt með nammi. Hvernig liti krakkinn minn út sem fengi sama uppeldi?  Hummmmmmmm ekki svo vel.
En hvað viljið frétta fleira?  Nói kallinn er bara inniköttur núna og fær ekkert að fara út, hann er alveg hættur að reyna það, virðist hafa fattað að skenkurinn sem við keyptum fyrir framan gluggann í holinu væri líka fyrir hann ekki bara fyrir mig og situr þar og fylgjist með fólkinu úti, ég mun svo herma eftir honum í sumar.  Ég prófaði bekkinn í alvöru um daginn og sat á honum og talaði í simann og það virkaði vel, vona að nágrannarnir á hótelinu hafi verið jafn ánægðir að hlusta á íslenskuna svona yfir götuna.

 

Þessar myndir voru líka teknar þarna rétt við klaustrið sem við skoðuðum um daginn og enn og aftur sést þessi mikla friðsæld sem þarna ríkir.  En alltaf þegar maður rekst á svona lítil þorp eins og hérna þá fer ég að hugsa, hvað skyldi fólkið vinna við sem býr þarna?  Eða ætli þetta sé mest fólk sem er komið á eftirlaun kannski ég reyndar gæti alveg trúað því í þessu tilviki og ég get alveg hugsað mér að flytja á einhvern svona stað þegar ég eldist en þó verður maður að passa uppá það að vera nálægt þjónustunni sem maður þarf á að halda.
En allavega nóg í bili, hér er orðið bjart klukkan 7 á morgnanna, núll gráður þá og sólin að byrja að skína, snjórinn ætti að fara að klára að leysast upp núna í vikunni og vorið að koma.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna
04.03.2013 07:04
Og aftur kominn mánudagur
og góð helgi að baki.  Það er reyndar búið að vera smá skrítið hérna síðustu tvær vikur að hafa Þráin heima alla daga en við höfum nú bæði verið dugleg að finna honum eitthvað að gera svo ekki hefur honum leiðs mikið en samt eitthvað og aðallega óöryggið sem er óþægilegt, en hann fór í vinnu í morgun og við vonum að þetta verði eitthvað viðvarandi og svo vonum við að það fari að koma eitthvað út úr öllum atvinnuumsóknunum sem hann er búinn að vera að dæla frá sér.  Hann vantar að fara að fá fastráðningu, en hér halda menn mikið að sér höndum við það, því þá eru þeir orðnir svo skuldbundnir starfsmanninum í staðinn fyrir ef þeir leigja hann þá geta þeir nánast sagt við þá að það sé engin vinna daginn eftir ef enginn skriflegur samningur er.  En þá á starfsmannaleigan að vera búin að redda nýrri vinnu en það gerist bara ekki alltaf og alls ekki á þessum árstíma sem virðist vera sá erfiðasti hér.  En þeir klúðruðu nú dálítið með Þráinn í þessu fyrirtæki sem hann hefur verið að vinna fyrir, hann var nefnilega með samning út febrúar svo hann verður á launum í þessar tvær vikur, jeiiiiiiiiiiiiiiii.  Og svo sem sagt vonum við það besta með framhaldið.
Við tókum líka stóra ákvörðun á föstudaginn, vorum búin að panta í geldingu fyrir hundinn en hættum við það.  Við vorum nefnilega send heim þegar búið var að panta tíma og látin lesa heil ósköp um þetta á norsku en skyldum alla vega það mikið að það gæti orðið skapgerðarbreyting á honum.  Og ef hann yrði kvekktur þá gæti hann tekið uppá því að fara að gelta, og hann geltir aldrei og hann gæti líka farið að vera hræddur við aðra hunda og alls konar svo við ákváðum bara að sleppa þessu í bili alla vega.  Það er ekkert að þessum hundi annað en að hann er hvolpur svo við verðum bara að bíða eftir að hann eldist og róist og sjá hvernig karakter hann verður.  Ég held reyndar að Þráinn hafi ekkert verið innstilltur á þetta og þetta hafi bara verið ég svo ég skipti um skoðun og hann fær að vera eins og hann er enda er ég alltaf að tala um það að við eigum að fá að vera eins og við erum í friði.
Ekki eru allar fréttir góðar fréttir og ekki er langt síðan ég sagði að við værum svo heppinn í minni fjölskyldu að það hefði enginn greinst með krabbamein þar en nú eru bæði mamma og pabbi komin með það.  Mamma í brjóstinu og búið að taka það mein og svo er hún búin að fara í geisla og það gekk held ég vel, þó hún sé ennþá aum og með verki.  En nú var pabbi að greinast með krabba í ristlinum eða endaþarminum og þarf að fara í geisla í 5 vikur og svo 5 vikna bið og þá fer hann í aðgerð þar sem endaþarmurinn verður tekinn.  Þetta var nú talsvert sjokk fyrir kallinn að fá en það sem mun redda honum er að hann er alltaf frekar jákvæður og glaður og það skiptir svo mikilu máli.  Hann hefur fengið eitthvað að góða skapinu hennar mömmu sinnar og ég fékk nefnilega alveg helling af því og er mjög lík henni ömmu minni og nöfnu þegar kemur að skapferli.  Að hafa gott skap og ákveða á morgnanna að vera í góðu skapi þrátt fyrir allt það skiptir bara svo miklu máli og hjálpar í öllum erfiðleikum.  Við hjónin fengum einmitt svo fallegt hrós á hrósdaginn frá henni Ásu Kollu frænku og snerti mig alveg inn að hjarta.  Við fengum sem sagt hrós dagsins fyrir að vera alltaf svo jákvæð og í góðu skapi sama hvað bjátaði á.  Takk elsku Kolla þetta hrós skipti okkur miklu máli.
Þá er það helgin eða hvað?  Við áttum nú bara kósí laugardag hérna heima, þrifum gólf og skiptum á rúmum og gerðum svona venjulega helgartiltekt.  Það var óvenjuþungskýjað og smá úði úti svo bíltúrinn sem hafði verið planaður var lagður til hliðar, enda kom í ljós að bóndinn ætlaði að fara í þennan bíltúr fyrir mig eða þannig. Og þá skiptir veðrið öllu máli, blár himinn og fallegir litir.  Svo ég dreif bara Mirruna í stúdeóið og við tókum myndir fyrir næsta verkefni sem er low key myndir og áttum við að velja 3ja mynda þema.  Það er fyndið því sú verkefnalýsing var ekki komin þegar ég ákvað mitt verkefni en það var akkúrat 3ja mynda þema um börn og tölvunotkun og inn í það flétta ég tæknina og hvað þessir hlutir eins og tölvur eru alltaf að fara minnkandi.
Ég held þetta hafi heppnast vel hjá mér og vona að aðrir séu sammála.

Fallega stúlkan mín með uppáhaldstækin sín, ég held þetta þema sé bara alveg ágætt hjá mér og vonandi fæ ég 10 fyrir það eins og hin 2 þar síðustu verkefni, því ég veit ekki með síðasta verkefnið því það á eftir að gefa einkunn fyrir það.
Svo var laugardagurinn bara kláraður með dásemdarmat sem Þráinn eldaði, nautasteik sem við keyptum í DK og rjómasveppasósa og grillað grænmeti og bakaðar kartöflur.  Nammmmmmmmmm.  Bíómynd og kósíkvöld.
Og í gær var vaknað í sól í blíðu en þó hafði spáin verið eins fyrir laugardag og sunnudag en það gerist sem sagt hér eins og annars staðar sem ég þekki til að spáin gengur ekki alveg eftir, svo við hjónin ákváðum að fara í bíltúrinn okkar.  Mirran vildi bara fá að njóta þess að vera ein heima með hundi og ketti.
Svo við lögðum af stað til Farsund en það er bær sem ég kom til þegar ég fór með skvísunum hér í Mandal að versla í amerísku búðinni en þá var myrkur og rok og rigning en ég sá nóg til að fatta að þarna væri fallegt svo það væri vert að kíkja aftur í heimsókn og eftir gærdaginn erum við Þráinn ákveðin í að reyna að kaupa bók sem segir frá helstu stöðunum hérna á suðurlandinu og með jafnvel korti í því Geirþrúður Pálína Sigurðardóttir veit ekki allt og finnur ekki alla staði.
En við fórum sem sagt til Farsund og Lista fyr sem er viti þar rétt fyrir utan og vitið það var eins og að vera að keyra heima á Íslandi í sveitunum þar og vitinn var nánast á Stokkseyri að þvi er okkur fannst. Og já þarna var líka hávaðarok á norskan mælikvarða.  En frábær staður, svo fallegur og þarna er margt að sjá sem við eigum eftir að finna seinna en við rúntuðum aðeins þarna um sveitirnar og fundum ekki það sem við leituðum að svo við komum aftur í sumar, ekki spurning og þá með bók með okkur.

Þetta landslag minnir nú á Ísland

Já svo tókum við smá kirkjugarðarúnt því þemað hjá okkur núna er Kirkjugarðar og grafreitir og mér leiðist það ekki því ég elska kirkjugarða og finnst svo notarlegt að labba um þá og eitthvað svo róandi og fallegt við að vera þar.  En það er til fólk sem finnst maður vera að vanvirða kirkjugarðinn eða þá látnu með því að mynda þar inni en ég er ekki sammála, því ef maður sýnir ákveðna virðingu eins og ekki láta nöfn og annað sjást þá er þetta bara fallegt og fallegar myndir hægt að taka í kikjugörðum heimsins sem geyma ómissandi fólk.
Þessi mynd er tekin í kirkjugarðinum í Vansa (ég held bærinn heiti það, hann er á milli Farsund og Lista Fyr).

Svo er þessi tekin í kirkjugarðinum í Lyngdal en mér finnst eitthvað svo fallegt við þessa krossa og næstum eins og þeir leiðast og haldi utan um steininn þarna á milli sín.

Nú eftir þennan góða bíltúr var bara komið heim í litla kotið okkar og haft það kósí það sem eftir lifði dags og kvölds.  Fengum okkur afgangsnautakjöt í kvöldmatinn og horfðum svo á bíómynd saman en við erum að prófa áskrift að netsíðu sem heitir Netflix og er algjör snilld, fullt af sjónvarpsþáttum þarna og bíómyndum en hún var nú samt eitthvað höktandi myndin í gær en það hlýtur að vera tilfallandi, alla vega hökta ekki þættirnir sem ég hef verið að horfa á undanfarið en það eru þættirnir Lie to me, snilldarþættir og skemmtilegir.
En jæja gott fólk þá er bara eftir að drífa sig á fætur og taka nýrri vinnuviku með gleði og brosi á vör, ég geri það alla vega, fullt af spennandi verkefnum og skvísupartý hjá mér á miðvikudaginn svo þetta verður bara góð vika.  Hugsa stíft til pabba og allt gangi vel hjá honum, pínu erfitt að vera svona langt í burtu og geta ekkert hjálpað, nú lendir það allt á Konný sem er auðvitað bara svo mikið gull af manni að hún telur það ekki eftir sér.  Elska ykkur öll.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

07.03.2013 07:41
Það getur verið óþægilegt
að vera svona langt í burtu þegar eitthvað gengur á heima eins og í gær til dæmis óveðrið og það allt.  Þó ég hafi nú verið ansi fegin að sleppa við það, það er ekki spurning og ég hreinlega elska veðrið hérna í Mandal og svona veðurspá er oft hjá okkur.

Svona verður veðrið alla næstu viku, smá frost algjört logn og sól, bara dásemd.
Ég tók þá ákvörðun í fyrradag að taka mynd út um gluggann og senda á fésið daglega núna í einhvern tíma en það er smá galli á því að út um gluggann hjá mér sést enginn gróður svo við föttum ekki alveg þegar vorið kemur nema þegar fólkið fer að setja blómakassa út um gluggana hjá sér kannski, en við sjáum til ég prófa kannski fleiri glugga og finn hvar er besta útsýnið.
Hér hefur svefnleysi háð fjölskylduna alla þessa viku og ég er ekki alveg að skilja hvað veldur, Ástrós segist sofa lítið og illa, Þráinn svaf lítið og illa eftir að ég breytti í svefnherberginu svo ég er búin að breyta til baka og þá svaf ég lítið og illa.  Furðulegt alveg hreint og enginn áttar sig á hvað er að. En við höldum áfram að breyta og leita að orsökinni.  Ég fékk í fyrradag í póstinum “SleepWell” töflurnar sem mér var bent á um daginn af einhverjum “hinum megin” og er byrjuð að taka þær en ég vænti þess ekki að sjá mun fyrr en eftir viku, það hlýtur að þurfa tíma til að fara að virka, svo ég bíð spennt.  Það er fullt af alls konar hollum efnum í þessum töflum sem ég kann ekki að nefna en kannaðist við þegar ég las á pakkann.  En þið getið lesið ykkur til um þetta hérna:  http://www.naturalab.no/produkt.asp?m=53956&s=53976.
Nú er kominn fimmtudagur og stutt í helgina, mikið líður nú tíminn hratt, bara aftur komin helgi og við ekkert búin að plana.  Ég veit að Þráinn er nú alveg ánægður með það, hann vill ekki eins mikið af plönum og ég en mér finnst ég alltaf þurfa að gera eitthvað til að fá meira út úr helginni og hafa eitthvað alla vikuna til að minnast.  Já ok, ég er auðvitað að tala um að mynda eitthvað það er bara þannig.  Ég elska að fara í skoðunarferðir og taka myndir það er bara svoleiðis.  Og það þarf ekkert að fara langt, bara fara eitthvað og skoða eitthvað nýtt, hreyfa sig og sjá eitthvað nýtt og athugavert.  Ég er nú reyndar með hugmynd núna að bíltúr eða göngutúr um helgina, fara hérna uppfyrir hverfið sem er fyrir ofan kirkjugarðinn og keyra þar uppí sveitina og koma svo niður hjá Holum.  Við fórum þessa leið einu sinni í ekkert svo góðu veðri og ég ætlaði alltaf að muna að fara þetta aftur í blíðu og það spáir endalausri blíðu framundan hjá okkur.  Svo nú er ég komin með plan.
Annars er Þráinn minn svo duglegur að koma með mér í ljósmyndatúra hérna úti, hann hefur auðvitað gaman að skoða sig um en það krefst smá þolinmæði að sitja í bílnum og bíða eftir mér og ég þarf að muna að minna hann á að búa sér til nýja bíladisk, það er CD með öllum uppáhaldslögunum svo hann geti hlustað á tónlist meðan ég fer út að mynda.
Þarna situr hann og bíður eftir mér.

Meðan ég bogra og sveima um og tek myndir.
Og það getur alveg tekið tímann sinn þannig að það er gott ef honum leiðist ekki á meðan.
En þetta verður bara stutt blogg í dag, meira seinna.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

09.03.2013 07:25
Ég hélt þær væru allar eins
og hef greinilega ekki horft nógu mikið á klám til að vita að píkur eru ekki eins og sumar eru svo ljótar að þær þurfa að fara í lýtaaðgerð.  Ég næ þessu bara ekki.  Hvað er að? Og kannski stæðsta spurningin fyrir hvern eru þessar konur að gera þetta?  Og já ég er að vitna í viðtal við lækni sem ofbýður lýtaaðgerðir á skapabörmum kvenna, segir þær aukast svo ört undanfarin ár.  Lýtalæknar segja konur ekki fara í svona aðgerð nema að vel hugsuðu máli en sko hvað vakti með þeim í upphafi þá spurningu að þeirra píka væri ekki bara allt í lagi, ég er næstum viss um að þetta eru ekki giftar konur sem sækja í svona aðgerðir og ég er líka næstum viss um að þetta er ekki krafa frá manninum sem þær elska og elskar þær til baka eins og þær eru.  Hvað varð um það?  Og enn og aftur, hvar eru sálfræðimeðferðirnar sem mér finnst að allir eiga að fara í og ekki bara eitt viðtal heldur að minnsta kosti hálfsárs viðtalsmeðferð áður en tekin er ákvörðun að breyta með skurðaðgerð líkama sínum.  Og þá er ég ekki að tala um fólk sem er með sjáanleg lýti eða eftir slys og annað.  Ég er að tala um fólk sem er að fara í pjattlýtaaðgerð og láta taka eitthvað af sér eða bæta einhverju í. Ég hef oft bloggað um þessi mál og er hvergi hætt því mér blöskrar þetta svo.  Heyrði einhvern tíma af því að vestrænar konur væru nánast farnar að láta umskera sig til að gera sig betur til þess fallnar að stunda kynlíf.  WHAT!  Einhver ætti að segja þessum stúlkum / konum að það sé verið að berjast fyrir mannréttindamálum kvenna í löndum þar sem þetta tíðkast og konur eru teknar með valdi og umskornar og ÞETTA ER ÓLÖGLEGT.  Það ætti líka að segja þessum stúlkum / konum að lífið snýst um svo margt annað en kynlíf og ef einhver elskar þig, þá elskar hann þig eins og þú ert, ekki með þeim breytingum sem þú getur látið gera á þér.
Úff ég get orðið svo reið og æst þegar ég hugsa um þetta, hvað ungar stúlkur eru oft á tíðum óöruggar með sig og gera til að þóknast einhverjum sem svo kannski hefði ekki endilega viljað þetta, því málin voru nefnilega aldrei rædd.
Ég hef sjálf verið að draga úr því að mála mig eftir að ég flutti hingað út, ég hef nánast ekkert plokkað mig nema svona í kringum augabrýrnar og er alla daga ómáluð og falleg.  Já ég sagði falleg, því ykkur að segja þegar maður venst því að vera ómálaður þá sér maður muninn þegar maður málar sig og jú jú, við ákveðnar aðstæður geri ég það og mun gera en eitt það fallegasta sem maðurinn minn hefur sagt við mig er þegar ég var að mynda sjálfa mig um daginn og ég málaði mig fyrir myndatökuna og svo þegar hún var búin sagði hann:  Æi, þvoðu nú bara málninguna framan úr þér því þú ert miklu fallegri án hennar.
Nefnilega ég er falleg eins og ég er.
Eeeeeeen svo er ég pínu geðklofi eins og við öll að einhverju leiti og það er þegar kemur að myndatökum þá vil ég oft mikið málað fólk, vil photoshoppa myndirnar oþh.  en á móti hef ég líka gaman að taka myndir af fólki þar sem ég ýki upp hrukkur og það allt.  En ég vil nú meina að þetta sé meira list en að ég sé að breyta manneskjunni sem ég tók myndina af því allar eru þær fallegastar án breytinga.
Ætla að sýna ykkur dæmi:
Hér er Maddý tengdamamma og sama myndin sett með ýktar hrukkur og svo svona smooth.  Mér finnst hrukkumyndin fallegri af henni.

Sjáið svo þessa fegurð, hérna hefði ekki verið fallegt að ýkja upp þær fáu hrukkur sem þessi kona hefur.

Svo er hérna svona svokölluð Dragan vinnsla á honum Kristni Tý og ég hreinlega elska þessa mynd af honum og finnst hún svo flott, hérna hefði verið asnalegt að slétta og þess háttar.

Þannig að líklega er það rétt hjá mér að þetta er listin sem hér talar en ekki það að sumar manneskjur ættu að fá sér bótóx því vá, það er nú það skrítnasta sem ég hef séð, að sjá manneskjur tala og hlægja og verða hissa og það er alltaf eins á þeim andlitið.  Hverjum finnst það flott?  Hver startaði þeirri vitleysunni?  Hvað eru lýtalæknar að pæla að gera svona við algjörlega heilbrigðar og fallegar manneskjur.
Svo getur maður tekið fallegt slétt barn og unnið myndina þannig að maður eykur claritíið í henni og skellir henni svo í svona sléttunarforrit og út kemur mjög flott mynd af alltof ýktu sléttu barni en samt svo flott og minnir á frægan ljósmyndara sem heitir Jill Greenberg og ég mun líklega velja sem minn ljósmyndara til að herma eftir í listljósmyndanáminu en eitt verkefnið okkar er þannig að við eigum að velja okkur ljósmyndara og reynda herma eftir hans/hennar stíl, nema hún er alltaf með bláan bakgrunn.

Svona eru myndirnar hennar Jill

En gott fólk, það er kominn laugardagur og sólin farin að skína hér klukkan 8 að morgni og löngu orðið bjart.  Elska veðrið hérna í Mandal.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

Og plís ekki taka mig allt of alvarlega þegar ég tala um svona hluti því ég á það til að vera svo ýkt og svo skipti ég um skoðun þegar mér sýnist.

 

12.03.2013 12:00
Listræn ljósmyndun – verkefni 9
Verkefni 9 óvenjuleg lýsing og óvenjulegar aðferðir í stúdeóinu.
Þegar ég fór að hugsa um óvenjulegar aðferðir í stúdeóinu þá datt mér strax í hug að taka mynd í gegnum gler og spegilmyndir og eitthvað þess háttar svo ég ákvað að hafa þeman hjá mér “hvað gera börnin okkar þegar við sjáum ekki til” og tók fyrstu myndina í gegnum hurð á stofunni hjá mér sem er með frönskum glugga í, til að sýna að ég er að njósna um barnið sem er að leika sér með fullorðinsdótið hennar mömmu sinnar (makeup dót), svo færist ég nær barninu án þess að það verði vart við mig og það heldur áfram að setja svona málningu framan í sig og geiflar sig í spegilinn eins og mamma gerir. Óvenjulega lýsinging sem ég nota hér er sólarljósið, ég ákvað að hafa dregið frá öllum 4 gluggunum í stofunni hjá mér og nota eitt softbox hægra megin þar sem enginn gluggi er.  Mér finnst ég hafa fengið miklu fallegri birtu í myndirnar en ef ég hefði bara verið með stúdeóljós og það sést reyndar vel á mynd 4 hvernig sólargeislarnir leika um stúlkuna. Þetta var skemmtilegt verkefni sem gekk algjörlega upp hjá mér að mínu mati, flott stelpa sem ég fékk með mér í þetta og já ég er bara ánægð með verkefnið í heildina.

15.03.2013 07:15
Og svo steinlá hún
og liggur enn í flensu og er búin að vera alla vikuna og alltaf heldur hún (ég) að það verði búið á morgun en nei nei, bara versnar og versnar og breytist bara.  Vá, hvað þetta er erfitt ég sem er ekki vön að liggja svona lasin en er ekki frá því að eitthvað samansafnað hafi komið aftan að mér núna og í staðinn fyrir að fagna vorinu (það snjóaði hér í nótt) þá sé ég að klára erfiðan vetur og ætli að setja eins konar Closure á þau mál með því að liggja í rúminu í nokkra daga og taka svo á móti vorinu.  Þannig að það má koma á mánudaginn, því ég ætla að liggja alla helgina líka svo það slái nú ekki að mér, ég væri nú vís með að fara að rjúka á fætur á sunnudaginn, fara út og gera þetta og hitt og liggja svo aftur á mánudaginn en ég er búin að setja fólkinu í kringum mig lífreglurnar og láta vita að ég megi það ekki og ef ég ætli þá þurfi að taka fram fyrir hendurnar á mér.  Hana nú.
En hvað getur maður sagt þegar maður hefur í mesta lagi farið með ruslið þessa vikuna?  Það er nú mest lítið en ég er alveg að verða útlærð í þáttunum Lie to me og þið skulið sko bara vara ykkur á því að ljúga að mér í framtíðinni því eftir að horfa á tvær seríur þá kann maður ýmislegt.  🙂
Já svo hef ég líka horft á Modern family og það eru snilldarþættir og létta lundina inn á milli allra lyganna sem ég horfi á.  Við erum búin að fá okkur áskrift að netsíðu sem heitir Netflix og þar getur maður “LÖGLEGA” horft á fullt af þáttum og bíómyndum, þetta er nánast eins og sjónvarp á netinu nema þú ræður útsendingartíma og velur þættina.  Við erum auðvitað búin að vera pínulítið furðuleg fjölskylda svona fyrstu dagana eftir þessa áskrift því Þráinn situr í stofunni og horfir á sína uppáhaldsþætti, ég ligg uppi í rúmi og horfi á mína og Ástrós Mirra situr í sinni tölvu og horfir á sína uppáhaldsþætti.  Humm, ekki kannski það besta fyrir litla fjölskydu en þetta er trúlega bara nýjabrumið.
Þá er að segja frá því að ég er búin að snúast í marga hringi, skipta um skoðun og skipta svo um skoðun á þvi líka hvort við eigum að fá okkur páskaegg.  Þau eru helv. dýr hérna og líka dýrt að senda þau frá Íslandi en svo lét ég slag standa og pantaði egg í gær handa okkur.  Sé fyrir mér að við myndum sitja og naga hvert annað á páskadag ef við fengum ekki okkar súkkulaðiegg og ratleikinn sem verður að vera með þeim, fáum þau heimsend heim að dyrum nánast á morgun laugardag svo það verður hægt að hafa þau uppstillt í stofunni þangað til.  Annars fékk ég líka dásamlega sendingu frá Maritech sem mun heita Wise eftir næstu mánaðarmót og var það fullur kassi af súkkulaði frá Freyju.  Nammi nammi namm, nú get ég tekið þátt í þessum föstudagsleikjum þeirra stelpnanna í mótttökunni þegar þær senda póst og segja að það sé nammi í boði fyrir starfsmenn.  Takk Sigrún fyrir þetta.
Og já best að segja ykkur aðeins frá nafnabreytingunni á Maritech.  Málið er að norðmennirnir sem eiga okkur seldu einhvern hluta af international fyrirtækinu og seldu Maritech nafnið með svo Maritech á Íslandi varð að finna sér annað nafn, því við megum ekki heita Maritech lengur.  Við ætlum í staðinn að heita WISE enda erum við Wise fyrirtæki með Wise starfsfólk og Wise hugbúnað.  Svo frá og með næstu mánaðarmótum verð ég Kristín í Wise en ekki Kristín í Maritech.  13 ára sögu þar lokið.  Síðan við fluttum frá Vestmannaeyjum hef ég bara sótt um vinnu á einum stað og unnið þar, en hef verið seld, sameinuð og skipt um nöfn á mér eins og ekkert sé.  Ef ég reyni að muna öll nöfnin á þessu fyrirtæki sem ég vinn hjá þá byrjaði það á AKS í Mjóddinni, Maggi The, Eiður, Doron, Jón Níels og fleiri.  Frábært fyrirtæki og skemmtilegur tími.  Svo sameinaðist AKS við Forritun og úr varð hið frumlega fyrirtæki Forritun AKS og það var ömurlegt fyrirtæki, þeir sem komu úr þessu fyrirtæki Forritun (stjórnendur) voru ekki gott fólk og fóru hreinlega illa með starfsfólkið svo ef Tölvumyndir hefðu ekki keypt okkur ári seinna þá hefði ég á endanum hætt.  Svo um áramótin 2000 þá keyptu Tölvumyndir okkur og við urðum hluti af viðskiptadeild Tölvumynda, sem síðan varð MTS og svo MTS á Íslandi því þá var búið að stofna einhverja alþjóðlega deild og það varð að aðskilja þetta.  Nú nú svo urðum við Maritech og höfum verið sjálfstæð sem Maritech, höfum verið keypt af Tölvumyndum aftur og seld aftur sem Maritech, keypt af Agva Group sem er norskt fyrirtæki og vorum undir þeirra stjórn síðustu ár sem Maritech og erum enn undir þeirra stjórn núna sem Wise.
Þetta er mín 17 ára saga í vinnunni og ég læt bara ýta mér á milli skriftstofa og færa fram og til baka en vinn alltaf mína vinnu eins og ekkert sé.  Ætli það sé gaman í vinnunni hjá mér fyrst ég er þar enn?  Já liklega er það bara málið.  Mér reyndar þykir óskaplega vænt um Maritech nafnið og sé eftir því en ég held ég geti verið stolt að vera Wise líka.

Svo nú er best að fara að skríða aftur í rúmið, er búin að vera vakandi í tæpa tvo tíma og er alveg búin á því, það er bara ekkert þrek og allt of mikill slappleiki ennþá.
Þangað til næst, ykkar flensupúki Kristín Jóna

 

19.03.2013 07:16
Svo bregðast …..
krosstré sem önnur og eftir að hafa legið í rúminu í rúma viku er ég vonandi komin á lappir og orðin góð.  Mér finnst það alla vega svona eldsnemma og nývöknuð en svo kemur í ljós hvað úthaldið er, það var ekki fullkomið í gær og kl. 14 var ég alveg búin á því en vonandi næ ég því til 15 í dag og svo bara að það sé komið til að vera.
Það er ekki nóg með að ég hafi legið í þeirri verstu flensu sem ég man eftir að hafa fengið þá hafði Þráinn að orði að hann hefði aldrei séð mig svona veika svo ekki var þetta bara sjálfsvorkunin í mér, sem var þó talsverð.  Mér fannst ég eiga óskaplega bágt þarna í 2 daga þar sem mig verkjaði í allan skrokkinn, með hálsbólgu og greinilega fengið í lungun líka því það var svo þungt yfir brjóstinu á mér og svo fór að leka úr augum og nefi ofaní þetta og þá fannst mér ég bara geta grenjað.    Og já ekki nóg með þessa flensu í mér heldur er veðrið hér alveg ömurlegt þessa dagana og allt að 16 metrar á sec. sem er bara aftakaveður og hér fóru að fjúka flísar af þökum í gær og lögreglan lokaði einni götu hér í miðbænum svo fólk myndi ekki slasast á þessu.  En þetta á allt að lagast á laugardag, sunnudag og ….. haldið ykkur fast!   Þá hlýtur vorið að fara að koma, ég trúi bara ekki öðru, jæja alla vega þá koma páskarnir og svo kemur vorið.
Mikið var ég fegin að vera búin að taka myndir fyrir vekefni síðustu viku svona snemma þannig að veikindin höfðu ekki áhrif á það, fékk mjög fína dóma frá kennaranum fyrir það verkefni og finnst frábært hvað hann áttar sig á hvað maður er að gera með verkefnunum sínum.  Þó samnemendur manns séu ekki að sjá það eða átta sig á því.  En reyndar eru þessi samnemendur ekki nógu miklir samnemendur heldur meira eins og í samkeppni, það vantar allt svona “sam” í þennan hóp, fólk er að móðgast ef það er gagnrýnt svo það þorir enginn lengur að gagnrýna heldur bara hrósa ella sleppa því og svo vantar miklu meiri lýsingu á hvað fólk gerði og hvernig það gerði þetta svo við hin getum lært af þeim.  En ég er samt að læra helling á þessu námi og er mjög fegin að þekkja alla vega 3 manneskjur þarna og geta lært af þeim.
Á morgun verður stór ljósmyndadagur hjá mér og Margréti þar sem ég ætla að taka myndir í tvö verkefni, eitt verkefnið er tímabilsmynd þe. sviðsetja mynd frá ákveðnu tímabili og við Margrét ákváðum fyrir langa löngu að hún yrði fyrirsætan í því og tökum fyrir tímabilið 1940.  Hún fer í greiðslu og huggulegheit fyrir það.  Hitt er svo óvenjuleg lýsing og óvenjuleg tækni í stúdeóinu og þar ætlum við að taka fyrir bleikt þema, sem verður spennandi að prófa.
Svo á laugardaginn er bara planað að fara í bæjarferð til Kristianssand og kaupa eitthvað af fötum á stúlkuna okkar sem er alltaf af og til fatalaus en nú þegar vorið fer að koma (já ég gefst ekki upp á að vona það) þá þarf að bæta í skápinn hennar og eins ætlum við okkur að finna dýrabúð og kaupa bæli handa Erro og kannski bara eiga notarlegan laugardag í miðbænum í KRS.
Jæja gott fólk, lítið meira að segja í dag,
þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

22.03.2013 07:09
Við glöddum tvo
norska stráka í gær með því að gefa þeim sitthvort páskaeggið.  Þeir hafa aldrei fengið svona páskaegg og eru þvílíkt glaðir og spenntir fyrir páskunum.  Samt voru þetta bara Noi Sírus númer 4, manni hefði nú ekki þótt taka því að kaupa þá stærð heima á Íslandi en hér er það eina strærðin sem er seld og við ákveðin í að þykja það góð stærð.
Ástrós Mirra byrjar í Furulundenskøle eftir páska og vonandi fer hún þá að kynnast einhverjum krökkum og hættir að vera svona mikið ein.  Alla vega eru við á ýta á eftir henni að vera samferða stelpu sem er með henni núna í bekk og fer með henni í Furulundenskøle í sama bekk og á heima hérna rétt hjá.  Vonandi gera þær það.  Hún var ansi glöð að síðasti tíminn hjá Rússneska stærðfræðikennaranum var í gær og var því fagnað með því að kaupa kínverskan mat í Middad, sem var hjá okkur kl. 16 því þá vorum við svöng.  Vonandi fær hún góðan og þolinmóðan stærðfræðikennara í Furulunden.

Margret Annie kom til mín í myndatöku í fyrradag þar sem við rúlluðum upp 2 ljósmyndaverkefnum og smá fjölskyldumyndatöku.  Það var þvílíkt gaman, annað verkefnið er bleikt og hitt síðan 1940 og þarf ég að geyma þær myndir í mánuð áður en þeim verður skilað inn.  En það var mjög skemmtilegt verkefni og flottar myndir sem ég náði af skvísunni þar.  Eins reyndar þessar bleiku, þær voru mjög skemmtilegar og ýktar í bleika litlum en þannig er bara Margret, hún er svo bleik.
Svo er bara komið páskafrí hjá feðginunum á morgun en ekki mér svo þau sjá þá bara um undirbúninginn og það allt, það er líka ágætt að sleppa við svoleiðis, innkaup og matseðla.  Það er nú meira hvað lífið snýst mikið um mat, maður getur ekkert gert öðruvísi en að stúdera nokkrar máltíðir í leiðinni, voða væri nú gott og mikill tímasparnaður að geta bara hætt þessu rugli og tímaeyðslu og tekið bara eina pillu og verið saddur af henni.  Fengið sér svo bara snakk og nammi þegar mann langaði að borða eitthvað.

Jæja lítið að segja frá núna, það er ennþá snjór hér og kalt og of kalt fyrir mig eftir flensuna að vera lengi úti, prófaði að fara í smá göngu í gær en stytti hana um helming þegar ég var komin út en fallegt veður er, þó það sé mjög íslenskt, rok og kalt.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

24.03.2013 08:45
Sunnudagsmorgun og sólin ……
hún situr við borðið söng skáldið einu sinni og ég fæ þetta lag á heilann alltaf þegar ég vakna á svona fallegum sunnudagsmorgnum.  En það er ennþá kalt en ég ætla samt út á eftir að leita að vorinu, því þemað hjá okkur í þemaklúbbnum er vorið á næsta leiti og ég er búin að liggja í rúminu mest allan tímann sem það hefur verið og svo veðrið ekki alveg til að finna vorið þó sólin skíni.  En ef ég finn smá brum sem sólin skín á þá er það vorboði svo við sjáum til á eftir.
Þráinn skrapp til Kristianssand að skutla einum vinnufélaga í flug til Íslands en hann er skoskur og heitir Frank, giftur íslenskri konu og þau eru að koma hingað svo fjölskyldan í sumar.  Þannig að það fjölgar af fjölskyldufólkinu íslenska hér í Mandal.
En meðan ég var að hugsa um Jón Ólafsson og sunnudagsmorguninn og fór að leita að plötunni hans, þá rakst ég á lögin sem hann Magni söng í SuperNova þáttunum um árið og er að rifja upp hvað þetta var geðveikt flott hjá honum og skemmtilegur tími þegar hann var að keppa þarna.  Hann er eini maðurinn sem ég hef fórnað nætursvefni fyrir og vakað til að horfa og kjósa hann þó ég hafi átt að fara í vinnu daginn eftir.  Dolphins cry, Creep ofl.  Bara geggjað.
Jæja svo eru bara páskar á næsta leiti og ég við svosem ekkert stórt búin að plana nema kannski að skreppa í bíltúr til Grimstad, skilst að það sé fallegt þar og þar býr Eyjastelpa sem við gætum nú truflað og sníkt kaffisopa af.  En svo væri líka bara í lagi að fara í bíltúr og ekkert meira ef þau til dæmis eru ekki heima, þá nær það ekki lengra en við erum svona smá saman að kíkja á næsta umhverfi við okkur hér í Noregi, gaman að vita hvað er nálægt og hvernig það lítur út.
Já, alveg rétt ég ætlaði að segja ykkur frá norska Idolinu og hvað krakkarnir þar eru tíusinnum flottari en í því ameríska þar sem sama endalausa vælið er í lagavali og bara óvenjulega lélegir söngvarar núna þar. Við horfðum á tvo þætti um daginn þar sem var verið að fækka strákunum úr 10 í 5 og þetta var bara skammalegt að sumir hefðu náð svona langt, man ekki eftir að hafa horft á það áður með svona mikið af krökkum sem varla geta sungið.  En það er spurning hvort einhver gæðastimpill sé að detta af þeim þar sem aðalgaurinn er ekki lengur til að gagnrýna almennilega og hafa almennilega skoðun á því sem krakkarnir eru að gera.  En þá aftur að þessu norska, norskir krakkar eru auðvitað svo miklu líkari okkur íslendingunum og lagavalið svo allt öðruvísi en í því ameríska.  Í síðasta þætti til dæmis var tekið Curt Cobein, Pink Floyd, Kate Bush og Leonard Cohen sem dæmi.  Og það var hann Steffen vinur minn sem tók Cohen og Oh my God hvað han n er með stórkostlega rödd.
Hér á slóð á það lag með honum Steffan að syngja Cohen

Svo er hér hann Eirík sem er alveg geggjaður líka og slóð á lag með honum syngja Wuthering heights með Kate Bush og svo er hér slóð á hann taka Elton John.   Þið verðið að copera slóðina því ég virðist ekki kunna að gera þetta þannig að hægt sé að smella bara.

Flott lagaval hjá þessum krökkum og svo gaman að fylgjast með þeim og eitthvað annað en þetta ameríska sem mér finnst hafa dalað svo mikið núna með þessum nýju dómurum, sakna Simon Cowell þar. Svo er kynnirinn í því norska svo flottur strákur og er með skemmtilegan sið að dansa með krökkunum síðustu sec. í kosningunni.

Nú er dóttirin vöknuð og tekin við að stjórna tónlistinni og við erum bara komnar í dansfíling Living the viva loca með Ricky Martin.  En sú stúlka fékk ferð til fjár í gær því við fórum á búðarráp í gær og keyptum á hana slatta af nýjum fötum, tvennar buxur hermannagrænar og kameflash og tvenna hermannagræna boli og gallajakka sem hana hefur alltaf langað í svo það er spurning að ná í skvísumyndir af henni á eftir.
Svo fyndið ég var búin að sjá auglýsingar í sjónvarpinu og var alltaf að segja við Þráin að við þyrftum að finna Lindex í Krs og kíkja á þessa fatalínu því ég væri viss um að þetta væri sko Ástrós Mirra og það var hárrétt hjá mér, strigaskór – kameflashbuxur og hlírabolur með blúndu að aftan er bara hún.  Svo var svo gaman hvernig afgreiðslukonan spjallaði við okkur, og spurði Ástrós hvort hún væri sú heppna sem ætti að fá öll þessi föt.  Svo fórum við í dýrabúðina sem við fundum ekki síðast og keyptum bæli handa Erro svo hann hafi sitt bæli í stofunni og hægt sé að láta hann leggjast þar þegar við erum að glápa á tv.
En jæja sólin skín ennþá og ég ætla að fá mér annan kaffibolla og dansa við tónlistina hennar Ástrósar Mirru í sólinni í stofunni minni.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

26.03.2013 07:37
Allt þetta gamla fallega….
dót sem við erum búin að sjá undanfarna daga og kaupa sumt.  Það er samt rosalega misjafnt hvað fólk er að selja gamalt dót á, hér er antikbúð sem er bara opin á sumrin og um páskana og hún er svo miklu dýrari en Fretex sem er hjálpræðisherinn eða þeir sem eru að selja í bakgörðunum sínum eins og hann Sveinn vinur okkar á Store Elvegate 84.  En við versluðum hjá honum eldgamalt borð, stálbakka, viskípela, eldgamalt straujárn og ávaxtaskálar á 300 kr. En svo fengum við í gær hjá Antikkonunni gamalt straujárn og tvær bækur á 200 kr. en kannski eru bækur bara dýrar ég veit ekki, við vorum samt sammála hjónin um að hún væri dýr svo við ættum frekar að láta túristana versla hjá henni og við að kíkja á loppumarkaðina.  Svo keyptum við í Fretex um daginn kertastjaka á 19 kr. og hvítvínsglös á 10 kr. stykkið svo þetta er yfirleitt mjög ódýrt og allt er þetta flott.
Sjáið bara!
Kertabakkinn kominn í fulla notkun.

Fallega stofuborðið sem gjörbreytti útliti stofunnar hjá okkur.
Ávaxtaskálarnar fallegu sem við fengum hjá Sveini

19 krónu kertastjakinn, við erum að tala um kristal sko.

Svo eru það straujárnin tvö annað keypt hjá Sveini og hitt hjá Antikkonunni og bækurnar tvær eru bara flottar þarna, Fakta og leksikon mér finnst þetta hljóma mjög viturlega uppá hillu.

En nú erum við hætt í bili, ég veit það verður markaður í Skjernoye í sumar og þá verður hægt að kaupa eitthvað meira gamalt dót og nú kunnum við á þetta líka.  Erum aðeins að læra þetta svolítið.
En það er svo gaman að fá sér svona gamalt dót og skreyta hjá sér með því, er svo glöð að við hjónin séu bæði mikið fyrir gamalt því annars væri þetta erfitt.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

27.03.2013 07:26
Páskar á næsta leyti….
mér hefur alltaf fundist páskarnir vera vorboðinn ljúfi, ég hélt reyndar að ég fengi vorið fyrr hér í Noregi en svo er ekki.  Þetta er allt annað veður hér í ár en í fyrra til dæmis, ég man eftir Þráni sitjandi úti í sól og blíðu á þessum árstíma þá.  Svo man ég reyndar eftir að mai hjá honum var hásumar en ekki bólaði á því heima, alla vega ekki hitatölunum.
En nóg um veðrið, það er alla vega yndislegt veður hérna þó það sé kalt og þvi ekki yfir neinu að kvarta en ég verð að segja frá því að ég er búin að hugsa svo mikið um þessa íslensku stráka sem létust í fallhlífastökkinu og ég get ekki varist því að hugsa að eitthvað hljóti að hafa verið átt við fallhlífarnar hjá þeim, skil ekki hvernig þetta getur gerst annars þar sem annar þeirra var þrautþjálfaður fallhlífarstökkvari og hann klikkar ekkert einn daginn á því að tékka á búnaðinum sínum, það bara gerist ekki.  Svo sé ég í fréttunum núna að hann hafi allan tímann reynt að hjálpa nemandanum því svo virðist sem önnur varhlífin hafi opnast en ekki báðar og sjálfsagt hefur það verið varahlíf kennarans og hann reynt að aðstoða nemandann fram í rauðann dauðann.  Skelfilegt slys og eins og ég segi það hlýtur eitthvað að hafa gerst eftir að þeir ganga frá sínum fallhlífum, ég trúi bara ekki á kæruleysi í svona efnum.

En annars ætlaði ég ekkert að vera neikvæð í dag, er það nú sjaldan og hef gaman af því að finna björtu hliðarnar á tilverunni.  Ætla núna að byrja á að reyna að finna allt sem er jákvætt við það að verða fimmtugur!  Já gott fólk það er að skella á stórafmæli hjá kellingunni og eins gott að vera jákvæður gagnvart því.  Ég þekki spakmælið það sem fertugur getur gerir fimmtugur betur og hef notað það óspart á vini mína og ég er ekki frá því að ég sé farin að finna þetta.  Það er bara allt svo gott sem ég geri.  🙂  Ó, nei!  En það er sko heldur ekkert verra nema kannski að með aldrinum verður manni bara meira saman hvernig hlutirnir koma út.  Já miss Kristín Monk er að segja þetta enda hefði hún aldrei verið í rósóttu pilsi fyrir 10 árum en líður best í því í dag.  Ekki að það þurfi aldrei að minna mig á að fara í pilsið en það er þó oftar sem ég man eftir því.
Þið sem hafið ekki lesið bloggið mitt alltaf fattið kannski ekki að rósótta pilsið er meira svona “State of mind” heldur en að ég sé alltaf í rósóttu pilsi en reyndar byrjaði það þannig, það byrjaði með rósóttu pilsi og endaði sem state of mind.  Málið er að ég er svo mikill Monk í mér og það þarf allt að vera gert í réttri röð og eftir mínum reglum og á þeim tíma sem mér hentar og vera raðað upp eins og mér finnst best.  Nú skal slakað á og dansað í rigningunni í rósóttu pilsi.  Þannig er það bara.  Ég veit að það er oft verið að minna mig á og það er lika bara allt í lagi, það getur enginn breytt sjálfum sér á einum degi eða hálfu ári, þetta tekur miklu lengri tíma og þegar það tekst þá man enginn eftir hinni manneskjunni sem var svo stíf og reglusöm.
Þannig að fimmtug Kristín í rósóttu pilsi hljómar bara vel og ég hlakka bara til.  Við ætlum að vera með smá afmæliskaffi á laugardaginn núna um páskana og buðum til okkar Skvísunum í Mandal og þeirra fylgifiskum og vonandi verður bara vel lukkað kaffiboð hjá okkur.  Þetta er nú heldur færra af fólki en ef við værum heima á Íslandi en það er bara þannig  Við ákváðum að breyta um stað í lífinu og það eru stundum gallar á því en oft líka kostir.

Jæja njótið þessa fallega miðvikudags og eigið gleðilega páska.
Ykkar Kristín Jóna

 

28.03.2013 09:03
Hvar endar þetta
ég veit ekki hvar þetta endar með þessu áframhaldi og fríi hjá honum Þráni mínum, því á mánudaginn bakaði hann bananabrauð, þriðjudaginn pönnukökur og þessa hnallþóru bakaði hann í gær.

Svo er sko afmæli á laugardaginn og það á eftir að baka og búa til kræsingar fyrir það.  Þetta er bara handa okkur með kaffinu svo þið sem eruð á ferðinni endilega kíkið í kaffi ef þið eruð á röltinu niðrí bæ, því þið fáið rjómatertu með.
En nú eru páskarnir hafnir og ég vaknaði klukkan 5, jeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii ekkert smá gaman.  Lá til 7 og sofnaði þá aðeins og dreymdi bara tóma steypu, það var verið að halda uppá afmælið mitt og Þráinn bauð fullt af fólki frá Kristianssand sem ég vissi ekkert um þannig að það varð ekki nóg af kökum og Margrét sem ætlar að baka uppáhaldið okkar fyrir afmælið, gleymdi því í draumnum, en ég veit að hún gleymir því ekki í raunveruleikanum svo ég botna ekki svona drauma.  Ég er samt búin að dobbletékka að Þráinn hefur ekkert verið að bjóða ókunnu fólki í afmælið mitt, þannig að þessi draumur á ekki eftir að rætast.
Dagurinn í dag verður að hluta til notaður til að taka myndir fyrir lokaverkefnið í skólanum sem fer á sýningu alla leið norður á Tröllaskaga og ætlum við fjölskyldan að hjálpast að við þetta.  Hlakka til að reyna að útfæra þessa hugmynd mína, vonandi tekst okkur það.
Annars verður bara notið sólarinnar og góða veðursins þó kalt sé og farið eitthvað út, eitthvað hangið inni og horft á TV og eitthvað hangið í tölvunni annað væri nú eitthvað skrítið hjá þessari fjölskyldu.  Já og svo verður etið á sig gat.  Spurning að fá sér rjómatertu í morgunmat?
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

30.03.2013 08:57
Tepruskapurinn var þá
ekkert bara tepruskapur í mér.  Og nú er ég að lesa brot úr viðtölum við hann Garðar sem rak Óðal á sínum tíma og hann er að segja nákvæmlega það sem ég sagði allan tímann en þá var það bara tepruskapur í mér og ég ýkti alltaf svo mikið og þetta væri alls ekki svona slæmt þarna inni eins og ég vildi vera láta.
Mikið er nú gott að heyra núna miðaldra kall tala um það hvað þetta hafi verið mikill viðbjóður og hvað mikil brenglun hafi verið í fólki.  Þarna komu hjón reglulega og alltaf á miðvikudögum þegar enginn sæi þau og kallinn keypti sér kaffibolla á barnum meðan konan fékk einkadansa frá stúlkunum.  Já ekkert skrítið við það.  Svo kom þarna skipstjóri með áhöfnina sína og dóttir hans var að dansa og henni brá víst þegar hún sá pabba sinn á staðnum sem var reyndar fullur en það afsakar ekki neitt.  Hann sat með áhöfninni að horfa á dóttur sína dansa nektardans og ákvað svo að bjóða áhöfninni uppá einkadans hjá dótturinni….. jesús góður hvað er að manninum og já það er ekki búið….. hann kom svo inní herbergið til að fylgjast með dótturinni dansa einkadansinn við einhvern áhafnarmeðliminn.  Ég vona að þetta lið sjái í dag hvers konar brenglun hafi verið í gangi og ég er ekki tepra heldur réttsýn kona.
Vona að svona staðir verði aldrei leyfðir á Íslandi því það eina sem þeir gera að láta brenglunina uppá yfirborðið og heilu fjölskyldurnar verða gjaldþrota því þarna eyddu menn aleigunni.  15 milljónir var vitað að einn maður eyddi á þessum stað.  Og konurnar eða stúlkurnar sem dansa þarna eru bara stúlkur sem finna til í sálinni og halda að þetta sé einhver lausn eða reyna að segja okkur að þetta sé bara vinna og hafi engin áhrif á þær.  Jú auðvitað hefur þetta áhrif og á allt þeirra líf.  Öll vinna er líka persónuleg.  Hvernig haldið þið að það sé hægt að vera í einhverri vinnu og taka hana ekki persónulega.  8 – 17 alla daga og það er ekkert persónulegt, það gengur bara ekki upp, því við stoppum ekki sjálf okkur stærstan part dagsins og lokum á allar tilfinningar og erum bara einhver annar.  Ég er persóna og allt sem ég geri er persónulegt.  Það er bara þannig.  Auðvitað er ég ekki að meina að ég þurfi að taka persónulega gagnrýni á Maritech (Wise) en ef hún er á mig og mína þjónustu þá er hún auðvitað persónuleg og mér ber að taka hana þannig.  Þannig er það bara.
En ekki meira um brenglaða fólkið og Óðal, sem líður ábyggilega ekki allt of vel að vera minnt á þessa tíma svona löngu seinna.  En gott samt að Garðar komi fram og segi frá þessu.
Í dag verður afmæliskaffi hjá gömlu (nei ég er reyndar ekki búin að eiga afmæli svo ég er ennþá bara fjörutíu og eitthvað) og er þetta fyrsta kaffiboðið sem við höldum með svona tertum, brauðtertum, heitum brauðréttum og öllum pakkanum og ekki mun vanta kræsingarnar því það koma ekki svo margir enda ekki svo margir íslendingar hér í Mandal (við reyndar þekkjum þá ekki alla) og allir einhleypu strákarnir eru heima á Íslandi svo það verða nokkrar konur og kannski einn eða tveir krakkar sem eru reyndar fullorðnir strákar.  En alla vega gott veður, góðar veitingar og gott fólk sem mun hittast í dag og gleðjast með okkur.

Já og fyrstu páskarnir okkar hérna og veðrið er dásamlegt en kalt ennþá, það er bara blaðamál að vorið er að koma mjög seint hér í Noregi og Danmörku.  Ég heyrði í Ingu í Þýskalandi um daginn og hún segir sömu söguna hjá þeim, allt of kalt og snjóaði um daginn sem er mjög sjaldgæft hjá þeim þannig að við vonumst til að fá geðveikt sumar og frábært haust í staðinn.  Og já stórfenglegt vor þegar það kemur.  Ekkert miklar væntingar hérna á þessum bæ, nei nei.
En alla vega svo er stefnt á einhver góðan bíltúr á morgun og skoða einhvern nálægan bæ hér á suðurlandinu og gæða sér svo á páskaegginu sem þarf auðvitað að semja ratleik um í kvöld.  Það verður spennandi að sjá hvernig það tekst til.  Kannski stelpan sé að verða of gömul fyrir svoleiðis en …. nei hún fær ekki páskaegg frá okkur nema að þurfa að leita að því.  Gaman gaman fyrir hana að eiga svona foreldra sem eru svona ákveðnir í gömlum siðum, sama hvað hún verður gömul.

En jæja gott fólk, mátti til að blása aðeins á þessum fallega degi, ætla að skella í eina gulrótartertu á eftir og búa til brauðtertuna (eða sko ég ætla að láta Þráin búa til brauðtertuna því hann er allur í skreytingunum ekki ég).

Eigiði gleðilega páska og njótið þess að vera til, það þarf ekki að kosta krónu. Ykkar Kristín Jóna

 

31.03.2013 09:41
Góður laugardagur
í gær og ég fékk frábæra gesti, ekki marga en mjög góða. Ofsalega skemmtilegar konur sem búa hér í Mandal og ekki skemmdi nú að Þráinn rúllaði upp brauðtertugerðinni eins og ekkert væri og hans var von og vísa.

Svo fékk ég þennan geggjaða kertastjaka ásamt skilti sem stendur á “Young at heart, slightly older in other places” sem á vel við þessa dagana.

Afsakið gæðin á myndinn en hún er bara tekin með ipadinum, tek flottari mynd af honum seinna.  Og er reyndar að spá í að taka mynd af öllu fallega puntinu sem ég hef fengið eða fengið mér síðan ég kom hingað og við skulum aðeins ræða eitt þá.  En ekki núna.
Ratleikurinn er tilbúinn og nú er bara að bíða eftir stelpunni og Þráni, þau eru enn sofandi þrátt fyrir að klukkan sé að verða tíu en reyndar vorum við færa klukkuna til um klukkutíma í nótt svo það er klukkutíma minni svefn en venjulega en gott að það hittir á helgi.
Svo Gleðilega páska elsku vinir og borðiði yfir ykkur af súkkulaði, ég veit að ég myndi gera það væri það ekki svona dýrt hér í Noregi.
Elska ykkur öll, ykkar Kristín Jóna
ennþá bara fourtysomthing

 

02.04.2013 07:46
30 ára
trúlofunarafmæli í dag, 36 ára fermingarafmæli á morgun og svo eigið afmæli á sunnudaginn.  Ég held að fyrsta vikan í apríl sé einmitt mín uppáhalds.  Mörg afmæli og vorið kemur alltaf í sálina á mér þá líka þá og það verður engin breyting á því núna.
En að það skuli vera 30 ár síðan við skötuhjúin skruppum heim í hádeginu frá fiskvinnunni og fengum að fara aðeins fyrr til að geta komið við hjá gullsmiðnum og náð í hringana.  Sátum svo tvö í hádeginu á Kirkjuvegi 88 og settum upp hringana og skelltum okkur svo aftur í vinnu.
Ég man ekkert hvort við gerðum eitthvað svo um kvöldið eða hvað, hljótum að hafa skellt okkur á ball en það festist alla vega ekki inni á harða disknum heldur bara hádegið.  Ekkert vesen, engar myndir og bara krúttlegt par um tvítugt eða sko hún tvítug og hann átján.

Til hamingju með daginn okkar ástin mín.
Ég fór aðeins að hjálpa henni Valgerði í efri byggðum í gær og Oh my God þetta er sko langt uppí sveit sem hún býr en hún er sem betur fer að flytja hingað í neðri byggðir í dag, þó hún verði hátt uppi á fjalli, þá verður hún nær, það tók mig 3 klukkutíma að skjótast til hennar, taka nokkra kassa og skutlast með henni að sækja lyklana að nýju íbúðinni og aftur heim.  Það segir nú ýmislegt um hversu langt í burtu hún er.
Hún fær frábært útsýni þar sem hún flytur þó íbúðin sé líklega of lítil til frambúðar.

En á sunnudaginn þegar við skruppum í bíltúr til Grimstad og tókum allar bátamyndirnar þá ákváðum við að kíkja við á Loppumarkaði á leiðinni heim, sem að sjálfsögðu var lokaður en þar sáum við geggjað eldgamalt borðstofuborð með 6 stólum (með grænu áklæði) á tilboði.  Það kostar bara 350 nkr. sem er rúmlega 7000 isk.  og ég get ekki beðið eftir að Þráinn fari í dag að kaupa það.  Skilum svo bara hvíta eldhúsborðinu sem við erum með í láni frá eiganda íbúðarinnar og verðum með borðstofusettið í eldhúsinu.  Mig hefur alltaf langað í svona borðstofusett og það er alveg að rætast. Jeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii
Læt ykkur vita hvernig fer, því það er auðvitað ekki komið í hús og ekkert er öruggt í þessari tilveru nema að við fæðumst og deyjum.  Allt annað er tilviljunum háð.
Ég var rosalega myndarleg í gær og umbreytti öllu á skrifstofunni minni og setti Ástrós Mirru alveg inn í horn með sitt skrifborð og sína tölvu og nú sit ég við gluggann og horfi út en ekki með bakið í gluggann eins og áður og þó ég sjái bara inní portið hjá Arne Dammen þá líður mér strax miklu betur, ég sé reyndar aðeins út á götu og uppfyrir húsin og í bláan himininn og sólina og það er bara nóg fyrir mig, örlítið meira en bara einn gulur veggur.  En sko ég reyndar skreytti hann líka því ég ákvað að prenta út eina til tvær myndir úr öllum verkefnunum sem ég er búin að vinna fyrir skólann og þetta er bara svo flott að sjá þetta svona saman uppá vegg.  Ég er greinilega búin að gera heilmikið og bara svo flott það sem ég hef gert.  Og það sem er skemmtilegast er að ég sé mun á fyrsta verkefninu og þeim síðari, svo eitthvað hef nú lært þarna líka.
En alla vega spennandi vika framundan og ég sem hér eftir verð kölluð Kitta Wise en ekki Kristín í Maritech ætla að njóta lífsins og vera kát og glöð. Byrjaði smá í gær því við fengum dýrindis lambalæri hjá Þráni í matinn, hvítvín með og eitthvað pínu sveif á mig og við hjónin sungum saman nokkur lög í karioki og ………… haldið ykkur fast enduðum á að syngja með dótturinni tvö kariokilög og stóðum okkur ekki alveg nógu vel þá enda kunnum við þau lög ekki eins vel en gaman var það.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

04.04.2013 07:26
Göngutúrinn í gær
hjá okkur Ástrós Mirru sýndi mér að ég hef verið komin í vetrardvala því ég var svo gjörsamlega búin eftir að labba í 1,5 tíma að það var bara fáráðanlegt, enda tautaði ég það hérna fram og til baka.  Þráinn eitthvað að stríða mér og spurði nokkrum sinnum, hvað ertu eitthvað þreytt?  En sem sagt við sendum inn fyrirspurn til Mandal kommune í gær um hundasvæði sem mætti vera með lausa hunda á og fengum svar og vorum svo spenntar að labba þangað og skoða en þetta var þá heldur lengra en ég hélt og kannski betra að hjóla þangað en labba en svæðið var ömurlegt, bara drullusvað en verður kannski skárra þegar bleytan fer úr jörðinni, allir skógar eru bara klaki og pollar núna og ekki gaman að labba þar um.  En þetta svæði er á milli bátaskýla og gervigrasvallar hér í bæ og við ákváðum þar sem við vildum ekki fara á þetta svæði akkúrat að labba aðeins til hliðar á milli bátaskýlanna og þar var bara gaman að leika við Erro.  Við leyfðum honum að vera lausum þarna og hann naut sín ekkert smá vel eins og sést hér á myndunum.
En þetta var góður dagur og skemmtilegt að leika þarna.  Borðstofusettið kom ekki í gær, en sendibílstjórinn hringdi og sagðist koma uppúr kl. 12 í dag og ég hlakka mikið til.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

07.04.2013 08:54
Just a perfect day…..
þetta lag hefur sönglað í höfðinu á mér síðan á föstudaginn en þá fékk ég afmælisdaginn minn frá eiginmanninum og dótturinni.  Eina sem ég vissi var að ég átti að taka mér frí í vinnu og svo var bara haldið út í óvissuna.  Ég hef aldrei átt mjög auðvelt með óvissuferðir og hefur oftast fundist óþægilegt að hafa ekki stjórn á því sem ég geri en 9 mánuðir í rósóttu pilsi eru eitthvað að hjálpa og ég var sko alveg róleg.  Fékk að sofa til 7.30 því þá þurfti að koma dótturinni í skólann og svo átti ég að vera tilbúin kl. 9.  Mér var sagt að vera í kjól en samt ætti ég að fara út svo ég klæddi mig í samræmi við það.
Svo var mér tjáð að ég skyldi nú hafa stóru ljósmyndatöskuna með mér, svo mig var þarna farið að gruna að kannski fengi ég ósk mína uppfyllta og færi í ljósmyndatúr.  Ég var nefnilega búin að segja við Konný systur að ef Þráinn myndi spyrja hana þá langaði mig mest í skemmtilegan ljósmyndatúr annað var ekki á óskalistanum.
Jæja við uppí bílageymslu og setjumst í bílinn og Þráinn keyrir af stað í áttina að Kristianssand.  Ok, kannski hann sé að fara á staðinn sem ég benti honum á um daginn að væri gaman að rölta um með myndavélina …. en nei, hann keyrir framhjá svo ég slaka bara á og ákveð að nú ætla ég að fljóta með og vera meðfærileg í túrnum sem mér er færður á þessum fallega degi.  Hitinn var um 7 gráður og glampandi sól og blíða, kjördagur fyrir ljósmyndatúr.
Jæja Þráinn beygir svo inn hjá Søgne og ég veit nú ekki til þess að þar sé neitt sérstakt enda aldrei komið nema rétt fremst í þann bæ, en hann keyrir í gegnum bæinn og áfram og ég fer nú aðeins að pumpa hann, get ekki alveg látið það eiga sig.  Var Friðrik (strákur sem hann hitti um daginn og býr í Søgne) að segja þér frá einhverjum flottum stöðum?  Nei ekki var það heldur hafði Þráinn farið þarna í einhverju vinnuverkefninu og strax þá ákveðið að einhvern daginn ætlaði hann að sýna mér þetta.  Ekkert smá gaman að því og svo byrja ég að súpa hveljur og stynja og vera skrítin í bílnum eins og ég verð oft nema í þetta skiptið þar sem ég vissi að þetta væri túr fyrir mig þá ákvað ég að klára málið og láta setninguna fylgja með stununum, ertu til í að stoppa hérna í bakaleiðinni?  Getum við stoppað hérna?  O.s.frv.  Og að sjálfsögðu var þetta allt hægt enda minn dagur.  Ferðinni var heitið á stað sem heitir Bredalsholmen og er rétt við Kristianssand og til að komast þangað var keyrt í gegnum Søgne og Vågsbygd og þaðan til Andøya og er hólmurinn þarna úti í eyjunni.

Þessi fallegi hólmi þarna var geggjaður, bergið svo stórkostlegt og Erro elskaði að hlaupa um frjáls þarna.

Það er nú varla að ég sjáist á þessari mynd er greinilega í felulitunum.

Svo keyrðum við til baka, því þessi hólmi er svona endastöð og þá tók við að muna eftir öllum stöðunum sem búið var að panta að yrði stoppað á, flestir voru nú alveg fastir í hausnum á mér og við stoppuðum ábyggilega 10 sinnum á þessari leið.

Alls staðar sama fegurðin og ég bara í sæluvímu yfir því að vera á rúntinum með kallinum mínum á svona degi.
Svo rákum við augun í þennan undarlega stað, það sést ekki á þessari mynd skiltið sem auglýsir kartöflur til sölu og þá fer maður að hugsa, bíddu nú við…. kartöflur til sölu og klósett við hliðina eru það einhver skilaboð eða???  Alla vega öðruvísi staðsetning á þessu klósetti en ég er vön, er mér fannst það skemmtilegt.

Þegar klukkan var að verða eitt var stoppað og bíllinn þrifinn og nestið tekið uppúr töskunni.  Og ég elska heimasmurt nesti sem er búið að velkjast smá og kaffi á brúsa, það gerist ekki betra þegar þú ert í svona náttúruferð.
Svo var haldið áfram eftir nestið og farið á heimaslóðir og í þetta sinn var farið að draumahúsinu mínu sem ég hef alltaf bara séð þegar ég keyri E39 þar framhjá og þar er ekkert stopp á götunni fyrir ljósmyndara og pínu svona falið hvernig á að komast að þessum stað.  En við fundum út úr því og lögðum bílnum og löbbuðum þarna um.  Draumastaðurinn er alveg æðislegur en ég er þó ekki viss um að ég kaupi mér hús þar, því umferðarniðurinn frá E39 magnast svo þarna í dalnum að hann eyðileggur alla kyrrð sem annars ætti að vera þarna.

Svo var tekinn smá rúntur kringum Mandals Elve og í áttina að Marnadal, ég var sko alveg til enda þarna orðin vel slök á allri óvissunni sem ég fór í.  Ákváðum að elta aðeins þessi simpson ský sem við sáum og keyrðum bara um og stoppuðum þegar okkur langaði.  Nota bene, ég tók yfir 300 myndir þennan dag.

Svo fór Þráinn að þvælast eitthvað meira um og leita að stað sem Arnfinn hafði sagt honum frá einhvern tíma en ég komst að því seinna að hann var bara að drepa tímann því hann var með eitthvað meira planað sem byrjaði ekki strax.  Ég er honum mjög glöð fyrir aukatúr því þá fann ég brú sem var pínu falin og ég stóð á henni og sneri mér í hringi og horfði á þessa fegurð.  Lífið gerist nú ekki betra.

Svo á endanum fórum við inn í Mandal og hann talar um að rúnta aðeins um bæinn því hann tími ekki að fara heim því veðrið sé svo gott, svo ég ákveð að sýna honum þetta hundasvæði sem við Ástrós Mirra lærðum að væri hér í bænum og svo fórum við niður að sjøsanden og hann vildi endilega labba um bryggjuna sem hann smíðaði og ég var sko alveg til í það, enda brúin okkar og Buen og bátur að sigla inn og allt svo fallegt og fullkomið.
Svo stöndum við þarna á bryggjunni og ég klára kortið sem var í myndavélinni og mér fannst aðeins vera farið að gjóla og orðin kannski pínu svöng aftur svo ég spyr hvort þetta sé ekki bara komið gott í bili og þá vill Þráinn endilega fara inn á hágreiðslustofuna sem hann og Arnfinn höfðu innréttað, og ég segist bara ætla að halda í hundinn úti á meðan en hann vill það alls ekki, og ég hugsa Ohhhhh Þráinn þarf alltaf að vera að tala við alla og allt og þess háttar og segi við hann vertu nú ekki að trufla fólkið það er að vinna þarna inni.  Og svo komum við inn og hann byrjar að sýna mér einhverjar hurðar sem hann smíðaði og ég veit ekki hvað og hvað og mér finnst alltaf svo óþægilegt þegar hann gerir svona.  En svo kemur þarna konan og heilsar okkur og ég er enn ekki að fatta…………………

………..  að ég átti pantaðan tíma þarna, já í nudd, heilnudd með slökun og ég ohhhhhhhhhhh það var svo dásamlegt og það besta er þegar tærnar og puttarnir eru nuddaðir, eigum við eitthvað að ræða þá dýrðartilfinningu.  Jæja svo fer stúlkan fram sem er að nudda mig og inn kemur önnur og fer að mála mig.  Ja hérna!   Ég er bara orðlaus og þetta endar svo á að ég fékk greiðslu, hvort viltu að ég slétti hárið eða krulli það, auðvitað krullur ég hef þær aldrei svo ég fékk þarna krullur og var svo sæt.  Kemur ekki sjarmörinn labbandi inn og komin í sparifötin og svo sætur og var hann þá að sækja mig og fór með mig heim þar sem ég ákvað að fara í fallegri kjól.  Bíður ekki dóttirin með hvítvínsglas að færa mér og mér sagt að hafa það bara huggulegt í stofunni í smá stund.

Og svo var farið út og í þetta sinn við 3 saman og leiðin lá niður í bæ og á Marna Kaffi sem er veitingarstaður sem Þráinn fór oft að horfa á boltann þegar hann var einn hérna en ég hafði aldrei komið á, flottur staður og góður matur.  Okkur stelpunum var tjáð að panta okkur það sem okkur langaði í og við ættum ekki að horfa á verðið á réttunum.  Svo ég valdi mér Hjört og ég er að segja ykkur að hann var geggjað góður.  Hvítvín með (því ég drekk ekki rautt) og bara yndislegt.  Svo er eitthvað verið að ræða um eftirrétti og þess háttar og mér dettur nú bara í hug að við ættum að labba aðeins niður í bæ og kaupa okkur ís í uppáhaldsísbúðinni hennar Ástrósar Mirru en Þráinn vill það ekki og sagðist bara fara út í Rema 1000 og kaupa ís svo við gætum bara haft það hugglegt heima og ég er alveg til í það.  Að sjálfsögðu alltaf til í kósí stund með mínum bestu.  Og við röltum heim og ég fer upp í stofu og þá stökkva fram allir vinir okkar hér í Mandal og öskra “SUPRISE”.
Eruði ekki að grínast, þá var búið að gera snakk og ídýfur og hvítvín og bjór og allir þeir sem okkur er farið að þykja svo vænt um hérna í Mandal, Magret Annie, Fjóla, Hulda, Kristín og Eddi og Beggi strákarnir hennar Margrétar.  Svo kom Róbert maðurinn hennar Fjólu seinna um kvöldið sem endaði á kariókí í stofunni heima.
Just a perfect day!

Ég hefði ekki átt að fá Tópaskotin þarna um kvöldið því ég var sko þunn í gær en uppfull af sælu og gleði og nú get ég ekki annað en átt yndislegan dag í dag sem er raunverulegur afmælisdagur.  Og já samstarfsfólkið mitt var á árshátíð í gær og um miðnætti byrjaði ég að fá sms frá þeim öllum sem ég reyndar las ekki fyrr en í morgun og Guð hvað ég á yndislegt samstarfsfólk.  Vonandi skemmtu þau sér vel, ég hef reyndar trú á því, því þetta er svo skemmtilegt fólk.
Í tilefni dagsins set ég hér inn vísu sem ég fann um daginn og heillaðast af.

Birthday at Fifty (50) By Sue Taylor
Today I turned fifty. I feel really good.
My body’s still working quite well thanks. (Touch wood!)
My hair’s not too grey, my wrinkles are few,
I can still touch my toes with my knuckles. (Can you?)
I’m quite full of vigour, just getting ripe.
(But they now print the phone book in much smaller type.)
My hearing’s still good. What’s that you say?
Speak clearly, don’t mumble, your voice wafts away.
Inside this old body I’m still young,
but then If life starts at forty, I’m really just ten.

Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna fimmtug í dag.

 

09.04.2013 07:36
Göngutúr í Ime
Eftir vinnu í gær hjá öllum fórum við og hittum Julie, Jerand og Julius ásamt vini hans sem ég náði nú ekki nafninu á, ég er reyndar ekkert viss um að ég sé að skrifa nafnið hans Jerands rétt en það verður þá að hafa það, það leiðréttist síðar.
Við alla vega fórum og hittum þau úti í Ime og löbbuðum uppá fjall og vitiði hvað?  Aldurinn farinn að segja til sín strax, því ég get ekki munað hvað þetta heitir og það er ekki merkt á kort svo það verður ekkert ítarlegra um nafnið á staðnum.  Alla vega þetta er skógur, þetta er fjall og við vorum nú alveg viss um að skógurinn væri allur í drullu því það væri allt að bráðna núna svo við Ástrós Mirra fórum í vaðstígvélum.  Sko ég hef tvisvar áður farið þennan göngutúr og í fyrsta skiptið var svarta myrkur og ég ekki með vasaljós og eins og blindur köttur þá á ferð.  Næsta skipti var ég bara í kuldaskónum mínum en þá var skógurinn drullusvað svo nú ætlaði ég að gera þetta rétt og fór í vaðstígvél en ….. úps allt frosið og klaki og hálka út um allt, þurftum stundum að labba á fjórum eða þannig, nota hendurnar með í göngunni til að halda í greinar svo við rynnum ekki og stæðum þokkalega upprétt, en þetta hafðist og uppá fjall fórum við.
Og það er ekkert lítið sem hann Erro elskar svona göngutúra, hann hleypur um stanslaust, upp og niður og á undan og til okkar aftur.  Það er nokkuð ljóst að þetta er hans uppáhald.  Ég fann nú alveg fyrir því að vera lítið búin að labba undanfarið og blés helling úr nös en upp komumst við á stígvélum og mæði og í þetta sinn var sól á toppnum.  Þá er ég búin að koma þarna í myrkri, í rigningu og núna loksins í sól.  Þarf að fara einu sinni enn og þá í morgunsólinni svo ég geti tekið mynd yfir bæinn okkar í morgunsólinni.

Jæja svo bauð Julie okkur heim eftir gönguna og í pönnukökur með beikoni og huggulegheit og við sátum þar til að verða hálf tíu en þá vorum við orðin ansi þreytt og fórum bara beint heim í háttinn.  Julie og Arnfinn færðu mér blóm í tilefni gærdagsins og þau sýna það enn og aftur hvað þau eru góðir vinir.

Takk fyrir frábæran dag,

og þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

11.04.2013 07:21
Gekk uppá Varden i Hålandsheia
með hressum norskum stelpum í gærkvöldi en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig frekar en fyrri dagin þegar ég hef ætlað að labba með þeim.  Ég vissi auðvitað ekkert hvert við ætluðum en Julie var svo góð að senda mér kort.  Já ég hélt að þá væri þetta nú ekkert mál og ég legg af stað tímanlega og keyri skv. kortinu en….. úps það eru engin kennileiti sem skráð eru á kortið merkt á götunni, ég var komin heil langt í burtu og nánast hring og aftur til Mandal þegar ég vissi að ég væri komin allt of langt og hringdi í Þráinn og hann sendi mér sms með símanúmerinu hennar Julie.  Meðan ég er að tala við Þráin og skoða kortið þá stendur bíllin í brekku og allt í einu byrjar bensínmælirinn að loga stanslaust og ég alein einhvers staðar úti í sveit.  Ég byrja að panika smá.  Reyni samt að hringja í Julie en þá er bara neyðarsímtöl hægt að hringja þaðan, ég var sko búin að keyra smá eftir að ég heyrði í Þráni, svo ég blóta og keyri sem leið liggur til baka og er bara ákveðin í því að koma mér heim og láta Þráin taka bensín (kortin mín íslensku gilda ekki í bensínmælana hér) en áður en það gerist sé ég einhverja bíla parkeraða í drullusvaði og einn bíllinn er við götuna og flautar á mig og þá sé ég að það er Julie svo jeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii ég fann þær.  En er enn það stressuð út af bensínmælinum að ég gleymi að setja á mig húfu þegar ég kem út.  Var að drepast úr kulda á eyrunum allan tímann en slapp fyrir horn samt.
Þetta er geggjuð leið sem við löbbuðum og mér skildist á Julie að frá þessum stað væri næst mesta útsýnið yfir fallega bæinn okkar.
Ég þurfti auðvitað að taka 4 myndir til að ná öllum svæðinu en þið fáið bara einn part af því hérna.

