Árið er 2020, ég hannaði dagatal árið 2019 fyrir þetta ár og var þessi texti neðst á dagatalinu “The year when the magic happens”. Kannski rataðist mér satt orð á munn þarna, kannski ekki. Málið er að árið 2019 var mér mjög erfitt með veikindum mömmu og andláti hennar þannig að ég ætlaði mér að gera árið 2020 betra. En auðvitað varð það ekkert betra en heldur ekkert verra nema að því leiti að maður getur lítið ferðast og fáa hitt.
En svona var árið 2020 í stuttu máli.
Eins og síðustu ár var amma Steina hjá okkur um jól og áramót og síðan fylgdum við Ástrós henni til Oslo í byrjun janúar þar sem við eyddum 2 dögum saman, fórum út að borða og löbbuðum um Carl Johan, kíktum á kónginn og í búðir.
Þann 17. janúar á Þráinn afmæli og þetta árið skelltum við okkur á tónleika í Mandal og og gistum eina nótt á Mandal hotel sem er æðislegt hótel og geggjað að geta labbað bara niður á tónleikana án þess að fara út, þetta ætlum við að gera aftur seinna.
Þorrablót Íslendingafélagsins var haldið í byrjun febrúar og eins og síðustu ár, þá er ég á fullu í undirbúningi þess þar sem ég er formaður Íslendingafélagsins í Suður Noregi en þetta er síðasta árið mitt, því ég ætla að hætta á næsta ári og leyfa öðrum að komast að. Blótið var mjög skemmtilegt eins og alltaf og tókum við okkur nokkur saman og vorum á hóteli niðrí bæ, en það höfum við gert undanfarin ár sem er bara algjör snilld og gerir meira úr helginni en ella.
Natalie Ósk litla vinkona mín kom í vetrarfríinu sínu til mín og áttum við kósí tíma saman og fórum að sjálfsögðu út með myndavélarnar okkar.
Ástrós Mirra eignaðist nýjan kærasta hann Helge og þau fóru að búa saman. Þau bjuggu í Mosby í nokkra mánuði en fengu síðan leigða flotta nýja íbúð í Lund síðasta haust en þá einmitt byrjaði Ástrós Mirra í leikskólakennaranámi og er þessi íbúð í göngufæri frá skólanum. Hún unir sér vel í náminu og skötuhjúin eru hamingjusöm saman og líður mjög vel.
Covit 19 hellti sér yfir heimsbyggðina og var einkennilegt að sjá allt svona tómt í sentrum og hreinlega alls staðar. En það átti eftir að breytast. Úthald mannanna er ekki svo mikið þegar kemur að einangrun og heimaveru.
Við nýttum tímann og settum nýtt parket á alla neðri hæðina og kemur það rosalega vel út.
Svo tek ég þá ákvörðun að flytja stúdeóið hingað heim, þar sem Ástrós Mirra er flutt að heiman og því hennar herbergi laust sem gestaherbergi og gestaherbergið því laust og með sér inngangi og þetta er ein besta ákvörðun ársins og ég elska það að hafa stúdeóið heima og geta bara hoppað þangað inn á náttfötunum ef því ber að skipta.
Svo fór að vora og þá kom í ljós að enn eitt árið eftir flóðið mikla að Virago mótorhjólið hans Þráins var ekki komið í lag eins og hann er búinn að vera duglegur að laga það og enn og aftur getur ekki farið með vinum okkar í mótorhjólatúra svo ég seildist ofaní budduna mína og gaf eiginmanninum nýtt mótorhjól og þarna sannaðist það að sælla er að gefa en þiggja því þetta var gjöf sem gladdi og gleður enn og nú nýtur kallinn sín við að taka Virogo hjólið alveg í sundur og ætlar að setja saman aftur og gera algjörlega upp. Hann er ekki bifvélavirki eða mótorhjóla vélagaur eitthvað en er svo ótrúlega flinkur og duglegur að finna út úr hlutunum. Þetta er eins og með Willisjeppann sem við áttum og var dáldið mikið að bila og höfðum ekki efni á að setja alltaf á verkstæði svo hann varð bara að læra að gera við bílinn og það sama gerir hann núna og í dag er það mun auðveldara með allri tækninni sem við höfum og kennslu á netinu.
Með vorinu slaknaði á sóttvarnareglum og við skelltum okkur til Stavanger að hitta Önnu Svölu og Anders. Það var ljúf helgi og alltaf gaman hjá okkur saman og notarlegt. Mér skilst að tengdamamma kalli þá Þráin og Anders bræður þar sem það er eins og þeir hafi þekkst alla ævi og það er svo skondið þar sem ég kalla Önnu Svölu systur mína í Noregi.
Og með vorinu fara blómin að blómstra og við með, elskum að græja og gera garðinn klárann fyrir sumarið og við elskum húsið okkar og garðinn á sumrin.
