16.04.2016
Já gott fólk þá er komið að því að segja frá Íslandsferðinni okkar Ástrósar Mirru en við skelltum okkur með lestinni að nóttu til þann 22. mars sl. og vorum í 7 tíma ferðalagi með henni, sem var bara yndislegt, ekkert vesen á flugfreyjum að trufla endalaust og andrúmsloftið svo þægilegt og af því að þetta var næturlest þá fengum við teppi, kodda augnhlífar og eyrnatappa til að nota. Algjör snilld og á pakkanum stóð að okkur væri velkomið að taka þetta með okkur heim. Og auðvitað gerðum við það, þe. koddann og augnhlífarnar en við höfðum ekki pláss fyrir teppin. Við þurftum að skipta um lest í sentrum í Oslo og höfðum 9 mín á milli stöðva sem ég hélt að væri ansi tæpt en við fórum óvart að flugvallarlestinni sem var ekki okkar, við áttum að fara á annað platform en fundum það mjög fljótlega og höfðum auka 3 mín eða svo þannig að það gekk mjög vel.
Jæja eftir lestarferðina tók við flugvöllur og allt sem honum fylgir, stressið sem grípur mig alltaf á flugvöllum fer alltaf minnkandi með hverri ferðinni minni en þó örlar alltaf á því og sérstaklega á Íslandi, mér finnst andrúmsloftið betra hér í Noregi en kannski er þetta bara ég?
En við lentum rétt eftir hádegi á Íslandi og kom Silja Ýr að sækja okkur eins og hún er farin að gera alltaf, gott að eiga einhvern að svona nálægt flugvellinum og næst er ég að hugsa um að gista hjá henni og Hansa áður en ég fer aftur til Noregs til að þurfa ekki að láta keyra mér á ókristilegum tíma til baka.
Leiðin lá fyrst auðvitað beint til mömmu sem var auðvitað farin að bíða eftir stelpunum sínum og ég held að það hafi nú verið tilhlökkum hjá okkur öllum að eiga í vændum samverustundir og auðvitað átti hún eitthvað með kaffinu eins og hennar er von og vísa.
Ég var nú alveg þreytt eftir þetta ferðalag en ákvað samt að skjótast til ömmu með Ástrós Mirru svo það væri nú öruggt að hún sæi hana eitthvað þar sem ég vissi ekki alveg hvernig plönin hjá Mirrunni yrðu og myndu passa við mín og mínar heimsóknir. Þegar við komum (og með fullt af súkkulaði) þá var Hrafnhildur Linda og Thelma dóttir hennar líka að koma í heimsókn svo það voru fagnaðarfundir á ganginum þarna. Mummi frændi var líka þarna svo ég laumaði að honum einu súkkulaðistykki sem gladdi gamla manninn. Ég er samt aldrei viss hvort hann þekki mig, hann hefur haldið að ég sé mamma og svo hefur hann líka þekkt mig, svo ég læt sem hann þekki mig og geri ekkert veður þó hann geri það ekki. Við tölum þá bara í kross.
En við stelpurnar drógum nú ömmu inná svítuna hennar og áttum þar yndisstund saman og amma verður alltaf svo hissa þegar við komum og spyr hvernig komuði og hvenær. En ég verð nú að segja að það er líka svo gaman að hitta hana Thelmu dóttir Hrafnhildar og Patriks en hún er svo skemmtileg stelpa og mikill pælari og spjallari. Mér skilst að hún og Mummi frændi séu miklir vinir og kannski það sé Frakkland sem tengir þau saman.
Jæja dagur 2 var aftur heimsókn til ömmu á dagskránni og þar sem veðrið var svo gott dreif ég ömmu bara út í bíltúr og ég veit ekki hvert hún ætlaði að fara af gleði og hún marg spurði mig af hverju fólk væri ekki duglegra að bjóða henni í bíltúra hún sem hefði svo gaman að komast aðeins út. Hún tjáði mér líka að hún teldi að ef gamalt fólk eins og hún væri alltaf bara inni á elliheimilinu þá færi því bara aftur í hugsunum og getu og ég held hún amma mín sé alveg með þetta á hreinu og ég svo sannarlega sammála. Ég held nefnilega lika að það geri fólki svo gott að hafa eitthvað að hlakka til og eitthvað að stefna að en ekki bara bíða eftir að dagurinn líði.