Túrinn upp var pínu erfiður, maður er greinilega ekki kominn í gang eftir veturinn sem ég reyndar hélt að væri búinn en nú snjóar hér í Mandal og ég er ekki glöð með það.
Flottar stelpur sem ég labbaði með, Julie er sú sem er lengst til vinstri og Nina í miðjunni og sú lengst til hægri heitir Carina og er hárgreiðslukonan sem greiddi mér á afmælisdaginn minn.
Ég er að vona að við förum í svona göngur á hverjum miðvikudegi eða alla vega annan hvern nú eitthvað fram eftir sumri því ég hef gott af því að vera með konum sem tala norsku og þær töluðu sko mikið í gær í göngunni (ég mátti nú varla mæla fyrir mæði) og ég hlustaði með báðum eyrum, skyldi orð og orð en Jesús hvað norðmenn tala hratt og óskýrt.  Þó skil ég Julie best enda hún frá Oslo og þeir segja r en hér í Mandal er það eins og hjá Dönum með kartöflu í hálsinum og út kemur ekkert r heldur agrrrrrrrrrrr eða eitthvað þess háttar, kann nú ekki alveg að skrifa þetta.  Svo er annað sem mér óþægilegt að skilja en er þó öll að koma til og það er ef það er skrifað Skjer  þá er sagt sjeagrrrrrrrr alla vega er káinu sleppt og errið með sinn skrítna framburð.  En fyrst ég veit þetta þá lærist það á endanum.  Ekki spurning.
En þegar ég keyri svo til baka var greinilega bensínmælirinn búinn að jafna sig á brekkunni og kominn í kvart aftur svo ég keyrði áhyggjulaus heim en þó með Julie á eftir mér til öryggis.
Jæja vorið lætur bíða eftir sér en hér á laugardaginn á að víga nýju brúna okkkar og ég vona að það verði sól og blíða þá svo hægt verði að fara og labba yfir hana.
Þemað hjá okkur í þemaklúbbnum er Hurð núna svo ég byrjaði á að taka mynd af fallegu útihurðinni okkar á Store Elvegate 55.
Það er ekki leiðinlegt að ganga inn um svona fallegar dyr til að komast heim til sín.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

14.04.2013 10:56
Adolph Tidemands bro
var formlega opnuð og vígð í gær við mikil hátíðarhöld.  Það er nú bara eins og Mandalhreppur geti pantað gott veður á svona hátíðarhöldum því það bregst ekki að þegar hér er hátíð þá er sól og blíða og eins og var í gær.  Í fyrradag var þungbúið og rigning, í dag er þungt yfir og ég trúi að hann rigni á eftir en í gær var sól og blíða og 8 stiga hiti.  Þetta er alveg magnað.
Ég er nú búin eftir opnun þessarar brúar talsvert lengi en þó ekki eins lengi og aðrir Mandalingar en kannski hef ég nú samt verið spenntari en margur.  Þessi brú er svo flott og geggjuð hönnun á henni og liggur svo æðislega yfir Mandal Elve hérna frá miðbænum okkar yfir í Buen sem er okkar tónleikhús, bíó, bókasafn, listasafn og fleira.  Hönnunin á því húsi er líka rosalega flott að mínu mati og var fullkomnuð með brúnni.
Hátíðarhöldin í gær áttu að byrja 9.30 og vera frameftir degi.  Við vorum eitthvað að slugsa og fórum ekki út fyrr en 11.30 og vorum þá þegar búin að missa af fullt af dóti sem við ætluðum að sjá, erum ekki alveg búin að fatta það að hátíðarhöld hér í Noregi byrja strax um morguninn þegar sagt er að dagskráin byrji.  Ekki eins og heima á Íslandi ef eitthvað byrjar fyrir hádegi þá er það í mesta lagi messa og ræðuhöld sem enginn nennir að mæta á nema eldri borgarar.

Það var allt fullt af fólki í miðbænum kl. 11.30 og troðið alveg beggja vegna árinnar og allir tilbúnir að fá að labba yfir brúna okkar flottu.  Það voru auðvitað ræðuhöld og svo var skotið upp flugeldum með látum, allir bátar í ánni flautuðu….. jiiiiiiiii hvað mér finnst það flott og mikill virðingarvottur.  Svo byrjaði fyrsta lúðrasveitin að spila (já við búum í 15 þúsund manna bæ og hér voru alla vega 3 lúðrasveitir í gær) og svo gekk hún út á brúna og stoppaði fyrir miðju og þá var sleppt upp fullt af appelsínugulum blöðrum sem eiga að vera táknrænar fyrir listaverkið sem síðar var vígt á ánni en það heitir Hrognið.  Svo kom lúðrasveit númer 2 og það voru krakkar í svo flottum rauðum búningum með háa hatta og þetta var svo flott og mikil virðing í þessu öllu. Þau fengu blöðrur líka og svo kom þriðja sveitin og fengu þau líka blöðrur uppí himininn.  Svo söng kór hinum megin árinnar og við heyrðum svona óminn af því og fólki var leyft að ganga yfir líka.  Mjög gaman að labba úti í sólinni og fylgjast með þessu öllu.

Hlakka óendanlega til að fylgjast með 17. maí en þetta er víst lítil á móts við hátíðarhöldin þá og þar mæta allir í sparifötum og þjóðbúningi ef þú átt.  Hér er líka mjög algengt að krakkar fái þjóðbúninginn í fermingargjöf.  Falleg gjöf og eiguleg.  Fáninn er reistur að húni alls staðar og allir brosa framan í þig og heilsa og klappa hundinum þínum og bara okkur leið eins og við værum uppá sviði í Leikhúsinu í Eyjum að leika í Kardemommubænum.
Frábær dagur þó ég hafi misst af fornbílaskrúðgöngunni sem var kl. 10.30 (verð að muna að fara snemma út á 17. mai)

Og í dag er smá þungt yfir en spáir sól strax á morgun og næsta vika……. já þá held ég það verði komið vor.
Við hjónin erum búin að vera að horfa á The following og ég er alla vega pínu húkkt og skyldi nú bara ekkert í því að það væru komnir 4 þættir þvi þetta líður svo hratt þegar spennan er svona mikil en sko…………  þetta er ekki þættir sem ég myndi leyfa Mirrunni að horfa á svo við verðum að glápa á þetta þegar hún er upptekin.
Annars er lífið bara gott, ég er að fara að taka myndir á eftir í síðasta verkefnið mitt í menntaskólanum á Tröllaskaga og lokaverkefnið er tilbúið og ég búin að senda Konný myndirnar en hún ætlar að vera svo góð að ramma mínar inn með sínum og senda þetta allt saman norður.  Verst að geta ekki skroppið á sýninguna sjálfur en það er kannski heldur mikið langt og dýrt.
Og svona í lokin ætla ég að sýna ykkur að þegar ég var lítil stelpa fór fólk líka í sparifötin á 17. heima á Íslandi og þá voru hátíðarhöld en ekki bara peningaplokk á hverju götuhorni.  Skemmtunin var ókeypis, fáninn kannski kostaði nokkrar krónur og svo fékk maður kannski eitthvað smá nammi í poka.  En í dag….. allir með einhverjar turtles blöðrur eða mikka mús (næ ekki þessari tengingu við þjóðhátíðardaginn okkar) rukkað í öll tæki sem búið er að planta út um allan bæ og erfitt að segja nei við barnið sitt því allir hinir eru að fá að fara í þessi tæki.

Yndisleg mynd sem mér þykir ofboðslega vænt um, og sjáið hvað þau flott, háir hælar skinnkragi og hattur á mömmu.  Klara í svona dásamlegri kápu með hatt og Konni í frakka og ég er þarna einhvers staðar í gulum kjól með bláum doppum.
Hér er svo önnur frá 17. júní

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

15.04.2013 09:01
Listljósmyndanámið
er alveg að verða búið, ég er búin að taka allar myndirnar fyrir öll verkefnin sem eftir eru, það eru 3 sem á eftir að skila að lokaverkefninu meðtöldu.
Næsta verkefni er að herma eftir stíl annars ljósmyndara og ég valdi mér Jill Greenberg og fékk hana Söndru til mín í myndatöku, ég var búin að segja mömmu hennar að það væri æðislegt ef hún gæti verið hissa og hlegið og helst grátið líka því Jill sérhæfir sig í grátandi börnum en ég vissi alveg að þú biður helst ekki 6 ára stelpu að gráta fyrir framan þig.  En Sandra var sko búin að æfa sig heima að vera hissa og hún var alveg frábær í þessari myndatöku, ég held ég velji þessar fjórar myndir af henni til að skila inn í vikunni en málið er að ljósið fór svo í augun á henni að hún er eiginlega grátandi á mörgum myndanna þó hún geri sér ekki grein fyrir því.
Frábær stelpa sem ég ætla að fara með út að leika í sumar, ekki spurning.
Frábær stelpa og gaman að leika við hana.
Verkefnið sem er á undan þessu og átti að skila í gær en að herma eftir annarri ljósmynd eða málverki, það voru nú ekki allir nemendurnir að gera það rétt, sumir eru bara að herma eftir einhverri ímynd sem er ekkert mál, því málið er að herma alveg eftir annarri mynd er bara hunderfitt, hakan þarf að vera á réttum stað, höfuðið þarf að halla rétt, glampinn verður að vera meiri öðrum megin, glottið er ekki nógu mikið eða það er of mikið eða módelið er með breiðari háls en frummyndin og alls konar svona atriði þannig að mér finnst pínu svind að þeir fái fulla einkunn fyrir verkefnið þeir sem hafa ekki aðra fyrirmynd að sýna.
En þetta var mitt verkefni 12 – Herma eftir annarri mynd.
Þetta er orginalinn

Og þetta er mín mynd

Svo lét ég fylgja nokkrar töffaramyndir af Þráni með í þessu verkefni.

 

Svo ætla ég að leyfa ykkur að kíkja á Lokaverkefnið mitt en þar tek ég fyrir “See no evil – Hear no evil – Say no evil” og er að hugsa um það sem margur hefur hugsað um undanfarið að aðgát skal höfð í nærveru sálar og einnig á internetinu.  Sbr. áramótaskaupið sem mér fannst algjör snilld og mesta snilldin var hvað fólki brá þegar einhver sagði beint framan í þig það sem hefur verið skrifað í kommentakerfi td. DV.  Já það hljómar nefnilega ekki vel að ég skíti þig út augliti til auglitis en fólki finnst það allt í lagi á netinu.  Óskiljanlegt!
Ég notaði að sjálfsögðu fallegustu stúlkuna í þetta verkefni og er ég nokkuð ánægð með útkomuna á því.  Myndvinnslan er í anda Jill Greenberg og það lítur út fyrir að ég sé að finna minn stíl þar.  Elska svona ýkt skærar myndir og mikla liti en svo elska ég líka High key og ljósar og fallegar myndir og einnig svarthvítar svo það er erfitt að ætla sér að hafa einn stíl ég held maður verði bara að fá að skipta um skoðun og breyta um stíl þegar manni langar, sérstaklega fer það eftir myndefninu og módelinu það sem passar einum passar ekki endilega öðrum og svo held ég það gæti líka orðið leiðinlegt ef maður er alltaf að gera eins.
Sýnishorn af lokaverkefninu mínu en þetta verða 3 myndir hver í sínum ramma hangandi uppá vegg.

Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna
sem “by the way” byrjaði að lesa fyrstu norsku bókina sína í gærkvöldi – smásögur eftir sænska krimmahöfunda og viti menn, ég skildi næstum allt og var orðin spennt.  Hlakka til að halda áfram að lesa í kvöld.


16.04.2013 07:30
Nýtt sjónarhorn
Ótrúlega skemmtilegt að finna endalaust ný sjónarhorn hérna í bænum okkar.  Við vorum að labba um daginn og það er einn klettur eða fjall eins og ég kalla það nú hinum megin við brúna sem mér sýndist að ætti að vera hægt að fara uppá vegna þess að þar er bekkur svo við hjónakornin sem áttum 18 ára brúðkaupsafmæli í gær ákváðum að fara í göngutúr eftir súkkulaðikökuátið og þá datt mér í hug að labba að þessum klett og finna uppleiðina.  Við vorum sko búin að labba nánast hringinn í kringum hann og sáum hvergi svona almennilega uppleið þegar ég rek augun í smá niðurþjappað grasið og segi Þráni að koma þarna.  Við þurftum alveg að príla og halda okkur í greinar til að detta ekki, þannig að þetta var heljarinnar klifur uppá hól og ég í kjól og kápu, enda ekki á leiðinni í fjallgöngu heldur eftirmiðdagsgöngu.
Jæja við komumst uppá og það var geggjað þarna, æðislegt nýtt útsýni og þó birtan væri ekki góð þá sá maður samt hvað þarna væri flott að vera í sól.
Svo förum við alveg uppá topp og það er bara geggjað að standa þarna uppi og horfa yfir bæinn.

Svo þar sem við stöndum þarna eftir okkar fjallgönguklifur og læti þá sjáum við tvo stráka koma labbandi upp tröppur og göngustíg frá eina partinum sem við vorum ekki búin að labba framhjá þegar við löbbuðum í kringum hólinn.

Það hlaut að vera!  Svo við fórum þá leið niður og þá kom annar klettur í ljós sem var alveg rétt fyrir ofan Mandal Elve svo við fórum þangað og fengum enn annað útsýni og erum ákveðin í að fara þangað í lautarferð því þetta er mjög skemmtilegur staður með geggjuðu útsýni og allt og bara 4 mín. gangur að heiman frá okkur.

Svo þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

19.04.2013 07:17
Að læðast um eins og ……..
þjófur á nóttu í kirkjugarðinum getur gefið af sér fallegar myndir en ég verð að viðurkenna þó mér þyki óskaplega gott að ganga um í kirkjugarðinum og taki þar oft myndir og finnist ekkert að því að þá finnst mér pínu frekt af mér og dónalegt að taka macro myndir af leiði sem er alveg nýtt og þakið rósum.  En ó mæ God ég hefði ekki getað labbað fram hjá þessari fegurð sem þarna var, pínulítil rigning og dropar á rósunum svo ég vottaði þeim látna virðingu mína með krossmarki, spurði hann í huganum hvort honum væri ekki sama þó ég tæki myndir af rósunum hans og ég held að hann hafi ekki haft neitt á móti því.  Ég batt nú hundinn við staur út við göngustíginn því ég vildi ekki að hann væri hlaupandi og krafsandi í kringum mig enda tek ég ekki alveg eins góðar macromyndir þegar hann er í bandi sem ég held í.  Skritið að þær skuli stundum vera út úr fókus og hreyfðar.   NOT.

En alla vega þá áttum við Erro notarlega stund í rigningunni í kirkjugarðinum í gær og við vorum bara tvö svo það var enginn sem fylgdist með þessari skrítnu konu með myndavél og hund takandi nærmyndir af leiðunum.
Svo á leiðinni heim ákvað ég að taka myndir af hurðum því þemað okkar er Hurð og þá fann ég horft á mig svo ég varð pínu nervös og tók ekki eins margar myndir og ég hefði viljað, finnst ég pínu vera að taka mynd innum gluggann þegar ég beini myndavélinni svona beint að hurðinni á einhverju húsi og sko göturnar hér eru svo þröngar að það sést alveg vel að ég er að beina myndavélinni að þessari ákveðnu hurð.
Fékk samt fínar hurðarmyndir í þemað okkar.

Jæja það er kominn föstudagur og Ástrós Mirra er aftur orðin lasin nú er hún komin með kvef, reyndar búin að hafa það alla vikuna en í síðustu viku var hún veik með höfuðverk.  En í fyrsta sinn á æfinni fær hún svona almennilegt nefkvef og snýtir sér snýtir allan daginn og alla nóttina og viti menn svo fær hún kvef í augun eins og mamma sín og grey stelpan það var bara ekki sjón að sjá hana í gær þegar kennarinn sendi hana heim úr skólanum.  En vonandi nær hún þessu úr sér í dag því ég ætlaði í picknick með henni, Þráni og Erro á morgun því þá spáir góðu veðri en á sunnudaginn spáir rigningu.  Svo við krossleggjum fingur.
Það virðist oft vera eins og við höfum svo mikinn tíma hérna úti og það er alveg rétt, við höfum lengri dag en margir heima á Íslandi en auðvitað er fólk hér sem hefur ekki svona langan dag ef það kýs svo en ég held að ástæðurnar fyrir þessum langa degi eru nokkrar…..
Við gerum matseðil og innkaupalista fyrir vikuna svo það fer í mesta lagi klukkutími á viku í innkaup hjá okkur og reyndar ef eitthvað vantar þá er búðin í 1 mín. fjarlægð svo það tekur ekki langan tíma að bæta við.
Við erum ekki í neinum áhugamálum ennþá sem eru tímasett það er að það þurfi að mæta eitthvert klukkan eitthvað og jafnvel að keyra langar vegalengdir í það.  Okkar áhugamál eru þannig að við gerum þau þegar okkur langar til og eins oft og okkur langar og bindum okkur ekki klukkunni.
Við höfum auðvitað ekki fjölskylduna okkar hérna úti en það fer auðvitað tími í samskipti og að rækta vináttu við þá sem manni þykir vænt um.  Það eru engin barnaafmæli hér um helgar svo við eigum þær alveg alltaf bara fyrir okkur.  Við söknum þess alveg stundum að fara ekki í afmæli og hitta fólkið okkar en ég get alveg verið hreinskilin og sagt að eftir að Ástrós Mirra varð svona stór og hafði ekki gaman að fara í barnaafmæli þá minnkaði minn áhugi lika.  Þó ég elski börnin sem eiga afmælið mikið þá er bara þessi stóru afmæli og mikið af fólki alltaf að hugnast mér verr og verr.  Með aldrinum verð ég einrænni og meira fyrir rólegheitin og finnst miklu skemmtilegra að hitta bara tvö börn í einu svo ég nái nú einhverju sambandi við þau og geti talað við þau og kynnst þeim betur, það gerist ekki í sykurupptjúnuðu barnaafmæli með fullt af krökkum og pökkum og sælgæti.
Við erum bara 3 í heimili svo ekki stend ég í þvottum uppfyrir haus, þvoi kannski 3 vélar á viku eða ca. eina á mann.  Við erum svo heppinn að vera með uppþvottavél svo ekki er uppvaskið að tefja okkur og þrif eru einhvern veginn minni hér þó við séum með hund og kött því við eigum miklu minna af húsgögnum og puntdóti og svo afþurrkun er auðveld og svo er ryksugað einu sinni í viku almennilega.  Ætli gólfið sé ekki skúrað aðra hverja viku því svona falleg timburgólf hafa þann eiginleika að virðast bara oftast hrein.  (úps, það er stundum galli þegar maður gleymir sér)  .  Svo er enginn garður til að tefja mann en ég verð nú að viðurkenna að það er samt kannski eitt af því sem ég sakna frá Langåsen og það er garðurinn en samt ekki sá garður því hann var of þungur í viðhaldi en smá garður með nokkrum blómum og borði og stólum til að tilla sér væri dásemd en við erum bara svo heppin með þessa íbúð að það er svo stutt í allt og ef mig langar út í garð þá fer ég bara uppí kirkjugarð eða uppá hólinn sem við uppgötvuðum í vikunni og get setið þar ein og horft yfir bæinn okkar.  Nú svo í sumar förum við bara á stöndina eftir vinnu og liggjum þar og höfum það huggulegt.  Við erum meira að búin að kaupa okkur strandtösku á hjólum fyrir allt dótið svo við þurfum ekki að vera að fara á bílnum þetta.  Notum helst aldrei bílinn nema í bíltúra og stórborgarferðir.
En svo er nefnilega líka rósótta pilsið sem við erum farin að klæðaðst og já Þráinn fer oft í rósótt pils eins og ég og það er bara dásemd.  Það er nefnilega þannig að lífið er of stutt til að eyða því í stress og þess háttar og það þarf ekkert endilega að skúra í dag ef það er sól.  Við bara sleppum því þá og förum frekar út að leika okkur.  Rósótta pilsið mitt sem ég fékk gefins frá henni Konný systir þegar ég flutti út er orðið svona “state of mind” í þessari fjölskyldu og ef einhver er pirraður á einhverju þá er hann bara beðinn að faraí rósótta pilsið sitt og brosa.
Rósótt pils þýðir bara – Ekkert stress – Engar fastnjörvaðar dagskrár – Ekkert ferkantað – Ef það er drasl í kringum þig þó þú eigir það ekki og ef það pirrar þig þá tekur þú það bara sjálf upp, ekki röfla í öðrum sem finnst þetta allt í lagi  –  engar áhyggjur, þetta er allt í lagi  –  Ef þig langar að gera þetta núna þá gerðu það –  og svona gæti ég lengi talið upp.  Rósótt pils þýðir bara rósótt pils.
Suma daga þegar ég er búin að vinna og veðrið er ekki það gott að mig langi út, þá hef ég setið og hugsað Jiiiiiiiiiiiiiiiiii klukkan er bara 16 og ég hef ekkert að gera.  Á kannski tilbúinn mat til upphitunar frá gærdeginum og allt er bara eins og það á að vera.   Er það ekki dásemd.

Ég veit ekki kannski finnst ykkur þetta bara bull í mér en þetta er það sem virkar fyrir okkur til að okkur liði vel og það skiptir okkur engu máli í rauninni hvað ykkur finnst.
Svo elsku þið, munið eftir rósótta pilsinu ykkar þegar eitthvað er að pirra ykkur og munið að setja kannski bara tónlist á fóninn og syngja með því söngurinn er allra meina bót og svo er líka gott að fara út í rigninguna og dansa í rósótta pilsinu sínu.

Svo þangað til næst, elskiði ykkur sjálf ykkar Kristín Jóna

 

22.04.2013 07:12
Hálfgerð hundahelgi
Já þetta var nú hálfgerð hundahelgi því hún snerist um útiveru og hundaleiki.  Við vorum fyrir löngu búin að ákveða að fara aftur uppá varden i Hålandsheia sem ég fór með Julie og stelpunum í gönguhópnum um daginn og leyfa Erro aðeins að hlaupa um frjálsum og eiga góðan dag í góðu veðri og jafnvel taka nesti með.  Og þetta gerðum við á laugardaginn nema Þráinn var að vinna svo við Ástrós Mirra buðum Kristínu Jack og Nemo með okkur.  Frábær dagur til að fara í svona ferð með nesti og gamla skó.
Ég var nú mjög glöð hvað ég rataði þetta vel eftir eina ferð og þarna er sléttur flötur eða svona eins og skál og þar stoppuðum við heillengi til að leyfa Erro að elta bolta, Nemo aðeins prófaði það en oftast fannst honum nú óþarfa læti í Erro og aðeins og mikið fjörið en þetta á sko við okkar hund.  Hann hljóp stanslaust í 4 klukkutíma held ég, sat kjurr rétt á meðan fólk labbaði framhjá og við héldum í hann, því í rauninni má ekkert leyfa honum að vera lausum eftir 1. apríl og til 1. september en við verðum bara að finna stað til að leyfa honum að hlaupa og fá útrás.

Þetta er sko lífið hjá svona hundi það er alveg á hreinu og við vorum rosalega ánægð með hvað hann gegnir vel, þó hann hafi verið spenntur að hitta fólk þá kom hann þegar við kölluðum á hann.
Svo löbbuðum við alveg uppað vörðunni og þarna er víst næstmesta útsýni í Mandal og ég uppgötvaði að svona mikið útsýni er ekki fyrir mig, það er sko of mikið og of langt í burtu og á endanum bara næstum ekkert sem sést nema víðáttan.  En sumum finnst þetta æði.  Ég vil frekar hafa smá útsýni og eitthvað til að horfa á.  Kannski er þetta bara ellin því ég er farin að sjá svo illa þannig að fyrir mér er þetta ekki neitt.

En það er flott að taka myndir þarna uppi af hundi eða fólki og með útsýnið í bakgrunni.  En það var rok þarna uppi og við urðum að klæða okkur aftur í peysurnar sem við vorum farnar úr á leiðinni.  Við stoppuðum smá stund þarna uppi og borðuðum nestið okkar og  ákváðum að fara svo  aftur niður til að fá okkur meira skjól.  Stoppuðum á svona miðri leið en þar er líka útsýnispallur og sátum þar smá stund ásamt öðru fólki sem var með þennan boxer með sér.  Enduðum svo aftur í skálinni til að láta hundana þorna en þeir fóru báðir á kaf í drullupolla á leiðinni og litu hreint ekki vel út og okkur hugnaðist nú ekki að leyfa þeim að koma inn í bíl.  En sólin skein og við lágum í sólbaði með þeir hlupu og þurrkuðu sig nógu mikið til að fá að fara í bílinn.
Svo á leiðinni til baka ákvað ég að taka aðeins smá skógarmyndir en hafði bara ekkert tekið eftir þessum skógi á leiðinni upp.

Já svo í gær þá er bara aftur þessi rjómablíða, dagurinn byrjaði á vinnu hjá mér í 3 tíma og á meðan fór Þráinn að skutla einum íslendingi út á flug en það eru engar rútuferðir héðan á sunnudögum fyrr en eftir hádegi og flugið var fyrir hádegið.  Þessi strákur er búinn að vera atvinnulaus hérna í nokkra mánuði og bauðst núna vinna í Bergen og það var bara geturðu komið strax ég er búinn að kaupa flugmiða fyrir þig og redda íbúð svo hann dreif sig að sjálfsögðu enda ekki með fjölskyldu svo það skiptir litlu máli hvar hann er að vinna.
Svo var tekinn smá þrifnaðarskurkur hér og svo aftur út að leika og í þetta sinn við öll fjölskyldan nema Nói sá um að passa húsið.  Nú var rölt sem leið liggur í átt að Holum og við erum eiginlega búin að finna draumastaðinn okkar til að búa í framtíðinni.  Þarna er sveit en samt í göngufæri frá miðbænum, algjör snilld.  Held meira að segja að þetta sé húsið sem ég vilji.

Ég tjallensaði mig í gær og tók bara lensbaby linsuna með mér í þennan göngutúr og það er hunderfitt að taka myndir með henni en hrikalega skemmtilegt líka.  Fannst ég bara ná nokkuð góðum myndum í svona fyrsta sinn í langan tíma, þurfti aðeins að rifja þetta upp og finna rétta taktinn.
Þarna fékk Erro að leika sér með nýja frisbie diskinn sem við keyptum á laugardaginn og það var rosalegt fjörið hjá honum.  Þetta virðist vera svona hestaflöt sem við ákváðum bara að við mættum vera á enda ekkert um að vera þar núna.

Svo löbbuðum við meðfram ánni til baka og viti menn Erro fór út í ána að sækja spítu og áttaði sig ekki á að hann næði ekki til botns og ……………… auðvitað kann hann að synda en hann passaði sig samt betur næst þegar Ástrós Mirra henti spítu út í og fór ekki aftur þar sem það var svona djúpt.
En eins og ég sagði hér fyrir ofan þá held ég að þetta sé draumastaðurinn okkar að búa á því þarna ertu úti í sveit en bara 10 mín . að labba niður í bæ.  Algjör snilld.  En við erum ekkert að fara að flytja, ánægð í okkar íbúð og sérstaklega með leiguverðið hjá okkur sem gerist ekki lægra hér í Mandal.  Við erum að borga talsvert undir því sem gengur og gerist hjá fólki svo við erum bara alsæl með það.
En jæja nú er kominn mánudagur og ég held svei mér þá að sólin eigi að skína alla vikuna og það er bara allur snjór horfinn í kringum okkur og greinilegt að vorið að sko komið og ég elska vorið með allri sinni von um birtu og hlýju og gleði og leik.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna


25.04.2013 07:14
Sumarið er komið…………
sól í heiði skín, vetur burtu farinn, tilveran er fín, badubbí dúbbí dei.  Já elskurnar mínar Gleðilegt sumar!  Hér er vorið alla vega komið, með hlýju (alla vega á íslenskan máta) yfir 10 stiga hiti yfir miðjan daginn, 8 stiga hiti í gærkvöldi og það sem mestu máli skiptir, það er stilla.  Hér er næstum alltaf stilla og þau örfáu skipti sem kemur rok þá verður maður bara hissa.
Ég fór í frábæran göngutúr með norskum konum í gærkvöldi og ég skil norskuna betur og betur og náði að vera með í nokkrum samtölum.  Þau snerust reyndar þá mest um hundana en það er allt í lagi það er byrjunin.  Julie er líka svo dugleg að tala bara norsku og reynir að útskýra á norsku ef ég skil ekki.  Vildi að allir væru svona og sérstaklega íslendingar þá myndu útlendingar heima læra íslenskuna betur.  En við löbbuðum sem sagt gamla pósthúsveginn sem er gamall vegur sem liggur frá Kristianssand til Stavanger svo ef okkur langar í nokkurra daga göngu þá er þetta vegurinn til að fara.  En þetta er vinsæl gönguleið og sérstaklega á sumrin og ég er ákveðin í að labba þessa leið í sumar og taka hann þá aðeins lengra en við gerðum í gær.  Hundarnir voru á útopnu alla gönguna, þvílíkur kraftur í þeim öllum, Erro eðlilega með mikinn kraft enda unglingur og hraustur, Ronja hleypur sko ekkert minna en hann þó hún sé orðin gömul kona en hún er auðvitað fyrrum sleðahundur og kann þetta, svo var þarna með okkur einn lítill einhvers konar boxer sem heitir Rune og hann reyndi að fylgja þeim stóru eftir eins og hann gat og vildi gera eins og þeir.

Þegar svona 3 hundar koma saman og eru að leika sér, hlaupa hratt og út um allt, taka stökk út af göngustígnum og inn í skóginn og það allt, þá veit maður ekkert hversu varfærnir þeir eru og í gær þá hlupu þessir 3 út á ísinn á vatninu sem við vorum að labba framhjá og úps………… þá brá okkur nú talsvert og urðum skíthræddar að einhver þeirra færi niður og undir ísinn ég veit ekki hvernig við hefðum náð að bjarga þeim þá en það var talsvert gert grín að því að og við vorum nú með ólar á hundana og ég 5 metra ól svo við hefðum alla vega reynt.  En þó þeir kunni að synda eins og við vitum núna með Erro þá gerir hann ekkert ef hann lendir undir ísnum.  Og þess vegna velti ég þessu fyrir mér, hafa þeir einhverja hugmynd um hvar þeir eru að hlaupa og hverjar hætturnar eru eða hlaupa þeir bara stjórnlaust í fjörinu.
Jæja fleiri fréttir af okkur, já gamla fékk sendingu að heiman frá fólkinu sínu og var það eitthvað í dótakassann minn.  Ég fékk filter á linsuna mína frá mömmu og Sigga og svo fékk ég þrífót frá Konný, Klöru og Konna bróður og þeirra fjölskyldum.  Hlakka til að fara að prófa þetta á eftir þar sem ég er í fríi í dag en aðrir í þessari fjölskyldu ekki.  Hér er enginn sumardagurinn fyrsti og ég veit svo sem ekkert hvort hann er á öðrum degi eða bara alls ekki.  En alla vega var svo gaman að fá pakka því ég varð nú fimmtug og það er nú vist sagt stærsta afmælið á ævinni og það er alveg sama hvað maður segir það ER GAMAN að fá gjafir.

Og já ég ætla nú að fara að æfa mig að taka myndir með þrífætinum og filternum og vonandi gengur það vel, hef aldrei prófað svona myndatökur en er búin að ákveða hvert ég ætla að labba til þess.  Ég ætla sem sagt að njóta afmælisgjafanna í fríi í dag og eiga allan heiminn.  Held ég sleppi því meira að segja að taka hundinn með því … já ég gleymi að segja ykkur það að hann slasaði sig í göngunni í gær, það fossblæddi úr fætinum á honum og það virðist sem einhver flipi sem á fætinum á honum hafi skubbast uppúr og það er ábyggilega svona svæði sem blæðir mikið út.  Þær sögðu mér að hafa ekki áhyggjur fyrst hann hélt áfram að hlaupa um allt eins og ekkert væri nema blóðtaumurinn sem kom frá honum og fyndið litli boxerinn hann varð alveg óður út í Erro eftir að hann meiddi sig og hans eigandi spurði nú bara hvort hann væri blóðhundur.  Ha ha ha, en Erro lét þetta ekkert á sig fá en er aðeins slasaður samt og verður bara heima í dag enda ég að fara að æfa mig og þarf að hugsa, spá og spekúlera.

En þá aftur að því að í dag er sumardagurinn fyrsti og ég hlakka svo til sumarsins og hlakka svo til að geta bara verið að vinna og labbað svo út og gert það sem mér sýnist, farið á stöndina, farið í göngutúra uppá fjöll og niður í fjöru og bara lifað.  Finnst eins og ég sé nær lífinu hérna en heima á Íslandi enda stressið þar fór frekar illa í mig.  Vinir mínir sem búa hér og voru að koma úr fríi að heiman og þau sögðust bara ekki skilja hvernig hlutirnir væru, hún talaði um stressið og að allir séu alltaf að flýta sér og hann sagði að hann héldi að það hefði gleymst að taka niður jólaljósin því það væri svo mikið af umferðarljósum heima að þú keyrðir ekki nema nokkra metra áður en þú værir stopp á næstu ljósum, eitthvað þarf nú að fara að endurskoða þessa umferðaljósamenningu.  Hér í Mandal eru engin umferðarljós, hér gengur þú um og labbar bara yfir á gangbraut, þarf ekki stoppa og kíkja til hægri og vinstri (en þú kíkir þó þú stoppir ekki) því allir bílar hægja á sér þegar þeir koma að gangbraut og allir stoppa alltaf.  Í þau fáu skipti sem ég keyri í miðbænum þar sem er mikið af gangbrautum þá má ég alveg hafa mig alla við að muna eftir að stoppa því ég er nú einu sinni íslendingur og ekki alveg búin að læra þetta nógu vel.  En þetta er flott, það virkar einhvern veginn eins og allt sé afslappaðra og það er það.  Hér stoppar fólk úti á götu og spjallar við þig og ég held að þetta sé rokið á íslandi sem gerir íslendinga svona stressaða.  Það er alltaf verið að berjast í rokinu (myndlíking) sama hvar er.  Við göngum með hausinn á undan okkur svo rokið berji ekki á andlitinu.  Hér gengur maður uppréttur og stoppar og skoðar í búðarglugga eða sest á bekk og nýtur þess að horfa yfir ána.  Æi, ég veit að þetta er kannski orðið leiðinlegt að hlusta á mig endalaust að tala um þetta en kannski er ég að reyna að réttlæta fyrir sjálfri mér af hverju mér líkar svona vel að búa einhvers staðar annars staðar er á Íslandi. Líklega er það rétt, ég er svo mikill íslendingur í mér að ég hreinlega hélt að það væri hvergi í heiminum til fallegir staðir en Guð minn góður hvað það eru til fallegir staðir hér í Noregi líka og það sem kannski hefur varðveist betur hér eru gömlu bæirnir og gamla götumyndin.  Hvar er hún til heima, mér finnst búið að rífa hana á svo mörgum stöðum, hún reyndar finnst enn í Hafnarfirði en það eru ekki margir staðir sem hún er áberandi og aðalprýði bæjarins.  Það gæti nú verið út af því að gömlu húsin voru lítil og íslendingar þurfa helst um 50 fm pr. mann í fjölskyldu alla vega 40 fm. það er lámark en hér býr fullt af fólki í litkum húsum og líður greinilega bara vel.  Sama er með okkur, ég var pínu að hugsa það um daginn að það væri alveg gaman að finna eitthvað annað húsnæði hérna með smá garði en allt sem ég sé til leigu kostar alla vega 3000 (yfir 60.000) meira en það sem við erum í svo af hverju að skipta um húsnæði bara til að borga meira fyrir það.  Jú ég fengi garð eða svalir en er það 3000 króna virði.  Við vorum svo heppin að ramba á þetta húsnæði sem er ekki á leiðinni í sölu og getum verið hér ódýrt lengi.  Ég held að það hljóti að vera stór kostur, fara frekar í ferðalög og gera eitthvað skemmtilegt fyrir þann pening sem hægt er að leggja fyrir í staðinn, því okkur líður mjög vel hérna en vantar reyndar oft svalirnar, ég þarf bara að reyna að fá bræðurnar til að smíða svalir fyrir okkur það þarf ekki að vera stórmál 🙂  eða þannig.

Alla vega elsku vinir,
Gleðilegt sumar og munið að njóta lífsins við eigum bara eitt og það er ekki þess virði að eyða því í stress og læti.
Ykkar Kristín Jóna

 

26.04.2013 08:38
Þrífótur og filter
Gleðilegt sumar öll sömul og vonandi áttuð þið góðan dag í gær.

Við áttum fínan dag hér því óvænt kom Þráinn heim kl. 11.30 en hann er búinn að vera að vinna undanfarið fram á kvöld og því góð tilbreyting að fá hann heim eldsnemma, hann kom sko svo snemma að ég sem var í fríi var ekki farin að gera neitt nema sturta mig en það var nú kannski bara af því að hann hringdi á undan sér.  Ég var nú búin að ákveða að fara út með þrífót og filter.  Nei auðvitað ekki bara það, líka myndavél og fleiri linsur til öryggis en tilgangurinn var að prófa þrífótinn og filterinn sem ég fékk í afmælisgjöf.  Þráinn vildi bara koma með mér og þá græddi Erro auðvitað því þar með gat hann komið með.  Ég hefði ekki getað tekið hann með mér hefði ég verið ein því ég var að fara að taka myndir á tíma og gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður.  Svo var ég auðvitað líka glöð að fá kallinn með því eins og ég sagði hann er búinn að vera að vinna svo mikið að það var virkilega ljúft að fá sér göngutúr með honum.  Reyndar var hann svolítið afskiptur um leið og við komum út á strönd því þá héldu mér engin bönd.  Upp með þrífótinn á sem einfaldasta hátt og já ég komst að því eftirá að hann var rangt uppsettur hjá mér, myndavélin sett á fótinn, stillt af, fókusinn stilltur manualt og filterinn skrúfaður á og svo var ýtt á takkann.  Og beðið.  Og bara svona horft í kringum sig og stúderuð önnur sjónarmið og svo smelltist af og þá var aftur beðið á meðan vélin framkallaði myndina.  Úps hún var allt of ljós, svo það þurfti að breyta stillingunum aðeins og prófa aftur og bíða.

Já þetta er þolinmæðisvinna sem ég reyndar held ég ráði við ef veðrið er gott, sérstaklega þar sem maður getur nú tekið ansi flottar myndir svona. Ég var voða þolinmóð í gær og tók eitthvað af myndum en auðvitað miklu færri en ég vön og á mun lengri tíma þar sem hver mynd var í tæpa mínútu í vinnslu, þe. 30 sec að smella af og svo smá tími í framköllun.  En þetta var sko skemmtileg prufa og ég held ég hafi valið fínan stað að byrja að prófa þetta.  Svo meðan við vorum að dóla okkur þarna komu Kristín og Nemo gangandi en þá höfðu þau verið í spássitúr og hittu auðvitað beint á okkur.
Jæja eftir smá tíma myndatöku og ég alltaf að smá færa mig til að breyta um sjónarhorn var haldið heim á leið og heyrðum við í dótturinn í leiðinni því hún var lyklalaus og við vildum vera komin heim á undan henni.  Ég var ótrúlega spennt að skella myndunum í tölvuna því það var svo bjart úti að ég sá ekkert hvað ég var að gera og vildi auðvitað vita hvort ég hefði verið á réttri leið.

Auðvitað var ég á réttri leið og tók bara nokkrar mjög fínar myndir og var bara virkilega ánægð með fyrstu tilraun.  Já það var líka annað gert þarna úti á strönd.  Þráinn tók myndir af mér eins og ég var þarna í gær með allar græjurnar mínar og svo tók mynd af mér með litlu vélina sem var orsökin fyrir því að hann gaf mér fyrstu stóru myndavélina mína.  Bara svona smá leikur hjá okkur að sýna hvað ég hefði græjast mikið á 6 árum.  Myndavélin mín er víst orðin 5 ára og ég var að hugsa að hún er samt ennþá vel samkeppnisfær við nýjar vélar en það er þó spurning að byrja að safna sér fyrir nýrri fljótlega.

Jæja smá dól og huggulegheit á fjölskyldunni eftir þessa strandferð sem “by the way” ég sá nýja bryggju sem ég hafði aldrei komið á áður svo ég er alltaf að finna nýja staði og kynnast betur henni frú Mandal.
Eftir smá dól heima ákvað ég að skella mér aftur út á strönd (þetta er hálftíma gangur) því ég var með hugmynd að mynd í hausnum sem mig langaði svo að prófa.  Já í fyrri ferðinni var ég með þrífótinn í tösku á hjólum en í þeirri seinni prófaði ég að hafa hann á bakpokanum mínum og bæði gekk upp svo nú er í framtíðinni spurning hvort ég vel, ætla ég að vera í kjól og hugguleg þá tek ég þetta í hjólatöskuna en ef ég fer í lopapeysu og gönguskó þá skelli ég öllu á bakið á mér.  En já ég fór sem sagt aftur út og sá reyndar að það væri að fara að rigna smá, svo ég tók regnhlíf með mér.  Það var nú eins gott því það fór sko bara að hellirigna og ég ein að bauka þarna á ströndinni með þrífót og myndavél og regnhlíf og … já dótið sem ég ætlaði að mynda í fjöruborðinu var auðvitað á kafi í sjó því það var búið að flæða að síðan ég var þarna fyrr um daginn en það var mikill munur á birtu og stillingum sem ég hafði á myndavélinni svo þetta var skemmtileg viðbót hjá mér og nú var ég að taka þannig myndir að ég bara glennti þrífótinn út án þess að lengja í fótunum og svo sat ég þarna og beið og beið og beið í rigningunni og rokinu.  Já sko rokinu okkar hér, hefði sjálfsagt verið kallað gola heima á Íslandi.

Skemmtilegur sumardagurinn fyrsti hjá mér og ég hlakka til að fara í góðu veðri og geta hreinlega setið og dundað mér í svona myndatökum aftur og aftur.  En þær þurfa að vera sérstaklega ákveðnar fyrirfram því ég fer nú ekki að þvælast með þrífótinn með mér út um allt ef ég ætla ekki að nota hann því hann er þungur en þvílík massagræja.  Nú veit ég að það sem ég átti fyrir mun ég ekki kalla þrífót hér eftir.  Á þessum nýja sit ég bara og stýri myndavélinni með þremur stýripinnum og hún situr bara allan tímann í sætinu sínu og go svo gríp ég í pinnann og sný örlítið til hægri og svo næsti pinni til að rétta aðeins af myndavélina og svo þriðji pinninn til að halla niður eða upp.  Algjör snilld og svo á ég eftir að prófa hann í macromyndatökum, spennó!

En í dag er föstudagur og vitiði hvað ég elska svona fimmtudagsfrí.  Finnst ég bara oft fá heilmikið út úr þeim þar sem maður planar svona eins dags frí oft betur en 3 daga og svo kemur bara einn vinnudagur og aftur frí og þá er maður svo upplagður í vinnunni eitthvað því það var sko gaman í gær og verður svo gaman á morgun líka.  Og sko svo eru auðvitað oft svo gaman í vinnunni líka en það er bara öðruvísi gaman.
Við erum nú ekki alveg búin að plana morgundaginn en það á að gera eitthvað skemmtilegt og svo verður kíkt á kosningavöku Rúv um kvöldið og vakað kannski frameftir eitthvað sem þýðir að sunnudagurinn verður þessi góði letidagur heima.

Njótiði lífsins þið eigið bara eitt og muniði að skemmta ykkur vel.
Þangað til næst ykkar Kristín Jóna

 

27.04.2013 11:48
Ja hérna….
það eru bara kosningar á Íslandi og ég veit minna en ekki neitt um þær eða þannig.  Hef ekkert sett mig almennilega inní alla þessa flokka sem eru að bjóða sig fram og lítið lesið það sem fjórflokkarnir eru að segja.  Það sem ég veit er að þeir sem eru búnir að stjórna undanfarið hafa ekki staðið sig nógu vel, það vantar vinnu fyrir fólkið okkar og það vantar að leiðrétta lánin okkar svo við munum eiga eitthvað í húsnæðinu okkar þegar það verður selt.  Hver er með raunhæfa lausn á þessum tveimur vandamálum.  Hefðuð þið spurt mig fyrir 5 árum hvort ég myndi geta hugsað mér að flytja erlendis þá hefði ég haldið að þú værir með rugluna.  Ég að flytja frá Íslandi sem var besta land í heimi, nei aldrei.  En ég gerði það nú samt.  Ég er gift frábærum manni sem er smiður og hann var með of há laun á gamla vinnustaðnum sínum og var sagt upp út af því og fékk enga aðra vinnu nema fyrir þá svipuð laun og atvinnuleysisbæturnar eru.  Hvaða rugl er það?  Jú menn notfæra sér atvinnuleysi til að lækka laun, menn notfæra sér kreppu til að græða á henni og svona get ég lengi haldið áfram.  Fólk með góðar tekjur (var það alla vega 2007) lifir ekki nema hálfgerðu sultarlífi í dag.  Það er ekkert verið að gera aukalega, það er enginn afgangur um mánaðarmótin, heldur frekar spáð í hvort náist að borga alla reikningana því þau leyfðu sér að fara á árshátíð og skemmta sér eina helgi.  Já það getur bara allt farið fjandans til við eina árshátíð.  Þetta er bara ekki líf sem ég nenni að lifa aftur.  Ég hef barist í bökkum allt mitt líf og ekki átt fyrir reikningunum um mánðarmót en svo varð allt betra.  Við fengum betri vinnu, betur launaða og gátum farið að leyfa okkur ýmislegt.  Við vorum ekkert á fullu í utanlandsferðunum höfum farið 3svar út með Ástrós Mirru og þá er ég ekki að telja upp árshátíðarferðirnar sem voru niðurgreiddar og það allt.  Við skiptum ekki út öllum innréttingum íbúðinni okkar eða keyptum okkur ný húsgögn, við héldum bara áfram að lifa eins og við höfðum gert en gátum leyft okkur að fara í bíó og tónleika endrum og sinnum og áttum stundum afgang um mánaðarmót og gátum farið að safna pening.  Það kláraðaðist auðvitað allt í kreppunni.  Við tókum líka út lífeyrissparnaðinn okkar því okkur var ráðlagt það frekar en að láta hann eyðast inní bönkunum.
Svo missir Þráinn sem sagt vinnuna, enga vinnu að hafa heima og hvað gerir hann?  Jú, fer að leita eftir vinnu annars staðar því á atvinnuleysisskrá ætlar hann ekki.  Hann var svo heppinn að fá vinnu hér í Mandal og við vorum svo heppnar við Ástrós Mirra að fá að koma að heimsækja hann og falla fyrir þessum bæ.  Og hér erum við í dag, ég á íslenskum launum sem duga nú skammt hérna úti og hann enn að vinna hjá starfsmannaleigu og þar af leiðandi ekki á fullum launum en við eigum afgang um hver mánaðarmót og við förum á tónleika ef við viljum og bío líka en það er samt sjaldan því það er dýrt og þannig höfum við alltaf lifað líka 2007 á Íslandi.  Við vitum að ef við kaupum tilbúinn mat þá kostar hann sama og 3 máltíðir í búðinni.  Hvort veljum við?  3 máltíðir í búðinni að sjálfsögðu nema þegar eitthvað sérstakt er að gerast.  Afmæli, góðar einkunnir oþh.

Okkar skemmtanir eru helstar þær sem kosta ekki neitt.  Gönguferðir – stuttir bíltúrar oþh.  Og þá smyrjum við nesti (hefðum nú keypt það í bakaríinu heima) en það er svo dýrt hér og ekki svo gott sem er kannski bara ágætt því þá langar mann ekkert í það.  Við erum að lifa mun skynsamlegar hér en við gerðum heima og af hverju?  Ég bara veit það ekki, eða jú af því að það er betra fyrir okkur.  Ef skyndibiti er ódýr þá er hann keyptur ef hann er dýr eins og hér þá er hann ekki keyptur – ég get alveg viðurkennt að mér finnst blóðugt að kaupa smá súkkulaðistykki á 450 isk. en málið er að ég geri það þá bara sjaldan því það er svo dýrt en ég víla ekkert fyrir mér að kaupa vínber, melónur og aðra ávexti daglega en það týmdi ég aldrei að kaupa heima á Íslandi því það er dýrara en skyndibitinn.  Furðuleg stjórnun þar.  Setjum frekar sykurskatt á og fellum niður aukatolla á ávöxtum og grænmeti.  Höfum ferskar gulrætur ódýrara en niðursoðnar því þær eru hollari.  En það er ekki svoleiðis heima og það er slæmt.
En ég elska Ísland og ég elska íslendinga en ég elska líka Noreg núna og ég elska Norðmenn þeir eru frábært fólk og hafa tekið okkur svo vel og hér getum við verið eins og við viljum (skrítna konan með hund og myndavél í rósóttu pilsi og gúmmístígvélum) og samt er ég ekkert skrítna konan í hugum neins nema míns sjálfs.  Ég er bara kona með hund og myndavél, og öllum er sama í hverju ég er.  Hef aldrei fundið eins lítinn þrýsting á útlitið eins og hér.  Já ég fann það stundum heima á Íslandi.  Já ég hef verið spurð: Í hverju ertu eiginlega?  Og það er ekkert þægilegt að fá svoleiðis spurningu því hún ber með sér að þeim sem spurði finnst eitthvað athugavert við fötin mín.  Ég hef líka fengið athugasemdir um af hverju ég lita ekki á mér augnhárin eða plokki á mér augabrýrnar.  Bíddu af hverju er annað fólk að spekúlera svona mikið í mér?  Ekki er ég að spekúlera svona mikið í öðru fólki.  Ef ég hitti þig í gær, þá get ég ekki sagt í dag í hvaða fötum þú varst svo framarlega sem þú varst í fötum.  Ég hefði sjálfsagt munað hefðir þú verið nakin(n) því það er óvanalegra.  Af hverju manst þú þá í hverju ég var og hvort það var eitthvað sem þér líkar eða ekki?  Ég er alltaf í hreinum fötum og er hrein sjálf, greiði mér og tannbursta daglega, er það ekki bara nóg ef það er nóg fyrir mig?

Jæja elsku þið, þið munið að taka mig ekki of alvarlega því ég á það til að bulla út í eitt en aðalmálið er að okkur líður betur hérna úti en heima á Íslandi þrátt fyrir að sakna fólksins okkar mikið og ég er að segja við söknum þeirra mikið.  Getum ekki knúsað fallegustu drengi í heimi verðum að láta okkur nægja myndir af þeim á fésbókinni og heyra í þeim röddina endrum og eins.  Maður verður heldur ekki uppáhaldsfrænka þegar maður býr svona langt í burtu og það er okkar missir en okkur líður vel og okkur finnst lífið hér einfaldara og kröfur til manna ekki eins miklar.  Og við upplifum það að hér getum við verið eins og okkur langar til.  Okkur er heilsað út á götu af bráðókunnugu fólki.  Það segja allir í búðunum, hafðu það gott þegar þú ferð út, og það er stoppað út á götu til að dáðst að hundinum þínum og kannski segja þér að hinn aðilinn á líka hund og svo er spjallað um það.  Hér virðist fólk hafa meiri tíma fyrir sjálft sig og fjölskylduna og það elskum við.  Hér er ótrúlega mikið um að vera í ekki stærri bæ.  Eins og núna um helgina er Rally Sør í dag, á morgun er MonsterTrukka keppni og svo mun þetta halda áfram svona í sumar.  Við erum með lítið tónleikahús og bíó og þar er alltaf einhver leiksýning í gangi, þar eru tónleikar í hverjum mánuði og bíó á hverjum degi.  Og það sem mikilvægast er, hér er svo fallegt að við uppgötvum nýtt á hverjum degi.

Jæja við ætluðum út að leika á eftir en það verður smá bið á því, því nú hellirignir en það spáði nú samt smá sól í dag svo við förum þá bara seinna í dag.  Ég veit nefnilega um lítinn foss við Ullarverksmiðjuna sem mig langar að prófa að taka myndir af á tíma.
Heyrið já þessar rósir, þær fékk ég frá 3 mönnum á sumardaginn fyrsta og gerir aðrar betur.  Ákvað að prófa macrostillingar á þrífætinum og taka myndir af þeim inni, finnst alveg hafa tekið ágætlega við það.  En viljiði vita eitthvað meira um þessa 3 menn sem gáfu mér rósir?  Sko einn er íslendingur einn er skoti og einn er pólverji.  Íslendingurinn og Skotinn eiga það sameiginlegt að vera báðir giftir íslenskum konum en pólverjinn er ógiftur en allir eru þessi menn smiðir og voru að vinna í sama verkefninu þe. verslun sem var að opna á sumardaginn fyrsta og verslunarstjórinn gaf þeim sitthvora rósina og þeir vildu allir að ég féngi þær þar sem ég væri eina konan hér í bænum eða þannig.  Eiginkona skotans er að flytja hingað í sumar með börnin þeirra, hann er sem sagt að vinna hér af því að hann býr á Íslandi.  Skemmtileg blanda hérna.
Jæja elsku vinir, munið að njóta lífsins og sýna börnunum ykkar regnbogann núna, því hann bíður ekki en það getur vinnan gert.
Ykkar Kristín Jóna

 

29.04.2013 07:14
Og nú skulum við horfa til framtíðar….
en ekki til fortíðar.  Nú þegar kosningarnar eru búnar og nýjir menn munu komast til valda þá vona ég svo sannarlega að enginn gleymi fortíðinni en hafi hana ekki sem aðalatriði heldur noti sem lærdóm til að gera betur.
Ég er að velta því fyrir mér hvort ég hafi ekki verið komin á facebook fyrir 4 árum því ég man ekki eftir að hafa séð svona mikið af ljótum orðum og skítkast manna á milli sem ekki voru í framboði en styðja sitthvort liðið í pólitíkinni.  Dagurinn í gær var leiðinlegasti facebook dagur sem ég man eftir og fólkið eftir því.  Þó slæddist einn og einn með jákvæða statusa inn á milli en í guðanna bænum elsku vinir, munið að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir og þó við séum ekki öll sammála þá skulum við virða skoðanir hvers annars.
Minn maður fagnaði í gær og ég ákvað að fagna með honum og færði honum eftirmiðdagsbakka í stofuna.

og þar sem það var rigning og smá vindur hér í Mandal í gær þá fór ég ekkert út að mynda og varð því að mynda þennan veislubakka í staðinn.
En við erum búin að eiga fína helgi þrátt fyrir rigningar.  Ég byrjaði nú laugardaginn á því að breyta aðeins í stofunni hjá okkur og laga til en Þráinn fór með strákunum að sjá Rallý.  Ég hefði nú farið með hefði ég vitað að þeir kæmu aftur um hádegið en það var búið að segja mér að þetta yrði allur dagurinn frá 9 – 5 og það fannst mér of mikið en ég sem sagt missti þarna af geggjuðu sjói þar sem maður sýndi listir sínar á mótorhjóli og svo var allt fullt af flottum bílum fyrir mig.

Þessi mynd var tekin sérstaklega fyrir mig.

Og hér er listamaðurinn á mótorhjólinu að hjóla á fullu í áttina að þessum manni og stöðvaði svo á punktinum milli fóta hans.

og þetta er náttúrulega bara rugl hvað hann gerir á hjólinu þessi maður.

En ég er ánægð að Þráinn tók myndavélina sína með og tók myndir því ég hef gaman að skoða svona myndir af svona dýrgripum eins og gömlum bílum.  En sko rallýbílarnir eru ekkert sérstakir að mínu mati og ég hélt að það yrði bara rallýbílar þarna útbíaðir í auglýsingum og ljótir.  Svo ég fer næst, ekki spurning.
Þar sem ég sit hérna og skrifa sé ég út um gluggann að Nói kóngur er að leika sér í hjólaportinu og hann hefur núna undarfarið fengið að fara út á hverjum morgni og hann er alveg að njóta þess, byrjar að væla um það um leið og við komum á fætur.  Og ég hef séð marga ketti hér í portinu en Nói er sko búinn að eigna sér það enda stofugluggarnir hans sem vísa þangað út svo hann hlýtur að eiga þetta port og hann rekur alla aðra ketti í burtu og lætur eins og honum er einum lagið “Eins og Kóngur”.
Já aftur að helginni, við vorum bara að dóla okkur hérna heima á laugardaginn vegna rigningar úti en um kl. 16 hætti að rigna og fór að birta til svo við Ástrós Mirra ákváðum að fara að Ullarverksmiðjunni og ég ætlaði að taka myndir þar af fossi sem ég hafði séð og hún að leyfa Erro að hreyfa sig.
Þegar við komum þangað þá sá ég að fossinn var enginn foss heldur bara smá lækur en allt í lagi það má æfa sig að taka myndir með undurmjúkum læk eins og af fossi.  Svo upp með græjurnar og ég að mynda og Erro að hlaupa út um allt.

Þegar Ástrós var fyrst í vetur í Furulundenskole þá fóru þau saman þarna í Ullarverksmiðjuna og skoðuðu hana og umhverfið svo hún fór að sýna mér umhverfið og ég get svarið það, þarna er bara lítið ævintýraland með algjörri þögn nema lækjarniðnum og svo fallegt.  Hlakka til að fara þangað í sumar, en það er ennþá ís á vatninu og snjór til hliðar við það.
Já það er sem ég segi, tvisvar í viku finn ég nýja staði hérna í Mandal og hver öðrum fallegri.  Manni getur nú bara ekki leiðst að búa í svona fallegum bæ.
Svo var horft á bíómynd á laugardagskvöldið og kíkt á fyrstu tölur í kosningunum en þá var klukkan að ganga 2 hér hjá okkur svo það var sofið aðeins lengur í gær en sunnudagurinn tekinn með rólegheitum þó ryksuga og skúringakústur væru notaðir.  Já svo færði ég sem sagt eiginmanninum ostabakka með fréttunum og svo kórónaði hann það allt saman með Kentuky í kvöldmatinn.

Frábær vika framundan með einum aukafrídegi eins mai einum er lagið, svo það er best að skoða veðurspá og fara að plana lífið í þessari viku.
Ykkar Kristín Jóna

 

01.05.2013 06:30
Eins og afi minn eða hvað…..
ég var að tala við konu í gær í símann og þá kom bara yfir mig að ég væri kannski eins og hann afi minn nema alveg á hinn bóginn þe. ég heyrði afa auðvitað tala um ýmsa hluti alla mína uppvaxtartíð og ég heyrði hann auðvitað tala um pólitík og hann talaði mikið um hana.  Svo þegar ég var fullorðin og talað var um afa og hans pólitík þá fara allt í einu að renna á mig tvær grímur því mér finnst fólk tala eins og afi sé sjálfstæðismaður en það getur ekki verið.  Hann talaði alla tíð eins og kommúnisti, eða gerði hann það ekki?  Ég fer að hugsa…. nei hann sagði auðvitað að Mogginn lygi aldrei og hinn heilagi sannleikur væri í Mogganum osfrv.  Þá er hann auðvitað ekki kommi.  En hann hataði líka unga sjálfstæðismenn eins og Gísla Martein þó hann hafði aldrei hitt hann en hann var bara viss um að þetta væri aumingi sem hefði aldrei dýft hendi í kalt vatn og þurfti auðvitað aldrei að hafa fyrir lífinu eins og afi sagði.  Bíddu það er ekki sjálfstæðismaður að tala er það?  Jæja alla vega hafði ég alla tíð haldið að hann afi væri kommi og áttaði mig á því bara nokkrum árum áður en han fór að hann væri auðvitað sjálfstæðismaður.  Og þá kem ég að samlíkingunni minni…. ég hef nefnilega líka alltaf haldið að ég væri kommi en viti menn ætli ég sé ekki bara sjálfstæðismaður án þess að vita það og alveg eins og hann afi minn sem ég elska og elskaði mjög mikið.

Skrítið hvað það er hægt að elska skrítið fólk mikið eins og ég elska hann afa minn, ég elska ömmu líka en það er svo eðlilegt því hún er svo yndisleg og góð manneskja. Afi var sko líka góður kall en hann var oft grimmur og grimmur út í fólk, orðljótur og stundum bara ruddi en vá, hann var líka þessi mjúki afi sem elskaði barnabörnin og barnabarnabörnin sín svo mikið og fannst þau öll snillingar og hann kenndi mér að lesa 5 ára og það var svo gott að fá að kúra hjá honum þegar mér leið illa og auðvitað leið manni stundum illa, foreldrarnir nýskilinn og við stelpurnar fluttar til afa og ömmu, hann virtist alla vega skilja það og mér leið betur.
En sem sagt uppgötvun vikunna er líklega sú að ég sé eins og afi og sé allt annars staðar í pólitíkinni en ég hélt sjálf og hana nú.

En í dag er 1. mai og það er merkilegur dagur vegna margra hluta.  Í fyrsta lagi kynnist ég manninum mínum þennan dag fyrir 33 árum og var það góður dagur fyrir mitt líf.  Hefði ekki getað eignast betri mann og betri vin.  En það er nefnilega það sem gerir okkar hjónaband svo gott og það er vináttan.  En þessi dagur er líka merkilegur að því leyti að einu sinni þurfti verkafólk að fá frí einn dag á ári til að berjast fyrir mannsæmandi kjörum.  Jón afi og Stína amma héldu mikið uppá þennan dag enda voru þau fólk sem þurfti að berjast til að fá vinnu og salt í grautinn.  Jón afi stóð á bryggunni og slóst um störf við aðra menn, þegar kannski stóðu 10 manns á bryggjunni og aðeins 3 störf í boði. Jón afi er líka einn af þeim sem tóku þátt í Gúttóslagnum mikla og ég gerði í skóla ritgerð um þann atburð og las þar um að afi minn hefði tekið þátt og verið handtekinn og settur í fangelsi.  Mér hafði aldrei verið sagt frá því en las það þarna.  Mikið var ég stolt af honum afa mínum að taka þátt í því að bæta kjör þeirra sem minna máttu sín og mikið er ég enn stolt af honum og þeim báðum því Stína amma studdi hann alltaf.  Enda voru þau hjón sem tekið var eftir því þau voru svo góð hvort við annað og reyndar við alla menn.  Þau nefnilega elskuðu allt fólk og fundu alltaf eitthvað gott í hverri manneskju.  Og þegar hún Stína amma mín lá á Sólvangi síðustu árin sín og við komum frá Eyjum í bæinn og skruppum í heimsókn til hennar þá fór hún að gráta.  Við vorum ekki að skilja af hverju enda bara kornungir krakkar sem skildu ekki neitt en þá sagði hún: “Þegar ég vaknaði í morgun á þessum drottins dýrðardegi (1. maí) þá bað ég algóðan Guð að gefa mér eitthvað fallegt í tilefni dagsins.  En að hann skyldi senda mér ykkur í heimsókn átti ég ekki von á, þetta var besta gjöf sem hann gat gefið mér.”
Vá, það var ekkert lítið, okkur fannst þetta ekkert merkilegt en þetta situr það í mér og ég man orðrétt það sem hún sagði.  Og í hennar huga var þetta einn merkilegasti dagur ársins og við megum aldrei gleyma því.  Við megum ekki gleyma að segja börnunum okkar að langafi þeirra hafi þurft að slást til að fá vinnu og hvernig lífið var á þessum tíma og hvað það er stutt síðan.  Við megum heldur ekki gleyma að segja þeim frá því að þegar hún amma mín er lítil stúlka þá máttu konur ekki kjósa.  Ég veit að dóttir mín á eftir að verða hissa.  Af hverju máttu karlar kjósa en ekki konur?  Og það er von, því þetta er eitthvað sem unga fólkið í dag skilur ekki og veit jafnvel ekki að sé svona stutt síðan þetta var.  Konur höfðu ekki greind til að velja hver ætti að stjórna landinu en samt voru það þær sem stjórnuðu stóru heimilinum og létu ekkert verða að mörgu í allri fátæktinni sem þá var.  Þær voru pínulítið eins og Jesú og margfölduðu matinn handa fólkinu sínu.  Ég held einmitt að konur þessa tíma hafi verið snillingar því þær héldu lífi í fólkinu sem átti ekkert.
Og nú dettur mér í hug uppáhaldsbók allra tíma en það er bókin um hana Karitas eftir Kristínu Marju Baldursdóttur.  Algjör snilld sú bók og mikil uppáhalds hjá mér. Ég held ég hafi lesið hana 3svar og hvergi hætt, á sko eftir að lesa hana aftur og aftur. Og hvernig hún skrifar bókina þá finnst mér eins og ég hafi séð bíómyndina, svo lifandi og svo litrík.  Frábær rithöfundur þessi kona.
En já 1. maí í dag og sólin skín í Mandal.  Ég ætla að hugsa til þeirra sem þurfu að berjast fyrir kjörum sínum í gamla daga og þakka fyrir það sem þau gerðu til að ég og komandi kynslóðir þyrftu ekki að berjast til að fá vinnu og þyrftu ekki að berjast til að eiga salt í grautinn.

Þetta verður góður dagur í dag.
elska ykkur öll ykkar kristín jóna
ps. ég fann þessa mynd áðan og finnst hún geggjuð, væri til í svona kjól á okkur systurnar núna, þessar skvísur mamma og fleiri voru á Þjóðhátíð í sparifötunum.  Big like á það.

 

03.05.2013 06:50
Listljósmyndun KK
Já haldiði að við systur séum ekki bara búnar að stofna klúbb sem heitir Listljósmyndunarklúbbur KK og er hann ætlaður til að taka við af listljósmyndanáminu okkar á Tröllaskaga sem við erum búnar að vera í eina önn.
Það er búið að vera mjög skemmtilegt nám en þó með göllum eins og það að nemendurnir hafa látið eins og þeir væru í samkeppni frekar en samvinnu og einnig er eins og það skiptist í tvo hópa, þe. þeir sem eru í skólanum og þeir sem eru bara í þessu fagi í fjarnámi.  Sumir nemendur gagnrýna alltaf bara sömu 3 nemendurna (en það er lámark að gera það) á meðan við Konný gagnrýndum til að byrja með alltaf alla, og hlustuðum á gagnrýni kennarans á alla nemendurna til að læra sem mest. Við lærum nefnilega líka af samnemendum okkar, ekki bara á því sem kennarinn segir.  Það er þráður á fésinu ætlaður fyrir okkur og ég held að það séu 4 nemendur sem hafa sett eitthvað þar inn og aðallega einn, hann Róbert sem hefur verið að pósta kennsluefni og fleiru sem gæti nýst okkur í náminu.  Við héldum að þarna yrði meiri vettvangur umræðu og við gætum lært ákveðna hluti af hinum sem kunna eitthvað sem við kunnum ekki og þeir eitthvað af okkur líka. Kannski hefði kennarinn þurft að stýra þessum umræðuþræði eitthvað til að byrja með til að koma fólkinu í gang þar, ég veit ekki hvort það hefði haft eitthvað að segja.  Eins fannst mér skrítið hvað margir settu inn verkefnin sín eftir 10 á sunnudagskvöldi þegar verkefnaskil eru kl. 12, sem sagt bara rétt fyrir skil, sem þýddi það að meðan maður var að vinna í sínu verkefni þá gat maður ekki skoðað hvað aðrir voru að gera (þeir sem voru þá kannski snemma í því) nema kannski hinir nemendurnar að skoða okkur Konný því við vorum oftast að setja okkar inn fyrir fimmtudag.
En við erum samt búnar að læra alveg helling og ég er mjög ánægð með kennarann fyrir utan að við höfum stundum þurft að bíða ansi lengi eftir verkefnalýsingu og einhvern tíma var verkefnið hafið og engin lýsing komin, það finnst mér óþægilegt.  Mér finnst að í svona námi eigi verkefnalýsing að liggja fyrir að minnsta kosti hálfum mánuði áður en verkefnið hefst því við erum fólk sem rekur ekki stúdeó og þurfum kannski að fara langar leiðir og nánast finna upp hjólið til að geta framkvæmt verkefnið og þá dugir ekki að vita bara af því um leið og verkefnið hefst.  Og svo erum við fullorðið fólk í þessu námi og fullorðið fólk vinnur yfirleitt verkefnin sín heldur fyrr en seinna.  En nú er sem sagt námið búið bara verið að bíða eftir að sýning verði sett upp í skólanum með myndum eftir okkur þannig að við Konný ákváðum að halda áfram og stofnuðum þennan klúbb.  Hann verður sem sagt þannig að við setjum okkur fyrir verkefni sem er í tvær vikur, ákváðum að hafa það aðeins lengra en í skólanum enda að koma sumar og við viljum nú kannski gera eitthvað annað líka.  Við póstum í ákveðna grúbbu á fésinu myndunum okkar og við ætlum að reyna að gagnrýna þær almennilega og vera frumlegar í sköpun við þessi verkefni.  Og já það er ekki bara stúdeómyndir heldur alls konar, ætlum okkur að fara um víðan völl.  Við værum alveg til í að fleiri kæmu í hópinn en þá viljum við að það séu manneskjur sem eru jafn áhugasamar og við og alls ekki fleiri en ca. 6 manns.
En þetta verður spennandi og fyrsta verkefnið okkar er Still life.
Og ég er sko ekki búin með þetta verkefni, þarna eru bara komnar tvær hugmyndir sem ég er búin að framkvæma og ég á alla vega tvær eftir.
Eigiði frábæran föstudag elsku vinir Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

04.05.2013 07:31
Komin í hundana….
Já nú er ég sko komin í hundana, enda með tvo fjörkálfa hérna núna og jesús góður lætin þegar þeir hittast en núna 20 mín. síðar eru þeir farnir að róast og meira eins og pissukeppni á milli þeirra hvor eigi mig.  Nemo er sestur við fæturnar á mér og Erro er sko ekkert ánægður með þetta.  En hvað er þetta með hunda alltaf í rassgatinu á hvor öðrum, mikið er þetta leiðinlegur eiginleiki hjá þeim ásamt þessum pissustælum þeirra.  Ég er einmitt búin að vera á leiðinni að ræða aðeins um göngutúrana okkar Erro og nú er hann að nálgast eins árs og orðinn eins og allir aðrir hundar og getur ekki labbað nema 4 skref án þess að lyfta fætinum og míga utan í allt hvar sem er og hvernær sem er.  Hvernig er hægt að venja hann af þessu, ég fer að hætta að fara með hann í göngutúra því þetta fer svo í taugarnar á mér.  Maður er að labba niður í bæ framhjá td. hóteli, hárgreiðslustofu og matvörubúð og hann ætlar að míga utaní alla þessa staði og ég er stanslaust að toga í hann og alltaf með hlandbununa á eftir okkur.  Hrikalega sóðalegt og ljótt að sjá hunda sífellt vera að merkja sér og svo heldur hann áfram og er löngu hætt að koma nokkur dropi frá honum.  Eins er hann hættur að pissa úti á morgnanna en hleypur um bara og merkir í öll horn, en sest aldrei niður og bara pissar.  Mig langar mikið að losna við þetta hjá honum svo þið sem vitið allt um hunda, nú ríður á að rétta ráðleggingin komi.  Annars þarf ég að fara að gúggla þetta og nenni því eiginlega ekki.
Eins og þið vitið þá fer ég nánast daglega í kirkjugarðinn okkar með Erro í göngutúr og tek myndir af blómum í leiðinni alla vega þegar farið er að vora eins og núna og ég undra mig alltaf á hversu mikið er jarðað hérna.  Í ekki stærri bæ en 15000 manns þá eru líklega 4 nýjar grafir á viku, ég get svo svarið það.  Hvaðan kemur þetta fólk allt saman?  En nú er allt að komast í blóma og hérna hugsar fólk óskaplega vel um leiðin sín og það eru nánast alls staðar komin sumarblóm á leiðin og allt orðið svo fallegt, vantar aðeins meiri grænan lit á trén fyrir ofan garðinn og meira grænt í grasið þá er þetta bara komið.  Og hér er greinilega eðlilegt vor með öllum sínum rigningum en það er ca. annan hvern dag sól og hinn er rigning.  En sko þetta er bara svona beint niður í logni rigning og háir ekki nokkrum manni sem á stígvél og regnhlíf.

Framundan er frábær helgi eins og alltaf, man nú ekki eftir að hafa planað leiðinlega helgi, alla vega hef ég þá ekki planað hana.  Hópferð á Loppumarkað í Frøyslandi og síðan verður einhver góður göngutúr með hundana tvo.  Svo er planað á morgun að fara út með nesti og gamla skó og eitthvað út í sveit með kjöt og kol og grilla en hér er út um allt hægt að grilla í sveitinni og alls staðar þar sem eru svona staðir sem fólk fer og labbar um þar eru líka upphlaðinn grill eða bara svona tunnugrill.  Og af því að við eigum engan garð þá ætlum við að nota stóra garðinn hér í kringum okkur og gera okkur svona dagamun.  Vonandi koma Margrét og þau með okkur og þetta verður frábær dagur.  Nema það rigni, spáin er alltaf að breytast og ég ræð nú illa við svona breytingar.  Skil ekkert í þeim hjá Yr að vera ekki búin að fatta það að það fer hreinlega allt úr skorðum hjá mér þegar þeir rugla svona með veðrið. Nýjasta spáin er núna fín engin rigning á morgun og hálf sól frá 12-16 svo það verður ekkert plan B hjá okkur.  NÆS.

Dagurinn í gær var eitthvað svo þannig að í gærkvöldi þá langaði mig mest að fara eitthvað þar sem væru hvorki unglingar, hundar eða kettir.  Dóttirin var erfið að fara í skólann í gærmorgun og þegar svoleiðis dagar eru þá setur hún mark sitt á restina af deginum hjá mér.  Ef ég þarf að byrja daginn á einhverju röfli og veseni þá klippi ég það ekki svo auðveldlega frá og sit ekki 10 mín. seinna með tónlist á og bros á vör.  Nei ég sit og reyni að greina hvað var að og hvað er hægt að gera til að laga það osfrv. og svo kemur kannski stúlkan heim úr skólanum alveg bara Hæææææææ og glöð og allt.  En ekki ég, þá er ég ekkert sérstaklega glöð og svoleiðis var gærdagurinn og þá fer hundurinn líka að fara í taugarnar á mér, ég fæ ekkert breathing space fyrir honum og þó hann bara liggi hjá mér og standi upp þegar ég stend upp og snúi sér í hring þegar ég sný mér í hring og horfi á mig ef ég fæ mér kaffibolla með von um að ég sé að fara að gefa honum eitthvað líka þá er hann kannski ekkert fyrir mér en Guð hvað ég vildi að hann gerði þetta bara við Ástrós og Þráinn þegar þau koma heim og láti mig þá í friði enda við búin að vera tvö saman allan daginn.  Ég er alls ekki hundamanneskja því ég þoli ekki undirgefni og ég þoli ekki sníkjur og ég þoli ekki þegar hann labbar alltaf tveimur skrefum á undan mér og stoppar svo með rassgatið í mér til að bíða og sjá hvert ég sé að fara.  En ég elska hann Erro, ekki misskilja það en þetta eru eiginleikar sem ég þoli ekki en þó misvel.  Sníkjurnar eru frekar pirrandi og þessum hundi hefur aldrei verið gefinn matur þegar við erum að borða og aldrei þegar við erum að elda svo ég skil ekki af hverju hann heldur að það gerist þá NÚNA.  En enn og aftur þá elska ég hann Erro og hann er ótrúlega klár en hann er bara hundur en ekki köttur það væri nú eitthvað annað og á betur við mig enda Nói kóngur sko sá alklárasti.  Hann er farinn að fara út aftur og fer beint í portið hérna á bakvið hjá hjólabúðinni og hann greinilega á þetta port, því ég horfi á hann reka alla aðra ketti í burtu.  Ég er sko kóngurinn og þetta er garðurinn minn, enda mínir gluggar sem snúa hingað í portið.  Svo kíki ég kannski út um gluggann og kalla í hann og þá kemur hann hlaupandi og mjálmar smá og byrjar að velta sér fram og til baka á stéttinni og með svo miklum tilþrifum.  Svo kalla ég í hann og fer niður og opna dyrnar og kalla aftur og þá kemur hann hlaupandi inn til mín.  Og fólkið sem sat á veitingarstaðnum á hótelinu við hliðina skellihló um daginn þegar það sá mig koma út á tröppur og kalla og svo kom hann hlaupandi.  Ég veit ekki hvern þau héldu að ég væri að kalla á en það var örugglega ekki kötturinn.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

06.05.2013 07:01
Sumarið er komið…..
og við áttum frábæra helgi.  Reyndar alveg hægt að segja að við höfum verið í hundunum en það er allt í lagi, fyrst við erum orðið hundafólk.  Við byrjuðum á að passa Nemó á laugardaginn og það gekk rosalega vel.  Ég var pínu kvíðin að þeir yrðu eitthvað leiðinlegir saman hann og Erro því það voru einhverjir stælar í þeim síðast þegar við hittumst en nei sko þeir voru svo bestu vinir og svo auðvelt að vera með þá tvo.  Þannig var það líka síðast og þá vitum við það bara að þetta er ekkert mál.
Ég fór svo á laugardaginn með Margreti og Joni á loppumarkað og keypti nokkrar nausynjavörur þar eins og eitt stykki gamalt útvarpstæki og tvö risastór hvítvínsglös svo við Inga getum fengið okkur eitt hvítvínsglas saman í sumar þegar við hittumst og svo koparketill og kertastjaka. Já og einn blómapott utan um eina blómið okkar, svo það sé ekki sífellt að detta um koll.