En þá skyndilega veikist pabbi enn og aftur alvarlega og það alvarlega að honum var ekki hugað líf en ég næ að hoppa í fyrsta flug eftir lokun flugvallanna til Íslands og hefst þá selfie sumarið mitt mikla. En ég setti mér það takmark að taka selfie af mér með öllum þeim sem ég hitti, það byrjaði með því að ég hitti Þóri frænda sem kom eins og himnasending og sótti mig á Keflavíkurvöll og keyrði mér í vesturbæinn og svo bara á Selfoss daginn eftir. Ef þessi frændi minn er ekki mesta sjarmatröll ever þá veit ég ekki hvað.
Eins og oft áður, þá fór pabba að fara smá batnandi meðan ég var í Eyjum og ég hafði nú ætlað að stoppa eitthvað uppí landi en ákvað á síðustu stundu að eyða bara öllu þessu “fríi” í Eyjum og sé ekki eftir því enda átti ég rólega stund með mínum bestu þar.
Og í dag er hann mun betri og farinn að geta gert næstum allt sem hann þarf nema hann keyrir ekki lengur. Auðvitað er þetta Covit erfitt fyrir eldra fólkið sem eins og hann er vanur að fara á Elló að borða þarf að vera bara einn heima og borða þar aleinn. En þetta verður betra.
Hitti svo fullt af ættingjum og fyrrum vinnufélaga í Rkv áður en ég fór aftur út til Noregs og mun ég lifa á þessari ferð lengi. Maður finnur það hvað fólk er manni mikils virði og vinátta og frændgarður er sterkur.
En áður en ég fór til Íslands náði ég dásemdarfríi í Osló með Höddu vinkonu og svo kom Jónína Ara söngkona til okkar og við ferðuðumst svo saman til Stavanger og skoðuðum ýmislegt á leiðinni.
Í þetta skiptið var ekki ætlunin að stoppa bara í Stavanger heldur var ferðinni heitið til Bergen og Lerøy sem er eyjan hans Anders. Við fengum æðislegan laugardag en sunnudagurinn var normal Bergensdagur með rigningu og leiðindum.
Meðan við vorum í Bergen fékk ég þessa tilfinningu að hann Andres væri hreinlega “kongen av Bergen” og lofaði ég honum að ég skyldi semja um hann söng sem ég og gerði og flutti fyrir hann þegar hann og Anna Svala kíktu hingað suður til okkar í lok sumars.
Svo kom að því að ég ákvað að prófa kajak með manninum mínum og jeiiiiii það var svo gaman og ætla ég að halda þessu áfram næsta sumar og helst að kaupa mér minn eigin.
Við héldum nokkur sumarpartý með góðum vinum en aldrei mjög mörgum í einu.
Svo fórum við hjónin til Osló í kósíferð til Höddu og þaðan í sumarbústað í Lillehammer á einu flottasta skíðasvæði Noregs. Geggjaður bústaður sem hún Guðbjörg vinkona og Kristján maðurinn hennar eiga og voru svo yndisleg að lána okkur í nokkra daga.
Seinna kom svo Guðbjörg bara hingað suður í myndatöku hjá mér sem var geggjað skemmtilegt.
Þá var komið að því að halda uppá 50 ára afmæli Kollu vinkonu og var það gert með stæl. En áður en að því kom var ég búin að leggja hausinn aftur í bleyti og samdi leirburð um Kollu sem ég síðan flutti fyrir hana við undirleik Tomma eiginmanns Kollu á sjálfan afmælisdaginn.
Anna Svala og Anders komu svo til okkur og við höfðum keypt þetta líka flotta útiborð sem næstum má segja að sé fjárfesting ársins en við elskum þetta borð þar sem borðplatan er steypt í sement og með hólfi í miðjunni fyrir gas til að lýsa upp og hita í kringum borðið. Þegar maðurinn sem smíðar borðið spurði mig hvort Þráinn kæmi nokkuð einn að sækja það, sagði ég stolt nei þeir eru tveir en þá vissi ég ekki hvað borðið er þungt en það er 130 kg. Þeim tókst þó að setja það á kerru og flytja hingað en þá kom það vandamál upp að það vantaði fleiri hendur til að koma því úr kerrunni og á sinn stað. Fengum við svo nágranna og Önnu Svölu til að klára málið. 😉
Jæja þá hefst næsta verkefni hjá Þráni en það er að uppfæra bílskúrinn sem þýðir stækka hann, einangra hann og setja góða lýsingu ásamt hita og er það verkefni nýbúið og þetta alveg örugglega flottasti bílskúrinn í Øyslebø, því hérna í Noregi er bílskúrar sjaldan einangraðir og kynntir.
Jæja þá fara manni að berast fréttir um það að úlfur sé að þvælast um sveitirnar hérna og svo einn morguninn þegar ég kíki á netið sé ég bara myndir af úlfinum hérna uppi á brúnni minni. Mér fannst það nú alveg pínu spennó en líka scary þar sem ég er með 3 ketti og hund og maður veit jú aldrei.
