Fyrir rétt um mánuði síðan var mamma greind með lungnakrabba eftir mjög miklar rannsóknir og hún fékk mjög góða þjónustu þar sem allt var rannsakað á 3 dögum. En þá kom úrskurðurinn, lungnakrabbi og við gefum henni ekki langan tíma.
Bíddu hvað þýðir það? Og hvernig dettur lækni í hug að svara svona án þess að geta sagt meira. Er þetta 3 mánuðir eða 3 ár.
Jæja eftir fyrsta sjokkið þarna og flugmiða í veskið þá hafði læknirninn aftur samband og sagði að þeir væru búnir að rannsaka meinið betur og það hentaði fyrir einhverja nýja lyfjameðferð, sem þá myndi bæði lengja lífið og gefa henni betra líf. Þe. líflíkur og gæði myndu aukast. Þetta voru sko góðar fréttir en eftir sem áður er hún með lungnakrabba og heilsunni hefur farið mikið aftur síðustu daga og vikur. Þó er kannski munnurinn á henni að angra hana meira þessa dagana þar sem hún hefur alltaf verið með verki og vesen eftir að hún fékk falskar tennur og nú síðast kom í ljós að það hefur flísast uppú kjálkabeininu og það orsakað þessar endalausu sýkingar sem hún er með. Núna um daginn var gerð aðgerð á þessu og smellurnar sem eru settar til að halda tönnunum teknar og mamma mjög spennt að geta kannski svo sett uppí sig tennur án þess að finna til. En viti menn svo kemur hún til læknisins aftur og hann klárað sitt og skellir uppí hana tönnunum og það er eins og við manninn mælt mamma fær þennan svaka sársauka sting sem smeig um allan kroppinn og hreinlega bara öskraði. Læknirinn skildi ekkert hvað hefði gerst en mamma sagðist bara hafa fundið svona svakalega til. Þá segir tannlæknirinn (eða sérfræðingurinn eða hvaða titill svo sem þessi læknir hefur) að það hljóti bara að lagast og hún verði að prófa að vera með tennurnar en ennþá finnur hún mikið til og segist næstum bara ekki orka það að vera í þessu tannveseni meðan hún er í lyfjagjöf út af krabbameini og ég get nú vel skilið það. En skil hinsvegar ekki þetta 3ja ára basl og vesen með þessar helv. tennur sem hún keypti sér og hún búin að þurfa að kaupa nýjar þar sem fyrstu meiddu hana alltaf. En núna viðurkennir læknirinn að hafa gert einhver mistök sem orsökuðu þessar endalausu sýkingar.
En já ég held ég vilji bara frekar tannlausa mömmu en mömmu með stanslausan sársauka. Og ég held það sé nóg fyrir hana að berjast við krabbann og sleppa bara tönnunum.
Mamma fékk greininguna í lok október og þá var akkúrat ár síðan pabbi datt og lærbrotnaði sem endaði ansi illa þó það færi betur að lokum. En hann er svo duglegur og búinn að vera að byggja sig upp allt árið en þó fundið fyrir því að hann væri ekki nógu stöðugur og nýfarinn að ganga með staf. En hvað gerist þá í gær. Hann er að fara að heiman frá Konný og stendur fyrir neðan tröppurnar sem hann labbaði mjög hægt og varlega niður þegar hann fellur í jörðina og þar sem hann vildi nú hlífa dóttur sinni þá paufaðist hann útí bíl og keyrði heim en þá gat hann ekki komist út úr bílnum og hringdi í Konný. Elsku kallinn er búinn að brjóta hitt lærið á sér og verður líklega fluttur til Reykjavíkur í aðgerð í dag og vonandi samdægurs til baka aftur til Eyja.
Elsku mamma og pabbi, sem betur fer er ég að koma í nokkra daga til Ísland til að knúsa ykkur og faðma.
Ég skrifa þetta blogg bara fyrir mig til að muna tímasetningar og fleira.
Ykkar Kristín Jóna