Svo hitti ég Steinu tengdó sem var ljúft eins og alltaf. Steina mín var búin að vera eitthvað lasin hafði verið að fá eitthvað hjartaflökt og hélt hún væri svo slæm af kvíða sem kom svo í ljós seinna að var hluti af þessu hjartadæmi. Þe. hjartalæknirinn sagði að fólk ruglaði þessu oft við kvíða. Ég vil nú endilega að hún fari bara að drífa sig aftur í heimsókn til okkar, hlakka til að sýna henni nýja húsið.
Ég er enn að tala um dag 1 eftir flugferðina og hann endaði á því að ég fór og hitti fullt af ættingjum sem eru með mér í undirbúningsnefnd fyrir næsta ættarmót og það var ljúft að hitta þau öll og verður gaman að mæta á næsta ættarmót ef ég kemst.
Dagur 2 eftir flug var tekinn snemma því við 3 ég, mamma og Mirra skelltum okkur með Herjólfi til Eyja til að eyða páskunum saman með Konný og pabba og fjölskyldunni okkar sem enn býr þarna. Það spáði ekki góðu og að sjálfsögðu fór Herjólfur ekki frá Landeyjarhöfn heldur Þorlákshöfn en ég hafði pantað klefa svo við mamma skelltum okkur bara niður og kúrðum þar í brjáluðum sjó og vondu veðri. Ástrós Mirra sem sat uppi hefur aldrei verið sjóveik í Herjólfi en sagði nú þegar við komum að landi að hún hefði verið sjóveik þennan daginn og var smá slöpp eftir ferðina. Við kíktum líka á leiðið hans afa í Þorlákshöfninni en þar blés hann kröftuglega eins og við fengum að finna fyrir á sjónum.
Konný beið á bryggjunni og það verður að segjast eins og er að það er svo ljúft að stíga á land á eyjunni okkar fögru mér líður alltaf að ég sé komin heim. Hitti fólk í búðum sem knúsar mann og kyssir og já ég get verið mjög lengi að skjótast út í búð. En ljúft er þetta.
Við gerðum nú lítið annað en að njóta samverunnar á fimmtudaginn en föstudagurinn var leikhúsdagur þar sem við fórum 4 saman, ég Konný, mamma og Mirra að sjá Já, ráðherra eða heitir það Nei ráðherra? Æi ég man það ekki en ég get sagt ykkur það að á fyrstu 3 mín. þá skaust það í hugann minn að æi þetta væri svona farsi, fullt af hurðum og gluggum sem fólk kæmi inn og út með látum og ég ætlaði að fara að kvíða að þetta væri svona of fyndin della eða þannig. En ég get sko sagt ykkur það að þetta er svo drepfyndið stykki og við hlógum allan tímann og skemmtum okkur brjálæðislega vel.
Leikhúsið í Eyjum er líka orðið svo ofboðslega flott að ég hreinlega átti ekki til orð. Sama má segja um samkomuhús aldraða sem er í sama húsi og leikhúsið en uppi á efstu hæð, það er svakalega flott líka og pabbi var stoltur að sýna mér aðstöðuna hjá þeim.
Svona er svo aðstaðan uppi hjá eldri borgurum.
Eitt sem er svo skemmtilegt þarna hjá eldri borgurunum er að það eru ljóð eftir eyjaskáldin á gluggunum á salerninu svo maður getur setið og gert sitt og sungið á meðan, yndislegt og hverjum dytti það í hug nema eyjamönnum sem eru sísyngjandi.
