ELSKU AMMA!
Einn mesti áhrifavaldur í lífi mínu, fyrirmynd og hetja lést í gær 101 árs að aldri, það er hún AMMA mín.
Amma var mesta skvísa sem ég hef kynnst, vildi alltaf vera fín og þegar við fórum saman í búðir þegar ég var orðið fullorðin þá leiddist henni ekki þegar hún keypti eitthvað í tískubúðunum en ég ekki neitt.
Ég er líka búin að hlægja mikið að því þegar hún sagði (eftir að hún fór á elliheimilið þá komin yfir 90 ára aldurinn) við mömmu: “Skelfing er að sjá allar þessar konur hérna sem eru hættar að nota brjóstahaldara”.
Og í sumar þegar ég hitti ömmu þá var hún orðin ansi veik og gat ekki tjáð sig en hún gat bent á rósótta kjólinn minn og brosað, þá vissi ég að hún var ánægð með hvernig ég var klædd.
Amma ól mig upp frá 5 ára aldri til 11 ára þegar foreldrar mínu skyldu. Þessi ár eru kannski árin sem hafa mótað mig sem mest, ég tel mig svo heppna að hafa fengið að alast upp hjá ömmu minni og afa en einnig að hafa alist upp hjá mömmu og pabba, fyrir vikið er ég ríkari.
Frá því ég man eftir mér var amma mín sjúklingur, hún var inn og út af spítulum þegar ég bjó hjá henni og einhvern veginn átti maður aldrei von á því að hún yrði 101 árs og hvað þá elsta manneskjan í ættinni minni og það langt um eldri en sá sem var næst elstur.
Þrautseig, þrjósk og kannski pínulítil frekja var hún amma mín en hún var líka einstaklega góð kona, frábær í eldhúsinu og svo var svo gaman að syngja með henni.
Ein af uppáhalds minningum mínum með ömmu og mömmu síðustu árin, er úr Gautavíkinni þar sem við sitjum 3 og syngjum saman.
Þvílík forréttindi eru það að hafa fengið að hafa hana ömmu hjá mér þar til ég er 57 ára.
Þvílík forréttindi eru það að hafa fengið að alast upp hjá henni.
Þvílík forréttindi eru það að kunna að baka flatkökur eins og amma.
Þvílík forréttindi eru það að heyra ömmu sína segja þegar hún smakkaði kjötsúpu hjá mér, namm þessi er bara næstum eins góð og mín.
Þvílík forréttindi eru það að hafa náð að læra rússahekl sem hún amma mín var svo flink með. Ekki það að ég sé flink við það en ég kann það þó.
Amma var svo myndarleg í höndunum en ég kannski ekki svo mikið enda ég svo miklu örari og meiri fjörkálfur að það leyfði svona dundur, það hefur frekar komið í seinni tíð en alla vega þegar ég bjó hjá afa og ömmu þá hjálpaði amma mér að sjálfsögðu alltaf með handavinnuna þar sem það var ekki hægt að sýna kennaranum mitt handverk og svo spurði hún alltaf þegar ég fékk einkunnirnar mínar: Hvað fékk ég svo í handavinnu? Og eitt árið var það eitthvað lægra en áður og ekki var hún amma sátt þá.
Amma var heldur ekki sátt við kórstjórann í Kársnesskóla þegar ég sótti um að komast í kórinn þar. Barn sem söng alla daga, allan daginn var hafnað, ég þótti ekki nógu góð og kannski pínulítið fölsk. Þvílíkur missir hjá þessum kór og eins gott að einhver stoppaði ömmu af að æða uppeftir og tala yfir hausamótunum á kórstjóranum eða kannski hefðum við átt að leyfa henni að fara, því hversu ömurlegt er það að hafna 7 ára barni að koma í kór.
Margar skemmtilegustu æskuminningarnar eru að vera með afa og ömmu í Flekkuvík eða í útilegum, þau voru dugleg við það í gamla daga og var synd þegar nýr eigandi að landinu í Flekkuvík lét þau taka bústaðinn sinn af landinu þar sem þau nutu þess svo að vera þar.
Eftir að ég eltist þá hafði ég alveg jafn gaman að koma í heimsókn til afa og ömmu og það jókst að sjálfsögðu eftir að ég flyt svo uppá fastalandið, ég kom að meðaltali 2svar í viku í heimsókn til þeirra og enn oftar eftir að Ástrós Mirra fæddist. Alltaf settist maður fyrst niður í eldhúsinu hjá ömmu enda alltaf eitthvað til með kaffinu. Vinnustaður ömmu var eldhúsið hennar enda var hún svo flink að baka og elda og alltaf gaman þegar maður var ungur að biðja hana um uppskriftir því það var bara soldið af þessu og dass af hinu og kannski örlítið svona líka og fyrir unga stúlku var þetta hin hreinasta kínverska en hvað gerist…. Unga stúlkan eldist og getur í dag ómögulega gert eitthvað í eldhúsinu eftir uppskrift og notar bara svolítið af þessu og dass af hinu eftir hendinni. Sjálfsagt hef ég lært eittvað af henni ömmu minni. Ég reyni að bæta mig í handavinnunni en lofa engu.
Elsku amma ég gæti ábyggilega skrifað smásögu eða bók um þig en þar sem tárin streyma svo mikið núna þá er ekki rétti tíminn í dag, kannski seinna.
Ég elska þig amma mín og á eftir að sakna mikið en heppin ég að eiga allar þessar minningar.
Þín Kristín