14.02.2016
Þegar maður heldur að lífið geti ekki orðið betra þá kemur það endalaust á óvart með eintómri gleði og hamingju. Þannig er það þessa dagana hjá okkur. Það er svo óskaplega margt sem veitir mér gleði þessa dagana og með gleðinni kemur þessi endalausa hamingja.
Nú hefur sólin skinið í 4 daga og það er eins og hjartað fyllist lífi og gleði og svo mikilli tilhlökkun. En það er ekki bara það, heldur allt hitt líka, þar sem ég sat úti í heita pottinum í garðinum heima í gærkvöldi þá hugsaði ég um það hvað við værum óskaplega heppin í lífinu.
Auðvitað hefur lífið ekkert alltaf verið dans á rósum en einhvern veginn man maður gleðistundirnar betur en þær sem ekki glöddu. En sem sagt þar sem ég sat í pottinum í gær fór ég að hugsa hvernig hlutirnir æxlast stundum. Þegar Þráinn missti vinnuna, þá varð ég hrædd, ég varð hrædd um framtíðina okkar og á þeim tímapunkti datt mér ekki í hug að við yrðum í dag þar sem við erum.
Það var ekki til í mínum kokkabókum að flytja til útlanda en Þráinn ætlaði sér sko ekki á atvinnuleysisbætur, hefur aldrei gert það og mun vonandi aldrei þurfa þess. Hann fór að skoða hvaða möguleikar væru í boði og sá fljótt að þú skreppur ekkert á sjóinn eins og í denn en þá datt upp í hendurnar á honum “vinna í noregi” og hann varð strax spenntur en ég ekki, þetta var of mikið fyrir mig en hann fór á stúfana og eftir fyrsta viðtalið þá var honum boðin vinna og átti að mæta eftir 4 daga, hann reyndar gat ekki mætt fyrr en eftir 5 daga en það gekk upp.
Þetta var bara sjómannslíf fyrir mig og Ástrós Mirru en ótrúlega mikið af nýjum og spennandi hlutum að gerast hjá Þráni þar sem hann var kominn í nýtt land, nýtt tungumál og nýjir siðir.
Við Ástrós Mirra heimsóttum hann í feb. (hann fór út í byrjun nóvember) og ég varð ástfangin af Mandal og ákvað að ég gæti hugsað mér að flytja þangað, ég sem hafði aldrei viljað búa annars staðar en á Íslandi var til í að flytja til annars lands en það var að mörgu leiti líka vegna þess að Þráinn var búinn að riðja brautina fyrir okkur og sá um þessa praktísku hluti hérna megin á þeim tíma.
Við flytjum út, ég held vinnunni því það var of mikið átak að skipta líka um vinnu og fyrir það er ég þeim í Wise alltaf þakklát, því flutningarnir hefðu verið erfiðari ef ég hefði þurft að leita mér að vinnu ótalandi á norsku og það allt.
Við flytjum talsvert eða 3svar á 3 árum. Ég ákvað að hætta hjá Wise og einbeita mér að ljósmynduninni en það hefur gengið hægt en það er víst bara þannig í noregi því þar hleypur fólk ekkert til ljósmyndara bara af því að það sá flottar myndir, sem sagt allt öðruvísi en á Íslandi þar sem allir hlaupa sama veginn og gera allt eins og hinir. En ég ætla samt að halda þessu áfram og vonandi kemur þetta hægt og sígandi.
En við erum búin að vera safna okkur pening og ætluðum alltaf að kaupa okkur hús þegar við ættum þessi 15% sem þarf til að kaupa í Noregi en það sem við fengum út úr íbúðinni (eða ævisparnaðurinn á Íslandi) var ekki nema ca. 5% en við náðum að safna okkur fyrir bíl á nokkrum mánuðum og vorum því alveg á því að þetta þyrfti ekki að taka svo langan tíma. Svo erum við komin ansi nálægt því að eiga nóg þegar vinnufélagi Þráins sem ætlaði að fara að selja húsið sitt fer að ganga á eftir honum og segja að hann ætti bara að kaupa það og ég var nú ekki að taka þessu vel, hélt hann væri eitthvað að fara að plata okkur þessi kall, selja okkur hús sem væri eitthvað að eða erfitt að selja því af hverju ætti hann annars að vera svona spenntur að selja akkúrat okkur? En hann hætti ekki og við ákváðum að fara í bítúr og sjá umhverfið í kringum húsið áður en við fengjum að fá að skoða það og það er ekkert annað en að þetta er svakalega flottur staður og ég verð spennt. Svo við fáum að skoða en við það missi ég smá spenning því eldhúsið er ljótt en efri hæðin æðisleg en svo skoðum við fjármálin okkar og sjáum að við ráðum ekki við þetta verð sem sett var á húsið og segjum eigandanum það og þá lækkaði hann sig bara þannig að við gætum þetta og við skoðum aftur og þá sé ég alveg mikla möguleika í þessu húsi og mest bara ef það væri málað þá væri það flott.
