Sumarfrí 2013

Dagur 1
Vöknuðum eldsnemma eins og vant er og gerðum okkur klár í ferðalagið.  Erro er búinn að vera mjög skrítinn þessa helgi og hefur líklega fundið eitthvað á sér, þó ég vit að það væsi nú ekki um hann hjá Edda og Begga.  En hann er búinn að væla óvenjulega mikið um helgina og vafra mikið um og vera skrítinn.  Hann ætlaði líka ekkert að skilja við okkur þegar við fórum með hann til Edda, en svo fór hann inn og allt var í góðu.
Nói var græjaður til að vera einn heima og hann fær heimsókn frá Kristínu Jack annan hvern dag þar til við komum heim, ég hef mun meiri áhyggjur af honum en Erro.  Pínu eins og að vera í fangelsi hjá honum þar sem hann kemst ekkert út.
En jæja við vorum auðvitað tilbúin miklu fyrr en við þurftu og komum til Edda eitthvað fyrir klukkan ellefu og svo fórum við í Kristianssand en ég hafði ætlað að kíkja í HM fyrir Silju og athuga með vörur sem voru uppseldar á netinu en þær voru líka löngu búnar í búðinni.  En sumir græddu á þessu stoppi eða sem sagt Mirran mín, því hún endaði með að dobbla út úr okkur 3 boli en hún er bolasjúklingur þessi stúlka og á alltaf fullt af bolum en ekki svo margar buxur.
Jæja við röltum um í Kristianssand í brjálæðislega góðu veðri 22 stiga hita og sól og vorum hreinlega að kafna úr hita.  Skoðuðum í búðir og sátum á bekk við kirkjuna og nutum lífsins eða samt ekki því okkur var svo heitt og Mirran komin með höfuðverk sem er mjög algengt hjá henni í sól.
Svo við skelltum okkur bara í bílinn niður á bryggu klukkutíma áður en við þurftum að vera mætt.  Sátum og köfnuðum í bílnum og biðum eftir að komast um borð í Fjördline sem fór með okkur til Hirsthals í Danmörku.  Jæja sú ferð var bara fín eins og alltaf og þó hann hreyfist þessi dallur þá finn ég ekki fyrir sjóveiki ef sit kjurr í þessum líka fínu flugvélasætum sem þeir eru með þar.
Jæja við komum svo í land í Danmörku og ætluðum að finna búð að versla í en ungfrú Geirþrúður Pálína Sigurðardóttir var alls ekki að fatta það að hún væri komin til Danmerkur og vildi bara vísa okkur á Rema 1000 á Marnavegen við hliðina á þar sem við búum.  Við slökktum og kveiktum og rúntuðum um bæinn sem virtist ekki vera með neina matvörubúð en nóg af pöbbum og krám.  En svo skyndilega hrökk hún Geirþrúður í gang og áttaði sig á hvar við vorum og vísaði okkur á Danska Rema1000 og Nettó og við völdum nú bara Netto uppá tilbreytinguna og keyptum okkur brauð og smotterí til að hafa um borð í Norrænu.
Jæja þá var allt klárt að finna hótelið sem við vorum búin að bóka okkur á og gekk það bara fínt og þetta er sko fínasta hótel og alveg niðrá bryggju þar sem skipin leggja að.  Við erum með stórt hjónarúm og tvær kojur í herberginu, klósett og sturtu og utangengt í krúttlegan garð.
Jæja við komum okkur fyrir og fórum svo að finna okkur veitingarstað.  Já þá kom það í ljós að Ástrós Mirra vill bara labba inná næsta stað á meðan móðir hennar vill rölta um allt hverfið og sjá hvað er í boði, og varð smá ósamræmi þarna á milli okkar eða já já næstum því argaþras.  En við enduðum nánast aftur til bara á upphafstað og fórum þar inn að borða og fengum geggjaðan mat og heyrðum íslensku á næsta borði en það fólk sagði það mjög algengt á mánudögum því Norræna fer á þriðjudögum til íslands.
Frábær matur og já Þráinn og Ástrós Mirra pöntuðu sér kók en ég einn öl og að sjáfsögðu var bjórinn settur fyrir framan Þráin en ekki mig þegar komið var með drykkina á borðið.   Týpískt.
Og nú erum við komin uppá hótel aftur og liggjum öll uppí rúmi og Ástrós Mirra horfir á teiknimynd, Þráinn dormar og ég blogga í word því við erum ekki með net hérna eða ætlum alla vega ekki að kaupa það.
Kósí kvöld framundan, vöknum snemma á morgun og sturtum okkur og förum svo í morgunmat.
Engin mynd tekin í dag nema ein á símann hans Þráins til að sýna okkur í Kristianssand.
Þangað til á morgun,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí 2013 – Dagur 2
Vöknuðum klukkan 7 og fórum í sturtu og morgunmat.  Sváfum öll mjög vel á Motel Nordsöen og morgunmaturinn var bara ágætur alla vega hægt að fá ristað brauð og rúnstykki og súrmjólk ofl.
Ákváðum að fara bara snemma af stað í Norrænu sem betur fer því það var sko komin löng röð þegar við komum þangað, vorum sem sagt í biðröð í 2, 5 tíma sem var auðvitað talsvert mikið en allt í lagi samt.  Svo þegar röðin okkar fór að hreyfast þá vorum við Ástrós Mirra beðnar að fara gangandi um borð með töskurnar því það er svo þröngt í bílageymslunni.  Við gerðum það fundum klefann okkar sem er fínasti klefi með 4 rúmum og klósetti og sturtu, sjónvarpi og fataskáp.  Aldeilis flott þó það hafi vantað ísskápinn.
Við byrjuðum á að koma okkur fyrir og finna Þráin og fórum svo og skoðuðum skipið.  Hér eru margir veitingarstaðir, spilasalir, verslanir, bíó, heitir pottar, sundlaug og sauna og svo segir fólk að hér sé engin afþreying.  Fyrir nú utan það að feðginin spiluðu meðan ég las bók, sátum og horfðum á fólkið sem er svo allskonar og gaman að stúdera og fylgjast með.  Við fórum í sund og sauna og kúrðum okkur í klefanum okkar og skelltum okkur svo á nýjustu Die hard myndina með Bruce Willis í aðalhlutverki.
Nokkrum sinnum yfir daginn var ég mikið að undrast það að skipið hreinlega haggaðist ekki og hvað ég hefði nú verið að hafa fyrir því að senda Þráin út í apótek heima að kaupa sjóveikistöflur.  Það væri nú þvílíkur óþarfi á svona snekkju. Áttum sem sagt góðan og þægilegan ferðadag.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna einhversstaðar á milli noregs og færeyja.

Sumarfrí 2013 – dagur 3
Eitthvað hefur nú breyst frá í gær.  Djö…. skipið hristist og veltur eins Herjólfur og ég er að drepast í hausnum eftir að liggja á kodda sem fór allur í hnúta þegar legið var á honum.  Ég laumast til að sækja mér verkjalyf og ó mæ god finn fyrir sjóveiki, eins gott að skríða aftur í koju og bíða svo eftir að Þráinn vakni.  Klukkan er orðin þrjú þegar ég er að skrifa þetta og ég er enn í koju, búin að prófa að fara í sturtu og var alltaf alveg að missa jafnvægið og þeirri stund fegnust þegar ég komst aftur í kojuna, búin að éta ibúfen og sjóveikistöflur en fékk svo matarlystina rétt áðan og finn ekki fyrir sjóveiki meðan ég ligg hérna kjurr.  En þetta kjurr í kojulíf á sko ekki við minn mann sem getur ekki beðið eftir að fara upp og kíkja á mannlífið enda búinn að gera það nokkrum sinnum í allan dag meðan ég ligg hérna í kojunni að reyna að vera ekki sjóveik.  Færeyjar eru handan við hornið og ég skal geta farið upp og notið þess að sjá þegar við siglum inn þar.