En jæja í leikshúsinu hittum við Siggu og Gumma sem buðu okkur í heimsókn og bíltúr á gamla flotta bílnum þeirra á laugardeginum. En þessi bíll er til sölu ef einhver á nóg af peningum og áhuga.
Það kemur nú oft fyrir að það vanti fyrirsætur og þá redda ég bara málunum sjálf eins og í þetta sinn, mér fannst hreinlega verða að vera einhver kona við húddið þessum flotta bíl en inní bílnum eru mamma og Sigga og Gummi bílstjóri en Konný systir kom út og smellti myndinni af mér.
Á föstudagskvöldinu skelltum við okkur öll saman út að borða mamma, pabbi, Konný, ég og Ástrós Mirra. Fyrsta sinn sem við Konný förum út að borða með mömmu og pabba, það var virkilega notarlegt og fínn matur sem við fengum fyrir utan að þeir hefðu mátt spyrja hversu mikið steikt við vildum kjötið því það var of lítið eldað fyrir flesta, þó mér þætti það mjög gott þá fann ég líka að það var á mörkunum. Allt annað var mjög gott og þjónustan þægileg.
Við kíktum einnig í heimsókn til Elley og Svavars og það er alltaf jafn ljúft að koma til þeirra og eins áttum við góða stund hjá Óla Má og Þórhildi en ég hef ekki komið í heimsókn til þeirra beggja í ansi mörg ár. En alltaf eins og það sé svo stutt síðan síðast.
Svo fengum við einn góðan sólardag og að sjálfsögðu drifum við Konný okkur út í smá ljósmyndatúr og tókum göngutúr uppá hrauni og sýndi Konný mér flotta staði sem ég hafði ekki verið á áður.
Ég er alveg að elska þennan gula jakka minn því hann konstrastar svo vel á móti náttúrunni og ég var kölluð páskaunginn í þessari ferð.
Þegar við svo vöknum á mánudagsmorgninum þá blasir þetta við út um gluggann, aðeins annað veður en daginn áður þegar allir voru bara úti á peysunni.
Og við mamma fengum létt kvíðakast að þurfa að keyra þrengslin í svona veðri og færð. En skv. öllu og öllum þá virtist bara vera snjór í Eyjum og við reyndum að róa okkur og taka kúlið á þetta. Það var svo rétt að enginn snjór var í þrengslum en það var kannski svona rétt að byrja og daginn eftir var svo kominn snjór í Reykjavík. En þennan síðasta morgun sem við vorum að kósa okkur hjá Konný kíkti Guðrún Hauks í heimsókn en hana hef ég ekki séð í 4 ár eða svo. Það var ljúft að hitta hana og já ég kíkti nú líka í morgunkaffi til Guðrúnar Jóns og Hregga fyrr um páskana og átti góðan kaffibolla þar sem endaði á spjalli um að það muni koma í heimsókn einhvern daginn en ekki alveg vitað hvaða ár. En alltaf gott að vita að það eru plön í gangi.
Jæja yndisleg páskahelgi að baki og ég hafði svo gott af því að koma og vera í eyjum í nokkra daga og njóta.
Veit samt ekki alveg með að njóta þegar ég sat með kaffibollann minn í stofunni hjá Konný og prinsinn á heimilinu segist eiga stólinn sem ég sat í, settist bara samt og lét það svo eftir sér að prumpa í hárið í mér.
En þá var letihelgin búin og seinni partur af fríinu að hefjast en strax á þriðjudeginum sótti ég ömmu uppá Grund og bauð henni í kaffi til mömmu. Þar áttum við yndislega stund saman og já ég skutlaði Mirrunni til Birtu en þær ætluðu að þvælast saman þennan daginn meðan ég, mamma og amma sátum saman í stofunni hjá mömmu og sungum saman og áttum dýrmæta stund.
Því miður get ég ekki sett inn video hér af okkur (aðallega mér) að syngja en ég á það til, þið verðið bara að hitta mig til að fá að sjá það.
