24.01.2016
Já það tekur talsvert á dýrin okkar að flytja og alls ekki minna en á okkur mannfólkið, reyndar hlökkum við oftast til enda tókum við þessa ákvörðun en dýrin hafa ekkert með þessa ákvörðun að gera og því er þetta ekki svo auðvelt fyrir þau.
Síðustu dagar fyrir flutninga voru þeim líka erfiðir þar sem við að setja allt í kassa og allt út um allt og ekkert eins og það átti að vera. Svo kemur að flutingunum, þá eru greyin lokuð inni í einu herbergi og fá varla mat og drykk á meðan allt gengur í garð.
Það var gaman að fylgjast með þeim þegar allt var yfirstaðið og þau fengu að valsa um nýja húsið, sérstaklega kettirnir, því Erro var búinn að fá að koma tvisvar áður til að venja hann við. Og einhvern veginn virðist það skipta hunda minni máli hvar þeir eru bara að fólkið þeirra sé með þeim en kettir verða ómögulegir ef þeir þekkja ekki umhverfið sitt.
Í gær vorum við búin að halda Nóa og Nölu inni í viku og það gekk nú vonum framar en stundum þurfti 2 aðstoðarmenn við að hleypa Erro út að pissa því tvær kisur vildu ólmar fá að fara út líka en það var ekki í boði svona til að byrja með.
Svo í gær þá gúgglaði ég hvað þarf að halda kisunum sínum lengi inni eftir flutninga og fékk auðvitað mismunandi svör en ein sagði viku og önnur sagði ketti svo klára að þeir fyndu þetta út á no time svo við ákváðum að leyfa kónginum að fara á flakk og fylgdum með honum fara út, hann gekk mjög hægt og þefaði af öllu hér í kringum húsið okkar en hvarf svo fljótlega inní opnu geymsluna við bílskúrinn. Svo leið tíminn og ég fór oft út og kallaði á hann en enginn Nói, eftir nokkra klukkutíma fer okkur ekki að lítast á blikuna en varð samt ekki neitt brjálæðislega stressuð enda held ég Nói sé svo klár köttur að hann rati heim nema þegar hann lokast í einhverjum kjallara eða þannig og miðað við hvað hann þefaði mikið af öllu hér í kring þá var hann að læra á lyktina heima hjá sér. Svo þegar var farið að dimma þá var aðeins að koma uggur í mig en fyrir kvöldmat birtist kóngurinn öllum til mikillar gleði og ánægju, svangur og greinilega búinn að skanna allt hverfið og aumingjast kötturinn í húsinu við hliðina veit ekki á hverju von á, hann sem er búinn að fá að vaða svolítið um hérna í kring samkvæmt fyrri eiganda mun ekki fá það hér eftir, því kóngurinn er fluttur í hverfið.
Nala kíkti aðeins út í gær og var Erro settur í band til að passa hana þau voru úti í 10 mín þá var hún búin að fá nóg, hjúkk að hún fór ekki líka á flakk. Svo í morgun þegar við vöknuðum þá sat Nói við útidyrnar og Erro kom labbandi um leið og hann heyrði í mér og þeir tveir fóru út, Nói að fara að skoða hverfið betur og Erro að gera stykkin sín. Þegar ég svo hleypti Erro aftur inn, þá skaust Nala út og ég bara úff vonandi fer hún ekki langt. Erro var skellt í band aftur og beðinn að passa Nölu og eftir 10 mín kíkti ég á þau og þá kom Nala hlaupandi inn (gott hvað hún er mikil kuldaskræfa) og Erro auðvitað líka en kóngurinn er á eftirlitsferð um konungsríkið sitt, og þvílíkt ríki sem hann hefur eignast hérna.
Við þekkjum það öll hvernig litla Ísland virkar, allir þekkja alla og ef þú hittir nýja manneskju þá er líklegt að þið eigið sameiginlega vini og kunningja en hér í Noregi finnst okkur það meira absúrt en það er samt þannig, við fengum rafvirkja hér í gær til að gera við ljós á baðinu og fyrri eigandi pantaði hann og sendi til okkar svo þegar Þráinn og hann eru búin að spjalla smá saman þá kemur í ljós að systir rafvirkjans vinnur með Þráni og þau búa bæði hérna uppí sveit rétt innan við okkur. Litli Noregur er að rokka.
Fyrir þá sem fylgjast með hvað við erum dugleg að koma okkur fyrir, þá var gengið frá öllum fötum á sinn stað í gær, allir kassar teknir undan stiga og þeim fundnir réttir staðir, tekið uppúr sumum þeirra en aðrir fá bara að fara uppá háaloft eins og þeir eru, ég skil ekki allt þetta dót sem ég flutti með okkur og er og verður í kassa ábyggilega næstu 10 árin, mörgu fargaði ég, annað gaf ég eða seldi og þetta átti að vera okkur svo dýrmætt og mikilvægt að það var greitt undir það í flutningum en viti menn, ekki snert á svo ótrúlega mörgu en fyrir vikið verður háaloftið hjá okkur eins og alvöru háaloft sem gaman verður að gramsa í þegar fram líða stundir.
Þannig að 3 kassar eiga eftir að fara uppá loft, allar myndir komnar upp á vegg og þá er bara bílskúrinn eftir en þar ætlar húsbóndinn að stjórna harðri hendi svo ég veit ekki nema ég baki frekar köku en að blanda mér í það.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna sem er í sælu þessa dagana.