Og já gott að Þráinn keypti sjóveikistöflur handa mér, hefði ekki viljað vera án þeirra hérna.
Jæja eftir að ég lá í koju til kl. 15.30 dreif ég mig á fætur og við fórum upp á efsta þilfar á barinn þar, og þá komst ég að því að við myndum ekki fá að fara í land í Færeyjum, þar yrði bara stoppað rétt til að aferma og ferma skipið aftur.  Neiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii  ég sem var búin að hlakka til að fá pásu frá rugginu á bátnum og geta skoðað mig aðeins um í Færeyjum.  Svo ég var vel viðbúin að hlaupa uppá dekk til að taka alla vega myndir þegar við kæmum að þeim.  En það var brjálæðislegt rok og ískal (okey, ein alveg búin að gleyma þessu og er bara á peysunni)  en ég tók nokkrar myndir af þessum fallega bæ og náði að standa upprétt en það var ekkert auðvelt.  Útlendingarnir voru klæddir í úlpur og húfur og ég veit ekki hvað og hvað en ég sem á að þekkja veðrið þarna á norðurslóðum er eins og bjáni á peysunni og sko utanyfirflíkurnar eru í bílnum og við megum ekki fara í hann á leiðinni.
En allt í góðu, ég tók nokkrar myndir af Færeyjum og við fórum svo og fengum okkur að borða á fína veitingarstaðnum hérna um borð en sko þeir eru alla vega 4 veitingarstaðirnir hérna svo úr nógu er að velja.  En ég sagði að það væri einmitt gott að borða meðan dallurinn væri kjurr eða þannig.
Heyrði utan að mér að þetta væru 3ja metra háar öldur svo líklega útskýrir það veltinginn.  Samt finnst Þráni ekki eðlilegt að svona stórt skip velti svona en ég veit ekki neitt um þessi mál.
Fengum okkur steik sem var bara fín og fórum svo yfir á barinn og fengum okkur og biðum eftir trúbatornum sem átti að spila.  Hann byrjaði að spila rúmlega níu og var mjög fínn, fallegur færeyskur strákur með fallega rödd sem kunni vel á gítar.  Ég söng að sjálfsögðu með og fékk smá augnaráð frá dótturinni af og til en það stoppar mig ekki af að syngja með.  Það er bara ég.
Sátum og nutum tónlistarinnar til tíu og þá fórum við Ástrós inní klefa að koma okkur í kúr en Þráinn ætlaði að sitja áfram. Hann kom þó óvenjulega snemma og sagði það eingöngu vegna hóps af frökkum sem komu þarna inná staðinn, settust nánast beint fyrir framan trúbatorinn og byrjuðu svo að tala saman og hækkuðu sig ef tónlistin hækkaði. Þráni langaði mikið að standa upp og biðja þau að þegja eða færa á annan stað sem ekki væri lifandi músík en ákvað bara að fara og vonar að einhver annar hafi látið þetta fólk heyra það hvers lags dónar þau eru.
Illa sofið í nótt fyrir veltingi, braki og brestum í skipinu en núna allir vaknaðir og að klára að pakka niður því við þurfum að afhenda klefana 2 tímum áður en við komum að Seyðisfirði.
Ísland við erum að koma.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna.

Sumarfrí 2013 – dagur 4
Við sváfum ekki vel síðustu nóttina í skipinu, ennþá veltingur og brak og brestir í öllu innanborðs.  En við vöknuðum kl. 7 fengum okkur morgunmat í klefanum okkar og fórum í sturtu og höfðum okkur til.  En það þarf að skila klefunum 2 tímum fyrir heimkomu en það er svo þernurnar geti skipt á rúmum og lagað til áður en næstu gestir koma.
Við vorum auðvitað klár fyrr og drifum okkur svo upp og fundum okkur sæti uppí sal og sátum þar og spjölluðum og höfðum kósí með kaffi og kakó þar til tími var til að koma sér í bílageymsluna.  Og Þráinn fór á undan og sá að við komumst alveg inní bílinn þar svo við gerðum það sem betur fer, því þar varð allt stopp í 1,5 tíma og ef ég hefði staðið á bryggjunni og beðið allan þennan tíma þá hefði mér ekki litist á blikuna.  En það var víst einhver bíll fyrir sem ekki fannst eigandinn að.  Það var auglýst eftir honum í kallkerfinu og ekkert gerðist.  Ég veit ekki hvort hann fannst eða hvort starfsmennirnir náðu að koma bílnum út á eigin spítur, en sá hefur nú fengið hiksta þegar hundruðir manna sátu fastir í bílageymslu bara út af honum.  Við vorum nú farin að halda að hann hefði kannski farið frá borði í Færeyjum og haldið að það mætti og ekki áttað sig á að það var ekki stoppað þar núna eins og oftast er gert.  Alla vega 1,5 tími og þá komumst við út í næstu röð sem var tollaröðin.  Hittum á Guðbjörn manninn hennar Stefaníu Ástvalds og hann spurði okkur bara hvaðan við kæmum og hvað við værum að gera osfrv.  Svo bendir hann okkur áfram og við túlkuðum það sem við mættum fara áfram en áttum okkur ekki á hvaða röð það er sem fer út úr tollinum og ég segi við Þráin, eltu bara græna bílinn á undan okkur.  Svo kemur þarna að annar tollvörður og Þráinn spyr hann hvert við eigum að fara og hann segir farðu á hlið 2 bara.  Ok, við gerum það og uppgötvum þá að við erum sko ekkert á leið út úr tollinum heldur í tollinn og hlið 2 haggaðist ekki en það fóru 4 bílar í gegnum hlið 1 á meðan.  Oh my God hvað við getum verið óheppin.  Eltu bara græna bílinn, já ok þetta var mér að kenna, ég veit það.  En svo opnuðu þeir hlið 1 og bentu okkur á að koma þar inn.  Mjög vinalegt fólk þar sem spurði spurninga og skoðuðu ökuskírteini og skráningarskírteini bílsins og kíktu í skottið og klöppuðu grænu töskunni en sáu ekki pottasettið sem við vorum að skutla fyrir Margréti eða trampolindúkinn hennar Önnu í Eyjum.  Enda sjálfsagt verið allt í lagi þó þeir hefðu séð það því það má koma með orðið miklu meira heim en áður fyrr.
Jæja þá erum við lögð af stað og ákváðum að koma við í sjoppunni á Seyðisfirði og fá okkur íslenskar pulsur og ég bað um það og þá brosti afgreiðslukonan og sagði já já og ég á líka prins polo í eftirrétt.  Sú hitti rétt á okkur enda kann hún þetta og veit hvað íslendingar biðja um þegar þeir koma með norrænu.