Eftir þessa heimsókn skutlaði ég ömmu heim og fór með Steinu til hjartalæknisins sem kom með þann úrskurð að hún væri með smá aukaæð sem olli öllu þessu veseni með hana og það þyrfti að brenna fyrir og hún kæmist bara að daginn eftir, sem var ótrúlega flott því eftir þá aðgerð varð hún eins og ný manneskja. Ég hef sjaldan séð svona mikinn mun á einni manneskju eftir svo litla aðgerð.
Þessi dagur endaði svo með heimsókn og matarboði hjá Kollu og Gunna í nýja húsinu þeirra. Æðislegt hús á flottum stað og ljúft að koma til þeirra. Og nú er mamma að spá í að skoða íbúðir fyrir aldraða í nágrenninu við Kollu (sem er í Seljahverfi nálægt mjóddinni) og þar býr líka ein æskuvinkona mömmu svo þessi staðsetning er algjör snilld og vona ég bara að það gangi upp.
Miðvikudagurinn var svolítið sérstakur hjá okkur mæðgum í 3 ættliði því við fórum saman til Óla Bogga vinar vors og blóma í skveringu.
Við vorum þess vegna aðalskvísurnar í leikhúsinu um kvöldið því já gott fólk við vorum aftur á leiðinni í leikhús og nú hjá Vesturporti í Þjóðleikhúsinu. Þar sáum við leikritið í hjarta Hróa Hattar sem er algjör snilld. Vel leikið, skemmtileg útfærsla, flott músík og að öllum leikurum ólöstuðum þá verð ég að segja að þegar hún Salka Sól birtist á sviðinu syngjandi þá birti bara yfir öllu því hún hefur svo ómótstæðilega útgeislun. Frábært kvöld og þarna fór Klara systir með okkur mömmu og Mirru svo það var næstum eins og í Eyjum nema við skiptum um systur.
Fimmtudagurinn hófst á því að ég sótti Konný út á flug og svo var ferðinni heitið í ljósmyndatúr með Konum og ljósmyndum á Vatnsleysuströndina. Við hittumst á bensínstöð í Hafnarfirði og komum okkur saman í bíla og áttum við yndislegan dag saman þrátt fyrir hávaðarok og ekki eins gott veður og við hefðum viljað en við skemmtum okkur allaf svo vel saman þessi hópur og tekur að sjálfsögðu fullt af myndum í leiðinni.
Svo má ég til að sýna ykkur mynd sem hún Sigrún Thorvardsdóttir tók af mér inní Flekkuvíkinni minni og er kannski dálítið táknræn fyrir pólitíkina sem er / var á Íslandi akkúrat þegar ég var þar. Vona að Sigrún gefi mér leyfi að skella myndinni hingað inn. 🙂
Og af því að ég er athyglisjúki ljósmyndarinn þá langar mig að fá leyfi frá Konný systur að birta hérna eina mynd sem hún tók af okkur stelpunum við þetta skemmtilega veggjakrot.
Eins og þið sjáið þá leiðist mér óskaplega (NOT) í svona ljósmyndatúrum, ha ha ha.
En meðan ég var í ljósmyndatúr fór Ástrós Mirra með ömmu Maddý í Kringluna en amma Maddý var óvænt í Reykjavíkinni vegna veikinda vinkonu sinnar og þarna fengu þær kózítíma saman sem endaði nú á að amman leyfði stelpunni að kaupa sér eitthvað af fötum og þá er ekki að spyrja að því að unglingsstúlkan var aldeilis ánægð með daginn.
Fimmtudagskvöldið endaði með kvöldmat og notarlegheitum á Fornastekk með fjölskyldunni hans Þráins og þar bræddi Katla Dís alveg hjartað í mér með því að gera kröfu að pabbi sinn færi með sig heim að skipta um föt fyrst hún væri að fara að hitta okkur Ástrós Mirru því hún vildi endilega vera í blússu sem við gáfum henni í jólagjöf og svo hvíslaði hún að mér að henni þætti fötin frá okkur alltaf svo flott. Það var ljúft að heyra því þegar maður býr svona langt í burtu þá hittist maður ekki svo oft að svona spjall komi upp. Svo reyndar komu þær báðar frænkurnar og sungu fyrir okkur líka, þvílíkt flott og auðvitað voru strákarnir líka ljúfir en þeir voru nú meira að leika sér saman en spá í fullorðna fólkið í þetta sinn. Annars hafa þeir sko átt sín móment líka. Unglingarnir náðu ekki saman sem er svekkjandi en það kemur vonandi einn daginn þegar þær verða eldri.