Við tölum við bankann okkar sem sagði nei við láni og aðalástæðan að ég væri ekki með fastar tekjur og okkur vantaði 50.000 nkr. uppá. Svo við ætlum bara að hætta við en fullt af fólki fór að ráðleggja okkur að tala við annan banka sem við og gerðum og ég ákvað að sækja um atvinnuleysisbætur til að hafa fastar tekjur og þessi banki sagði já, ég fékk aldrei bæturnar því ég fékk vinnu og við gerum tilboð eins og á Íslandi en þá er það aldrei svoleiðis hér, þú bara borgar í botn þegar þú færð afhent svo við fengum smá bakslag en nýji bankinn okkar sagði bara að við reddum þessu og nú eigum við þetta fína hús með geggjuðum garði með heitum potti og blakvelli ásamt undurfallegri náttúru sem er nánast í garðinum heima eins og ég kalla það.
Nágrannarnir eru farnir að bjóða okkur að kíkja á þau við varðeld sem þau kveikja á föstudögum til að kynnast fleirum í nágrenninu en við gátum það ekki þessa helgi því við vorum með plön þe. við Ástrós Mirra vorum með óvissukvöld fyrir Þráin þar sem bæði bóndadagurinn og afmælisdagurinn hans lentu inní miðjum flutningum og það heppnaðist vel. Frábært föstudagskvöld á efri hæðinni í bílskúrnum með taco og poker.
Gærdagurinn fór í snilldarmyndatöku með Julius og Astros Mirru en þemað var kærustupar og þau stóðu sig svo vel, pínu feimin þó eða aðallega Julius en Ástrós var alveg með’etta eins og sagt er enda vön mér og myndatökum. Við eigum nú eftir að endurtaka þetta þegar fer að hlýna en aumingja Julius var að krókna úr kulda og orðinn rauðnefjaður og því fluttum við okkur inn og kláruðum myndatökuna þar. Svo fór Astros Mirra að gista með vinkonunum sínum og við gamla settið í pottinn. Við höfðum ekki hugmynd um hvernig þetta kæmi út en þetta er viðarpottur sem er kynntur með spreki og það tók 5-6 tíma að ná vatninu í 39° í 7 stiga frosti en þegar við fórum á fætur í morgun var hann ennþá 24° þrátt fyrir 10 stiga frost í nótt svo þetta verður nú bara snilld þegar fer að hlýna aðeins. Reyndar er Þráinn búinn að bæta á við til kyndingar svo við getum farið aftur í pottinn í dag, verðum að nota hann fyrst hann er heitur og prófa að sitja í dagsbirtunni en það var yndislegt að sitja undir stjörnubjörtum himninum í gærkvöldi og njóta samverunnar og náttúrunnar.
Í dag er mæðradagurinn í Noregi (er hann ekki á Íslandi á sama tíma) og líka valentínusardagurinn en það er dagur sem við höfum ekki haldið uppá og ætlum ekki að byrja á því, við erum bara ekki svona væmin.
En ég bulla nú stundum svo mikið og er ekkert viss um að ég sé búin að halda mér við efnið en það gerir bara ekkert til, ég er full af gleði og hamingju og þakklát fyrir allt sem hefur bjátað á og ýtt okkur á þennan stað sem við erum á í dag.
Ég geng um húsið mitt og undrast það hvern dag að ég eigi svona flott hús á svona flottum stað og vitiði hvað ræstingarvinnan sem er svo frá frábær vinnutími 6-9 er ekkert leiðinleg, meira svona bara vinna eins og maður hefur nú oft unnið áður og svo stuttur vinnutími að ég get skúrað gólfin í skólanum og hlakkað til alls þess sem ég ætla að gera þegar ég kem heim og opna hjá Mirra Photography en þar er sko fullt af verkefnum í gangi þó ekki sé mikið af tekjum ennþá að koma í kassann.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna
og álfarnir á nesan biðja að heilsa