Jæja þá erum við lögð af stað í 10 tíma akstur á Þingvelli.  Búin að tala við Klöru systur og búin að tala við Konný systur og fá uppgefið hvað er lengi verið að keyra á Jökulsárlón en það var eini staðurinn sem við vorum ákveðin í að stoppa á.  Svo keyrum við frá Seyðisfirði og já sæll það er svo langt síðan ég hef komið austur að ég var alveg bit að við færum þaðan til Egilsstaða.  Hringdi í Konný og spurði og jú jú við vorum á réttri leið.  Frábært svo við keyrum í gegnum Egilsstaði og höldum áfram í ca. 15 mín.  þangað til ég sé skilti og það segir bara Vopnafjörður / Akureyri…………. ha við eigum ekkert að fara til Akureyrar, ég veit alveg að við endum í bænum en við ætluðum á jökulsárlón og ég sló inn jökulsaár…. eitthvað í Geirþrúði Pálínu Sigurðardóttur og hún fann einhvern jökulsárveg og hann fórum við en ….. þetta er eitthvað skrítið, hringi aftur í Konný (úff veit ekki hvernig ég færi af ef hún væri ekki til).  NEI  þið getið ekki verið á réttri leið fyrst þið sjáið bara skilti Akureyri.  Ok, Konný á fullu í Eyjum með vinnufélaga sinn sér til aðstoðar og við í bílnum að reyna við hana Geirþrúði og finna út hvert við værum að fara.
Já ok, við villtumst.
Klara systir segir að það sé ekki hægt að villast á Íslandi en ég sagði bara Klara mín, þetta erum við og þá sagði hún bara ok.  Ég veit.  Þið getið villst hvar sem er.
Svo kemur rétta spurningin frá Konný og svarið frá okkur, nei við keyrðum í gegnum Fellabæ.  Ok, þá eruð þið örugglega á rangri leið og þurfið að snúa við.  Hálftími þar í súginn, það á ekki af okkur að ganga í þessari bið og þessum töfum þennan daginn, bara af því að við ætluðum okkur að láta þetta ganga svo vel.
En það heita allt of margir staðir sömu nöfnum á Íslandi, þannig að Geirþrúður Pálína sem er norsk hún sér bara að það sé hægt að komast á alla staði tvær leiðir því hér er hringvegur og hún er greinilega ekkert að hugsa um það að ég ætlaði á Jökulsárlón.  Af hverju finnur hún ekki jökulsárlón?  Hvað er í gangi.  Við stoppum á bensínstöð kaupum nýjar rúðuþurrkur því það rigndi eins og andskotinn þarna fyrir austan og þurrkurnar okkar sem eru lítið notaðar í Noregi hafa verið orðnar fúnar.  Við spyrjum konuna á bensínstöðinni hvort leiðin sem Konný var búin að benda okkur á en var með malarvegi væri góð og hvaða leið væri að henni og hún sagði best fyrir okkur að fara einmitt þá leið og hún væri alveg fín þrátt fyrir malarvegi.  Svo við af stað aftur.
Förum þá leið sem okkur er bent á og ég get svo svarið það að Geirþrúður hélt hreinlega að við værum komin á tunglið, hún vissi bara ekkert hvar við vorum að keyra fyrr en við vorum komin talsvert inná malarveginn þá allt í einu veit hún að þetta sé vegur og gat svo lóðsað okkur þar eftir.  Ég held að Geirþrúður Pálína hafi verið valin handa okkur.  Ég held að það séu ekki öll svona tæki eins því við eigum auðvitað að hafa eina Geirþrúði sem er líka áttavillt því annað passar ekki þessari fjölskyldu.  En við keyptum Geirþrúði bara til að hjálpa okkur áttavillta fólkinu og svo fáum við eina sem er lítið skárri.
Jæja við náum nú að keyra slysalaust á Höfn í Hornafirði og förum í fyrsta sinn í gegnum göngin þar og nú erum við komin í góða veðrið sem við tókum með okkur frá Mandal.  Skreppum í búð og kaupum brauð og smjör og mjólk og kókópuffs til að eiga í bústaðnum fram á næsta dag.  Fórum einnig í vínbúðina og keyptum bjór og sumarhvítvínið mitt sem fæst ekki í Noregi.  Ég svipaðist eftir posanum til að setja kortið mitt i þarna en fann engan og mundi þá allt í einu………… já því var frestað því íslendingar gátu ekki sett pinnið á minnið.  Hálf skrítið eitthvað geta þeir það eftir hálft ár?  Jæja allt í lagi ég kvitta bara á miðann eins og mér ber að gera.
Næsti viðkomustaður er Jökulsárlón……………………. og ég er sko búin að hlakka svo til að koma þangað og varð ekki fyrir vonbrigðum.  Því sólin skein og himininn var svo fallegur og ja hérna þetta er fallegasti staður í heiminum held ég.
Jæja eftir stoppið hérna var brunað áfram því stefnan var tekin á að komast í Gamla fjósið hennar Heiðu Scheving til að fá okkur að borða og knúsa hana.  Náðum þangað kl. 20.40 en það lokar kl. 21 svo þetta passaði allt saman. Yndislegur staður og ég mæli með að þið stoppið þarna og fáið ykkur að borða þegar þið eigið leið fram hjá Skógum og því svæði.
Brunað í bústaðinn og komin þangað kl. 23.
Yndislegt að koma í litla kotið sitt og það var bara hlýtt þar og svo hreint og fínt að ég er alveg viss um að Klara systir hafi verið síðust út.  Hún er nefnilega eins og mamma.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí – Dagur 5
Heimsóknadagur í dag og innkaupaferð.  Yndislegt að vakna i bústaðnum og sólin skein og spáin er fín fyrir helgina en það á að vera Sumarhátíð á Þingvöllum á laugardaginn og um 30 manns sem koma og því eins gott að veðrið verði gott.
Byrjuðum á að fara með pottana hennar Margrétar til Melanie dóttur hennar og knúsa stelpurnar hennar allar og ég fékk að máta hana litlu Ariönu sem vildi nú ekkert vera að horfa á þessa bláókunnugu konu.
Fórum svo og keyptum blóm handa ömmu, pabba og mömmu og Þráinn þvoði bílinn sem var auðvitað skítugur eftir allan aksturinn daginn áður.
Fórum svo til elsku ömmu sem er alltaf jafn falleg og yndisleg.  Og hún er sko eins og ömmur eiga að vera, hættir ekki bjóða eitthvað fyrr en maður segir já takk.  Og það var raunin með okkur í gær.
Hittum einnig mömmu hjá ömmu og henni tókst að knúsa mig án þess að tárast.  Gott er að finna faðminn þeirra beggja kvennanna sem ólu mig upp og hjálpuðust að við það.
Fórum svo og hittum pabba uppá spítala en hann er enn að jafna sig eftir stóra aðgerð sem hann fór í um daginn sem framhald af krabbameinsmeðferð sem hann var í.  Sem sagt báðir foreldrar mínir eru með krabbamein og ég sem hélt að við værum svona sérstök fjölskylda að geta verið laus við þennan andskota.  En gott að hitta hann pabba kallinn sem er að standa sig rosalega vel og er mjög duglegur en honum leiðist að vera á spítalanum í Reykjavík og hefði viljað vera fluttur til Eyja en þau vilja ekki sleppa honum fyrr en öll líkamsstarfsemi verður komin í lag og hringrásin eðlileg og það er gott að vita af því en leiðinlegt að hann sem er búinn að vera svo jákvæður sé að verða leiður og dapur því þetta gengur ekki allt eins vel og hann hefði viljað.
Jæja svo var farið til mömmu og Sigga og þar hitti ég krónprinsinn Ríkharð eftir 8 mánuði og ég mátti sko taka hann í fangið og knúsa hann og Þráinn var að leika við hann með dýrunum og ég fékk svona yndistilfinningu bara að horfa á hann.  Fallegi yndislegi Ríkharður Davíð.