Og vitiði hvað, útvarpinu var stungið í samband og það virkar.  Hér hljómaði bara útvarp Lux eins og í gamla daga.  (nei ég veit ekkert hvaða útvarpsstöð þetta var, en mér fannst það hljóma eins og í gamla daga)  Afi og amma áttu svona útvarp og þetta mun alltaf minna mig á þau.
Nú svo var farið í góðan göngutúr með hundana en þar sem það var smá vindur þá héldum við okkur niður í bæ.  Ég fór í prjónabúð og keypti stoppunánar og ég get svo svarið það að hér eru þær úr gulli.  Miðbærinn var fullur af fólki enda verið að flytja eina búð á milli húsa og einhver tilboð í gangi.  Við fengum svo sannarlega tilfinninguna að vorið væri komið, það var meira að segja setið úti fyrir utan kaffihúsin.
Við hittum fullt af fólki á leiðinni, hjólandi, keyrandi og gangandi.  Hundarnir hlupu um og Erro var að elska þetta, hamaðist svo á róluvellinum með Ástrós að hann drakk hálfan gosbrunn á leiðinni heim.
Svo sá ég þennan flotta kall með bleiku húfuna og varð að laumast til að taka mynd af honum.  Hann stoppaði reyndar og klappaði hundunum líka en það gera norðmenn mikið.  Þeir virðast bara vera mikið hundafólk og hér eru hundar svo sjálfsagðir út um allt.

Ég skellti mér í róluna þarna á róluvellinum og rifjaði upp gamla takta, stökk meira að segja út henni þegar ég var búin.  Já þetta gat hún, þrátt fyrir aldur og fyrri störf.

Svo í gær þá var búið að plana að fara uppá Hálandsvörðunni og með grillmat og teppi og hafa huggulegan dag.  Margret, Jon og strákarnir komu líka með og var þetta yndislegur dagur í sól og rjómablíðu.  Ég var stanslaust í og úr peysunni allan daginn.
Við hlóðum upp steinum og grilluðum okkur kjöt og ég setti dúk á grasið með matnum á og hafði blóm til skreytingar eins og tilheyrir.
Og svo var snæddur maturinn og dólað sér á hæðinni og útsýnisins notið.  Hundarnir voru nú ekki ánægðir þarna því við þurftum að binda þá alla vega Erro og Nemo sem gátu ekki látið matinn í friði hjá okkur.  Tanja er svo þroskuð að hún gat bara setið kjurr hjá Edda.  En Nemó kallinn var frekar ókurteis við fólk sem gekk framhjá og urðum við að hafa hann í bandi meiri partinn af tímanum því vildi bara hlaupa geltandi að fólkinu.  Svo skrítið því hann lætur ekki svona við fólk niðrí bæ, þar er hann stilltur og prúður.
Eftir matinn fórum við hærra upp alveg uppað Vörðunni og skoðuðum okkur aðeins um þar.

Svo þegar við fórum aftur niður þá stoppuðum við á þessari grasflöt en við stoppuðum líka við hana á leiðinni upp, því það er svo frábært að láta hundana fá útrás þarna svo þeir séu ekki svo uppfullir af endorfíni að þeir gegni engu.  En þreyttur og sæll hundur hann kemur þegar kallað er á hann.
Erro sýndi snilldartakta í frisbie eins og sést á síðustu myndinni hér að ofan en hann nennir ekki alltaf að koma með diskinn til baka sem þýðir þreyttur eigandi að þurfa sjálfur alltaf að hlaupa til að sækja.  Hljómaði ansi oft í gær “Erro sækja”.
Já og svo annað, ég get ekki verið rétt skóuð hér í Noregi.  Fannst nú veðrið það gott að ég færi bara í söndulum því það er svo gott að ganga á þeim og já Margret gerði sér ekkert grein fyrir hvert ég væri að fara með hana og var í skóm með hælum en fyrsta fólkið sem við mættum var í stígvélum.  Já sæll, það hefði nú stundum verið betra að vera alla vega á gúmmískóm en þetta reddaðist það var bara ein tá sem blotnaði hjá mér.

Enduðum á að liggja í sólbaði smástund þarna niðurfrá og viti menn……….  kristín jóna hefur tekið lit eftir bara einn dag.
Stefnan tekin á sólbað og grill hjá Margreti á þriðjudaginn svo það er eins gott að þið verðið viðbúinn litaðri konu þegar þið hittið mig næst.  Eða þannig.  Alla vega ljósbleikri.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

07.05.2013 07:21
Verkjar alls staðar og ….
veit ekkert hvernig ég á að vera.  Svoleiðis var nóttin hjá mér.  Endaði á að fara framúr og taka verkjatöflu svo ég gæti sofið.  Og já út af hverju er konan með mikla verki, jú hú skellti sér í Dans Mix leikfimi og hefur sem sagt ekki hreyft sig svona í yfir 25 ár, nema kannski á dansgólfinu en þá er samt ekki beint hoppað svo það hefur aldrei verið svona mikið.
Eftir fyrsta korterið var ég alveg búin og spurði Margréti hvort þetta væri örugglega heill klukkutími sem ég þyrfti að halda út og hún sagði já.  Ég hugsaði með mér að það myndi ég aldrei geta en viti menn ég gat það en ég ætla ekki að segja að það hafi ekki verið erfitt.  Jú jú það var erfitt en helv. tónlistin sem konan spilar þarna er bara þannig að maður getur ekkert sest í pásu til að jafna sig eins og ég reyndi.  Ég ákvað að ef ég ætlaði ekki að fá hjartaáfall þá yrði ég að setjast smá stund og sem ég sit þarna og þær eru hvort eð er þá að dansa margarena sem ég hef aldrei getað náð þá horfi ég í spegilinn og andlitið á mér er það allra rauðasta sem finnst þarna í salnum.  Jesús, ég hef aldrei séð svona rautt andlit.  Ætli þetta sé allt í lagi, ætli þetta þýði eitthvað meira en það að ég hafi reynt á mig, ég veit ekki.  En svo er margarena lagið búið og ég er enn að hugsa um að sitja í pásu þegar næsta lag byrjar og ……. það er ekki hægt að sitja kjurr þegar footloose lagið kemur svo ég stekk á fætur og held áfram.  Hrikalega skemmtilegt.  En hvað er með þessa spegla þarna eru þeir bara settir upp til að stuða mann?  Hver var þessi þybbna budda sem var alveg eins klædd og ég?  Ekki kannast ég við hana en þegar ég horfði á leikfimikennarann þá sá ég alveg hvernig ég er vaxin því hún er eins og ég, alla vega innan í hausnum á mér.  Og meira með þessa spegla, þeir eru líka mjög óþægilegir fyrir konu eins og mig. Ég var að spá í það í gær hvort skert rýmisgreind geti tengst þessu eitthvað því ég er náttúrulega búin að uppgötva að ég sé með alvarlega skerta rýmisgreind og svo gerði ég uppgötvun í gær og það er að ég get ekki horft á kennarann í speglinum því þá geri ég allt öfugt og ég var .. Ok, sjáiðið nú fyrir ykkur, ég var í leggins og hnésokkum því ég er svo slæm í hnjánun og vildi hafa hita á þeim.  Ég var í síðum blá – hvítröndóttum bol (eða stuttum kjól eins og sumir myndu kalla þetta) og þar sem ég er að dansa þarna fyrir spegilinn þá sé ég að þegar kennarinn heldur fótunum saman og hreyfir líkamann í bylgjum þá er ég ekki alveg eins og hún, sko ég er meira svona með hnén saman en fæturna út og í hnésokkunum og kjólnum þá vantaði bara sleikibrjóstsykurinn í munninn og tígaspena í hárið til að fullkomna myndina.  Þið sjáið þetta er það ekki?  Og já aftur að speglinum, því ég var að segja Margréti frá því eftirá hvað hann truflaði mig mikið og sagði að ég gæti varla greitt mér fyrir framan spegil því þá flæktist burstinn bara í hárinu á mér og ef ég ætla að nota sléttujárn þá fer ég alltaf í öfuga átt við það sem ég ætla mér því ég get ekki skilið spegilmyndir.
Með þessa miklu fötlun sem ég er með, ætti ég ekki að vera á örorku?  Kona sem getur ekki greitt sér fyrir framan spegil er nú frekar fötluð finnst mér.  Kona sem getur ekki áætlað hvar stóll passi í stofuna hennar er nú ansi fötluð.  Kona sem getur ekki séð fyrir sér hvar hlutir eiga að vera og það allt er bara ansi fötluð og ætti nú sjálfsagt að fá einhverjar bætur.  Hey, ef ég væri í Ameríku myndi ég ekki bara fara í mál við mömmu og pabba, þetta hlýtur nú að vera þeim að kenna?  Ha ha ha.
Engar myndir teknar í gær nema þessi til að sýna ykkur hvað ég var rauð í framan og hún er sko tekin eftir að ég kom heim.  Ég held að blóðið hafi eitthvað hreyfst þarna í gær og vonandi verður þetta auðveldara næst.

En eigið frábæran dag elsku vinir, hér er sólin byrjuð að skína kl. 7 og stefnir í frábæran dag og svo er þetta stutt vika eins og svo oft í mai.  Njótið lífsins því það er svo stutt.  Við hugsum til Eyja núna eins og svo margir eyjamenn og hugsum um hvað lífið er dýrmætt og stutt en einn ungur eyjamaður lést í gær eftir langa baráttu við krabbameinið.

Ykkar Kristín Jóna

 

10.05.2013 08:39
Vakre Mandal….
ég ákvað í gærkvöldi þegar sólin fór allt í einu að skína eftir drungalegan dag að hlaupa aðeins út með myndvél, filter og þrífót.  Ég fór nú aldrei lengra en yfir götuna og var bara þar.  Þvílík fegurð í skýjunum og vatninu og kyrrðin og já bara allt var svo svo fallegt.
Þetta er bara dásemd og ekkert annað.  Ég segi nú bara eins og hann afi sagði forðum daga:  “Ég sé nú ekki eftir að hafa komið hingað”.
Fleiri svona myndir seinna í dag og á morgun en þá verður nú aldeilis tekið af myndum því við ætlum í dýragarðinn í Kristianssand og eiga frábæran dag og njóta lífsins eins og okkur er einum lagið.  Hlakka til að hitta Julius og Gíraffana og já ljónin líka, því núna á ég súmmlinsu sem ég átti ekki í fyrra svo það verður öðruvísi að taka myndir þarna.  Jeiiiiiiiiiiiiii.
En við Ástrós Mirra erum í fríi í dag því það er frí í öllum skólum hér og við ætlum bara að dóla okkur í rigningunni, taka til á skrifstofunni því ekki sendir Wise lausnir (Maritech) skúringakonu til mín, ég verð víst að gera þetta sjálf, og svo ætlum við að klára að þrífa og laga til í ganginum niðri eftir málninguna í gær, en við vorum óskaplega myndarleg og máluðum ganginn niðri og holið hérna uppi.  Svo ætlum við að halda áfram einhverja aðra helgi því nú skal leikið sér restina af helginni.

Við höfðum nú ekki gert okkur grein fyrir því hvað það var mikil þörf á að mála hérna fyrr en við vorum búin að mála smá en við ætlum að hafa allt hvítmálað því hér eru viðargólf, viðargluggakarmar og viðarloft svo það nýtur sín best að setja hvítt á milli.  Hérna eru gipsveggir með einhversskonar munstruðu efni á eins og sést hérna á myndinni að ofan og það er æðislegt að mála svona því það sést enginn munur á pensilförum eða málningarúllu, þannig að við penslum meira hérna en við höfum gert áður enda þröngt á milli hurða og glugga og óþarfi þá að kaupa rúllur í öllum stærðum.
Ég segi nú alltaf við þegar við erum að mála eða gera eitthvað annað sem krefst þess að Þráinn geri meira eða mér finnst það alla vega en þó er það ég sem á endanum þríf og geng frá öllu dótinu og raða upp og laga til, þarf að fara að segja sjálfri mér að það sé jafn mikilvægt og að rúlla veggi.  En kannski finnst mér þetta líka því þegar ég er að vinna svona verkefni þá hamast ég ekki þannig að ég svitni en það gerir maðurinn minn, það kemst svo mikið kapp í hann að maður verður nánast fyrir honum alls staðar en ég… ég sko vil bara góða tónlist og dunda við þetta, ég er að verða meiri dundari eftir að ég flutti hingað, kann betur að njóta þess að vera að vinna með manninum mínum og hafa góða tónlist og spjalla saman meðan ég strík penslinum eftir veggjunum.  En áður fyrr, þá hamaðist ég eins og mögulegt var til að klára.  En þá áttum við líka til að mála allt í einu.  Núna ákvað ég að þetta væri nóg, svo myndum við ganga frá eiga góða og skemmtilega helgi við leik og seinna, já ég sagði seinna tökum við svo svefnherbergið og þá verður bara það tekið og svo slappað af.  Ég held ég sé að læra þetta.
Og þrátt fyrir að vera að mála í gær, var farið 4 sinnum út með hundinn (við erum að klára að venja hann á að gera sitt úti, gátum það ekki (eða nenntum því ekki) þegar við fluttum því það var svo kalt alltaf þá) en núna erum við að kenna honum að hann verði alltaf að gera þetta úti, við erum hætt að sætta okkur við að hann noti klósettið eins og við.  :=)  Ég fór líka tvisvar út með myndavélina, fór einu sinni út og keypti handa okkur skyndibita í annað sinn eftir að við fluttum hingað, svo dagurinn var ekki bara undirlagður í málningavinnu heldur líka eitthvað skemmtilegt.  Elska svona daga sem ég sé eitthvað eftir mig en þó er ég ekki útkeyrð og hafði gert eitthvað skemmtilegt líka.
Þemað hjá okkur í þemaklúbbnum er hjól svo ég fór einmitt gagngert til að taka myndir af hjóli sem sá um daginn og hélt að væri punthjól en …. það er það greinilega ekki því það er farið heim svo ég tók bara myndir af hjólunum á okkar heimili og einhverjum öðrum niðrí bæ en það er ekkert hjól eins flott og þetta á neðstu myndinni hérna:
Jæja gott fólk, nú skal klárað að laga til á ganginum, þrifin skrifstofan mín og svo að kaupa í matinn og þar fyrir utan, bara gera það sem manni dettur í hug.
Eigiði góða helgi og munið að leika ykkur aðeins meira, lífið er allt of stutt að eyða því bara í vinnu.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

13.05.2013 08:51
Dyreparken og fleira skemmtilegt
Eins og þið hafið kannski tekið eftir kæru vinir þá er alltaf svo gaman hjá okkur, ja eða oftast alla vega og þessi helgi var engin undantekning.  Við þurftum samt að breyta plönunum okkar fram og til baka eftir veðrinu því það rignir bara og rignir hérna, maður gæti haldið að ég byggi í Bergen.  En á laugardaginn var rigning og þá vildi Þráinn endilega bara drífa í að mála stofuna, þetta er bara skemmtilegt, rúttum út úr einu herbergi og málum, skerum með pensli 70% og restin með rúllu, svolítið ólíkt því að mála hér en við erum vön, því hér eru alls staðar trélistar í kringum alla glugga og hurðar og loft og gólf.  Í stofunni eru 4 gluggar svo þetta er einn veggur sem hægt að rúlla alveg en hinir eru bara smá stubbar.  Málningin sem við erum með hér er algjörlega lyktarlaus og maður veit bara ekkert að það sé verið að mála nema sjá það.  Jæja við máluðum, eða ég tók gólflistann og Þráinn rest, svo fór ég út með hundinn aðeins og hann togaði svo í ólína að það small eitthvað í bakinu á mér og ég ætlaði ekki að geta labbað heim svo það var ekki gott en ég slapp við að mála meira.
Við hjálpuðumst svo að að ganga frá og sem sagt byrjuðum að mála kl. 10 um morguninn og búin að koma öllu fyrir lika myndum uppá vegg kl. 18 og tilbúin í kósí laugardagskvöld.
Allt svo hvítt og fallegt og hreint núna. Yndislegt og þá kveikjum við á fullt af kertum til að sóta aðeins meira.
Jæja svo í gær vöknuðum við, við að sólin skein inn um gluggann og þá var búið að ákveða að skella sér í Dyreparken svo eitthvað sérstakt yrði úr þessari 4ja daga helgi hjá okkur Ástrós Mirru. Ég elska þennan dýra- skemmtigarð.  Hann er svo hreinn og fallegur og náttúrulega sama viðmótið þar eins og alls staðar hér í Noregi fólk er svo vinalegt og þægilegt.  Það er alveg sama hvar þú kemur.
Það tók á móti okkur ungur maður í jakkafötum og bauð okkur að ganga eftir rauðum dregli inn í garðinn.  Já það var í fyrsta sinn sem við fjölskyldan gengum eftir rauða dreglinum og það var bara gaman.  Svo komum við inn í garðinn og þá var eitt takmark sem ég var búin að setja. Ég sá nefnilega auglýst að það ætti að vera einhver sýning hjá ljónunum kl. 12.15 svo ég vildi bara að við værum þar aðeins fyrr til að ná góðum stað til að vera á.  Þegar ég fór með Klöru í garðinn þá var einmitt sýning hjá ljónunum og við sáum ekki nógu vel.  Eða sko, ekki ljónunum heldur tígrisdýrunum, já þetta hlýtur að eiga að vera hjá tígrisdýrunum eins og síðast.  Við fundum þau auðvitað fljótt og vel og skoðuðum fram og til baka.  Borðuðum nesti og komum okkur vel fyrir en það hvorki fylltist allt af fólki né kom einhver starfsmaður að fara að sýna eitthvað og þá fór ég að hugsa… já hvort stóð ljónunum og ég ákvað að það væri hjá tígrisdýrunum eða hvað?  Jæja ég hitti stelpur sem vinna í garðinum og spurði og það var rétt.  Sýningin var hjá ljónunum en mikið nutum við þess að vera nánast ein hjá Tígrisdýrunum á meðan.

Svo við ákváðum bara að “So be it” og héldum áfram að skoða dýrin og garðinn sem er svo miklu meira en dýragarður. Og einn uppáhaldsstaðurinn minn í garðinum er Kardemommubærinn og ég var að segja við Þráin að ég væri sko til að vinna þar.  Mikið held ég það sé gaman að vinna á svona stað þar sem allir eru í fríi og að skemmta sér. Og ef ég væri að vinna þarna þá mætti ég syngja lögin úr leikritinu án þess að það þætti asnalegt.  Ég söng nú samt með strákunum á sporvagninum þegar þeir keyrðu framhjá.  En einkennilegt að ég man alls ekki lagið sem ég söng sjálf í þessu leikriti, ætlaði að reyna að rifja það upp þegar ég var stödd inní lögreglustöðinni en gat það ómögulega.

En við Ástrós Mirra skelltum Jesper (Þráni) í fangelsið enda hafði hann bara ekkert verið góður við hana Soffíu frænku.

En svo bætti hann um betur og slökkti eldinn hjá Tóbíasi í Turninum og bjargaði páfagauknum hans svo hann fékk að verða slökkviliðsstjóri enda alltaf langað til þess.

Ótrúlega skemmtilegur staður og rifjar upp skemmtilegar minningar hjá manni.  Því það var stórverkefni þegar LV setti upp Kardemommubæinn á sínum tíma og byrjaði leikritið með bíómynd sem var tekin uppá nýja hrauni og við leikararnir allir í hlutverkum þar líka.
Thorbjörn Egner var með sumarhús hér í Mandal svo Mandælingar eiga svolítið mikið í honum og verkunum hans, eitthvað af verkunum eru sögð skrifuð með þennan bæ sem fyrirmynd og það skýrir líklega ástæðuna að fólki finnist hann minna það á bæ í leikriti.
Svo lentum við á leiksýningu þarna í garðinum í gær og hún byrjaði á því að allir krakkar fengu ókeypis íspinna, það tók nú alveg rúmlega korter fyrir starfsmenn garðsins að hlaupa um með körfur og gefa íspinna enda ábyggilega nokkur hundruð börn á staðnum.  Alla vega voru áhorfendapallarnir fullir af fólki.  En veðrið var gott og bara yndislegt að sitja þarna og horfa á þessu fallegu leikmynd og sjá krakkana gleðjast yfir ísnum.  Okkar stúlka gaf öðru barni sinn ís því þetta var með alls konar bragði sem var kórónað með bringuberjabragði…….. jakk þar var sammála stúlkunni minni en hér í Noregi er ofboðslega mikið berjabragð af öllu og það er ekkert skemmtilegt fyrir okkur mæðgur sem viljum það ekki og erum ábyggilega bara með ofnæmi fyrir berjum nema vínberjum sem eru einu berin sem við borðum.
Jæja svo hófst sýningin og viti menn, eitthvað könnuðumst við fólkið þar.  Bastían bæjarfógeti, Soffía frænka og Tóbías í Turninum.  Svo fóru að sjást í felum 3 skrítnir kallar og svo var sungið og leikið hluti úr Kardemommubænum og Jesper fékk að bjarga páfagauknum úr brennandi turninum og Kasper fékk að leika sér með vatnsslöngu sem hann réði sko ekkert við og sprautaði meira á samleikara sína og áhorfendur en á turninn.  Mikið gaman og mikið skemmtilegt og svo fallegir litir í búninunum þarna.

 

Svo kom annað leikrit og söngur og dansarar sem ég þekki ekki en krakkarnir hér greinilega þekkja það vel og það var ekki minna fallegt vegna litskrúðugra búninga og skemmtilegs söngs og dans.

Við skemmtum okkur mikið vel á þessari sýningu en þá var klukkan farin að nálgast 16 og það er lokað kl. 17 og við áttum eftir að skoða apana og Julius og slöngur og þess háttar dýr. Svo við drifum okkur niður þegar sjóræningasýningin var að byrja svo ég veit bara að ef ég lendi aftur á sýningu þá á ég eftir að sjá eitthvað þarna.
Við fundum apana og hin dýrin og fengum pósu aldarinnar frá einum þeirra.

Ég á eftir að fara yfir fullt af myndum af dýrunum og geri næstu daga ef það hvort eð er heldur bara áfram að rigna hérna en það er sem sagt aftur farið að rigna, við fengum bara þennan fína dag í gær sem var fullkominn í dýragarðinum.
Já ég gleymi að segja að sumum finnst dýrt í þessa garða en það er allt ókeypis þarna inni, ókeypis í öll tæki og hún ætlaði bara að skilja mig stúlkan þegar ég var að spyrja hvar ég keypti miða í sleggjuna.  Tvær, þrjár ferðir í svoleiðis tæki og þú ert búin að borga upp miðann í garðinn.  En reyndar kostar ef þú ætlar að veiða bangsa eða skjóta á dósir til að vinna eitthvað fallegt en það er líka eðlilegt því þar eru vinningar í boði og Þráinn vann svo fallegan bangsa handa mér, bleikan sæhest.  Hann ætlaði að vinna einn stóran handa Erro til að hömpast á eins og við köllum það en þessi er of sætur og of lítill svo ég fékk hann.
En nóg um Dyreparken í bili, meira seinna sérstaklega af myndum því ég tók 401 mynd þarna svo það hlýtur að vera eitthvað eftir til að skoða.  Já flest öll dýrin, ég er aðallega búin að sýna ykkur leiksýningar og þess háttar.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

15.05.2013 06:59
Tvisvar í viku…
vöknum við hér kl. 6 við sorpbílinn.  Á þriðjudögum kemur sérstakur bíll og tæmir gámana hjá Hotelinu við hliðina og á fimmtudögum kemur almenni bílinn og tæmir okkar tunnu sem er nota bene beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann okkar.  Ástræðan fyrir því að þeir koma svona snemma er að hér er ekkert pláss fyrir svona lagað þegar allt er komið í gang og fólk á ferli og bílar á götunum.  En í dag kom annar hvor þeirra, kíkti nú ekki út til að sjá hver það var en það er trúlega út af því að það er 17. mai á föstudaginn svo þeir eru að vinna sér i haginn.   Þannig að þessa daga vikunnar núna vakna ég kl. 5 þegar Þráinn vaknar og svo klukkan 6 þegar sorpbíllinn kemur og ……. hangi í rúminu til 6.30 og gefst þá upp og fer á fætur.  Það er í rauninni allt í lagi nema……. klukkan er bara 4.30 heima á íslandi og langt í það að íslendingar mæti í vinnu, svo ég verð ein að dunda mér hérna í einhvern tíma enn.
En ég var búin að lofa ykkur því að sýna fleiri dýramyndir út Dyreparken og hér koma nokkrar.
Þessir tveir voru eitthvað að slást um völd og á endanum var þessi sem er nær okkur rekinn í burtu með skömm, hann gekk smá lúpulegur í burtu frá hinum tveimur.

Svo er hér smá sería af Tígrunum, hrikalega falleg dýr og mann langar að klappa þeim, ég er viss um að ef ég álpaðist inn í svona búr þá myndi ég gera það, setjast á hækjur mér og segja kisi kis og svo allt í einu fatta að þetta væri ekki kettlingur.  Það væri svo týpisk ég.

Svo sáum við fullt af fólki líka í Dyreparken ég gerði eina syrpu af þeim.  Ég sat og beið á meðan Þráinn og Ástrós Mirra fóru í einhverja rússíbanabraut og sá þá prinsessu og sjóræningja og það svona falleg, ég spurði mömmuna sem gekk á undan hvort ég mætti taka myndir af þeim og það var sjálfsagt.  Einnig er mjög áberandi þarna maður í bláköflóttri skyrtu en hann virtist alltaf vera nálægt mér eða þannig og stúlka í bláum og svörtum bol.  Þau koma fyrir á nokkrum myndum.  En eins og svo oft áður þá var ég líklega ekki með í þessari ferð.  🙂

Jú of cource, var ég með.  Hér er ég sem Soffía frænka en ekki hvað

Ég elska þennan litla Kardemommubæ og ætla að prófa að gista það einhvern tíma, það væri gaman að vita hvað nóttin kostaði þar og hvort það séu einhverjir á ferli á nóttunni sem gætu kannski rænt manni. 🙂
Við hjónin fórum á foreldrafund í Blomdalsskolen sem Ástrós Mirra fer í næsta haust, þe. unglingaskólinn hérna hjá okkur. Mjög flottur skóli enda hafði Þráinn verið að vinna við hann, þetta er frekar ný bygging og með stórum skólastofum og það er svona sjálfvirknibúnaður í skólanum sem virkar þannig að það er nemi á þakinu sem nemur hvar sólin er og dregur þá tjöld fyrir þá glugga osfrv.  Kúlt.  Það verða þarna 5 bekkir úr tveimur skólum sem blandast saman og ef ég skildi þetta rétt þá eru þetta litlir bekkir en samt allir með 2 umsjónarkennara.  Ástrós Mirra þarf núna í vikunni að gera upp við sig hvaða 2 erlenda tungumál hún vill læra og er í boði, spænska, franska og þýska og svo ýtarlegri enska.  Enskan er óvinsælust hérna og það skýrir kannski hvers vegna svona mikið af norðmönnum tala ekki ensku þrátt fyrir að það er byrjað að kenna hana í 1 bekk í dag.  Það hefur reyndar ekki verið svoleiðis lengi en þó í einhvern tíma.
Annað sem stúlkan þarf að gera upp við sig er hvaða valfag hún ætli sér að taka, þau eru 5 í boði og ég skil ekki alveg hvað þetta er allt saman á eftir að skella þessu í G-trans til að vera viss en eitt fag er greinilega eitthvað svona sviðs- tónlist- leiklist eitthvað, annað er vöru og markaðssetning einhvers konar og sýnist mér þau kannski eigi að baka einhverjar bollur, markaðssetja þær og selja.  Mjög spennandi.  Svo er eitthvað heilsu og líkamsrækt.  Svo er eitt sem eru einhvers konar rannsóknir og rannsóknaraðferðir, þarf að skoða það betur og að lokum það sem mér leist best á (já ég veit ég er ekki að velja hér svo ég segi sem minnst við dömuna, hún þarf að velja sjálf) og það heitir Design og redisign, það er textíl og hönnun og þar munu þau læra að nýta gamla hluti og gera eitthvað úr þeim, ég heyrði eitthvað um að koma með gömul sængurver en náði ekki hvað ætti að verða úr þeim, heyrði líka að koma með gamlan stól og gera hann upp osfrv. Þetta eru allt mjög spennandi valkostir og frábært að fá tækifæri til að velja sér svona fag á þessum tímapunkti.
Fleira spennandi er að gerast hjá stúlkunni okkar, hún er að fara í skólaferðalag í lok mánaðarins og þar verður gist eina nótt og farið í fjallaklifur og riverrafting og eitthvað fleira skemmtilegt.  Ástrós er þó smá kvíðin því stelpurnar tvær sem hún þekkir best fara ekki. Það er eitthvað vegna siða þeirra lands að þær fá ekki að fara og gista með ókunnugu fólki eða þannig.  En vonandi kynnist Ástrós Mirra bara nýjum krökkum í þessari ferð.
3ja spennandi sem við vorum að komast að í vikunni og það er fermingarfræðslan fyrir íslensk börn í skandinavíu.  Íslenskt börn sem búa í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hittast tvær helgar yfir veturinn í Svíþjóð og far með flugi, lest eða hvað sem þau þurfa til að komast á áfangastað og kostar þetta eitthvað rosalega lítið miðað við umstang og þarna sjáum við fram á að þó það verði 3ja tíma fjarlægð á milli Ástrósar Mirru og Söru þá munu þær fara saman í þetta.  Geggjað spennandi og þá sýnist mér búið að ákveða að hún fermist á næsta ári eins og hennar jafnaldrar á Íslandi en ekki 15 ára eins og jafnaldrar hennar hér.  Svo á eftir að útfæra það betur, þe. ferminguna enda ár í hana ennþá.

Svo eins og þið heyrið þá er fullt í gangi hér eins og alltaf og núna næsta föstudag er 17. mai og þá verða mikil hátíðarhöld sem við ætlum að taka þátt í og eins ætlum við að grilla saman nokkrir íslendingar í hádeginu þá hjá Margreti og Jóni.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

18.05.2013 07:40
Kardemommubærinn minn
Já ég bý í Kardemommubænum, hann er reyndar kallaður Mandal dags daglega en það er ég viss um að Thorbjörn Egner sem átti sumarhús hér í Mandal hefur verið með þennan bæ í huga þegar hann samdi Kardemommubæinn.

Það var 17. mai þjóðhátíðardagur Norðmanna í gær og við vöknuðum við fallbyssuskot kl. 7, þá eru bæjarbúar vaktir þennan dag.  4 fallbyssuskot og svo gekk lúðrasveitin hérna framhjá en þeir voru á leiðinni upp í skóla þar sem allar lúðrasveitirnar og allir skólar og leikskólar bæjarins hittast og fara í skrúðgöngu um bæinn.  Sú skrúðganga er kölluð barnagangan.  Hún hófst kl. 9 og þá var fólk komið í sparifötin, þjóðbúningana og tilbúnir fyrir daginn.  Ég elska þetta.
Við lentum nú í smá vandræðum með klæðnað á Ástrós Mirru því hún á nánast engin spariföt, er ekki týpan til að ganga í kjól en hún skellti sér bara í leggings og fallega skyrtu og peysu yfir og leyfði mér að flétta sig.  Svo falleg stúlkan okkar þegar hún fór að stað uppí skóla.  Já ég gleymdi að segja ykkur að það er skyldumæting hjá krökkunum í þessa skrúðgöngu.

Við hjónin drifum okkur heim til foreldra Arnfinns en það var búið að bjóða okkur að vera með þeim að fagna deginum og við ákváðum að það væri mesta upplifunin að vera á meðan heimamanna.  Þar var tekið vel á móti okkur og labbað svo út á götu og þar “eiga” þau einn ljósastaur við götuna.  Fólk á sinn stað og stendur þar ár eftir ár og fagnar börnunum í bænum.  Svo við fengum okkur stæði með þeim þarna og vorum voða glöð því þetta var fínn útsýnisstaður fyrir okkur.

 

Því miður rigndi mikið í gær og það var sko ekki eftir spánni, því það var búið að spá sól, en hún var í hjarta fólksins ekki spurning.
Svona stendur fólkið meðfram götunum í bænum og fagnar.

Allir spariklæddir og glaðir.
Sumir bara í stuði eins og þessir tveir.

En því miður fór svo að rigna meira og það er alveg sama hversu glaður þú ert að fagna þjóðhátíðardeginum að þegar þú ert orðinn rennandi blautur í fæturna og hárið rennandi blautt þá er ekki alveg sama gleðin.  En þó voru menn bara brattir hérna og létu þetta ekkert á sig fá, mjög margir voru með regnhlífar við tókum eina með okkur og reyndum að hitta á Ástrós Mirru aftur í göngunni til að lána henni regnhlífina því hún var bara á peysunni.

Svona leit gatan okkar út þegar skrúðgangan kom þangað.

En lúðrasveitin var ekki með regnhlíf og varð bara að brosa aðeins meira til að bíta rigninguna af sér

Konur í þjóðbúningum fóru ekki í kápu utanyfir því þá sést ekki að þú sért í þjóðbúningi, þær ganga bara um á kjólnum í rigningunni, sem reynda stytti svo upp eftir hádegi og þegar seinni gangan var kl. 16 var komin 18 stiga hiti og næs. Skýjað en dásamlegt veður í skrúðgöngu.
En þegar barnagangan var búin hittast krakkar og foreldrar uppí skóla og þar eru alls konar leikir í gangi og mikið gaman. Við skelltum okkur á kaffihús og fengum okkur kaffi og bjór, allir veitingarstaðir og kaffihús í bænum full og allir svo glaðir og kátir.  Fólk heilsast og gratulerar med daginn, brosir og bara allir eitthvað svo hamingjusamir.
Við fórum svo í hádeginu og grilluðum með Margréti, Jóni, Kristínu og Skúla (og auðvitað strákunum líka) og það var æðislegt, fyrir utan að það rigndi og ekki hægt að vera úti.
Við tókum okkur svo klukkutíma pásu seinnipartinn heima og fórum svo aftur út kl. 15.30 hérna uppá brú en þar kemur borgargangan framhjá og ekki er hún síðri en barnagangan.
Þá var aftur hleypt af fallbyssunum og ég hrökk jafnmikið í kút við hvert einasta skot og náði engum myndum af því þar sem ég er svo svifasein.  Eða var reyndar að taka myndir í hina áttina og svo gerðist þetta svo skyndilega.
En í seinni skrúðgöngunni kemur meira að fullorðnu fólki og öll íþróttaliðin og unglingar bæjarins eiga stóran þátt í þessari göngu sem ég ætla að sýna hér fyrir neðan með myndum.
Fyrst kom lúðrasveit fullorðna fólksins.  Tignarleg og flott.

Svo kom stelpulúðrasveitin
Svo strákalúðrasveitin og vitiði krakkarnir eru stolt að vera í þessum sveitum og bera þessa búninga stolt.

Og svo fóru að koma íþróttafélögin. Fyrstir komu Týrarar (eða við Þráinn köllum þau það bara)

Svo komu Þórarar.

Og nú leið okkur Þráni eins og við værum heima hjá okkur, eitt grænt lið og eitt blátt lið alveg eins og í Eyjum í gamla daga.
Svo komu dansarar.

Og annars konar dansarar

Svo kom hjólaklúbburinn
Rauði krossinn

Þessi voru líklega úr leikfélaginu eða kannski einhverjum danshópi líka,  en ég er þó ekki viss.

Svo komu unglingarnir (eins og þetta hafi ekki allt verið unglingar líka)
Svona bílalest eru þau með, einir 20 bílar sem þau eru búin að mála og skreyta, með tónlist úr skottinu og krakkar uppá þaki, hangangi út um hliðardyr og bara geggjað fjör.

Frábær skrúðganga og eins og ég hef sagt áður, minnti á Gay pride.  Svo þegar hún var komin í gegn, þá löbbuðum við í gegnum bæinn og fórum aftur heim til foreldra Arnfinns, þeirra Arnfinns og Sigrúnar og ég hélt að það ætti að vera kaffi þar en það var sko aldeilis ekki.  Heldur kvöldmatur og þarna voru fleiri gestir en við, þe. tvenn eldri hjón vinir þeirra og boðið var uppá lax, skinku, rækjuhlaup og alls konar rétti.  Bjór með matnum, bjór eftir matinn og svo kaffi og koníak og allt þetta fyrir kl. 19.  Hér er ekkert beðið með mat og drykki þar til komið er langt fram á kvöld.  Svo fórum við hjónin heim um kl. 19.30 og splæstum kínverskum mat á dótturina sem hafði bara verið heima allan seinnipartinn.  Hún var ekkert smá ánægð með okkur því það er hennar uppáhald.
Frábær dagur með frábæru fólki og í dag er sól og spáir 20 stiga hita og sól.  Ég held ég fari bara bráðum út.

Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

20.05.2013 09:12
Ég á líf…
Var bara helv. gott og flutningur Eyþórs frábær en það er bara ekki nóg.  Ég hélt nú reyndar að við yrðum ofar en þetta en ég hef bara aldrei verið getspá eða heppin í spilum svo það þýðir ekkert að fást um það.  En að Danmörk hafi unnið get ég bara ekki skilið þvi það lag gerir ekkert fyrir mig annað en að mig langi til að slökkva.  Er ég eina manneskjan sem þoli þessa flautu þarna ekki, ég fæ svona þreytu- leiðatilfinningu þegar lagið er spilað og mínútunni eftir að það er búið man ég ekkert úr laglínunni, það er ekki gott lag.  Gott lag á að límast á heilann það er ekki spurning.  Af þessum löndum sem voru að berjast um efsta sætið í gær, þá fannst mér hin 2 bæði miklu betri.  Sjóvið var svo flott hjá Asjerbædjan og dansinn í kassanum æði, en þetta er sönglagakeppni ekki sviðsframkomukeppni og ég held það gleymist hjá flestum þeim sem eru að kjósa og því myndi ég segja að Ukraina hafi verið best, frábær söngkona og flott lag.  En mér fannst óvenjumörg flott lög í þessari keppni í ár og já Danmörk var ekki eitt af þeim lögum.  En það er alltaf gaman að giska þó það sé alveg út í hött.

Mér var ráðlagt að horfa á keppnina þannig og giska hvort ég héldi að lagið kæmist áfram í staðinn fyrir að setja minn smekk á valið og það virkaði betur en það er bara samt svo leiðinlegt að mega ekki hafa sinn smekk í þessu svo ég leyfði mínum smekk að vera allsráðandi í gær og það fór sem fór.
Annars var gærdagurinn alveg frábær dagur, langur og mikið gert og mikið gaman.
Ég byrjaði á að fara með Kristínu Jack út á Sjosanden og taka myndir af henni.  Tókum með okkur stól og borð og kertastjaka og stilltum upp þarna.  Bara gaman og sjá það virkar þetta með þrífótinn, hann er svo vígalegur að fólk ber ákveðna virðingu fyrir honum og labbar ekki fyrir myndavélina heldur fer bara aðra leið.  Eins virkar það með stóra linsu á bæjarhátíð, fólk færir sig aðeins frá ef linsan er stór.

Þegar við Kristín vorum búnar að leika okkur saman þá fórum við og sóttum Nemó og svo Þráin, Ástrós og Erro sem voru búin að pakka niður í tösku stranddóti og við skelltum okkur á ströndina í smá sólbað.  Vorum þar í 2 tíma en þorðum þá ekki að vera lengur svo ég myndi ekki brenna.  Er alltaf frekar passasöm fyrsta sólbaðið á árinu meðan húðin er að venjast sólinni.

Svo fórum við heim, dóluðum okkur aðeins inni, guðslifandifegin að komast smá stund úr sólinni (það var 29 stiga hiti) en svo ákváðum við að fá okkur göngu í miðbæinn og kíktum á Jonas og fengum okkur bjór og kók og enduðum svo á að splæsa bara í pizzu þar.  Sátum úti að borða og það var svo næs, bara við 3 saman.  Svo var farið heim og tekið smá karioki og hvíld og svo Júróvísion um kvöldið.  Frábær dagur, kvöld sem endaði með þvílíkum þrumum og eldingum og ljósasjóvi á himninum og svo úrhellisrigningu.

Vöknuðum í morgun alveg að kafna úr hita og erum að velta fyrir okkur hvað skuli gera í dag.  Það verður sama veðrið og í gær og svo gestir í mat í kvöld.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

21.05.2013 07:10
Frábær hvítasunna…
ég fann svo sem ekkert fyrir því að það væri hvítasunna en frábær helgi að baki og við alsæl með lífið og tilveruna.
Þetta byrjaði nú með 17. maí á föstudaginn og ég tók mér frí til að geta tekið þátt hér með norðmönnum eins og ég var búin að segja ykkur frá, svo kom laugardagurinn og þá vöknuðum við í þessu líka blíðskaparveðri. Ég var búin að dobbla Kristínu Jack í myndatöku og við ætluðum að hittast eftir hádegi en ég fékk hana af stað fyrr því ég sá að það var það mikil sól að það yrði erfitt að mynda eftir hádegið, það var meira að segja á mörkunum þarna fyrir hádegi því sólin var farin að vera svo sterk að Kristín hreinlega táraðist við að reyna að brosa.  Samt heppnaðist myndatakan fínt og takmarkinu náð að láta hana sitja á stól með borð og kerti og bók og hafa það huggulegt við sjóinn.
En hitinn þennan dag fór uppí 29 gráður þegar sem heitast var og við þökkuðum nú bara kærlega fyrir vindinn.

Svo á sunnudaginn eftir Júróvision og allt það fjör þar sem kom í ljós að mín endemis bjartsýni á ekki við rök að styðjast þegar kemur að þessari keppni, er sjaldan sammála með vinningslagið og spái okkur Íslendingum alltaf allt of hátt.
En hvað um það, ég jafna mig á því alltaf mjög hratt og vel og held bara áfram með lífið sem var alveg jafn gott á sunnudaginn eins og á laugardaginn.  Við ákváðum að fá okku göngutúr á Ulsvika sem er frábær staður sem Þráinn var búinn að sýna mér einu sinni og mér fannst tilvalið að labba þangað núna í þessu góða veðri.  Veðrið á sunnudaginn var ekkert eins og á laugardaginn aðeins 26 gráðu hiti og ennþá vindur.

Nei þetta er auðvitað bara geggjað veður og við svo alsæl með þetta og sem sagt löbbuðum saman að Ulsvika.  Og nú segja myndir meira en nokkur orð.
Já það er eitthvað mjög svo sjarmerandi að sjá fimmtuga kellingu í kjól og sandölum að klöngrast í klettunum og skil ég Þráin vel að hafa smellt mynd þarna, en hann tók af mér myndavélina svo ég færi nú ekki að skemma hana í þessu klöngri mínu.  En ég sem var alltaf í Flekkuvíkinni í gamla daga með afa og ömmu er alvön að klöngrast í fjörum.  Eða sko var alvön.  Já sko það eru reyndar 40 ár síðan ég var alltaf í fjörunni í Flekkuvík en ég kann þetta alveg og finn engan mun………. eða sko hann er nú samt eitthvað þyngri botninn á mér í dag eða svo sýna myndir en innan í mér er ég ennþá eins og 10 ára stelpa sem hleyp léttilega í klettunum og hoppa milli steina með ballettilfinningu.  Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur?  Mind over body, sagði einhver.

En þetta er sem sagt þessi fallegi staður Ulsvika og er eins og paradís á jörð.  Þarna var fólk að grilla og veiða krabba og eiga huggulegan dag saman.  Við fórum meira í klettana og sátum þar og nutum góða veðursins og leyfðum Erro að vera lausum þar.  Hann elskar það.  Þessi staður er lagaður til af manna höndum og þetta í raun svið og áhorfendapallar sem eru steypt þarna.  Ég stend á áhorfendapöllunum að taka myndina.

Á leiðinni heim frá Ulsevika sáum við hausthúsið mitt í sumarbúningi og vá hvað mér finnst þetta hús geggjað.

og svo var farið sem leið lá niður í bæ og keyptur ís á línuna, eða þannig.  Erro fékk reyndar ekki neitt enda hundur sem hefur meira gaman að þefa af ruslatunnunni en að reyna að fá ís frá okkur.
Síðan var haldið heim og lærið sett í ofninn og undirbúið hvítasunnulambið.  Það var norskt lambalæri í þetta sinn og norskir vinir sem komu í mat en við vorum búin að bjóða Arnfinn og Juliu í mat en strákarnir eru hjá pabba sínum þessa helgina.  Þau voru að smíða pall alla helgina og voru svo útitekin að það var eins og þau væru að koma frá Spáni.
Yndislegt kvöld með góðum vinum, nánast bara töluð norska og Arnfinn er svo harður að þegar Julia greip einu sinni í enskuna þá sagði hann, nei nei þú átt að tala norsku við þau og þau spurja ef þau skilja ekki.  Svona eiga fleiri að vera, enda mjög auðvelt að tala við þau og spyrja bara hvernig segir þú þetta á norsku og svo framvegis.
Mánudagurinn annar í hvítasunnu, ég vaknaði og var að hugsa á norsku.  Og byrjaði að segja við Þráin hvad skal vi svo gjøre i dag? Hann var auðvitað steinhissa á norskunni í mér en þetta var bara fyndið.  Bara af því að ég var að tala hana þar til ég fór að sofa þá vaknaði ég með norskuna í höfðinu.  Greit.
Við vorum búin að ákveða að fara aftur að Ulsvika í dag og grilla þar.  Ég skoðaði Yr.no og það átti að rigna smá fyrir hádegi og fara svo að vera sól uppúr kl. 14.  Frábært, þá er hægt að ryksuga og laga aðeins til í íbúðinni (því við gerum það ekki oft enda alltaf bara að leika okkur allan daginn) ég breytti smá á skrifstofunni minni og tók hilluna út og það stækkaði herbergið helling og birti aðallega og gerði Ástrós Mirru auðveldara að labba framhjá stólnum mínum til að komast að sínu skrifborði.  Allt annað líf hérna inni núna og eins og maður hefur oft komist að, það þarf ekki mikið til að breyta til og láta manni líða betur.
En það var ennþá skýjað uppúr kl. 13 og enn kl. 14 og Þráinn og Ástrós farin að spyrja hvar sólin sé og ég sagði að hún ætti að koma uppúr kl. 15 og vera alveg komin kl. 16 svo við skyldum bara fara að pakka niður grillmatnum, kolunum og öllu sem þarf og fara af stað.  Í þetta sinn var farið á bílnum en hann er notaður kannski einn dag í viku ef það er svo oft.
Veðrið var dásamlegt þegar við komum þarna þó engin væri sólin og þar sátu 3 ungmenni og voru að njóta lífisins, búin að kveikja smá varðeld og hafa það huggulegt.  Þau sögðu okkur bara að leyfa Erro að vera lausum en ég var einmitt búin að ákveða að spyrja þau bara því þau voru hvorki með börn eða hunda.  Hann var auðvitað himin lifandi.  Svo röltu þessir krakkar af stað og við urðum ein eftir. Þráinn fór að kveikja undir kolunum og ég að taka myndir á tíma með þrífót og filter.  Mér sýnist ég bara vera að ná fínum myndum með þessari aðferð.

Svo erum við komin með standart búnað í töskuna okkar sem ég keypti í Ikea og sé sko ekki eftir, algjör snilld þessi taska á hjólum sem hægt að vera með teppi, dúk, diska, glös og blóm til að setja á borðið þegar kemur að því að grilla.

Ekki amarlegt líf þetta, grillað og borðað á svona fallegum stað.  Við erum alveg á því að þetta sé skemmtilegra en að grilla heima á svölunum því þar hefði Þráinn staðið einn úti, ég hefði verið að gera eitthvað inni, búa til sósu og finna til grænmeti og Ástrós Mirra verið að gera það hana langaði til.  En af því að við eigum hvorki svalir sé garð þá þurfum við að fara svona út á við og erum þar saman að gera þetta.  Og notum pappadiska og ekkert uppvask eða umstang heima við.
Og útsýnið er stórkostlegt og Erro er frjáls og leikur sér á meðan.

Svo vorum við komin heim um kl. 17 eða rúmlega það og þá vorum við svo heppin að hitta á mömmu, Sigga og hana elsku ömmu mína á skype.  Ég er svo ánægð hvað Siggi og mamma hugsa alltaf um þetta þegar amma er hjá þeim á svona helgum og henni finnst voða gaman að sjá okkur og tala við okkur.  Hún nefndi það einmitt í gær hvað hann afi hefði orðið hissa hefði hann fengið að sjá svona símtöl.
Heyriði já, svo átti hann pabbi auðvitað afmæli um hvítasunnuna eða þann 19. mai og þá eigum við mamma báðar skírnarafmæli og Konni bróðir og Drífa brúðkaupsafmæli svo sá dagur er stór í okkar fjölskyldu.  Við heyrðum að sjálfsögðu í kallinum og hann er alltaf hress og kátur, var að raka sig og hafa sig til fyrir daginn.  Alltaf sama pjattrófan.
Jæja elsku vinir, eigiði góða vinnuviku (bara 4 dagar einu sinni enn) ég elska maimánuð með öllum sínum aukafríum.
Það er komin glampandi sól og stefnir í dásemdarveður hér í dag.  Ég dreg bara fyrir svo ég geti unnið.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna í Kardemommubænum.

 

24.05.2013 06:51
Ánægð með Eyjamenn….
Já ég er ánægð með Eyjamenn núna að hafa hafnað því að byggja þetta forljóta hótel í Hásteinsgryfjunni.  Ég er samt svo hissa á rökum þeirra sem vilja hótelið.  Skapar 40 – 50 störf.  Bíddu það er hótel í Eyjum sem er að stækka og þeir eru hræddir við að hafa farið of geyst og menn tala um að það vanti gistirými 3-4 helgar á ári.  Þá skapar nýtt stórt hótel ekki 40 – 50 störf nema menn séu alveg öruggir að bæta við ferðamannafjöldann.  Það koma ekkert fleiri ferðamenn til Eyja þó það sé hótel í gryfjunni.  Þeir koma til Eyja til að skoða náttúruna og hún sést þá ekki þarna fyrir hótelinu, það er nokkuð ljóst.  Svo er annað, hver vinnur þessi 40 – 50 störf?  Eru íslendingar æstir í að vinna við hótelstörf og skipta á rúmum og hreinsa til í herbergjum?  Öll hótel sem ég hef farið á, á Íslandi eru með útlendinga í þessum störfum. Það eru bara íslendingar í fínu störfunum og þau eru ekki 40 – 50 heldur kannski 10-15 sem er allt annað mál.
Og þetta sama fólk talar um að þetta sé gömul malargryfja sem sé bara lýti á náttúrunni.  Bíddu nú við, hvað meinið þið?  Er þetta ljótt?  Þessi litadýrð og fegurð þarna í berginu er stórkostleg.
Þessar myndir hérna eru frá henni Konný systur en hún skrapp þarna uppeftir gagngert að taka myndir til að sýna fólki þessa fegurð.

Og hvort sem þetta er gömul malarnáma eða ekki það skiptir bara engu máli.  Náttúruperlur geta orðið til að frá náttúru sem mennirnir áttu eitthvað við samanber Rauðhólarnir og hvernig er ekki með Kerið í Grímsnesi, hafið þið skoðað það hinum megin frá?
Ég er ansi hrædd um að það yrði uppi fótur og fit ef það ætti að byggja svona hótel í Rauðhólunum og skemma þá fegurð sem þar er.  En trúlega finnst þeim sem finnst Hásteinsgryfjan ekki falleg, Rauðhólarnir ekki heldur fallegir og þar erum við komin að vandamálinu og það er að svo mörgum íslendingum finnst ekkert fallegt í náttúrunni nema það sé grænt eða blátt.
Ég man vel í gamla daga þegar fólk í kringum mig var að tala um hvað það væri ömurlegt að hafa Keflavíkurflugvöll þar sem hann er því þá þyrftu útlendingar að keyra Keflavíkurveginn og það væri ljótasti parturinn af Íslandi sem þeir færu þá í gegnum.  Svo leiðinlegt að taka á móti þeim með þessu ljóta landslagi.  Já einmitt, Reykjanesið er uppáhaldsljósmyndastaðurinn minn því það er svo margbreytilegt og stórfenglegt.  En þar eru ekki græn tún eða fossar ég veit það, en Guð minn almáttugur það er svo margt annað líka fallegt.
En svo aftur að hóteli í Hásteinsgryfju, þá er ekki bara að staðurinn er of fallegur og ekki má eyðileggja hann með byggingu heldur myndi ég hvergi vilja sjá þessa byggingu í Vestmannaeyjum, því hún er svo forljót að ég hef sjaldan séð annað eins.  Hvernig dettur mönnum í hug að fara að byggja svona hús á svona fallegri eyju.  Ég held að þessi arkitekt sé alveg úti að aka með að teikna hús sem fellur í umhverfið eða það sýnist mér miðað við þessa teikningu.  Hef ekkert annað séð frá honum, veit ekki einu sinni hvað hann heitir og það skiptir mig svo sem engu máli, þetta verk hans er ekki fallegt að mínu mati, bara eins og risastór steinsteypukumbaldi með engar fallegar línur.

Ok, aftur að þörfum Eyjamanna fyrir nýtt hótel, það er til bygging í Eyjum á frábærum útsýnisstað sem talað var um að breyta í hótel (að mér skilst af þessum sömu mönnum og ætluðu að byggja þetta hótel) og það er Fiskiðjan niðrí á bryggju.  Ég myndi nú heldur velja mér það að vera á hóteli niðrá bryggju með útsýni yfir bátana og mannlífið í Eyjum að ég tali ekki um Heimaklett að annað hvort sjá hann út um gluggann eða það fyrsta þegar þú kemur út, það gerist nú ekki fallegra.  En líklega finnst þessum mönnum golfvöllurinn fallegri og þá erum við komin að kjarna málsins og af hverju þetta hótel þarf að vera þarna í gryfjunni því þá þurfa golfarar ekki að labba í golfið.  Hljómar svolítið einkennilega því rökin sem ég heyri alltaf með því að fara í golf er að það sé svo góð hreyfing, þessi ganga geri fólki svo gott svo það hlýtur að vera betra að hafa hótelið aðeins lengra frá og menn gangi í gegnum þann fallega bæ, Vestmannaeyjabæ til að komast út á golfvöll.  En það er kannski sama með þá sem eru í golfinu og í svo mörgum öðrum íþróttum (til að styrkja sig og stæla) að þeir vilja fara á bílnum að íþróttinni, þetta hef ég nefnilega aldrei skilið hjá Íslendingum og nú er ég aðeins komin út fyrir þráðinn en ætla samt að halda áfram, við keyrum allt.  Við tökum ekki strætó það er fyrir neðan okkar virðingu, líka þó við séum gjaldþrota þjóð.  Við löbbum ekki í vinnu eða út í búð þó það sé í 20 mín. göngufjarlægð.  Við keyrum.  Svo kaupum við okkur kort í ræktinni eða klífum 50 fjöll á fimmtíu vikum og borgum hellings peninga fyrir það í staðinn fyrir að labba bara í vinnu eða hjóla og kíkja svo á fjöllin í nágrenninu þegar er laus tími.  Kaupum okkur tíma á golfvellinum því það er svo hollt að ganga en keyrum þangað.  Ég held stundum að við íslendingar séum skrítnasta þjóð í heimi en ég elska íslendinga og elska að vera íslendingur en við erum svo oft ósamræm sjálfum okkur.  Ég er nú þekkt fyrir það að þola ekki líkamsrækt en ég elska það hér í Mandal að ganga og ég er að segja ykkur fólk sem þekkið mig að ég fer í 2ja tíma göngu út í skóg eða uppá fjall eftir vinnu, gleymi að elda kvöldmat því það er svo gaman að ganga úti í náttúrunni.  Ég veit ég gerði þetta ekki heima en ég er hrædd við rok.  Hér er aldrei rok og ég er alltaf að dröslast með peysu því heima ferðu ekki út úr húsi án þess að hafa aukaföt með en það þarf ekkert hér, það er sama veðrið allan göngutúrinn.  Svo ég verð að segja að ég skil alveg að fólk sé ekkert æst að vera úti að labba en þetta er samt svo skrítinn hugsunargangur.  Það er oft eins og við gerum frekar hlutina ef þeir kosta eitthvað, samanber dýrin, það er hugsað betur um þau sem kosta mikið en þau sem kosta ekki neitt og ef hluturinn kostar ekki neitt þá er nefnilega ekki hægt að metast um hann við náungann.
Jæja nóg af bulli í þetta sinn, ég veit ég á þetta til og nú veit ég um fólk sem mun skellihlægja því kannski líkar því einmitt við bullukollinn Kristínu sem er samt að breytast svo mikið eftir að hún flutti í annað þjóðfélag og annað umhverfi.  Hérna er fólk miklu nær því sem var þegar ég var krakki og mér líkar það svo vel.  Hér er mjög erfitt að keyra börnum í skólann og ekki gert ráð fyrir því.  Verður skelfileg umferðarteppa ef of margir gera það enda sagði skólastjórinn þegar við spurðum um skólabíla og fleira því okkur fannst við búa svo langt frá skólanum þegar við vorum í Langåsen að það væri nú ekki nógu langt til að taka skólabíl og hér kæmu krakkarnir bara á hjólum þau sem búa lengra frá.  Einfalt. Og hér er ekki gerð krafa um að laga aðkeyrslu að skólum því það er ekki í boði og er ekki hluti af kúltúrnum að keyra börnin í skólann.  Og sko mjög oft eru foreldrarnir farnir í vinnu áður en börnin fara í skólann, því hér byrjar fólk að vinna kl. 7 en skólar byrja ekki fyrr en 8.30, þannig að börnin þurfa bara að koma sér sjálf af stð og hér eru alls staðar hjólagrindur og ég bý nú fyrir ofan hjólabúð og verkstæði og það koma nokkur hjól inn daglega til viðgerðar og hér sér maður 85 gamlan mann með staf hjóla svo heim til sín.

Og það minnir mig á að Ástrós Mirra spurði mig um daginn hvort ég héldi að það væri meira af gömlu fólki í Noregi en á Íslandi.  Ég horfði á hana og fattaði svo og svaraði henni að það héldi ég nú ekki en líklega væri bara meira af gömlu fólki á ferli hér, bæði hjólandi og á svona litlum golfbílum eða hvað sem á að kalla þessa litlu rafbíla, mættum einni á svoleiðis í fjallgöngu um daginn og hún var ábyggilega með drif á öllum og lét sko ekkert stoppa sig og svo er fólk bara almennt meira á ferli hér á götunum gangandi.
Jæja þá að okkur, við erum búin að hafa það fínt í vikunni, ekki sami hitinn lengur og það voru bara 6 gráður kl. 6.30 í morgun þegar ég vaknaði en það er sól svo það verður fljótt að hlýna.  Það er bara búið að vera frekar mikið að gera í vinnunni svo ég hef lítið gert annað en vinna og elda mat og hanga með familíunni.  Fór reyndar í 2ja tíma göngu með Margreti um daginn og það var æðislegt, við reyndar villtumst og fundum ekki staðinn sem ég ætlaði með hana á en það kemur bara næst, við vorum alveg búnar á því þegar við komum til baka og þá komumst við líka að því hvað við vorum búnar að vera lengi, ég ætlaði að skreppa í smá göngu með henni og svo heim að elda mat og þess háttar en ég kom heim kl. 20 um kvöldið og auðvitað Þráinn byrjaður að elda þá og við borðuðum kl. 20.30 sem er ansi seint fyrir fólk í Noregi sem fer að sofa uppúr kl. tíu.
Í kvöld er svo út að borða og karaókí með íslenskum vinum okkar hér í Mandal og það verður bara æðislegt.
Eigið góða helgi elskurnar og munið að horfa stundum á nærumhverfið en ekki bara fjær. Ykkar Kristín Jóna

 

27.05.2013 07:40
En god helg…
Já þær gerast ekki betri helgarnar en þetta, við fórum á föstudagskvöldið út að borða á Jonas og vorum þar 7 manns saman komin og var það mjög gaman en karaokinu var sleppt þar sem fólk var almennt ekki í stuði og aðallega vegna slæmra veikindafrétta hjá einum úr hópnum.  En við áttum góða stund á Jonasi og svo fórum við bara heim og skelltum á einni bíómynd sem við reyndar náðum ekki að klára því augun vildu bara lokast, enda föstudagur og almenn þreyta eftir vikuna.
Laugardagurinn rann upp fagur og hlýr en engin sól, svo við ákváðum að fresta strandferðinni til sunnudags og ákváðum að græja gamla hjólið hennar Ástrósar Mirru og fara öll 3 í hjólatúr og ég þá á nýja hjólinu hennar.  Þetta var svo skemmtilegt og máltækið að þetta er eins og að hjóla það gleymist ekki er alveg satt því ég hef ekki stigið á reiðhjól í 25 ár ca. og þorði nú ekki að hafa myndavélina í grindinni á hjólinu þegar ég byrjaði en auðvitað hjólaði ég bara af stað og ekkert að jafnvæginu svo við skelltum okkur í smá túr út í Buøya sem er mjög þægileg og bein leið.
Komumst að því að gamla hjólið hennar Ástrósar Mirru hefðum við alveg eins átt að selja heima því það er orðið of lítið fyrir hana og nú ætlum við að selja það hérna og kaupa nýtt handa mér.
Svo var okkur hjónum boðið í súpu til Ellu út í Tredje þar sem hún býr núna, dásamlegur staður í sveitinni og þvílíkt gott veður án sólar og bara borðað úti og setið til kl. 9 um kvöldið.  Mikið gaman og þar hitti ég í fyrsta sinni konuna hans Egils tannlæknis en þau eru í fjarbúð, hann býr hér en hún á Akureyri.
Það er allt orðið svo ofboðslega grænt hérna núna og það gerðist bara á 3 dögum nánast og þetta tré sem er í kirkjugarðinum var nánast fyrir viku síðan lauflaust og núna er það svona.

Svo vöknum við í gær við að sólin er að steikja okkur og auðvitað var bara eitt plan fyrir daginn og það var að fara á ströndina.  Við dóluðum okkur aðeins og pökkuðum svo í fínu strandtöskuna okkur nesti og teppum og því sem þarf á ströndinni og fórum af stað rétt fyrir hádegi.  Máttum þakka fyrir að fá bílastæði enda erum við í Noregi og þar fer fólkið út löngu fyrir hádegi.  Held það sé alls ekki þannig hér að krakkarnir horfi á teiknimyndir á laugardagsmorgnum og foreldrarnir sofi lengur.  En hvað um það, við fundum okkur gott pláss aðeins frá hinu fólkinu þar sem við vorum með Erro og ætluðum að prófa að reyna að venja hann við að vera með okkur á ströndinni án þess að það sé leikið við hann stanslaust.  Það var ekkert auðvelt, hann fór í sjóinn og velti sér í sandinum og svo vildi hann bara leggjast á teppið eða helst ofan á Þráin svo við urðum að binda hann það langt frá okkur og með það stuttu bandi að hann komst ekki alveg til okkar.  En hann lá svo bara rólegur og hafði það huggulegt.  Þetta gekk allt í lagi enda bara í fyrsta sinn sem hann fer með okkur á ströndina.  Við þurfum að koma okkur upp svona staur sem við stingum niður og getum bundið ólina hans í svo hann sé á góðum stað.  Aðalatriðið er að finna honum stað í skugga því hann var að kafna.

Það var bara dásamlegt að liggja þarna í 26 stiga hita því það var gola með svo við vorum ekkert að kafna, en Ástrós Mirra átti eitthvað erfitt með að liggja þarna og fór heim á undan okkur og labbaði bara með hundinn.  Það var bara fínt þá fengu þau bæði hreyfingu í sólinni og við smá næs tíma án hunds, því ekki er nú dóttirin fyrir okkur orðin svona stór og myndarleg stúlka.
Við fórum svo í smá göngu uppað Risobank og héldum að þar væri kaffihús en það er víst ekki opið nema júlí og ágúst. En Þráinn hringdi í Arnfinn til að spyrja að því og þá var okkur boðið á pallinn hjá þeim í grillaðar pylsur og rif.
Geggjað útsýnið af pallinum hjá þeim og þau voru að klára að setja þak yfir hluta af pallinum og þangað skín sólin inn á kvöldin og þar eru þau búin að koma fyrir hátölurum og sitja þarna og borða og fá sé einn øl, njóta útsýnisins og hlusta á góða tónlist.

Ástrós Mirra nennti ekki með okkur til þeirra, var reyndar eitthvað illt í maganum svo þetta var þriðji dagurinn í röð sem við fórum eitthvað að borða án hennar.  Ákváðum að splæsa á hana hamborgara úr sjoppu í staðinn en í dag verður eldað.  Eða ég vona að það verði ekki eitthvað til að breyta þeim plönum 4 daginn í röð.
Svo er ég að fara í dag með Fjólu til einhverrar konu sem hún þekkir og tekur kúnna heim til sín í klippingu og strípur, svo það er fyrsta strípumeðferðin mín i Noregi, hingað til hefur Þráinn bara litað í rótina hjá mér en fyrst ég fæ þetta á góðu verði hjá þessari stelpu þá ætla ég að prófa en annars kostar klipping og strípur hér 1200 nkr sem er talsvert dýrara en á íslandi en auðvitað er margt talsvert dýrara hér en þetta er samt eitthvað á skön við það margt annað, til dæmis fengum við viðgerð á pústinu á bílnum fyrir 1000 kall og það kostar nú meira en strípuverð heima á Íslandi.  En alla vega ég prufa þetta í dag og segi ykkur hvernig tókst til.
Það hefur ringt aðeins í nótt og bara 13 stiga hiti núna en það á eftir að hlýna í dag en vonandi ekkert brjálæðislega mikil sól, betra að hafa hana bara um helgar þegar ég er í fríi.
Um næstu helgi er Ástrós Mirra að fara í skólaferðalag með bekknum sínum og helgina þar á eftir ætlum við með Arnfinn og Julie á Prekestolen og helgina þar á eftir erum við að græja okkur til Íslands, svo það verður gaman hjá okkur í endann mai og byrjun júní .
Eigiði góða vinnuviku, þangað til næst Ykkar Kristín Jóna

 

29.05.2013 07:04
hundur og köttur….
Í dag skal tala um hund og kött.  Mér dettur nú alltaf í hug þegar maðurinn í hjólabúðinni hitti Þráin í fyrsta sinn og sagði “Er du den mann med hund og katt”?  En lífið á milli þessar tveggja er nú aðeins að breytast.
Nói er farinn að fara út ca. 2svar á dag og nýtur sín í portinu hérna úti, þykist nú reyndar eiga það og rekur aðra ketti í burtu.  Nói er kóngur hvar sem hann kemur það er nokkuð ljóst.  Svo ef mér finnst hann búinn að vera of lengi úti þá kalla ég í hann og hann kemur hlaupandi og leggst fyrir neðan gluggann og veltir sér og mjálmar og lætur skemmtilega. Svo ég segi þá, jæja komdu nú inn og loka glugganum og fer niður og þá kemur hann hlaupandi fyrir hornið.  En ef það kemur manneskja gangandi, hjólandi að ég tali nú ekki um bílandi þá lætur hann ekki sjá sig því honum líkar ekki við ókunnugt fólk á götunni.  Þetta er ekki köttur sem mjálmar utan í ókunnugu fólki til að láta klappa sér. Hann hleypur eins og skrattinn sé á eftir honum í burtu.  Og ef það heyrast einhver læti þá hreinlega panikkar hann og veit ekkert hvert hann hleypur.  Hann vill ekki einu sinni að ég taki hann í fangið þegar hann er á leiðinni inn, því þá verður hann bara að hlaupa á fullum spretti svo hann nái þessu áður en eitthvað hræðilegt birtist á götunni.  Þess vegna held ég hann hafi týnst í vetur, því það hefur eitthvað komið sem gerði hann svo hræddan að hann hefur hlaupið í ranga átt og villst.
En Erro aftur á móti er orðinn svo duglegur að gera allt sitt úti og við auðvitað í endalausum stuttum göngutúrum, held hann sé nú alveg að sjá í gegnum það og láti sem hann þurfi að pissa svo hann fái að komast smá út.  Honum líður best á morgnanna ef hann fær að liggja undir pínu litla skrifborðinu sem ég er með og ef ég stend upp að ná í kaffi þá hrekkur hann í kút og eltir mig.  Suma daga fæ ég alveg uppí kok af því að vera með hund á hælunum hvert sem ég fer, klósettið líka.
En Erro og Nói eru alltaf að verða betri og betri vinir og þá meina ég að Nói er meira og meira farinn að sætta sig við Erro en það er alltaf smá spenna í gangi á milli þeirra þó það komi stundum skemmtileg móment eins og um daginn þegar Erro var að borða og Nói kom og fékk sér að drekka úr skálinni hans Erro. Ég vildi ég hefði náð mynd af því.  Við hreinlega frusum og þorðum ekki að trufla þetta kódak móment.  Svo í gær þá var Nói úti fram á kvöld og ég vissi að það spáði þrumum og eldingum sem svo komu ekki, alla vega ekki meðan við vorum vakandi en alla vega ég var af og til að opna gluggann og kalla í Nóa en hann kom ekki svo ég vissi ekkert hvert hann hefði farið en vegna þess hve heitt var úti (yfir 18 gráður) þá leyfði ég gluganum að vera opnum og svo er ég eitthvað að dóla mér í stofunni og Erro alltaf að kíkja út um gluggann af og til og allt í einu fer hann að væla við gluggann, ég spyr hvað er að þér Erro minn?  En hann fer aftur að væla og allt í einu kveiki ég og stend upp og kíki út um gluggann og viti menn haldiði að litli vinur Erro’s sitji ekki þarna úti og ég held að Erro hafi verið að láta mig vita. Svo ég kalla auðvitað í Nóa og Erro hleypur spenntur fram á gang því hann vissi vel að þá kæmi Nói inn.  En Nói hafði nú engan áhuga á Erro þegar hann kom inn og hann upplifir það stundum eins og honum sé ekki vært að koma heim því Erro stendur og tekur á móti honum sem Nóa líkar ekki og situr Nói þá í stiganum og bíður eftir að Erro gleymi sér og notar þá tækifærið til að hlaupa upp. Hann er bara ekkert fyrir svona hundatrýni í sér frekar en ég og Erro verður að fara að læra það.  Rennandi blautt hundstrýni er ekkert þægilegt að fá utan í sig.
Nú er í rauninni það eina sem eftir er að ná að þjálfa Erro með er að hann togi ekki í bandið og ráði ekki ferðinni.  Annars er þetta orðinn flottur hundur.  Við náum að láta hann hemja sig þegar koma gestir þó hann eigi óskaplega erfitt með það og rassinn á honum iðar meira en ég hefði haldið að væri hægt og andardrátturinn verður svo hraður að þetta er bara fyndið.  Það er kominn gestur……………………….. og hann ætlar að missa sig úr spenningi.  Erum við svona leiðinleg eða hvað?  Já líklega enda má hann ekkert í kringum okkur.  Ekki setja trýnið í okkur því það finnst okkur óþægileg.  Ekki pissa á gólfið.  Ekki atast í kettinum.  Ekki liggja uppí sófa.  Ekki hlaupa út.  Ekki fara uppá loft og éta kattarmatinn.  Ekki naga neitt nema beinið þitt.  Ekki, ekki ekki.  Svoleiðis er líklega dagurinn hans Erro. En samt vill hann hvergi vera nema hjá okkur.  🙂
Og já hann fékk sitt fyrsta flött í vikunni og það var greinilega dautt í hausnum á honum því það dugði ekkert að nota olíu í bómull, Þráinn varð að nota flísatöngina á það.  Líklega fengið þetta í skóginum um daginn eða í háa grasinu sem við vorum að leyfa honum að hlaupa í.  Við erum ekkert sérstaklega hrædd við þetta flött (skógarmítlu) vildi ekkert fá þetta á mig en ef maður fer inní skóg eða í hátt gras þá skoðar maður sig bara vel áður en maður háttar og ef maður hefur verið bitinn þá veit maður það og fylgist með hvort einhver einkenni koma og fer þá til læknis og segir honum að það hafi verið flött.  Við getum ekki lifað lifinu þannig að við þorum ekki að ganga í grasi eða úti í skógi af hræðslu við þetta.  Bara skoða sig vel og fylgjast með þegar heim er komið.
Smá af okkur mennska fólkinu á Store Elvegate 55.  Við skruppum í smá innkaupaferð í gær sem vatt aðeins uppá sig.  Átti að kaupa handklæði og gönguskó á Ástrós, tramplíndúk fyrir Önnu Fidda í Eyjum og kannski tertuhjálm ef við sæjum en það var sko keypt meira, risastór gólfvifta svo ég lifi af að vinna á heitum sumardögum, verkfærataska handa Þráni. Sóttum sendingu á póstinn frá HM fyrir Silju og Söru og fórum svo í Amfii að kaupa gönguskó á Ástrós Mirru fyrir ferðalagið sem hún er að fara í og keyptum þá í leiðinni eiturgræna skó á mig á tilboði og sólgleraugu á feðginin og svo boli á mig og stuttbuxur á Þráin og bol og topp á Ástrós Mirru og þá var líka ákveðið að hlaupa heim áður en við myndum tapa okkur enda var verið að loka búðunum og Þráinn heldur að það hafi verið út af okkur.  Humm skrítið vilja þau ekki peningana sagði ég :=)  En nei klukkan var víst orðin sex.
Svo við förum varla meira í búðir þetta sumarið eða þannig.  Ekki að það sé eitthvað erfitt enda verslunarmiðstöðin í einnar mínútu gang frá heimilinu og svona á hún að verða í des. 2014.
Og ég á heima þar sem bleika merkið er, þetta gráa er verslunarmiðstöðin eins og hún er í dag og svo bætist hitt við.  Spurning hvort það verði nokkuð svefnfriður á morgnanna þegar þeir fara í jarðvinnuna þarna?  Sjáum til kannski verður þetta allt í lagi og já alla vega nóg að gera og vonandi fær Þráinn vinnu við þetta verk, því þá er svo stutt í vinnuna.