Þráinn og Grímur rafvirki sem var honum þvílík hjálparhella í bílskúrsuppfærslunni fóru svo í guttaferð og sigldu niður ána á kajak og enduðu í garðinum hérna hjá mér þar sem ég var klár með kjöt á grillinu og öl á kantinum. Síðan löbbuðu þeir uppá fjall og gistu í hengirúmum utandyra.
Svo kom haustið með sínum fallegu litum en einnig byrjun á leiðindarveðri en ég var svo heppin að komast í Hestamyndatöku með stelpunum mínum en það eru auðvitað þær Ástrós Mirra og Helga Sjöfn mínar uppáhaldsfyrirsætur.
Svo fóru nokkrir dagar í haust við að hjálpa Ástrós Mirru og Helge að flytja og Ástrós Mirra hefur nám í háskólanum í Krs. Mér finnst alveg suma daga að það sé allt of langt á milli okkar en sjálfsagt er það kannski bara gott, því ég veit ég get verið “of mikið” stundum.
Elsku amma mín lést síðan á þessu hausti aðeins 101 árs að aldri en löngu orðin södd lífdaga en sárt var það að geta ekki kvatt og geta ekki fylgt henni síðasta spölinn og ég held ég sé ekkert að ýkja þegar ég segi að þetta sé erfiðasta jarðarför sem ég hef verið í, svo alein hérna úti og sjá fólkið mitt þarna í kirkjunni en það situr ekki einu sinni saman því það má ekki og ég get ekki knúsað neinn. En ég veit það var vel tekið á móti ömmu hinum megin og ég sé hana og mömmu saman að hekla og prjóna núna og brosa dáldið og hafa gaman.
Audda var kastað á haugana, það var nú smá eftirsjá eftir honum enda fyrsti og eini bílinn okkar sem við söfnuðum okkur pening fyrir og greiddum á borðið en hann var búinn að þjóna okkur vel og lá fyrir að þyrfti að gera svo mikið fyrir hann að það svaraði ekki kostnaði.
Svo var bakkað á Guðna og hann þurfi að fara í skveringu eftir það. Og það var nú hálfeinkennilegur árekstur, því að ég kem keyrandi úr Heddeland inn í Øyslebø og þegar ég er að koma í bæinn minn þá stoppar bílinn á undan mér bara si svona úti á miðri götu og ég sé ekki fram fyrir hann þar sem þetta var jepplingur og stoppa bara líka, held að þarna sé annað hvort fólk að þvælast á götunni en þó líklegra gæs eða eitthvað álíka en nei nei sé ég þá ekki bara þar sem kallinn fyrir framan fer að bakka og ég allt of svimasein næ ekki að skella í bakkgírinn en leggst á flautuna og öskra auðvitað líka.
Kallinn kom út og tók strax á sig sökina en sagðist ekki hafa séð mig en jú jú ég var þarna og var stopp bak við hann. Fengum rosalega fína þjónustu frá verkstæðinu sem tók að sér að gera við hann og er hann eins og nýr núna.
Haustið er búið að vera laaaangt með miklum rigningum og myrkri og ég get ekki beðið eftir því að daginn fari að lengja aftur.
Það er búið að rigna í 63 daga síðan 1. okt hérna í Marnardal, þetta er orðið gott, held ég hafi aldrei þráð jafn mikið frost og kulda og jafnvel snjó, allt annað en þetta ofboðslega myrkur og rigningu. Og ef það rignir ekki þá er þoka.
Til samanburðar rigndi í Bergen sem er þekkt fyrir að það rigni þar 300 daga á ári bara í 49 daga síðan 1. okt.
Við tókum svo laufabrauð um síðustu helgi, og var bara soldið erfitt að bjóða í það, þegar aðeins mega koma 5 manns í heimsókn en okkur tókst það og áttum yndisdag með Ástrós Mirru, Lovísu, Natalie og Fjólu.
En helgina áður komu Anna Svala og Anders og við héldum litlu jólin þar sem Anna Svala verður úti á olíuborpalli um jólin. Prófuðum norskan eftirrétt og lambalæri í aðalrétt með brúnuðum og öllu tilheyrandi. Síðan spilað actionary og mikil gleði og gaman.
Svo koma jólin ekki á morgun heldur hinn með kósítime með krökkunum okkar og þar á eftir róleg áramót, með einu nærvinapartýi og svo nýtt ár.
Ég gerði nýtt plakat núna og textinn þar undir er “It can’t get any worse” en nýja árið getur ekki orðið verra en þetta sem er að líða sem var samt ekki eins slæmt fyrir okkur sem búum hérna úti á landi og fundum minna fyrir því.
Við þekkjum engan hérna úti í Noregi sem hefur fengið covit svo vitað sé og einungis eina unglingstúlku á Íslandi. Þannig að við í okkar vinahóp og fjölskyldu erum heppin því þetta er sko ekkert grín.
Gleðileg jól kæru vinir og vandamenn og megi nýtt ár færa ykkur frið og hamingju og verða betra en það sem er að líða.
Ykkar Kristín Jóna (og Þráinn)
Gleðileg jólin til ykkar, skemmtileg lesning