Ástrós Mirra og Kristófer smullu saman eins og alltaf og hún ákvað að fara með þeim heim í gær og koma svo bara með þeim á Sumarhátíðina á morgun.
Við hjónin fórum því að versla inn í Mosfellsbænum en því miður er það svoleiðis orðið með mig að ég er að missa skipulagningarhæfileikann og kaupi vitlaust og sumt er svo bara ekki til en ég á góða að sem redda því.
Við hjónin grilluðum lambakjöt og nutum þess að borða það kl. 22 í gærkvöldi og svo bara farið í háttinn eftir matinn enda ég orðin dauðþreytt.
Það spáir góðu veðri á morgun og ég hlakka svo til að hitta allt fólkið mitt, ætla að setja met í knúsum.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí 2013 – Dagur 6
Vöknuðum í sól og blíðu á Þingvöllum og í dag eigum við von á 35 manns á Gjábakka og því var góða veðrið algjört möst.
Við settum út stóla og borð og hengirúm og leikföng fyrir krakkana.  Opnuðum Mirrukotið svo þau gætu fundið sér eitthvað gamalt ryðgað dót að leika með eða þannig.
Uppúr hádegi fórum við að bíða eftir fólkinu og allt í einu hringir síminn og Þráinn svarar og þá segir rödd hinum megin, „Ekki segja orð, opnaðu bara hliðið“.  Ha.  Honum fannst þetta vera Maddý mamma sem var föst á Raufarhöfn og komst ekki í bæinn til að hitta okkur.  Hvað er í gangi?   Og viti menn birtist ekki sú gamla á jeppanum sínum hérna fyrir utan öllum að óvörum.  Fékk sér bara frí í vinnunni og keyrði suður 10 tíma til að hitta uppáhalds íslendingana sína sem búa í Noregi.  Ekkert smá gaman að hitta hana og að hún skyldi leggja þetta á sig var stórkostlegt.
Næstur birtist hér Magnús Sigurjónsson óvæntur líka, en hann var á leið í Biskupstungurnar og ég sá það á fésinu og sagði hann velkominn á Þingvöll.  Hrikalega gaman að hitta þennan skemmtilega strák sem býr annars í Danmörku en er að vinna á Grundarfirði í sumar.
Svo fóru aðrir gestir að týnast til okkar og var stanslaus gestagangur til kl. 8 um kvöldið þegar síðustu gestirnir fóru.
Sigrún og Kolla komu fyrstar á eftir Maddý og var mikið gott að sjá þær og knúsa enda langt síðan síðast.
Klara systir og bestustu strákarnir okkar (já sko við eigum þá saman ekki spurning um það) og Ríkharður Davíð fallegi prinsinn minn var alveg að leyfa mér að leika smá við sig.
Silja Ýr, Hansi, Kastíel og Loki mættu og úps, Kastíel var eitthvað smá feiminn við frænku sínu en það lagaðist.  Yndislegt að knúsa þau öll og ég sé þau sem betur fer aftur um næstu helgi, þrátt fyrir að Kastíel krulluprins hafi skotið mig með byssunni sinni.
Konný systir og Zorro komu svo líka og ekki hægt að segja annað en að Zorro og Loki hafi haft ofan af fyrir krökkunum þennan daginn, ótrúlegustu börn elskuðu greinilega að vera með hunda.
Snorri, Anna, Óskar Orri, Katla Dís og amma Steina mættu svo galvösk á svæðið og Anna ætti að búa úti hjá okkur því henni finnst kalt í íslensku sólinni.  En ég var svona líka, þar til ég hætti á hormónum þá leyfi ég bara hitaflössunum að koma og þá er þetta allt í lagi.  Katla Dís er nú bara flottasta stelpan í bænum núna búin að missa tvær tennur og með tvær fléttur finnst mér hún sko flottust og Óskar Orri Krullukóngur er alltaf svo fallegur, en hann er greinilega kominn á þann aldur að nenna ekkert að leyfa frænku sinni að mynda sig mikið.
Amma Steina færði mér í fimmtugsafmælisgjöf svo fallegt veski – leðurveski handgert, ekta Kristín.  Hún laug engu um það þegar hún sagði mér í símann að hún væri búin að sjá eitthvað veski sem hana langaði að gefa mér og það væri svo mikið ég.  Takk elsku Steina mín, þú hittir rétt á naglann þarna.
Ása Kolla, Gunni, Ynja Blær, Kara Lind og Þula Gló mættu svo stæl og það var svo gaman að sjá þau öll.  Þau færðu mér líka fimmtugsafmælisgjöf, pening sem ég mun nota uppí fallegu kápulopapeysuna sem mig langar einmitt svo í.  Yndislegt að hitta þau.  Kolla er búin að vera svo miklu nær mér eftir að ég flutti út og við tölum svo oft saman núna.  Við Þráinn höfum reyndar alltaf verið frekar nátengd þeim þó það hafi verið lítið samband síðustu árin.  Þá er það meira núna .
Addi, Anna Sif, Jón Andri og Sigrún Eva komu svo og Jón Andri var greinilega mikið spenntur að hitta frænda sinn og kom hér hlaupandi og kallandi á Þráin.  Svo krúttlegur og blíður drengur.  Sigrún Eva er náttúrulega bara drottningin svo falleg og blíð.
Síðust í boðið komu Konni, Drífa og Birta en sú síðastnefnda var að keppa á frjálsíþróttamóti og því komu þau í seinna fallinu.  Gott að sjá þau og hitta og já sko hún Birta mín er orðin stærri en ég, ég er sko bara ekkert sátt við að þessir krakkar stækki svona mikið.
Mamma og Siggi treystu sér ekki að koma í svona stórt boð, og unglingarnir…. ja sko ekki unglingar reyndar lengur heldur fullorðnu systkinabörnin komu ekki vegna vinnu eða annarra verkefna.  Saknaði þess þó aðeins að sjá ekki Alexander, Andra, Sunnevu og Söru.  En svona er þetta bara stundum.  Heyrðu og já auðvitað vantaði sjómanninn síkáta líka en hann Markús var úti á sjó en ég hitti hann vonandi eitthvað annað hvort í Eyjum eða á ættarmótinu um næstu helgi.
Þetta var yndislegur dagur og veðrið dásamlegt með smá vindi af og til en við lifðum það af og þetta gekk upp.  Hverjar voru líkurnar á því að fá svona veður ákveðið með mánaðarfyrirvara?  Ekki miklar á Íslandi því miður en það var einhver þarna sem kippti í spotta og hjálpaði okkur við þetta.
Elska ykkur öll – takk fyrir daginn, hlakka til að sjá ykkur aftur
Ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí 2013 – Dagur 7
Konný gisti hjá okkur því við ætluðum í ljósmyndatúr og myndatöku með henni Ásu Snæbjörnsdóttur fallegu frænku hans Þráins.  Hún ætlaði nú að fresta myndatökunni til mánudags því bílinn hennar var bilaður og mamma hennar ekki viðlátin að keyra henni.
Úff ég þoli illa breytt plön og spurði Þráin hvort hann myndi ekki bara sækja hana Ásu frænku svo við gætum haldið okkar plönum.  Að sjálfsögðu var hann til í það og svo komu þau bæði ásamt henni Bellu krúttsmáhundi.  Gaman að hitta Ásu aftur held hún hafi bara verið 15 ára þegar ég sá hana síðast og það var gott að kynnast Bellu því ég hef alltaf haldið að allir chihuahua hundar væru leiðinlegir gjammarar en það er hún Bella ekki.  Þetta er sko hörkunagli sem fór að reka kindur og stjórna öllu í sveitinni.