 

31.05.2013 07:26
Ég er ekki alveg að átta mig á…..
því að dóttir mín sé að verða 13 ára og nú er hún að fara í sitt fyrsta skólaferðalag yfir nótt með bara ókunnugu fólki og eintómum útlendingum séð frá okkar sjónarhorni og þegar ég var að skipuleggja þetta í gær, hvað á að pakka og hvað taka með og það allt þá kom í ljós að hún var búin að skipuleggja þetta flest.  Svo spyr ég Þráin hvort ég verði ekki örugglega með bílinn því ég þurfi að skutla henni á staðinn sem þau hittast á, þá segir hún:  “skutla mér á bílnum?” og ég gríp það fljótt og segi “nei auðvitað löbbum við bara saman”. Þá horfir hún á mig og segir: “Ert þú að fara í þetta í skólaferðalag?” og ég “Nei, ég ætlaði bara að fylgja þér”.  Hún:  “Við stelpurnar ætlum að labba saman heim úr skólanum og byrja á að koma heim til mín að sækja dótið, förum svo til Saron og endum hjá Delínu og löbbum saman þar sem við hittum restina af bekknum.

Úps, ég var búin að gleyma hvað þú ert orðin gömul og þyrftir ekki lengur að ég væri að fylgja þér.  Ég á samt eftir að vera óróleg þar til ég fæ sms að hún sé komin í rútu og lögð af stað.  Ég verð ekkert alveg róleg þennan heila sólarhring sem hún verður í burtu þó ég ætli samt að reyna að njóta þess að vera bara ein með kallinum mínum og já auðvitað hundi og ketti.
Þannig að nú er komið að fyrstu helgarferðinni hennar Ástrósar Mirru án okkar og án þess að við þekkjum fólkið sem hún fer með.  Mér finnst það eiginlega verst.  Verð ég ekki að fara í foreldrafélagið næsta ár svo ég nái einhverjum tengslum við foreldra unglinganna í skólanum.  Hún er sko nefnilega að fara í unglingaskóla næsta vetur og þá þarf að sleppa einhverju taki en það er ekkert auðvelt.  Af hverju er svona stuttur tími hjá okkur sem börn, það er 20% ævinnar kannski og svo bara restin fullorðinn.  Ég hefði til dæmis alveg viljað lengja tímann undir 10 ára og að unglingsárin byrji ekki fyrr en 16 en það er nú ekki þannig ekki í dag og var ábyggilega aldrei því börnin voru byrjuð að vinna um 10 ára aldur í gamla daga.  En það er víst ekki þannig og ég neyðist til að reyna að sætta mig við að hún sé unglingur en ekki barn og vilji ekki endilega að ég leiði hana út á götu og fylgji henni í skólaferðalög.
Ég er sem sagt byrjuð að fá snert af aðskilnaðarkvíða og er búin að segja dóttur minni að hún fái ekkert að fara að heiman fyrr en hún er 29 ára.  Je, glætan.  Hún fer ábyggilega allt of snemma af heiman fyrst ég vil halda í hana en þá er líka mikilvægt að við náum að vera nánar þó hún eldist og ég vona að það verði.  Henni finnst samt pabbi sinn skemmtilegri en ég en ég þoli það alveg, því mér finnst hann líka skemmtilegur.  Hún á eftir að fatta þegar hún er eldri að ég er alveg ágæt þó henni finnist ég oft asnaleg í dag.

Rólegheit um þessa helgi en þá næstu er ég farin að hlakka til strax.  Ætlum 3 fjölskyldur, 2 norskar og svo við saman á Preikestolen og Kerag bolten sem eru geggjaðir staðir og kannski ekki fyrir lofthrædda en ég skríð þá bara á maganum og held mér fast.  Mig nefnilega langar svo að sjá þetta og taka myndir þó ég sé lofthrædd í dag.  Ég var ekkert lofthrædd fyrr en ég eignaðist Ástrós Mirru og held að mín lofthræðsla sé mest ef hún er með í för, miklu meiri þá alla vega heldur en þegar ég er ein.  Þannig að líklega er ég bara lofthrædd um hana, ef hægt er að segja eitthvað svoleiðis.
Við leggum að stað á laugardagsmorgun og förum beint á Prekestolen og svo erum við með pantaða sumarbústaði þarna eina nótt og förum svo á sunnudeginum á Kerag bolten og svo heim, þannig að þetta verður Heavy helgi en trúlega æðisleg.
Preikestolen

Svo þetta verður líklega geggjuð helgi hjá okkur og þessi næsta líka en hún er meira í rólegheitum og kósítæm. Hitinn kl. 8 eru 19 gráður og sól, vonandi þarf ég ekki að vinna lengi í dag.  En Þráinn minn er núna farinn að vinna í Arendal og því í 1,5 tíma að keyra í vinnuna sem sagt 3 tímar á dag sem fara í bíltúr eins gott að hann og Frank séu vinir í svona ferðalögum.  Þeir fá reyndar líklega eitthvað af ferðatímanum borgað sem er þá bara frábært.   En hann er svo ánægður hjá þessu fyrirtæki sem þeir eru að vinna fyrir núna að hann er tilbúinn í smá akstur til að komast í vinnu.  Já smá akstur, eins gott að þetta er ekki ég. Finnst ekkert gaman í bíl nema ég sé að leita að fallegum stöðum til að hoppa út úr til að taka myndir.  Held ég yrði ábyggilega 2 tíma á leiðinni bara út af aukastoppum, því það er svo margt að sjá á þessari leið.
Jæja eigiði góða helgi kæru vinir og fariði vel með ykkur og njótið augnabliksins, það kemur nefnilega ekki aftur. Ykkar Kristín Jóna

 

03.06.2013 07:04
Og það er kominn júní….
ég trúi því varla að það sé að verða komið 1 ár síðan við fluttum hingað til Mandal, mikið er nú tíminn fljótur að líða, sérstaklega þegar manni líður vel og lífið er skemmtilegt.  Helgin hér var frábær eins og venjulega.  Ástrós Mirra fór í skólaferðalag  “Overnatting” með bekknum á föstudaginn og það var víst mjög skemmtilegt.  Þau sváfu í svona tjöldum allar stelpurnar í einu og allir strákarnir í öðru og svo fullorðna fólkið í einu tjaldi.

Þau fóru í fjallaklifur, riverrafting, grilluðu og höfðu gaman og á skalanum 1 – 10 var þetta ferðalag 8 sagði dóttir mín og það gladdi okkur gamla settið mikið.  Á meðan hún var í þessu ferðalagi ætlaði ég að hafa hrikalega kósí á föstudaginn og bjóða eiginmanninum eitthvað gott að borða og svo á 90′ tónleika en honum tókst að misstíga sig og vinna frameftir svo þau plön voru úti en á laugardaginn vöknuðum við í þessu líka frábæra veðrinu og ég hafði greinilega hlíft kallinum nóg á föstudaginn að hann treysti sér til að labba út á Sjosanden strönd.  Svo við pökkuðum í tösku og drifum okkur út fyrir hádegi. Planið var að liggja á ströndinni og hafa það huggulegt og þar var þá eitthvað fyrir mig að mynda, Þráinn gat slappað af og hvílt fótinn og svo ætluðum við að labba við á bílaplanið sem krakkarnir áttu að koma á eftir ferðalagið.  Frábær dagur á ströndinni, Erro alveg í essinu sínu að synda eftir spítum út í sjó og við í sólbaði og fullt af aksjón í gangi, bátar út um allt og fólk að synda í sjónum og ég náði að vaða uppá hné en þá var mér orðið of kalt.  Mér skilst að þetta venjist þe. að fara í sjóinn og geta synt þó hann sé kaldur.

Nú svo þegar fór að líða að því að við ætluðum að labba til baka þá hringir Ástrós Mirra og er þá komin heim, þá hafði ein stelpan meitt sig eitthvað á tönnunum og henni var keyrt heim og það þurfti einhver að vera með í bílnum til að nýta ferðina, þetta stytti ferðina um klukkutíma en á móti fékk Ástrós Mirra keyrslu heim að dyrum en hún var lyklalaus og foreldrarnir á flandri svo við drifum okkur af stað heim og heyrðum í þrumum í leiðinni og þetta var myndin af bænum okkar þegar við komum af ströndinni.

Við vorum nú alveg viss um að það færi að rigna rétt eftir að við kæmum heim en svo var ekki, þetta var bara þarna inní dalnum þarna innar eins og sést vel á þessari mynd.
Kósí laugardagur hjá okkur og kvöldið bara í næs og bíómynd.  Ástrós Mirra ánægð með ferðalagið og við þá líka.
Þá tók við sunnudagurinn og þá var ég búin að mæla mér mót við hana Hallfríði sem er nú reyndar kölluð Hadda og ég ætlaði að mynda börnin hennar 2 en aðallega stelpuna hana Sunnu sem er að fara að fermast í ágúst.  Þau komu um hádegið og við byrjuðum að mynda inni og færðum okkur svo út.  Hrikalega skemmtileg myndataka með skemmtilegu fólki sem var gaman að kynnast.  Ástrós Mirra og Sunna náðu vel saman og stefna á að hittast aftur en mér sýnist að það náist ekki fyrr en eftir öll sumarfrí.  Og þá ætlum við Hadda að fara yfir smá markaðssetningu og fleiri praktíska hluti.  Hún er að kenna svoleiðis á námskeiðum og ætlar að miðla mér smávegis fróðleik.  Ekki væri verra ef maður gæti selt eina og eina mynd.
Frábær helgi að baki og við enduðum hana á að kíkja á húsið sem Frank og Lovísa eru búin að fá leigt og það er bara á geggjuðum stað aðeins út í sveit og með risastóru landi og bátaskýli og bát og smá skógur á bak við.  Algjör draumastaður og ég samgleðst svo með þeim.
En nú hefst ný vinnuvika og það var bara kalt í morgun enda gluggar opnir í nótt og nú er bara 10 stiga hiti og ég held ég verði í peysu í dag ef það hlýnar ekki meira.  Sólin er samt að glenna sig svo líklega verður nú hlýrra.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

06.06.2013 06:59
Hláturinn lengir lífið….
átti nú ekki endilega við hann Hemma Gunn okkar, því mér finnst 66 ára ekki hár aldur en hann hafði nú talsverða sögu af hjartveiki sem kannski útskýrir þetta. En mikið verður hans saknað af allri þjóðinni og mikið vildi ég að fleiri myndu hlæja svona mikið eins og hann gerði.  Hann var alltaf hlæjandi og mér finnst eiginlega besta minningin vera þegar hann var að koma í morgunþáttinn hjá Kollu og Heimi og segja frá hvað yrði í þættinum hans um helgina og ég vissi yfir höfuð aldrei hvað var á döfinni því hann hló svo mikið og þá hló Kolla svo mikið og ég í bílnum alein og skellihlæjandi á föstudagsmorgni á leið í vinnu.  Það er nú ekki hægt að hugsa sér betra en að fara inní helgina skellihlæjandi.
Ég fór að velta því fyrir mér hvað ætli það sé sem orsaki það að sumir sjá alltaf björtu hliðarnar á tilverunni og geta hlegið mikið og gert grín af sjálfum sér endalaust á meðan aðrir og allt of margir eru neikvæðir og brosa sjaldan.  Hvað stjórnar þessari léttu lund sem ég er sögð hafa erft frá henni Stínu ömmu minni?  Eru þetta við sjálf sem stjórnum þessu eða eru það genin eða hormónin.  Ég man nú eftir að hafa ekkert verið sérstaklega kát þegar ég fór á hormónaflippið um árið en það er ekki stór hluti mannkyns á hormónaflippi ég neita nú að trúa því enda er neikvætt fólk á öllum aldri.  Er það uppeldið?  Ég til dæmis elska þegar sagðir eru brandrara sem hafa gengið manna á milli og eru svo heimfærðir uppá mig, ég get hlegið manna mest þá og ég geri reglulega grín að sjálfri mér.  Ég er lítil og feit í speglinum í leikfiminni. Ég er oft ansi vitlaus………….. heyrðu já hefur þetta kannski eitthvað með gáfur að gera, eru það við …. nei ég er ekkert ógáfuð svo það er ekki það.  Ég get verið klaufi og hlegið að því sem ég geri klaufalegt.  Ég hlæ oft mikið með kúnnunum mínum og þegar þeir verða þreyttir á kerfinu þá reyni ég að slá á létta strengi og fá fólkið til að sjá það sem er í gangi með öðru sjónarhorni og oft virkar það, en ég er ekki að meina að ég geri lítið úr hlutunum heldur bara svona aðeins að fá fólk uppúr neikvæðni kassanum sem verður svo auðveldlega stór ef maður er fastur í honum.

Eitt sem ég get samt aldrei hlegið að og það þegar fólk drollar eða er óstundvíst.  Það er ekkert fyndið við það að taka ekki tillit til tíma annarra og meta það að minn tími er jafn dýrmætur og þinn og á ekki að vera eytt í það að bíða eftir þér (hver sem þú ert).  Og drollið já…………….. úff, drífum þetta bara af og ekki eyða tímanum í endalaust droll.  Ef ég ætla á fætur kl. 7 þá bara stend ég uppúr rúminu kl. 7 og fer á fætur, ég ligg ekki og dorma þar til klukkan er orðin korter yfir og ég alveg að verða of sein í það sem ég ætlaði mér að fara.  Ef ég ætla að setja í þvottavél núna þá geri ég bara núna en ekki á eftir.  Ég veit að þetta er uppeldið, ég á stundvísa móður og droll hefur hún heldur aldrei þolað.  Ég man svo vel þegar ég var ca. 12 ára og hún bað mig að skúra fyrir sig…….. ha ha ha ég sé okkur fyrir mér í eldhúsinu á Mávahlíð 1 og hún að kenna mér að maður stríkur ekki kústi og tusku eftir gólfinu eins og maður sé að gæla við það, maður tekur fast á kústinum og hamast við þetta og svo er það bara búið.  Tekur örskamma stund í staðinn fyrir að standa og dútla við þetta í langan tíma.  Blettir fara ekki við mjúkar strokur það þarf að taka á þeim.  Þetta kann ég allt núna og þegar ég er að kenna dóttur minni þá poppa uppí hausinn myndir úr minni æsku og margt sem ég hef man þá.
Ég tók ákvörðun fyrir nokkrum árum að ef ég væri með boð sem þyrfti að tvískipta upp hópum þá væri mín fjölskylda alltaf í fyrri hópnum því hún mætir á réttum tíma og ég þarf ekki að bíða eftir þeim, enda er ég alltaf tilbúin með veitingarnar hálftíma áður en fólkinu var sagt að mæta og þá er svo gott að geta sest niður með fólkinu sínu og notið en ekki að standa við gluggann og bíða eftir að einhver komi.  En ég er líka orðin svo þroskuð að ég veit að það er ekki hægt að kenna gömlum hundi að sitja en ég er samt oft að velta fyrir mér þetta fólk sem mætir alltaf of seint sjálft, hvernig kennir það börnunum sínum að mæta á réttum tíma í skólann?  Eða í vinnu?  Á fundi?  Ég hef oft heyrt fólk afsaka sig með umferð…… já bíddu það er alltaf umferð á þessum tíma og því eðlilegt að leggja fyrr af stað en nei, það er lagt af stað á sama tíma og umferðin notuð sem afsökun.  Mér var kennt að leggja alltaf aðeins fyrr af stað því það gæti alltaf eitthvað komið uppá svo gott væri að eiga smá tíma til að mæta því.  Þess vegna var ég alltaf komin í skólann 10 mín í.  Þess vegna var ég oftast komin það snemma í vinnu að ég sá um að hella uppá kaffi fyrir vinnufélagana og það er svo gott að vera komin snemma, geta fengið sér kaffi, komið sér fyrir tjattað við félagana og bara lifað smá áður en ströng dagskrá skóla eða vinnu tekur við.
En nú er ég alveg komin langt út fyrir hláturinn og gleðina sem ég ætlaði að vera að tala um í dag og því er mál að linni.
Það er búið að vera svo mikið að gera í vinnunni undanfarið að ég hef varla gefið mér tíma einmitt til að blogga eða gera eitthvað skemmtilegt en næsta helgi verður geggjuð og hlakka ég mikið til.
Svo þangað til næst, ykkar hlæjandi Kristín Jóna

P.s var að hugsa um það um daginn þegar Ástrós Mirra var eitthvað að tala um barnabörn að ég sem hef aldrei viljað vera kölluð Stína og mótmælti því hástöfum þegar ég var lítil og heyrði aldrei þegar einhver reyndi það á unglingsárum get ekki hugsað mér að vera Kristín amma svo ég ætla að breyta þegar ég verð amma ef ekki fyrr og láta kalla mig Stínu því það er svo gott að eiga Stínu ömmu það veit ég.

 

10.06.2013 07:26
Frábær helgi …
Já þetta var frábær helgi og samt oft ekki svo frábær en það er bara svoleiðis.
Byrjuðum á að hittast kl. 8 á laugardagsmorguninn og leggja af stað á Preikestolen og það var keyrt í einni lotu, Arnfinn vísaði veginn og hann keyrir aðeins of hratt fyrir minn smekk.  Við þurftum að fara með ferju yfir og ég vissi ekkert af því, eitt sem við erum að læra en gleymum alltaf er að Norðmenna segja aldrei alla söguna, segja sem minnst og við alltaf að láta eitthvað koma okkur á óvart.
Og svo erum við að keyra á leiðinni uppá Preikestolen þegar ég sé þessa brú, við erum rétt komin úr ferjunni en ég hélt það væri verið að rukka inná svæðið við Preikestolen þegar við keyrðum í gegnum hlið og vorum rukkuð en þá var það ferjugjaldið, en sem sagt þarna sé ég þessa brú og mér sýnist  að keyrt sé inní fjall og yfir brú og inní fjall – shit, fock og allt það, ég byrjaði bara svitna og taka fyrir augun og biðja til Guðs og ég veit ekki hvað og hvað.  (afsakið orðbragðið og afsakið gæði myndarinnar sem er tekin í taugakasti út um gluggann)

Jæja ekki fórum við þessa brú og létti mér mikið þar sem ég er bara óstjórnlega hrædd að keyra yfir brýr og einu sinni fyrir 25 árum vildi Þráinn reyna að ná þessu úr mér og sagði að eina leiðin væri að ég keyrði sjálf yfir brú, en hann hefur ekki beðið mig aftur því ég keyrði með lokuð augun yfir brúna.  Mig minnir að það hafi verið brúin yfir Markarfljót svo það var enginn í lífshættu þó ég hefði keyrt útaf ekki þannig alla vega en hræðsluna losna ég ekki við.
En við vorum komin uppá Preikestolen um kl. 11 og það var bara drifið sig í göngudressið og já þurfti að skipta úr stuttbuxum og hlírabol því það var bara engin sól þarna eins og búið var að lofa mér.  En við vorum nú með önnur föt en við vorum ekki með svokölluð gönguföt því þá hefðum við kafnað úr hita.  Því það var hlýtt þó það væri ekki mikil sól.  Gangan byrjaði ekkert sérstaklega vel, bara rosalega mikið uppí móti og í lausamöl og grjóti. Seinna varð það enn meira grjót og meira klifur á klettum eins og sést hérna.  2 tímar í svona göngu og jaxlarnir sem voru með okkur þurftu nánast aldrei að stoppa nema til að bíða eftir okkur.  Ástrós Mirra fann fljótlega fyrir verkjum í fótunum og átti frekar erfitt með þessa göngu en lét sig hafa það en fór ekki alveg uppá Preikestolen enda ekki komin með áhuga á útsýni en ég verð að segja að ég er svo ánægð með sjálfa mig að hafa getað þetta. En ég er meira fyrir að taka aðeins lengri tíma í svona göngur og stoppa oftar og njóta þess sem er á leiðinni en sumir vilja bara fara frá a-b og sjá ekki það sem er á milli.  Ég þekki óskaplega mikið af svoleiðis fólki og hélt að það væru bara íslendingar sem væru svona en það er ekki svo, það sannaðist í þessari ferð.

Við stoppuðum einu sinni almennilega á leiðinni því ég var orðin svöng og heimtaði matarpásu svo við fengjum einhverja orku í kroppinn fyrir síðustu metrana. Og svo þegar við vorum komin uppá Preikestolen þá var maður bara orðlaus og agndofa yfir útsýninu og yfir því hvað er mikið af fólki þarna og að það hafi ekki orðið slys, það er með ólíkindum.
Jæja uppá toppinn við fórum og útsýnið er geggjað og enn hrikalegra að horfa niður.

Og að sjálfsögðu þurfti ég að fagna almennilega, aldrei farið í svona langa fjallgöngu og svona hátt upp á eigin fótum.

Og svona lítum við út á bjargbrúninni, en þetta erum við hjónin sem sitjum þarna á brúninni.  Veit ekki hvort það sést að ég læt sem ég sjái ekki brúnina og er ekki alveg fremst en það er Þráinn enda meiri áhættufíkill en ég.

Ég missti alla löngun í áhættu þegar ég eignaðist Ástrós Mirru, var stundum kannski smá adrenalínfíkill þegar ég var ung en það er liðin tíð.  En eitt hef ég alltaf verið óskaplega hrædd við og það er að keyra á erfiðum stöðum og sérstaklega þegar það virðist sem við séum á bjargbrúninni eða yfir brýr.
Frábær staður Preikestolen og ég undrast það aftur og aftur að engin slys hafi orðið á fólki þarna.  Eða slys það er bara annað hvort að lifa eða deyja held ég.  600 metrar niður í ána og það er kannski ekki svo geðveikislegt að fara þarna uppá efsta hólinn en þá á eftir að koma sér niður á sjálfan Preikestolen og ég get sagt ykkur það að þá ferðu eftir klettavegg sem er með syllu jafnbreiðri fótunum á þér og ekki mikið meira.
Þráinn stoltur af kellunni sinni tók mynd af mér að klöngrast þarna og hann sagði að hann hefði ekki trúað að ég færi þarna niður en ég gerði það og aftur upp en ég þorði ekki að fara nema með honum, veit ekki af hverju ég fæ styrkinn þaðan en það er bara svoleiðis.  Hann lætur mér alltaf líða betur ef ég er hrædd og gerir aldrei lítið úr því, það er frekar að það sé ég sem geri það.

Og þegar maður er kominn niður þá reyndar minnkaði útsýnið þannig að ég var ekki yfir öllu fólkinu sem var þarna.  En þó hafði ég þetta útsýni sem er auðvitað geggjað og þá geggjað í öllum þeim myndum sem það orð getur túlkað.

Þessir tveir voru bara bundnir meðan fólkið fór niður á Preikestolen en það var fólk þarna að þvælast með hundana sína og þegar við vorum að klöngrast þá mætum við hjónum með sitthvorn hundinn og í löngu bandi og annar fór í kringum Þráinn sem þá var orðinn vafinn í bandið hjá hundinum og hefði getað skapað mikla hættu, skil ekki sumt fólk, þarna var líka fólk með ca. 2ja ára barn og þarna var maður með ca. 6 ára tvíbura sem hann leyfi að leggjast svona eins strákarnir hér að ofan.  Ég var fegin að verða ekki vitni að því.  Arnfinn var við það að fara að kippa í manninn og segja honum að þeir væru kannski heldur ungir til að vera treyst að gera þetta, en hann sat á sér.

Jæja svo var farið aftur niður.  Já yfirleitt er talað um að niður sé auðveldara en ekki í þessari göngu, miklir klettar og hálfgerðar tröppur úr steinum sem veldur því að þú þarft svolítið mikið að hoppa og það reynir svo á ökklana og liðböndin og svo voru tærnar í algjörri klemmu hjá mér alla vega, þær eru sko ennþá svo aumar að það má varla snerta þær en ég var nú ekki móð á leiðinni niður svo að því leiti var þetta auðveldara og að mörgu leiti skemmtilegra því þá er maður búinn að fá að sjá stórfengleikann sem sóst var eftir.
Ég get alveg sagt ykkur að að þessi saga og þessar myndir segja bara frá aðalatriðunum en ég á meira að segja eftir að skoða myndirnar betur og set svo á mirrunetið þegar þær verða allar tilbúnar.  En ég ætlaði bara að stikla á stóru ljósmyndalega séð.
En hér er stund milli stríða á niðurleið og eitthvað hefur nú Þráinn minnkað við þetta klifur þarna upp 🙂

Stoppuðum á bílaplaninu við Preikestolen og fengum okkur aftur í svanginn og svo átti að keyra í Lysebotna til að gista og eins og áður, vissum við ekkert hvert við vorum að fara eða hversu langan tíma tæki að keyra það.  En Arnfinn sagði okkur þó að við þyrftum að fara yfir brúna og mér leið nú svo vel eftir Preikestolen að ég ætlaði að reyna að taka myndir þegar við færum yfir hana og svo þegar við nálgumst þá hægja bílarnir fyrir framan okkur (Arnfinn og Yngve) svo ég var viss um að þetta væri sem sagt satt að við færum þar yfir en svo gáfu þeir í, voru sem sagt bara að plata mig og við fórum aftur yfir með ferjunni og keyrðum af stað á Lysebotna.
Já hvar skyldu þeir nú vera og hversu lengi ætli sé verið að keyra þangað?  Það var alla vega keyrt og keyrt og keyrt og keyrt og við förum framhjá hverju sumarhúsasvæðinu eftir annað sem voru svo græn og falleg og með grasþökum og ég veit ekki hvað en alltaf keyðum við áfram og áfram og við erum farin að keyra í Íslensku landslagi, klettar engin tré bara fjöll og grjót og stöku á, hvert erum við að fara eiginlega?  Og áfram uppá fjall og enn versnar útsýnið eða þannig, verður svona fallega ljótt eins og íslenskt landslag getur verið en þegar maður er þreyttur og vill bara fara að komast í kofann sem maður leigði og í sturtu þá er svona landslag bara ljótt.  Og áfram er keyrt alveg uppá fjall og svo niður hinum megin og já já sæll vertu!
Hérna niður og það var eins og við manninn mælt ég fékk næstum taugaáfall, og þeir keyrðu allt of hratt Arnfinn og Yngve.

Þúsund metra hátt fjall sem keyrt var niður svona hlykkjótta vegi og hvert er hann Arnfinn að fara með okkur, við erum búin að keyra miklu lengur en hann sagði en það er ekkert nýtt han segir að við séum 1,5 tíma að keyra og þá erum við 2,5 hann áætlar alltaf minni tíma en við erum og við lærum það bara fljótlega eða kannski næsta sumar.
Jæja niður þarna og taugarnar eru svo þandar að ég sá ekkert hvar við vorum þegar við komum loksins á staðinn, vildi bara inní sumarbústaðinn sem við vorum búin að leigja fyrir 20.000 nóttina, lítill kósí bústaður fyrir 3.  Og inní hann komum við.  What!  Reyndar 4 rúm en ekkert annað.  Ekki ískápur engir stólar engin borð nema náttborð og ekkert klósett eða vaskur eða bara vatn og hvað þá sturtan sem allir biðu eftir að fara í.  Nú fór mín bara í fýlu eftir þessa svaðiför þarna niður brekkuna þá var allt bara vonbrigði og meiri vonbrigði og ég sá ekki flísina fyrir (búin að gleyma þessu máltæki).  Ok, það er klósett og sturtur þarna fyrir tjaldstæðin en come on, við erum að borga 20.000 isk fyrir nóttina á þessum bústað og það er ekkert, ekki skálar til að setja snakkið í, ekki glös til að drekka bjórinn í en OK það eru sængurföt.  Og já þess vegna tók ég ekki með handklæði því fyrst boðið er uppá sængurföt í bústaðnum þá hljóta að handklæði og tustur og viskastykki og og og og.
Ég var bara að fara að grenja af vonbrigðum og svo voru allir þreyttir og svangir og klukkan orðin rúmlega átta og Arnfinn og Julie sem leigðu stærsta sumarhúsið þarna því þau eru 5 fengu bústað með eldhúsi og sturtu og sögðust ætla að hitta okkur eftir hálftíma því þau ætluðu í sturtu.  Já einmitt og hvað áttum við að gera í hálftíma í húsi með engu í nema sængurfötum.  Vá hvað ég var orðin pirruð þarna og ætlaði sko ekki að ná því úr mér.  Var líka mjög fegin að Yngve bróðir Arnfinns sem var í eins húsi og við var líka nett fúll og átti ekki til orð að það væri ekki tiltekið þegar þú pantar bústaðinn að það sé ekkert í honum þú þurfir að taka með þér allan tjaldbúnaðinn þinn nema sængurfötin og dýnur.
Jæja við fórum nú samt svo á krána sem er þarna til að borða og ég ætlaði nú ekki að vilja fá neinn bjór eða neitt en náði að ýta frá mér fýlunni og sitja og njóta bara.  Krúttlegur pöbb með einfaldan matseðill og nóg af bjór.  Krakkarnir voru farin að kynnast eða sem sagt Ástrós Mirra því hitt eru frændsystkin svo þau þekktust og Ástrós Mirra segir hamborgarann þarna sá besti sem hún hefur fengið. Mig grunar nú að hann hafi bragðast betur sökum þess hve hungruð við vorum orðin kl. 21 og bara búin að borða tvær samlokur allan daginn.
En fólkið var kátt og ég ákvað að þetta yrði allt í lagi og svo fengum við bónus og vorum hreinlega kölluð út frá matnum til að sjá þetta.

Ég var mjög ánægð með vertinn að kalla okkur út, því þetta er ekki eitthvað sem þú sérð daglega.  Nokkrir strákar stukku basejump þarna niður af 1000 metra háu fjalli og lentu niðrí dal, það var reyndar skorað á þá tvo síðustu að lenda á trampolíni sem var þarna í garðinum og þeim skeikaði um ca. 60 cm sagði Þráinn það var ekki meira.  Svo nákvæmir eru þessir gaurar.  En þegar ég vissi af þessu þá hljóp ég út í bústaðinn til að sækja myndavélina því hún var ekki með í matnum og þegar ég kem út þá sé ég að einn er lentur og annar er beint fyrir ofan mig svo ég byrja bara að mynda og taskan mín lá þarna opin við hliðina á mér þegar ég sé að hann er bara að nálgast mig svo ég kippi henni upp og loka ef ég þyrfti að hlaupa til að verða ekki undir honum.  Frétti svo daginn eftir að þeir héldu að eitthvað væri að hjá honum því fallhlífin opnaðist svo seint og hann sem sagt lenti á öðrum stað en hinir.  En hrikalega gaman að sjá þetta. Og þvílíkt áhugamál, þeir eru 2,5 tíma að komast á staðinn sem þeir stökkva frá og  1 mín niður.  En fá líklega magnaðann adrenalínskammt á þessari einu mínútu.
Jæja þetta er allt að lagast og maturinn góður og flott skemmtiatriðið en nú er ég orðin þreytt og fer að sækja Mirruna og fá í háttinn með mér, Þráinn ætlaði að sitja aðeins lengur með fólkinu og við Ástrós Mirra skellum okkur í bústaðinn sem …………… er þá svo kaldur og enginn ofn og dýnurnar í rúmunum svo þunnar að við þurftum að setja tvær saman til að ég lægi ekki á rimlunum og við urðum að sækja tvær sængur til að setja ofan á okkur og liggja saman til að ná í okkur hita.  Já já þetta borgum við 1000 nkr. fyrir.
Og svo sofnum við og sofum bara ágætlega og vöknum daginn eftir og opnum hurðina á bústaðnum og þetta blasir við.

… og öll vandamál hurfu.  Vá hvað þetta er fallegur staður í sólinni og sjáið fjallið þarna lengst frá fyrir miðju, það er Preikestolen.  Það sést alveg þessi ferhyrnti klettur sem við stóðum uppá á laugardaginn.
Jæja þá skal borða morgunmat, rölta í kringum til að taka myndir af þessu fallega svæði og stelast í sturtu hjá Arnfinn og Julie og svo á að halda af stað á Kerag boltann.  Smá sólbað og leikið við Erro og hann kynntist þarna tík sem heitir Gígja og var að leika við hana.
Svo er lagt af stað aftur og við Ástrós Mirra vorum búnar að gera samkomulag að fara hálfa leið og svo myndum við snúa til baka því við fréttum þarna um kvöldið að það tekur 3 tíma að labba uppað Kerag boltanum og stoppa þar í einn og 3 tíma niður aftur.  Við vissum að það gætum við ekki en ætluðum að prófa.  En eftir 20 mín var Mirran mín orðin svo þreytt í fótunum enda búin að hafa svo mikla vaxtaverki undanfarnar vikur og fór samt uppað Preikestolen svo við snerum við.  Þráinn tók myndavélina mína með sér og mér leið pínu eins og hann hefði tekið hjartað úr mér með sér.  Hvað áttum við að gera á þessu bílastæði með engu umhverfi í 7 klukkutíma.  Ég viðurkenni að ég var talsvert svekkt út í dóttur mína að geta ekki farið hálfa leið því það hefði drepið tímann svolítið fyrir okkur.  En svona er þetta stundum og ég fer bara aftur þarna og þá ekki á bæði fjöllin sömu helgina.  Gisti á þessum ömurlega stað (kaldhæðni) Lysebotnar aftur og vel mér betra húsnæði með sturtu og gef mér tíma til að skoða mig þar um aftur og betur.
Ég vann Ástrós Mirru í Yatsy, við kepptum í kapal í Ipadinum og já Þráinn lét okkur hafa pening til að fara þarna á veitingarstaðinn og kaupa okkur eitthvað.  Ok, allt lokað líka almenningsklósettin svo það eina sem við gátum gert var að liggja í bílnum og lesa eða fara út í sólbað og sólin var svo sterk þarna að ég hélt ég myndi fá sólsting.
En svo komu þau niður fyrr en áætlað var og mikið vorum við glaðar að sjá Þráin og þetta er það sem við misstum af.
Hópmynd af Julie, Arnfinn, Sondre, Julius, Jerand, Ada, Yngve, Adriana, Þráinn, Ronja og Erro.

og svo var þetta toppurinn á tilverunni.

Jæja svo var bara drifið sig heim svo við kæmum ekki allt of seint miðað við hvað Þráinn þarf að vakna snemma á morgnanna eða klukkan 5 því hann er 1,5 tíma að keyra í vinnu á morgnanna núna.
Vorum í rúmlega 2,5 tíma að keyra heim og voru allir þreyttir og sælir eftir helgina við Mirra líka þrátt fyrir bílastæðaveru.  Og kannski vorum við ekkert minna þreyttar að reyna að hafa ofan af fyrir okkur og vita að við gætum ekkert farið (því ég keyri ekki bíl í þessum brekkum og beygjum það er nokkuð ljóst) og lítið gert.
Og nú er bara vika í Íslandsferð.
Þangað til næst, Ykkar Kristin Jóna hetja helgarinnar að eigin mati.

 

13.06.2013 07:22
Lofthræðsla
er pínu einkennileg, alla vega mín.  Ég komst nefnilega að því um helgina að ég er ekki nærri því eins lofthrædd þegar ég stend í mínar eigin fætur og ef ég er háð einhverjum öðrum.
Hreinlega er að fríka út ef keyrt er yfir háar brýr, já eða bara brýr en samt alveg róleg ef þær eru nánast á jafnsléttu.  Þessi hérna sem ég hélt við ætluðum yfir setti taugarnar á annan endann.

En við fórum ekki yfir hana en svo fórum við aðra sem ég sat alveg frosin og gat ekki tekið upp myndavélina því hún kom mér svo á óvart en það var á leiðinni heim.
Þegar ég horfi á myndir af öðru fólki standa einhvers staðar á brún þá líður mér ekki vel en þegar ég stóð á brúninni á Preikestólen þá var allt í lagi.  Ég var auðvitað ekki alveg á brúninni en ég vissi hvar ég var og það var enginn nálægt mér og ég hreyfi mig bara í rétta átt svo það er engin hætta.
En svo þegar við fórum eftir þessari sillu, þá var ég pínu smeik og horfði ekki niður en þegar Þráinn ætlaði að rétta mér hjálpahönd þá hálf panikkaði ég, finnst sem sagt best í svona áhættuatriðum að treysta eingöngu á sjálfa mig.

En það var ofboðslega gaman að fara þetta þó hættulegt væri og alltaf gaman þegar maður kemst að einhverju svona djúpu um sjálfan sig eins og lofthræðslan er ekki bara lofthræðsla heldur eitthvað óöryggi í erfiðum aðstæðum ef ég stjórna þeim ekki sjálf.
En þá að öðru, pabbi fór í 6 tíma aðgerð í gær sem gekk vel skv. skurðlækninum en hann var enn á vöknun þegar ég heyrði í Konný en allt leit vel út við fystu sýn.  Vonandi svaf hann bara vel í nótt og verður fljótur að jafna sig.  Hann hafði alla vega engar áhyggjur af þessari aðgerð og þá er óþarfi að við hin séum mjög áhyggjufull en það er aldrei alveg laust við það, sérstaklega hjá tæplega áttræðum manni sem fékk alvarlegt hjartaáfall fyrir nokkrum árum.
Hann verður svo líklega bara í smá tíma á sjúkrahúsinu í Rvk og verður svo fluttur á sjúkrahúsið í Eyjum og ég hitti hann svo þar þegar ég fer til Eyja.  En það er pínu óþægilegt að vera svona langt í burtu í þegar svona hlutir eiga sér stað.
Aðeins tveir dagar í sumarfrí og ég er orðin eitthvað svo þreytt eftir síðustu vikur og sef ekki nógu vel núna sem er líklega af því að ég er að fara í ferðalag.  Tek inní mína drauma flutninginn hjá Ingu, Söru og Mikael Mána sem ég held að hafi gengið glimrandi vel.  Og því ætti ég að vera að dreyma það?  Nema af því að svo fer ég í ferðalag og ég sem hélt ég væri farin að vera svo cool yfir þessu því þetta kom bara í fyrradag.  Hvað ætli ég þurfi að ferðast mikið til að losna við þetta?  Ég nefnilega finn ekkert fyrir áhyggjum á daginn bara þegar ég á að fara að sofa.  Kannski er þetta líka meira núna af því að ég er þreytt.  Þreytt á morgnanna og þreytt á kvöldin.  En sofna samt seint og vakna snemma.
Jæja ætla að taka þennan dag öðruvísi en undanfarna daga og ætla út í hádeginu og ekki vinna lengi.  Er komin í aðlögun að sumarfríi sem hefst eftir morgundaginn.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

Skrifað af Kristínu Jónu

 

16.06.2013 08:45
Á morgun er eitt ár…..
síðan við fluttum til Mandal í Noregi.  Eitt ár, vá og svo margt búið að gerast eins og sjá má á blogginu sem ég gerði daglega fyrstu 3 mánuðina okkar hérna.
Það byrjar hér:
Pad 01
En á morgun er akkúrat ár síðan við Ástrós Mirra fluttum hingað og á morgun leggjum við af stað í sumarfrí til Íslands.  Við tökum Fjørdline yfir til Hirsthals á morgun og gistum þar eina nótt á hóteli og svo förum við á þriðjudagsmorguninn um borð í Smyrilline og siglum sem leið liggur til Seyðisfjarðar með viðkomu í Færeyjum.  Hlakka til að koma við í Færeyjum og hlakka til að keyra frá Seyðisfirði til Þingvalla, svo langt síðan ég hef farið þá leið og alveg kominn tími á það að ég taki einhverjar myndir þar.  Ætla nú samt ekki að stoppa út um allt heldur er stefnan tekin að stoppa á Höfn og fá sér humarsúpu og svo að stoppa á Jökulsárlóni og líklega keyra restina í einum beit og koma sér fyrir á Gjábakka á Þingvöllum.
Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni hjá mér undanfarið og ég var orðin ansi þreytt þegar ég byrjaði í fríinu en við Ástrós Mirra vorum að tala um það í gær að við söknum pínu Langásen núna þegar sumarið er komið og svona mikið að gera því þá gefum við okkur ekki tíma til að fara eitthvað langt en vantar smá garð til að kíkja út í en samt elska ég það að vera hér í miðbænum og er helst á því að ég þurfi að hafa augun opin fyrir því að það losni lítið hús í miðbænum með smá garði, helst á Store Elvegate sem er flottasta gatan í bænum.
En við erum samt ánægð hérna og aðallega ánægð með hvað við þurfum að greiða lítið í leigu og getum þar af leiðandi safnað okkur pening, pening til að kaupa bíl og svo á næsta ári langar okkur að kaupa bát.

En á einu ári hefur ansi margt gerst, ef ég stikla á stóru málunum þá leigðum við Aron bróður og konunni hans íbúðina okkar og þau fóru fyrirvaralaust út úr henni í lok ársins sem setti mikið strik í reikninginn fjáhagslega fyrir okkur.  Okkur var sagt upp húsinu í Langåsen og fundum í staðinn þessa æðislegu íbúð hjá svo frábærum leigusala líka sem vill allt fyrir okkur gera.
Ástrós Mirra byrjaði í Furulundenskole og var flutt eftir rúmar 2 vikur í Motakskolen og gekk bara vel þar og fór svo aftur í Furulundenskole í apríl og hefur bara gengið vel þar.  Allt annað líf að koma í skóla og tala tungumálið en að sitja allan daginn og skilja ekki orð.  Og málið er bara að fyrst það er boðið uppá sérstakan skóla fyrir útlendinga þá bjóða þeir ekki uppá neina aðstoð í almennum skóla, ekkert þýtt á ensku eða þess háttar, eðlilega.  Við vorum mjög ánægð með Motakskolen og uppgötvuðum að íslendingar eru hrokafullir og telja sig ansi oft yfir aðra komna sbr. það að við eigum ekki heima í Motakskolen af því að íslenskan og norskan eru svo lík.  Ég skil bara nánast ekki orð eftir eitt ár það sem sagt er í sjónvarpinu.  Ég skil alveg helling þegar Norðmenn tala beint við mig og ef þeir vita að ég er útlendingur en annars ekki.  Ég ætla á námskeið í haust og læra betur að skilja.  Ég get orðið gert mig vel skiljanlega á norsku og skil hana þegar ég les, les blöðin og bækur og allt í lagi.  Skil auðvitað ekki allt en nógu mikið.  En talaða málið er bara allt annað.  Norðmenn gætu nú alveg tekið nokkra stafi úr stafrófinu sínu því þeir nota þá ekki þó þeir séu skrifaðir í orðin eins og td SKJ  er alltaf sagt C eða þá SJE og það skil ég oftast ekki.  Og svo er talað hratt og muldrað.  Þeir taka ekki utan um orðin og hafa ekki mikinn málskilning og átta sig illa á því hvað þú gætir verið að segja ef þú segir það ekki hárrétt.  Samaborið við það að ég var að reyna að tala við konu um ædolið og hún vissi akkúrat ekkert hvað ég var að tala um en með aukaútskýringum og útidúrum kveikti hún að ég væri að meina Ídúúúl.  Þau læra ensku hér frá 6 ára aldri og það stendur IDOL og þátturinn upprunninn úr ensku svo það er alveg óskiljanlegt að þetta hafi ekki skilist.  Sama með Þráinn þegar hann spurði konuna:  Sikkler du på jobben og hún tók því ekkert vel því hann átti að segja Sykkler du på jobben og það er sem sagt mismunandi framburður á i og y og annað þýðir hjólar þú í vinnu (og konan var með sokkinn utan yfir buxurnar) og hitt þýðir slefar þú í vinnu.  Og hún hélt virkilega að útlendingurinn væri að spyrja hana að því hvort hún slefaði í vinnunni?  Íslendingur hefði hugsað út fyrir orðið og reynt að finna út samhengið á því sem maðurinn var að segja og áttað sig á að hann bar einn staf rangt fram.  En hann Skúli tannlæknir og mikill hugsuður segir einmitt að þetta sé vandamálið með norðmenn þe. þeir hafi enga málvitund sem við íslendingar erum svo rík af.  Þess vegna finnst mér ég alltaf vera svo barnaleg þegar ég tala norsku, finnst vanta svo mikið af milliorðum sem maður sleppir oft þegar maður talar við ómálga börn.  Og enginn óþarfi er sagður og því koma oft miklar þagnir þegar þú situr með norðmönnum, það er lítið um það að tala bara um ekki neitt eins og við gerum oft.  Og það endar einmitt oft á því að Þráinn fer bara að segja brandara og þess háttar því við kunnum ekki að sitja í herbergi með öðru fólki og enginn segir neitt.  Það kom til dæmis fyrir á 17. mai þar sem voru 5 hjón samankomin að það komu þagnir í stofunni 10 manns og dauðaþögn og öll þekktust þau mjög vel fyrir utan okkur.  Heima á íslandi hefði ekki verið samkjaftað á svona stundu.

En hvað um það, ég elska samt Norðmenn og kannski bara gott fyrir mann að kynnast einfaldara fólki en við íslendingarnir erum og vera ekki alltaf svona meðvitaður um sjálfan sig og kannski bara slaka á þegar það koma þagnir.  Alla vega elska ég það hvað þeir velta náunganum lítið fyrir sér, held ég muni aldrei heyra það hérna:  Í hverju ertu eiginlega?  Það er bara öllum sama.  Og annað sem ég elska það er hvað fólk er vinalegt úti á götu, heilsar ókunnugum og brosir og stoppar og hlustar á tónlistarmenn og leyfir sér að njóta.  Eins þegar við fórum á fyrstu tónleikana okkar hérna.  Æðislegt, klappað og öskrað inní miðjum lögum ef það kom flottur sóló.  Ekki þessa leiðinlega kurteisi íslendingsins að bíða eftir að lagið er búið og klappa þá smá.  Látum listamanninn vita hvað okkur þótti flott þegar okkur þótti það flott.  Sama er líklega í leikhúsi en ég er ekki farin að fara í norskt leikhús en gæti hugsað mér að gera það kannski næsta vetur en það hefur oft verið horft á mig heima á Íslandi þegar ég er í leikhúsi og fagna og öskra og hlæ hátt svo leikararnir viti hvað mér líkar vel og hvar þeir eru að gera góða hluti.  Klappa þegar eitthvað frábært gerist og klappa bara inní miðju lagi það er sko allt í lagi og truflar engan.
En eitt er það sem við erum ekki alveg nógu ánægð með og það er hvað þú færð alltaf litlar upplýsingar þegar þú óskar eftir þeim.  Þeir segja bara það allra nauðsynlegasta og okkar upplifun er að við vitum ekkert.  Sbr. með leiguna í Langåsen að konan þar ætlaði aldrei að leigja húsið í júlí en Thor Kristian hjá Personal partner sagði alltaf við okkur að það yrði ekkert mál að við flyttum inn og yfirtækjum leigusamninginn.  Ók, en konan hélt að það væri ekki fyrr en í ágúst en við komum í júní.  Annað dæmi.  Við erum að fá þessa íbúð afhenta og okkur er sagt að konan skili henni 1. okt. en leigusalinn er að fara til útlanda og kemur 4. okt.  OK.  Við erum sem sagt líklega að fá íbúðina 1. okt og það hlýtur bara að vera að bróðir leigusalans sem á þessa íbúð líka láti okkur hafa lyklana.  Nei, það var ekki þannig við urðum að bíða eftir leigusalanum og því spyr ég af hverju var þá ekki sagt.  Konan fer út 1. okt en af því að leigusalinn er í útlöndum til 4. okt þá fáið þið ekki afhent fyrr en eftir það.  En við keyrðum hingað niðureftir og vorum að bíða og vona í þessa 4 daga eftir lyklunum.  Svo við höfum ákveðið að reyna að muna eftir að spyrja alltaf betur út í hlutina eins og í þessu tilviki hefði Þráinn þurft að spyrja þegar búið var að segja honum að konan færi út 1 okt og hann væri í útlöndum til 4 okt, og hvernær megum við þá flytja inn?  Við förum í búð og ætlum að kaupa síma en hann er ekki til á staðnum og verður pantaður og þá þurfum við að spyrja “hvenær má ég þá koma og sækja hann?”  hvaða dag og klukkan hvað?

En þetta er eini gallinn sem ég sé á Norðmönnum.  Ég hef ekki kynnst þessum lötu norðmönnum sem margir íslendingar tala um, alls ekki en þeir vilja ekki vinna langan vinnudag því þeir vilja fara heim til fjölskyldunnar og dytta að húsi og garði. Þeir eru alltaf að dytta að hjá sér og alltaf að labba með alla fjölskylduna úti bæ, fara mikið í göngutúra uppá fjöll eftir vinnu, þeir nefnilega lifa líka.  Ekki eins og vinnusjúkir íslendingar (sérstaklega karlmenn) sem vinna allt of langan vinnudag og sjá börnin sín allt of stutt og of lítið.  Ég man þegar við Þráinn vorum á ættleiðingarnámskeiðinu sem við fórum á að þar voru alla vega 2 aðrir smiðir og þeir áttu ekki til orð að Þráinn væri bara að vinna 7.30 – 15.30.  Akkúrat af hverju ertu ekki með aukavinnu eða vinnur til 19 eins og við?  Af því að ég læt mér duga þessar tekjur og er bara að sinna mér og fjölskyldu minni í eftirmiðdaginn.  Við td. reyndum að eignast barn í 17 ár og því ætti hann að vera að vinna frá henni alla daga langt fram á kvöld? Auðvitað gerði hann það suma daga og ég líka en oftast bara dagvinnu og sama gerum við hérna og þá meira líka fyrir sjálf okkur en ekki bara fyrir hana.  Það er bara alveg dásamlegt að hittast öll hérna heima kl. 16 og ákveða að fara á ströndina saman eftir vinnu.  Eða fara í góðan hjólatúr eða bara gera eitthvað annað en bara að vinna, þó vinnan manns sé skemmtileg þá er svo margt annað líka skemmtilegt og ég held að það sé ömurleg tilfinning eins og hann afi minn fann fyrir þegar hann þurfti að hætta að vinna 80 ára (já ég held hann hafi örugglega verið orðinn svo gamall eða alla 75 ára) og hann settist nánast bara í stól og fór að bíða.  Eftir hverju, hann veit það ábyggilega ekki og ég held það hafi að sjálfsögðu ekki verið eftir dauðanum en samt.  Hann vissi ekkert hvað hann ætti af sér að gera.  Hann hafði engin áhugamál því hann var alltaf að vinna.
Svo ekki dissa norðmenn fyrir að vilja lifa lífinu meðan þeir eru ungir.  Og þeir sem við höfum kynnst eru sko ekki latir því þeir eru endalaust að gera við og laga til og vinna alveg frameftir ef þess gerist þörf.  Ef verið er að innrétta skrifstofu og það er starfsemi í henni, þá unnu Þráinn og Arnfinn bara á nóttinni til að trufla ekki starfsemina og það var Arnfinn sem ákvað það ekki endilega Þráinn.
En aftur að því að við erum að fara heim í frí og ég hlakka svo til að hitta fólkið mitt og knúsa litlu kallana mína sem hafa báðir tveir elst um eitt ár og eru orðnir svo stórir og flottir strákar.  Hlakka auðvitað líka til að hitta ömmu, mömmu og systkinin mín og börnin þeirra öll.    Ætla að dreifa knúsum út um allt heima á Íslandi og dansa þar í rigningunni líka og njóta lífsins. Vona að það verði ekki mikið rok.
Og ég veit að þessir krakkar hlakka til að hittast

Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

21.06.2013 10:24
Sumarfrí 2013 – Dagur 1
Vöknuðum eldsnemma eins og vant er og gerðum okkur klár í ferðalagið.  Erro er búinn að vera mjög skrítinn þessa helgi og hefur líklega fundið eitthvað á sér, þó ég viti að það væsi nú ekki um hann hjá Edda og Begga.  En hann er búinn að væla óvenjulega mikið um helgina og vafra mikið um og vera skrítinn.  Hann ætlaði líka ekkert að skilja við okkur þegar við fórum með hann til Edda, en svo fór hann inn og allt var í góðu.
Nói var græjaður til að vera einn heima og hann fær heimsókn frá Kristínu Jack annan hvern dag þar til við komum heim, ég hef mun meiri áhyggjur af honum en Erro.  Pínu eins og að vera í fangelsi hjá honum þar sem hann kemst ekkert út.
En jæja við vorum auðvitað tilbúin miklu fyrr en við þurftum og komum til Edda eitthvað fyrir klukkan ellefu og svo fórum við í Kristianssand en ég hafði ætlað að kíkja í HM fyrir Silju og athuga með vörur sem voru uppseldar á netinu en þær voru líka löngu búnar í búðinni.  En sumir græddu á þessu stoppi eða sem sagt Mirran mín, því hún endaði með að dobbla út úr okkur 3 boli en hún er bolasjúklingur þessi stúlka og á alltaf fullt af bolum en ekki svo margar buxur.
Jæja við röltum um í Kristianssand í brjálæðislega góðu veðri 21 stiga hita og sól og vorum hreinlega að kafna úr hita.  Skoðuðum í búðir og sátum á bekk við kirkjuna og nutum lífsins eða samt ekki því okkur var svo heitt og Mirran komin með höfuðverk sem er mjög algengt hjá henni í sól.

Svo við skelltum okkur bara í bílinn niður á bryggu klukkutíma áður en við þurftum að vera mætt.  Sátum og köfnuðum í bílnum og biðum eftir að komast um borð í Fjördline sem fór með okkur til Hirsthals í Danmörku.  Jæja sú ferð var bara fín eins og alltaf og þó hann hreyfist þessi dallur þá finn ég ekki fyrir sjóveiki ef sit kjurr í þessum líka fínu flugvélasætum sem þeir eru með þar.
Jæja við komum svo í land í Danmörku og ætluðum að finna búð að versla í en ungfrú Geirþrúður Pálína Sigurðardóttir var alls ekki að fatta það að hún væri komin til Danmerkur og vildi bara vísa okkur á Rema 1000 á Marnavegen við hliðina á þar sem við búum.  Við slökktum og kveiktum og rúntuðum um bæinn sem virtist ekki vera með neina matvörubúð en nóg af pöbbum og krám.  En svo skyndilega hrökk hún Geirþrúður í gang og áttaði sig á hvar við vorum og vísaði okkur á Danska Rema1000 og Nettó og við völdum nú bara Netto uppá tilbreytinguna og keyptum okkur brauð og smotterí til að hafa um borð í Norrænu.
Jæja þá var allt klárt að finna hótelið sem við vorum búin að bóka okkur á og gekk það bara fínt og þetta er sko fínasta hótel og alveg niðrá bryggju þar sem skipin leggja að.  Við erum með stórt hjónarúm og tvær kojur í herberginu, klósett og sturtu og utangengt í krúttlegan garð.
Jæja við komum okkur fyrir og fórum svo að finna okkur veitingarstað.  Já þá kom það í ljós að Ástrós Mirra vill bara labba inná næsta stað á meðan móðir hennar vill rölta um allt hverfið og sjá hvað er í boði, og varð smá ósamræmi þarna á milli okkar eða já já næstum því argaþras.  En við enduðum nánast aftur til baka á upphafstað og fórum þar inn að borða og fengum geggjaðan mat og heyrðum íslensku á næsta borði en það fólk sagði það mjög algengt á mánudögum því Norræna fer á þriðjudögum til íslands.
Frábær matur og já Þráinn og Ástrós Mirra pöntuðu sér kók en ég einn öl og að sjáfsögðu var bjórinn settur fyrir framan Þráin en ekki mig þegar komið var með drykkina á borðið.   Týpískt.
Og nú erum við komin uppá hótel aftur og liggjum öll uppí rúmi og Ástrós Mirra horfir á teiknimynd, Þráinn dormar og ég blogga í word því við erum ekki með net hérna eða ætlum alla vega ekki að kaupa það.
Kósí kvöld framundan, vöknum snemma á morgun og sturtum okkur og förum svo í morgunmat.
Engin mynd tekin í dag nema ein á símann hans Þráins til að sýna okkur í Kristianssand.
Þangað til á morgun, ykkar Kristín Jóna

 

21.06.2013 10:37
Sumarfrí 2013 – Dagur 2
Vöknuðum klukkan 7 og fórum í sturtu og morgunmat.  Sváfum öll mjög vel á Motel Nordsöen og morgunmaturinn var bara ágætur alla vega hægt að fá ristað brauð og rúnstykki og súrmjólk ofl.
Ákváðum að fara bara snemma af stað í Norrænu sem betur fer því það var sko komin löng röð þegar við komum þangað, vorum sem sagt í biðröð í 2, 5 tíma sem var auðvitað talsvert mikið en allt í lagi samt.  Svo þegar röðin okkar fór að hreyfast þá vorum við Ástrós Mirra beðnar að fara gangandi um borð með töskurnar því það er svo þröngt í bílageymslunni.  Við gerðum það fundum klefann okkar sem er fínasti klefi með 4 rúmum og klósetti og sturtu, sjónvarpi og fataskáp.  Aldeilis flott þó það hafi vantað ísskápinn.

Við byrjuðum á að koma okkur fyrir og finna Þráin og fórum svo og skoðuðum skipið.  Hér eru margir veitingarstaðir, spilasalir, verslanir, bíó, heitir pottar, sundlaug og sauna og svo segir fólk að hér sé engin afþreying.  Fyrir nú utan það að feðginin spiluðu meðan ég las bók, sátum og horfðum á fólkið sem er svo allskonar og gaman að stúdera og fylgjast með.  Við fórum í sund og sauna og kúrðum okkur í klefanum okkar og skelltum okkur svo á nýjustu Die hard myndina með Bruce Willis í aðalhlutverki.

Nokkrum sinnum yfir daginn var ég mikið að undrast það að skipið hreinlega haggaðist ekki og hvað ég hefði nú verið að hafa fyrir því að senda Þráin út í apótek heima að kaupa sjóveikistöflur.  Það væri nú þvílíkur óþarfi á svona snekkju. Áttum sem sagt góðan og þægilegan ferðadag.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna einhversstaðar á milli noregs og færeyja.

 

21.06.2013 10:55
Sumarfrí 2013 – dagur 3

Eitthvað hefur nú breyst frá í gær.  Djö…. skipið hristist og veltur eins Herjólfur og ég er að drepast í hausnum eftir að liggja á kodda sem fór allur í hnúta þegar legið var á honum.  Ég laumast til að sækja mér verkjalyf og ó mæ god finn fyrir sjóveiki, eins gott að skríða aftur í koju og bíða svo eftir að Þráinn vakni.  Klukkan er orðin þrjú þegar ég er að skrifa þetta og ég er enn í koju, búin að prófa að fara í sturtu og var alltaf alveg að missa jafnvægið og þeirri stund fegnust þegar ég komst aftur í kojuna, búin að éta ibúfen og sjóveikistöflur en fékk svo matarlystina rétt áðan og finn ekki fyrir sjóveiki meðan ég ligg hérna kjurr.  En þetta kjurr í kojulíf á sko ekki við minn mann sem getur ekki beðið eftir að fara upp og kíkja á mannlífið enda búinn að gera það nokkrum sinnum í allan dag meðan ég ligg hérna í kojunni að reyna að vera ekki sjóveik.  Færeyjar eru handan við hornið og ég skal geta farið upp og notið þess að sjá þegar við siglum inn þar.

Og já gott að Þráinn keypti sjóveikistöflur handa mér, hefði ekki viljað vera án þeirra hérna.

Jæja eftir að ég lá í koju til kl. 15.30 dreif ég mig á fætur og við fórum upp á efsta þilfar á barinn þar, og þá komst ég að því að við myndum ekki fá að fara í land í Færeyjum, þar yrði bara stoppað rétt til að aferma og ferma skipið aftur.  Neiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii  ég sem var búin að hlakka til að fá pásu frá rugginu á bátnum og geta skoðað mig aðeins um í Færeyjum.  Svo ég var vel viðbúin að hlaupa uppá dekk til að taka alla vega myndir þegar við kæmum að þeim.  En það var brjálæðislegt rok og ískal (okey, ein alveg búin að gleyma þessu og er bara á peysunni)  en ég tók nokkrar myndir af þessum fallega bæ og náði að standa upprétt en það var ekkert auðvelt.  Útlendingarnir voru klæddir í úlpur og húfur og ég veit ekki hvað og hvað en ég sem á að þekkja veðrið þarna á norðurslóðum er eins og bjáni á peysunni og sko utanyfirflíkurnar eru í bílnum og við megum ekki fara í hann á leiðinni.

En allt í góðu, ég tók nokkrar myndir af Færeyjum og við fórum svo og fengum okkur að borða á fína veitingarstaðnum hérna um borð en sko þeir eru alla vega 4 veitingarstaðirnir hérna svo úr nógu er að velja.  En ég sagði að það væri einmitt gott að borða meðan dallurinn væri kjurr eða þannig.
Heyrði utan að mér að þetta væru 3ja metra háar öldur svo líklega útskýrir það veltinginn.  Samt finnst Þráni ekki eðlilegt að svona stórt skip velti svona en ég veit ekki neitt um þessi mál.

Fengum okkur steik sem var bara fín og fórum svo yfir á barinn og fengum okkur og biðum eftir trúbatornum sem átti að spila.  Hann byrjaði að spila rúmlega níu og var mjög fínn, fallegur færeyskur strákur með fallega rödd sem kunni vel á gítar.  Ég söng að sjálfsögðu með og fékk smá augnaráð frá dótturinni af og til en það stoppar mig ekki af að syngja með.  Það er bara ég.

Sátum og nutum tónlistarinnar til tíu og þá fórum við Ástrós inní klefa að koma okkur í kúr en Þráinn ætlaði að sitja áfram. Hann kom þó óvenjulega snemma og sagði það eingöngu vegna hóps af frökkum sem komu þarna inná staðinn, settust nánast beint fyrir framan trúbatorinn og byrjuðu svo að tala saman og hækkuðu sig ef tónlistin hækkaði. Þráni langaði mikið að standa upp og biðja þau að þegja eða færa á annan stað sem ekki væri lifandi músík en ákvað bara að fara og vonar að einhver annar hafi látið þetta fólk heyra það hvers lags dónar þau eru.

Illa sofið í nótt fyrir veltingi, braki og brestum í skipinu en núna allir vaknaðir og að klára að pakka niður því við þurfum að afhenda klefana 2 tímum áður en við komum að Seyðisfirði.
Ísland við erum að koma.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna.

 

22.06.2013 11:14
Sumarfrí 2013 – dagur 4
Við sváfum ekki vel síðustu nóttina í skipinu, ennþá veltingur og brak og brestir í öllu innanborðs.  En við vöknuðum kl. 7 fengum okkur morgunmat í klefanum okkar og fórum í sturtu og höfðum okkur til.  En það þarf að skila klefunum 2 tímum fyrir heimkomu en það er svo þernurnar geti skipt á rúmum og lagað til áður en næstu gestir koma.
Við vorum auðvitað klár fyrr og drifum okkur svo upp og fundum okkur sæti uppí sal og sátum þar og spjölluðum og höfðum kósí með kaffi og kakó þar til tími var til að koma sér í bílageymsluna.  Og Þráinn fór á undan og sá að við komumst alveg inní bílinn þar svo við gerðum það sem betur fer, því þar varð allt stopp í 1,5 tíma og ef ég hefði staðið á bryggjunni og beðið allan þennan tíma þá hefði mér ekki litist á blikuna.  En það var víst einhver bíll fyrir sem ekki fannst eigandinn að.  Það var auglýst eftir honum í kallkerfinu og ekkert gerðist.  Ég veit ekki hvort hann fannst eða hvort starfsmennirnir náðu að koma bílnum út á eigin spítur, en sá hefur nú fengið hiksta þegar hundruðir manna sátu fastir í bílageymslu bara út af honum.  Við vorum nú farin að halda að hann hefði kannski farið frá borði í Færeyjum og haldið að það mætti og ekki áttað sig á að það var ekki stoppað þar núna eins og oftast er gert.  Alla vega 1,5 tími og þá komumst við út í næstu röð sem var tollaröðin.  Hittum á Guðbjörn manninn hennar Stefaníu Ástvalds og hann spurði okkur bara hvaðan við kæmum og hvað við værum að gera osfrv.  Svo bendir hann okkur áfram og við túlkuðum það sem við mættum fara áfram en áttum okkur ekki á hvaða röð það er sem fer út úr tollinum og ég segi við Þráin, eltu bara græna bílinn á undan okkur.  Svo kemur þarna að annar tollvörður og Þráinn spyr hann hvert við eigum að fara og hann segir farðu á hlið 2 bara.  Ok, við gerum það og uppgötvum þá að við erum sko ekkert á leið út úr tollinum heldur í tollinn og hlið 2 haggaðist ekki en það fóru 4 bílar í gegnum hlið 1 á meðan.  Oh my God hvað við getum verið óheppin.  Eltu bara græna bílinn, já ok þetta var mér að kenna, ég veit það.  En svo opnuðu þeir hlið 1 og bentu okkur á að koma þar inn.  Mjög vinalegt fólk þar sem spurði spurninga og skoðuðu ökuskírteini og skráningarskírteini bílsins og kíktu í skottið og klöppuðu grænu töskunni en sáu ekki pottasettið sem við vorum að skutla fyrir Margréti eða trampolindúkinn hennar Önnu í Eyjum.  Enda sjálfsagt verið allt í lagi þó þeir hefðu séð það því það má koma með orðið miklu meira heim en áður fyrr.
Jæja þá erum við lögð af stað og ákváðum að koma við í sjoppunni á Seyðisfirði og fá okkur íslenskar pulsur og ég bað um það og þá brosti afgreiðslukonan og sagði já já og ég á líka prins polo í eftirrétt.  Sú hitti rétt á okkur enda kann hún þetta og veit hvað íslendingar biðja um þegar þeir koma með norrænu.
Jæja þá erum við lögð af stað í 10 tíma akstur á Þingvelli.  Búin að tala við Klöru systur og búin að tala við Konný systur og fá uppgefið hvað er lengi verið að keyra á Jökulsárlón en það var eini staðurinn sem við vorum ákveðin í að stoppa á.  Svo keyrum við frá Seyðisfirði og já sæll það er svo langt síðan ég hef komið austur að ég var alveg bit að við færum þaðan til Egilsstaða.  Hringdi í Konný og spurði og jú jú við vorum á réttri leið.  Frábært svo við keyrum í gegnum Egilsstaði og höldum áfram í ca. 15 mín.  þangað til ég sé skilti og það segir bara Vopnafjörður / Akureyri…………. ha við eigum ekkert að fara til Akureyrar, ég veit alveg að við endum í bænum en við ætluðum á jökulsárlón og ég sló inn jökulsaár…. eitthvað í Geirþrúði Pálínu Sigurðardóttur og hún fann einhvern jökulsárveg og hann fórum við en ….. þetta er eitthvað skrítið, hringi aftur í Konný (úff veit ekki hvernig ég færi af ef hún væri ekki til).  NEI  þið getið ekki verið á réttri leið fyrst þið sjáið bara skilti Akureyri.  Ok, Konný á fullu í Eyjum með vinnufélaga sinn sér til aðstoðar og við í bílnum að reyna við hana Geirþrúði og finna út hvert við værum að fara.
Já ok, við villtumst.
Klara systir segir að það sé ekki hægt að villast á Íslandi en ég sagði bara Klara mín, þetta erum við og þá sagði hún bara ok.  Ég veit.  Þið getið villst hvar sem er.
Svo kemur rétta spurningin frá Konný og svarið frá okkur, nei við keyrðum í gegnum Fellabæ.  Ok, þá eruð þið örugglega á rangri leið og þurfið að snúa við.  Hálftími þar í súginn, það á ekki af okkur að ganga í þessari bið og þessum töfum þennan daginn, bara af því að við ætluðum okkur að láta þetta ganga svo vel.
En það heita allt of margir staðir sömu nöfnum á Íslandi, þannig að Geirþrúður Pálína sem er norsk hún sér bara að það sé hægt að komast á alla staði tvær leiðir því hér er hringvegur og hún er greinilega ekkert að hugsa um það að ég ætlaði á Jökulsárlón.  Af hverju finnur hún ekki jökulsárlón?  Hvað er í gangi.  Við stoppum á bensínstöð kaupum nýjar rúðuþurrkur því það rigndi eins og andskotinn þarna fyrir austan og þurrkurnar okkar sem eru lítið notaðar í Noregi hafa verið orðnar fúnar.  Við spyrjum konuna á bensínstöðinni hvort leiðin sem Konný var búin að benda okkur á en var með malarvegi væri góð og hvaða leið væri að henni og hún sagði best fyrir okkur að fara einmitt þá leið og hún væri alveg fín þrátt fyrir malarvegi.  Svo við af stað aftur.
Förum þá leið sem okkur er bent á og ég get svo svarið það að Geirþrúður hélt hreinlega að við værum komin á tunglið, hún vissi bara ekkert hvar við vorum að keyra fyrr en við vorum komin talsvert inná malarveginn þá allt í einu veit hún að þetta sé vegur og gat svo lóðsað okkur þar eftir.  Ég held að Geirþrúður Pálína hafi verið valin handa okkur.  Ég held að það séu ekki öll svona tæki eins því við eigum auðvitað að hafa eina Geirþrúði sem er líka áttavillt því annað passar ekki þessari fjölskyldu.  En við keyptum Geirþrúði bara til að hjálpa okkur áttavillta fólkinu og svo fáum við eina sem er lítið skárri.
Jæja við náum nú að keyra slysalaust á Höfn í Hornafirði og förum í fyrsta sinn í gegnum göngin þar og nú erum við komin í góða veðrið sem við tókum með okkur frá Mandal.  Skreppum í búð og kaupum brauð og smjör og mjólk og kókópuffs til að eiga í bústaðnum fram á næsta dag.  Fórum einnig í vínbúðina og keyptum bjór og sumarhvítvínið mitt sem fæst ekki í Noregi.  Ég svipaðist eftir posanum til að setja kortið mitt i þarna en fann engan og mundi þá allt í einu………… já því var frestað því íslendingar gátu ekki sett pinnið á minnið.  Hálf skrítið eitthvað geta þeir það eftir hálft ár?  Jæja allt í lagi ég kvitta bara á miðann eins og mér ber að gera.
Næsti viðkomustaður er Jökulsárlón……………………. og ég er sko búin að hlakka svo til að koma þangað og varð ekki fyrir vonbrigðum.  Því sólin skein og himininn var svo fallegur og ja hérna þetta er fallegasti staður í heiminum held ég.
Jæja eftir stoppið hérna var brunað áfram því stefnan var tekin á að komast í Gamla fjósið hennar Heiðu Scheving til að fá okkur að borða og knúsa hana.  Náðum þangað kl. 20.40 en það lokar kl. 21 svo þetta passaði allt saman. Yndislegur staður og ég mæli með að þið stoppið þarna og fáið ykkur að borða þegar þið eigið leið fram hjá Skógum og því svæði.
Brunað í bústaðinn og komin þangað kl. 23.
Yndislegt að koma í litla kotið sitt og það var bara hlýtt þar og svo hreint og fínt að ég er alveg viss um að Klara systir hafi verið síðust út.  Hún er nefnilega eins og mamma.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

2.06.2013 11:25
Sumarfrí – Dagur 5
Heimsóknadagur í dag og innkaupaferð.  Yndislegt að vakna i bústaðnum og sólin skein og spáin er fín fyrir helgina en það á að vera Sumarhátíð á Þingvöllum á laugardaginn og um 30 manns sem koma og því eins gott að veðrið verði gott.
Byrjuðum á að fara með pottana hennar Margrétar til Melanie dóttur hennar og knúsa stelpurnar hennar allar og ég fékk að máta hana litlu Ariönu sem vildi nú ekkert vera að horfa á þessa bláókunnugu konu.
Fórum svo og keyptum blóm handa ömmu, pabba og mömmu og Þráinn þvoði bílinn sem var auðvitað skítugur eftir allan aksturinn daginn áður.
Fórum svo til elsku ömmu sem er alltaf jafn falleg og yndisleg.  Og hún er sko eins og ömmur eiga að vera, hættir ekki bjóða eitthvað fyrr en maður segir já takk.  Og það var raunin með okkur í gær.
Hittum einnig mömmu hjá ömmu og henni tókst að knúsa mig án þess að tárast.  Gott er að finna faðminn þeirra beggja kvennanna sem ólu mig upp og hjálpuðust að við það.
Fórum svo og hittum pabba uppá spítala en hann er enn að jafna sig eftir stóra aðgerð sem hann fór í um daginn sem framhald af krabbameinsmeðferð sem hann var í.  Sem sagt báðir foreldrar mínir eru með krabbamein og ég sem hélt að við værum svona sérstök fjölskylda að geta verið laus við þennan andskota.  En gott að hitta hann pabba kallinn sem er að standa sig rosalega vel og er mjög duglegur en honum leiðist að vera á spítalanum í Reykjavík og hefði viljað vera fluttur til Eyja en þau vilja ekki sleppa honum fyrr en öll líkamsstarfsemi verður komin í lag og hringrásin eðlileg og það er gott að vita af því en leiðinlegt að hann sem er búinn að vera svo jákvæður sé að verða leiður og dapur því þetta gengur ekki allt eins vel og hann hefði viljað.
Jæja svo var farið til mömmu og Sigga og þar hitti ég krónprinsinn Ríkharð eftir 8 mánuði og ég mátti sko taka hann í fangið og knúsa hann og Þráinn var að leika við hann með dýrunum og ég fékk svona yndistilfinningu bara að horfa á hann.  Fallegi yndislegi Ríkharður Davíð.
Ástrós Mirra og Kristófer smullu saman eins og alltaf og hún ákvað að fara með þeim heim í gær og koma svo bara með þeim á Sumarhátíðina á morgun.
Við hjónin fórum því að versla inn í Mosfellsbænum en því miður er það svoleiðis orðið með mig að ég er að missa skipulagningarhæfileikann og kaupi vitlaust og sumt er svo bara ekki til en ég á góða að sem redda því.
Við hjónin grilluðum lambakjöt og nutum þess að borða það kl. 22 í gærkvöldi og svo bara farið í háttinn eftir matinn enda ég orðin dauðþreytt.

Það spáir góðu veðri á morgun og ég hlakka svo til að hitta allt fólkið mitt, ætla að setja met í knúsum.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

22.06.2013 12:36
Sumarfrí 2013 – Dagur 6
Vöknuðum í sól og blíðu á Þingvöllum og í dag eigum við von á 35 manns á Gjábakka og því var góða veðrið algjört möst.
Við settum út stóla og borð og hengirúm og leikföng fyrir krakkana.  Opnuðum Mirrukotið svo þau gætu fundið sér eitthvað gamalt ryðgað dót að leika með eða þannig.
Uppúr hádegi fórum við að bíða eftir fólkinu og allt í einu hringir síminn og Þráinn svarar og þá segir rödd hinum megin, “Ekki segja orð, opnaðu bara hliðið”.  Ha.  Honum fannst þetta vera Maddý mamma sem var föst á Raufarhöfn og komst ekki í bæinn til að hitta okkur.  Hvað er í gangi?   Og viti menn birtist ekki sú gamla á jeppanum sínum hérna fyrir utan öllum að óvörum.  Fékk sér bara frí í vinnunni og keyrði suður 10 tíma til að hitta uppáhalds íslendingana sína sem búa í Noregi.  Ekkert smá gaman að hitta hana og að hún skyldi leggja þetta á sig var stórkostlegt.

Næstur birtist hér Magnús Sigurjónsson óvæntur líka, en hann var á leið í Biskupstungurnar og ég sá það á fésinu og sagði hann velkominn á Þingvöll.  Hrikalega gaman að hitta þennan skemmtilega strák sem býr annars í Danmörku en er að vinna á Grundarfirði í sumar.
Svo fóru aðrir gestir að týnast til okkar og var stanslaus gestagangur til kl. 8 um kvöldið þegar síðustu gestirnir fóru.
Sigrún og Kolla komu fyrstar á eftir Maddý og var mikið gott að sjá þær og knúsa enda langt síðan síðast.
Klara systir og bestustu strákarnir okkar (já sko við eigum þá saman ekki spurning um það) og Ríkharður Davíð fallegi prinsinn minn var alveg að leyfa mér að leika smá við sig.

