18 ára afmæliskakan

Ég bakaði í gærkvöldi alveg geggjaða köku í tilefni þess að í dag er hún Ástrós Mirra 18 ára gömul.  Hún verður í skólanum í dag, fagnar með vinkonum í hádeginu og kærastanum í kvöld svo við tókum forskot á sæluna í gærkvöldi og fengum þessa geggjuðu köku rétt fyrir svefninn.

1,5 bollar hveiti (1 bolli = 2,4 dl)

1 bollar sykur

2 egg

1 bolli  mjólk (súrmjólk ef til er)

1/2 bolli bragðdauf olía

2,5 msk kakó

1 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

2 tsk vanillusykur

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í smurt bökunarform og bakið við 180°C í 30 – 35 mínútur. Það er gott ráð að stinga hníf í kökuna eftir 25 mínútur og ef hnífurinn kemur hreinn upp úr er kakan klár en annars þarf hún lengri tíma. Ofnar eru auðvitað eins misjafnir eins og þeir eru margir.

 

Það er mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg áður en hún er skreytt með kreminu.

Vanillu Frosting

3 eggjahvítur

2  dl sykur

2 tsk vanillusykur

Aðferð: Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til froða fer að myndast. Færið skálina, setjið yfir sjóðandi vatn og hrærið þar til blandan byrjar að þykkna og hitna. Takið þá skálina frá vatninu og hrærið áfram í hrærivélinni, bætið vanillu saman við á því stigi. Hrærið áfram þar til kremið kólnar og verður orðið stíft. (Alveg eins og með marengs, þið eigið að geta hvolft skálinni án þess að kremið hreyfist) Ég setti nokkra dropa af gulum matarlit út í kremið í lokin, mér finnst gel matarlitirnir frá Wilton lang bestir. Mæli með þeim.

 

Og það er alltaf sama sagan ég er svo æst að smakka að það gleymist að taka mynd áður en kakan er borðuð.

ps. uppskriftin er fengin hjá Laufey Kjaran en ég minnkaði hana og breytti smá.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.