Við stelpurnar fórum niður að Miðfelli og mynduðum við hana Ásu þar í ýmsum aðstæðum, hrikalega gaman að mynda stelpu sem kann að pósa og er ófeimin og með slatta að leikhæfileikum til að ná að túlka það sem átti að túlka.
Við áttum frábæra 2 tíma saman þarna og ég hlakka svo til að skoða myndirnar af henni Ásu betur og fara að vinna þær þegar ég kem aftur heim og verð með almennilegan skjá ekki bara fartölvuskjáinn því honum treysti ég ekki alveg til að vera að sýna mér rétta liti og birtu í myndunum.
Um kl. Hálfþrjú fórum við Konný Nesjavallahringinn og hann tók okkur rúmlega 3 tíma.  Þetta er auðvitað það skemmtilegasta sem ég geri, það er að fara í ljósmyndatúra með Konný, það er bara svoleiðis.
Komum heim passlega til að aðstoða Þráin örlítið með matargerðina en í matinn var humar frá Markúsi og Konný og  Þráinn grillaða hann með hvítlaukssmjöri og ummmmmmmmmmmmm og nammmmmmmm, dásamlegt.
Höfðum það huggulegt um kvöldið en ég fór snemma að sofa alveg búin á því enda hafði ég vaknað kl. 5 um morguninn og ekki náð að sofna aftur því ég var að hugsa svo mikið.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí 2013 – Dagur 8
Mosó sund og hugrun og baldur og peysa,kentucky
Þessi dagur var lítið planaður og því tilvalið að plana eitthvað til að gera og það skemmtilegt. Ákváðum að fara bara í Mosfellssveitina og fara þar í sund og auðvitað er Geirþrúður Pálína notuð til að vísa veginn því við höfum aldrei farið í sund í Mosó.  Geirþrúður fann nú fljótt sundlaugina í Mosó og við brunum þangað.  Fallegt umhverfi og bara einmitt það sem okkur líkar svo vel, svona svolítið sveitó.  En þegar inn er komið finnst okkur nú pínu einkennilegt að það er enginn í sundi.  Sko Mosfellsbærinn er nú stærri en svo að þar sé enginn í sundi þó það sé mánudagur, því það eru sumarfrí í skólunum og auðvitað einhverjir krakkar alltaf í sundi, en nei ekki í Mosó, við vorum ein.
Mjög kósí og notarlegt að vera alein í sundi og njóta sín.
Fórum svo í Álafoss að skoða peysur/kápur handa mér í afmælisgjöf en ég var búin að fá pening frá Ásu Kollu og Gunna og Þráinn ætlaði að gefa mér restina uppí kápuna.  Fann fljótt eina sem var með svona eldfjallamunstri og koksgrá sem táknar þá öskuna.  Langaði í með grænu munstri en það hefur ekki verið framleitt svoleiðis svo ég tók þessa með orange enda sjálf farin að ganga svo mikið í appelsínugulum fötum.  Geggjuð peysukápa og ég ekkert smá ánægð með valið og gjöfina.
Skelltum okkur svo í heimsókn til Hugrúnar og Baldurs sem er allt of langt síðan við höfðum hittst.  Alltaf jafn gaman að koma þangað og tíminn flýgur allof hratt.
Keyptum okkur Kentucky og brunuðum uppí bústað til að hafa það kósí þá um kvöldið.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí 2013 – Dagur 9
Þriðjudagurinn er runninn upp.  Það er dagurinn sem átti að nota í alla praktísku hlutina, fara í bankann og ganga frá skuldbreytingu lána til að lækka afborganir.  Sækja kreditkortið sitt þar sem búið var að misnota það gamla í einhverja áskrift á stefnumótasíðu í Danmörku og ég samviskusamlega greiði svona áskriftir mánaðarlega í hálft ár áður en ég fatta það, en það er alltaf svo frábært að eiga viðskipta við Valitor því maður fær svona lagað bara endurgreitt og tilkynnir misnotkun á kortinu, sem þetta svo sannarlega er, því ég er svo langt frá því að hafa einhvern áhuga á stefnumótasíðum og sérstaklega ekki ef það kostar 10.000 isk. á mánuði.
Jæja bankamálin leyst og þá var dótturinni skutlað til besta vinar síns og frænda Kristófers Darra en hún ætlar að vera þar meðan við hjónin förum til Eyja að setja upp ljósmyndasýningu okkar systranna.  Svo fór ég niður í vinnu á tvo fundi og hitta vinnufélagana og var það mikið gaman, er að vinna með svo skemmtilegu fólki sem er gaman að hitta.
Svo var bara brunað út í landeyjahöfn til að komast til Eyja.  Á leiðinni sagði Þráinn að ef við fengjum ekki pláss fyrir bílinn þá færi hann ekki með þar sem hann myndi aldrei skilja bíl eftir þar eftir síðasta tjón sem við lentum í þar.  En það kostaði okkur yfir 300.000 krónur og engar tryggingar sem borga sandfokstjón.
Að bíða þarna var bara talsvert stress því Pollamótið var að byrja og allt brjálað að gera.  En að lokum bar það ávöxt að vera á fólksbíl því það var svo mikið af jeppum og stórum bílum að það vantaði bíla sem komust uppá lyftu svo okkur var vísað framfyrir þá sem áttu pantað.  NÆS.
Skemmtileg Herjólfsferð var stutt og þægileg í spjalli við Berg og Jóný.
Komin til Eyja eftir kl. 23 og lítið gert annað en að spjalla og koma sér fyrir.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí 2013 – Dagur 10
Jæja við erum komin til Eyja og í dag á að setja upp fyrstu Ljósmyndasýningu okkar systranna.  Málið var að Konný systur fannst svo leiðinlegt að við gerðum ekkert meira við myndirnar sem við skiluðum inn sem lokaverkefni í Listrænni ljósmyndunaráfanganum sem við tókum í vetur og því var þetta ákveðið.  Nota myndirnar áfram og bæta nokkrum við og setja upp smá sýningu.  Við vorum nú 3 að bauka við að hengja myndirnar upp en þegar safnvörðurinn bað um fleiri myndir og við Konný ákváðum að fara að sækja þær, þá kláraði Þráinn að setja upp allar myndirnar á no time þegar hann hafði frið.  Snillingur þessi strákur sem ég er gift.
Svo var bara dólað og nánast beðið eftir að fara aftur á sýninguna með kex og kaffi og taka á móti gestum en í millitíðinni fórum við Þráinn í kaffi í ráðhúsið og hittum þar gamla vinnufélaga og vini.  Það var ljúft og gaman.  Fórum svo yfir í safnahús og fengum að skoða myndir af Þráni litlum en stelpurnar á ljósmyndasafninu eru á fullu að skanna inn myndir úr safninu hans Óskars.
Ég spurði hvort ég mætti fá afrit af einni þeirra en var svarað að ég þyrfti samþykki eins manns og það er maðurinn minn svo ég sneri mér að honum og spurði, en hann þurfti nú að hugsa sig aðeins um áður en hann sagði já.  Yndisleg mynd af mömmu hans og honum nánast nýfæddum.
Svo kom Konný og gestir fóru að týnast inn, bara gaman að þessu.  Hefði ekki trúað því að þetta væri bara svona auðvelt þannig séð.