Föstudagurinn var frátekinn í fermingarundirbúning heima hjá Klöru en byrjaði á því að Kolla frænka kom og sótti okkur allar til mömmu og fór með okkur í hina frábæru verslun Kjólar og konfekt.
Þar voru ansi margir kjólar mátaðir og endaði það á að við 3 keyptum okkur allar nýja kjóla og Ástrós Mirra meira að segja 2 því Auður amma gaf henni pening til að kaupa sér kjól svo ömmurnar voru pínumikið að dekra stelpuna sem býr svo langt í burtu.
En já aftur að föstudagsundirbúningi fyrir fermingu Kristófers Darra en Kolla skutlaði okkur í Garðabæinn til að hjálpa Klöru við undirbúning og tók Kolla þátt í honum á fullu með okkur, mér fannst ég nú gera minnst en ég var þarna og gerði líklega eitthvað. Maddý kom í kaffi heim til Klöru svo hún gæti hitt okkur aftur eitthvað smá áður en hún færi aftur norður og svo komu Silja og Kastiel líka. Þannig að þetta var virkilega ljúfur dagur með fólkinu mínu.
Laugardagurinn rann upp og við vöknuðum snemma því ég var á skutlvaktinni eftir veitingum í veisluna sem átti að vera seinna um daginn en drengurinn fermdist kl. hálf ellefu. Mér finnst það frekar snemmt sem ég skil ekki þar sem ég er svo vön að vakna snemma en einhvern veginn finnst mér ekki passa að koma sér í sparifötin og mála sig svona eldsnemma.
Jæja ég skutlaði mömmu til Klöru og fór fyrstu túrana að sækja kökuna og vefjurnar sem áttu að vera á smáréttahlaðborðinu. Skaust svo í kirkjuna og var með myndavélina með mér til að festa á mynd ferminguna sjálfa.
Svo tók við smá hvíldartími og vekja unglinginn en svo að hjálpa til að undirbúa salinn og sækja svo fleiri veitingar fyrir Klöru.
Veislan var haldin í hesthúsi eða sko veislusal í reiðhöll fínn salur og alls ekki mikil hestalykt en þar sem fermingardrengurinn er hestastrákur þá ættum við öll að þola smá hestalykt.
Veislan fór vel fram og veitingarnar æðislegar, fermingarbarnið fallegt og góður félagsskapur ættingja og vina.
Við systur tókum nokkrar myndir í veislunni og eins af fjölskyldum Kristófers og er þetta mín uppáhaldsmynd úr þeirri seríu.
Svo var reyndar voða sæt mynd af feðgunum saman sem ég tók
Fín veisla hjá þessum yndisdreng en svo leið að kvöldi og viti menn heimferð daginn eftir. Eldsnemma eins og venjulega og var Klara systir sem sjálfsagt var dauðþreytt eftir fermingarveisluna og stússið sú sem bauðst til að keyra okkur úr á flugvöll.
Þetta var líklega í fyrsta sinn sem ég kveð fólkið mitt heima á Íslandi án þess að tárast eða klökkna og ég held að það sé vegna þess að mamma kemur eftir mánuð eða svo í heimsókn þannig að það verður stutt á milli núna og svo er maður kannski líka að venjast því að kveðja. Eða annars á maður ekki að segja bless ( þe. að kveðja) heldur einungis segja “sjáumst seinna”. Held það sé bara miklu léttara.
Ljúf íslandsferð að baki og góðar minningar.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna