Og þá byrjar geðveikin…

21.03.2016

Já ég kalla þetta geðveiki því ég ræð ekki við þetta og stjórna ekki sama hvað ég reyni.  Sko ég er að fara í ferðalag og alveg sama hversu róleg ég er gagnvart því þá nær geðveikin tökum á mér.  Ég til dæmis setti öll met í rólegheitum núna því ég tók ekki ferðatöskuna fram fyrr en í gær og er að fara af stað núna næstu nótt klukkan hálf tvö, þannig að taskan var tekin fram rúmum sólarhring fyrir brottför.

Vegabréfin voru sótt ofaní skúffu í gærkvöldi áður en ég fór að sofa, og ég er bara búin að kíkja einu sinni á gildistímann á þeim.  Eins og 23 mai 2016 breytist eitthvað á milli daga eða einhver geti komið og tippexað yfir gildisdaginn og breytt honum þannig að vegabréfin okkar væru útrunnin þegar við leggjum af stað.

Ég var reyndar svo róleg yfir þessu ferðalagi að ég gleymdi að panta innanlandsflugið hérna í Noregi, ég keypti nefnilega flug frá Osló til Íslands á tilboði í haust og ætlaði bara að kaupa hitt seinna til að dreifa kostnaðinum þar sem ég hafði engar fastar tekjur á þessum tíma en þar sem ég er vön að kaupa alltaf allt flug í einu þá klúðraði ég þessu big time og þegar ég svo fattaði þetta í síðustu viku þá kostaði innanlandsflugið allt allt allt of mikið svo við mæðgur erum að taka næturlest til Osló í nótt en ég kvíði því ekki neitt, einugis svefnleysinu.

Farseðilinn sem ég prentaði út í síðustu viku er ég bara búin að skoða svona 6 sinnum og marg hugsa 01.24 þann 22. mars er örugglega nóttin áður en venjulegt fólk vaknar þann 22. mars?  Hvernig getur það verið eitthvað annað?  Ég veit þetta allt en er samt að hugsa svona skrítnar hugsanir.  En akkúrat núna þegar ég skrifa þetta skoða ég útprentaða farseðla enn og aftur og uppgötva að ég er bara með útprentaðan flugfarseðil fyrir mig ekki fyrir Ástrós Mirru.  Humm af hverju prentaði ég hann ekki líka, ég fer á fullt í póstinn minn og leyta og sú hugsun að ég hafi gleymt að kaupa farseðil fyrir hana hvarflar að mér.  Ha!  Af hverju?  Ég er mjög skipulögð og reglusöm og gleymi aldrei (alla vega næstum aldrei) svona hlutum, af hverju held ég þá núna korter í ferðalag að ég gæti hafa gleymt þeim?

En ég ætla sko að prenta hennar seðil út á eftir, þó ég viti núna eftir ítarlega skoðun að hann hefur sama númer og minn og ég mun bóka okkur sjálf inn í sjálfsala á flugvellinum, svo hvaða máli skiptir það, en varinn er alltaf góður og best að hafa útprentað með nöfnum okkar beggja.

Pinnúmer á símkortinu ef það skyldi læsast, kótalyklar fyrir alla netbankana mína, snúrur fyrir síma, myndavél, ipad…. er það örugglega allt komið.  Nei ég er enn að nota það og það þykir mér óskaplega erfitt þe. að geta ekki pakkað því niður strax svo allt sé komið í töskuna.  En þið tókuð eftir því sem ég sagði í upphafi, ég hef lagast óskaplega mikið, ég er ekki lengur hrædd við flugvelli og ég hlakka pínu til að ferðast með lestinni þó það sé um nótt.  Já heyrðu eins gott að taka eitthvað með til að borða því það er dýrt að kaupa allan mat í lestinni og já svona heldur hausinn á mér áfram þrátt fyrir að vera ekki stressuð.

En það sem er verst er að ég svaf nánast ekkert í nótt og mun ekki sofa mikið næstu nótt í lestinni og í nótt hafði ég alla möguleika á að sofa vel, fór á góðum tíma í rúmið, var ein og hlýtt og notarlegt í herberginu mínu en nei nei, ég horfði og horfði á held ég 4 40 mín þætti á ipadinum og sofnaði svo en fannst ég nú alltaf vera að rumska og svo kom draumurinn, ég kannast svo við hann og hef dreymt hann svo oft.  Ég er að reyna að ná strætó á flugvöllinn, einhvern veginn er strætóstoppistöðin á stað sem minnir mig á Hverfisgötuna við Þjóðleikhúsið en samt svona eins og Hlemmur, þar sem vagnar koma úr öllum áttum í allar áttir og við vitum ekkert hvaða vagn við eigum að taka og erum ekki með neinn pening og ég er búin að týna skónum mínum.

Alveg róleg Kristín Jóna!  Eins og þetta sé að fara að gerast með þitt skipulag og þína passasemi en samt dreymir mig þetta og reyndar finnst mér ég ekki vera sofandi heldur svona meira eins og ég liggi ofan á svefninum.

En jæja dagurinn í dag er sá síðasti fyrir ferðalagið svo ég kíki kannski á pappírana einu sinni enn og fer yfir þetta allt áður en ég klára að setja ofan í töskuna sem ég veit að ég gleymi einhverju eins og td. hárbursta, snyrtidóti oþh.  ég hef farið til útlanda með engan hárbursta og það var pínu óþægilegt að fara á fætur á hóteli og geta ekki greitt sér áður en ég fór út en það er ekki vandamál í mínum huga.  Vandamálin snúast að farseðlum, peningum og vegabréfum, og öllu því sem tengist tollaeftirliti á flugvöllum.

En gott fólk ég er á leiðinni til Íslands og hlakka svo til að knúsa allt fólkið mitt (gleymi því aðeins í geðveikinni) hlakka líka mikið til að þurfa ekki elda mat á hverjum degi og hvað þá að hugsa og ákveða hvað er í matinn.  Láta einhverja aðra dekra við mig og gera bara það sem mér dettur í hug á hverjum degi.  Enginn hundur sem getur ekki andað án þess að vera alveg ofaní mér eða öðrum fjölskyldumeðlimum, engir kettir að slást og ekki að þurfa að vakna kl. 5 á morgnanna í tvær vikur.  Jeiiiiii

Hlakka til að koma til Íslands, en ég ætla samt að láta ykkur vita af því að ég verð í eyjum helminginn af tímanum og svo að hjálpa Klöru sys við fermingarundirbúning, ætla í leikhús bæði í Eyjum og Reykjavík og já bara gera fullt af hlutum sem ég hef ekki gert lengi þar sem mestur tíminn fer alltaf í að heimsækja fólk þegar ég kem.  Ekki það að mér leiðist það eitthvað en núna verður þetta eitthvað öðruvísi.

Mest hlakkar mig til að koma til Eyja og stoppa þar í nokkra daga, labba niður í bæ í sólinni (var ekki einhver búinn að lofa mér því að það yrði sól þar um páskana?) og bara njóta og anda að mér eyjunum.  Og já fyrirgefið taka myndir og taka myndir og taka myndir ha ha ha.

Þangað til næst, ykkar skrítna Kristin á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.