Síðan var farið á 900 Grillhús og Þráinn kynntur fyrir humarlokunni og svo bara vídeó og kósí heima hjá Konný um kvöldið.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí – Dagur 11
Jæja þá er bara að fara að taka sig til í næstu ferð og næsta áfangastað.  Morgunkaffi með Konný og síðan farið að skoða fyrirtækið hjá Grími kokki.  Frábært fyrirtæki sem þau Ásta María reka þarna og gaman að sjá eldmóðinn og ánægjuna og stoltið þegar þau tala um þetta.  Og ekki var verra að enda það á því að ræða það að þau komi kannski til Noregs og þá að sjálfsögðu í heimsókn til okkar.  Mættum í Herjólf á réttum tíma og fengum okkur hádegismat.
Síðan brunað í Garðabæinn að sækja Ástrós Mirru og stoppa smá stund og hitta fólkið sitt.  Svo þegar við erum að fara að koma okkur út í bíl, þá heyrist allt í einu í litlum manni að hann vilji fara með í sveitina og ……… vá nú fór hænkuhjartað að slá ótt og títt og hún horfði á systur sína með líklega hálfgerðum hundasvip og bænaraugum.  Má hann please!   Að sjálfsögðu var það samþykkt og ætlaði Klara svo bara að koma og sækja hann daginn eftir þegar við færum á ættarmótið.
Jeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii
Elska þennan dreng svo mikið.
Svo brunum við í bústað en komum auðvitað við í Krónunni í Moso og þar fá litlir menn að kaupa smá dót þegar þeir eru með hænku sinni.
Komum í bústaðinn og borðuðum frekar seint og svo fórum við Ríkharður bara saman uppí rúm að lesa.  Ljúft var að leggjast með honum og lesa 4 sögur áður en við fórum að sofa.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí – Dagur 12
Jæja við vöknum eldsnemma í bústaðnum og reynum að sofna aftur og það tókst og var sofið til rúmlega níu.  Þá var farið fram úr og kíkt í Ipadinn og sjónvarpið og svona eitthvað notarlegt til að gera að morgni í sveitinni þegar það er smá rigning úti.
Svo fengum við okkur morgunverð, ég og Ríkharður Davíð fórum í göngutúr með ruslið og kíktum við í bústað hjá öðru fólki sem ekki var heima og fengum að leika okkur þar í leiktækjum sem þau eru með úti, dráttarvél, strætó og bátur ásamt vegasalti.  Bara gaman saman.
En svo kom Klara uppúr hádegi að sækja prinsinn og við að leggja af stað á ættarmótið sem þessi ferð okkar var nú auðvitað stíluð inná.  Mikil tilhlökkun í gangi að sjá margt af fólkinu sínu í fyrsta sinn aftur eftir 5 ár.
Ég er svo ánægð með sjálfa mig að hafa átt frumkvæðið að því að vera með þessi ættarmót en þetta er ættin hennar Stínu ömmu sem við vorum alveg að missa öll tengsl við.  Nú eigum við fullt af vinum í þessum ættingjum okkar og þó ég sé ekki mikið fyrir margmenni í veislum þá elska ég ættarmót.
Ég verð nú að segja að ég var pínulítið abbó að vera ekki í stjórn núna og fá ekki að sitja og taka á móti öllum eins og síðast en ég sá til þess að ég geri það næst, ekki spurning.  Tróð mér nú samt þarna hjá Konný, Siggu og Sigurbjörgu frænkum mínum.
Svo fórum við niður í hús að koma okkur fyrir og þetta voru svo kósí hús með útisturtu.  Fór tvisvar í hana og ótrúlegt hvað ein sturta getur hitað upp svona útisvæði, því það var ekkert kalt og ekkert ónotalegt við hana, þvert á móti.
Jæja allir koma sér fyrir og fólk aðeins labbar á milli og minglar og svo fréttist að vertinn er að bjóða okkur að koma uppá hótel og koma í karaókí um kvöldið sem við þiggjum.
Mikið gaman að því og mikið af söngfólki í ættinnni enda systkinin öll söngelsk sem við komum af.
Þráinn fór í golfkeppni með ættingjum mínum og þeir hreinlega týndust.  Keppnin byrjaði kl. 20 og það er farið að nálgast miðnætti og ekkert til þeirra spurst.  Ég spurði Kristleif hvort hann hefði frétt eitthvað og sagði hann að sögur segðu að sést hefði til þeirra rétt við Selfoss.  Ha ha ha ha.  Við vorum sko á Hellishólum í Fljótshlíðinni.
Jæja karaókíið er búið og allir að týnast í bústaðina sína og enn bólar ekkert á þeim.  Je minn eini, og ekkert símasamband þvi við Ástrós Mirra vorum búnar að reyna að ná í Þráinn í nokkurn tíma.
Hann kom kl. 01.30 og alveg dauðuppgefinn.  Þá tóku þeir 18 holur en hefðu nú bara átt að taka 9 og láta það duga, koma svo í karaókí og fá einn bjór fyrir svefninn, en þeir misstu af því.  En þetta skilaði nú einhverju því Þráinn ekki farið í golf lengi en hann lenti ásamt sínum liðsmanni í 3ja sæti og fékk bikar. Jeiiiiiiiiiiiiiiiii
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí – Dagur 13
Jæja þá er ættarmótið okkar hafið og það var bara sofið til rúmlega 9 og dólað og sturtað sig í útisturtu til kl. 11 en þá áttu leikirnir að hefjast fyrir þá fullorðnu sem ekki eru búnir að gleyma hvernig á að leika sér og þá yngri sem alltaf eru að leika sér.  Oft er þetta skemmtilegasti parturinn af ættarmótunum því hinir sem eru að taka myndir (besta afsökun í heimi) og þeir sem eru eitthvað í ólagi með skrokkinn standa hjá og hittast og spjalla og yndislegt að horfa á hina taka þátt og leika sér af einlægni.
Eftir hádegi átti að vera frjáls tími í golf, veiði, sund og síðan ferð á Njáluslóðir sem var felld niður þar sem of stórt svæði þurfti að fara yfir svo við fórum bara á Hvolsvöll og skoðuðum handverksmarkað og þar úti var bílasýning á gömlum bílum og gömlum köllum sem áttu bílana.
Fórum síðan í Þorsteinslund sem Konný vissi af þarna í nágrenninu og það er yndislegur staður.  Væri til í að fara í þennan lund með nesti og teppi og bara slaka á við fossniðinn og kyrrðina.
Síðan var bara tekin smá „leggja sig“ og eitt hvítvínsglas meðan maður klæddi sig upp fyrir kvöldverðinn.  Nei auðvitað klæddi maður sig ekki upp, þetta er ættarmót og útilega en ég var í kjól enda er ég orðið alltaf í kjól svo það mátti ekki misskilja það er standart útileguklæðnaður hjá mér ef ég er í sumarhúsi en ekki tjaldi.
Fyrir kvöldmatinn voru allir ættbálkarnir kallaðir út í myndatöku og var hún svo skemmtileg og vel heppnuð sýnist mér.
Þríréttaður kvöldmatur, skemmtiatriði og gaman allt kvöldið en eins skrítið og það kann að virðast þá var eiginlega hápunkturinn þegar Sigga frænka í Ameríku kom á skypið og skjávarpann og talaði við okkur öll og sum aðeins meira persónulega.  Dásamlegt að heyra og sjá hana.