Silja Ýr, Hansi, Kastíel og Loki mættu og úps, Kastíel var eitthvað smá feiminn við frænku sínu en það lagaðist.  Yndislegt að knúsa þau öll og ég sé þau sem betur fer aftur um næstu helgi, þrátt fyrir að Kastíel krulluprins hafi skotið mig með byssunni sinni.
Konný systir og Zorro komu svo líka og ekki hægt að segja annað en að Zorro og Loki hafi haft ofan af fyrir krökkunum þennan daginn, ótrúlegustu börn elskuðu greinilega að vera með hunda.
Snorri, Anna, Óskar Orri, Katla Dís og amma Steina mættu svo galvösk á svæðið og Anna ætti að búa úti hjá okkur því henni finnst kalt í íslensku sólinni.  En ég var svona líka, þar til ég hætti á hormónum þá leyfi ég bara hitaflössunum að koma og þá er þetta allt í lagi.  Katla Dís er nú bara flottasta stelpan í bænum núna búin að missa tvær tennur og með tvær fléttur finnst mér hún sko flottust og Óskar Orri Krullukóngur er alltaf svo fallegur, en hann er greinilega kominn á þann aldur að nenna ekkert að leyfa frænku sinni að mynda sig mikið.
Amma Steina færði mér í fimmtugsafmælisgjöf svo fallegt veski – leðurveski handgert, ekta Kristín.  Hún laug engu um það þegar hún sagði mér í símann að hún væri búin að sjá eitthvað veski sem hana langaði að gefa mér og það væri svo mikið ég.  Takk elsku Steina mín, þú hittir rétt á naglann þarna.

Ása Kolla, Gunni, Ynja Blær, Kara Lind og Þula Gló mættu svo stæl og það var svo gaman að sjá þau öll.  Þau færðu mér líka fimmtugsafmælisgjöf, pening sem ég mun nota uppí fallegu kápulopapeysuna sem mig langar einmitt svo í.  Yndislegt að hitta þau.  Kolla er búin að vera svo miklu nær mér eftir að ég flutti út og við tölum svo oft saman núna.  Við Þráinn höfum reyndar alltaf verið frekar nátengd þeim þó það hafi verið lítið samband síðustu árin.  Þá er það meira núna .

Addi, Anna Sif, Jón Andri og Sigrún Eva komu svo og Jón Andri var greinilega mikið spenntur að hitta frænda sinn og kom hér hlaupandi og kallandi á Þráin.  Svo krúttlegur og blíður drengur.  Sigrún Eva er náttúrulega bara drottningin svo falleg og blíð.

Síðust í boðið komu Konni, Drífa og Birta en sú síðastnefnda var að keppa á frjálsíþróttamóti og því komu þau í seinna fallinu.  Gott að sjá þau og hitta og já sko hún Birta mín er orðin stærri en ég, ég er sko bara ekkert sátt við að þessir krakkar stækki svona mikið.

Mamma og Siggi treystu sér ekki að koma í svona stórt boð, og unglingarnir…. ja sko ekki unglingar reyndar lengur heldur fullorðnu systkinabörnin komu ekki vegna vinnu eða annarra verkefna.  Saknaði þess þó aðeins að sjá ekki Alexander, Andra, Sunnevu og Söru.  En svona er þetta bara stundum.  Heyrðu og já auðvitað vantaði sjómanninn síkáta líka en hann Markús var úti á sjó en ég hitti hann vonandi eitthvað annað hvort í Eyjum eða á ættarmótinu um næstu helgi.
Þetta var yndislegur dagur og veðrið dásamlegt með smá vindi af og til en við lifðum það af og þetta gekk upp.  Hverjar voru líkurnar á því að fá svona veður ákveðið með mánaðarfyrirvara?  Ekki miklar á Íslandi því miður en það var einhver þarna sem kippti í spotta og hjálpaði okkur við þetta.

Sé það núna þegar ég er að setja myndirnar hérna inn að tvær konur komu sér algjörlega hjá myndatöku og voru greinilega hvergi nálægt myndavélinni og það eru þær Anna Sif og Silja Ýr.  En svona er þetta bara oft þó maður haldi að maður sé að taka myndir af öllum þá gleymist alltaf einhver í stórum hópi og er það ekkert illa meint stelpur mínar.
Elska ykkur öll – takk fyrir daginn, hlakka til að sjá ykkur aftur Ykkar Kristín Jóna

 

23.06.2013 11:09
Sumarfrí 2013 – Dagur 7
Konný gisti hjá okkur því við ætluðum í ljósmyndatúr og myndatöku með henni Ásu Snæbjörnsdóttur fallegu frænku hans Þráins.  Hún ætlaði nú að fresta myndatökunni til mánudags því bílinn hennar var bilaður og mamma hennar ekki viðlátin að keyra henni.

Úff ég þoli illa breytt plön og spurði Þráin hvort hann myndi ekki bara sækja hana Ásu frænku svo við gætum haldið okkar plönum.  Að sjálfsögðu var hann til í það og svo komu þau bæði ásamt henni Bellu krúttsmáhundi.  Gaman að hitta Ásu aftur held hún hafi bara verið 15 ára þegar ég sá hana síðast og það var gott að kynnast Bellu því ég hef alltaf haldið að allir chihuahua hundar væru leiðinlegir gjammarar en það er hún Bella ekki.  Þetta er sko hörkunagli sem fór að reka kindur og stjórna öllu í sveitinni.
Við stelpurnar fórum niður að Miðfelli og mynduðum við hana Ásu þar í ýmsum aðstæðum, hrikalega gaman að mynda stelpu sem kann að pósa og er ófeimin og með slatta að leikhæfileikum til að ná að túlka það sem átti að túlka.

Við áttum frábæra 2 tíma saman þarna og ég hlakka svo til að skoða myndirnar af henni Ásu betur og fara að vinna þær þegar ég kem aftur heim og verð með almennilegan skjá ekki bara fartölvuskjáinn því honum treysti ég ekki alveg til að vera að sýna mér rétta liti og birtu í myndunum.

Um kl. Hálfþrjú fórum við Konný Nesjavallahringinn og hann tók okkur rúmlega 3 tíma.  Þetta er auðvitað það skemmtilegasta sem ég geri, það er að fara í ljósmyndatúra með Konný, það er bara svoleiðis.
Komum heim passlega til að aðstoða Þráin örlítið með matargerðina en í matinn var humar frá Markúsi og Konný og  Þráinn grillaða hann með hvítlaukssmjöri og ummmmmmmmmmmmm og nammmmmmmm, dásamlegt.
Höfðum það huggulegt um kvöldið en ég fór snemma að sofa alveg búin á því enda hafði ég vaknað kl. 5 um morguninn og ekki náð að sofna aftur því ég var að hugsa svo mikið.

Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

24.06.2013 11:09
Sumarfrí 2013 – Dagur 8
Mosó sund og hugrun og baldur og peysa,kentucky
Þessi dagur var lítið planaður og því tilvalið að plana eitthvað til að gera og það skemmtilegt. Ákváðum að fara bara í Mosfellssveitina og fara þar í sund og auðvitað er Geirþrúður Pálína notuð til að vísa veginn því við höfum aldrei farið í sund í Mosó.  Geirþrúður fann nú fljótt sundlaugina í Mosó og við brunum þangað.  Fallegt umhverfi og bara einmitt það sem okkur líkar svo vel, svona svolítið sveitó.  En þegar inn er komið finnst okkur nú pínu einkennilegt að það er enginn í sundi.  Sko Mosfellsbærinn er nú stærri en svo að þar sé enginn í sundi þó það sé mánudagur, því það eru sumarfrí í skólunum og auðvitað einhverjir krakkar alltaf í sundi, en nei ekki í Mosó, við vorum ein.
Mjög kósí og notarlegt að vera alein í sundi og njóta sín.

Fórum svo í Álafoss að skoða peysur/kápur handa mér í afmælisgjöf en ég var búin að fá pening frá Ásu Kollu og Gunna og Þráinn ætlaði að gefa mér restina uppí kápuna.  Fann fljótt eina sem var með svona eldfjallamunstri og koksgrá sem táknar þá öskuna.  Langaði í með grænu munstri en það hefur ekki verið framleitt svoleiðis svo ég tók þessa með orange enda sjálf farin að ganga svo mikið í appelsínugulum fötum.  Geggjuð peysukápa og ég ekkert smá ánægð með valið og gjöfina.
Skelltum okkur svo í heimsókn til Hugrúnar og Baldurs sem er allt of langt síðan við höfðum hittst.  Alltaf jafn gaman að koma þangað og tíminn flýgur allof hratt.
Keyptum okkur Kentucky og brunuðum uppí bústað til að hafa það kósí þá um kvöldið.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

25.06.2013 11:31
Sumarfrí 2013 – Dagur 9
Þriðjudagurinn er runninn upp.  Það er dagurinn sem átti að nota í alla praktísku hlutina, fara í bankann og ganga frá skuldbreytingu lána til að lækka afborganir.  Sækja kreditkortið sitt þar sem búið var að misnota það gamla í einhverja áskrift á stefnumótasíðu í Danmörku og ég samviskusamlega greiði svona áskriftir mánaðarlega í hálft ár áður en ég fatta það, en það er alltaf svo frábært að eiga viðskipta við Valitor því maður fær svona lagað bara endurgreitt og tilkynnir misnotkun á kortinu, sem þetta svo sannarlega er, því ég er svo langt frá því að hafa einhvern áhuga á stefnumótasíðum og sérstaklega ekki ef það kostar 10.000 isk. á mánuði.

Jæja bankamálin leyst og þá var dótturinni skutlað til besta vinar síns og frænda Kristófers Darra en hún ætlar að vera þar meðan við hjónin förum til Eyja að setja upp ljósmyndasýningu okkar systranna.  Svo fór ég niður í vinnu á tvo fundi og hitta vinnufélagana og var það mikið gaman, er að vinna með svo skemmtilegu fólki sem er gaman að hitta.
Svo var bara brunað út í landeyjahöfn til að komast til Eyja.  Á leiðinni sagði Þráinn að ef við fengjum ekki pláss fyrir bílinn þá færi hann ekki með þar sem hann myndi aldrei skilja bíl eftir þar eftir síðasta tjón sem við lentum í þar.  En það kostaði okkur yfir 300.000 krónur og engar tryggingar sem borga sandfokstjón.

Að bíða þarna var bara talsvert stress því Pollamótið var að byrja og allt brjálað að gera.  En að lokum bar það ávöxt að vera á fólksbíl því það var svo mikið af jeppum og stórum bílum að það vantaði bíla sem komust uppá lyftu svo okkur var vísað framfyrir þá sem áttu pantað.  NÆS.
Skemmtileg Herjólfsferð var stutt og þægileg í spjalli við Berg og Jóný.
Komin til Eyja eftir kl. 23 og lítið gert annað en að spjalla og koma sér fyrir.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

26.06.2013 12:19
Sumarfrí 2013 – Dagur 10
Jæja við erum komin til Eyja og í dag á að setja upp fyrstu Ljósmyndasýningu okkar systranna.  Málið var að Konný systur fannst svo leiðinlegt að við gerðum ekkert meira við myndirnar sem við skiluðum inn sem lokaverkefni í Listrænni ljósmyndunaráfanganum sem við tókum í vetur og því var þetta ákveðið.  Nota myndirnar áfram og bæta nokkrum við og setja upp smá sýningu.  Við vorum nú 3 að bauka við að hengja myndirnar upp en þegar safnvörðurinn bað um fleiri myndir og við Konný ákváðum að fara að sækja þær, þá kláraði Þráinn að setja upp allar myndirnar á no time þegar hann hafði frið.  Snillingur þessi strákur sem ég er gift.
Svo var bara dólað og nánast beðið eftir að fara aftur á sýninguna með kex og kaffi og taka á móti gestum en í millitíðinni fórum við Þráinn í kaffi í ráðhúsið og hittum þar gamla vinnufélaga og vini.  Það var ljúft og gaman.  Fórum svo yfir í safnahús og fengum að skoða myndir af Þráni litlum en stelpurnar á ljósmyndasafninu eru á fullu að skanna inn myndir úr safninu hans Óskars.
Ég spurði hvort ég mætti fá afrit af einni þeirra en var svarað að ég þyrfti samþykki eins manns og það er maðurinn minn svo ég sneri mér að honum og spurði, en hann þurfti nú að hugsa sig aðeins um áður en hann sagði já.  Yndisleg mynd af mömmu hans og honum nánast nýfæddum.

Svo kom Konný og gestir fóru að týnast inn, bara gaman að þessu.  Hefði ekki trúað því að þetta væri bara svona auðvelt þannig séð.
Hittum fullt af skemmtilegu fólki, Guðrún vinkona gaf sér tíma til að kíkja og Anna og Maggi á bæjarskrifstofunum.  Svo komu Ásta María og Grímur og þau buðu okkur einmitt að koma og skoða fyrirtækið sitt daginn eftir, Ásgerður frænka koma líka og hún kom það snemma að ég gat spjallað svolítið við hana og svo kom alveg óvænt Hafrún Ásta sem var á pollamóti með krakkana sína og auðvitað fullt af frábæru fólki sem greinilega þykir vænt um okkur systur.
Síðan var farið á 900 Grillhús og Þráinn kynntur fyrir humarlokunni og svo bara vídeó og kósí heima hjá Konný um kvöldið.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

27.06.2013 10:36
Sumarfrí – Dagur 11
Jæja þá er bara að fara að taka sig til í næstu ferð og næsta áfangastað.  Morgunkaffi með Konný og síðan farið að skoða fyrirtækið hjá Grími kokki.  Frábært fyrirtæki sem þau Ásta María reka þarna og gaman að sjá eldmóðinn og ánægjuna og stoltið þegar þau tala um þetta.  Og ekki var verra að enda það á því að ræða það að þau komi kannski til Noregs og þá að sjálfsögðu í heimsókn til okkar.  Mættum í Herjólf á réttum tíma og fengum okkur hádegismat.
Síðan brunað í Garðabæinn að sækja Ástrós Mirru og stoppa smá stund og hitta fólkið sitt.  Svo þegar við erum að fara að koma okkur út í bíl, þá heyrist allt í einu í litlum manni að hann vilji fara með í sveitina og ……… vá nú fór hænkuhjartað að slá ótt og títt og hún horfði á systur sína með líklega hálfgerðum hundasvip og bænaraugum.  Má hann please!   Að sjálfsögðu var það samþykkt og ætlaði Klara svo bara að koma og sækja hann daginn eftir þegar við færum á ættarmótið.
Jeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii

Elska þennan dreng svo mikið.
Svo brunum við í bústað en komum auðvitað við í Krónunni í Moso og þar fá litlir menn að kaupa smá dót þegar þeir eru með hænku sinni.
Komum í bústaðinn og borðuðum frekar seint og svo fórum við Ríkharður bara saman uppí rúm að lesa.  Ljúft var að leggjast með honum og lesa 4 sögur áður en við fórum að sofa.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

28.06.2013 10:55
Sumarfrí – Dagur 12

Jæja við vöknum eldsnemma í bústaðnum og reynum að sofna aftur og það tókst og var sofið til rúmlega níu.  Þá var farið fram úr og kíkt í Ipadinn og sjónvarpið og svona eitthvað notarlegt til að gera að morgni í sveitinni þegar það er smá rigning úti.
Svo fengum við okkur morgunverð, ég og Ríkharður Davíð fórum í göngutúr með ruslið og kíktum við í bústað hjá öðru fólki sem ekki var heima og fengum að leika okkur þar í leiktækjum sem þau eru með úti, dráttarvél, strætó og bátur ásamt vegasalti.  Bara gaman saman.
En svo kom Klara uppúr hádegi að sækja prinsinn og við að leggja af stað á ættarmótið sem þessi ferð okkar var nú auðvitað stíluð inná.  Mikil tilhlökkun í gangi að sjá margt af fólkinu sínu í fyrsta sinn aftur eftir 5 ár.
Ég er svo ánægð með sjálfa mig að hafa átt frumkvæðið að því að vera með þessi ættarmót en þetta er ættin hennar Stínu ömmu sem við vorum alveg að missa öll tengsl við.  Nú eigum við fullt af vinum í þessum ættingjum okkar og þó ég sé ekki mikið fyrir margmenni í veislum þá elska ég ættarmót.

Ég verð nú að segja að ég var pínulítið abbó að vera ekki í stjórn núna og fá ekki að sitja og taka á móti öllum eins og síðast en ég sá til þess að ég geri það næst, ekki spurning.  Tróð mér nú samt þarna hjá Konný, Siggu og Sigurbjörgu frænkum mínum.
Svo fórum við niður í hús að koma okkur fyrir og þetta voru svo kósí hús með útisturtu.  Fór tvisvar í hana og ótrúlegt hvað ein sturta getur hitað upp svona útisvæði, því það var ekkert kalt og ekkert ónotalegt við hana, þvert á móti.
Jæja allir koma sér fyrir og fólk aðeins labbar á milli og minglar og svo fréttist að vertinn er að bjóða okkur að koma uppá hótel og koma í karaókí um kvöldið sem við þiggjum.
Mikið gaman að því og mikið af söngfólki í ættinnni enda systkinin öll söngelsk sem við komum af.

Þráinn fór í golfkeppni með ættingjum mínum og þeir hreinlega týndust.  Keppnin byrjaði kl. 20 og það er farið að nálgast miðnætti og ekkert til þeirra spurst.  Ég spurði Kristleif hvort hann hefði frétt eitthvað og sagði hann að sögur segðu að sést hefði til þeirra rétt við Selfoss.  Ha ha ha ha.  Við vorum sko á Hellishólum í Fljótshlíðinni.
Jæja karaókíið er búið og allir að týnast í bústaðina sína og enn bólar ekkert á þeim.  Je minn eini, og ekkert símasamband þvi við Ástrós Mirra vorum búnar að reyna að ná í Þráinn í nokkurn tíma.
Hann kom kl. 01.30 og alveg dauðuppgefinn.  Þá tóku þeir 18 holur en hefðu nú bara átt að taka 9 og láta það duga, koma svo í karaókí og fá einn bjór fyrir svefninn, en þeir misstu af því.  En þetta skilaði nú einhverju því Þráinn ekki farið í golf lengi en hann lenti ásamt sínum liðsmanni í 3ja sæti og fékk bikar. Jeiiiiiiiiiiiiiiiii
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

29.06.2013 08:54
Sumarfrí – Dagur 13
Jæja þá er ættarmótið okkar hafið og það var bara sofið til rúmlega 9 og dólað og sturtað sig í útisturtu til kl. 11 en þá áttu leikirnir að hefjast fyrir þá fullorðnu sem ekki eru búnir að gleyma hvernig á að leika sér og þá yngri sem alltaf eru að leika sér.  Oft er þetta skemmtilegasti parturinn af ættarmótunum því hinir sem eru að taka myndir (besta afsökun í heimi) og þeir sem eru eitthvað í ólagi með skrokkinn standa hjá og hittast og spjalla og yndislegt að horfa á hina taka þátt og leika sér af einlægni.

Eftir hádegi átti að vera frjáls tími í golf, veiði, sund og síðan ferð á Njáluslóðir sem var felld niður þar sem of stórt svæði þurfti að fara yfir svo við fórum bara á Hvolsvöll og skoðuðum handverksmarkað og þar úti var bílasýning á gömlum bílum og gömlum köllum sem áttu bílana.

Fórum síðan í Þorsteinslund sem Konný vissi af þarna í nágrenninu og það er yndislegur staður.  Væri til í að fara í þennan lund með nesti og teppi og bara slaka á við fossniðinn og kyrrðina.

Síðan var bara tekin smá “leggja sig” og eitt hvítvínsglas meðan maður klæddi sig upp fyrir kvöldverðinn.  Nei auðvitað klæddi maður sig ekki upp, þetta er ættarmót og útilega en ég var í kjól enda er ég orðið alltaf í kjól svo það mátti ekki misskilja það er standart útileguklæðnaður hjá mér ef ég er í sumarhúsi en ekki tjaldi.
Fyrir kvöldmatinn voru allir ættbálkarnir kallaðir út í myndatöku og var hún svo skemmtileg og vel heppnuð sýnist mér.

Þríréttaður kvöldmatur, skemmtiatriði og gaman allt kvöldið en eins skrítið og það kann að virðast þá var eiginlega hápunkturinn þegar Sigga frænka í Ameríku kom á skypið og skjávarpann og talaði við okkur öll og sum aðeins meira persónulega.  Dásamlegt að heyra og sjá hana.
Síðan endaði kvöldið á varðeld sem staðurinn stóð fyrir og einhverjir Eyjamenn (veit alveg nafn á einum Kiddi Valgeirs) sáu um að spila og halda uppi skrítnu stuði fyrir mannskapinn.  Ég vil ekki svona sameiginlegt aftur, þegar það er ættarmót þá á ekki að blanda okkur við eitthvað annað fólk á tjaldstæðinu, við eigum að fá að vera í friði og kynnast.
Fórum svo í einn bústað og héldum að þar væri kannski setið frameftir en svo var ekki þannig að líklega hefur þetta stilltasta ættarmót sem ég hef farið á.  Þ.e. drykkjulega séð, sást varla vín á manni en það er nú kannski líka af því að við þurftum að kaupa vínið á barnum.  En mjög gaman og hlakka ég enn og aftur til næsta móts.  Þetta er svo skemmtilegt fólk enda systkinin fræg í Hafnarfirði fyrir glaðværð, söng og glens.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

30.06.2013 11:33
Sumarfrí – Dagur 14
Jæja vaknaði með smá þynnku enda drakk einum fleiri bjóra en ég hefði átt að gera, ég er orðin svo léleg drykkjumanneskja að það hálfa væri nóg.  Lá uppí fram til rúmlega tíu en þá var ég farin að jafna mig.  Síðan var bara tekið saman dót og matur sem var lítið borðað af og gengið frá bústaðnum.  Fórum uppí hús og stoppuðum þar smá stund til að geta kvatt sem flesta ættingja.  Verð að setja að það var svo gaman hvað það var vel mætt á þetta mót en samt var undir 50% mæting.  Við erum bara orðin svona mörg eða í kringum 400 manns.  Glæsilegur hópur sem Stína amma og hennar systkini eiga.  Trúi því að þau hafi nú öll verið að fylgjast með og tekið lagið með okkur.
Jæja búið að kveðja alla og kveðja Konný og Silju og Söru alveg og já já ég fór að grenja eins og venjulega.  Nú er það að byrja að ég sé að kveðja suma og mun ekki sjá þá fyrr en einhvern tíma seinna.  Það er það erfiðasta við þetta.  En fjarlægðin hefur líka kennt manni svolítið hverjir eru manni bestir.
Við keyrðum í blíðskaparveðri niður á Þingvelli og þar var gengið frá bústaðnum en hann bíður bara eftir að Konný fari að nota hann eitthvað í sumar.  En við höfum sagt systkinum okkar að þeim er óhætt að fá hann lánaðann gegn þrifum og þess háttar.  Bara betra ef einhver vill nota hann svo hann standi ekki bara auður.
Jæja þá var bara eftir að bruna í bæinn og koma sér fyrir hjá mömmu og Sigga en þar ætlum við að halda til þar til við förum heim.
Svo var matarboð hjá Adda og Önnu Sif fyrir okkur fjölskylduna.  En þegar ég heyrði í þeim, þá hafði matarboðið breyst í 70 ára afmæli hjá ömmu Steinu.  Þar kom fullt af fólki og Addi og Snorri grilluðu lambalæri og meðþví, mikið góður matur og reyndar mun betri en á ættarmótinu en það er önnur saga.

Ástrós Mirra fékk enn og aftur höfuðverk en hún á það svo til þegar hún er að keyra í sól og góðu veðri og hún var hálf ómöguleg í afmælinu.  Við mæðgur eigum það sameiginlegt að fúnkera ekki vel í margmenni en ég var þó aðeins að spjalla við gestina en hefði svo sannarlega viljað spjalla meira við Adda, Önnu Sif, Snorra, Önnu og svo afmælisbarnið sjálft en þegar svona veislur eru þá verður lítið úr því þar sem þau voru að stússa og sinna öllum gestunum.  Hefði virkilega viljað fá aukakvöld með þeim einum en tíminn vannst ekki til þess.  Vona bara að Snorri standi við það að koma fyrr en seinna hingað í heimsókn, þá fæ ég líklega nægan tíma að spjalla við þau.  Ég var einmitt að segja Klöru systir sem mér fannst við ekki sjá nógu mikið að það væri miklu betra ef hún kæmi til okkar því þá værum það bara við tvær en ekki samkeppni við alla ættina.

Já og það voru auðvitað tíðindi að þetta afmæli var útiveisla á Íslandi, það gerist nú ekki oft að það sé hægt en þetta var einn besti sumardagurinn í Reykjavík.
Takk fyrir mig þið öll, við komum auðvitað bara sem gestir í þetta afmæli á meðan Addi og Snorri og þeirra konur sáu um veisluna.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna
Sýna álit (1)

 

01.07.2013 09:41
Sumarfrí – Dagur 15
Ég fékk smá tilfinningu fyrir því að við Þráinn værum að fara að gifta okkur því mamma setti okkur Ástrós Mirru saman í herbergi og Þráin í sérherbergi því ekki gátum við verið 3 saman í rúmi.  En við mæðgur höfðum það sko bara huggulegt saman en spurning hvort Þráinn hafi verið einmanna á kvöldin.  En alla vega vöknuðum hjá mömmu á mánudagsmorgninum og í dag skyldi gera fullt af praktískum hlutum og öðrum ópraktískari.  Fórum að heimsækja ömmu og sem betur fer drifum við okkur þarna strax því henni var svo rænt og farið með austur fyrir fjall í Hveragerði þar sem hún er í góðu yfirlæti núna hjá Heimi og Eyju.  Elsku amma mín, hún var nú frekar slöpp þegar við komum en mér fannst hún hressast og held að selskapur geri henni gott.  Við spjölluðum um margt og rifjuðum upp þegar litla stúlkan kom alltaf uppí hjá afa sínum og ömmu og sagði við afa að henni dreymdi svo illa.  Ég á ábyggilega eftir að heyra þetta þar til ég verð á sama aldri og amma ég er handviss um það en málið er bara gott fólk að maður á að leyfa börnunum að sofa uppí því það er svo gott.  Ég get alveg lokað augunum og fundið fyrir velllíðunartilfinningunni sem ég fékk þegar ég var komin ofan í holuna mína á milli.  Við erum bara með börnin okkar í nokkur ár og það er sko vel þess virði þó svefninn sé ekki alltaf uppá það besta.  Svo þurfa þau ekkert endilega að koma uppá á hverri nóttu en af og til er algjört möst.
Jæja við kíktum aðeins í geymsluna hjá ömmu og fundum svarta ofnpottinn okkar svo við getum farið að elda læri hér eins og venjulegt fólk og þrjú málverk tókum við ásamt gömlum kíki frá afa Þráins og gamalli filmuvél og eitthvað antik ljós sem Þráinn á.  Þetta settum við inná milla fatanna okkar í tösku og allt kom heilt með okkur heim.

Næst var að fara að finna þessa harðfiskverkun í Hafnarfirði sem okkur hafði einu sinni verið bent á en hún er svo falin að við finnum hana aldrei.  Hittum á mann við plan hjá fiskverkun og spurðum hann og hann svaraði að það væri sko besti og ódýrasti harðfiskurinn hjá Þóri og Yngva sem væru þarna niður í bátaskýli.  Humm Þóri, þú ert þó ekki að tala Þóri frænda minn segi ég og hann svarar þá já ég er að tala um hann Þóri í Borg og ég staðfesti að það sé nú frændi minn sem hefði átt að vera á ættarmóti með mér um helgina en hann hafi nú bara farið í ameríkuferð og brúðkaup en það vissi þessi maður alveg svo þeir greinilega þekkjast.  En ég vissi ekkert að Þórir frændi væri að gera harðfisk og selja svo næst verður keyptur harðfiskur af honum, ekki spurning.  En við fundum aldrei harðfiskverkunina og keyptum bara okkar fisk á uppsprengdu verði í Bónus.

Síðan var ákveðið að fara að Smáralindina og kaupa skó á Þráin og ég sem hafði fengið afmælisgjöf frá bræðrum Þráins og fjölskyldum kvöldinu áður hafði engin plön um neitt en ……………..   þarna voru þessir æðislegu appelsínugulu Eccoskór (já ég þekki ecco merkið þó ég þekki ekki mörg fatamerki) og þeir kostuðu bara 9.800 sem er nú ekki nema 476 nkr. og hér eru flestir skór á 900 nkr þannig að þetta voru fín kaup og svo tax free líka.  Ég veit um fólk sem virkilega mun halda að ég sé að ljúga þegar það fréttir að ég hafi keypt tvö pör af skóm á síðustu 2 mánuðum, en ég gerði það.  Aðrir eiturgrænir og hinir appelsínugulir.  Geggjað að ganga í einhverju öðru en svörtu.
Næst var brunað í Grafarvoginn og prinsessan sótt og farið svo í matarboð til Klöru og fjölskyldu.  Ég byrjaði á að dobbla Ríkharð hinn fagra út að leika við hænku sinn svo ég gæti nú tekið nokkrar myndir af honum og það tókst.  Náði nokkrum mjög góðum en öðrum ekki í fókus og hreyfðar þar sem það er ekkert sérstaklega gott að mynda krakka sem hoppa á milljón á trampolíni, en klár var drengurinn að hoppa og vá hvað þessir krakkar hafa mikla orku.

Klara systir var eitthvað í stressi yfir matnum sem reyndist svo góður að ég ætla að fá uppskriftina af þessum rétti svo hvernig er þá vel heppnaður matur hjá henni ef þessi var eitthvað mislukkaður?  Dobbluðum Klöru svo að skutlast með okkur svo við gætum skilið Dodda (Bíllinn okkar) á verkstæði en það átti að laga hjólalegu á honum áður en við myndum selja hann.
Svo bara í bólið snemma eins og háttur er á hjá mömmu. Held reyndar að allir séu að horfa á TV í rúminu eða lesa mun lengur.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

03.07.2013 11:11
Sumarfrí – Dagar 16 og 17
Jæja þriðjudagur og nú á bíllinn að vera verkstæði til hádegis en það breyttist eitthvað og þegar Þráinn hringdi kl. 14 var hann ekki farinn inn.  Við skruppum aftur í bankann þar sem það gleymdist að láta okkur skrifa undir 2 plögg þar og fengum bíómiða í staðinn sem við svo ákváðum að gefa Silju og Hansa þar sem við getum ekki notað þá og kíktum svo við á verkstæðinu og þá var bílinn enn ekki kominn inn svo öll plön seinnipartinn voru úti þar sem allt riðlaðist og við ætluðum að elda humar (já takk elsku Konný og Markús fyrir humarinn það var geggjað að fá nóg af honum í fríinu) handa mömmu og Sigga.
Þannig að plön um að hitta Caroline og Steinar urðu að engu og okkur sýndist að við myndum ekkert hittast þetta fríið, sem ég var pínu svekkt með.  En svo hringdu þeir frá verkstæðinu og sögðu að þegar bíllinn var kominn uppá lyftu þá sáu þeir að demparafestingarnar að aftan voru orðnar mjög lélegar og við myndum fá þetta í hausinn strax frá kaupanda ef við gerðum ekki við þær.  Svo auðvitað samþykktum við það enda ekkert eins leiðinlegt og að fá eitthvað svona í hausinn síðar meir.

Þegar við svo sóttum bílinn á miðvikudaginn þá höfðu þeir á Bíljöfri sett demparafestingarnar í kassa til að sýna okkur og …………. já sæll, þær voru orðnar að mylsnu svo við skiljum nú ekki hvernig stendur á því að það sást ekki í skoðun vikunni á undan.
En alla vega bíllinn komst á götuna á miðvikudaginn og við fórum með hann beint uppá bílasölu og skyldum hann þar eftir.  Úff ég sá að það var hunderfitt fyrir Þráin að skilja hann eftir.  Hann er svo ánægður með hann Dodda okkar og svo hræddur um að lenda aftur í svona Nissan Almera dæmi þar sem hann var aldrei ánægður með bílinn fyrir utan að hann var nýr.  Og ég held ég verði að skipta mér bara sem minnst af þessum bílakaupum þar sem ég nota bílinn minnst og er mest sama hvernig hann er, bara ekki drusla og hann þarf jú að vita hvað maður meinar þegar stigið er á bensíngjöfina svo við förum aldrei aftur í bíl með 1600 vél sem skilur ekki neitt.
Við elduðum humarinn handa okkur og mömmu og Sigga og ég held að mömmu hafi fundist pínu óþægilegt að ég væri að elda og hún ekkert að gera í eldhúsinu en sko það átti að vera svo að hún væri ekkert að gera en auðvitað var hún að fylgjast með brauðinu svo ég myndi ekki brenna það og ekki veitir af því ég er endalaust að gleyma mér í eldamennsku þessa dagana og held að þetta rósótta pils sé ekki að gera sig þegar kemur að eldamennsku.  Held maður þurfi að vera með meiri athygli í eldamennskunni en ég hef gert undanfarið.  Annars var ég líka búin að ákveða að hætta að þykja matur svona góður og hætta að hafa áhuga á mat til að ég myndi kannski bara grennast aftur.  Ég var alltaf svo grönn og fín þegar ég hafði engan áhuga á mat en fólk var endalaust að segja manni að maður ætti að njóta þess að vera með matarboð og borða góðan mat og fá sér rauðvín með en nú verður breyting þar á.  Ætla bara að borða þegar mig langar og drekka bara hvítvín og bjór með mat því rauðvín fer illa í magann á mér og ég verð bara veik.  Eitt enn sem styður það að ég sé kannski með ofnæmi fyrir berjum og því borði ég þau ekki.  Borða ekki ber, borða ekki rúsínur og verð veik af rauðvíni.  Enda miklu auðveldara að segja við fólk:  “Nei takk, ég er með ofnæmi” í staðinn fyrir að segja “Nei takk mér finnst þetta vont”.
Jæja kósí þriðjudagur með humri og ís á eftir og með mömmu sem ég elska svo mikið og finnst svo erfitt að kveðja þegar ég fer út.
Eftir að við fórum með bílinn á bílasöluna á miðvikudeginum þá ákváðum við að vera til sýnis og bjóða uppá knús á Café Milano í Faxafeni þar sem þrír aðilar voru búnir að óska eftir að fá að sjá okkur.  Þetta var algjör snilld því ég auglýsti það á fésinu og við fengum óvæntar tvær heimsóknir á kaffihúsið.  En þarna komu sem sagt Peta og Guðni sem voru búin að tala um að þau langaði svo hitta okkur og það var æðislegt að sjá þau og við erum nú bara að plana að hittast í DK næsta sumar með stelpunum þeirra sem búa allar 3 þar.  Svo kom elsku besta Fífa mín sem mér þykir svo vænt um og elska að spjalla við hana því hún er svo raunsæ, klár og réttsýn.  Að ekki sé talað um húmorinn, því hún hló svo mikið þegar ég var að segja henni sögur sem ég taldi ekkert fyndnar fyrr en hún hló að þeim.

Óvænt birtist svo Caroline og svo Klara systir líka.  Geggjað gerum þetta næst líka.
Knús á ykkur öll sem við hittum á Íslandi þið vitið ekki hvað okkur fannst yndislegt að hitta ykkur öll.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

04.07.2013 15:48
Sumarfrí – Dagur 18 heimferð
Jæja snemma að sofa í gær því við ætluðum að vakna kl. 4.30 og leggja af stað kl. 5 út á flugvöll.  En nei nei, við Ástrós Mirra vorum enn að bylta okkur eftir miðnætti og vorum báðar þannig að þegar klukkan hringdi þá fannst okkur við ekki hafa sofið nema í svona 2 tíma.  Týpískt.  Svo sagði Þráinn að hann hefði ekkert náð að sofna og fór bara að horfa á vídeó.
Svo það voru svefnlitlir ferðalangar sem lögðu af stað kl. 5 út á flugvöll.  Siggi var svo góður að keyra okkur, kallinn vildi það frekar en við færum að fara á miðvikudagskvöldinu heim til Silju og Hansa og taka leigubíl þaðan svo daginn eftir.
Þvílík röð sem var á flugvellinum svona snemma, man ekki eftir að hafa séð þetta áður.  En það gekk vel og við komumst alla leið í gegn, stóra taskan var 25 kg. en auðvitað er Icelandair með bara 23 kg. í hámark en hún hleypti okkur í gegn því hin var bara 18 kg. og við 3 með bara þessar tvær töskur.  Svona á að afgreiða hlutina, takk fyrir það.  Ekki láta borga yfirvigt á eina tösku þegar heildarkílófjöldinn er langt undir hámarki.

Svo vorum við með 3 handfarangurstöskur og þær voru fullar af myndavélum, tölvum, Ipödum, gps tækjum og ég veit ekki hvað.  En allt fór þetta í gegn enda við að fara frá Íslandi og þá er ekkert verið að halda að maður sé að smygla þessum tækjum úr landi en þeir hafa átt það til að koma með athugasemdir þegar komið er með þessi tæki í landið þó það sé bara eðlilegt að svona fjölskylda ferðist með hækjurnar sínar.
Við vorum svo róleg á flugvellinum að (já ég veit, ég var líka róleg, bara að skoða mér bækur að kaupa í Eymundsson) við vorum næst síðust um borð í vélina, tíminn er farinn að fljúga svo oft frá mér að það er engu lagi líkt.  Flugið tók bara 2 tíma til Bergen og okkur fannst við varla ná að loka augunum þegar við lentum.  Geggjað að sjá allar litlu eyjarnar þar, þær eru eins og hérna út um allt en þar eru þær svo trjáum vaxnar að það sér ekki í húsin sem eru þar.  Það væri nú draumur að eiga svona eyju með bústað í – næs.
Jæja nýr flugvöllur og Kristín Jóna er bara róleg.  Sá strax að best var að elta einn 13 ára strák sem virtist þekkja þetta vel.  Römbuðum strax á töskuböndin og biðum þar róleg því það voru rúmlega 1.5 tími í næsta flug en það áttu að vera tveir á milli en Icelandair seinkaði í flugtaki.  Já og talandi um Icelandair, þetta eru ömurleg sæti sem eru þar þó þau séu úr leðri, reyndar þykir mér vont að sitja í leðri en þessir fáráðanlegu höfuðpúðar sem ekki er hægt að taka af eru skelfilegir ef þú ert ekki í réttri hæð og situr með rassinn alveg uppí sætið en Ástrós Mirra og ég sátum með höfuðið fram og ég fékk svo mikla vöðvabólgu að ég svaf varla nóttina á eftir.  Höfuðpúða þarf að vera hægt að stilla eftir þeim sem situr við þá, annars betra að sleppa þeim.
Já við erum komin á nýjan flugvöll í Bergen og ég er bara róleg.  Já trúið því bara að meira að segja ég get sjóast og virðist hætt að panika á flugvöllum.  Við sóttum töskurnar og fórum í gegnum tollinn eins og ekkert væri og komum svo hinum megin inn aftur og tékkuðum okkur inn. Upp stigann og beint að rétta hliðinu.  Fundum okkur borð og fengum okkur ís.

Klukkutími í brottför, dásamlega lítil bið.  Fórum um borð í Wideroe og þar voru nú handfarangurstöskurnar okkar of stórar og við beðin að skilja þær eftir fyrir neðan stigann og miði settur á þær og við með afrifu af þeim.  En sko hvar er Þráinn?  Hann var fyrir aftan Ástrós Mirru í röðinni en hann kemur ekkert á eftir okkur…. ég kíki aftur fyrir mig og sé að það er fullt af fólki búið að troða sér framfyrir hann.  Hann brosir bara og við Ástrós höldum áfram niður í vél en þá þurftum við að fara út og labba upp landgang til að fara í vélina.  Við komum okkur fyrir og bíðum eftir Þráni.  Enginn Þráinn kemur inn en fullt af fólki.  Bíddu hvað varð af honum?  Það var ekki svona mikið af fólki á milli okkar.  Oh, ég þoli ekki þegar hann leyfir fólki að troðast.  Og nú byrja ég að stressast því hann hefur örugglega ekki fattað að það þyrfti að fara út og er að ráfa þarna á flugvellinum enda ósofinn og nánast eins og hann væri drukkinn á tímabili vegna þreytu.  Damn.  En svo birtist kallinn og ekki með sína tösku heldur.  Þá sá hann okkar tösku úti og skyldi sína bara eftir þar líka.  Hallóoooooooooo en fékkstu ekki miða þá fyrir henni spyr ég.  Jú jú sagði hann svo ég róast því þá höfum við tryggingu fyrir töskunum en sko ástæðan fyrir því að þær voru handfarangur var viðkvæmt dót í þeim.  Það mátti alls ekki setja þær í farangursrýmið og kasta þeim fram og til baka.
Jæja þetta kemur í ljós þegar við lendum í Kristianssand.  Og við lendum þar á áætluðum tíma, tók mjög fljótt af og ég myndi þetta flug næst aftur þe. Bergen – Krs í staðinn fyrir Osló – Krs.  Og viti menn, þegar við löbbum út bíða báðar töskurnar okkar þarna fyrir neðan landganginn eins og þær hafi hreinlega hangið utan á honum alla leiðina.
Jón beið okkar á flugvellinum því hann var svo almennilegur að sækja okkur, sagði reyndar að hann væri bara vanur að gera það sem honum væri sagt og Margrét hafði sagt að hann ætti að sækja okkur, ha ha ha.  Hugguleg ferð í fína bílnum þeirra og við sóttum svo Erro á leiðinni heim og sá var eitthvað ruglaður og vissi ekkert hverju okkar hann ætti að fagna mest, en ég tók video af því og því fékk hann ekki tækifæri til að fagna mér mest og rúllaði bara á milli Ástrósar og Þráins.
Svo komum við heim og Nói kóngur var nú ánægður að sjá okkur og hún Kristín Jack hefur sko hugsað vel um hann því hann er orðinn feitur kallinn.  En nú fær hann að fara út aftur og þá vonandi hleypur hann þetta af sér, þó hann fari ekki langt þá er hann að taka stutta spretti þegar hann heyrir í fólki eða bílum og þarf að forða sér undan þessum hættum á fullu spítti.
Jæja allt dót sett upp og við byrjum að taka til eftir Nóa og sópa og flytja hann aftur uppá loft sem hann var vanur að vera, en hann fékk að vera á miðhæðinni meðan hann var einn.
Ég fór svo í búð og vá hvað það er gott að koma heim svona bara á miðjum degi en ekki að kvöldi þegar búið er að loka öllu.  NÆS.
Ástrós Mirra fór beint í tölvuna að endurnýja kynnin við vini sína þar og skella sér í einn tölvuleik.  Hún var búin að vera án þess í nærri 3 vikur og það getur verið erfitt að hætta alveg því sem þér finnst skemmtilegt.

Pizza í matinn og horft á …. já nei, fórum eldsnemma að sofa hjónakornin því við vorum allt í einu alveg búin á því og svo gott að vera komin heim.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

05.07.2013 09:33
Sumarfrí – Dagur 19 komin heim
Ég vaknaði og gat varla hamið mig þar til Ástrós Mirra og Þráinn vöknuðu því ég var búin að vera hugsa heima á Íslandi hvernig ég gæti breytt og gert kósí fyrir gesti og frábært fyrir Ástrós Mirru og meira pláss fyrir mig og Erro á skrifstofunni minni.
Oh, óþolandi þegar aðrir sofa svona lengi og ég sem er með alla þessa orku í kroppnum þrátt fyrir slæma vöðvabólgu eftir sætin hjá Icelandair.  Já svo vantaði mig líka að komast í ferðatöskurnar sem voru inni hjá Þráni svo ég gæti fundið Ibufenið og reynt að vinna á þessu.  Jæja ég settist þá bara niður og bloggaði um síðustu dagana í fríinu og náði að klára heim að heimför sem var líka góð tiltekt þar sem ég var búin að ákveða að blogga um fríið en svo hafði ég aldrei tíma til þess og því var sumt blogg bara hálf máttlaust og einungis um staðreyndir en ekkert skemmtilegt.  En fyrir jafn minnislausa manneskju og mig þá verður þetta bloggsafn einhvern daginn góðar heimildir.   Ástrós Mirra er farin að nota þetta ef við erum að reyna að rifja eitthvað upp, þá segir hún bara:  Mamma geturðu ekki fundið þetta í blogginu þínu?  Og við reynum en það hefur nú ekki alltaf borið árangur því það sem mér finnst kannski vera atriði í dag var ekkert atriði þá.
Jæja svo vakna þau og eru að lufsast þetta en ég sko……….. bara beint uppá loft og byrja að rótera og úff verð að ná í ryksugu því það er svo mikið ryk þarna uppi og kattahár. Allt ryksugað og húsgögn færð til og allt að gerast og nú eru þau sko búin að fá nóg af rólegum föstudegi og ég segi að það megi sko alveg fara að aftengja tölvu og koma henni upp ásamt skrifborði og stól.  Sem þau og gera.  Borgar sig ekki að vera stæla við verkstjórann þegar hann er ham.  Svo var búið að lofa dótturinni að fá nýjan skjá og þau feðginin fara saman út í Expert að skoða það meðan ég klára skrifstofuna mína og laga allt til þar og ryksuga.  Það er rosalegt ryk hérna og ég er að spá í hvort það komi ekki úr hjólaportinu sem er alltaf fullt af bílum og bátum og mótorhjólum.
Jæja þau koma heim með minni skjá en ég var búin að lofa en það var Ástrós Mirra sem valdi hann, fannst hinn of stór og vildi líka skjá sem hægt væri að færa upp og niður og til hliðar þannig að þægilegt væri að horfa á bíó í honum.  Hún fær nefnilega ekki sjónvarp upp til sín heldur bara þennan aukaskjá og horfir á sjónvarp í honum.
Já svo voru hengdar upp myndir sem við komum með okkur og þegar við horfðum á stofuna þá sáum við skemmtilega litasamsetningu á málverkunum hennar Konnýjar, þe. fyrsta myndir er appelsínugul með smá bláu í og svo koma þarna tvær litlar og þar er líka appelsínugult og blái liturinn farinn að aukast og svo kemur 4 myndir sem er blá með smá appelsínugulu, skemmtilegt.  Svo hengdum við gamla málverkið frá afa og ömmu fyrir ofan skápinn með gamla dótinu á.

Jæja eftir þessar tilfæringar var farið út í búð aftur og aftur í gær og nú kom sér vel að búa í miðbænum.  Ekkert mál að skjótast þetta aftur og aftur.  Svo var farið að elda mat því Lovísa og Frank og krakkarnir sem heita Gabríel og Natalíe en ég hélt allt í einu í gær að þau hétu Patrik og Sandra og er bara að hugsa um að kalla þau það héreftir.  En ég skil ekki af hverju ég er allt í einu farin að gleyma svona nöfnum því ég gerði það aldrei en ég er auðvitað komin yfir miðjan aldur og get víst ekki munað allt.  En sem sagt þau komu í mat og takið eftir kæru vinir, ég var sko ekki tilbúin með matinn þegar þau komu og við Lovísa sátum saman í eldhúsinu meðan ég var að elda og svo gleymdi ég að hafa hrísgrjón með eins og ég ætlaði en maturinn var fínn, félagsskapurinn æðislegur og Gabríel og Ástrós Mirra ná saman og það er risastór bónus.
Sátum frameftir að spjalla og hafa það huggulegt og þá áttum við Þráinn eftir að ganga frá fötunum okkar úr töskunni og drifum það af svo verður breytt í skápnum á morgun eða hinn og kíkt á Brugt butikk með Lovísu og athugað með kommóðu því okkur vantar svoleiðis.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

07.07.2013 09:16
Kominn einn hring….
í tilverunni hérna í Noregi og í gær var aftur sem sagt þríþrautin sem Julie, bróðir hennar Fridtjof og bróðir Arnfinns Yngve taka þátt í árlega.  Þetta er reyndar bara annað árið hennar Julie svo við höfum fylgst með henni frá upphafi.  Í fyrra var maður alveg glænýr í bænum og þekkti engann og skyldi ekkert hvað fólk var að segja en nú einhvern veginn var allt öðruvísi ekki bara veðrið því í fyrra var rigning en núna glampandi sól og 25 stiga hiti.  Reyndar var líka annar staður núna og fannst mér hann betri fyrir áhorfendur alla vega, veit ekki með keppendur en alla vega voru þau ekkert óánægð með staðinn.  Julie hefði samt viljað bæta sig meira frá í fyrra en var samt ánægð að hún bætti sig þó ekki væri það mikið.
Það er ekki hægt að neita því að það er nánast alveg sama hvað maður er að gera ef veðrið er gott þá verður allt skemmtilegt.
Svo eftir keppnina þá fór Arnfinn með okkur í bíltúr aðra leið heim sem var alveg frábær og ætlum við hjónakornin að hjóla hana einhvern daginn með nesti og myndavél ekki spurning.

Svo skutlaði Arnfinn okkur heim og við skelltum okkur í sturtu og önnur föt og fórum svo í grill til þeirra.  Áttum frábært kvöld með þeim 4 og töluðum bara norsku og þurftum lítið að taka til enskunnar en auðvitað var það smá en hitt er allt að koma og þegar fólk veit að það þarf að tala hægar og skýrar til okkar þá skiljum við betur.
Við alla vega spjölluðum meira og hlógum meira þarna en við höfum gert áður hér í Noregi eingöngu með Norðmönnum svo eitthvað hljótum við að vera að komast inní þetta samfélag betur.  Eigum svo eftir að hitta þau aftur á næsta laugardag en þá verður fiskisúpudagurinn hennar Julie og um 25 manns sem koma þangað.
Já og við prófuðum að labba þangað og iss, þetta tók ekki nema 20 mín en við höfum alltaf notað bílinn þangað en það er nú greinilega óþarfi.
Takk fyrir frábæran dag og kvöld Julie, Arnfinn, Yngve og Fridtjof.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

09.07.2013 08:32
Brugt Butikk
Oh, ég elska loppumarkaði og Brugt Butikker. Við Lovísa fórum á tvo í gær og annar var þessi búð sem kvenfélagið er með og er með bara notaðar vörur en ekkert endilega gamlar en þar finnst alls konar inná milli eins og þessi lampi á 25 nkr.

og svo þessi glös sem ég keypti eru líka æðisleg en það var bara eitt svona svo það verður spes.  Keypti 8 glös af 5 tegundum svo nú er erfitt að raða í skápinn að hætti Monk.  Keypti líka tvær kaffikrúsir sem eru af sitthvorri gerðinni.

Svo keypti ég löber og trébakka til að punta borðstofuborðið.

Kíktum svo í Europris en þar er ekkert gamalt að fá en fékk mér nýja taukörfu á baðið og ætla að nota bastkörfurnar sem voru þar í annað.
Ég var mjög glöð að Lovísa keypti sér útigrill í Europris því það hefði nú komið asnalega út að ég dobbla hana í svona ferð af því að ég hef engan bíl og svo hefði hún ekki keypti neitt.
Á leiðinni heim komum við, við í hlöðu sem við höfum séð Brugtbutikk skilti við og viti menn þar var opið og við beint þangað.  Þetta var ekta svona búð, gamalt dót og sumt dálítið skítugt og oft á svona stöðum leynast dýrgripir og ég fann þennan skammel og sá reyndar kommóðu en hún var of dýr, kostaði 1200 nkr en antikkommóða svo þannig séð ekki dýr en of dýr fyrir mig eftir eyðslusamt sumarfrí á Íslandi.

Svo þá er það að reyna að sálgreina mig með þetta græna, það er allt grænt sem ég hef keypt eftir að ég flutti hingað út, hvað er það?  Grænt borðstofusett, grænn skammell, grænn lampi, grænn vasi, grænn kertastjaki, grænn löber og ég veit ekki hvað og hvað.  Ég veit að grænt er róandi og það er þá bara gott fyrir okkur að hafa frið og ró í sálinni.
Í dag skal taka aðeins til og undirbúa komu gestanna okkar sem við erum búin að bíða spennt eftir en það eru nýjustu íslensku norðmennirnir frá Melroseplace.  Hlakka ekkert smá til að hitta þau og fá að sýna þeim bæinn okkar og gera eitthvað skemmtilegt saman.
Þetta er Melrosegengið og ég sakna þeirra allra, hugsa að maður eigi aldrei aftur eftir að upplifa eins skemmtilegt nábúasamfélag eins og við vorum í þarna og nú er það búið allir fluttir nema Pálína og fjölskylda.

Skemmtilegir dagar framundan í fjöri og með fullt af fólki í kringum sig.
Og veðrið er búið að vera geggjað 25 stiga hiti og sól.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

13.07.2013 08:43
Það er svo skrítið…..
að eiga heima í góða veðrinu, þ.e. eins og veðrið hér er búið að vera undanfarna 10 daga og spáir næstu 10 daga líka.  Við erum með gesti og það er bara eins og við séum öll á Spáni en ekki heima hjá mér.  Mjög skrítin tilfinning en frábær.
Svo er lífið hér í Mandal rugl skemmtilegt á þessum tíma, og á þessum tíma eiga bara allir heimamenn að vera í fríi því það er svo mikið um að vera að það eru tónleikar á hverju horni á hverju kvöldi nánast.
Við fórum á þriðjudaginn á Bryggjukantinn og þar var kántríhljómsveit að spila og mikið fjör og mikið gaman.  Á miðvikudaginn fórum við á Jonas Gundersen og þar voru rokktónleikar með Onsdagsbandet sem er frábær hljómsveit héðan úr sveitinni og svo tókum við okkur pásu á fimmtudaginn en fórum svo í gær á jasstónleika við Buen og ekkert smá yndislegt að sitja og hlusta á góðan jass og horfa á bátana sigla framhjá.  Svo þegar við erum að labba heim af jasstónleikunum þá römbum við á Bryggjukantinn og þar er þá þessi líka flotti Blús í gangi svo við settumst niður þar líka smá stund.  Allt er þetta að byrja kl. 7 eða 8 á kvöldin og búið fyrir miðnætti sem mér finnst bara algjör snilld ekkert verið að vaka neitt brjálæðislega frameftir þó fólk skreppi út á lífið.
En það er búið að vera mikið að gera og mikið gaman að hafa Ingu, Óla, Mikael Mána og Söru hérna þessa vikuna og erum við búin að sýna þeim ströndina, fara í búðarráp og picknic og þau í meira búðarráp og hafa gaman af lífinu og njóta sólarinnar sem skín hér allan daginn alla daga núna.  Hef ekki farið í utanyfirflík síðan á Íslandi.  Sorrý elsku þið sem búið heima, ég sárvorkenni ykkur og vildi að þið hefðuð eins gott veður og ég.  En veðrið hér er eitt af því sem gerir lífið okkar svo gott.  Og þessi stórkostlegi 15.000 manna bær sem er svo fullur af lífi að það er erfitt að velja hvað maður vill.
Ég elska Mandal.
Þegar Inga og Óli komu þá settumst við út á rútubílastöð og biðum eftir þeim.  Við biðum í rúmlega klukkutíma og fannst nú frekar skrítið að það væri svona óskaplega mikil seinkun á þessari rútu en ég var líka búin að taka eftir að það voru bara Sörlandsrútur sem stoppuðu þarna en vissi að þau voru að koma með einhverri annari tegund.  Allt í einu segir Ástrós Mirra, hvað sjáiði ekkert og þá fer ég að horfa í kringum og sé þau koma labbandi með töskurnar sína og þá stoppaði rútan fyrir utan bæinn og þau bara löbbuðu niður og bæ og Inga sagði að þau hlytu að finna okkur með því að bara í miðbæinn og viti menn. Sitjum við bara á bekk og fyrir allra augum við miðbæinn. Frábært og mikið gaman.
Svo um kvöldið var skálað í hvítvíni. Við Inga vorum búnar að lofa okkur því að skála bara í einu glasi fyrsta kvöldið og því hafði ég keypt þessi sérstaklega fallegu glös af því tilefni.

Já svo voru það kántrítónleikarnir.

Svo ströndin

Aftur kíkt í stóru glösin okkar

Svo Onsdagstónleikar með ofvirkri frábærri söngkonu

Kósí úti að labba í kvöldgöngu í góða veðrinu

Fórum svo líka á yndislegan leikvöll með M&M og það var mikið gaman fyrir mig að fylgjast með krökkunum og mynda mánagullið en honum fannst aðallega vanta ramp svo hann gæti nú æft sig á hlaupahjólinu sínu.

Svo var picknic í Ulsevika og þegar við komum þangað var önnur fjölskylda þar að grilla og hafa það huggulegt svo við vorum pínu svekkt að geta ekki sleppt Erro lausum en ég bað Ástrós að spyrja fólkið bara hvort þeim væri sama þó við slepptum honum lausum og þeim var það sko alveg þannig að hann átti sko góðan dag, stökk í sjóinn og synti og hljóp um allt og hrissti sig alltaf fyrir framan Ingu spurning hvor hann hafi haldið að hún þyrfti helst að fá kælingu eða þannig.

Svo var blús og jass í gærkvöldi og Mandalshjónin alveg meðetta.

Flottir hljóðfæraleikarar hér á ferð og hjónin í neðra kunna að njóta.

Svo í kvöld er stóra kvöldið en þá er fiskisúpudagurinn hjá Julie og Arnfinn og við förum þangað og ætlum að hafa geggjað kvöld.  Veit ekki alveg hvort ég láti það eftir að Julie að sjá bæði sólarlagið og sólarupprásina en við sjáum til.  Kristín Jóna er ekki þekkt fyrir að geta vakað mikið frameftir.
Elska lífð í Mandal þessa dagana og ætla sko að njóta þess að vera í fríi í næstu viku líka og þá er að fara að undirbúa það að setja myndir í ramma til að selja á markaði úti í sveit.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

15.07.2013 07:56
Erum gengin uppað hnám….
Í gær átti að vera letidagur eftir Fiskisúpukvöldið hjá Julie og Arnfinn sem stóð til kl…… eitthvað allt of mikið.  Smá ryð í hausnum á okkur og lítill svefn orsakaði það að allir voru eitthvað tuskulegir í gær.  Inga og Óli fóru þó út tvisvar yfir daginn með drenginn sem þarf pínumikla athygli, í gönguferð til að viðra hann.  Erro græddi á því og fékk einn túr líka.
Svo var svona verið að melta með sér hvað skyldi haft í matinn og hvernig útfært þar sem þau 3 höfðu ætlað að taka rútuna í gær til Sandefjørd en það var ekki hægt að kaupa miða samdægurs á netinu svo þau fara núna á eftir.  Þá hringir Arnfinn og spyr hvort við viljum ekki koma í göngutúr á Risøbank og sjá til hvort við fáum okkur ekki bara eitthvað að borða í leiðinni og jú jú, allir voru sko til í það.
Svo komu þau um klukkan 18 og göngutúrinn var til kl. 22.30 og vá ég var svo þreytt að ég gat varla komið mér upp stigann heima.  En frábær göngurtúr engu að síður og það er bara svo gaman að sýna fólki bæinn okkar því hann er svo fallegur.  Fengum okkur að borða á Stjerna sem er bara sumarveitingarstaður við tjaldstæðið og sumarhúsin á Sjøsanden.  Ágætismatur held ég hjá flestum en ansi þurr kjúklingabringan hjá okkur Ingu svo við munum ekki dreyma hana á næstunni það er nokkuð ljóst.
Hér að neðan er svo 4 tíma göngutúr í máli og myndum.
Pottormurinn sem ætti að heita Emil var til í að pósa fyrir mig nokkrum sinnum.

Arnfinn sagði okkur sögur af stöðum og atburðum og var hinn besti fararstjóri.  Þau hjónin þekkja mjög vel umhverfið sitt og eru dugleg að segja frá.

Mána fannst nú gaman að við löbbuðum með fram ströndinni svo þurfti að klifra kletta og svo var brú og bara alls konar.

Svo má pósa í fallegu landslagi.

og svona var fegurðin alls staðar.

Og sjóarinn síkáti naut sín vel í Mandal með öllum bátunum og sjónum allt í kringum okkur.

 

Svo tók Kristín eina hópmynd og þetta er einhvern veginn bara nokkrar manneskjur en svo á næstu mynd sem einn ferðalangur bauðst til að taka, þá erum við allt í einu orðinn stór hópur og það var bara ég sem bættist við.  Fyndið.

Göngugarparnir flottu með fylkisblóm Vest-Agder fylkis.
Og svo þegar maður sér svona flott tré þá stoppar hópurinn til að leyfa litla guttanum að klifra og njóta sín.

Og meira gengið og skoðað og notið náttúrunnar.

Og svo sáum við bamba og það þrisvar og alltaf finnst mér það jafn magnað að sjá þessi litlu sætu dýr sem voru einungis til í ævintýrunum þegar ég var lítil en hérna ganga þau villt og samt svo nálægt mannabyggð.

Kristín, getum við komið aftur hingað á þessa strönd?  Já Mikael, það er ekki spurning hingað komum við næst.  En þegar maður er bara 6 ára þá veit maður ekkert að næst getur verið nokkra daga í burt eða kannski mánuð – hver veit.

Svo þangað til næst, ykkar Kristín Jóna sem kveður gestina sína í dag og á eftir að sakna þeirra ótrúlega mikið en bót í máli að Sara skvís verður eftir hjá okkur.

ps. allar myndirnar eru teknar á símann minn og ég verð að viðurkenna að ég er ekki góð með svona myndavél, hef alveg tekið betri myndir og tek líklega stóru vélina með næst.

 

18.07.2013 08:28
Jæja………..
hvað er eiginlega búið að gerast síðan síðast?  Gestirnir farnir og allt í rólegheitum eða hvað, nei nei.  Við höldum bara fjörinu áfram hérna þó heldur hægar, miðvikudagskonsert í gær og það var mjög skrítið hvað það var allt önnur stemning en fyrir viku síðan.  Allt öðruvísi fólk og ekki eins mikil gleði, meira af unglingadrykkju fannst okkur Lovísu en allt troðfullt og ekki hægt að fá sæti – spurning að skella sér einu sinni enn áður en þetta hættir í sumar og þá þarf að mæta kl. 5 til að hafa sæti á tónleikum sem byrja kl. 9 því það er ekki hægt að panta borð úti og enginn vill sitja inni í mollunni og hitanum.
Já það er annað sem er búið að vera að gerast en ég má helst ekki minnast á, veðrið……………….. bara rugl að það sé um og yfir 26 stiga hiti hérna dag eftir dag og það er ekkert grín að standa við eldavélina með eitthvað á pönnunni og annað í ofninum, ég hreinlega held ég sé hætt að elda svona þar til aðeins lækkar hitastigið.
Við ætlum að skreppa 4 skvísur í Badlanded í dag en þangað höfum við aldrei komið og nú skal gert eitthvað smá skemmtilegt fyrst Sara er hjá okkur og Ástrós hefur þá félagsskap í buslinu.  Margrét ætlar með okkur, ég þarf nefnilega virkilega á því að halda að eiga núna vinkonu með bíl, annars væri ég alveg úti á túni og kæmist ekki neitt.  En ekki það að það er margt hægt að gera án þess og við hefðum þá bara farið á ströndina í staðinn en það er gaman að geta gert sér smá tilbreytingu.  Svo á að koma við í Ikea að kaupa ramma því Kristín Jóna ætlar að selja myndir á markaði hérna aðra helgi og þarf að undirbúa og græja og gera þær klárar fyrir það.  Er á fullu að velja myndir en veit ekki nógu vel hvað Norðmenn vilja uppá vegg hjá sér og því gæti ég verið að velja rangt.  En það kemur í ljós.  Bjó til nafnspjald í gær og er bara mjög ánægð með það, og græna röndin er bara svo mikið ég svo vonandi man fólk þá bara eftir mér út af henni ef ekki út af myndunum mínum.

Já svo er Erro kallinn á leið í geldingu eftir helgi.  Já við erum búin að ákveða okkur því þó hann sé frábær hundur þá er nú orðið varla hægt að labba með hann í miðbænum því hann vill bara í aðra hunda og geltir og geltir og svo er hann í stuttum göngutúrum bara með nefið í jörðinni að þefa til að geta merkt sér svæði.  Á 2 mín. göngutúr merkir hann svona 8 sinnum og þetta er bara óþolandi.  Svo burtu með þetta og vonandi fáum við bara sama hundinn án þessa leiðindagalla.  Annars er ekkert auðvelt að fá þetta í gegn hérna, nema segja að þeir séu farnir að pissa út um allt, sem reyndar er málið allt í einu núna eftir að hann fór í pössun um daginn þá tók hann uppá því að pissa á gólfið en það var bara í 2 – 3 daga og svo allt í lagi en svo komu Inga og Óli og allt í góðu þar til þau fóru, þá aftur farinn að pissa á gólfið svo við vorum nú ekki að ljúga þegar við sögðum dýralækninum það.  En hún ætlaði nú samt að senda okkur heim með lesefni og hugsa málið en ég sagði að við værum búin að því, búin að koma áður og send heim að lesa og hættum við en erum svo aftur ákveðin núna og ætlum ekki að hætta við.  Svo byrjar fólk (reyndar bara karlmenn) að spyrja hvort við ætlum ekki að leyfa honum einu sinni áður en hann fer í þetta.  Til hvers svo hann viti bara betur af hverju hann er að missa, ég held að það sé nú betra að vita það ekki.  Þannig að Erro fær ekki að gera do do áður en hann verður geldur.  Hann á bara að vera gæludýr eða kæledyr eins og norðmenn segja það.  Mér finnst það svo krúttlegt, keludýr.

Sumarfríið mitt að verða búið, fer að vinna eftir helgi og ég er nú pínu farin að hlakka til þess að komast aftur í rútínuna mína þó mér hafi sko ekki leiðst í þessu fríi.  Fyrst skipsferð og svo Ísland með öllu mínu fólki og svo þessi dásemdartími hérna heima hjá mér í þessu geggjaða veðri með fullt af skemmtilegu fólki með alls konar uppákomum.
Enn og aftur finnst mér svo skrítið að ég eigi heima hérna, þar sem veðrið er gott dag eftir dag og lífið svo skemmtilegt og umhverfið svo fallegt.  Ekki að það sé ekki svoleiðis á Íslandi, þar er lífið líka skemmtilegt ef þú vilt og umhverfið auðvitað geggjað en það er eitthvað við þetta allt saman þegar veðrið er betra.  Ég er alltaf að tala um það hvað veðrið hafi mikil áhrif á mann og sé það best hérna.  Alltaf í góðu skapi og hlakka til næsta dags án þess að þurfa að berjast í rokinu og kuldanum.
Svo þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

22.07.2013 07:35
Sumar og sól…………
já já ég veit að ykkur heima vantar þetta og ég vildi svo gjarnan geta sent ykkur smá en ég verð að fá að tala um það að við erum hreinlega að kafna þessa dagana enda fer hitinn yfir 30 gráður og við erum bara að verða talsvert vön því að vera bara sveitt allan daginn.  Svo eru það næturnar, þá er mér heitt og kalt til skiptis.  Ég var að hætta að nota mína sæng því ég svitnaði svo á nóttunni með hana og tók eina sumarsængina sem keypt var fyrir gesti og sef með hana núna en þá fæ ég svona hita- og kuldaköst til skiptis og sef þar af leiðandi ekki nógu vel eða mér finnst það, er alltaf að vakna kalt eða heitt.  En ég er samt ekki að kvarta því það er ótrúlega næs að eiga heima í þessu landi núna og bara oftast er veðráttan svo frábær hérna, því auðvitað fáum við líka vetur, þetta er engin suðurhafseyja þó það virki þannig núna.  En það er ekki svona heitt alls staðar í Noregi, því það er bara svona líkari góðu sumri á Íslandi fyrir norðan, svo það er kostur að vera sunnarlega á þessu landi, þó það sé það ekki á Íslandi.  En ég sé að það á að vera yfir 20 stiga hiti á Þingvöllum á morgun og heil sól svo elsku vinir takið ykkur bara frí í vinnu og skellið ykkur þangað og njótið lífsins.

Við erum sko búin að eiga frábæra helgi með fullt af heimsóknum og skemmtilegheitum.  Byrjuðum á að lenda í grilli hjá Arnfinn og Julie á fimmtudagskvöldið og svo var bara leti á föstudaginn hjá okkur en á laugardaginn skelltum við Þráinn og Erro okkur í göngutúr uppí Ime til Fjólu og fjölskyldu, hrikalega gott að labba svona hátt uppá fjall í svona miklum hita eða þannig, eins gott að ég tók vatnsbrúsa með.  Áttum þar kósístund í frábærum garði hjá henni með geggjuðu útsýni en það er bara málið þú þarft auðvitað að búa hátt uppi til að hafa útsýni en hér er alveg logn þó þú sért hátt uppi og það er munurinn á Noregi með öllum sínum trjám og skógum og Íslandi sem er nú ekki skjólsælt þó fallegt sé.
Þegar við komum heim úr göngutúrnum fengum við rétt 3 mín. til að hafa okkur til, til að fara í grill til Franks og Lovísu en litlu bíllausu kjánarnir í miðbænum verða að láta sækja sig svo það er hundfúlt fyrir fólk að bjóða okkur í grill utanbæjar því þá þarf að sækja og skutla en við erum nú búin að ákveða að næst ætlum við bara að gista hjá þeim svo allir geti verið rólegir og fengið sér bjór.  En núna hittist þannig á að Margrét og Jón komu líka næstum óvænt til Lovísu og þeirra og þeim var að sjálfsögðu líka boðið í mat.  Allt svo notarlegt hérna í Mandal og nú reyndi á það hjá Lovísu að vera með matarboð og eiga bara 6 diska og 6 hnífapör en þetta reddaðist allt og það gerir það alltaf þegar fólki líður vel og allir eru vinir.

Dásamlegur dagur að kveldi kominn og ég verð nú að segja að þessi staður sem þau búa á er bara geggjaður en pínu einangraður og spurning hvernig veturnir eru þarna, en það kemur bara í ljós.
Svo í gær var bara ákveðið að fara á stöndina og baka sig og við stóðum sko við það, ég ætti ekki að láta nokkurn mann sjá mig bera því ég lít bara fáráðanlega út, með mjög mikil skil eftir bikiní að framan en rauð þar í kring, verð nú ekki brún strax.  Fyrst rauð, svo rauðbrúð og kannski brún á endanum ef ég hef úthald að sóla mig meira en svo er ég alveg hvít aftaná því ég nennti ekki að liggja á maganum, verð að muna eftir bók næst svo ég geti jafnað þetta út.

Þráinn fór að synda í sjónum og fann svo eitthvað vefjast um ökklann á sér og var það þá marglittuhelvíti sem brenndi hann frekar illilega.  Hef ekki hitt hann í morgun til að spyrja hvernig hann kom undan nóttinni en vonandi virkaði það að pissa á þetta, hella ediki á þetta og bera raksápu á þetta og og og öll þau kellingaráð sem okkur voru gefin en við lásum svo grein um þetta og þá var fólk beðið að ignora öll þessi kellingaráð því þau virkuðu ekki neitt.  En vonandi samt, það er bara vesen að þurfa að fara á læknavakt hérna.  Heyri í stráknum á eftir.
Stelpurnar voru bara rólegar á ströndinni í gær og það var örugglega vegna þess að þær gátu verið í sjónum en annars hefur Mirran mín ekkert úthald að liggja bara í sólbaði.  Hummm ætli hún sé eitthvað skyld mér, ég er nefnilega nýfarin að geta þetta.

Já og í dag er fyrsti dagurinn í vinnu eftir 5 vikna sumarfrí og mér finnst bara hálfkalt hérna innum gluggana enda þeir búnir að vera opnir í nótt og nú er bara 17 stiga hiti úti og eins ótrúlegt og það virðist vera þá virkar það kalt eftir allan hitann.  Þráinn segist fara í peysu á morgnanna því sér sé kalt en það er samt 15 – 18 stiga hiti svo þetta er ekki bara ég en ég ætla frekar í peysu en að loka gluggunum því ég veit að það verður steik á eftir.  Ætli ég verði eini starfsmaður Wise sem verði í stuttbuxum og hlýrabol í vinnunni í dag?
Og já svo er stóri dagurinn hans Erro eða þannig, hann fer í geldingu núna kl. 10 og ég hlakka svo til að sjá hvort það komi til með að laga þennan galla hans að merkja og merkja og merkja og merkja og aldrei pissa almennilega því hann ætlar að geyma þetta til að geta merkt meira og svo pissar hann bara inni því hann fattaði ekki að hann fengi ekki lengri pissurúnt.  Og þetta að gelta á aðra hunda og ætla í þá………… ég ræð til dæmis ekki við hann ef ég er með eitthvað í hinni hendinni.  Lenti í því niður í bæ á laugardaginn var með poka sem átti að fara til hjálpræðishersins og Erro sá hund og byrjaði að toga mig og ég fann strax að þetta gengi ekki og sneri bara við.  Sem sagt ekki hægt að ganga með hundinn í miðbænum niðrí bæ.  Það gengur bara ekki upp svo ég veit að við erum að gera rétt í þessari geldingu í dag.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna á stuttbuxunum.

 

25.07.2013 07:32
Út í eyju…..
Já Arnfinn og Julie buðu okkur út í eyju á þriðjudagskvöldið.  Skilaboðin voru til Þráins, getur þú ekki alveg farið í vinnu á morgun eftir aðeins 3 tíma svefn.  Ja hérna hvað skyldi standa til, jú jú þau ætluðu að sýna okkur hvernig þau færu á krabbaveiðar og þær geta bara átt sér stað í myrkri eða þá um og eftir miðnætti.
Við hittum Arnfinn á bryggjunni og sko hann var ekki á flotta bátnum sem pabbi hans og mamma eiga og okkur var boðið á í fyrra, heldur bara einhverri smá skektu sem rétt dreif áfram með allan farminn sem hann var kominn með um borð.
En Arnfinn gat þó stýrt okkur heilum yfir í eyjuna þar sem Julie tók á móti okkur með kampavín og kósíheitum.

Pabbi hennar Julie á þessa eyju og erfði eftir afa sinn held ég alla vega bústaðurinn byggður í byrjun nítjándu aldar og þetta er bara pínulítinn bústaður minni en okkar á Þingvöllum hann lítur út eins og höll á móts við þennan enda er þessi bústaður bara ætlaður fólki sem er að koma til að njóta góðs veðurs og veiða.  Minnir meira á veiðibústað.  En ótrúlega kósí samt.  Allt úr sitthverri áttinni og mér líkar það.  tvö pínulítil herbergi og eitt alrými þarna inni og bakvið hús undir berum himni er vaskur og vaskaborð til að vaska upp og svo fengum við skilaboðin að ef við þyrftum að pissa þá gerum við það í sjóinn en ef við þurfum að gera eitthvað meira þá þarf að fara hérna upp og við dregin uppá fjallið og þar undir klettasyllu er búið að útbúa smá kamar.  Og þegar hann var settur upp þá var byggt hús utan um hann en þá kom í ljós að fermetrafjöldinn af byggðu húsnæði á eyjunni var kominn yfir leyfileg mörk og þau látin rífa kofann utanaf kamrinum og nú stendur hann líka undir berum himni.
En málið með þetta hús er að það má ekki rífa það og byggja nýtt, þau myndu aldrei fá byggingarleyfi á þessari eyju í dag því reglurnar eru orðnar allt aðrar, þannig að til að halda áfram að eiga lítið sælukot í eyjunni sinni þá verða þau að halda við gamla húsinu.
Jæja við grilluðum og borðuðum saman þarna og stelpurnar og strákarnir fóru að leita að krabba við bryggjuna sem við vorum á.

Þau fundu fullt af litlum kröbbum sem voru settir í bala með vatni í.  Julie kenndi okkur að þekkja muninn á kvenkrabba og karlkrabba.  Eins og það skipti einhverju máli þegar kemur að því að éta þá?  Nei en samt auðvitað gaman að vita muninn.
Svo mætti Sondre sonur Arnfinns á spíttbátnum sínum og bauð stelpunum í siglingu.  Þeim leiddist það ekki.

Strákarnir fóru að veiða og Þráinn var endalaust að reyna að ná í almennilegan þorsk en ekkert gekk en Sondre veiddi og veiddi svokallaðan leppefisk sem er með stóran munn og kyssilegan og notaður til að ná blóðsugum af fólki eða dýrum (vonandi skyldi ég hana Julie rétt með þessa lýsingu, annars leiðréttið mig ef þið vitið betur).

Svo fór kvöldsólin að skína á klettana í kring og það var yndisfögur sýn.

Og svo kom máninn upp hinum megin og þá var ákveðið að labba upp á fjall til að fá betra útsýni.

Þegar svo var komið nægt myrkur til að fara að veiða krabbann þá ákvað Julie að senda á loft risakerti að kínverskum sið.

Og uppúr því átti að vera óhætt að fara að veiða krabbann.  Allir með vasaljós til að lýsa niður í sjóinn til að sjá hann.  En hann frýs þegar ljósið kemur á hann og vonast til að enginn sjái hann fyrst hann er alveg kjurr og þá er hægt að veiða hann.
Það var ekkert að hafa í kringum bryggjuna hjá okkur en Þráinn og Arnfinn fóru á árabát í kringum eyjuna og næstu eyju og komu með rúmlega 10 krabba en þá var klukkan líka orðin eitt og alveg kominn tími til að fara í land með fólk sem átti að mæta í vinnu daginn eftir.  Enda var farið gjóla og Kristínu Jónu orðið ískalt og búin að vefja sig í teppi og allt.
En þá er komið að því að fá að vita hvernig er krabbinn geymdur og eldaður.  Sko það þarf að geyma hann lifandi í sjónum og hann er settur lifandi í heitt vatnið í pottinum og það er víst svo hann það komi ekki svart blek úr honum, það gerist ef hann er dauður.  Það er sem sagt ekki hægt að elda dauðan krabba því þá verður allt svart og enginn hefur áhuga á að éta svartan fist.  Veit ekkert hvort það má eða hvort það er kannski eitthvað eitur í þessu svarta bleki.

Vorum komin heim kl. 1.30 og Þráinn átti að vakna kl. 4.50.  Úff ég var þó heppin að geta auðveldlega mætt aðeins seinna í mína vinnu því það er íslenskur tími sem ég miða við.  En ég var samt vöknuð um kl. 8 og bara hress allan daginn en þegar Þráinn var að keyra heim í gær í 30 stiga hita og eftir heilan vinnudag eftir 3 tíma svefn þá hélt hann í alvöru að hann myndi sofna við stýrið og hann var með miðstöðina á köldum blæstri allan tímann, alla glugga opna og söng hástöfum bara til að komast heim heilu á höldnu.  Þetta eru auðvitað stór hættulegt að gera svona. Svefninn er það mikilvægasta fyrir okkur til að halda heilsu og svona gerir maður bara einu sinni hvert sumar eða þannig.
Svo hitti ég tvær skvísur héðan úr Mandal í gær þegar við Margrét kíktum í kaffi til Fjólu og nú þegar maður á ekki bíl þá er allt labbað líka uppí efra Ime sem tekur mig 40 mín í og það í þessum hita.  Enda var ég másandi og blásandi þegar ég kom þangað en mikið er nú gott að geta bara labbað þetta.  Og leiðin heim var bara dásamleg, allt niður í móti og kvöldsólin farin að skína á ána og fólk að labba í bænum og gera sig klárt fyrir miðvikudagstónleika.  Við Þráinn ákváðum að þetta miðvikudagskvöld myndum við gefa þeim frí og fara í háttinn á eðlilegum tíma.
Já og eitt sem ég gleymi að segja frá og það er að á meðan ég var í kaffi með stelpunum, þá tóku Ástrós Mirra og Sara sig til og elduðu ritskexbollur og spagetti.  Duglegar stelpur og þetta var mjög gott hjá þeim sagði Þráinn.
Og talandi um ritskexbollur.  Eins og allir vita þá þarf að nota púrrulauksúpuduft í þær og það fæst ekki hér í Noregi.  Ég er að undrast þetta og fer að skoða heimsíðuna hjá Toro og uppgötva þá að það er norskt fyrirtæki.  Bíddu af hverju er þá ekki til púrrlaukssúpa hér en hún er til á Íslandi, svo ég ákveð bara að senda þeim fyrirspurn og viti menn þetta er bara framleitt fyrir íslandsmarkað og eins kakósúpan og þar hafiði það.
Og í dag er okkur svo boðið að koma og éta krabbann sem var veiddur en það er önnur saga og óvist að hún verði prenthæf þar sem ég borða nú ekki hvað sem er, en látum þetta koma í ljós.
Þangað til næst, Ykkar Kristín Jóna

 

26.07.2013 07:45
Krabbaveisla úti í eyju….
já Arnfinn og Julie buðu okkur í gær að koma aftur út í eyju til að smakka krabbann sem var veiddur í fyrradag.  Við skelltum okkur kl. 18 að bátalæginu sem Arnfinn kemur að til að sækja fólk og viti menn þarna kom hann með aðstoðarstýrimann hana Ödu sem er dóttir Yngva bróður Arnfinns.  Og þegar við komum út í eyju sjáum við að þar er Yngve líka og Arnfinn eldri og Sigrún foreldrar Arnfinns.  Sem sagt fjölskylduveisla í eyjunni og okkur er boðið með.  Það er nú meira hvað þetta fólk er okkur gott og tekur okkur vel og kynnir okkur vel fyrir norskum hefðum og því hvernig þau lifa hér í Mandal.  Dásamlegt alveg hreint.
Jæja fljótlega er krabbinn borinn á borð og þetta lítur alltaf vel út á bakka skreitt með dilli og sítrónum og máltíðin byrjar með sýnikennslu hjá Julie hvernig á að brjóta skelina, hvað er borðað og hverju er hent.  Já leit bara ágætlega út svo ég gríp einn krabba og ætla að byrja en þá lekur bara einhver græn drulla út úr honum og ég ….. úff ég get ekki borðað þetta, þetta var ekki svona hjá Julie ekki svona grænt og lekandi, svo ég spyr hvort fólk borði það og jú jú er svarað svo ég held áfram en er alltaf að bíða eftir hvíta fiskinum sem ég hef séð fólk borða þegar það borðar krabba.  Þar sem ég er eitthvað að vesenast með þennan krabba og Þráinn að hjálpa mér þá taka þau eftir því og ég segi bara að ég geti ekki hugsað mér að borða þetta græna og þá aumkar Arnfinn eldri sér yfir mig og réttir mér tvær stórar krabbaklær sem hann var með og þá fékk ég loksins hvíta fiskinn sem ég var að leita að.  En diskurinn er allur í grænni leðju (kannski smá ýkt lýsing) og ég er búin með hálfa eldhúsrúllu að reyna að þurrka mér, því mér líkar ekki að borða með skítugar hendur svo ég reyni að setja tissjuið yfir þetta græna og nota bara helminginn af disknum mínum og fæ mér brauðsneið með smjöri og næ að kroppa fisk úr klónum á brauðsneiðina og borða og namm þetta er gott.  Svo ég læt auðvitað vita af því og sá gamli hélt áfram að rétta mér alltaf sínar klær svo ég fengi nú mitt fallega hvíta kjöt á diskinn minn.  Hann minnti mig bara pínulítið á afa við þetta og ég varð að lítilli stelpu sem kann ekki að meta þann mat sem í boði er og þarf að fá smá dekur.
En þá að krabbanum án gríns.  Mér skilst að það séu ekki margir norðmenn sem borða allan krabbann eins og þau gera þannig að ég er ekkert rosalega skrítin en þau taka kjötið innan úr skelinni og það er stundum grænt, ég var greinilega með grænasta krabbann úr bakkanum svo blanda þau því saman við hvíta kjötið og setja á brauð og bæta við dilli og sítrónusafa og borða svoleiðis.  Einnig er oft setið bara og kroppað beint úr skelinni og beint í munninn.  Það minnti mig á sviðaveislu, allir með krabba í hendinni, hníf í hinni og svona verið að kroppa þetta uppí sig.
Stelpurnar höfðu fengið skál með krabbaklóm og brauð uppá klett og ég sá að ég hefði átt að vera sett í hóp með krökkunum. En Þráinn borðar þetta allt saman með bestu lyst og er mjög hjálplegur konunni sinni sem er bara pínu skrítin þegar kemur að skrítnum mat.
Jæja svo fór Arnfinn að grilla pylsur í eftirrétt því þetta er ekki mikill matur og ég var alla vega  ekki södd og reikna því ekki með að karlmennirnir hafi verið það þó maturinn hafi verið góður.  Og þau alveg elska þetta að sitja úti og kroppa þetta svona á brauðsneiðar.  Ég hins vegar vil hafa fyrirhöfnina áður en ég sest að borðinu og vil helst bara fá matinn á diskinn og borða hann.  Sbr. þegar við erum með humar þá tek ég hann alltaf úr skelinni áður en ég elda hann svo ég þurfi ekki að standa í þessu veseni við matarborðið og þessum sóðaskap sem hlýst af því.  Sama með krabbann, ég er ekki mikið fyrir það að dunda við að borða, er alveg búin að gleyma hvernig á að gera það.  Ætla samt að kaupa rækjur fljótlega og prófa svona ekta norskt með rækjum, brauði, eggjum og majonesi.
Svo var farið að synda.  Þráinn var eini af okkur sem tók sundföt með og hann, Julie og Ada fóru að synda og leika sér að stökkva útí og var Þráinn beðin að gera bumbu eða skvettu sem hann og gerði með stæl.

Svo var setið og spjallað og krakkarnir að veiða krabba og bara allt í rólegheitum og kósífíling.  Eitt kerti sent á loft upp eins og í fyrradag og nú sáum við það lengur því það fór ekki á bak við fjallið. Gaman að þessu.  Heimferð kl. 22 þar sem vinnandi fólk þarf að hvílast og Arnfinn og Ada skutluðu okkur yfir á bátnum.

Góður dagur að kveldi kominn og við alsæl og ég reynslunni ríkari.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

29.07.2013 07:51
Bara svona venjuleg helgi…..
og samt ekki því við Magrét fórum í Baly á markað að selja myndir frá mér og kökur og brauð frá henni.  Það gekk alveg fínt eða þannig, Margrét seldi allt og græddi 2700 nkr. en ég seldi bara eina mynd og það var hún Ella í Mandal sem keypti hana til að eiga mynd frá Mandal til minningar þegar hún flytur til Osló í haust.  Svo það voru að vissu leiti vonbrigði hjá mér en samt ekki, ég held að svona markaðir séu ekkert sérstaklega góðir til að selja svona myndir á og ég held reyndar líka að aðrir hafi ekkert verið að selja neitt vel þennan dag.  Veit ekki hvort það sé bara núna eða  hvort það sé almennt.  En þetta var góður staður til að byrja því það kostar ekkert að vera þarna.

Kannski endurtökum við þetta fyrir jólin, þá eru kannski meiri líkur að fólk kaupi myndir í jólagjafir heldur en sumarferðamenn.  En við Margrét áttum góðan dag og þetta var ekkert leiðinlegt þó lítið væri selt.  Við kynntumst líka hjónum þarna sem eru frá Póllandi og koma til Noregs öll sumur eða hafa gert í 20 ár og eru með bíl með öllu sínu dóti í og sofa í honum líka, eru svona hálfgerðir sígaunar.  En á veturna búa þau í Póllandi og lifa af því sem þau afla yfir sumarið í ríka landinu Noregi.  Þau lifa líka þannig lífi að ef þau búa til sultu þá skipta þau á henni og einhverjum öðrum mat við nágranna sína og þannig gengur þetta hjá þeim.  En hann býr svo skartgripina sem þau selja yfir veturinn, hann er að búa til skart úr beinum og þess háttar mjög flott. Kannski ég kaupi af þeim eitthvað um skelfiskhátíðina því þá verða þau hér í Mandal.

Svo þegar við komum heim af markaðnum þá fann ég gamlan skólabróður í miðbæ Mandal að þvælast með konunni og barni en það er hann Jóhann sem var með mér í Austurbæjarskóla.  Við hittumst á árgangsmóti fyrir nokkrum árum og myndaðist með okkur kunningsskapur uppúr því, ég fékk að taka myndir af litlu stelpunni hans og svo flutti hann til Kristianssand í byrjun árs og ég bauð honum / þeim að koma endilega í kaffi þegar þau færu að keyra um Noreg.  Og nú var komið að því og þau búin að skoða Mandal að hluta og komu svo í kaffi og bjór.  Þau sátu til kl. 22 og þetta átti bara að vera smá kík en það var bara svo gaman hjá okkur að spjalla og kynnast og við buðum þeim að koma á skelfiskhátíðna og bara gista hjá okkur svo þau þyrftu ekki að keyra til baka um kvöldið.  Þá erum við komin með tvær fjölskyldur í gistingu svo þetta stefnir bara í þjóðhátíðarfíling hjá okkur og mikið gaman.

Í gær var svo bara kósí kaffi og kaka og Arnfinn og Julie komu.  Sátum og spjölluðum og notarleg stund.  Síðan var eldaður góður matur og kvöldið endaði á pókermóti sem reyndar átti að vera á föstudaginn en var endalaust frestað vegna óvæntra atburða.  Ég hef aldrei spilað poker en líkaði þetta bara vel og var lengi vel að vinna spilið en það endaði á að dóttirin tók vinninginn.  Við erum með nöfn á spilurunum (nema mér auðvitað, ég fæ aldrei nein gælunöfn) og eru þau Pókerfeis, Íslandsmeistarinn og The Joker.  Skemmtilegt kvöld á þessu heimili og nú bara hefst ný vinnuvika sem er kannski ekki mjög löng þar sem það er verslunarmannahelgi framundan á Íslandi. Gaman gaman og við förum í eitthvað boð út í sveit með hljómsveit og alles svo það verður líka gaman hjá okkur.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

30.07.2013 08:03
Heitt og sveitt……
já það er sko búið að vera heitt hérna undanfarnar 3 vikur og ég held ég hafi aldrei verið eins sveitt á ævinni, ekki einu sinni þegar við Þráinn vorum á Rhodos í hitabylgju og 50 stiga hita, þá eru þessar 32 gráður hérna líklega erfiðari enda ég orðin eldri, ekki mjög mikið bara 25 árum og kannski á þeim aldrei sem konur svitna meira en normalt er og svo er maður ekki í sumarfríi þannig að það verður allt öðruvísi.
Að reyna að elda mat, með steik í ofninum og kartöflur og sósu á eldavélinni er bara ekkert skemmtilegt þegar svitinn lekur af manni og allir gluggar opnir uppá gátt, það er nú meira hvað ein eldavél hitar upp.
Að vera stödd í búð að kaupa sér kaffikönnu og það að þurfa að spá og spekúlera fær svitann til að renna niður bakið og lærin, það er frekar óþægilegt og maður flýtir sér heim með könnuna og þarf að setjast við gluggann þar sem er smá andvari þegar komið er inn áður en hægt er að taka könnuna uppúr kassanum.  Já Kristín þarf að bíða og slaka á þar sem hún er að kafna.
Að sitja við skrifborðið sitt og sessan undir manni er rök ekki af því að það hafi rignt svo mikið heldur af svita er bara ekkert allt of þægilegt.
Að opna útidyrnar sínar og ganga á vegg úti er bara ekki neitt sem við hér erum vön og þess vegna erum við hreinlega farin að flýja inn stundum í smá kælingu, þó við séum ekki með kælikerfi í íbúðinni þá er alltaf smá andvari og við getum opnað glugga á öllum hliðum og hleypt honum inn.
Að fara með stúlkur út í myndatöku í skýjuðu veðri og sólin kemur upp meðan við erum að labba uppá fjall er óþæglegt því þá fara að renna svitastraumar alls staðar og hitinn í gær varð svo mikill að ég svitnaði á fingrinum sem ég nota til að smella af myndavélinni.  Ég svitnaði á fingrinum ….. og ég er kona sem svitna aldrei.  Ég hef náð að temja mér það að svitna aldrei en þá átti ég heima á ísalandinu kalda.  Held ég muni ekki verða svitalaus meðan ég bý hér í Suður Noregi það er nú nokkuð ljóst.

Og það skal tekið fram að ég er ekki að kvarta, bara að segja frá því ég elska það að svitna svona mikið og geta gengið út að degi eða kvöldi bara á hlýrabolnum sem ég nota bene hef aldrei getað gengið í, alltaf verið í flík með ermum því annars er mér svo kalt á öxlunum, en ekki hér og ekki núna.  Hlýrabolur og pils eða hlýrakjóll er staðalbúnaður hérna þessa dagana og ekki er sofið í nema því allra nauðsynlegasta til að særa ekki blygðunarkennd nokkurs manns eða sjálfs síns.  Og það er ekkert lát á hitanum, spáin næstu daga alveg eins og þessi eini rigningardagur sem átti að vera á sunnudaginn sl. …………..  þetta var ekki rigning nokkrir volgir dropar sem duttu úr skýjunum, ég hefði sko verið til í að fá almennilega rigningu og fara út og dansa og hoppa í pollum en mér varð ekki að ósk minni í þetta sinn.

Þangað til næst, ykkar Kristín

 

02.08.2013 07:57
Þjóðhátíð og fleira skemmtilegt….
Ég er Vestmannaeyingur þó ég hafi ekki fæðst þar.  Mamma mín er fædd í Vestmannaeyjum og ég bjó þar í 20 ár.  Amma mín hún Klara á Heiðarbrún og systir hans Oddgeirs heitins Kristjánssonar sagði þegar ég var búin að búa þar í nokkra mánuði að ég væri orðin mikill Vestmannaeyingur og ég spurði hana hvað hún meinti, því jú ég væri flutt þangað og byggi þar en var hún kannski að tala um eitthvað annað?  Já þú ert farin að syngja segir hún.  Ég skil ekkert og segist nú hafa sungið alla mína ævi.  Nei ekki þannig syngja segir hún, heldur þegar þú talar þá ertu farin að syngja eins og Eyjamenn gera.  Þú ert Vestmannaeyingur, það er greinilegt.  Og hún Klara amma vissi sko alveg hvað hún var að tala um.

En nú er að koma þjóðhátíð og vitiði það truflar mig ekki neitt.  Ég vona bara svo sannarlega að það verði eins gott veður og yr.no er að spá og að það verði grenjandi fjör og læti án óláta og villimennsku.  En ég sit ekkert og hugsa vá, nú eru þau að gera þetta og hitt og svo framvegis eins og ég veit að sumir sem ég þekki gera ef þeir fá ekki að vera á þjóðhátíð.  Það sem ég sakna mest eru tjöldin og gítarspilið og söngurinn og yndislega fólkið.  Rokktónleikar, dansandi drukknir unglingar er ekki eitthvað sem ég hef áhuga á lengur enda er ég nýhætt að vera unglingur og unglingadrykkja hugnast mér ekki.  Og ég mun aldrei þó ég hafi sjálf drukkið vín sem unglingur (orðin 18 ára samt þegar ég smakkaði það) samþykkja unglingadrykkju og kaupa vín fyrir unglinga.  Og mér finnst ekki í lagi að sjá foreldra og unglinga drekka saman á hátíðum sem þessum.  Allt í lagi að skemmta sér saman  en ekki drekka saman, það passar bara ekki.  Kannski er ég bara orðin gömul og kannski á ég eftir að skipta um skoðun það hefur nú gerst áður og kannski er allt í lagi að fá sér einn bjór en ekki að allir séu drukknir og djammi saman.  Við foreldrar eigum að vera fyrirmynd og ég er sem betur fer orðin svo léleg drykkjumanneskja að ég mun ná því með dóttur mína, hún sér okkur foreldrana fá okkur hvítvín og bjór og kannski endrum og sinnum kippa smá en það er aldrei orðið meira og ég er voða fegin að vera að ala upp ungling núna en ekki fyrir 25 árum þegar ég réði illa við áfengi og drakk oft of mikið af því, en ég veit alveg í dag af hverju það var.  Það var bara mitt óöryggi sem olli því, ég var ekki nógu örugg með sjálfa mig að ég gæti verið án áfengis innan um fólk á djamminu og auðvitað djömmuðum við meira en margir á okkar aldri þar sem við áttum engin börn og eyddum 17 árum í að reyna að eignast barn og þetta var sjálfsagt eitthvert uppfyllingarefni sem við fundum okkur upp.  Því eins og góð vinkona sagði við mig, hvað eigið þið að vera að gera um helgar þegar við hin erum að sinna börnunum okkar?

En um aðra helgi ætlum við samt í þjóðhátíðargírinn því þá verður okkar festival hér í Mandal, skelfiskhátíðin og það er ekkert minna um að vera en á þjóðháðtíð en bara öðruvísi.  Hér verður fullt af hvítum tjöldum líka en í þeim eru eingöngu veitingarstaðir að selja fiskisúpur og skelfisk alls konar.  Það verða tívolítæki og fjör fyrir börnin og tónleikar og hljómsveitir öll kvöld.  Hingað koma nefnilega líka frægu hljómsveitirnar eins og CC cowboys og fleiri.  Ég er bara ekki búin að læra nöfnin á þeim ennþá.  En ég sá hérna dagskrána og þetta lítur vel út.  Þessi 15 þúsund manna bær verður að 40 þúsund manna bæ á þessum tíma svo við skákum Þjóhátínni algjörlega en hér eru reyndar yfir 30 þúsund manns allt sumarið svo það er ekki svo mikið sem bætist við, bara tíuþúsund manns.  Verður spennandi að upplifa þetta hér í miðbænum, þe. að búa í miðbænum á svona hátíð, ég er ekki viss um að við sofum nema með eyrnatappa.

Hérna hjá okkur verður líka Þjóðhátíðarfílingur þar sem við búum í miðbænum og það er líklega eins og að búa alveg inn við Herjólfsdalinn því við heyrum í tónleikunum hingað inn um gluggana og hjá okkur verða tvær fjölskyldur í gistingu og brjálað stuð………………….  hlakka svo mikið til.

Eins og sjá má á þessum myndum kann fólkið hér að skemmta sér saman og þess vegna verður þetta brjálað fjör en þessi helgi verður róleg.  Okkur er boðið í partý hérna aðeins uppí sveit en ég ætla ekki að fara því það stendur frá laugardagsmorgni til sunnudagsmorguns og ég vil ekki að Mirran sé ein heima á þessum tíma með tvo hunda svo við ætlum að gera ferð til Kristianssand á morgun og taka bara rútuna og hafa það huggulegt og bruðla svolítið mikið því ég ætla að nota íslensku skattapeningana okkar og kaupa mér nýjustu týpu af Pentax myndavél.  Nú er mín orðin rúmlega 5 ára og það er góður tími sem hún hefur lifað og mikið verið tekið af myndum á hana.  Þráinn er bara ánægður með það því þá fær hann þessa gömlu og kannski fer hann að taka meira af myndum, það kemur bara í ljós, hann hefur alla vega augað og hæfileikann ef hann hefur viljann.  Vonandi verður hann samt aldrei eins og ég því þá verðum við óþolandi hjón, betra að aðeins annað okkar sé svona húkkt eins og ég er.
En elsku vinir gangið hægt um gleðinnar dyr og verið góð hvort við annað.  Ég reyni kannski að vaka og ná brekkusöngnum á rás2 á sunnudaginn.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

05.08.2013 08:13
Þjóðhátíð…..
já það er reyndar engin þjóðhátíð hér hjá okkur ekki í þeim skilningnum en við áttum samt frábæra helgi og ég er auðvitað enn í fríi eins og aðrir sem vinna á Íslandi en munurinn á mér og þeim er að ég er úthvíld kl. 7 í morgun og ekkert þunn.
Eftir því sem lengra líður á milli þjóðhátíða hjá mér og ég eldist þá finn minna og minna fyrir því að ég sé ekki þar, en þegar ég svo á mánudeginum horfi á vídeóupptökurnar hans Sighvatar þá fæ ég gæsahúð, tár í augun og vildi að ég hefði verið þarna í þennan klukkutíma eða svo sem brekkursöngurinn er en það væri nú ansi dýrt að skreppa til Íslands og Eyja bara fyrir klukkutíma svo ég læt mig bara dreyma og svo er auðvitað stórhátíð hér um næstu helgi og þá verður sko fjör hjá okkur en ekkert sungið á Íslensku nema heimavið.  Ég sakna þess svolítið að syngja því ég gleymi alltaf að kveikja á útvarpinu og hlusta á tónlist en þó ég hafi mikið talað um hvað ég sé fegin að þurfa ekki að keyra í vinnu oþh. þá sakna ég þess að syngja í bílnum því ég gerði það alltaf svo mikið, leit ábyggilega skringilega út fyrir næsta bíl á rauðu ljósi en hverjum er ekki sama um það þegar hann situr með góða tónlist á og syngur hástöfum.
Þarf eiginlega að fara að rifja upp td. hann Bjartmar vin minn, við sungum saman í nokkra mánuði og eins ég og Magnús Þór Sigmundsson, við höfum líka sungið mikið í bílnum og svo hún Sigga frænka, ég held ég syngi næstum jafn vel og hún þegar ég er ein í bíl og set diskinn hennar í botn og syng með og vitiði, þetta er svo gott fyrir sálina, henni líður svo vel eftir sönginn svo ég er að hugsa um að kveikja núna strax á útvarpinu og hætta bara að tala um söknuð en gera bara eitthvað í þessu í staðinn.
Þráinn fór í sveitarpartý á laugardaginn sem var víst alveg frábært í alla staði, stanslaus dagskrá allan daginn og fullt af keppnum og leikjum og það endaði svo með grilli og hljómsveit og dansi.  Mikið gaman og mikið fjör og hann var ljósmyndari hátíðarinnar þar sem ég fór ekki með.  Hann stóð sig vel og tók yfir 300 myndir allan daginn sem voru síðan látnar ganga í slideshowi um kvöldið.  En þegar hann var búinn að láta myndirnar allar inní tölvuna þá fór hann og prófaði að taka eina mynd í viðbót sem heppnaðist ekki vel og hann ætlaði að eyða henni en úps………….. eyddi óvart öllum myndunum út af kortinu og fór með hnút í maganum til staðarhaldara til að vera viss um að myndirnar hafi allar verið komnar inn í tölvuna sem þær voru svo honum létti mikið.  Maður þarf alltaf að fara varlega í eyða einni og einni mynd, það er svo stutt á milli þess að eyða einni eða öllum.  En þetta reddaðist og dagurinn og kvöldið var víst frábært hjá honum.
Við mæðgur aftur á móti skruppum með rútunni til Kristianssand aðallega til að kaupa skólatösku handa Mirrunni og myndavél handa mér.  Já ég var búin að ákveða að kaupa mér nýja Pentax K5 II vél og því var mikil spenna í mér í þessari ferð.  Mirran var heldur rólegri.  Við fórum strax í JapanPhoto en þeir voru búnir að taka frá fyrir mig vél þar sem einungis tvær voru til í búðinni og ég ætlaði nú helst ekki í fýluferð þangað.  Afgreiðslumaðurinn (verslunarstjórinn held ég) mundi vel eftir því að hafa tekið frá svona vél fyrir hana Kristínu og fór og sótti vélina og afgreiddi mig og tjáði mér þá að í dag væru Pentax dagar í JapanPhoto og ég fengi því afslátt af vélinni.  Heilar 1200 nkr. fékk í afslátt og fékk því þessa vél á svipuðu verði og týpan fyrir neðan kostaði.  NÆS.  Nú var ég enn ánægðari með daginn ekki bara að ég ætti núna nýja myndavél heldur fékk ég svona góðan díl.
Svo fundum við fljótlega skólatösku handa Mirrunni en það er svört taska frá Birni Borg (og þá spurði Mirran) er hann eitthvað frægur hér í Noregi?  Já, einn frægasti tennisleikari heims og sænskur sagði ég.  Já ok.  Og málið dautt enda hvað höfum við að gera við að velta okkur uppúr frægu fólki það er ekki eins og við séum að fara að hitta það eins og stúlkan sagði einu sinni.
En taskan er flott, látlaus og falleg eins og Mirran mín.  Maður má ekki skera sig út úr fjöldanum þegar maður fer í unglingaskóla en hann byrjar strax í næstu viku hjá okkur hérna í Noregi.
Jæja svo var auðvitað farið á McDonalds og þegar það var búið leituðum við að dýrabúðinni sem við týnum alltaf reglulega og fundum ekki í þetta sinn og það skipti svo sem engu máli heldur og þá vildi Mirran mín bara fara heim, er þetta ekki orðið gott, klukkutími í búðum, búin að fá McDonalds og er yfir einhverju að hanga þá í miðbænum?  Nei líklega ekki og ég alveg himinlifandi glöð því ég gat auðvitað varla beðið eftir að fara heim og skoða nýju græjuna mína.  Þannig að við mæðgur erum líkari en margur heldur alla vega að þessu leiti, höfum ekkert gaman að hanga og skoða í búðir nema við ætlum okkur að kaupa eitthvað og þegar það er búið þá getum við farið heim.
Nýja myndavélin sett í hleðslu og prófuð svo eftir smá tíma og þetta er afraksturinn.

Þetta var fyrsta daginn og svo daginn eftir eða í gær, þá fórum við í langan göngutúr um skóginn og ströndina við RisoBank og þar er pínulítil strönd sem er oftast mannlaus svo hægt er að leyfa Erro að synda og hlaupa um frjálsum og hann var sko að njóta þess eins og þetta myndband sýnir.
Og þá tók ég þessar myndir
Svo á leiðinni heim, þá komu þessar rosalegu þrumur og eitthvað smá af eldingum og svo grenjandi rigning en þá vorum við að labba í skóginum og fundum varla fyrir því en sáum og heyrðum og það er ótrúlega sjarmerandi að vera að labba þarna í skóginum með þessi læti í veðrinu og það er samt hlýtt og við á peysunni og urðum ekki einu sinni blaut.

Jæja svo á eftir er ég að fara að mynda eina litla prinsessu, bæði úti og inni í stúdeoinu mínu og prófa myndavélina á sem flestum aðstæðum.  Hlakka til að fá Natalie til mín og mynda hana.
Svo þangað til næst. Ykkar Kristín

ps. fann Eyva frænda á Spotify og nýt þess nú að syngja með, alein á mánudagsmorgni hérna heima.  Bara snilld.

 

12.08.2013 08:14
Skalldyrfestivalen
Já þá er skelfiskhátíðinni lokið og við alsæl með helgina.  Það var sko margt og mikið hægt að gera til að njóta lífsins hérna um helgina og best af öllu að vera með skemmtilegt fólk í kringum sig.
Við fjölskyldan fórum á smá rölt á fimmtudagskvöldið til að skoða og taka út hvað væri í boði og þess háttar svo við vissum nú eitthvað um hvað þessi helgi snerist almennilega.  Á föstudaginn var vinna og eftir vinnu ákváðum við að labba saman aftur og núna átti að fá sér að borða í einhverjum veitingartjaldinu og fyrir valinu hjá mér var fiskisúpa því ég ætlaði að byrja hægt.  Þráinn fékk sér fiskispjót og Ástrós Mirra ekki neitt og ætlaði bara að hita sér eitthvað þegar hún kæmi heim.  OK.  Svona erum við gikkirnir en ég var búin að ákveða að þessa helgi borða ég bara fisk eða skeldýr eins og siður er í þessum bæ.
Við borðuðum og röltum svo aðeins um og Ástrós Mirra fór eldsnemma heim og við hjónin settumst aftur og fengum okkur bjór og þá bar að þar hjón sem Þráinn kannast við þar sem þau eru foreldrar Thor Kristian sem réði Þráinn í vinnu hingað og Þráinn enn vinnur hjá.  Þau höfðu einhvern tíma boðið Þráni heim til sín og annað skipti á veiðar í skóginum og svo eru þeir víst alltaf að hittast í Rema kallarnir.  Þau hjónin settust hjá okkur og við spjölluðum dágóða stund.  Það sem ég held að hái mér mest þegar ég er að spjalla við Norðmenn er að ég bæði heyri illa og skil auðvitað ekki allt.  En ef ég heyrði betur og fólk talaði aðeins skýrar þá kæmi þetta fljótt.  Annars get orðið alveg setið og spjallað en þarf einstöku sinnum að segja að ég skilji ekki og fólk finnur sér önnur orð eða útskýrir betur.  Þannig er það nú bara.  En Þráinn og kallinn (ég veit því miður ekkert hvað þau heita, náði ekki nöfnunum) og ég við konuna og það var verra, það er betra ef við erum bæði að tala við sömu manneskjuna því þá nær Þráinn sumu og ég sumu og svo leggjum við þetta saman þegar við komum heim.  Humm Lovísa ætlar nú að tékka á Norskunámskeiði fyrir okkur þegar hún fer með Gabríel í skólann þannig að vonandi fáum við námskeið við hæfi og lærum það sem vantar uppá.
En þetta eru yndisleg hjón sem töluðu um að bjóða okkur í sumarhúsið sitt í Skjernøy einhvern daginn.  Svona almennt eru norðmenn.  Yndislegir og hjálplegt fólk.
Jæja við fórum heim um kl. 10 og höfðum það kósí heima fram að háttartíma.  Daginn eftir var kúrt aðeins frameftir eða til kl. 9 því svo áttum við von á Frank, Lovísu, Gabríel og Natalie ásamt Jóhanni, Önnu Sofíu og Amöndu eftir hádegi til að njóta dagsins / kvöldsins með okkur.
Veðrið var yndislegt og er bara dásamlegt að ganga í gegnum bæinn með öllum sölutjöldunum og sölubásunum, spalla saman og njóta lífisins.  Við byrjuðum á að skella okkur í Tívolíið og ég ákvað að fara út fyrir þægindarhringinn minn og fara í hættulegasta og stærsta og hrikalegasta tækið með Ástrós Mirru.  Meira að segja þegar ég skrifa þetta fæ ég smá svima.  En ég skelli mér með Ástrós Mirru og Gabríel í röðina sem var of löng því ég var nokkrum sinnum á leiðinni að hætta við en gerði það ekki.  Og þegar við nálguðumst þá var ég ekkert svo stressuð og reyndi bara að hugsa um það þegar ég var ung og elskaði að fara í svona tæki og bjóða hættunni heim og ég veit ekki hvað og hvað.  Í tækið fer ég og það er ekkert öryggisbelti bara þessi stöng þarna.  Úff hún er pínu laus er það ekki?  Ég get hreyft mig í þessu og sit ekki alveg nógu föst, ég er viss um að þetta getur losnað, ég meina það. Ætti maður ekki að vera í öryggisbelti líka, hvernig geta menn verið vissir um að þetta opnist ekki þegar maður er hundruði metra uppí loftinu á hvolfi og það svona stórar manneskjur eins og ég?  Úff, jæja af stað fer tækið og í nokkrar sekúndur er þetta í lagi en svo erum við komin váááááááá svona hátt upp og svo úffffffffffffffffffffffff skell ég á hvolf og niður og upp og aftur á hvolf og ég bið til Guðs og tala við sjálfa mig og held mér dauðahaldi í handföngin og ég …………………………………………… er að deyja.  Svo stoppar tækið efst og Ástrós reynir að tala við mig og ég rétt næ að segja henni að gera það ekki, ég geti ekki talað og stelpurnar sem sátu bakvið okkur spurðu “hei er det ok med deg, er det ikke greit” og svo framvegis og Ástrós Mirra svarar þeim því ég get það ekki en svo ákvað ég að opna augun svo ég gæti vitað hversu hátt uppi við vorum og …………………………………… ég er að deyja aftur því við erum bara hátt uppi í himninum og ég get ekkert gert til að komast niður aftur það er enginn sem stjórnar sem heyrir í mér og ég er fangi í hættulegu tæki og get ekkert gert annað en að loka augnum og halda mér fast og óska þess að þetta taki enda sem allra fyrst.

Þegar ég kem út tækinu þá titra ég öll og hendurnar á mér eru krepptar og ég get ekki losað þumalinn því það var bara krampi í gangi.  Ég var heillengi að jafna mig og bað fólkið að koma og setjast og við fengjum okkur bjór meðan Ástrós Mirra og Gabríel héldu áfram í tækjunum.  Það var fínt að setjast og spjalla og gleyma þessari upplifun í smá tíma.  Svo var bara rölt áfram um og við fórum á evrópska markaðinn og keyptum okkur osta og það fannst vel á lyktinni inní íbúð og finnst enn ef ísskápurinn er opnaður.  En góðir ostar og sumir keyptu sér pylsur og aðrir hatta og bara gaman.  Svo fórum við heim, gáfum krökkunum hamborgarara, fengum okkur hvítvín og osta og höfðum það mjög huggulegt.  Fórum svo út aftur og nú til að fá okkur að borða við fullorðna fólkið og já á þessum tímapunkti var Jón búinn að slást í hópinn með okkur og svo bættist Margret við eftir vinnu hjá henni um kl. 21.  Gaman að þau gætu verið smá með okkur en Margret var að fara að vinna daginn eftir svo hún stoppaði ekki lengi.  En nú fékk ég mér pasta með skelfisk og Þráinn fékk sér bláskel þannig að við smökkuðum bæði sitthvorn fiskiréttinn sitthvort kvöldið og ég er ánægð með það en einmitt súpan og pastað hentar mér betur en skelfiskurinn sjálfur það er bara þannig og ekkert til að skammast sín fyrir.
Svo fóru hljómsveitirnar að spila og sú sem spilaði klukkan átta var mjög fín sveit en það var ekki mikið af fólki að hlusta á þá, svo kom aðalbandið klukkan tíu og við hlustuðum í klukkutíma en þetta var pínu skrítið og við ákváðum að hugsa til þess hvað útlendingum þætti ef Stuðmenn væru að spila og skilja að við erum útlendingarnir og skiljum bara ekki þessa músík sem var svolítið leikhúsleg og mér fannst þeir vera að spila lagið um Kalla á Þakinu þegar vinsælasta lagið með þeim kom. Svo við fengum okkur rölt um bæinn aftur og Þráinn smakkaði pæelluna og hún var ódýr, hann borgaði með hundraðkalli og fékk hundrað og fimm til baka, við skildum það ekki en ákváðum að vera ekkert að röfla yfir því.
Svo var bara rölt heim og við settumst á bryggjukantinn á leiðinni og hlustuðum þar á coverband og það hentaði okkur betur og þegar heim var komið voru litlu stúlkurnar sofnaðar og við sátum öll svolitla stund í viðbót saman, svo keyrðu Jóhann og Anna Sofia og Amanda heim en Lovísa, Frank og fjölskylda sváfu uppi á lofti.
Leti og skrítinn dagur svo í gær, því ég hélt ég væri að verða veik, byrjaði þegar við fórum að sofa að ég fékk svona kuldakast og náði mér ekki í hita og svo í gær var ég með beinverki í öllum skrokknum og leið ekkert vel en vitiði það, ég held að ég hafi ekkert verið að verða veik heldur hafi þetta verið eftirköst af svaðilför minni í Tivolí.  Verkirnir því ég var svo stíf og ónotin bara vegna álagsins á taugakerfið.
En ég gerði þetta og þarf aldrei að gera svona lagað aftur.  Ætla hinsvegar í Parísarhjól og Eye of London og þess háttar en ekkert þar sem ég fer hratt og á hvolf og hátt upp líka.
Jæja nú eftir skelfiskhátíðina þá fer allt að fara í gang hér í bæ aftur, sumarfríin búin og skólarnir að byrja á miðvikudaginn og lífið gengur sinn vanagang.
En ég enda þetta blogg á myndasýningu frá hátíðinni.  Njótið.
 
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

15.08.2013 07:33
Risastór vika…….
já þessi vika er alveg risastór því hún byrjaði á því að ég eignaðist þessa yndislegu frænku mína og afadóttur.  Myndin er tekin af Konný systur en ég fæ hana lánaða hérna.
Er nokkuð eins yndislegt og þetta? Ég held ekki og finnst ótrúlega vont að geta ekki kíkt í heimsókn og fengið að faðma mæðgurnar og ömmuna og afann líka.

Ég þarf líklega ekkert að segja ykkur að ég klökkna þegar ég horfi á þessa mynd og skrifa þetta.  Er orðin algjört marsmellows  þegar kemur að svona tilfinningum.  En það er gott, ég hef tilfinningar og finn fyrir þeim alla daga.
Fleira stórt er að gerast í þessari viku og reyndar í dag, hún elskuleg amma mín á afmæli og hennar afmæli eru öll stórafmæli því hún er orðin 94 ára og þa er ekkert smáræðis að ná því.  Meðalaldur ættarinnar minnar er 58 ár en hún er sko búin að skáka honum heldur betur.
Til hamingju með afmælið elsku bestasta amma í heimi.  Það eru ekki allir svo heppnir að vera fimmtugir og eiga hana ömmu sína ennþá en ég er það.  Ég er svo heppin.

Svo er fleira merkilegt að gerast í þessari viku, Ástrós Mirra var að byrja í nýjum skóla í gær, Ungdomsskole sem heitir Blomdalsskolen.  Flottur skóli þar sem nýbúið er að taka allt í gegn og það sem mér fannst svo cool er að ef það verður of mikil sól úti þá fara sjálfkrafa gardínur utan á gluggana og dregst fyrir þannig að dóttir mín þarf ekki lengur að sitja í heitri skólastofu með höfuðverk.  Svo er auðvitað bara cool að fara í unglingaskóla, vera ekki lengur með litlu krökkunum og okkur líst rosalega vel á þetta og stundataflan er flott og á miðvikudögum fer hún í fag sem heitir design and redesign þar sem hún á að hanna eitthvað og endurhanna eitthvað annað.  Hlakka mikið til að fylgjast með þessu fagi.
Dagur 2 í skólanum og hún vaknar sjálf jeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii þvílík gleði fyrir mig því það er ekkert auðvelt að vekja ungling á morgnanna sem er ekki eins kátur og glaður og ég var sem unglingur.  (eða kannski man ég bara ekki eftir því að hafa verið fúl á þeim árum)
Og að lokum er Þráinn (já ég segi Þráinn því hann hefur miklu meira vit á bílum en ég) líklega búinn að kaupa bíl handa okkur.  Hann fór í gær og prófaði og skoðaði bíl sem hann var búinn að sjá á netinu og var til sölu á bílasölu, gerði tilboð og skrifaði undir viljayfirlýsingu að kaupa hann, veit ekki hvort það sé bindandi eða hvað en bílasalinn hefur svo samband í dag eða morgun til að klára málið svo kannski við förum bara í bíltúr á sunnudaginn, þar sem við ætlum að vera að mála húsið að utan á laugardaginn og kveðja síðan Ellu og Kristínu Jack en þær eru að flytja til Osló svo það fækkar aftur í Íslendingar í Mandal hópnum.  Við eigum eftir að sakna þeirra en líka gott að þekkja einhvern í Osló ef við værum á ferðinni.    En ég trúi ekki öðru en að þær muni sakna þessa fallega bæjar sem við búum í, en þeirra bíða líka ný æfintýri á nýjum stað.

Já svo gleymi ég næstum að segja frá því að ég fór aftur í Zumba eða DansMix eins og það heitir hér á mánudaginn og það er eins og ég hafi aldrei farið því sumarið setti ábyggilega einhver kíló á skrokkinn og svo er það þessi óhemju stirðleiki sem ég er alltaf með, ef ég sit í stól í hálftíma þá ætla ég bara varla að geta staðið upp aftur og ef ég ligg í sófa þá er það þetta sama.  Skil þetta ekki því ég hef sjaldan hreyft mig eins mikið og ég er að gera hérna úti, alltaf úti að labba sem ég gerði ekki heima á Íslandi en þá er bara eitt sem getur útskýrt það og það er afmælið sem ég átti í apríl sl. sem orsakar þetta.  En já aftur að dansmixinu, ég vildi næstum því (þó ég vilji það sko alls ekki) að það væri vídeo þarna svo maður gæti horft á sjálfan sig eftir á, eða alla vega ég því ég er svo fötluð þegar kemur að því að læra spor og er alltaf á skjön við alla aðra og þegar ég er búin að fatta taktinn og sporin þá er búið að skipta í næsta.  Þannig að ég er þessi með þunga rassinn sem getur ekki dansað í hóp og það er bara eitthvað sem hefur alltaf háð mér.  Já og svo voru hnéin að drepa mig síðast svo ég tók stundum einkadans þegar kennarinn var með mikið hopp því hnéin ætluðu bara að gefa eftir þegar ég reyndi að hoppa en ótrúlegt en satt, þetta er skemmtilegt og ég er nefnilega ekki eina kellingin þarna þó það hafi líka verið flott stelpa þarna sem kunni alla dansana og var með allt á hreinu og öskraði og klappaði og var svo skemmtileg og hressti svo upp á okkur sem gátum varla raulað með vegna ofreynslu og þreytu.  Og eitthvað fór nú af lýsinu af mér því ég var rennandi blaut og ég sem svitna aldrei nema í 32 stiga hita.
Er að reyna að fá Fjólu og Lovísu til að koma með næst, já ég veit ekki hvað er að mér af hverju ég vil endilega fá fleiri vitni að þessum hörmungum mínum.  En nei ætli það sé ekki frekar af því að mér finnst gaman þá vil ég að fleiri njóti líka.
Já og svo er ég búin að búa mér til svona portfoliosíðu hérna:  http://kristjona.wix.com/kjgphotos  og ég er komin á Twitter, veit ekki hvort mér muni líka það en kristinjonag er nafnið mitt þar, fann ekkert annað meira spennandi en það er ábyggilega af sömu ástæðu og ég er aldrei uppnefnd eða fæ engin gælunöfn frá fólki eins og aðrir virðast geta fengið.  Annað hvort er nafnið mitt þannig að erfitt er að gælunafna það eða karakterinn ég.  Það er spurning?   Mér finnst nefnilega pínu krúttlegt þegar einhver tekur fólk / nöfn og gefur því gælunöfn án þess að það sé eitthvað til að gera grín að manneskjunni með.  Eins og hann Lalli vinur okkar hann kallar Þráin alltaf Didda frænda og þeir eru ekkert skyldir og Diddi er ekkert líkt Þráni en mér finnst þetta krúttlegt.  Vantar einhverjar hugmyndir að gælunafni á mig, greinilega.  En alla vega ætla að prófa að tvíta og sjá hvort ég botna meira í þeim vef núna en fyrir einhverjum árum þegar ég prófaði fyrst.
Svo þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

 

20.08.2013 07:37
Haustlegt á morgnanna….
já hér er sko haustlegt á morgnanna og bara 10 stiga hiti núna þegar ég vakna, svolítill raki og bara kalt já, en við vöknuðum ekki við það heldur það að húsið hristist og skelfur þessa dagana og nú er enginn Þráinn að fara á undan mér og því vaknaði ég bara við það að rúmið lék á reiðiskjálfi.  Já það er nefnilega verið að stækka Amfii hérna úti og ég bý í timburhúsi og hef það sem sagt svona huggulegt.  En ekki það það er vont en það venst, það er alltaf svoleiðis, verra er með hávaðann sem er samt ekkert rosalegur svona kl. 7 á morgnanna þegar kalt er úti og búið að loka öllum gluggum en þegar það verður orðið heitt um hádegið, ca. 22 – 24 gráður þá fer ég að þurfa að opna alla glugga og þá byrja sko lætin og þau eru ekkert í takt við hrystinginn því þá gæti maður fundið einhvern takt út úr þessu.  En ég er ekkert að kvarta, þetta gengur yfir og það er frábært að það sé verið að framkvæma hérna en verra að Þráinn virðist ekki ætla að fá vinnu við það, alla vega ekki strax og nú var hann sendur til Drammen að vinna og gæti orðið þar í einhverjar vikur.  Það er allt í lagi þannig því hann fer á mánudagsmorgni og kemur á fimmtudagkvöldi og á frí á föstudeginum en mér leið verr eftir að hann að hringdi í gærkvöldi og sagði mér við hvernig aðstæður þeir byggu.  Þá leist mér ekkert á þetta.  Þeir eru með einhverja gáma sem þeir gista í (eru líklega íbúðargámar) en það er skítugt og engin eldunaraðstaða og honum leist ekki mikið á þetta, það var frekar dauft hljóðið í honum í gærkvöldi þegar hann var búinn að skoða herlegheitin og finna út úr því af hverju hans gámur var rafmagnslaus og þá laga það.  Eins gott að hann tók sæng og kodda að heiman svo hann hafi ekki þurft að fá eitthvað grútskítugt að vera í.  En það virðist vera standart hjá karlmönnum sem búa einir eða á vinnusvæði að þeir þrífa ekki í kringum sig og sko Þráinn eða við erum ekkert með rosalega lágan þröskuld, hjá okkur er oft ryk og hundahár á gólfum en hann hefur alltaf þurft að byrja á því að moka út drullu og það hefur stundum verið þannig að hann ætlar ekki að geta farið inní herbergin svo ég spyr bara hvernig geta menn (já þetta eru alltaf karlmenn enda vinnur hann þannig vinnu) verið á kvöldin og sofið í svona drullu?  Ég skil alveg að þeir séu ekki að þurrka af alla daga en þetta er bara rugl og leiðinlegt að lenda í.

Svo ég er ekkert svo spennt að fá bara að kallalaus í nokkra daga fyrst honum líður ekki vel.
En þá verð ég að segja ykkur frá því að við Erro áttum svo frábæran göngutúr í gær og framhaldið lofar góðu.  Hann gekk nánast allan tímann við hliðina á mér og togaði bara nokkrum sinnum til að pissa, kúka og merkja.  Já hann er ekki hættur því en það hefur sko mikið minnkað, ég veit ekki hvort það sé vegna þess að við erum bara ákveðin við hann og leyfum það ekki og það er svo fyndið þegar ég er að labba með hann á götu td. og ákveð að við löbbum bara á miðri götunni svo hann sé ekki ofaní næsta pissupolli að þefa og svo ætlar hann að þefa og merkja og ég toga bara í hann á móti og svo eftir smá tíma þá togar hann rosalega fast og þarf að pissa og jafnvel sest eins og stelpa því þá er hann kominn í spreng.  Annars virðarst þeir sko losa smá með merkingu og passa sig að geyma til að eiga í næstu merkingu líka en þegar það er ekki í boði, þá bara úps, þurfa þeir að pissa. Svo gæti það líka verið að við erum hætt að nota ólina sem er 5 metrar og hægt að hafa hundinn nánast lausann með, því það kennir honum ekki neitt, hundurinn upplifir sig bara lausan og að hann ráði þegar sú ól er notuð svo við erum bara alveg búin að leggja henni og notum bara venjulega ól og hann virðist skilja hana betur.  En aftur að göngutúrnum í gær, við fórum meðfram ánni sem er skemmtileg ganga en það var allt annað í gær en síðast þegar ég fór, þá hét ég því að ég færi ekki aftur með hann í göngu en í gær var ég stoltur hundaeigandi því það dinglaði bara ólin á milli okkar og við löbbuðum saman og hann stoppaði með mér þegar ég tók myndir og eins og ég segi togaði bara oggopínulítið.  En við mættum engum hundum og lítið af fólki því já var ég nokkuð búin að segja ykkur það að bærinn tæmdist um síðustu helgi, hér eru engar skútur lengur og lítið sem ekkert fólk á götunum og búið að loka nokkrum búðum sem eru bara opnar á sumrin, hér er komið haust því skólarnir byrjuðu í síðustu viku og þá er bara eins og skrúfist fyrir allt líf.  Enda fer fólk ekki í frí þegar börnin þeirra eru byrjuð í skóla, það verður þá ekki fyrr en í vetrarfríinu sem það gerist næst.

Já hér tekur fólk sér yfirleitt ekki nema 3 vikur í sumarfrí á sumrin til að eiga inni tvær vikur í sitthvort vetrarfríið og fara þá í frí með börnunum sínum en á sumrin eru börnin þá bæði með foreldrunum í 3 vikur, kannski pabba eða afa og ömmu í aðrar 3 vikur og þá er sumarfríið búið í skólunum og allir sáttir.
Litla fallega dísin í Vestmannaeyjum dafnar víst óskaplega vel og ég fæ reglulega kökk í hálsinn því mig langar svo að sjá hana og mömmu hennar og ömmu hennar og knúsa þær allar og ekki síst þefa af litlu dísinni og finna hvað hún er mjúk og yndisleg og saklaus og falleg.  En ég verð að láta mér nægja myndir og þar er ég heppin hvað amma hennar er dugleg að mynda hana.  Mynd á dag er málið svona fyrstu dagana og svo verður örugglega vikulega og svo mánaðarlega þar til hún verður eins árs.  Gaman að því.

Næstu helgi er markaður á Sykehjem (elliheimilinu) og við Margrét ætlum að vera með borð og selja.  Ég myndir og hún bakkelsi.  Sjáum hvernig það gengur núna, ég ætla að prófa að vera með myndir frá Mandal mest þar sem þetta er hér í Mandal og svo ætla ég kannski að prófa að búa til gjafakort með myndum frá mér og selja.  Stal þessari hugmynd frá henni Konný systur minni en ég á alveg eftir að útfæra hana betur.  Hef tíma til þess í dag og morgun eftir vinnu svo það er ekkert mál.
Jæja þangað til næst,
Ykkar Kristín

 

21.08.2013 09:49
Auddi….
Ég gleymi alveg að segja frá honum Audda sem kom í líf okkar í síðustu viku, nánar tiltekið á föstudaginn sl.  En Auddi sem er fæddur 2005 en mikill karakter og ótrúlega flókinn strákur, það þarf nánast tölvukunnáttu til að skilja hann.
Þráinn kom með Audda heim á föstudaginn og við eyddum helginni mikið með honum en höfum ekkert hitt hann í vikunni svo það er spurning hvort við Ástrós og Erro verðum ekki að fara að hitta hann svolítið í dag eða á morgun?
En ég tók auðvitað nokkrar myndir af Audda bæði í rigningu og svo í sól og með okkur og líka aleinum.
Velkominn í fjölskylduna okkar Auddi Þráinsson.

Það er bara yndisleg tilfinning að eiga aftur bíl og þurfa ekki að vera uppá aðra kominn með allt og geta farið aðeins út fyrir bæinn að taka myndir eða bara í bíltúr.  Við erum bíltúrskynslóðin og finnst gaman að fara útfyrir bæinn.  Erro er líka ánægður með það því nú getur hann aftur verið laus í skóginum og svona útúr bænum stöðum.
Það sem er þó yndislegast við þennan bíl er að við erum búin að safna pening í eitt ár og áttum fyrir honum.  Erum reyndar alveg skítblönk eftir það en það er sama.  Frábær tilfinning að eiga afgang um hver mánaðarmót og geta lagt fyrir og keypt sér eitthvað eftir árið.  Þetta gátum aldrei heima á Íslandi, ef við áttum afgang þá var örugglega eitthvað óþarft sem við keyptum fyrir afganginn því þannig vorum við bara á Íslandi (held það sé tíðarandinn þar, að allir verði að eiga allt og það nýjustu græjur af öllu) en hérna er ekkert lífsgæðakapphlaup og við svo miklu nægjusamari og eigum alltaf afgang þó ég sé á íslenskum launum.  Það þykir okkur gott líf.
Svo nú er stefnan tekin á að byrja að safna aftur og kaupa bát á næsta ári, kannski einhver svipaðann og sést á þessari mynd.  Það væri næs, og hér er bara æðislegt að eiga bát og geta skotist út í eyjar eða bara umhverfis þær og notið góða veðursins sem er hér alltaf.

Svo þetta eru draumarnir annar hefur ræst og hinn er á teikniborðinu en með vitneskju um að hann geti auðveldlega ræst skv. reynslunni sem við höfum öðlast hér.
En nú er haustið á næsta leiti og það er yndislegur tími fyrir ljósmyndara alveg eins og vorið og sumarið, það er bara veturinn sem má alveg missa sig eða vera styttri en þó er hann betri hér en heima á Íslandi því það er ekki þetta rok alltaf hreint.  Elska samt landið mitt þó mér líði núna betur annars staðar.  Bara svo enginn misskilji það.
Já var ég ekki búin að nefna það í gær að Þráinn er að vinna í Drammen?  Alla vega ef ekki þá er hann að vinna í Drammen og átti að vera frá mánudegi til fimmtudags og fá 3ja daga helgi en þeir Frank tóku ákvörðun í gær að vera bara alveg fram á þriðjudag í næstu viku, vinna eins og brjálæðingar því það er hvort sem er lítið sem þeir geta gert alla vega í svona lásí húsnæði.  Og þá eru þeir kannski bara búnir með verkefnið svo það væri bara næs, ein vika er fljót að liða.
Svo þangað til næst, ykkar Kristín

 

24.08.2013 08:41
Fjarbúðin….
gengur mjög vel, við erum í rólegheitalífi við mæðgur og hundur og köttur, skrítið eins og Þráinn sé svo fyrirferðarmikill að það breyti miklu þó hann sé ekki.  En einhvern veginn er það svoleiðis að mér finnst ég frekar þurfa að elda mat og gera heimilisverk þegar hann er heima en það er ekki hann sem er með þær kröfur heldur koma þær bara frá mér , já við erum skrítnar mannverur.
En mig langaði aðeins að ræða það að vera að vinna fjarri heimili sínu og búa í vinnubúðum, ég setti nefnilega mynd á fésið af hræðilegum gámum sem þeir eru látnir búa í strákarnir meðan þeir eru í þessu verkefni sem þeir eru í, í Drammen.  Mér fannst þær líta illa út að utan en aðrir sáu það ekki þannig.  Ég sá að það væri eins og hornin næðu ekki saman og því góður aðgangur fyrir mýs og rottur inn í gámana en aðrir sáu það ekki.  Ég sá að þetta væri varla mannabústaður en aðrir sáu það ekki.  Munurinn er kannski að ég horfi á þetta með þeim augum að maðurinn minn þarf að búa þarna og er einnig líka búinn að sýna mér fleiri myndir og segja mér frá en aðrir vita það ekki.
Ef þetta væri bara þessi gámastöð og hún héldi maurum og rottum frá og aðstaðan inni væri í lagi þá væri þetta bara fínt.  Auðvitað geta menn í stuttan tíma búið svona en samt.  Árið 2013 í vestrænu þjóðfélagi að bjóða mönnum uppá að það að búa í húsnæði þar sem þeir geta varla haft mat innandyra og ekki eldað sér neitt, enginn ketill eða kaffivél á staðnum og minn fann ryðgaðan pott til að sjóða vatn í til að fá sér instant kaffi.  Að finna rottugildru á gólfinu segir ákveðna sögu, hann hefur svo sem ekki séð rottur labba þarna um en það eru gildrur á gólfunum.  Það eru maurar út um allt þarna og mjög skítugt og sumir menn geta búið í svoleiðis og Þráinn þekkir einn sem er þarna og bjó með honum í Langásen og þar þurfti að moka út drullunni eftir hann svo þetta er ábyggilega fínt húsnæði fyrir svoleiðis menn en þeir eru sem betur fer ekki margir sem eru svona.  Og svo er þarna ekki sjónvarp, ekki internet sem er í rauninni aðalmálið því ef mennirnir gætu sótt sér afþreyingu á kvöldin á netinu, haft samskipti við fjölskyldu án þess að vera í rándýrum gsm símtölum þá væri það miklu skárra og þá erum við kannski komin að því sem er mikilvægast.  Í þessum vinnubúðum er EKKERT.  Þú getur sofið þar og búið og það er ekkert líf, ekki einu sinni í eina viku.  Ég veit að ég gæti þetta ekki verið nánast sambandslaus við alla í heila viku að ég tali ekki um ef það er eitthvað meira.
Og já það að það séu svona vinnubúðir út um allan heim og þyki bara ágætis verustaður sumstaðar þá er það ekki neitt sem við eigum að sætta okkur við.  Af hverju finnst okkur allt í lagi að smiðir séu látnir búa í svona vinnubúðum, ekki sæum við fyrir okkur hóp af lögfræðingum sem væru að fara í vinnuferð til útlanda búa við svona.  Af hverju er í lagi að verkamenn og iðnaðarmenn fái slæman aðbúnað, er það af því að þeir geta orðið skítugir í vinnunni?  Flestir þeirra fara svo heim og þvo fötin sín og fara í hrein daginn eftir en þarna er enginn þvottavél svo þeir verða bara að vera í sama vinnugallanum dag eftir dag.
Við eigum ekki að bjóða fólki uppá svona og við eigum heldur ekki að láta bjóða okkur þetta en menn gera það af því að þetta er stuttur tími, alla vega hjá Þráni vona ég, hann kemur heim á þriðjudaginn og er þá búinn að vera þarna í rúma viku án alls.  Vonandi fer hann ekki aftur, en jú menn vilja hafa vinnu og taka því þeim verkefnum sem að þeim eru rétt allt annað en að verða atvinnulaus, það er bara málið og ef það er ekki verkefni hér í nágrenninu akkúrat núna þá er það bara svona.
Ég er alla vega heppin því ég gæti þetta ekki.
Og þá kem ég að öðru efni sem er einnig, hvernig við komum fram við annað fólk, fullorðið eða börn.  Að lesa á hverju ári skelfilegar sögur um lítil börn sem eru beitt svo hörmulegu einelti á ekki að eiga sér stað.  Hvað er að gerast í okkar fína skólakerfi?  Hvernig stendur á því að foreldrar barna sem leggja önnur börn í einelti sjá það ekki eða þykjast ekki sjá það og taka því enga ábyrgð á því og kenna ekki börnunum sína góða hegðun?  Af hverju eru skólayfirvöld að funda með barninu sem lagt er í einelti og foreldrum þess?  Það gerði ekkert af sér.  Það á alla vega að vera í lagi að vera öðruvísi og enginn á skilið að lenda í einelti bara af því að hann er ekki eins og fjöldinn.  Við verðum að fara að kenna börnunum okkar það.  Kenna þeim að við séum öll misjöfn og þurfum að hafa tolerans fyrir alls konar fólki og krökkum.  Auðvitað vill enginn að barnið hans sé gerandi í svona málum en ef barnið þitt er það, þá er það þín ábyrgð.  Þín ábyrgð sem fullorðin manneskja og foreldri barns.  Það er ekki ábyrgð barnsins sem lendir fyrir eineltinu.  Já af hverju kalla skólayfirvöld ekki gerendur á fundinn, það er það eina sem þarf að gera, tala við gerendur, kenna þeim góða hegðun og athuga hvað er að hjá þeim, því það er eitthvað að hjá börnum sem gera svona.
Að lokum langar mig líka að nefna eitt.  Þegar ég heyri svona sögur að eineltið er búið að vera viðvarandi í mörg ár og barninu líður svo illa að það vildi vera engill því þá kannski myndi það eignast vini.  Bíðið nú við.  Af hverju eru foreldrar þessa barns sem lendir í svona erfiðum aðstæðum í þessum skóla ekki flutt eða alla vega búin að láta barnið skipta um skóla því ég held að þó skólayfirvöld færu nú að taka rétt á þessum málum þá er málið orðið of alvarlegt þegar það er komið á þetta stig og ekkert sem getur lagast.  Haldiði að þessi börn verði einhvern tíma vinir? NEI.  Haldiði að þessir krakkar fari að verða vinalegir við þolandann?  NEI.  Það sem gerist í mesta lagi er að hann verður látinn vera en verður áfram einn.  Alltaf einn því hann er kominn með stimpil og sá stimpill fer aldrei af.  Flytjið í guðanna bænum eða skiptið um skóla. Ekki nota börnin ykkar til að berjast við kerfið þau eiga það ekki skilið.  Komið þeim frá þessum eineltisbörnum og athugið hvort það verði ekki betra við það.  Gefið þeim nýtt start í lífinu.  Ég þekki dæmi þar sem allt breyttist við að skipta um skóla og það er svo yndislegt að vita af því að það var hægt að snúa á þessa hegðun með því að labba bara frá henni í staðinn fyrir að berjast við hana.
Ég verð bara svo reið þegar ég les svona fréttir og ég verð eiginlega reið út í allt fullorðna fólkið þe. foreldra barnanna sem eru að leggja aðra í einelti og líka foreldra barnsins sem lagt er í einelti, því meðan þetta heldur svona áfram þá er greinilegt að þeir eru ekki að gera hlutina rétt og ef það er búið að vera í tvö – þrjú ár, þá er það allt of mikið og mun aldrei breytast, alla vega ekki nóg, kannski nóg til að verða þolanlegt en ekki nóg til að verða gott.  Og lítil börn á Íslandi eiga rétt á því eiga GOTT líf ekki bara þolanlegt.
Og hana nú, þá er ég búin með blástur vikunnar og ætla að hafa það notarlegt í góða veðrinu í dag og prófa aftur að selja myndir og kort á markaði hér í bæ, nú ef ég sel ekkert þá er bara ánægjan að vera með Margréti og hitta fullt af fólki bara nóg.
Elskiði lífið og elskiði börnin ykkar meira því þau eru svo dýrmæt.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

09.09.2013 07:42
Kominn tími til að….
að blogga.  Já það er víst næstum 3 vikur síðan síðast en ég hef bara ekki verið í stuði á morgnanna undanfarið þar sem dóttir mín hefur verið með höfuðverk í hálfan mánuð og morgnarnir erfiðastir og ég bara hugsa um það að reyna að koma henni í skólann þrátt fyrir verki en ekki tekist vel.  Við fórum með hana til læknis og hann tók blóð til að tékka á ofnæmi en ekkert komið út úr því, hann ætlaði að sækja um í höfuðskanna en það getur tekið 3 vikur og á meðan skaffaði hann ekki nein verkjalyf svo við erum að reyna að búa okkur til kokteila sem virka en það er alveg sama hvað ég gef henni það virkar ekki neitt.  1 ibufen á móti 2 panodil (eða sambærileg lyf) og það virkar ekki neitt, ég lægi steinrotuð af svona stórum verkjatöfluskammti.  Svo var okkur bent á Treo sem væri það besta og sérstaklega ef þetta væri migreni en það fæst ekki hérna í Noregi, ég veit þó um fólk sem keypti þetta úti í búð í öðrum bæ í Noregi og þá sagði hún í Apotekinu að sú búð keypti það ábyggilega beint frá Svíþjóð og það passar þetta er þar nálægt.  En ég get farið á netið og pantað þetta og nú bíðum við eftir því að fá nokkra pakka af þessum töflum í póstkassann okkar.

Stúlkan var betri um helgina af höfuðverknum og er alltaf betri eftir hádegi og nú bíð ég bara til að sjá hvort hún geti farið í skólann en ég er reyndar búin að segja að hún verði því hún getur að sjálfsögðu ekki verið heima viku eftir viku þrátt fyrir höfuðverk.  En mikið vildi ég að þetta væri ég sem væri með þennan mikla höfuðverk.  Mikið reynir það á mann að barnið manns er að kveljast og við getum ekkert gert, ég reyni að nudda, ég reyni að athuga hvað hún hafi borðað og ég reyni að athuga hvað hún svaf mikið osfrv. Ég er að reyna og reyna og vitiði ég er svo þreytt á kvöldin þó mér finnist ég ekki hafa verið að gera neitt allan daginn nema bara vinna mína eðlilegu vinnu.  Ég held að taugakerfið í mér þoli ekki svona álag, svo nú bið ég til Guðs að þetta fari að ná enda svo barnið fái hvíld frá verkjum og taugakerfið mitt frá áhyggjum.
Þetta er sem sagt skýringin á því að ég hef ekki bloggað.

Og þá er spurning hvort það sé eitthvað til að blogga um………………  já það eru kosninga í Noregi í dag.  Í dag á mánudegi, það finnst mér skrítið því við erum vön að það sé á laugardögum heima, svo fjölskyldan geti saman klætt sig upp og farið á kjörstað, því það er ákveðið hátíð þegar kjósa má fólk til að stýra landinu sínu eða sveitarfélagi.  En hér er það á mánudegi og ekki leyfilegt að selja bjór í búðum þennan dag.  Ha?  Já þar kemur líklega forræðishyggjan að verki, því ekki viljum við að fólk sé drukkið að kjósa svo ekki má selja bjór og áfengi nema á vínveitingarstöðum.  Skiptir mig svo sem engu máli enda er ekki frí í dag svo af hverju ætti ég að vera að kaupa mér bjór eða af hverju hefði ég þá bara ekki keypt hann á laugardaginn?  En annað með vínveitingarstaði hér í Noregi.  Þeir mega ekki selja 2falda drykki.  Bara 1falda og hana nú, en þú mátt alveg kaupa 2 x 1faldan.  Fyndið en skiptir mig heldur engu máli þar sem ég kaupi ekki svona drykki á vínveitingarstöðum, kaupi mér helst bjór eða hvítvín.  En já kosningar í Noregi.  Ég skildi ekki hvað þetta fólk sem var að afhenda mér miða á torginu í Kristianssand fyrir nokkrum vikum var að gera, en þá áttaði Mirran sig á því að það væri kosningar.  OK, hugsaði ég og sá svo ekkert eða heyrði neitt meira af því en um helgina áttaði ég mig á því að það hlytu að vera kosningar í nánd því sjónvarpið er stútfullt af svoleiðis efni þessa dagana og enn og aftur líður mér svo vel því ég veit ekkert hver er við stjórnvölinn og veit ekkert hvernig hann hefur staðið sig og veit ekkert hver væri kannski betur fallinn til að taka við.  Ég er ekkert að segja að maður eigi ekki að fylgjast með, því jú auðvitað á maður að gera það en ég hef ekki kosningarétt hérna og  var orðin svo þreytt á pólitíkinni heima á Íslandi að ég gæti ekki hugsað mér að detta í að skilja hana hérna líka.  Er að verða búin að kúpla mig út úr íslenskri pólitík og ætla ekki að vera komin inní þá Norsku strax, kannski næst.  Vona bara að allir kjósi rétt í dag.  Spurning með liti, hef ekki alveg áttað mig á hvort það séu þeir sömu og við þekkjum.  Þarf kannski að fara að skoða þetta út frá því. Litum og þó ég elski grænan lit þá er hann ekki minn pólitíski litur.  Og þó hver veit nema það sé að breytast.
En nú er ný vika að hefjast með von og birtu og ég ætla að vera æðrulaus og reyna að vera kát.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

10.09.2013 07:48
Fór langt út fyrir …..
þægindahringinn minn í gær.  Já í annað sinn á þessu sumri tjallensa ég sjálfa mig og fer út fyrir það sem mér þykir þægilegt.  Fyrra skiptið var að fara í eitthvað fáráðanlegt tívolítæki sem snerist í hringi og fór hátt uppí himininn og ég fæ nettan svima bara við að hugsa um það og nú í seinna skiptið fór ég í DansMix leikfimi alein.
En auðvitað er ég ekki ein í tímunum en ég hafði engan til að tala við eða hlægja með þegar maður gerir vitleysur.  Þannig að ég fór ein og var ein en mikið leið mér betur þegar ein kona kom sem ég veit að er ekki betri en ég í sporunum.  Það er nefnilega allt í lagi að vera skrítinn og ná ekki sporunum þegar maður hefur hækjuna sína en þegar hún er ekki þá verður maður bara feiminn.  Já Kristín Jóna er oft feimin og þjáist að fælni ýmisskonar en oftast nær hún að yfirstíga það og yfirsteig enn eina hindrunina í lífinu í gær.  Jeiiiiiiiiiiiiiii fyrir mér.  Og vitiði hvað?   Ég hafði svo gott af þessu en shit hvað mig verkjar í allan skrokkinn í dag og hnéin eru að drepa mig en samt er þetta bara gott vont og ég svo stolt af sjálfri mér.  Svo ég fer aftur næsta mánudag ekki spurning, hvort sem það vilja einhverjar stelpur koma með mér eða ég fer þá bara ein.

Að vissu leiti vildi ég sýna Mirrunni minni að ef ég gæti farið út fyrir þægindahringinn minn, þá gæti hún það líka.
Dagurinn í gær var erfiður en ég held að við höfum komist að því að hennar höfuðverkur er ekki migreni (bara okkar greining) heldur kvíði og svefnleysi.  Ég fékk einhverjar töflur í gær í heilsubúð sem heita NERV….. og eiga að hjálpa henni að sofa og þegar ég vakti hana í morgun þá var hún í djúpum svefni sem hún hefur ekki verið í lengi og ætlaði ekki að geta vaknað eða opnað augun. Sagðist vera með smá höfuðverk en það var ekkert mál að fá hana í skólann og ég er svo glöð og vona að skólinn nái með sínum aðferðum að hjálpa henni að komast út úr þessari skel sem hún er búin að mynda utanum sig.
Við ætlum samt með hana í höfuðskannan til öryggis, þá vitum við það bara algjörlega að þetta er eða er ekki migreni.
Ég er búin að vera að leita að þessari stelpu undanfarin ár, veit ekki alveg hvert hún fór en vonandi kemur hún aftur fljótlega og þá bara eldri og þroskaðri.
passaðu að detta ekki Myndband með Ástrós Mirru
Það er svo skrítið með mig að allt sem ég geri skringilega finnst mér bara fyndið.  Eins og þegar ég geng svona framaf mér eins og í DansMixinu í gær og get varla gengið, þá er það bæði vegna verkja í skrokknum og eins vegna þess að ég hlæ svo mikið að ég er bara við það að detta.  Og eins og núna í morgun þegar ég steig framúr rúminu þá langaði mig bara að skellihlæja og sérstaklega vegna þess að mér finnst alltaf að þetta sé ekki ég heldur einhver miðaldra kelling sem ég er að horfa á í bíómynd.  Hvað varð um litlu ljóshærðu stelpuna sem hafði akkúrat engar áhyggjur af lífinu og vildi bara leika sér?  Hvenær eltist hún svona mikið og hvað gerðist?  Af hverju gerðist þetta svona hratt?  Ég er eiginlega ákveðin í að fara út að dansa í rigningunni í dag og láta það eftir mér að hoppa í pollana.  Eitt tjallensið í viðbót, það var nefnilega ekkert mál að gera þetta uppí Langásen þar sem ég var í okkar privat garði en núna þarf ég að gera þetta niðrí Sentrum.  Svo við sjáum til hvort það verði bara ekki úr þessu í hádeginu.  Segi frá því næst.
En nú brosi ég bara út að eyrum og held inní daginn, með geggjað kaffi í hendinni og vellíðun í skrokknum. (já eða ekki, það fer eftir því hvernig við lítum á það)
Þangað til næst, ykkar Kristín
ps. hafiði tekið eftir að ég er hætt að skrifa Kristín Jóna undir bloggin mín?  Já það er vegna þess að hér er núna engin önnur Kristín og ég ætla að hætta að kalla mig fullu nafni og verða bara aftur Kristín og svo verð ég kannski bara Stína áður en við vitum af.  Ég er alla vega farin að stefna á það.

 

12.09.2013 07:24
Höfuðverkurinn….
hennar Ástrósar Mirru var þá ekki migreni heldur ofnæmi.  Já takk og ekki besta ofnæmið  sem við gætum hugsað okkur en okkur líður samt eins og svo mörgum öðrum að það er komin greining og þá getum við fundið okkar leið út frá henni.  Hún er með ofnæmi fyrir einhverjum blómum sem ég man ekki hvað heita og blómstra hér í Noregi í apríl – mai (fannst þau ekki skipta máli, hún er ekkert í blómunum) svo er hún með ofnæmi fyrir……….. já haldið ykkur fast, hún er með ofnæmi fyrir HUNDUM og það á háu stigi og að lokum er hún með ofnæmi fyrir ég held hann hljóti að hafa meint fyrir ryki en læknirinn talaði um loft, súrefni, hafa allt hreint og ekkert ryk, ryksuga vel og oft, hrein rúmföt hafa opna glugga þegar hún sefur og viftu í gangi líka, sem sagt passa að hún fái nóg af hreinu lofti.
Og þegar búið er að segja þetta fær maður smá hnút í magann því hvað með Erro og við auðvitað sögðum lækninum að við ættum hund og þá sagði hann að hann myndi þá skaffa henni töflur og sjá hvort það dygði ekki.   Jeiiiiiiiiiiiii Erro þarf ekki að fara og vonandi gengur þetta yfir einhvern tíma eða gerir ofnæmi það aldrei kannski?  Nú veit ég ekki neitt um svona þó hún systir mín og fleiri í fjölskyldunni minni hafi ofnæmi en þá finnst mér alltaf eins og það hafi aldrei fundist hvaða ofnæmi og hvernig væri hægt að hjálpa þeim með það.

Alla vega erum við alsæl að vita hvað er að.  Og þetta er þá ekki svona mikill kvíði eins og við héldum eða migreni ég held nú að ofnæmi sé skárra en migreni svo Ástrós Mirra fékk að fara í tölvuna í gær (það er slæmt ef þú ert með migreni) og hún fékk sér súkkulaði (ekki fengið það í smá tíma því það er slæmt við migreni) og svo fékk hún kryddaðan mat (sem er ekki góður ef þú ert með migreni) og að lokum gáfum við henni í gærkvöldi svo hún myndi sofa betur smá rauðvín (en það er ekki gott ef þú ert með migreni) Nei djók, hún fékk ekki rauðvín en við erum samt búin að djóka með það að hún hafi þurft að hætta því fyrst hún væri líklega með migreni.  Svo fékk hún líka nýja skó og bol.
En hún fékk ekkert að leika við Erro og hann var ekki að skilja þetta.  Hann mun auðvitað ekkert skilja það að hún megi ekkert vera utaní honum og það er líka spurning hvort hún skilji það eitthvað frekar, þetta er þó hennar hundur en við sjáum til.  Nú alla vega vitum við að það verður betra fyrir hana á morgnanna að fara á fætur og komast af stað til að losna undan hundaofnæminu sem er held ég það sterkasta í henni.  Og já góðar fréttir hún er ekki með ofnæmi fyrir neinum mat. Hjukket því ég kann ekkert að hætta þessum mat og taka eitthvað annað í staðinn.  Kann bara að elda mat eins og hún mamma gerði og eins og hún amma gerði og ekkert vesen. Hveiti í brauði í kökum. Smör og ostur ofaná brauð.  Kartöflur með öllum mat.  Unnar kjötvörur og óunnar kjötvörur í bland og oft súpa og stundum fiskur en ekki nógu oft og þá bara soðinn því hitt finnst okkur ekkert sérstaklega gott.
Svo nú hefst nýr kafli í okkar lífi, líf með ofnæmi.
Og já kallinn var sendur aftur til Drammen í gær, verkefnið þar er að fara til fjandast af því að hann og Frank komu ekki aftur.  Þeir virðast og fá vonandi góða umbun fyrir núna vera bestu smiðirnir sem þetta fyrirtæki er að leigja og vinna mun betur en hinir.  Skilst að um daginn þegar þeir þurftu að fara þangað aftur, þá hafi þeir gert á 3 dögum ákveðið verkefni sem hinir 5 áttu að gera sambærilegt á viku en þeir eru ekki enn búnir með það.  Já mér finnst ekkert skrítið að Þráinn og Frank séu vinsælir ef þetta er raunin.  Tveir menn í 3 daga eða 5 í ja alla vega meira en viku.  Og svo er verkstjórinn þarna að fara í frí frá verkinu ókláruðu.  Held að hann sé að fara að sækja sér konu sem hann pantaði úr katalog.  Skrítið svoleiðis, þeir voru að fara tveir saman.
Já svo við mæðgur og Nói og Erru erum aftur án húsbóndans í nokkra daga og eins gott að ekkert varð úr helgarferðinni sem við ætluðum að plana þessa helgina.
Svo vorum við að skrá ÁM í fermingarfræðslu og hún fer þá eina helgi til Svíþjóðar með krökkum víðs vegar af skandinavíu og þá þarf sú helgi að vera sú sama og við vorum búin að bóka bústað og ferð með Arnfinn og Julie til Danmerkur.  En Arnfinn ætlar að athuga með að breyta þeirri um viku og við vonum það besta, annars vonum við að hægt sé að fá okkar part endurgreiddan því það er svo fúlt að borga tugi þúsunda ísk. fyrir ferð sem við komumst ekki í.

En þangað til næst, ykkar Kristín

 

14.09.2013 09:17
Ofnæmi….
orðið segir sig sjálft að vera með ofurnæmi fyrir einhverju.  Þessa vikuna hef ekki hugsað um neitt nema ofurnæmi dótturinnar fyrir hundum og óhreinu lofti (og já einhverju blómi líka sem ég náði ekki nafninu á) og skrítið að hún kom ekki jákvæð út með ofnæmi fyrir loðkanínum en ef hún tekur eina svoleiðis í fangið þá bólgna upp á henni augun og hún endar ælandi eftir smá stund.  En svo getur líka verið að það sé ekki lengur þar sem við höfum forðast loðkanínur eins og heitan eldinn í nokkur ár.
En hún er sem sagt með ofnæmi fyrir hundum og ég er búin að læra það að ofnæmi kemur ekki fram fyrr en eftir að þú ferð að umgangast það sem þú færð ofnæmi fyrir.  Þannig að hún gæti ekki greinst með ofnæmi fyrir kirkislöngum því hún hefur aldrei komið nálægt neinni.  En ef hún myndi fá sé kirkislöngu þá gæti hún fengið ofnæmi fyrir henni seinna.  Já svo þannig er það.

Þetta meikar alveg sens.  Svo er annað sem sagt er með ofnæmi fyrir dýrum og það er að það eru ekki hárin beint sem þú hefur ofnæmi fyrir heldur munnvatnið og það er að sjálfsögðu í hárunum en ég myndi nú halda að þá einmitt ætti hún frekar að hafa fengið kattaofnæmi því kötturinn er að sleikja á sér alla daga en hundurinn ekki, hann þrífur bara á sér punginn og búið.  Nú skil ég vel orðatiltækið kattþrifinn, því ef ég væri hundþrifinn þá ætti ég að skammast mín.  En ok, Mirran er með hundaofnæmi og það er leiðinlegt en vonandi náum við að láta henni líða vel án þess að láta hundinn fara.  Við erum með alls konar breytingar í gangi eins og að setja inn hjá henni “Luftrenser” eða lofthreinstæki, keypti í gær eitthvað svakalegt tæki sem ég vona að virki vel og rétt.  Svo er búið að þrífa og skipta á rúmi og meira að segja kaupa nýtt til að hafa eitthvað gaman út úr þessu og svo er búið að þrífa hundinn, og kemba hann og að lokum fengum við ábendingu að hafa alltaf herbergið hennar lokað og láta hana hátta sig frammi þannig að fötin sem hún er í á daginn og kemur nálægt hundinum fari ekki í svefnherbergið hennar.  Svo vonandi virkar þetta vel.
En aftur að pælingum með ofnæmi, ætli enginn sé með ofnæmi fyrir fólki, hvað er öðruvísi við okkur en dýrin, við erum með hár og munnvatn en erum kannski ekki að sleikja okkur og þó, maður sleikir nú á sér puttana ef eitthvað fer á þá og sleikir út um stundum svo jú við erum líklega með munnvatn utan á okkur og ég man þegar Mirran var lítil þá sleikti ég hana stundum en sem betur fer er hún ekki með ofnæmi fyrir mér, alla vega ekki eitthvað sem kemur með greiningu en kannski og líklega mjög eðlilega er hún með annars konar ofnæmi fyrir mér og það er bara þetta samband 13 ára stelpu og fornaldar móður sem gæti orsakað það.  Ha ha ha.

Ég þarf að muna að spyrja mömmu einhvern daginn hvort ég hafi verið svona, því ég get ómögulega munað eftir því, mig minnir að mér hafi alltaf fundið mamma bara fín og skemmtileg.  En ætli minnið sé bara að stríða mér?  Það er stóra spurningin.  Ég reyndar man voða lítið, ég hef fengið mjög lítinn harðan disk úthlutaðan í upphafi því ég þarf að henda út einhverju gömlu til að koma fyrir öllu því nýja sem ég þarf að geyma í minninu, en vinnsluminni hef ég ágætt en það þyrfti nú stundum að defreikmenta það því það er ekki allt í réttri röð en það er þarna og stundum þarf bara tvo hringi um íbúðina til að muna hvað ég ætlaði að gera.  Getur þetta kannski verið eitthvað sem maður getur fengið greiningu á?  Það er nú í tísku og ég hef ekki löglega greiningu á neinu en ansi smeik um nokkur atriði.  Ég er til dæmis alveg örugglega með skerta rýmisgreind, það er nú nánast staðfest.  Svo er ég með eitthvað sem ég kann ekki að nefna en það er spegilgreindin, hún er ekki til hjá mér og ef ég ætti að krulla á mér hárið þá brenni ég mig bara því ég færi alltaf krullujárnið í vitlausa átt.  Og rúlla með bursta til að krulla það snýst í marga hringi í höndunum á mér áður en ég skil í hvaða átt ég á að snúa burstanum til að rúlla inn.  Þetta er sama og ég upplifi í DansMixinu ég get ekki horft á kennarann í speglinum því þá fer ég í vitlausa átt og sé stundum ekki hvaða spor hún er að gera.  Eins gott að ég er ekki hárgreiðslukona.  Þriðja sem ég ætti að hafa greiningu á er Turett ekkert alvarlegt en ég er alltaf með lappirnar á fleigiferð líka þegar ég fer að sofa og ef ég sit í stól og ekki á löppunum á mér þá hoppast þær til og frá eins og þeim sé borgað fyrir það.  Ég var með fjörkipp í auganu í nokkur ár en það lagaðist.  Svo er ég líklega komin með áunninn athyglisbrest og farin að sjá illa, heyra illa og ég svo svarið það að þegar þetta er komið svona niður á blað þá undrar mig að ég skuli ekki vera komin á örorku fyrir langa löngu.
En ég held að mikið af greiningum í dag, sé bara mismunurinn á okkur öllum og það sem gerir mennina svo skemmtilega og ólíka.  Mikið væri nú lífið leiðinlegt ef við hefðum enga fjölbreytni í mannlífinu.  Ég held að ef ég hefði ekki þessa fötlun til dæmis þá væri minna að hlægja að og nú má fólk ekki misskilja mig að ég veit að það er til fólk sem á mjög erfitt með sínar fatlanir ég er ekkert að gera lítið úr þeim, meira bara þjóðfélaginu sem virðist ekki tekið því að allir eru ekki eins og ef einhver er öðruvísi þá þarf hann helst að fá vottorð frá Greiningarstöð ríkisins fyrir því.  ég held að við séum svo upptekin í lífinu að mig megum ekki einu sinni vera að því að leyfa fólki að vera mismunandi.  Það er nefnilega miklu erfiðara, það er til dæmis líklega skýringin á því af hverju það er ekki hlaupið upp til handa og fóta og óskað eftir greiningum þegar einhver er td. með athyglisbrest og vanvirkni.  Nei því það barn er nefnilega svo stillt og prútt þarna aftast í bekknum og þorir ekki að tala og er ekki fyrir neinum.  En væri það með athyglisbrest og ofvirkni þá fer allt í gang því það má enginn vera að því að finna verkefni við hæfi þess barns.  Þau börn sem ég þekki sem eru með ofvirkni eða á mörkunum skv. greiningum sem foreldrar voru beðnir að fara með barnið í (þar sem það var svo fyrirferðamikið) eru öll með mjög háa greindarvísitölu og mín skoðun er sú að þau séu ofvirk því þau vantar verkefni við hæfi.  Ef barn er búið með verkefnið í skólanum á 10 mín, sem annað barn er í 30 mín að leysa þá auðvitað fer barnið sem er búið með sitt að verða órólegt í skólastofunni því hver nennir að sitja og stara út í loftið verkefnalaus.  Stundum held ég (og haldið ykkur fast) að getuskipting í bekkjum hafi verið betri en það sem er í dag.  Ég sagði stundum held ég því stundum held ég það ekki, það fer bara eftir því hver á í hlut því enginn vill eiga barn í tossabekknum en ef getuskipting er þá eru einhverjir sem lenda þar en æi ég veit ekki, stundum bulla ég svo mikið að held ekki reiður á því sjálf.

Alla vega gæti ég skipt um skoðun á morgun og það er í lagi, því það er eitt af því sem er svo frábært í þessu lífi og það er að maður má skipta um skoðun.
Og nú er ég hætt að bulla í dag.
Ætla að standa við það og fara út í rigninguna og kaupa mér ný stígvél svo ég verði ekki vot þegar ég hoppa í pollana í dag, því það rignir í Mandal og ég er ekki að vinna svo rigningin verður ekki búin þegar ég er kemst út.
Þangað til næst, Ykkar Kristín

 

17.09.2013 07:43
Það var aldrei að það kæmi ……
ekki eitthvað gott út úr því að dóttirin væri með ofnæmi.  Við hjónin erum skv. læknisráði búin að mega kaupa hér inn alls konar græjur á heimilið sem við annars hefðum ekki gert.  Ástæðan er sú að gera heimilið hreinna án of mikillar fyrirhafnar svo dóttirin geti sofið í hreinu lofti og vaknað höfuðverkjalaus.
Hún er nú búin að vakna höfuðverkjalaus í 3 daga og vonandi er þetta sá 4 og það er bara ótrúlega góð tilfinning að vekja barnið sitt og það herpir ekki saman augun og stynur af kvölum heldur er bara eins og venjulegur unglingur sem vill sofa áfram af því að unglingar vilja bara sofa og sofa, ekki á kvöldin heldur bara á morgnanna.  Hvaða árátta er það?
Jæja aftur að græjunum………..  sko ég fékk að fara á föstudaginn að kaupa “Luftrenserinn” og sko ég þurfti að fara í næsta þorp til þess, því engin svona græja er til á lager í Mandal.  Við Ástrós Mirra skelltum okkur í bíltúr til Lyngdal og keyptum smotterí í Jysk og fundum svo Expert eftir ítarlegar leiðbeiningar stelpnanna í Jysk.  Þær teiknuðu þetta upp fyrir okkur og útskýrðu mjög vel en samt villtumst við og vorum komnar út úr bænum áður en við vissum af.  En stelpurnar í Jysk spurðu hvort ég þekkti mig eitthvað í bænum og ég sagði nei, því ég veit bara um einn stað og fannst nú óþarfi að segja það.  Svo þegar við Ástrós Mirra vorum búnar að villast út úr bænum þá fann Geirþrúður þessa búð fyrir okkur og það var nú aldeilis fínt og ég hefði getað sparað okkur ýmislegt ef ég hefði sagt stepunum í Jysk að ég vissi hvar skattstofan er, því Expert er þarnæsta hús þar við.  Og hana nú.  Við búnar að finna búðina og sjáum að við erum í gjaldskyldu stæði en ég sé bara hvergi hvar á að borga í stæðið svo við ákveðum bara að vera snöggar að þessu sem voru auðvitað mistök því þar með byrjaði ég að svitna um leið og ég kom inn í búðina og afgreiðslumaðurinn að afgreiða aðra konu svo ég ætla nú bara að redda mér snöggt og vel og finn eitthvað sem gæti verið luftrenser en nei nei þá var ég í rakatækjadeildinni og það er nú allt annað en luftrenser.  Eitt slíkt tæki var til í búðinni og ég er allan tímann sem hann er að sýna mér þetta tæki að líta til gluggans að athuga hvort stöðumælavörðurinn sé að koma að sekta okkur, hef ábyggilega litið mjög flóttalega út fyrir þennan afgreiðslumann en það gerir ekkert til því við komum úr öðrum bæ.  Jæja tækið keypt og við heim, glaðar og ánægðar og eins og ég segi aðalmálið er að það virkar.

En þetta er nóg til að láta dömunni líða vel, það VERÐUR að kaupa robot ryksugu líka og ekkert ódýrustu týpuna því hún er ekki nógu mikil græja til að ráða við hunda- og kattahár.  Ég var búin að sjá eina í Expert í Mandal og lét taka hana frá fyrir okkur svo Þráinn gæti skoðað hana eftir helgina og svo fór hann í gær að skoða (en var búinn að gleyma að ég hefði látið taka frá) þannig að honum vorum bara sýndar ryksugur sem voru ekki nógu góðar en ég spurði hvort þessi sem ég hefði látið taka frá væri ekki nógu mikið tryllitæki……… úps ég gleymdi því svo hann skrapp aftur, þetta er reyndar alveg í 2 mín. göngufæri.  Jú jú kemur ekki minn maður heim með tryllitækið og gærdagurinn fór í að kynna Robotinn fyrir íbúðinni okkar.  Og það var vel af hárum sem komu í hann Robba sem ætlar að vera hér áfram hjá okkur sem heimilishjálp.

Gaman gaman fyrir tækjaóða fólkið.
En það er ekki allt búið enn.  Því það uppgötvaðist (sumt ertu ekki að spá í ef það skiptir ekki máli) að hundurinn labbar voða mikið undir þvottagrindina okkar og jafnvel virðist vera að klóra sér með þvottinum og það gengur að sjáfsögðu ekki því fötin hennar Ástrósar Mirru eru jafnt á þessari þvottagrind sem og okkar ásamt handklæðum og fleiru.
Nú þarf að gera eitthvað traktískt á baðinu fyrir þvottinn, það er nokkuð ljóst, því ég ætla ekki að vera með þvottagrindina inní svefniherbergi hjá okkur og geta ekki gengið framhjá rúminu mínu.  Svo Þráinn var sendur aftur út, eins gott að hann átti frí í gær.  Og til baka kom hann með þessa fínu græju sem er svona grind sem hægt er að hífa upp og setja niður meðan hengt er á hana og híft svo upp meðan þvotturinn er að þorna og er því aldrei fyrir neinum og enginn hundur að nudda sér í þvottinn.

Jeiiiiiiiiiiiiiiii, gaman gaman fyrir tækjaóða fólkið.
Og ég var nú búin að hrósa því hvað það væri frábært að læknisþjónustan kostaði ekki neitt og lyfin hennar Ástrósar heldur en ætli ég fái þetta eitthvað endurgreitt sem lækniskostnað 🙂 .
6000 nkr. kostaðu herlegheitin öll sömul, sem er 10 sinnum meira en borðsstofusettið okkar og 20 sinnum meira en sófasettið ef við setjum þetta í samhengi við eitthvað annað.  Og já sama og húsaleigan hjá okkur á mánuði svo við erum búin að þurfa að blæða en það vonandi virkar og virkar vel.  Ég veit alla vega að Robbi og Snolli verða alltaf vel nýttir hvað sem á bjátar og ég get þá bara eytt meiri tíma í sjálfa mig og minni í að ryksuga eða þannig en ætli ég muni ekki eyða jafn miklum tíma vikulega í að bera Robba milli herbergja og ég eyddi í að ryksuga því ég er ekkert með ryksugubarkann fastann við lærið á mér.
En gaman gaman hjá tækjaóða fólkinu þessa vikuna og nóg að lesa því það voru tveir manualar sem komu í hús þessa vikuna, and we read the fuck…. manual þegar við kaupum okkur tæki.
Og já 3 nýjir fjölskyldumeðlimir Viktor, Robbi og Snolli, velkomnir á Store Elvegate 55.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

21.09.2013 10:37
Af prinsum og prinsessum…..
Maður er nú ekkert hissa að 3ja ára barn haldi að þau séu þá með kórónu og í skikkjum.  Þannig er það í ævintýrunum en það eru til prinsar og prinsessur í alvörunni í dag og þau eru bara venjulegt fólk eins og ég og þú.  Til dæmis hún Mette Marit hún er héðað af þessu svæði, fædd og uppalin í Kristianssan, ósköp venjuleg stelpa sem varð skotin í strák sem á pabba sem er KÓNGUR.
En alla vega þá komu þau krónprinsparið í heimsókn hingað til Mandal og nágrannabæjanna og áttu að því er virtist góðar stundir hér.
Norðmenn bera mikla virðingu fyrir kóngafólkinu sínu enda eins og þeir segja er hann kóngur fólksins og þau krónprinsparið eru þá fyrir fólkið og það er gott.  Annars finnst mér kóngur og drottning vera mikil tímaskekkja en það virðist virka eða hvað virkar?  Ég hef ekki hugmynd um hvað þau gera fyrir norskt þjóðfélag en ég hlýt að læra það einn daginn.
En aftur að því að hér er búinn að vera viðbúnaður í nokkra daga fyrir komu þeirra.  Öll börn í bænum áttu að mæta fyrr í skólann til að allir gætu verið komnir niður í bæ og búnir að raða sér upp meðfram brúnni og fyrir framan Buen kulturhus.  Allir með fána og jafnvel í betri fötum í skólanum og leikskólanum þennan daginn.
Ég ákvað að fara uppá fjall og ná öðruvísi myndum og meira myndum af öllum börnunum og af bænum að taka á móti krónprinsparinu í staðinn fyrir að fá einhverja andlitsmynd af þeim.
Það var góð ákvörðun því uppí á fjalli hitti ég eldri mann og áttum við mikið og gott spjall um lífið og tilveruna, Mandal og Noreg og alls konar mállískur og fleira skemmtilegt.
Honum fannst ég tala mjög góða norsku og það er svo gott að fá hrós því það hvetur mann áfram.  Ég átti reyndar mjög auðvelt með að skilja þennan mann á móts við marga aðra, svo ég spái í hvort það sé aldurinn, hvort ég eigi bara betra með að skilja eldra fólk.  Ætli það taki betur utan um orðin en unga fólkið?  Það er svoleiðis á Íslandi og því ekki hér líka.
En meðan við biðum gátum við séð hvernig smá saman fjölgaði fólkinu í bænum og það var þokuslæðingur þegar ég kom uppá fjall en svo fór sólin að skína og svo kom rigning þannig að þetta var nú pínu íslenskt nema það var alltaf logn.  Eða sko á minn mælikvarða því gamli maðurinn sagði að konan hans kvartaði yfir því hvað það væri alltaf mikið rok hérna.  What!  Hér er alltaf logn á okkar mælikvarða svo ég veit ekki hvaðan þessi kona kemur ef það er meira logn þaðan en hér.  Það þarf nú að hreyfast loftið svo maður fái súrefni inn og þess háttar.
En þetta var mikið gaman og þó ég hafi enga sérstaka aðdáun á kóngafólki eða almennt frægu fólku þá var gaman að fylgjast með þessu og minnti þetta mig svolítið á þegar frú Vigdís forseti var að ferðast um landið þegar ég var yngri og þá var alveg hafður viðbúnaður í bænum og vel tekið á móti henni.
En hér kemur smá myndasaga frá þessum morgni.

Og á miðvikudaginn fórum við á svona foreldra/börn skólaviðburð sem átti að vera til þess að þjappa börnunum meira saman og láta þau kynnast (en virkaði frekar leiðinlegur leikur á mig) og við foreldrar að ræða hvernig getum við haft áhrif á það hvort börnunum þyki gaman í skólanum og þess háttar.  Ég hitti þarna 5 manneskjur sem við töluðum við og gætum talað við aftur.  Það var til dæmis gaman að hitta pabba stelpnanna þeirra Delinu og Saron og ég bauð mig fram í undirbúning að vorhittingnum þeirra.  Það verður bara gaman.
Hérna eru nokkrar myndir frá þeim hittingi.

 

23.09.2013 07:32
Góð helgi….
já við áttum góða helgi og gerðum margt og fjölbreytilegt.  Það byrjaði á laugardagsmorguninn að ég og Ástrós Mirra fórum í Kristianssand að hitta Hallfríði sem var búin að ráða mig sem ljósmyndara í verkefni sem fyrirtækið sem hún vinnur hjá var með á torginu ásamt fleiri fyrirtækjum.  Þetta var svona tækni/vísindatjöld sem voru þarna og voru tæknifyrirtæki að kynna hátækni í ýmsum efnum.  Krakkar gátu fengið að prófa og gera alls konar hluti sem eru einfaldir en samt ákveðin tækni á bak við það.
Fyrirtækið sem Hallfríður vinnur hjá Nito var með þemað Vatn og var verið að gera alls konar tilraunir með vatn.  Búa til fullkomnar sápukúlur, athuga hvað margir vatnsdropar komast fyrir á fimmeyringi, setja vatn í glas og pappaspjald undir og snúa því svo við og uppgötva að spjaldið dettur ekki, búa til ís úr vatni og maisenamjöli (og sjálfsagt einhverju fleiru, ég kann ekki uppskriftina) og svo voru nokkrar skemmtilegar þrautir hjá þeim líka.  En aðamálið var Hallfríður með sínar sápukúlur fyrir utan tjaldið.  En málið er að þau vilja helst ekki andlitsmyndir því það mega þau ekki nota í markaðefni þar sem við vitum ekki hvaða börn þetta eru osfrv.  Þannig að ég var að einbeita mér að höndum og fótum og jafnvel sápukúlu í forgrunni og manneskjuna í bakgrunninn.
Þetta var voða skemmtilegt og svo fórum við Mirran og Sunna dóttir Hallfríðar á McDonalds og fengum okkur smá næringu. Síðan fór Sunna í sunnudagaskólann og á Skoppu og Skrítlu með bróður sínum en við Mirran skelltum okkur heim til að slaka á þar sem við ætluðum svo í heimsókn til Hallfríðar um kvöldið.
Svo um kvöldið skelltum við Fjóla okkur í heimsókn til Hallfríðar og hittum þar hana Olgu sem ég hafði aldrei hitt.  Ástrós Mirra og Sunna voru bara að gera það sem þeim þykir skemmtilegt, þe. spila leiki í tölvunni og já Sunna á bassa og Ástrós Mirra fékk smá bassabakteríu sem við foreldrarnir erum alveg tilbúin að láta eftir henni, mér finnst mjög kúl að spila á bassa og öll áhugamál eru vel þegin á þessu heimili. Já og ég átti frábært kvöld með þessum konum, mikið gaman að sitja bara að kjafta frá sér allt vit svona eina kvöldstund.
Svo í gær fórum við hjónakornin með Erro í langan göngutúr um Odderøya í Kristianssand og það endaði með að taka nánast allan daginn, við lögðum af stað af heiman milli tólf og eitt og komum heim að verða hálfsex og bara beint að elda sunnudagslambalærisneiðar ala Þráinn.
Þetta var mjög skemmtilegur staður að labba um, mikið af stríðminjum þarna og fallegur staður líka.  Eigum eftir að koma þangað aftur því við fórum ekki niður að vitanum og skoðuðum ekki listagallerýin sem eru þarna, svo það verður gert næst.
En þarna inní miðjum skógi á þessari eyju fer maður allt í einu að finna vöfflulykt og þarna eru hjón sem baka og selja vöfflur og kaffi og það er ekkert smá notarlegt eftir svona göngur.  En Þráinn var bara með kort og þau taka ekki kort svo kallinn sagði við Þráinn að hann yrði samt að fá vöfflur og kaffi.  Já sæll hann ætlaði bara að gefa okkur þetta af því að við vorum ekki með pening en svo var ég auðvitað með pening á mér að greiddi með glöðu gleði fyrir þessar vöfflur og ofan á okkar vöfflur setti maðurinn tvo afgangsbita og sagði að það væri handa hundinum.  Krúttlegt svo Erro fékk líka vöfflur í boði vertsins.  Svo vandaðist nú málið, bíddu við vöfflur og enginn rjómi, enginn sykur eða síróp.  Hvað gerir Kristín Jóna þá?  Jújú hún lætur sig hafa það að setja sultu ofan á sína vöfflu og sem betur fer var ekki bara jarðaberjasulta þarna heldur einnig bringuberja og ég vissi þar sem ég hef smakkað jógúrt með bringuberjum að þau væru bara allt í lagi svo ég skellti bringuberjasultu á mína vöfflu á borðaði með góðri lyst.

Svo héldum við áfram og kláruðum hringinn þarna, og það var vel þreytt kona sem settist inní bíl í lokin enda búin að ganga á stígvélunum alla leiðina en sko það var rigning í Mandal og ég ætlaði nú ekki að klikka á skóbúnaðinum eina ferðina enn, sem ég gerði samt.  Get ekki fundið út rétta skótauið hérna í göngutúrum.
En flott er ég í appelsínugulum kjól og bláum stígvélum með græna úlpu á handleggnum.

Þangað til næst,
Ykkar Kristín

 

30.09.2013 08:17
Úps heil vika….
og ekkert blogg frá mér, sorrý.  Nóg var að gera og bara frábær vika sem er liðin og vonandi jafn frábær vika framundan.
Það ríkti stríðsástand í Mandal á þriðjudaginn sl. þar sem verið var að æfa hryðjuverkaárás á Hesterøya sem er aðaltorgið okkar hérna og mikið setið úti og djammað á sumrin.  Hljómsveitir að spila nánast hvert einasta kvöld og ábyggilega þúsund manns stundum á pínulitlu torgi svo ekki veitir af að æfa hvernig á að bregðast við þegar eitthvað slæmt kemur fyrir.  Ég læddist út með myndavélina mína og tók myndir utan frá og það var alveg aksjón þar líka en þó sjálfsagt verið meiri aksjón inní torginu.
Hér koma mínar myndir frá þessum atburði.

Jæja á miðvikudaginn skrapp ég í Lovísulundinn og hitti þar mömmu Lovísu og auðvitað Lovísu sjálfa og krakkana.  Erro naut sín vel þar eins og venjulega nema í þetta sinn lét ég hann vera bara úti og ekki í bandi, fannst hann hafa komið nógu oft til að það væri hægt, svo var ég bara að kjafta inni og fattaði allt í einu að hann væri einn úti og fór að kalla í hann og enginn kom, úff nú er hann týndur eða búið að keyra yfir hann því hann hefur ekkert vit á að passa sig á bílunum sem keyra þarna framhjá á allt of miklum hraða.  En svo kom kallinn hlaupandi rennandi blautur og hafði þá verið niðri við vatnið að stríða svönunum.  Gaman hjá honum og notarlegt kaffi hjá mér.  Ég átti nú von á að hitta Hildi mömmu Lovísu aftur þar sem hún er að stoppa í 10 daga en ég held hún fari heim á morgun og tíminn er bara floginn frá manni eins og alltaf en ég náði þó að hitta hana og fá hana til að gera mér greiða, “Of course” þe. taka þrenn pör af skóm með sér heim fyrir mig. Takk fyrir það Hildur.

Síðan á fimmtudaginn þá fékk ég frábærar systur í myndatöku og við borðuðum svo saman öll fjölskyldan og höfðum það mjög kósí.  Myndatakan tókst mjög vel og stelpurnar voru frábærar og Argus hundurinn þeirra stóð sig bara ágætlega en hann er orðinn ansi þreyttur og gamall og átti smá erfitt með þetta allt.
Mikið gaman að mynda þessar stelpur og gaman að kynnast þessari fjölskyldu.
Jæja svo heldur vikan áfram og það er kominn föstudagur og Ástrós Mirra er að fara til Svíþjóðar í fermingarfræðslu og hún er eini krakkinn sem kemur frá þessu svæði og þurfti því að fljúga ein frá Kristianssand til Osló en það gekk auðvitað mjög vel og hún var fljót að finna hópinn á Oslóarflugvelli, svo fóru þau með rútu til Svíþjóðar og voru þar alla helgina og mikið gaman og hellingur sem þau lærðu bæði í Kristnifræði og eins bara siðfræði og mannleg samskipti.
Það er mikið búið að gera grín að mér vegna þessa flugferðar dótturinnar en ég stóð mig mjög vel og hékk ekki á vinstri vængnum þegar vélin tók á loft en ég sko við lögðum bílnum fyrir utan til að sjá þegar vélin færi og á loft og já Þráinn var eiginlega verri en ég við að kveðja, því ég var búin að vera að hamast svo við að vera sterk en þetta er bara í fyrsta sinn sem dóttir okkar fer ein með flugi, fyrsta sinn sem hún er heila helgi með ókunnugu fólki sem við höfum aldrei séð eða hitt svo það er bara talsvert að innbyrða og svo er hún bara ennþá 12 ára þó margir ábyggilega halda að hún sé eldri.  En eins og ég sagði, hún skemmti sér vel og lærði mikið og við áttum kósí helgi bara tvö ein sem hefur ekki gerst í laaaaaaaaaangan tíma.

Þegar við vorum að keyra hana á flugvöllinn saup ég hveljur báðar leiðir því veðrið var svo fallegt og mikil stilla og æðislegt eins og það er oft snemma á morgnanna svo ég ákvað að ég ætlaði að vakna snemma á laugarsdagsmorguninn til að fara og taka myndir í morgunstillunni.  Svo vakna ég og úps það ekki svona mikið logn og blíða eins og í deginum áður svo ég er pínu svekkt en ákveð samt að fara og þegar ég keyri af stað sé ég að áin er aðeins gárótt en ég ákvað bara að taka þrífót og filter og ég myndi þá taka svoleiðis myndir í staðinn.  Á staðinn sem ég var búin að ákveða að fara ætlaði ég og hananú.
Svo legg ég bílnum og byrja að klöngrast meðfram vegriðinu því þetta er vík við E39 og í einni hættulegustu beygjunni hér í Vest-Agder svo ég labba bakvið vegriðið svo hvorki verði keyrt á mig eða ég valdi því að bílar fari útaf og þegar ég sé svo víkina á milli trjána þá bara Váááá það var algjör stilla þar og ég þurfti hvorki þrífót né að taka á tíma það var bara fallegtast eins og það var.

Svo sneri ég mér við og tók í hina áttina.

Svo keyrði ég smá hring í áttina að Holum og þá sá ég þetta.

Og svo þetta.

Svo ég held það sé á hreinu að ég lifi í málverki, þetta gerist nú ekki fallegra og haustlitirnir alveg að detta sterkir inn í náttúruna og ekki er það slæmt.  Elska haustið eins og ég elska vorið.  Haustið með allri sinni dásamlegu litadýrð og oft svo miklar og fallegar stillur þegar fer aðeins að kólna og þá get ég farið að ganga aftur í lopapeysunum mínum eftir sumarið.  Svo elska ég vorið þegar allt er að vakna og lífið er svo dásamlegt með svo mikla von og aðra fegurð.  Sumarið er svo líka frábær tími en veturinn sístur á minn mælikvarða.
Svo dreif ég mig í búð og keypti með kaffinu handa mér og eiginmanninum sem trúlega var vaknaður heima og já keypti mér hárlit líka, því við hjónin vorum búin að ákveða að ég skyldi breyta til á laugardeginum.  Þráinn hefði nú getað sett facebook status á laugardaginn, vaknaði með ljóshærða konu mér við hlið en sofnaði hjá einni rauðhærðri.  Já hann litaði á mér hárið rautt og nú er ég að tala um dökkrautt, ekki svona ljósrautt eins og ég hef verið áður og vitiði, ég kann bara vel við þetta í bili alla vega.  Svo þegar ég verð þreytt að þurfa að vera dökkhærð og gáfuð alla daga þá lita ég það bara aftur ljóst.  🙂

Jæja í gær var svo farið í heimsókn til vina í Kristianssand þeirra Jóhanns sem var með mér í barnaskóla (mér finnst alveg yndislegt að vera að kynnast gömlum skólabróður aftur og gaman að hitta nýtt fólk en eiga samt gamlar minningar með því) og Önnu Sofíu sem eru búin að vera í Kristianssand í hálft ár og þau eru bara strax að spá í að kaupa sér hús og koma sér vel fyrir.  Við fengum íslenskar pönnukökur með rjóma og sultu og jarðaberjum, nammi namm nei djók ég fékk mér auðvitað pönnukökur með sykri og rjóma.  Ég breytist nú ekki svona hratt.  Áttum yndislega stund hjá þeim sem leið allt of hratt svo við endurtökum þetta bara fljótlega aftur, ekki spurning.  Takk fyrir kaffið, hvítvínið og pönnukökurnar.
Svo var keyrt á flugvöllinn að sækja Mirruna og hún kom glöð og kát eftir helgina sem við kórónuðum með að bjóða henni á McDonalds og svo var farið heim.
Lentum í bílaröð á leiðinni þar sem verið er að vinna í veginum þarna og þeir voru að sprengja og þetta er það sem blasti við út um bílgluggann á meðan, mig dauðlangaði að fara út úr bílnum en þorði það ekki þar sem við vorum á E39 og ég gat ekkert vitað hvernær röðin færi af stað.

Jæja nýr dagur og ný vinnuvika sem ég vona að verði ykkur skemmtileg og njótið lífsins eins og þið getið því það er ekkert hægt að bakka.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

07.10.2013 07:24
Enn og aftur fór ég út fyrir……
þægindarhringinn minn þegar ég ákvað að fara til Sandefjørd þó Þráinn kæmist ekki með vegna vinnu.  Ég er ekki mikið fyrir að keyra og alls ekki langar leiðir sem ég hef ekki keyrt áður.  Ég segist vera lélegur bílstjóri en maðurinn minn tekur ekki undir það enda er ég svo sem ekki að gera neitt að mér í umferðinni, fer eftir öllum reglum og keyri á normalt hraða og kannski aðeins hægar en það en ég segi að ég sé lélegur bílstjóri því mér líður ekki vel að keyra, ég er stíf og spennt í öxlum og horfi bara fram á veginn og get ekki notið útsýnis því ég er að fylgjast með umferðinni fyrir aftan mig og ég er að fylgjast með umferðinni á móti, ég  er að fylgjast með hvernig vegurinn liggur og hvað má keyra hratt og á hvaða hraða er ég.  Þannig að ég er lélegur bílstjóri sem ákvað samt að skreppa til Sandefjørd með Ástrós Mirru og Erro og heimsækja Ingu niðri sem býr þar núna og ég ekki búin að koma að heimsækja þau.  Þá kemur veðurspáin, rigning og meiri rigning og svo alveg grenjandi rigning og ég fæ bara sting í magann því ég hata að keyra í rigningu og hvað þá ef það færi nú að verða eitthvað myrkur með því því þá verð ég alveg blind.  En ég skal og ætla.
Og við mæðgur leggjum af stað uppúr kl. 14 og það rignir og það rignir og það rignir og það hellirignir og það er úrhelli og steypiregn alla leiðina, þoka og dumbungur og bara ömurlegt veður til að keyra og rásirnar í veginum eru fullar af vatni og mjög erfitt ef bíllinn festist ofan í þeim og það er ekki séns að ég ætli að keyra á 90 – 100 km hraða í þessari færð.  3.5 klukkutími í akstri í þessum aðstæðum er ekki skemmtilegt en við komumst á leiðarenda og fundum fallega húsið sem Inga og þau búa í og eru búin að koma sér svo fallega fyrir þarna á Baldursgötunni í Sandefjørd.
Eftir þennan hræðilega akstur þurfti ég nú bara strax að fá mér hvítvín og sat og sötraði meðan Inga eldaði æðislegan mat handa okkur.  Svo var bara setið og sötrað og kjaftað út í eitt á föstudagskvöldinu en á laugardaginn fengum við egg og beikon í morgun/hádegismat og fórum svo að mynda krakkana úti í garði sem skartaði haustlitunum svo fallega.  Ég held að Mikael Máni verði einhvern daginn stílisti því hann er sko meðatta á hreinu.

Svo fórum við að skoða Sandefjørd og byrjuðum á að skoða garð og hús sem minnir á Risobank hér í Mandal, svona svipuð saga einhver ríkur maður byggði húsið og gaf bænum peninga til uppbyggingar og í dag er húsið í eigu kommúnunnar og er safn og þar er rekið kaffihús á sumrin.
Æðislegt hús með geggjaði aðkomu.

Svo keyrðum við aðeins um bæinn (og sko ég dobblaði Ingu til að keyra svo ég gæti horft út um gluggann) og fórum svo til Kötlu og Ómars sem voru að eignast stelpu fyrir 9 dögum og mig langaði að fá að sjá hjá þeim og auðvitað að taka myndir af litlu dömunni.
Það gekk svona ágætlega, ég ákvað að taka ekki inn ljósið og reyna að nýta bara dagsbirtuna og þetta var hin mesta skemmtun því litla stúlkan lét allt vaða yfir pabba sinn og það með látum, við hlógum svo mikið að ég gat nánast ekki tekið myndir af því.  Og svo kláraðaðist kortið í myndavélinni og ég er alltaf með aukakort með mér svo ég ætla að skipta en úps, það var ekkert kort og ég fattaði svo allt í einu að eitt kortið er í hinni töskunni og hitt kortið er í gömlu myndavélinni, auðvitað svo ég var bara að fara í búð og kaupa nýtt minniskort sem ég og gerði eftir heimsóknina til Kötlu og Ómars.

Jæja svo var farið í mollið í Sandefjørd og við ákváðum svo að skilja krakkana eftir þar, fara heim með bíl og hund og labba niður í bæ og fara bara út að borða saman og við Inga ætluðum að fá okkur bjór og njóta þess að ganga um í 20 stiga hita þann 5. október.  Við skelltum okkur svo á Peppers Pizza og fengum okkur að borða og löbbuðum svo heim og áttum kósístund yfir bíómynd.

Svo kom sunnudagurinn og hugað að heimferð, ég vildi leggja snemma af stað svo ég myndi ekki lenda í myrkri og fórum við bara í smá göngutúr að hitta beljurnar sem eru í bakgarðinum í skólanum þarna.  Ótrúlega krúttlegt að sjá þetta, autt tún á milli skólans og einbýlishúsa og þar eru beljur á beit.  Dásamlegt alveg.  En Erro og þær voru ekki alveg á sömu bylgjulengd því hann urraði bara á beljurnar og forystubeljan kom aðvífandi og lét hann heyra það.  Fyndið.
Og talandi um Erro honum leið óskaplega vel þarna, kom sér í það að sofa uppí hjá mér sem var ekkert leyft af minni hálfu heldur var hann bara uppí þegar ég vaknaði og ýmislegt svona, gat dobblað eitthvað gott út úr Ingu og tróð sér uppí til hennar í sófann og allt.  Svo þegar við fórum út að borða þá skildum við hann auðvitað einan heima og gáfum honum einhvers konar nammibein sem hann var ekki búinn að smakka á þegar við komum og svo fór hann með það uppá loft, við vorum nú ekki að skilja hvað hann væri að gera með beinið uppi og héldum að hann hefði skilið það eftir í herberginu hans Mána en Máni sagði að beinið væri í kassanum hjá viðnum í arininn.  Við reyndar fundum það ekki þar og hættum að spá í þetta svo morguninn eftir þegar Inga kemur á fætur þá kemur hún með beinið niður og hafði þá fundið það þegar hún lagðist uppí rúm og ofan á það.  Þá hafði Erro falið það vel undir sænginni hennar, en það er eitthvað sem hann er ekkert vanur að gera svo við bara hlógum að þessu hátterni hans og gáfum honum þetta fína bein aftur og þá hleypur hann með það út og yfir í næsta garð, kemur svo til baka með drulluskítugt trýnið og er þá búinn að grafa þetta bein í næsta garði.  Þá fóru nú að renna á okkur tvær grímur, kannski var þetta nammibein bara svona vont og hann greyið alltaf að reyna að losa sig við það nógu langt í burtu en við alltaf að henda því til hans aftur.  Lokaniðurstaðan var, beinið fær að vera í næsta garði og kannski smakka kettirnir þar bara á því einhvern daginn.
Jæja við Mirra og Erro lögðum af stað kl 14 og Geirþrúður Pálína stillt á heim og ég bara afslöppuð því það er sól og fallegt veður og upplagt að keyra heim í svona veðri en við erum ekki komin langt þegar ég sé skilti um að það sé lokið við Larvik, ég hringi í Ingu og spyr hvort ég sé að fara að keyra í gegnum Larvik og hún var bara ekki alveg viss og við ákváðum bara að ég færi eins og Geirþrúður vildi að ég færi en þá kom ég bara að lokuðum göngum og þurfti að snúa við til að fara aðra leið út úr Sandefjord.  Það gekk bara vel og við keyrðum þetta í einum beit í 3,5 tíma, Erro var svo rólegur að ég ákvað að vera ekkert að stoppa á leiðinni, bara drífa sig heim í Heiðarkotið og viti menn haldið að við höfum ekki keyrt fyrir framan Þráinn og Frank við Kristianssand þannig að við komum öll heim á sama tíma.
Eggjabrauð og franskar í boði Ástrósar Mirru í kvöldmatinn og svo horft á Alt for Norge sem er einn að fáum þáttum sem við fylgjumst með saman.
Ný vinnuvika að hefjast og ég þarf að koma mér í sturtu og fara að vinna.
Svo þangað til næst,

 

12.10.2013 08:06
Umburðarlyndi….
hvað varð um það?   Ég er allt of oft að sjá og heyra af fólki sem hefur ekkert umburðarlyndi og finnst eins það sé verið að ráðast á sig ef það hreinlega fær einn bækling í póstinum.  Síðasta dæmið er langur þráður á fésbókinni frá einum manni sem ég þekki sem betur fer ekki neitt en last þráðinn óvart og hann er arfavitlaus yfir því að Íslenski söfnuðurinn í Noregi sendi honum póst.  Situr sem sagt allt kvöldið og röflar við aðra íslendinga í Noregi yfir þessari ósvífu sem hellt var yfir hann og takið eftir maðurinn er ekki einu sinni í þjóðkirkjunni og það með varð þessi póstur enn þá alvarlegri.  Eins og það sé ekki bara það einfaldasta í veröldinni að labba með þennan bækling út í tunnu og henda honum og janvel bara glotta smá þegar hann dettur ofaní með hinu ruslinu.  Nei þá skulum við búa til þráð á fésinu í grúbbu sem heitir íslendingar í noregi og drulla yfir þennan íslenska söfnuð í noregi og reyna að koma af stað rifrildi.
Ég fæ hérna Jysk bæklinga, Nille bæklinga og fleiri vikulega.  Vita þessar búðir ekki hvað þetta er hættulegt, þe. að senda mér svona bæklinga. Mig langar auðvitað endalaust að kaupa eitthvað nýtt og gera eitthvað svona og hinsveginn og breyta til og bara……………. en ég tek meðvitaða ákvörðun um að henda þessum bæklingum óséðum í pokann fyrir pappír sem ég hef hér bara tilbúinn niðrí í gangi.  Með því móti get ég nefnilega ef mig vantar eitthvað farið og sótt bækling og kíkt er kannski eitthvað svona á tilboði núna eða hvað.
Ég fæ símtöl hérna með alls kyns gylliboðum sem ég læt stundum plata mig í og stundum bara segi ég að ég hafi ekki áhuga.
Í engu af þessum tilvikum lít ég á þetta sem persónulega árás á mig og mína fjölskyldu, því ég hef komið mér upp ákveðnu umburðarlyndi gagnvart þessari sölumennsku í heiminum.  Ef ég ætlaði að verða reið í hvert sinn sem vottar jehóva banka hjá mér og vilja tala við mig í staðinn fyrir að brosa og segja þeim að ég hafi ekki áhuga því ég geri það ekki en ég virði þetta fólk sem leggur á sig að ganga hús úr húsi til að safna í söfnuðinn sinn.  Hvað svo sem mér finnst um þeirra trú og það kemur þessu bara ekkert við enda vita þau ekkert hver ég er og hvaða skoðanir ég hef.
Sama með betlarana í Kristianssand, ég get alveg haft umburðarlyndi gagnvart þeim og brosað og gengið framhjá þó ég hafi ákveðið að gefa þeim aldrei pening þar sem ég veit að þeir sem þurfa fá samfélagsþjónustu hér Noregi.  En ég þarf ekki að sparka í þau af því að þau eru þarna á götunni sem ég geng.
Nei ég sakna umburðalyndis í fólki nú til dags og hef stundum leitt hugann að því hvort það hafi ekki einmitt verið ömmur mínar sem kenndu mér það.  Hún Stína amma mín var óskaplega umburðarlynd kona og ég hugsa oft til þess tíma þegar hún lá sjúk á Sólvangi í Hafnarfirði með alveg heila hugsun og var sett í herbergi með konu sem öskraði og vældi allan daginn með þá upplifun að allir sem komu inn væru að fara að drepa hana og eitthvað álíka skrítið.  Ég var hjá ömmu minni í klukkutíma og var að fá taugaáfall og spurði ömmu hvort hún vildi ekki að við reyndum að fá hana flutta á aðra stofu því þetta hlyti að vera erfitt að búa við en þá sagði amma:  Elsku konan er svo veik og líður svo illa.  Þetta er umburðarlyndi sem við megum öll taka okkur stundum til fyrirmyndar.  Blessuð sé minning hennar elsku Stínu ömmu sem ég sakna oft þó langt sé síðan hún fór.

Og það að þykja gaman að gera eitthvað fyrir annað fólk er að verða hverfandi finnst mér líka.  Ég er til dæmis þannig gerð enda nafna hennar ömmu minnar og alin upp hjá hinni ömmu minni að mér finnst gaman að elda góðan mat og gefa öðrum að borða hann.  Reyndar vil ég auðvitað líka hrós í staðinn svo kannski er ég bara sjálfhverf ég veit ekki.  Ég er líka þannig að ef ég fer uppí skáp að fá mér súkkulaði, þá spyr ég alltaf hina í fjölskyldunni hvort þeir vilji ekki líka súkkulaði, þannig að ég er að deila með mér og færi þeim síðan sitt súkkulaði þar sem þau eru.  Ég hef líka gaman að því að reyna að láta öðrum líða vel í kringum mig, ef til dæmis kallinn er með verki í fótum þá á ég það til að bjóða honum og koma þær í fangið á mér og ég nudda á honum fæturna, eða bakið ef því ber að skipta.  Ég er ekkert að segja að ég geri það daglega en ég á þett til og þegar ég veit að manninum líður betur þá líður mér vel.
Ég segi oft:  Viltu að ég geri þetta?  Á ég ekki bara að …..
Þetta finnst mér vera hverfandi líka og finnst eins og allir vilji bara hugsa um sjálfa sig og ekkert meir.  Ég reyndar veit að ég hef aðeins dregið úr þessu því á tímabili gerði of mikið af þessu og það bitnaði á sjálfri mér en það má ekki hætta, því það er svo yndislegt að finna að einhver vilji gera eitthvað fyrir mann og það gefur manni svo mikið að vita að það er einhver tilbúinn að leggja eitthvað á sig svo mér líði betur.  Þetta finnst mér farið að vanta svolítið í kringum okkur.
Ég var til dæmis í algjöru dekri um síðustu helgi hjá henni Ingu vinkonu og það er svo ljúft svona af og til að þurfa ekki að gera neitt nema vera skemmtileg og sæt.
Og nú sit ég hér á laugardagsmorgni með kaffibollann sem eiginmaðurinn færði mér, datt í það að skoða gamlar myndir af fólki sem mér þykir vænt og sólin er byrjuð að skína og ég veit að þetta verður dásamlegur dagur með fjölskyldumessu í Kristianssand, góðum gestum í mat í kvöld.
Eigiði góða helgi elsku vinir og reynið að vera umburðarlynd, því það kostar svo lítið.
Ykkar Kristín

 

14.10.2013 09:36
En god helg….
já við áttum góða helgi með fullt af fólki og gerðum nokkuð nýtt, við fórum í barna- og fjölskyldumessu í Kristianssand, þar kynntumst við nýju fólki þeim hjónum sem sjá um messuna Margrét heitir konan og er djákni og rótarinn hennar er eiginmaður hennar en ég er því miður búin að gleyma hvað hann heitir.  Þau búa í Portsgrunn held ég það heiti sem er aðeins áður en maður kemur til Sandefjord.
Ekki var nú margt um manninn þarna en óskaplega notarlegt og við gátum talað saman og sungið saman og hlustað á sögur úr biblíunni. Þarna voru aðeins 3 fjölskyldur sem ég þekkti áður svo þetta var ósköp notarleg stund.  Við reyndar byrjuðum á að hitta Lovísu og krakkana á MCdonald og fengum okkur hamborgara í hádeginu, og fórum svo í messuna.  Svo sátum við eftir messu og kjöftuðum saman og kynntumst og áttum góða stund til kl. 16, krakkarnir lituðu og horfðu á Ipad og gerðu það sem þeim finnst gaman.
Eftir messu fórum við Ástrós Mirra heim þar sem Þráinn var búinn að setja lærið í ofninn þar sem við áttum von á Margréti og Jóni í mat.  Ég fór strax í það að leggja á borð og gera sósuna og finna til meðlætið en ég var ekki tilbúin með matinn þegar gestirnir komu og það er alveg nýtt.  En við sátum með gestunum í stofunni meðan lærið varð tilbúið í ofninum.
Áttum kósíkvöld saman, lærið smakkaðist mjög vel þó það væri norskt en það hefur líklega verið með dindil því ég hef heyrt að dindillinn gerir kjötið betra, langar samt að prófa að smakka lambalæri þar sem ég veit að lambið hafði rófu en ekki dindil bara til að vita það sjálf en líklega stendur það aldrei á pakkningunni.   Fengum okkur ís með vanillusósu og nú er ég komin með æði í þessa vanillusósu norðmanna.  Sátum svo og hlustuðum á tónlist og svo kom með hugmynd að leik fyrir okkur að gera en hann er þannig að þú lendir inná einhverjum stað í heiminum og átt að reyna að finna út hvar þú ert.  Snilldarleikur og að sjálfsögðu unnum við stelpurnar enda fram úr hófi snjallar.
Í gær var svo bara kósídagur fram yfir hádegi en þá skruppum við Þráinn að heimsækja Olgu og Frikka í Søgne og hittum þar fyrir Höddu og Frikka, mikið gaman og mikið spjallað.  Ástrós Mirra var heima því hún er búin að vera lasin undanfarið og við vildum að hún næði því úr sé áður en kæmi að mánudegi og skóla.
Það er svo skondið að fara með Erro uppá fjall eins og við erum að gera nánast daglega núna, ég sleppi honum lausum þegar við erum komin í skóginn ef ég sé að það er enginn annar þarna og hann er svooooooo glaður og hleypur af stað og upp upp upp og svo til baka, stoppar og horfir og ég les alveg úr honum, hva!  ertu ekki að koma kona?  Og svona er hann þarna uppi, hleypur en kemur alltaf strax til baka til að skoða hvort ég sé ekki að koma og hvort þetta sé ekki rétta leiðin.  Mjög krúttlegur þarna.

Svo er Nói kóngur sem er svo fyndinn, hann vaknar núna alltaf fyrir 5 og er farinn á stjá þegar Þráinn vaknar kl. 5 og hann fer út með Þráni og Erro á morgnanna, svo þegar ég fer á fætur um kl. 7 og er búin að vera stússa smá stund á fótum, kveiki ljós fær mér kaffi oþh. þá heyri ég allt í einu mjálmað og kíki út í port og þar situr hann og mjálmar og ég segi “Viltu koma inn?” og þá mjálmar hann á móti og ég segi þá “Komdu þá” og loka glugganum og þá hleypur hann af stað og er yfirleitt kominn eða alveg að koma þegar ég er loksins komin niður og opna dyrnar.  Ég sé að fólk sem er að borða á veitingarstaðnum á móti brosir út í annað þegar það sér hann enda kóngurinn að koma heim.

Jæja nú er þriðjudagsmorgun og bara rólegheitavika framundan, þe. engin plön og ég elska svoleiðis vikur, þar sem ég má gera það sem mér sýnist þegar mér sýnist og engu bundin (nema vinnunni að sjálfsögðu).
Spurning að taka göngutúr í …. já ég hef alveg gleymt að segja ykkur frá veðrinu en það er bara skýjað og smá rigning alla daga hérna núna og hitinn ekki nema 6 stig á morgnanna en fer uppí 14 yfir daginn en það er samt næðingur og kalt.  Held að loksins sé veðrið betra á íslandi 🙂  en já göngutúrinn, hann er ætlaður til að fara að taka myndir af framrþróun og náttúru en ég er með einn stað í huga og það er smá göngutúr þangað en já kannski dagurinn í dag sé bara góður til þess.
Mér alla vega líður þannig núna.
Svo eigið góða vinnuviku elsku vinir og munið að vera alltaf góð hvert við annað og horfa fram á veginn en ekki afturá bak.

Ykkar Kristín Jóna

 

22.10.2013 11:15
ég er ekki að standa mig nógu vel….
í blogginu en nógu er samt frá að segja.
Síðasta vika var nú bara frekar venjulega í vinnunni hjá mér, Þráinn að vinna mikið og Ástrós Mirra í skólanum.  En svo brugðum við Lovísa okkur í betri fötin og skruppum til Danmerkur að versla í matinn fyrir heimilin okkar á laugardaginn.  Þetta er heilmikið prósess að fara svona ferð en samt svo auðvelt.  Erfiði prósessinn er að vakna kl. hálf sex (nú held ég að eiginmaðurinn hlægi að mér því vaknar kl. 5 alla daga)  vera komin inn í Kristianssand kl. 7 og taka ferjuna kl. 8, þetta kallar á smá átök en síðan er tíminn í ferjunni bara lúxus og gæti verið hvíld eða bara tvær konur að kjafta og kjafta og gefa hinum ekkert færi á hvíld eða þannig.  Þrír tímar og 15 mín. og svo auðvitað klukkutími fyrr í biðröð með bílinn og korter á eftir til að komast út úr skipinu þannig að ferðatíminn er alveg 5 tímar með öllu.  Svo á eftir að keyra til Álaborgar í Bilka sem er aðalbúðin að versla í.  Rosalega stór og fín búð og hún er í molli svo það er hægt að taka önnur innkaup með þessu.
Það var nú pínulítið fyndið að innkaupalistinn hjá okkur Lovísu var næstum því eins nema ég var með hunda- og kattamat líka.
Við gengum þarna um og skoðuðum besta verðið og stúderuðum þetta allt saman, keyptum sitthvora stútfullu körfuna, kaffipakkarnir mínir áttu það til að vilja fara úr kerrunni en þeir komu síðastir inn.  En þetta tók okkur alveg tvo klukkutíma að finna það sem við vildum og koma því í bílinn og þá vorum við hreinlega uppgefnar og fengum okkur góðan kaffibolla og já þá sáum við að við vorum í Danmörku því það eru ekki margir í mollinu að drekka kaffi um miðjan daginn, nei nei það er bara bjór í glasi hjá flest öllum enda kaffihúsin bara með vélar sem ýtt er á takka á til að selja kaffið, lítið lagt uppúr því.  Ætli það sé eitthvað öðruvísi í DK með að drekka og keyra bíl en í öðrum löndum.  Einhvern veginn trúi ég ekki að allt þetta fólk hafi verið á leigubíl, humm?  En alla vega það er greinilega óskaplega ólíkur kúltúr í Danmörku og Noregi og ég valdi greinilega landið sem hentar mér betur þó mér þyki gott að fá eitt og eitt hvítvínsglas.
En ég þarf samt að sjá meira af Danmörku heldur en þennan part sem ég er búin að sjá svo ég geti nú dæmt landið svo ekki taka mig alltof alvarlega frekar en fyrri daginn.
Jæja tvær kellur komnar með tvær fullar kerrur og fara út í bíl að ganga frá í kælipokana og raða þannig að gott verður að ganga frá þessu heima og þá kemur fjölskylda labbandi framhjá okkur og maðurinn horfir á okkur og brosir og segir svo:  Já það er ódýrt að versla í Danmörku, hann sá það greinilega að við vorum Norðmenn eða þannig, úff ef hann hefði vitað að við værum íslendingar í noregi þá hefði hann sko alveg skilið þetta. 🙂

Svo fórum við í einhverja Halloween búð sem var frekar döpur og enduðum aftur í mollinu og þá fékk ég nú hringingu og boð í afmæli daginn eftir svo við gátum kíkt og verslað smá afmælisgjöf  líka.
Purusteikin og nammið var svo keypt í ferjunni því við vorum auðvitað búnar að sjá að þar var það ódýrara.
Jæja svo keyrðum við (eða sko Lovísa) aftur til Hirsthals og kíktum á kjötkaupmanninn þar og fórum svo að fá okkur að borða á virkilega góðum og ódýrum veitingarstað sem er þarna.  Sátum þar og ég geyspaði og geyspaði eins og mér væri borgað fyrir það.
Svo tók við sigling heim og ég var komin heim til mín kl. 2 um nóttina og þá átti eftir að ganga frá öllu, og ein alveg búin á því en með fulla frystikistu og nægan mat.
En já ég gleymi nú alveg að segja frá því að á föstudaginn var stelpupartý hjá Mirrunni og ég fékk að dobbla stelpurnar í myndatöku.  Rosalega fallegar og flottar stelpur þessar vinkonur hennar en þær eru báðar frá Eretríu og nýbúar hér eins og við.

Jæja svo á sunnudaginn fórum við eftir að búið var að klára að ganga frá öllu í matarboð í Kristianssand til Jóhanns og Önnu Sofíu en hann varð einmitt fimmtugur um daginn og þetta var að því tilefni.  Þar kynntumst við fjölskyldu frá Arendal þannig að eins og Jóhann sagði, þarna mættust austur og vestur heima hjá honum.
Frábært matarboð með frábæru fólki (engin mynd tekin þarna) æðislegur matur og góður endir á helginni.
Svo var bara venjulegur mánudagur í gær en í dag verður það óvenjulega að ég fer til tannlæknis og svo ætlum við að hittast nokkrar stelpur í kvöld
Svo þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

24.10.2013 08:08
Dagur 1 á fjallinu
Ég ákvað í gær að taka núna næstu 31 dag, mynd á dag uppi á fjallinu okkar Erro’s  hann hlýtur að vera ánægður með þessa ákvörðun mína, því það táknar að hann fái að fara út og hlaupa með mér í hádeginu alla daga næsta mánuðinn.
Ég ætla að fylgjast með hvernig bærinn breytist frá hausti í vetur og sjá hvernig litirnir hverfa og allt verður kannski meira að segja hvítt.  Spennandi.  Kannski ég taki svona aftur í apríl á næsta ári, þegar vorið fer að detta inn.
Annars er þetta búin að vera fín vika, fór út á kaffihús með stelpunum á þriðjudagskvöldið og við fórum á Provianten veitingarstað sem ég hafði ekki komið inná en vá hvað hann er flottur og í mínum anda.  Þarna er líka potterí eða leirlistaverkstæði, kaffibrennsla og frekar nútímalegt uppsett í aðalsalnum en svo þegar þú kemur bakvið þá er þar eins og þú sért komin í gamalt hús á bryggjunni einhvers staðar.  Veggirnir eru eldgamlir og hafa líklega verið fluttir einhvers staðar frá.  Geggjað en dýrt.  Þegar maður vinnur svona heima eins og ég þá er voða gott að hitta vinkonurnar og geta kjaftað eitt kvöld, það er bara ákveðin útrás sem ég fæ við það.  Takk stelpur fyrir notarlegt kvöld.  Þurfum að gera þetta alla vega einu sinni í mánuði og þá látum við okkur bara nægja kaffi.
Svo skrapp ég til tannlæknis sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema hann kenndi mér að bursta í mér í tennurnar.  Ég hef burstað tennurnar allt of fast og hratt og er að bursta of mikið í góminn og á góðri leið með að ýta honum uppfyrir rót á tönnunum og farin að bursta rótina.  What!  Mér hefur alltaf verið sagt að bursta vel í góminn til að styrkja hann en þá er ég bara farin að gera vitleysur.  Ég sé alveg að það er farið að sjást í rót á einum stað svo þetta er líklega alveg rétt hjá honum Agli.  Já tannlæknirinn minn er íslenskur og heitir Egill.  Já og tannlæknirinn okkar heima á íslandi heitir líka Egill.  Hvað er það? Svo heitir tannlæknirinn hennar Lovísu heima á íslandi líka Egill og það er ekki sami, þannig að ef þið viljið að sonur ykkar verði tannlæknir þá skulið þið skíra hann Egill því eykur líkurnar talsvert að hann verði tannlæknir, því Egill er nú ekki svo algengt nafn en 3 þeirra eru tannlæknar.  Fyndið.
Jæja nú breytist svo tíminn hjá okkur um helgina og það verður talsvert gott, finnst alltaf frekar óþægilegt að halda góðum kontakt við Íslendinga þegar er tveggja tíma mismunur en það tekst þó en ég er oftast ein á morgnanna og farin að sofa þegar þið eruð að ganga frá eftir matinn svo…………..   það verður betra núna.
En jæja kæru vinir lítið af röfli í dag enda lífið bara ljúft þessa dagana og ég er að plana eitthvað sniðugt að gera um helgina, já ætlum líklega í bíó að sjá Two guns í leikstjórn Baltasars en hún verður frumsýnd hér annað kvöld.  Hlakka til því ég hef bara heyrt frábæra hluti af þessari mynd.
En svona var þá dagur 1 á fjallinu.

Þangað til næst, ykkar Kristín

 

25.10.2013 07:34
Að eiga hund og kött…..
er stundum bara fyndið, sérstaklega núorðið, það var það ekkert fyrir einu ári og ég get alveg sagt ykkur kæru vinir að allar ráðleggingar fólks um hvað það er erfitt að ala upp hund náðu ekki mínum eyrum því það er sko alveg helv. erfitt og ég vona að enginn hvolpur fái mig til að gleyma því.  En þó það hafi tekið á að venja og kenna honum Erro góða og gilda siði þá er hann í dag oft ansi skemmtilegur og fyndinn.  Og ekki er kötturinn leiðinlegri.
Í gær til dæmis þá fór Ástrós Mirra aðeins með Erro að pissa áður en hún fór í skólann og Nói vildi fara út líka og ég beið bara í dyrunum og horfði á þau en hafði ekki tekið eftir því að Nói elti þau og þegar þau komu labbandi til baka þá er það Ástrós Mirra í miðjunni með Erro á vinstri hlið og hver kemur svo skokkandi með þeim hægra megin, nú enginn annar en kóngurinn sjálfur, voðalega ánægður með morgungönguna í félagsskapnum.  Vildi að ég hefði náð mynd af þessu, því þetta var sko ekta kodakmóment.
En svo í gærkvöldi þegar ég var að hafa mig til í rúmið þá fer Erro að fylgjast með og elta mig fram og til baka því hann getur ekki legið kjurr þegar einhver er að stússa, svo er ég búin að koma mér fyrir, ætlaði að horfa á netflix í tölvunni uppí rúmi (nútíma bókarlestur) þar sem ég hef enga skemmtilega bók að lesa, er bara með eitthvað dót á kindlinum, finnst svo erfitt að finna góða bækur á ensku, því ég les aðallega íslenskar bækur eftir skandinavíuhöfunda en ég þarf greinilega að fara að gera þetta markvisst og leita að bók til að setja í kindilinn en ekki bara þegar ég er byrjuð að lesa og þessi bókin búin að reyna þá að finna eitthvað snöggt.  En já þetta var útúrdúr og ég er að koma mér fyrir uppí rúmi og halla hurðinni alveg og segi við Erro að hann eigi að vera frammi hjá Þráni og svo er ég komin uppí og sé þá að hurðin opnast alveg bara pínulítið og ég lít á hana og sé þá bara eitt trýni og tvö augu horfa svo aumingjalega á mig af því að hann fékk ekki að vera inni hjá mér.  Svo krúttlegur og ég skellihló alveg, fór framúr og stýrði hundinum inní stofu og sagði honum að leggjast þar.  Ég leggst aftur uppí og heyri þá svona eitthvað eins og hurð hreyfist og kíki á svefnherbergishurðina og hasta á Erro sem líklega er að reyna að koma inn aftur en hún er alveg kjurr og enginn Erro að reyna að komast inn en þá rek ég augun í að skáphurðin er að opnast smá og lokast alltaf aftur.  Virkilega spúkí og draugalegt en ég mundi að skápurinn hafði verið opinn fyrr um kvöldið og ég lokaði honum áðan og hvað?  Jú jú auðvitað hafði kóngurinn fundið sér góðan dimman stað í friði fyrir hundinum uppí skáp ofan á pilsunum mínum og fengið sér blund en þarna var hann vaknaður og tilbúinn til hreyfingar en gat ekki opnað skápinn nema að hluta, svo ég opnaði hann og hleypti honum út og skellihló aftur.  Já þessir snillingar á mínu heimili eru engum líkir.
Annars var dagurinn bara þægilegur í vinnu og á fjallinu okkar Erro en það var dagur 2 í gær og hávaðarok á mælikvarða þeirra sem hér búa, en reyndar alveg rok á minn mælikvarða, veit ekki hvort mælikvarðinn minn er að breytast eða hvað, vildi að ég gæti tekið ljósmynd af laufunum að fjúka, hefur ekki tekist það ennþá og er alltaf að reyna að ná rigningarmyndum þessa dagana því þemað er regn en það rignir ekki þegar ég er úti og laufin fjúka ekki þegar ég er með myndavélina.

Helgin verður frábær, við ætlum til KRS á kínverskan veitingarstað og fá okkur að borða og skella okkur svo í bíó í Buen á Two Guns um kvöldið og njóta þess svo að labba heim.
Þangað til næst, Ykkar Kristín
ps. munið að elska lífið og njóta þess.

 

28.10.2013 07:32
og þá er nóvember bara að detta inn
mikið líður nú tíminn hratt, við erum búin að búa hérna í þessari íbúð í rúmlega ár og ætlum ekkert að flytja okkur, enda með eindæmum gott að búa hér fyrir utan að það vantar smá garð, það er það eina.  Núna erum við að fá nýja eldavél því þessi gamla er gömul og ég elda ekki alveg eins góðan mat hérna en annars staðar og bakað get ég varla.  Ég má bara fara og kaupa eldavélina og fæ hana svo eldurgreidda frá eigandanum.  Næs.  Svo er það alltaf hér að ef maður lætur senda heim, þá koma mennirnir og taka gömlu eldavélina þegar þeir eru búnir að koma þeirri nýju fyrir. Næs.  Það er sem sagt meira sem fylgir því að fá sent heim en heima á Íslandi.

Við áttum fína helgi, fórum á skrall á föstudaginn og pöbbarönt í fyrsta skipti í mörg ár, bara við tvö hjónin en hittum svo tvo íslendinga á röltinu.
Laugardagurinn í leti frameftir og svo ætluðum við að koma okkur af stað til Kristianssand og fara á kínverskan veitingarstað þar en þá nennti Mirran ekki og þetta átti að vera gert sérstaklega fyrir hana svo við slepptum því bara.  En ég skoðaði matseðilinn þar og þar kosta réttirnir ca. 115 kr. meðan þeir kosta 140 – 170 hér og það er nú ekki alveg í lagi.  Já svo við hjónin skruppum bara uppá fjall og keyptum okkur pizzu á leiðinni heim, sem endaði svo með að einungis ég borðaði en það er var víst bara enginn svona svangur nema ég.  En svo var farið í bíó um kvöldið að sjá nýju myndina hans Baltasars Kormáks og hún er æðisleg og mæli ég með því að fólk skreppi bara í bíó til að sjá hana.  Góð tilbreyting.

Svo kom sunnudagurinn og þá var nú aðeins tekið til hendinni ég tók baðherbergið í gegn og Þráinn eldhúsið eða aðallega eldavélina.  Þar sem við erum að fá  nýja fljótlega er ég ekki tilbúin að skila þeirri gömlu af mér skítugri.  Svo fékk Þráinn sms frá eigandanum í gær og þar sagði hann að við ættum bara að láta henda þessari gömlu.    Ha ha ha og Þráinn búinn að þrífa hana svo vel.  En hin er nú svo sem ekkert komin svo við njótum þess bara að vera hreina og fallega gamla eldavél þar til.

Nú svo fórum við eftir hádegið á bílnum og keyrðum bara út í buskann og eina takmarkið var að finna flöt til að leyfa Erro að elta bolta, hann bað um það sjálfur með því að stelast niður í gang þegar við sáum ekki til og kom upp með svartan poka með hundabolta í.  Við ákváðum að skilja þetta þannig að hann vildi út í boltaleik.
Við tókum tvo afleggjara sem við vissum ekkert hvert lægju og báðir lágu bara að smá byggð inní skógi eða út við á og báðir svona faldir og vegirnir ekki þannig að mig myndi langa til að keyra þá á veturna.

Svo er ég mjög spennt núna, því ég fæ víst gjöf frá dótturinni í dag þegar hún kemur heim úr skólanum, hún er búin að vera að búa til kaffibolla handa mér í Kunst og handverk og ég er mjög spennt að fá hann.  Ætla að fá gott kaffi í bollann og horfa á hana í einhverjum tölvuleik í dag, það er eitthvað sem hún þarf að sýna mér. 🙂

Svo er bara talsvert mikið um að vera í vikunni hjá okkur, Indverskt kvöld á miðvikudaginn hjá Margreti Annie, Sameiginlegur Halloween dagur hjá okkur, Margreti og Lovísu og þeirra fjölskyldum og við erum að vera búin að hugsa upp búninga fyrir okkur.  En það er einn galli á þeim degi…. við eigum að mæta í foreldraviðtal í skólanum í miðjum matartíma en við ætlum bara að mæta þangað í búningum og eiga gott spjall við kennarana.
Sem “By the way” voru að hrósa Ástrós Mirru á föstudaginn fyrir hvað hún væri öll að koma til og orðin opnari í skólanum og farin oftar að rétta upp hönd því hún viti svarið oþh.   Ekkert smá góðar fréttir fyrir okkur og hún er öll miklu jákvæðari og líður greinilega betur.  Vonandi að það séu aðgerðir fjölskyldunnar gegn ofnæminu sem hafa virkað svona vel.

Þetta blogg er myndskreytt með myndum af fjallinu okkar Erro en við erum búin að fara þangað uppá 4 daga í röð, slepptum sunnudeginum því þá vorum að elta bolta og bíltúr.  Hittum reyndar hesta og Erro ætlaði nú eitthvað að derra sig við þá.

Enduðum sunnudaginn á góðum mat og misheppnuðum eftirrétt.  Ég get ekki búið til súkkulaðibúðing hérna út, hvar er gamli góði Royal?

En kósí inni, með kertaljós og eld í arninum og það gerði svoleiðis hellirigningu að ég varð að mynda hana.
Svo þangað til næst, Ykkar Kristín

 

29.10.2013 07:20
Tímaflakkið…
Mikið er nú gott að það er farið að birta kl. 7 núna en gerði það ekki í síðustu viku, því þá var klukkan 7 þegar hún var 6 og ennþá meiri nótt.  En líkaminn minn er ekki alveg búinn að fatta þetta því hann er orðinn syfjaður kl. 21 í stað 22 og tilbúinn að vakna kl. 6 sem mér finnst nú ekki alveg í lagi.  En það tekur kannski viku að jafna sig og þá er maður orðinn innstilltur á vetrartímann.

En það er eitt í þessu tali um að stilla klukkuna sem mér hugnast ekki og það er ef Íslendingar breyta henni því mér skilst að þeir vilji breyta henni þannig að tímamunurinn verði enn meiri á milli okkar og það hugnast mér alls ekki vegna minnar eigin eigingirni.  Það er nógu erfitt að hafa 2 tíma á sumrin og ef þeir yrðu kannski 3 á veturnar í staðinn fyrir 1.  Annars veit ég ekkert um þetta klukkumál á Íslandi en skildist í gær að það væri verið að koma einu sinni enn með þingályktunartillögu um þetta.  Sjáum til hvað kemur út úr því, ekki kvíða að óþörfu.  En sko ef munurinn færi í hina áttina þá yrði ég miklu sáttari, þar sem ég er morgunmanneskja og ef það að vakna snemma á morgnanna hér í Noregi þýddi að ég væri að vakna að morgni á Íslandi myndi henta betur, því ég er eini og mesti morgunhaninn í minni ætt svo þá yrðum við kannski öll á sama róli.  Ha ha ha
En það er í alvörunni talsverður munur að vakna í birtu og sofna í myrkri.  Ekki sofna í birtu og vakna í myrkri, það er bara ekki heppilegt fyrir líkamsklukkuna.

Fólk finnur svo mikið fyrir þessu þegar það flýgur til Ameríku hvað 4 daga ferð þangað er í miklu rugli því svefninn og líkamsklukkan eru lengur að jafna sig en 2 – 3 daga.  Þar erum við kannski að tala um 4 – 6 tíma í mismun.
En það kemur í ljós hvað þeir gera heima á Íslandi, þessi umræða hefur svosem komið upp áður og ekkert komið út úr henni.  Ég er samt orðin svo gömul að ég man eftir því þegar við vorum að breyta klukkunni og líklega mín klukka sem ég breytti einu sinni, mér fannst þetta mjög merkilegt þá en það var árið 1968 sem þetta var gert í síðasta sinn.
Jæja nú gerðumst við eins og alvöru Norðmenn og erum búin að panta vorfríið okkar og ætlum við að bjóða stúlkunni okkar til London.  Höfum einhvern veginn alveg misst af því undanfarin vetrarfrí og vorfrí að gera eitthvað þar sem við ætlum alltaf að ákveða okkur svo seint.  En núna skal hafður fyrirvari á og London here we come í mars 2014.
Ástrós Mirru hlakkar mikið til þar sem hún elskar allt sem breskt er og vonandi verður þetta geggjuð ferð hjá okkur. Fengum ódýra gistingu á litlu hóteli sem er samt alveg við Covern Garden og 800 metra frá OxfordStreet og 15 mín gang frá Eye of London.  Ég held að staðsetningin verði varla betri.  Svo ætlum við að panta okkur miða á leiksýningu sem við eigum þó eftir að ákveða nánar hver verður en nóg er af þeim þarna líka og allar í nágrenni við okkur.  Meira að segja ég er orðin spennt strax.  Vorið verður sem sagt æðislegt hjá okkur.  Ég nefnilega elska London.  Hún er nefnilega engin stórborg og svo margt svo fallegt að skoða þar og gaman vera að þvælast um.

Já svo er halloween núna á fimmtudaginn og við ætlum að borða saman 3 fjölskyldur og vera í búningum og ég held ég verði bara engill, gengur það ekki alveg upp.  Ætla að gera Þráinn að kryppling og Ástrós Mirra verður svona Emokrakki.  Þá þurfum við ekki að kaupa neitt dót (ég hef alltaf verið nísk að kaupa svona búningardót fyrir einn dag og svo ofan í kassa og kannski aldrei notað aftur).  En þetta er alla vega planið sjáum til hvort það breytist eitthvað.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

06.11.2013 08:11
Er ekki tími tilkominn að …..
blogga, það er bara farið að vera ansi sjaldan hjá mér núorðið og ég bara gleymi mér í vinnu og öðrum efnum en nú skal bætt úr því.  Því þetta hefur sko verið brjáluð vika í félagslífinu og öðrum hlutum.
Á miðvikudaginn sl. fórum við Ástrós Mirra á indverskt kvöld hjá Margréti Annie sem var haldið til styrktar Englum Indlands sem er hjálparstarfið sem hún er með.  Það var ein sem vinnur með henni sem baust til að halda þetta fyrir hana og það fannst henni auðvitað æðislegt, en sú sama var búin að segja að hún ætlaði að elda matinn og bjóða uppá vín með og Margrét þáði það auðvitað.
En svo fór að líða að þessu þá sagðist hún ekki geta séð um allan matinn sjálf og Margrét sagði það allt í lagi enda hafði hún alltaf ætlað að elda og kaupa matinn sjálf.  Svo leið nær og þá sagðist hin ekki geta keypt vínið, en Margrét sagði að þá yrði ekkert vín, því hún drekkur ekki og bíður ekki uppá vín í sínum boðum og þá kom nú smá babb í bátinn því þessi kona sagði að þær væru sko nokkrar úr vinnunni sem ætluðu að koma snemma til að fá sér í glas.  Já einmitt en þetta er svona stryrktarkvöldverður sem ég er að bjóða í og þá verða þær bara að koma með vínið sitt sjálfar sagði Margrét.  Svo ekkert meira með það.  Svo mætum við þarna og þá er frúin með mat og vín.  What!  og Margrét líka með mat og ég verð að viðurkenna að þessi kona tók vel á móti fólkinu, bauð vín og bauð til sætis þar til í ljós kom að hún hafði líka boðið nágrönnum sínum í matinn en lét þau ekki borga… bíddu þetta er kvöldverður sem þú borgar þig inná þar sem þetta er til styrktar hjálparstarfi, Úff sumir að borga og aðrir ekki það er óþægilegt. Svo fóru að koma fleiri nágrannar inn og þá tók Margrét af skarið að sagði þeim að það kostaði inn og þá fóru þeir bara út aftur.  Gott hjá henni.
En jæja eftir smá stund fer kella (sú sem átti heima þarna) að biðja mig að hræra í pottunum sínum sem var auðvitað bara allt í lagi og svo sýndi hún mér uppþvottavélina sem var líka allt í lagi, auðvitað gat ég alveg hjálpað til, þetta var nú vinkona mín sem var með þetta og minnsta sem ég gæti gert var að aðstoða eitthvað.  En svo fór hún að biðja Ástrós Mirru að sjá um að hella víni í glösin…………what!  Hún er 12 ára gömul og á ekki að sjá um að hella víni í glösin hjá fullorðnu fólki og Ástrós Mirra sagði bara nej og þá fór konan að tala ensku við hana og Ástrós Mirra segir Jeg snakker norsk, þú þarft ekkert að vera að tala ensku við mig.  Oh, sagði konan þá og spurði aftur hvort hún vildi sjá um að hella víni í glösin og Ástrós Mirra sagði aftur nei og þá skipti konan aftur yfir í ensku.  Hún sem sagt hélt það að barnið skyldi ekki beiðnina fyrst hún sagði nei.
En ég var stolt af minni, auðvitað á hún ekki að sjá um hella víni í glösin, frekar leggja hnífapör á borð ef það vantaði.  En Mirran mín skaut gneistum yfir þessari konu og sérstaklega því að hún skyldi alltaf fara að tala ensku við sig.  Svo komumst við nú að því seinna að þessi kona er sænsk og talar bara sænsku svo það skýrði af hverju ég skyldi ekkert sem hún sagði og giskaði bara.  Já svo vildi hún að ég kryddaði matinn betur og ég ákvað nú að smakka fyrst og þetta var sko vel kryddað svo ég sagði henni það, þetta vær bara fínt og sterkt eftirbragð. En maturinn var góður og allar aðrar konur þarna ótrúlega flottar og skemmtilegar og aðalatriðið var að Margrét safnaði yfir 6.200 nkr. sem dugir henni til að byggja skólastofu fyrir börnin sín í Indlandi.  Gaman að taka þátt í svona og sjá hvað margt smátt getur gert stóra hluti sérstaklega í fátæku löndunum.

Svo kom fimmtudagurinn og þá er Halloween í Noregi eins og fleiri stöðum í heiminum, en Halloween er ekki upprunnið í Ameríku heldur Írlandi og tengist Celtic Christianity, sem þýðir þá ekki að þetta hátíð djöfulsins eins og ég heyrði að ein móðir sagði dóttur sinni og vildi ekki að hún tæki þátt í svona atburði.
En við sem sagt tókum okkur saman 3 fjölskyldur og vorum saman heima hjá Margréti og Jóni og Margrét var búin að skreyta svo flott húsið og með alls konar draugahljóð og skemmtilegheit.

Sama dag og halloween hátíðin var, var foreldrafundur í skólanum og okkur fannst það pínu skrítið að hafa þetta þennan daginn en málið er að halloween er ekkert stór hátíð hér í Noregi nema í búðunum held ég, það er ekki allt fullt af börnum að trikka og tríta allt kvöldið.Við fengum voða góðar fréttir á foreldrafundinum og þau hrósuðu Mirrunni mikið fyrir framfarir félagslega og hvað hún væri orðin dugleg að rétta upp hönd og taka þátt og þess háttar.  Svo fengum við að vita að ef normalkúrfan er 100% fyrir barn í áttunda bekk í ensku, þá er Mirran með 206% og það er ekki leiðinlegt að heyra.  Þau í skólanum eru að gera allt til að gera henni lífið auðveldra og meira að segja hjálpa henni með setningar til að geta reynt að mingla við krakkana ofl. Yndislegir kennarar sem vilja allt fyrir okkur gera.

Jæja svo á föstudaginn var drifið sig af stað til Sandefjord og heimsækja Ingu, Óla, Söru og Mikael Mána.  Hann var víst ótrúlega spenntur að hitta Þráinn aftur og það var mjög krúttlegt hvað hann knúsaði kallinn vel þegar við komum.  Þetta var æðisleg helgi, ég skil ekki ég verð svo löt heima hjá Ingu og læt hana dekra mig út í eitt þegar ég er hjá henni, eins gott að dekra hana til baka þegar hún kemur hingað næst.  Við fórum auðvitað og sýndum Þráni bæinn, ég fékk eina myndatöku af sætri stúlku sem heitir Anita og heppnaðist hún bara vel.  Svo fórum við í stelpuferð í mollið og Ástrós fékk buxur í afmælisgjöf frá Maddý ömmu og keypti sér smá glingur og svo var keyptur kínverskur matur og sushi og borðað heima og kósí fram eftir kvöldi.

Sunnudagurinn var með roki og rigningu og því var bara rétt kíkt á einn útsýnisstað og annars bara borðað nýbakað bananabrauð og huggulegheit áður en við héldum í hann aftur heim.

Við vorum nú bara löt og fundum í okkur sófadýrin þegar við komum heim á sunnudagskvöldið.  En á mánudaginn sem var auðvitað normaldagur hjá normalfólki fengum við nýja eldavél og þvílíkur munur, ofninn er í 3 mín að verða heitur og hellurnar bara heitar þegar kveikt er á þeim osfrv.  Jeiiiiiiiiiiiiiii nú sé ég hvað hin vélin var glötuð.  Hlakka til aum helgina að prófa að baka í henni.
Nú nú og svo í gær þá var nýjung í vinnunni minni þar sem ég var með fjarnámskeið fyrir byrjendur í Sölu í Sveitarstjóra í NAV og gekk það svona glimrandi vel og allir ánægðir og svo eftir hádegi fórum við með bæði hund og kött til dýralæknis til að fá þessa árlegu sprautu og ormalyf.  Kötturinn er 4,8 kg og hundurinn 18,5, bæði svo heilbrigð og fín og reyndar sagði dýralæknirinn að hann Nói væri líklega fallegasti köttur sem hún hefði séð.  Ég var nú bara eins og stolt móðir því þetta hef ég alltaf sagt og svo er hann svo klár líka.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

11.11.2013 07:23
Heit málefni…..
Já sum málefni eru heitari en önnur það er nokkuð ljóst.  Ég hef verið að fylgjast með því sem hann Elliði Vignis bæjarstjóri í Eyjum sagði um daginn að ríkið þyrfti að forgangsraða betur í fjármálum og það er vel en hann nefnir utanríkisþjónustu, landbúnað og menningu og listir og það fer pínu lítið í taugarnar á mér.  Ég er nefnilega alveg sammála honum að það þurfi að forgangsraða í ríkisfjármálum en ég er ekki sammála honum um þá flokka sem hann dregur fram, ég hefði nú frekar viljað sjá hann nefna sjávarútveg en landbúnað og íþróttir freker en listir.  Af hverju er aldrei talað um þá fjámuni sem dælt er í íþróttastarfið í landinu, af hverju finnst fólki íþróttir vera mikilvægari en menning og listir sbr. að það er niðurgreitt starf íþróttafélaganna þannig að þú sem foreldri greiðir kannski 25.000 isk. fyrir önnina í íþróttum en 98.000 isk. ef barnið fer í tónlistaskóla.  Og til leikslistar eða söngnáms er yfirleitt ekkert niðurgreitt.  Af hverju?  Ég til dæmis hef aldrei haft áhuga á íþróttum en hef aftur á móti áhuga á menningu og listum.  Er ég þá annars flokks?  Ég hef alveg heyrt stríði til þeirra sem ekki hafa áhuga á íþróttum, af hverju?  Ég er til dæmis ekkert viss um að þessar íþróttir séu að koma betri fólki út í þjóðfélagið en listaskólarnir?  Ég held einmitt að Ísland mætti alveg við því að það væri fólk dansandi um í rósóttum pilsum út um allt í staðinn fyrir þessa hörku og keppniskapið sem alla er að drepa.  Endalaust alltaf að fólk þurfi að setja sér markmið og þess háttar, af hverju?  Af hverju má ekki bara fara syngjandi í gegnum lífið?  Af hverju þurfa allir að hafa metnað í viðskiptum, eins og mér finnst megin áherslan vera.

Og þá komum við að hinum atriðinu sem mér fannst ekki rétt að Elliði nefndi og það er landbúnaður, ekki að það megi ekki hagræða þar, alls ekki og trúlega má það en ég sé enga bændur vera svo ríka að þeir fljúgi á þyrlum heim að loknum fundi í borginni.  Ég sé ekki að bændur séu að byggja sér sumarhús fyrir hundruði milljóna en ég sé það í sjávarútvegi og fiskinn í sjónum eigum við öll og ekki rétt að einhverjir örfáir geti orðið ríkir af því. Þeir sem stjórna fyrirtækjunum mega alveg vera á góðum launum svo þá skorti ekkert en þeir eiga ekki að geta orðið ríkir á því að veiða og selja fiskinn sem þjóðin á.  Ég vildi gjarnan að þeir sem fengu kvótann ókeypis myndu endurgreiða ríkinu hann, ég vildi gjarnan að þeir sem fengu aðstoð upp á himinháar upphæðir í kreppunni myndu endurgreiða ríkinu það núna þegar það gengur betur.  En ég vil ekki að sjávarútvegurinn hætti eða fyrirtækjum verði lokað alls ekki, en ef fyrirtækin ganga ekki vel en eigendurnir eru samt vaðandi í peningum þá er eitthvað að.
Já Elliði vildi vekja máls á aðstæðum sjúkra og kvenna sem er að fæða börn í Eyjum og honum tókst það svo sannarlega og ég er næstum viss um að hann valdi það að nefna menningu og listir því hann vissi að þá fengi hann athygli og það er allt í lagi því það má auðvitað ræða hlutina en ég verð alltaf samt svo reið þegar það er alltaf fyrsta val hjá svo mörgum.  Hvað mætti til dæmis spara í íþróttum ef við förum nokkur ár aftur í tímann og þetta verður bara áhugamál, þe. ekki hálfatvinnumennska.  Hvað myndum við spara í íþróttum ef við hættum að sýna það í sjónvarpi, því það er dýrt og þá myndu kannski bara fleiri borga sig inná leiki, og þá bara þeir sem hafa áhuga, ekki pína fólk eins og mig til að horfa því ekki hef ég áhugann.  Ég hef ekki séð að sjónvarpið sé að eyða miklum pening í að sýna leikrít úr þjóðleikhúsinu beint svo við gætum sloppið við að mæta og borga okkur inn.  Auðvitað veit ég að það verður aldrei svona en mig langaði bara að benda á það, alveg eins og Elliði benti á hitt.

En þá að sjúkrahúsinu í Eyjum.  Þetta er auðvitað skelfilegt og fáráðanlegt að ætla verðandi mæðrum í Eyjum að þurfa að vera í 2,3-4 vikur í Reykjavík áður en þær fæða og þurfa að taka börn sín úr skóla, eiginmaður án vinnu og leigja sér húsnæði á meðan.    Ef það að búa úti á landi þýðir að það kostar fjölskyldu um hálfa milljón að eiga barn meðan það kostar fjölskyldu úr Reykjavík ekki neitt, þá er samfélagið ekki í lagi.  Og það að halda að tilveran snúist bara í Reykjavík það er líka rangt, því tekjur þjóðfélagsins koma líka utan að landi, úr sjávarútvegi, úr ferðaþjónustunni og margt fleira.  Og mikið væri Ísland fátæk þjóð ef hún byggi bara í Reykjavík og allir þessu fallegu staðir úti á landi yrðu að eyðibýli.

Þangað til næst, ykkar Kristín

 

13.11.2013 07:31
Af hverju…
Já af hverju er Odd Nedrum svona frægur listmálari og ríkur skv. fréttamiðlum?  Ég var að skoða myndirnar hans og þær eru vel málaðar það vantar ekki, en segið mér hver vill hafa svona ljótleika lífsins hangandi uppá vegg hjá sér.  Ég gúgglaði hann og það er engin mynd eftir hann á gúggle sem sýnir fegurð, ljós og gleði.
Skoðið bara og segið mér hvort þið mynduð vilja hafa þetta uppá vegg?
Hverjir kaupa svona og hafa kannski í stofunni sinni?

En svo fór ég aftur á móti að hugsa um geðveika manninn Vinsent VanGogh og verð að viðurkenna að hann geðveiki var kannski helst sú að hann sá svo mikið af ævintýrum út úr veröldinni sbr. þessa mynd sem mér finnst svo falleg.

Ef maður skoðar famous painters of the world þá eru ekki margir þar sem mála eitthvað létt, gleðilegt og fallegt, hvað er það?  Finnst okkur ljótleikinn fallegri málaður en eitthvað bjart og fallegt?  En ef maður skoðar reyndar svo famous paintings þá er þetta svolítið breytt, því þá koma inn á milli fallegar bjartar myndir eins og sést hérna.
Það er alltaf svo einkennilegt þetta hvað það er sem veldur því að eitthvað verði vinsælt og frægt, niðurstaðan er oft ekki nefnilega smekkur fólksins heldur eitthvað annað?  Kannski að það kosti svo mikli peninga og þar með eigi það að vera flott og vinsælt, ég gæti trúað að það spili inní.  Ég sit alein og þori ekki að segja að þetta sé ekki fallegt þar sem allir aðrir segja að það sé fallegt og fyrst það kosti svona mikið þá hljóti það að vera fallegt hvað sem mér finnst.
En jæja þetta var stutt pæling svona í morgunsárið út af frétt af Odd Nedrum sem svíkur víst svo undan skatti í Noregi en er Íslenskur ríkisborgari.
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

16.11.2013 09:49
Stór vika….
Já afmælisvikan hjá einkadótturinni er stór vika á þessu heimili og hefur gengið á ýmsu að redda óvæntum afmælisgjöfum handa ungfrúnni.  Það var búið að ákveða að gefa henni gsm síma í afmælis- og jólagjöf og við vorum búin að skoða fram og til baka.  Hana langaði að sjálfsögðu í Iphone eins og svo mörgum öðrum en mér en ég er svo rosalega hrifin af Nokia Lumia símanum mínum með windows stýrikerfinu svo það voru þessir tveir sem mest var verið að skoða en málið er að Iphone er ekki seldur í búðum hérna nema með bindingu við eitthvað símafyrirtæki og ég vil það ekki og svo er Iphone 4 dýrari en Nokia Lumia 920 þannig að í mínum huga var þetta ekki spurning, en þetta átti að vera gjöf og því ekki bara það sem mér fannst var aðalatriðið.  En svo sá ég að það væri sénslaust að kaupa Iphone í Noregi og hætti alveg við það.  Hver er munurinn á Iphone og Ipad, ég get keypt Ipad í öllum búðum.  Á seint eftir að skilja þetta af hverju venjulegar raftækjabúðir mega ekki selja þessa vöru eins og aðrar, af hverju það þurfa að vera sérstakar búðir sem selja eingöngu IPhone og þeirra vörur, er það af því að þær standast kannski ekki samanburð ef þær lægu við hliðina á hinni eða hvað er það?  Jæja alla vega ég er ekki hrifin af þessum IP vörum þar sem það er ekkert hægt að gera á venjulegan hátt við þær, ekkert til sem heitir copy og paste, verður um umbreyta öllum skrám til að geta fær þær á milli windows (sem þorri heimisins er að nota) og það tekur jafnlangan tíma og að horfa á þáttinn til dæmis ef við erum að tala um þætti eeeeeennnn skjáirnir þeirra eru geggjaðir og ég vildi geta verið með skjá frá Apple og windows tölvu ef ég fengi að ráða.  En alla vega aftur að afmælisgjafapælingunum, við vorum eiginlega búin að ákveða að fara til Lyngdal og í Elkjøp til að kaupa þennan síma á laugardaginn síðasta og ég fer að skoða á netinu og athuga hvort það sé ekki til þar, það sem við vildum en bíddu nún við þá er sími eins og Þráinn á Nokia Lumia 820 á tilboði, hafði kostað 2.700 áður en var nú á 1.500 en það var bara á netinu svo við ákveðum bara að panta hann, þetta var svo frábært verð og þetta tilboð bara til sunnudags.  Ok, ég panta og þarf að nota norska kortið mitt í fyrsta sinn í svona pöntun og það fer í gegn pöntun og út af reikningnum (debet) en það er eins og hún klárist aldrei pöntunin og ég er enn með óafgreiddan síma í körfunni minni.  HUmmm ég er nú ekki sátt við þetta að borga eitthvað en fá ekkert í staðinn.  Verð pínu stressuð, jæja pínu mikið, þetta fer svo í taugarnar á mér og ég þarf líklega að standa í einhverju veseni á norsku úff.  En svo ákvað ég að þetta er noregur og hér gerist allt hægt svo ég bíð fram á mánudag, þá opna bankarnir og þá fer þetta örugglega rétt í gegn.  En á mánudaginn fór ekkert í gegn og ég enn þessum krónum fátækari en enginn sími í pöntun, svo ég hringi í Elkjøp og hún staðfestir það við mig stúlkan að það sé engin pöntun á mínu nafni eða neitt og ég segi henni að það sé samt farið út af reikningnum og hún bað mig að bíða í 3-4 daga og sjá hvort það kæmi ekki inn þá en annars hafa aftur samband.  OK – ég ætla þá bara að fara að panta símann aftur og reyna að nota einhverja aðra leið, póstkröfu eða þess háttar en úps…….. tilboðið var bara til sunnudags og ég missti af því.  Æi svo ég verð að fara að skoða aftur og aftur og heyrðu nú er Nokia Lumia 920 á 2200 og en 920 á 2.700 svo ég ákveð bara að slá til enda er þetta einkadóttir okkar og við erum tækjafrík öll saman og ég geri aðra pöntun og þá sé ég að ég get pantað síma frá Elkjøp og látið senda reikning með. NÆS ég geri það og get fylgst með pöntuninni fara í póst og koma til Osló og koma til Kristianssand og Mandal allt á netinu og allt á tveimur dögum svo ég er bara fara að hafa trú að við náum að sækja þetta á afmælisdaginn og færa dömunni en þá daginn áður og tveimur dögum eftir pöntun er komið sms að varan sé á póstinum í Ica.  Svo ég fer í göngutúr í rigningunni með Erro og við sækjum pakkann.  Þurfti ekkert að borga og er ekki enn komin með reikninginn í hús nærri viku seinna.  En það hlýtur að fara að koma 🙂
Alla vega dóttirin fékk þennan fína síma í afmælisgjöf og er alsæl með mömmu sína og pabba. Og já 4 dögum seinna kom peningurinn inná reikninginn til baka frá Elkjøp svo allt gekk upp en bara rólega eins og Norðmanna er siður.

Annað sem var plottað fyrir þetta afmæli var leynigestur sem birtist hér á tröppunum í gær en það er hún Sara okkar sem ferðaðist í 4 tíma til að geta verið með vinkonu sinni um helgina.  En það var ekki skemmtileg ferð hjá henni því þegar þau áttu um 20 mín. eftir til Mandal lenti rútan sem hún var í, í hörku árekstri þar sem rútan er að keyra eftir E39 og bíll sem ætlar að koma inná götuna gerir það á fullri ferð og misreiknar sig eitthvað og lendir inní miðri rútu og bíllinn í klessu þurfti að klippa manneskjuna út úr honum, rútan eitthvað skemmd og var þversum á veginum (E39) og stöðvaði alla umferð í 2 tíma.  Ég var á leiðinni að sækja Söru þegar hún sendi mér sms um þetta svo ég ákveð að fara til móts við hana og sjá hvort það sé ekki fljótlegra en þá vissum við ekki hversu alvarlegt þetta var.  Ég keyri áleiðis til Søgne og lendi í langri bílaröð en er þá búin að hleypa framhjá mér sjúkrabílum, slökkviliðsbílum og tækjabílum úff, þetta leit ekki vel út og ég föst í umferð og Sara einhvers staðar í rútu sem kemst ekki neitt, svo við ákveðum að hún skuli bara labba á móti mér og ef ég komist út úr umferðinni þá ætli ég að leggja bílnum og labba á móti henni en það var ekki svo ég var föst á sama stað í 20 mín og hún labbaði til mín.  Hún var í 20 mín að labba frá rútunni og til mín sem var föst í röð og ég var í ca miðri röðinni, þannig að bílaröðin hefur verið svona 40 mín gangur framhjá.  En ég var svo heppin að vera föst í röð við strætóskýli og gat snúið við þarna og við haldið heim en þetta tafði okkur um 1,5 tíma en það var gaman að sjá og heyra í Mirrunni þegar hún opnaði dyrnar og sá Söru fyrir utan, held hún hafi verið smá tíma að fatta þetta.  Mikil gaman og mikil gleði á bænum í gær.

Svo verður skvísuafmæli í dag, 3 stelpur saman með snakk, pizzu, kók og nammi og kannski eina eða tvær bíómyndir að horfa á eða bara hlusta á músík og hafa huggulegt því mamma og pabbi ætla út á meðan.

En það er í dag svo þið fáið að heyra frá því seinna.
Þangað til næst, Ykkar Kristín

 

25.11.2013 07:28
Veturinn að koma…..
það er nokkuð ljóst að veturinn er að koma, við erum búin að sækja alla aukaofna sem við eigum og byrjuð að kynda í herbergjunum en það gerðist bara í vikunni þegar hitastigið fór niður fyrir núllið.  Það er svolítið skrítið hvað það þarf að kynda minna hérna en heima en trúlega er það enn og aftur út af vindinum, það læðir ekkert inni um allt hérna því hér er oftast logn og þegar það kólnar svona þá verður enn meira logn.  En ég sótti jólaljósin okkar (við eigum 2 ljós hérna úti) uppá loft og sótti þá stóra ofninn líka þannig að hann er tilbúinn hér á holinu en annars er það þannig að við setjum kubba í arininn og kyndum frá 17 – 19 og það er funheitt frameftir kvöldi í allri íbúðinni, þessi íbúð er ábyggilega vel einangruð og heldur hitanum vel inni.  Ég hef heyrt af fólki sem býr í gömlu húsi þar sem mjög erfitt var að kynda og halda heitu en það er ekki raunin hér hjá okkur og svo fer maður bara að elda eða bardúsa eitthvað og þá hlýnar manni fljótt en við kveikjum ekki á ofnum nema nauðsynlegt er og þá er maður búinn að fara í peysu og ullarsokka.

Og talandi um ullarsokka því ég var í skemmtilegu verkefni í gær og það var að mynda lopapeysur og fólk í þeim.  Það var dálítið kalt en mjög skemmtilegt og hlakka ég til að vinna þessar myndir og deila þeim með ykkur en það eru stelpurnar hér í Noregi sem halda úti síðunni Islandsgenser sem eiga heiðurinn af prjónaskapnum og að sjálfsögðu voru fjölskyldurnar okkar nýttar í fyrirsætustörfin.  Þráinn sýndi að hann hefur engu gleymt af gömlu töktunum sínum og hinir stóðu sig allir mjög vel.  Og ég elska að taka myndir af fólki í lopapeysum, ég reyndar elska lopapeysur og er mjög glöð að fá borgað fyrir myndatökuna í lopapeysu sem “By the way” var mynduð þarna en það vantar á hana rennilásinn en þeir fást ekki hér í augnablikinu svo við bara bíðum smá.  Ástrós Mirra er ekkert mikið fyrir ullina en vá hún er svo falleg þegar hún er komin í lopapeysu að ég var bara heilluð af henni dóttur minni.

Erro er frábær fyrirsæta og greinilega vildi vera með, það var mjög auðvelt að stilla honum upp og láta hann vera kjurran á meðan ég myndaði krakka og hann.  Lokamyndirnar okkar voru hópmyndir og ég ákvað að stilla hópnum upp eftir stærð, svo fer Ástrós eitthvað að vesenast og kalla í Erro og ég hugsaði með mér að það er nú nóg að hafa allt þetta fólk flott á myndinni að ekki sé verið að reyna að fá hundinn inná líka en viti menn, minn maður stillti sér bara við hliðina á minnstu stelpunni og setti eyrun upp og brosti, já ég get svarið það að hann brosir þarna.  Algjör snillingur hann Erro það  er nokkuð ljóst.

En við erum nú búin að gera ýmislegt fleira í síðustu viku og fengum meðal annars Arnfinn í mat á laugardaginn, hann er ansi þreyttur kallinn núna enda í tvöfaldri vinnu þessa dagana, en Þráinn fór einmitt að hjálpa honum á laugardaginn.  Svo kíktum við á húsið hjá Julie í Kristianssand í gær og þetta er gamalt hús á flottum stað og hún er smiður svo henni verður ekki skotaskuld úr því að gera húsið upp.
Annars bara allt fínt að frétta héðan, veturinn er kominn og það er bara fínt, því svo koma jólin og svo fer mann að hlakka til vorsins aftur.  Lífið fer alltaf í hringi.
Spurning að baka smákökur í dag?
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

27.11.2013 07:02
Stórborgin Mandal
Já ég undra mig á mörgu hér í okkar litla bæ sem stundum er eins og stórborg. Nýjustu fréttir eru að það er stúlka sem stendur úti á horni í miðbænum á kvöldin um helgar og reynir að selja blíðu sína.  Hún er í stuttu pilsi en úlpu því það er kalt.  Hún stekkur til þegar einsamall karlmaður kemur gangandi eftir götunni, hún spyr hvort þeir séu að flýta sér, þetta taki ekki langa stund osfrv.  Hún er ekki norsk.  Hvað rekur þessa stúlku út að selja blíðu sína?  Er þetta að hennar ósk eða eru það aðrir sem eru að senda hana út og hún fær kannski eiturlyf í staðinn? Það er þannig með betlarana hérna úti að þeir eru ekki á eigin vegum, þetta eru stórkallar sem senda þetta fólk út á götuna og þau eru bara í vinnu eða þannig, fá sjálfsagt smánarlaun fyrir, en eru greinilega hvorki svöng né í almennri neyð, sitja og prjóna og kjafta saman.
Eins og konan sem kom til mín, ég var að dusta mottur á tröppunum hjá mér þegar hún sá mig og hún kom til mín og sagðist hafa verið að koma úr aðgerð og ætti engan pening og ætti svo bágt og fletti svo öllu upp um sig til að sýna mér og þarna var svo stórt og ljótt ör sem ég veit ekkert hvort hafi verið feik eða ekki.  Hún fór alla vega þá ekki í aðgerðina í hinum vestræna heimi það er nokkuð ljóst að svona lítur engin út eftir aðgerð hjá lækni.  Ekki leggst þetta fólk svo lágt að láta skera sig og sauma sig til að eiga auðveldara með að betla?  Og af hverju er betl það eina sem þeim dettur í hug?  Ég sagði þessari konu að fara á félagsþjónustuna hérna því þar fengi hún hjálp, þeir hjálpuðu öllum sem búa í Noregi.  Síðan hef ég séð þessa konu vera betlandi hér niður í bæ og ég get ekki ímyndað mér að það sé mikið uppúr því að hafa í 15.000 manna bæ.
En hér er alltaf fullt af fólki í miðbænum og sérstaklega á laugardögum, mannlífið iðar og fólk er alltaf svo glaðlynt og kammó.  Enn og aftur held ég að það sé lognið.

Svona er lognið í Mandal á mánudagsmorgni.
En að öðru ég fékk sendar myndir af Magga Þorsteins á bæjarskrifstofunni að hengja upp jólabjöllurnar mínar og ég ákvað að setja þær á fésið og skrifa smá um þær:
Næsta vor eru 18 ár síðan ég hætti að vinna í Ráðhúsi Vestmannaeyjabær og þegar ég fór þá gaf ég þeim jólabjöllur sem ég átti og á hverju ári fæ ég sendar myndir þegar þau hengja upp bjöllurnar og hugsa fallega til mín. Maggi Þorsteins tekur þessu hlutverki mjög alvarlega og hengir þær upp á áberandi stað. Ég heyrði reyndar í fyrra að bjöllurnar mínar hefðu fjölgað sér og þykir mér það frábærar fréttir. Frábær vinnustaður og góðir vinnufélagar þarna á ferðinni

Og ég fékk hellings athygli og nokkur komment en vænst þykir mér um kommentið frá bæjarstjóranum í Eyjum sem er svona:
Elliði Vignisson Sannarlega góður vinnustaður og frábært fólk á öllum hæðum. (…í Eyjum er talað um fyrir og eftir gos. Hér í ráðhúsinu er það fyrir og eftir Kristínu Jónu
og vitiið ég held þetta sé alveg satt en ég vissi ekki að það hefði eingöngu verið ég sem var svona skemmtileg á þessum tíma sem ég vann þarna en ég rifja oft upp þennan tíma og ég veit að þau sem voru þá og eru enn í ráðhúsinu gera það líka.  Ég held að við höfum bara náð svo ofboðslega vel saman fólkið sem vann þarna þá og það var svo mikið um gleði og gaman í vinnunni að það gleymist seint.  Partýin þar voru engu öðru lík og mikið sungið og mikið gaman þá.
Gaman að sjá Áka þarna fylgjast með að Maggi hengi kúlurnar í rétta hæð.
Þangað til næst, ykkar Kristín
Þangað til næst, ykkar Kristín

 

27.11.2013 08:57
Gamlir fætur…..
Já ég fæddist með gamla fætur það er nokkuð ljóst og þeir eru greinilega að syngja svanasönginn sinn núna.  Frá því ég var barn hef ég verið með of stutta vöðva í fótunum og þó það hafi komið í ljós þegar ég var ung hefur aldrei neitt verið gert eða mér kennt neitt sem geti breytt því svo líklega verður því aldrei breytt.
Ég var líka öll mín unglingsár með verki þegar ég steig í fæturna og aldrei gat ég gengið í hælaskóm eða verið í öðru en trampskóm (þið sem eruð á mínum aldri vitið hvað það er) vegna þess að beinin á táberginu voru ofvaxin en þau voru síðan skorin af (eða höggin) þegar ég var 19 ára og þá gekk ég fyrsta skipti sem ég mundi eftir án verkja og það var ótrúleg tilfinning. Fékk reyndar þessa verki aftur 1997 en þá þóttist ég vera pæja og fór að ganga í skóm með háum hæl.  Fór þá til læknis og eina lausnin við þessu var að fara aftur í aðgerð en það fannst mér ótrúlega mikið og erfitt verk og hætti að ganga á hælum og hef aldrei fengið verki síðan.
En svo er ég líka með túrett í löppunum því þær geta ekki verið kjurrar og hvort sem ég sit eða ligg þá hoppa þær og skoppa án þess að ég viti af því, ef ég sit með krosslagðar fætur þá er upplagt að leggja barn ofan á þær til að fá svona reiðtúr eins og maður gerir oft við lítil börn, þvi fæturnir á mér eru alltaf á skoppinu.
Svo kemur að hnánum, ég varð að hætta í Zumba því ég var aðframkomin af verkjum í hnánum og ég hef nú verið oft með verki þar síðustu ár en aldrei sem núna eftir að ég fór að labba svona mikið meira og hreyfa mig meira.  En ég auðvitað sit allan daginn ennþá en fer í hverju hádegi í göngutúr uppá fjall eða eitthvað annað og stundum aftur seinnipartinn og svo labba ég líka um helgar.  Þetta gerði ég aldrei heima svo mér finnst skrítið hvað ég er verri hér en ég var heima.  Kannski er ég bara með þetta eina sett af löppum sem ekki má hreyfa?  Ha ha ha.  Ég hef reyndar verið þannig í mörg ár að ég get spáð fyrir um vond veður því það fann ég í hnjánum á mér.
Svo núna er ég með verki frá mjöðm og niður í hné og orðið flesta daga og sef illa á nóttunni og var að láta mér detta í hug fótaóeirð.  Það er eins og það sé svo mikill þrýstingur á svæðið í kringum hnéin og mér líður eins og ég sé í of þröngum buxum og svona seiðingur og pirringur alveg uppeftir læri.
Ég er búin að klára einn skammt af járni því Þráni datt í hug að ég þyrfti það.  Ég er búin að vera að taka omega 3 og 6.  Ég er búin að vera að taka Magnesíum.  Ég hætti á hormónalyfjunum mínum í sumar og ég er ekki frá því að þetta hafi versnað eftir það en hef ekki hugmynd hvort það geti staðist eða er tilviljun svo ég er byrjuð núna á nátturulegum hormónalyfjum en finn samt enga breytingu á fótunum.  Núna sef ég með kodda á milli hnjána og ber á mig eitthvað hitakrem frá einhverri grasakellingu uppá Íslandi en vakna samt með verk í hnénu og já datt í hug að segja ykkur frá þessu ef þið þekktuð dæmi og hefðuð tilllögur að lausn.
Ég reyndar sit við mjög lítið skrifborð og það er ekki hækkanlegt eins og ég hafði og stóllinn er auðvitað ekki eins góður og ég var með og kannski er það málið.  Fá stærra og hærra borð og betri stól.
Tillögur gott fólk því ég er að verða pínu þreytt á þessu og nenni ómögulega að tala við lækni út af þessu því ég veit ekkert hvernig ég get útskýrt þetta á öðru tungumáli en íslensku.
Svo þangað til næst, ykkar Kristín

Skrifað af Kristínu Jónu

 

03.12.2013 07:37
og það eru að koma jól…….
og þá er svo gaman að búa eitthvað til.  Við skruppum í Sjølingstad ullarverksmiðjuna á sunnudaginn en þar er alltaf markaður í upphafi aðventu og gaman að skoða handverkið og sjá verksmiðjuna sjálfa líka.

 

Ég tók þessar myndir reyndar í fyrra þegar við fórum þarna og þá var miklu minna af fólki en meira af listamönnum og bjartara því þá var snjór.  Núna var bara þetta fína haustveður með smá sól og hita.
En við keyptum okkur einn jólasvein þarna og núna er svo gaman að kaupa eitt og eitt jólaskraut sem verður svo munað hvar keypt og tengjum ákveðnar minningar við það, í staðinn fyrir allt dótið sem við áttum heima.  Ég sakna samt tveggja jólaveina sem eru í kassa heima og ætla ég að muna að sækja þá næst þegar ég fer 🙂

Eitt sem er svo gaman þarna í ullarverksmiðjunni er að þarna er hægt að kaupa sér á 30 kr. ullarramma og fara og fá ull í öllum litum og búa sér til púða eða mynd.  Við höfðum ekki í tíma til að gera þetta í fyrra svo núna byrjuðum við á þessu og ég gerði mitt fyrsta listaverk úr þæfðri ull þarna og er bara nokkuð ánægð með það.  Er ekki mest talað um þá listamenn sem eru svo barnalegir í list sinni að þeir séu eitthvað nær orginalinu og já þá er ég svo sannarlega ein af þeim.

Eitthvað annað en þroskaði listamaðurinn á heimilinu sem er eins og hún Konný systir og allt verður svo flott í höndunum á þeim.

Við hittum Julie og strákana í ullarverksmiðjunni og buðum þeim í skúffuköku og íslenskar pönnukökur með sykri á eftir, þeim fannst þetta æðislegt og það var gaman að hitta þau og ég skellti að þeim myndum hérna úti í snatri því Julie hafði fattað að hún tók engar jólamyndir.  Einn, tveir og bingó í lélegri birtu og í flýti en bara krúttlegar myndir sem komu út úr því.  Þessi er uppáhalds.
Skrifað af Kristínu Jónu

 

12.12.2013 07:19
með von um betra líf….
eins og flest ykkar sem þekkið okkur vita þá er Ástrós Mirra búin að vera með höfuðverk í nokkra mánuði og lengi vel héldum við að hún væri með migreni og reyndum að láta hana fara ráðleggingum vegna þess en ekkert dugði.  Svo í haust fer henni að versna svo og er oft með í 10 daga í röð svo slæman höfuðverk að hún kemst ekki í skólann, þess á milli heldur skárri en alltaf með höfuðverk og þegar hún er spurð í dag þá man hún ekki eftir að hafa ekki verið með höfuðverk, þetta er svo slæmt.
Við fórum með hana til læknis sem sagði okkur að hún væri með hundaofnæmi og við tókum því þannig að hann teldi að höfuðverkurinn væri út af því og það var allt sett í gang að gera allt betra hérna, keypt robot ryksuga og lofthreinsitæki, húsið þrifið hátt og lágt og hundinum bannað að koma uppá loft til hennar og hún mátti ekki vera í hundinum eða klappa honum mikið og þar fram eftir götunum.  Við komumst að því í gær að þetta ofnæmi er bara 1.08 sem er mjög lítið og hún er á ofnæmistöflum og því hefði allt hitt verið óþarfi nema það hafa allir gott af því að hafa hreint loft og lítið ryk svo við syrgjum það ekki neitt.  En enn er hún samt með höfuðverk og við förum með hana eftir 3ja mánaðar bið í höfuðskanna og fengum niðurstöðuna í gær og það kom ekkert óeðlilegt út úr honum sem er alveg frábært en enn er hún samt með höfuðverkinn.
Læknirinn vill láta skoða sjónina í henni og nú bíðum við eftir bréfi með tilvísun til augnlæknis og það er alveg gott og gilt því stelpan var með gleraugu frá 3ja ára til 10 ára en þá hafði sjónin lagast það mikið að augnlæknirinn sagði að hún mætti sleppa gleraugunum henni til mikillar gleði.  En við vorum búin að íhuga það fyrr í haust og gerðum alvöru úr því í gær að fara með hana til Kiropraktor og ……… já haldið ykkur fast, því hann telur að hann geti hjálpað henni og hún verði orðin talsvert betri fyrir jól.  Ég held ég elski þennan mann sem var afskaplega þægilegur og vinalegur og á nokkra vini á Íslandi og skildi orð og orð sem við sögðum.  Hann ræddi mikið við hana, spurði og spurði spurninga og lét hana svo setjast á bekk og skoðaði á henni hrygginn og kom með athugasemdir um stöður og setur (ég hentist upp í stólnum á sama tíma og rétti úr bakinu) svo lét hann hana leggjast á bekkinn fyrst á bakið og byrjaði eitthvað að skoða hana og sagðist svo finna punkt sem hann yrði að laga og sagði eitthvað við hana sem ég heyrði ekki en það næsta sem ég sé er að hann snýr uppá hálsinn á henni og ………….. kippir svo í.  What!  Mín upplifun var að hann ætlaði að snúa hana úr hálsliðnum en hann gerði þetta þrisvar og það brakaði svo í hálsliðunum á henni og svo gerði hann eitthvað álíka við bakið á henni og kenndi okkur svo eina æfingu til að styrkja herðarnar.
Mirran var að drepast í hausnum á eftir en samt eitthvað öðruvísi sagði hún og svo lagaðist hún smá stund en fékk svo aftur höfuðverk en leið samt einhvern veginn betur svo nú eigum við tíma mánudag, miðvikudag og föstudag í næstu viku og hann heldur að hún verði bara þokkaleg þá um jólin.
Kannski ég íhugi að fara til hans þegar hún er búin og láti opna allt flæði í mínum gamla skrokki.

En þá í hundana.  Erro var sendur í pössun til ömmu sinnar í viku núna til að taka af allan vafa að höfuðverkurinn væri af hans völdum og öllum til mikillar gleði er það ekki og nú má Mirran aftur atast í honum og knúsa hann.  En ég er nú svo oft að pirrast á kallinum og því að ég fái aldrei andrými fyrir honum en svo kemst allt upp í vana og ég stóð uppúr stólnum mínum og fannst eins og það vantaði eitthvað.  Jú jú það vantaði skuggann minn og ég gat gengið án þess að fylgjast með hver væri í löppunum á mér osfrv.  Mjög skrítið en svo vandist það.  Og ég fór að hugsa um hvað það væri kannski bara þægilegt að vera ekki með hund.  En svo liðu dagar og ég fór ekki einu sinni í mat því það var enginn sem kallaði á mig að þurfa að fara út að pissa og ég fór ekki í einn einasta göngutúr þessa vikuna svo mér til mikillar ánægju er ég komin með skuggann minn aftur og þann sem sér til þess að lifi umfram vinnu og líti uppúr tölvunni fyrir annað en kaffibolla og að ég tali nú ekki um hlusti á mig og tuðið í mér alla daga svo Þráinn þurfi þess ekki þegar hann kemur heim.  Þó þetta sé hundur þá er greinilegt að hann er einn af fjölskyldunni og ég held að Nói hafi saknað hans líka því hann var farinn að hegða sér mjög einkennilega síðustu tvo dagana og virtist sem hann væri nú bara ánægður í gær þegar prinsinn kom aftur heim.  En mikið átti nú prinsinn erfitt með fyrst, vissi sko ekkert hverjum hann ætti að fagna mest eða hvernig hann ætti að vera og það segir mér að hann hafi verið ánægður að koma heim þó amma sé voða góð við hann.
Svo nú er þessi fjölskylda heldur bjartsýnni í dag en í fyrradag og allir komnir heim til sín og hægt að hætta með alla þessar paranoju með hundgreyið.
Svo gleðilega aðventu kæru vinir, þangað til næst, ykkar Kristín

 

16.12.2013 07:16
Svo margt að gerast….
já það er svo margt að gerast þessa dagana.  Eins og ég hef kannski komið inná áður þá er Ástrós Mirra búin að vera svo slæm í höfðinu í marga mánuði en við fórum í síðustu viku í einn tíma hjá kírópraktor og hún ef búin að vera miklu betri síðan, ekki góð en betri.  Stundum mikill, stundum lítill og komið smá tími á milli sem hann hvarf þannig að það er mikill munur fyrir hana og ég er að horfa á allt annað barn, það er allt í einu farinn að heyrast hlátur hérna á heimilinu, tónlist og söngur ómar og mun léttara yfirbragð á stúlkunni minni en áður og við förum svo í dag í annan tíma og svo áfram í þessari viku.  Nú er ég voða vongóð að hún verði bara ágæt um jólin.

Svo eru meiri fréttir Þráinn skrifaði undir ráðníngarsamning í nýju starfi á föstudaginn og byrjaði í morgun í nýrri vinnu.  Spennandi tímar framundan hjá honum því þetta er eitthvað sem hann hefur ekki unnið við áður en þó smíðar.  Þannig að á næstu vikum og mánuðum kemst hann að því hvort þetta sé eitthvað sem eigi við hann.  Þessi vinna er í límtrésverksmiðju inní Marnadal og þá þarf hann að keyra alveg yndislega fallega leið meðfram okkar fallegu laxveiðiá og akkúrat á þessari leið eru miklir laxastigar og á sumrin geturðu stoppað þarna og bara fylgst með laxinu í ánni.  Og svo margt annað og mikið fallegt á leiðinni.  Engin hætta á umferðartöfum vegna þungrar umferðar eins og þegar keyrt er milli Mandal og Kristianssand svo það er absolut kostur.  Vonandi verður þetta gæfuvinnustaður fyrir hann.
Svo var helgin alveg fullbókuð hjá okkur og byrjaði á laugardaginn með kirkju og jólaballi hjá íslenska söfnuðinum í Noregi.  Mér finnst voða notarlegt að koma í svona einfalda messu hjá henni Margréti djákna og hlusta á barnasögur úr biblíunni, segja faðir vorið og eiga notarlega stund saman í kaffi og meðþví á eftir og núna var enn meira um að vera því það var jólaball á eftir og ég hef nú ekki farið á jólaball síðan Mirran var 9ára að ég held.  Þarna bættist við fullt af fólki þegar jólaballið átti að byrja – greinilega margir sem halda í allar jólahefðir nema það að viðurkenna kristna trú og fara í kirkju en sú umræða er efni í sér blogg og verður ekki farið nánar út í núna.  Svo var farið að ganga í kringum jólatréð og það fór nú heldur hljóðlega fram fyrir minn smekk svo ég gerðist aðalstuðboltinn ásamt Ástrós Mirru og Sunnu fermingarstúlkunum okkar og við reyndum aðeins að lyfta þessu upp með stappi og háum söng.  Ég held ég hafi alla vega eignast einn aðdáanda því hún horfið hugfangin á mig þessi litla stúlka þegar ég söng og notaði fyrsta tækifæri til að fá að halda í hendina á mér (ég held ég hafi verið í samkeppni við jólasveininn þarna).  Svo kom jólasveinninn með pakka handa krökkunum og já ég gleymi alveg að segja frá því að við tókum með okkur Natalie og Gabriel í kirkjuna og jólaballið og það var voða gaman.  Natalíe er stundum svolítið lengi að taka við sér en hún skemmti sér vel og vildi ekki fara heim nema hún Ástrós Mirra kæmi með henni.  Og þar sem það var ekki hægt þennan dag þa bíður hún spennt eftir því að fá hana í heimsókn fljótlega.
Jæja Sunna kom með okkur heim, því þær vinkonur ætluðu að fara í bíó um kvöldið sem þær gerðu tilraun til en úps, það var víst frumsýning og bara uppselt þegar þær komu svo það varð bara kósí time heima.

En á leiðinni í kirkjuna þá keyrðum við gamla veginn milli Hartmark og Søgne og veðrið var geggjað og ég saup hveljur og andköf og eiginlega lokaði bara augunum því það var ekki tími til að stoppa og ég ekki einu sinni með myndavélina með mér en ég fór þá að leggja drög að því að fara í ferð þangað deginum eftir og helst snemma um morguninn eða klukkan níu eða tíu, ef veðrið yrði eins.  En þetta veður var nú þannig að ég kann ekki lesa það því það var ekkert sérstakt ofaní miðbæ, bara logn það er eina sem ég gat áttað mig á. Svo í gærmorgun sváfum við aðeins lengur en venjulega og ég fer út með Erro í morgunverkin og þá sé ég að það er alla vega logn svo ég spyr Þráin hvort hann vilji ekki bara koma með mér, gæti tekið Erro með og átt kósí morgunrúnt saman og jú hann er til og að sjálfsögðu var Erro til í slaginn svo við af stað um 10.30 en þá sé ég að sólin er farin að skína líka svo mig grunaði að þetta yrði osom eins og stundum er sagt.

Og viti menn já þvííkt fallegur staður þarna og kyrrðin og friðsældin þegar við komum var svo mikil að máfurinn flögraði um hjóðlaust og nánast sveif bara um. 1.5 tími leið eins og örskot því ég var að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt og svoleiðis er það alltaf en þá var kominn tími til að fara til baka og sækja stelpurnar og fara í laufabrauðsgerð heima hjá Sunnu en langaafi hennar og amma eru þekkt fyrir sín laufabrauð og mikla hefð í því að skera út og flétta.  Áttum frábæran dag þar í jólahúsinu þeirra Höddu og Fúsa og komum ekki heim fyrr en að verða níu í gærkvöldi, sæl og ánægð með helgina.

Svo nú er síðasta heila vikan fyrir jól og best að fara að skipuleggja og klára það sem þarf að kaupa oþh. svo eigiði gleðilega aðventu kæru vinir.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

 

21.12.2013 10:04
ef einhver er að missa af því……
þá eru að koma jól og þau koma hvort sem maður er “Tilbúinn” eða ekki.
“Rósótta” pilsið mitt verður notað um jólin sem þýðir að við ætlum að gera það sem okkur langar en ekki það sem við höldum að við eigum að gera.
Ég hef reyndar aldrei verið mikið fyrir þrif og þannig vesen og sérstaklega ekki þegar það er hvort eð er svo mikið myrkur að það sést ekkert hvað er verið að þrífa eða hvort það sér ryk eða ekki.  Ég ætla samt að ryksuga en það er nú hvort eð gert reglulega.  Við erum búin að baka af því að okkur langaði til þess en við erum líka búin að borða þær smákökur fyrir löngu og ætlum ekki að baka meira.  Við ætlum kannski að kaupa stamp af piparkökum.  Ég ætla reyndar líka að þurkka af en það er líka bara af því að það er gert reglulega.  Eitt sem ég ætla að gera sérstaklega af því að það eru að koma að jól og það er að skipta á rúmunum á þorláksmessu, annars geri ég það ekki eftir neinni reglu heldur bara af því að það þarf.

Flestir Norðmenn eru komnir í jólafrí nema að sjálfsögðu þeir sem vinna í búðum og veitingarstöðum svo það er eins hér og heima á Íslandi en skrifstofufólk og iðnarmenn og verkamenn, kennarar og skólafólk kláraði síðasta vinnudaginn fyrir áramót í gær, já það verður ekkert opið hér fyrir en eftir áramót svo ég ákvað bara líka að taka norsku leiðina á þetta og er komin í jólafrí mínus ein lítil símavakt á aðfangadag :).  Svo í dag verður rölt í bæinn og keyptar síðustu gjafirnar en Mirran á eftir að kaupa handa 4 vinkonum og við ætlum saman í þann pakka.  Svo skreppum við Þráinn og kaupum 2 gjafir handa Mirrunni frá ömmum hennar en þær eru greinilega ekki að gera sér grein fyrir hvað það er erfitt að kaupa gjafir handa þessari stelpu og að þurfa sjálfur að velja 4 gjafir er bara of mikið enda búum við í litlum bæ sem er ekkert vaðandi í búðum þó þær séu margar miðað við íbúafjölda þá eru þær meira svona fullorðins, gjafavara og fatnaður á fullorðna, þannig að ef vel ætti að vera þá þyrftum við að keyra í tæpan klukkutíma til að redda þessu en nennum því ekki því búðarráp í mollum er ekki okkar áhugamál.  Svo við verðum bara með vel opin augun í okkar litla bæ og finnum auðvitað allt sem okkur vantar þar.  Í mínum huga er það ekki það sama að rölta hér í miðbænum og skoða í búðir og skoða mannlífið eins og að labba um í verslunarmiðstöð, annað er afslappandi og hressandi á meða hitt er stressandi og ætlar að drepa mig í löppunum.  Hvað er með þessi gólf í verslunarmiðstöðvunum?  Ég labba þar í 10 mín og er bara alveg búin en ég labba um í miðbænum í klukkutíma og finn ekki fyrir neinu.  Alla vega dagurinn í dag verður svona klárum að versla dagur og setjum saman matseðilinn fyrir jólin.
Við erum búin að kaupa jólatréð, það var gert á einfaldasta hátt sem hægt er, fórum hér út í port hjá okkur (sko þetta er portið hjá hjólabúðinni en Nói kóngur á það líka og það er fyrir utan gluggana hjá okkur svo við eigum það líka) og völdum okkur tré sem þeir eru að selja.  Þið sem fylgist með okkur munið kannski hvernig fór fyrir trénu okkar í fyrra sem við borguðum 500 kr fyrir að fá að höggva sjálf og hengdum síðan út um gluggann fram að jólum en það slitnaði bandið í því og það datt niður og var óvart selt eða því stolið, alla vega hvarf það og við urðum að fara á þorláksmessu og kaupa nýtt og þá voru öll ódýru tréin uppselt svo……………   í fyrra var dýrasta jólatré sem við höfum keypt sett upp á réttum tíma og skv. mínum hefðum.  Skreytt á þorláksmessu og kveikt kl. 18 á aðfangadag.  En núna var bara farið beinustu leið í portið og keypt tré af þeim félögum í hjólabúðinni, hæsta tré sem við höfum haft er komið inní stofu strax og skreytt strax og kveikt á því alla daga fram að jólum og verður kveikt langt framyfir jól líka.

Það er fyrsta hefðin sem verður brotin þetta árið og mér finnst yndislegt að hafa jólatréð í stofunni og hlusta á jólalögin.  Á þessum laugardegi er það Kurt Nilsen sem syngur jólalög á ensku og norsku, bara dásamlegt.
Önnur hefð sem verður brotin er sú að fara ekki í spariföt á aðfangadag en við verðum bara 3 að njóta dagsins og kvöldsins og ætlum að vera í jólanáttfötum og hafa það svo huggulegt og já já það verða teknar myndir fyrir ykkur sem getið ekki ímyndað ykkur þetta.  En málið er að ein  vinkona mín hérna sagðist ætla að gera þetta og ég fékk næstum áfall.  Ætlarðu að brjóta hefðir?  Svo hugsaði ég aðeins um þetta og sá hvað það gæti verið yndislegt, og stal hugmyndinni hennar.  Ég er til dæmis ekkert hrædd við jólaköttinn og hef verið í sama kjólnum í 3 jól og finnst ég alltaf jafn fín í honum.  En svo förum við auðvitað í sparifötin á jóladag og í jólaboð.
Aðfangadagur verður með purusteik (finnum ekkert lambalæri núna) og brúnuðum kartöflum og frost og funa í eftirrétt.  Ástrós Mirra hefur aldrei smakkað það og er mjög spennt fyrir því.  Við erum nefnilega með eitt sameiginlegt áhugamál núna og það er að fylgjast með Master Chef þáttunum seríu 4 og þau voru að gera eitthvað sem minnti á frost og funa og þar með var sú ákvörðun tekin.
Svo á jóladag ætlum við að hittast 3 fjölskyldur heima hjá Margréti og Jóni og allir koma með sitt kjöt á borðið og svo skiptum við meðlætinu á milli okkar svo það verður ekki einhver einn sem verður kósveittur og þreyttur eftir stúss og eldamennsku. Þá ætlum við að hafa hamborgarhrygginn og brúnaðar kartöflur aftur og jólasalat sem Margrét gerir og eftirrétt sem Lovísa gerir.

Síðan verður bara áframhald á kósíheitum og því að njóta, vonandi hafa norðmenn rangt fyrir sér og það kemur snjór á morgun eða hinn, mig vantar svo snjóinn en þó hann komi ekki þá förum við í bíltúra og göngutúra og leikum okkur bara eins og okkur er einum lagið.
Svo þann 29. des. verður lagt í ferðalag til vina okkar í Sandefjörð og stoppað þar eina nótt og svo beint heim aftur í áramótin og þá verður nú gaman að sjá hvernig verður á brúnni okkar þetta árið.  Við erum búin að bjóða Lovísu og Frank í mat þá og vonandi koma svo aðrir gestir í heimsókn til að eiga góða kvöldstund með okkur hérna.
Annars erum við oft svo sjálfum okkur næg að það hálfa væri stundum alveg nóg.  (úff skrítin setning hjá mér)
En aðalmálið er að hér verður ekkert stress, hér verður slappað af og unnið í því að hjálpa Mirrunni að losna við eða alla vega minnka höfuðverkinn hennar en það er búið að vera ups and downs hjá henni þessa vikuna og mér þar af leiðandi líka.  En hún átti núna síðustu 3 dagana góða og fór í skólann og gat farið á skauta með krökkunum og jólast eitthvað í gær.  Svo það gleður mig svo mikið.
En elskurnar mínar passið ykkur að ganga ekki fram af ykkur í jólaundirbúningi, jólin koma hvort sem við erum “tilbúin” eða ekki og aðalatriðið er að njóta þess að vera saman.
Gleðilega hátíð Ykkar kristín jóna

 

25.12.2013 10:05
Aðfangadagur …..
var hreint út sagt yndislegur dagur hjá okkur þrenningunni (já og Nóa og Erro) við sem sagt tókum djarfa ákvörðun að brjóta hefðir þessi jólin og settum jólatréð upp viku fyrir jól og skreyttum það og höfðum kveikt á því síðustu dagana fyrir jól.  Það var æði og ég mun gera það aftur, njóta þess að hafa tréð með öllu skrautinu og ljósunum þegar maður er að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn.  Hin hefðin sem var brotin var sú að vera spariklæddur á aðfangadag, ég reyndar stal þeirri hugmynd frá Lovísu en sá svo á myndunum hennar í gærkvöldi að þau voru bara ekkert á náttfötunum en það vorum við. Klæddum okkur upp í náttföt og þægilegheit strax eftir hádegið.  Já klæddum okkur upp því við fórum í jólanáttfötin og Þráinn fékk ný náttföt frá okkur mæðgum svo hann yrði nú flottur á jólunum.  Svo var legið í stofunni og horft á teiknimyndir og kósí.
Seinnipartinn var svo farið að elda matinn sem var Joleribbe þar sem við fundum ekkert lambalæri en það var mjög gott og einhvern veginn alveg jólalegt, meðlætið var að sjálfsögðu (já ég get ekki brotið allar hefðir í einu) brúnaðar kartöflur, rauðkál og gular baunir með sveppasósu og “Laufabrauði”.  Ég verð nú að viðurkenna að fyrst við erum komin í hefðirnar að gera laufabrauð með Höddu og fjölskyldu þá óskum við eftir að sent hangikjöt fyrir næstu jól.  Í eftirrétt var “Frost og funi” sem ekki hefur verið á boðstólnum hjá okkur síðan við héldum jól í Hrauntúninu í gamla daga með Óskari og Steinu tengdó, það var mjög gott en ísinn bráðnaði aðeins of mikið en það er líklega vegna þess að ís í dag er miklu mýkri en í gamla daga, þá skar maður hann í sneiðar alveg glerharðan en mér finnst nú ís í dag betri svo við bara finnum okkur nýjan eftirrétt seinna en það var gaman að rifja þennan upp.
Jæja fyrst jólin voru óhefðbundin þá var skellt af stað einni jólamyndatöku og það er nú ekki auðvelt að stilla á tíma þegar maður er með hund og kött en það tókst að fá eina mynd af okkur öllum.

Eftir matinn var auðvitað gengið frá í eldhúsinu og ég sat í stofunni og hlakkaði svo til að fá pakkana mína, já ég viðurkenni alveg að þegar ég veit að ég er að fá pakka sem ég hef enga hugmynd um hvað er í þá hlakkar mig mikið til, sérstaklega að opna pakkana frá dótturinni sem var víst alveg með á hreinu hvað ég vildi og eins eiginmaðurinn og þau rúlluðu þessu upp það er alveg á hreinu.
Svo voru pakkarnir teknir upp í rólegheitum og byrjað var á Nóa og Erro, Erro var ánægður með sinn pakka og nagaði hann frameftir kvöldi og var þar að leiðandi til friðs, þó var hann aðeins að hjálpa Mirrunni með sína pakka, hélt víst að hann þyrfti þess.  Ha ha ha bara krúttlegur.
En allir voru ánægðir með sína pakka og mikið glaðir.  Reyndar spurning hvort það séu einhver skilaboð að baki því að Ástrós Mirra fékk náttföt frá Klöru systur og fjölskyldu og hún fékk náttbuxur frá Konna bróður og fjölskyldu (reyndar fylgdi með íslenskur lakkrís okkur foreldrunum til mikillar ánægju því Mirran borðar ekki lakkrís en við elskum hann) og hún fékk náttbuxur frá Adda mág og fjölskyldu ásamt headsetti fyrir símann, svo kom einn mjúkur pakki frá Snorra líka en það voru ekki náttbuxur heldur svona hringtreffill  svartur og mjög flottur og Mirran hafði á orði að þetta væri svo mikið í tísku núna.  Reyndar voru allar náttbuxurnar mjög ólíkar og allar ofboðslega flottar, það má ekki misskilja það, spurningin var bara hvort þessir ættingjar heima á Íslandi hefðu lesið eitthvað út úr blogginu mínu sem benti til þess að stúlkuna vantaði náttbuxur ha ha ha.  Jæja þá er best að telja upp meira, stúlkan fékk pening frá Konný frænku og Már afa í Eyjum.  Hún fékk bók frá Auði ömmu og Sigga afa, svo fékk hún frá hinum ömmum sínum gjafir sem við foreldrarnir keyptum hérna fyrir þær og við völdum norskt spil sem heitir iKnow frá Maddý ömmu og teikniblokk og teikniblýantasett frá Steinu ömmu.  Vel valið hjá okkur og stúlkan ánægð.  Svo fékk hún frá Kollu frænku armband og frá Sigrúnu ömmu nr. 5 fékk hún rosa flott box með naglalökkum í og naglaþjalir og fleira svo nú verður haldið áfram að safna nöglum.  Hún var einmitt búin að nefna naglalakk við mig fyrir jólin 🙂 .  Svo fékk hún frá Erro og Nóa hálsmen og eyrnalokka og svo annan pakka frá þeim með litlu spurningaspili á norsku.  Svo fékk hún geggjaða lopapeysu frá Margréti og Jóni og æðislegan bol frá Lovísu og fjölskyldu, svartur með kross að framan og ljóði að aftan.  Frá Sunnu vinkonu sinni fékk hún tvo boli, hvítan og svartan sem er akkúrat það sem hana vantaði.  Og að lokum fékk hún frá Saron vinkonu sinni naglalökk og frá Delinu fékk hún kertalukt.  Eins og þið sjáið þá var mikið af fallegum og flottum gjöfum sem stúlkan fékk og já ég gleymi að hún fékk hettubol frá okkur en það var búið að tala um það að gsm síminn sem hún fékk í afmælisgjöf væri líka jólagjöf svo þess vegna var enginn stór pakki frá okkur.  Ef ég er að gleyma einhverri gjöf þá plís ekki móðgast ég er bara orðin fimmtug og get ekki munað allt.

Jæja þá er komið að Þráins pökkum en hann fékk þessi flottu náttföt frá okkur mæðgum og svo fékk hann úr frá mér og 2 peysur frá dótturinni en hann fékk ekkert frá Erro og Nóa og er barasta skömm af því.  Svo fengum við hjónin pönnukökupönnu og spaða frá mömmu og Sigga, en sú gjöf er nú meira handa Þráni en mér eða sko hann nefnilega bakar pönnukökurnar en ég borða þær.  Svo keyptum við okkur stóra og flotta pönnu (aldrei átt svona flotta pönnu) sem er að hluta til frá ömmu Steinu og hluta til frá okkur og svo keyptum við okkur flottu hrútastytturnar sem eru á borðinu þarna fyrir aftan mig sem eru að hluta til frá ömmu Maddý og hluta til frá okkur.
Já og aftur að jólagjöfunum en ég fékk æðislega bók frá Klöru systur (við systurnar gefum alltaf í þríhyrning gjafir um hver jól, þannig að hver okkar kaupir eina gjöf og hver okkar fær eina gjöf og misjafnt frá hverri okkar gjöfin er) og ég fékk sem sagt frá Klöru núna og það var ljósmyndabók eftir Tom Ang og stór kafli í henni sem heitir the digital darkroom og ég elska þann kafla því ég þoli ekki hrokafullt fólk sem gerir lítið úr því að myndir séu unnar í tölvu en eru í raun ekki að skilja að myndvinnsla í tölvu í dag er bara sama og myrkraherbergið í gamla daga, alveg jafn listrænt og alveg jafn mikil hugmyndavinna sem liggur að baki.  Málið er að þeir sem hæst hrópa mér finnst myndirnar bara flottastar eins og þær koma beint úr myndavélinni eru líklega fólk sem kann ekki myndvinnslu og er að láta myndavélina sína vinna þá vinnu sem við hin erum að gera í tölvunni því þegar þú tekur mynd í jpg þá ertu að láta myndavélina sjá um að framkalla myndina og setja skerpu, liti og það allt á myndina en ég tek myndir í raw geri það sjálf í myndvinnslunni, ég ákveð hvort myndin sé með grænum blæ en ekki myndavélin enda er ég ljósmyndarinn.
Og já fleiri gjafir fékk ég nú enda mikil pakkakelling og ég vil bara óvænta pakka og fékk þá nokkra núna, til dæmis fékk ég öðruvísi pakka frá Wise og ég elska gjafirnar frá þeim sérstaklega núna þar sem ég fékk ekki eins og allir hinir því það var matarkarfa í jólagöf og erfitt að senda hana til mín svo ég fékk bókina hennar Yrsu og það er svo mikill draumur að fá íslenska bók að lesa og svo kom með diskurinn hennar Emiliönu Torrini.  Sem sagt frábær gjöf og fékk í góðan jarðveg.  Já og hvað fékk ég meira, jú jú enn og aftur snilldargjöf frá Margréti vinkonu en það er kaffibolli sem er eins og myndavélalinsa útlítandi og er ég búin að drekka úr honum kaffi síðan í gær og svo fékk ég þessa geggjuðu rafmagnsmjólkurkönnu sem skúmmar mjólkina frá eiginmanninum og ég elska svoleiðis kaffi. Þannig að nú er ég með hinn fullkomna kaffibolla með skúmmaðri mjólk í 🙂  nammi namm.

Og svo toppaði þessi elska jólin mín með því að gefa mér inniskó sem eru með gæru að innan og akkúrat það sem mig vantaði.  Og snilldin ein er að þeir eru með svona barnagúmmípunktum undir svo ég detti ekki í stiganum en ég gerði það núna um daginn þegar ég var að þvælast um á ullarsokkunum eins og ég geri alltaf og hrundi hérna niður stigann.  Svo var ég spurð hvort ég hefði ekki meitt mig en nei ég hélt nú ekki, alla vega ekkert sem ég fann ég fyrir en svo sá ég afturendann á mér í spegli og var ekki gamla með þennan líka stóra svarta marblett yfir alveg aðra mjöðmina og þá fattaði ég líka af hverju ég svar illa fyrir verkjum í mjöðminni og ég sem hélt að biluðu hnéin væru komin uppí mjöðm en þarna kom þá skýringin, svo nú ætti ég að standa í hlýjar lapppirnar.
Jæja svo fékk ég litla ljóðabók frá Erro og Nóa valin af dótturinni og svo kom pakkinn frá henni sem ég beið auðvitað spenntust eftir því hún var víst ekki í neinum vandræðum með að kaupa handa mér og vitiði hvað ég fékk þennan líka undurfallega kristals (nei líklega gler en eins og kristall) kökudisk og þetta er svo vel valið.  Ég er alsæl með dótturina þessi jólin því hún valdi gjafirnar okkar alveg sjálf og við fengum ekki að hafa nein áhrif á hana.
Svo toppaði Konni bróðir kvöldið með því að skypast til okkar og ætlum við að gera þetta oftar þe. kjafta saman við 2 og Konni og Drífa, ég er búin að heyra í Konna nokkrum sinnum á árinu en ekki í Drífu og ég fann það alveg þegar ég heyrði í þeim að ég var virkilega farin að sakna þessa – vildi auðvitað alveg sitja hjá þeim en skypið er alveg að koma sterkt inn þegar fjarlægðin er svona mikil en næst vil ég sjá þau líka í mynd.
Vonandi hittum við nokkra ættingja á skype í dag áður en við förum í íslenskt jólaboð hjá Margréti og Jóni þar sem við ætlum að hittast 4 fjölskyldur.
Svo þangað til næst, ykkar jólastelpa
ps. ég er að gleyma einni gjöfinni en það er lítil spakmælabók á norsku sem ég fékk frá Erro og Nóa og mér finnst svo yndislegt að hafa svona bækur á skrifborðinu mínu og taka upp og lesa eitt og eitt spakmæli eins og þetta:
De fleste mennesker opplever kjærlighet uten å tenke over at det er noe bemerkelsesverdig ved det.  (Boris Pasternak)

 

28.12.2013 09:27
og þá eru jólin hálfnuð eða svo…
og við hér í hrikalega góðum gír í rigningunni og rokinu.  Þráum snjó í smá tíma og svo má fara að vora en það verður auðvitað ekkert þannig.
Við erum búin að hafa það mjög gott, fórum í jólaboð til Margrétar og Jóns á jóladag og hittum þar Lovísu og Frank og börn og Fjólu, Róbert og börn svo það var margmennt og gaman.  Börnin voru að hittast í fyrsta sinn þe. þessi litlu Natalie og Robert og Sandra og náðu svo vel saman.  Eitthvað eru krakkar mikið að sækja í Mirruna þetta haustið því þau hamast á henni og leika við hana með látum og hún virðist hafa gaman af því.
Svo kom annar í jólum og þá loksins virtist vera að birta til og við hjónin drifum okkur í bíltúr með Erro, skildum svefnpurrkurnar eftir heima.  Við heyrðum nefnilega í jólaboðinu af stað sem gaman væri að skoða og mynda og ég er svo heppin að Þráni finnst gaman í bíltúrum og ég nýt góðs af því.  Við fórum í Kvinesdal og þar uppað hóteli sem heitir Hótel Útsýni og er það svo sannarlega réttnefni.  Þeir fóru víst eitthvað illa út úr kreppunni á Íslandi, höfðu fjárfest í íslenskum bönkum og því er þetta hótel núna í eigu bankanna og vonandi bara ná þeir að reka það með sæmd.
Við erum ákveðin í því að koma þangað aftur að sumri og jafnvel gista eina nótt á þessu hóteli og þá verðum við bara að segjast vera frá Mandal svo þeir verði almennilegir við okkur.  Nei djók, líklega enginn sem er að hugsa um kreppuna þarna núna.
Svo tókum við smá aukarúnt á leiðinni heim og fórum í Vigeland / Lindesnes (ég veit aldrei hvar annað endar og hitt byrjar) og þar fengum við geggjaða birtu og ég tók nokkrar myndir af yndislegum stað, væri líka til að fá mér sumarhús þar í eina helgi.
Ég gleymi alveg að segja frá því að fyrir utan þetta flotta nýbyggða hótel Útsýni er þetta magnaða hús að grotna niður.  Vá þetta er svo fallegur byggingarstíll og sjáið tröppurnar uppað húsinu?  Algjört æði og ég væri til í að kaupa svona hús, bara á öðrum stað.

En þetta var annar í jólum bíltúrinn og svo þegar komið var heim var farið aðeins að kúra sér og lesa bókina sem ég fékk í jólagjöf og síðan að útbúa tartaletturnar fyrir okkur en það er yfirleitt á annan í jólum eða nýjársdag hjá okkur tartalettur með afgöngum í.  Nammi namm, þær voru vel lukkaðar í þetta skiptið.
Svo kom þriðji í jólum og þá átti að fara í hjólatúr en …………….. það rigndi bara og rigndi í gær svo það eina sem ég gerði annað en að kúrast og lesa var að fara út og versla fyrir Sandefjord ferðina og áramótin og nú er allt klárt fyrir næstu helgi og áramótin.
Svo í dag er bara enn einn kósídagurinn og vitiði ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek mér svona frí alla dagana milli jóla og nýárs án þess að vera í burtu að heiman og ég er að elska þetta.  Endalausir náttfatadagar og kósíheit.
En í dag 28. desember á elsku mamma afmæli og hún er nú orðin 73 ára gömul, skrítið að mamma sé að eldast svona, mér finnst ég alltaf sama stelpan og mér finnst mamma ekkert svo gömul heldur, hún hefur bara verið svo mikill sjúklingur og það er svo erfitt.
Svona sé ég mömmu fyrir mér þegar ég hugsa um hana en þarna er hún líklega yngri en ég er í dag svo eitthvað er það skringilegt.

Jæja í dag verður kannski gerð tilraun að fara í hjólatúr, alla vega engin rigning núna og svo á morgun eldsnemma verður skotist uppí Sandefjord, já já ég veit að Þráni finnst það enginn skottúr en við verðum komin fyrir hádegi svo það er bara fínt.  Þetta verður einnar nætur gaman og svo aftur heim og þá að huga að áramótunum og kalkúninum sem við ætlum að elda í fyrsta sinn.
Svo elskurnar mínar farið varlega um áramótin, þangað til næst ykkar Kristín Jóna

Skrifað af Kristínu Jónu

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.