Síðan endaði kvöldið á varðeld sem staðurinn stóð fyrir og einhverjir Eyjamenn (veit alveg nafn á einum Kiddi Valgeirs) sáu um að spila og halda uppi skrítnu stuði fyrir mannskapinn.  Ég vil ekki svona sameiginlegt aftur, þegar það er ættarmót þá á ekki að blanda okkur við eitthvað annað fólk á tjaldstæðinu, við eigum að fá að vera í friði og kynnast.
Fórum svo í einn bústað og héldum að þar væri kannski setið frameftir en svo var ekki þannig að líklega hefur þetta stilltasta ættarmót sem ég hef farið á.  Þ.e. drykkjulega séð, sást varla vín á manni en það er nú kannski líka af því að við þurftum að kaupa vínið á barnum.  En mjög gaman og hlakka ég enn og aftur til næsta móts.  Þetta er svo skemmtilegt fólk enda systkinin fræg í Hafnarfirði fyrir glaðværð, söng og glens.
Þangað til næst,
Ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí – Dagur 14
Jæja vaknaði með smá þynnku enda drakk einum fleiri bjóra en ég hefði átt að gera, ég er orðin svo léleg drykkjumanneskja að það hálfa væri nóg.  Lá uppí fram til rúmlega tíu en þá var ég farin að jafna mig.  Síðan var bara tekið saman dót og matur sem var lítið borðað af og gengið frá bústaðnum.  Fórum uppí hús og stoppuðum þar smá stund til að geta kvatt sem flesta ættingja.  Verð að setja að það var svo gaman hvað það var vel mætt á þetta mót en samt var undir 50% mæting.  Við erum bara orðin svona mörg eða í kringum 400 manns.  Glæsilegur hópur sem Stína amma og hennar systkini eiga.  Trúi því að þau hafi nú öll verið að fylgjast með og tekið lagið með okkur.
Jæja búið að kveðja alla og kveðja Konný og Silju og Söru alveg og já já ég fór að grenja eins og venjulega.  Nú er það að byrja að ég sé að kveðja suma og mun ekki sjá þá fyrr en einhvern tíma seinna.  Það er það erfiðasta við þetta.  En fjarlægðin hefur líka kennt manni svolítið hverjir eru manni bestir.
Við keyrðum í blíðskaparveðri niður á Þingvelli og þar var gengið frá bústaðnum en hann bíður bara eftir að Konný fari að nota hann eitthvað í sumar.  En við höfum sagt systkinum okkar að þeim er óhætt að fá hann lánaðann gegn þrifum og þess háttar.  Bara betra ef einhver vill nota hann svo hann standi ekki bara auður.
Jæja þá var bara eftir að bruna í bæinn og koma sér fyrir hjá mömmu og Sigga en þar ætlum við að halda til þar til við förum heim.
Svo var matarboð hjá Adda og Önnu Sif fyrir okkur fjölskylduna.  En þegar ég heyrði í þeim, þá hafði matarboðið breyst í 70 ára afmæli hjá ömmu Steinu.  Þar kom fullt af fólki og Addi og Snorri grilluðu lambalæri og meðþví, mikið góður matur og reyndar mun betri en á ættarmótinu en það er önnur saga.
Ástrós Mirra fékk enn og aftur höfuðverk en hún á það svo til þegar hún er að keyra í sól og góðu veðri og hún var hálf ómöguleg í afmælinu.  Við mæðgur eigum það sameiginlegt að fúnkera ekki vel í margmenni en ég var þó aðeins að spjalla við gestina en hefði svo sannarlega viljað spjalla meira við Adda, Önnu Sif, Snorra, Önnu og svo afmælisbarnið sjálft en þegar svona veislur eru þá verður lítið úr því þar sem þau voru að stússa og sinna öllum gestunum.  Hefði virkilega viljað fá aukakvöld með þeim einum en tíminn vannst ekki til þess.  Vona bara að Snorri standi við það að koma fyrr en seinna hingað í heimsókn, þá fæ ég líklega nægan tíma að spjalla við þau.  Ég var einmitt að segja Klöru systir sem mér fannst við ekki sjá nógu mikið að það væri miklu betra ef hún kæmi til okkar því þá værum það bara við tvær en ekki samkeppni við alla ættina.
Já og það voru auðvitað tíðindi að þetta afmæli var útiveisla á Íslandi, það gerist nú ekki oft að það sé hægt en þetta var einn besti sumardagurinn í Reykjavík.
Takk fyrir mig þið öll, við komum auðvitað bara sem gestir í þetta afmæli á meðan Addi og Snorri og þeirra konur sáu um veisluna.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna
Sumarfrí – Dagur 15
Ég fékk smá tilfinningu fyrir því að við Þráinn værum að fara að gifta okkur því mamma setti okkur Ástrós Mirru saman í herbergi og Þráin í sérherbergi því ekki gátum við verið 3 saman í rúmi.  En við mæðgur höfðum það sko bara huggulegt saman en spurning hvort Þráinn hafi verið einmanna á kvöldin.  En alla vega vöknuðum hjá mömmu á mánudagsmorgninum og í dag skyldi gera fullt af praktískum hlutum og öðrum ópraktískari.  Fórum að heimsækja ömmu og sem betur fer drifum við okkur þarna strax því henni var svo rænt og farið með austur fyrir fjall í Hveragerði þar sem hún er í góðu yfirlæti núna hjá Heimi og Eyju.  Elsku amma mín, hún var nú frekar slöpp þegar við komum en mér fannst hún hressast og held að selskapur geri henni gott.  Við spjölluðum um margt og rifjuðum upp þegar litla stúlkan kom alltaf uppí hjá afa sínum og ömmu og sagði við afa að henni dreymdi svo illa.  Ég á ábyggilega eftir að heyra þetta þar til ég verð á sama aldri og amma ég er handviss um það en málið er bara gott fólk að maður á að leyfa börnunum að sofa uppí því það er svo gott.  Ég get alveg lokað augunum og fundið fyrir velllíðunartilfinningunni sem ég fékk þegar ég var komin ofan í holuna mína á milli.  Við erum bara með börnin okkar í nokkur ár og það er sko vel þess virði þó svefninn sé ekki alltaf uppá það besta.  Svo þurfa þau ekkert endilega að koma uppá á hverri nóttu en af og til er algjört möst.
Jæja við kíktum aðeins í geymsluna hjá ömmu og fundum svarta ofnpottinn okkar svo við getum farið að elda læri hér eins og venjulegt fólk og þrjú málverk tókum við ásamt gömlum kíki frá afa Þráins og gamalli filmuvél og eitthvað antik ljós sem Þráinn á.  Þetta settum við inná milla fatanna okkar í tösku og allt kom heilt með okkur heim.
Næst var að fara að finna þessa harðfiskverkun í Hafnarfirði sem okkur hafði einu sinni verið bent á en hún er svo falin að við finnum hana aldrei.  Hittum á mann við plan hjá fiskverkun og spurðum hann og hann svaraði að það væri sko besti og ódýrasti harðfiskurinn hjá Þóri og Yngva sem væru þarna niður í bátaskýli.  Humm Þóri, þú ert þó ekki að tala Þóri frænda minn segi ég og hann svarar þá já ég er að tala um hann Þóri í Borg og ég staðfesti að það sé nú frændi minn sem hefði átt að vera á ættarmóti með mér um helgina en hann hafi nú bara farið í ameríkuferð og brúðkaup en það vissi þessi maður alveg svo þeir greinilega þekkjast.  En ég vissi ekkert að Þórir frændi væri að gera harðfisk og selja svo næst verður keyptur harðfiskur af honum, ekki spurning.  En við fundum aldrei harðfiskverkunina og keyptum bara okkar fisk á uppsprengdu verði í Bónus.
Síðan var ákveðið að fara að Smáralindina og kaupa skó á Þráin og ég sem hafði fengið afmælisgjöf frá bræðrum Þráins og fjölskyldum kvöldinu áður hafði engin plön um neitt en ……………..   þarna voru þessir æðislegu appelsínugulu Eccoskór (já ég þekki ecco merkið þó ég þekki ekki mörg fatamerki) og þeir kostuðu bara 9.800 sem er nú ekki nema 476 nkr. og hér eru flestir skór á 900 nkr þannig að þetta voru fín kaup og svo tax free líka.  Ég veit um fólk sem virkilega mun halda að ég sé að ljúga þegar það fréttir að ég hafi keypt tvö pör af skóm á síðustu 2 mánuðum, en ég gerði það.  Aðrir eiturgrænir og hinir appelsínugulir.  Geggjað að ganga í einhverju öðru en svörtu.
Næst var brunað í Grafarvoginn og prinsessan sótt og farið svo í matarboð til Klöru og fjölskyldu.  Ég byrjaði á að dobbla Ríkharð hinn fagra út að leika við hænku sinn svo ég gæti nú tekið nokkrar myndir af honum og það tókst.  Náði nokkrum mjög góðum en öðrum ekki í fókus og hreyfðar þar sem það er ekkert sérstaklega gott að mynda krakka sem hoppa á milljón á trampolíni, en klár var drengurinn að hoppa og vá hvað þessir krakkar hafa mikla orku.
Klara systir var eitthvað í stressi yfir matnum sem reyndist svo góður að ég ætla að fá uppskriftina af þessum rétti svo hvernig er þá vel heppnaður matur hjá henni ef þessi var eitthvað mislukkaður?  Dobbluðum Klöru svo að skutlast með okkur svo við gætum skilið Dodda (Bíllinn okkar) á verkstæði en það átti að laga hjólalegu á honum áður en við myndum selja hann.
Svo bara í bólið snemma eins og háttur er á hjá mömmu. Held reyndar að allir séu að horfa á TV í rúminu eða lesa mun lengur.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Sumarfrí – Dagar 16 og 17
Jæja þriðjudagur og nú á bíllinn að vera verkstæði til hádegis en það breyttist eitthvað og þegar Þráinn hringdi kl. 14 var hann ekki farinn inn.  Við skruppum aftur í bankann þar sem það gleymdist að láta okkur skrifa undir 2 plögg þar og fengum bíómiða í staðinn sem við svo ákváðum að gefa Silju og Hansa þar sem við getum ekki notað þá og kíktum svo við á verkstæðinu og þá var bílinn enn ekki kominn inn svo öll plön seinnipartinn voru úti þar sem allt riðlaðist og við ætluðum að elda humar (já takk elsku Konný og Markús fyrir humarinn það var geggjað að fá nóg af honum í fríinu) handa mömmu og Sigga.
Þannig að plön um að hitta Caroline og Steinar urðu að engu og okkur sýndist að við myndum ekkert hittast þetta fríið, sem ég var pínu svekkt með.  En svo hringdu þeir frá verkstæðinu og sögðu að þegar bíllinn var kominn uppá lyftu þá sáu þeir að demparafestingarnar að aftan voru orðnar mjög lélegar og við myndum fá þetta í hausinn strax frá kaupanda ef við gerðum ekki við þær.  Svo auðvitað samþykktum við það enda ekkert eins leiðinlegt og að fá eitthvað svona í hausinn síðar meir.
Þegar við svo sóttum bílinn á miðvikudaginn þá höfðu þeir á Bíljöfri sett demparafestingarnar í kassa til að sýna okkur og …………. já sæll, þær voru orðnar að mylsnu svo við skiljum nú ekki hvernig stendur á því að það sást ekki í skoðun vikunni á undan.
En alla vega bíllinn komst á götuna á miðvikudaginn og við fórum með hann beint uppá bílasölu og skyldum hann þar eftir.  Úff ég sá að það var hunderfitt fyrir Þráin að skilja hann eftir.  Hann er svo ánægður með hann Dodda okkar og svo hræddur um að lenda aftur í svona Nissan Almera dæmi þar sem hann var aldrei ánægður með bílinn fyrir utan að hann var nýr.  Og ég held ég verði að skipta mér bara sem minnst af þessum bílakaupum þar sem ég nota bílinn minnst og er mest sama hvernig hann er, bara ekki drusla og hann þarf jú að vita hvað maður meinar þegar stigið er á bensíngjöfina svo við förum aldrei aftur í bíl með 1600 vél sem skilur ekki neitt.
Við elduðum humarinn handa okkur og mömmu og Sigga og ég held að mömmu hafi fundist pínu óþægilegt að ég væri að elda og hún ekkert að gera í eldhúsinu en sko það átti að vera svo að hún væri ekkert að gera en auðvitað var hún að fylgjast með brauðinu svo ég myndi ekki brenna það og ekki veitir af því ég er endalaust að gleyma mér í eldamennsku þessa dagana og held að þetta rósótta pils sé ekki að gera sig þegar kemur að eldamennsku.  Held maður þurfi að vera með meiri athygli í eldamennskunni en ég hef gert undanfarið.  Annars var ég líka búin að ákveða að hætta að þykja matur svona góður og hætta að hafa áhuga á mat til að ég myndi kannski bara grennast aftur.  Ég var alltaf svo grönn og fín þegar ég hafði engan áhuga á mat en fólk var endalaust að segja manni að maður ætti að njóta þess að vera með matarboð og borða góðan mat og fá sér rauðvín með en nú verður breyting þar á.  Ætla bara að borða þegar mig langar og drekka bara hvítvín og bjór með mat því rauðvín fer illa í magann á mér og ég verð bara veik.  Eitt enn sem styður það að ég sé kannski með ofnæmi fyrir berjum og því borði ég þau ekki.  Borða ekki ber, borða ekki rúsínur og verð veik af rauðvíni.  Enda miklu auðveldara að segja við fólk:  „Nei takk, ég er með ofnæmi“ í staðinn fyrir að segja „Nei takk mér finnst þetta vont“.
Jæja kósí þriðjudagur með humri og ís á eftir og með mömmu sem ég elska svo mikið og finnst svo erfitt að kveðja þegar ég fer út.
Eftir að við fórum með bílinn á bílasöluna á miðvikudeginum þá ákváðum við að vera til sýnis og bjóða uppá knús á Café Milano í Faxafeni þar sem þrír aðilar voru búnir að óska eftir að fá að sjá okkur.  Þetta var algjör snilld því ég auglýsti það á fésinu og við fengum óvæntar tvær heimsóknir á kaffihúsið.  En þarna komu sem sagt Peta og Guðni sem voru búin að tala um að þau langaði svo hitta okkur og það var æðislegt að sjá þau og við erum nú bara að plana að hittast í DK næsta sumar með stelpunum þeirra sem búa allar 3 þar.  Svo kom elsku besta Fífa mín sem mér þykir svo vænt um og elska að spjalla við hana því hún er svo raunsæ, klár og réttsýn.  Að ekki sé talað um húmorinn, því hún hló svo mikið þegar ég var að segja henni sögur sem ég taldi ekkert fyndnar fyrr en hún hló að þeim.
Óvænt birtist svo Caroline og svo Klara systir líka.  Geggjað gerum þetta næst líka.
Knús á ykkur öll sem við hittum á Íslandi þið vitið ekki hvað okkur fannst yndislegt að hitta ykkur öll.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.